13.04.2020 13:40

Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar í Neskaupstað.

Síldveiðiskip bíða löndunar við bryggju í Neskaupstað árið 1958-59. Þar má meðal annars sjá vélskipið Guðmund Þórðarson RE 70 og skipstjóri þar væntanlega Haraldur Ágústsson. Guðmundur var fyrsta íslenska fiskveiðiskipið sem notaði kraftblökkina með góðum árangri eftir smávægilegar lagfæringar. M.a. var settur nótakassi á bátadekkið. Kraftblökkin, þetta undratæki, var fundin upp af bandaríkjamanninum Mario Puretjc í samstarfi við fyrirtækið Marco of Seattle í Bandaríkjunum árið 1955 og var upphaflega ætlað til tunfiskveiða, þ.e. að draga netin um borð í skipin.
Vélskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 var smíðaður í Strusshamn, Asköy í Noregi árið 1957 fyrir Baldur Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. Stál, 209 brl. 320 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 15 október árið 1970, Ólafi R Sigurðssyni Ytri Njarðvík, Magnúsi Ásgeirssyni og Karli Helgasyni í Grindavík, sama nafn og númer. Skipið var endurmælt árið 1971, mældist þá 161 brl. Talið ónýtt og tekið af skrá 2 október árið 1979.


Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar við bryggju í Neskaupstað ásamt nokkrum öðrum skipum. Held að myndin sé tekin áður en kraftblökkin kom um borð í skipið. Nokkrir nótabátar liggja einnig við bryggjuna.    (C) Sigurður Guðmundsson.

                  Nýtt fiskiskip

Hinn 14. maí kom til Reykjavíkur nýtt fiskiskip, "Guðmundur Þórðarson". RE 70. Skipið er byggt úr stáli í Strusshamn, Asköy, Noregi 1957, en eigandi þess er Baldur Guðmundsson, útgerðarmaður í Reykjavík. Fer hér á eftir lýsing á skipinu. Stærð:
Lengd 31,85 m.,
breidd 6,85 m.,
dýpt 3,45 m.,
208 brúttólestir.
Aðalvél: Wickmann-diesel 320/400 ha.
Ganghraði í reynsluför 10.6 sjóm.
Hjálparvélar: Buck 40 ha. og 20 ha. 3 rafalar.
Vökvadrifnar vindur:
Þilfarsvinda,
línuvinda og ankerisvinda.
Auk þess er bómuvinda, sem hreyfir bómuna úr borði í borð og þar af leiðandi þarf ekki "gertamenn" við lestun og losun. Báturinn er fyrsti fiskibáturinn, sem þessi tegund vindu er sett í og fyrsta íslenzka skipið, sem hefur þannig olíudrifna bómuvindu. Í bátnum er þýzk miðunarstöð, talstöð og dýptarmælir með asdikútbúnaði af Simradgerð og rafmagns- og vökvadrifið stýri. Mannaíbúðir:
Fram í undir þilfari eru 2 þriggja manna og 1 fjögra manna lúkarar og undir hvalbak er einn þriggja manna lúkar.
Aftur í undir þilfari eru fjögur eins manns herbergi ætluð fyrir stýrimann, 1. og 2. vélstjóra og matsvein. Fremst í reisn er íbúð skipstjóra, en þar aftan við er eldhús og matsalur. Í bátnum eru 3 snyrti- og þvottaherbergi fyrir skipverja, með 2 steypiböðum. Miðstöðvarhitalögn og rafmagnshitalögn er í öllum íbúðum og heitt og kalt vatn leitt í öll íbúðarherbergi. Á bátaþilfari er að framan stýrishús en aftan við það kemur herbergi fyrir talstöð og miðunarstöð og enn aftar kortaklefi. Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri gerði teikningu og smíðalýsingu af bátnum. Byggingarverkstæði er Haugsdal Skipsbyggeri, Strusshamn, Asköy.
Skipstjóri er Björgvin Oddgeirsson frá Grenivík.

Ægir. 1 júní 1957.


Guðmundur Þórðarson RE 70.              (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Líkan Gríms heitins Karlssonar af Guðmundi Þórðarsyni RE 70.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                  Kraftblökkin

Þann 21. júní, 1959 hélt m/s Guðmundur Þórðarson, RE 70 til síldveiða við Norðurland, með hringnót og búinn kraftblökk. Nótinni var komið fyrir aftast á þilfari skipsins og henni kastað og hún dregin af skipinu, en ekki notaður nótabátur. Lítill vélbátur var hafður meðferðis, var hann hafður í enda nótarinnar þegar kastað var og síðan til þess að halda nótinni frá skipinu á meðan háfað var.
Kraftblökkinni var komið fyrir í bómu á afturmastri skipsins og voru stjórntækin fyrir blökkina við mastrið. Bóma var höfð tvo metra aftan við bakka og korkaendi nótarinnar bundinn fremst á hana, þegar bundið var á síðu og háfað, en brjóstið lá í fellingum eftir henni að síðunni og steinateinninn bundinn aftureftir skipinu. Nótin var síðan hífð inn með kraftblökk, þar til að hægt var að háfa. Fyrirkomulagið reyndist ekki vel, skipið dróst inn í nótina með afturendann. Á tímabilinu frá 23. júní til 6. júlí var kastað átta sinnum. Fékkst síld í flestum köstunum, en þó aldrei yfir 100 tunnur í kasti.
Í þessum köstum komu í ljós töluverðir annmarkar á þessu fyrirkomulagi. Staðsetningin á blökkinni var slæm og erfitt að þurrka upp með henni.
Eftir þessi átta köst var gerð breyting. Smíðaður var nótakassi á bátadekki og blökkin færð í fremri davíðuna stjórnborðsmegin. Stjórntæki blakkarinnar voru færð að brúnni stjórnborðsmegin. Einnig varð að grynna poka nótarinnar. Við þessa endurbót var þrautin leyst og hafa aðrir byggt á reynslu þeirri er þarna fékkst. Stærð nótarinnar var 230 faðmar að lengd og 53 faðmar á dýpt, felling 40 til 50 %. Kastað var 72 sinnum. Afli var 13.250 mál & tunnur. Úthaldsdagar voru 77. M/b Guðmundur Þórðarson var þriðja aflahæsta skipið á sumarsíldveiðunum 1959, þrátt fyrir tafirnar við tilraunirnar. Með þessu afreki urðu þáttaskil í sögu síldveiðanna hér við land og byggðu aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf á þeirri reynslu, sem fékkst með tilrauninni á m/s Guðmundi Þórðarsyni. Skipstjóri var Haraldur Ágústsson, stýrimaður Björn Ólafur Þorfinnsson, yfirvélstjóri var Sigurður Gunnarsson, Brettingur.
Eigandi skipsins var Baldur Guðmundsson útgerðarmaður í Reykjavík og kostaði hann tilraunina alfarið sjálfur.


Morgunblaðið 9 ágúst 1995.


Flettingar í dag: 1042
Gestir í dag: 337
Flettingar í gær: 846
Gestir í gær: 300
Samtals flettingar: 2025777
Samtals gestir: 517654
Tölur uppfærðar: 24.9.2020 14:23:53