26.04.2020 08:21

Stykkishólmshöfn sumarið 1986.

Þessa mynd tók ég í Hólminum í júlímánuði árið 1986. Ég var þá á leið í Flatey með Baldri. Bátarnir sem liggja við bryggjuna eru, talið frá vinstri,
154. Sigurður Sveinsson SH 36, TFVD, gerður út af Sigurði sf ( Sveinbjörn Sveinsson) í Stykkishólmi, smíðaður í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1959. 94 brl. Hét fyrst Mímir ÍS 30 og var í eigu hf Mímis í Hnífsdal.
778. Smári SH 221, TFUS, gerður út af Rækjunesi / Björgvin hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Hafnarfirði árið 1949. 65 brl. Hét fyrst Smári TH 59 og var í eigu Útgerðarfélagsins Vísis á Húsavík.
853. Andri SH 21, TFYV, gerður út af Sigurjóni Helgasyni hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Bardenfleth í A-Þýskalandi árið 1956. 66 brl. Hét fyrst Tálknfirðingur BA 325 og var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar.
6700. Gustur SH 251,(guli plastarinn) í eigu Jóhannesar Þórðarsonar og Valgeirs Gunnarssonar í Stykkishólmi og Guðbrandar Þórðarsonar í Búðardal. 5,25 brl, smíðaður í Hafnarfirði árið 1985.


Skelfiskveiðiskip við bryggju í Hólminum í júlí árið 1986.              (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Stykkishólmur

Fiskvinnsla er megin stoð atvinnulífsins í Stykkishólmi, og eru starfrækt þar fjögur fiskvinnslufyrirtæki. Tvö þeirra vinna einkum hörpudisk, og hefur vinnsla á því hráefni skapað mikinn stöðugleika í atvinnulífi, auk þess sem næg atvinna hefur verið fyrir unglinga yfir sumartímann. Frá Stykkishólmi eru gerðir út 21 bátur og 34 trillur. Skipasmíðaiðnaður er og hefur verið mikilvægur hlekkur atvinnulífsins í Stykkishólmi. Stykkishólmshreppur er hluthafi í skipasmíðastöðinni Skipavík, sem annast nýsmíði og viðgerðir báta.
Einnig er starfrækt minni stöð, sem aðallega smíðar trillubáta. Byggingariðnaðarmenn eru margir í Stykkishólmi, og stunda þeir iðn sína á staðnum og þjóna nærliggjandi byggðum. Þrjár trésmiðjur eru á staðnum og vinna hjá þeim um 50 menn að staðaldri. Verzlun, viðskipti og önnur þjónusta er nokkur í Stykkishólmi. Á vegum Hólmkjörs hf. og Kaupfélags Stykkishólms er starfrækt sláturhús, sem nú er í uppbyggingu.
Á vegum hafnarsjóðs Stykkishólms hefur verið byggður nýr viðlegukantur í Stykkinu, eins og Stykkishólmi er í daglegu tali nefndur, byggð ný hafnarvog og unnið við endurbætur á dráttarbrautinni í Skipavík, sem hafnarsjóður á, en leigir Skipasmíðastöðinni Skipavík hf. Eins og fyrir aðrar hafnir landsins, er nú unnið að framkvæmdaáætlun í Stykkishólmshöfn fyrir áætlunartímabilið 1979-1982, og hefur hafnarnefnd nýlega afgreitt framkvæmdaáætlun sína. Er þar gert ráð fyrir nýbyggingum við dráttarbraut, löndunar og viðgerðarbryggju í Skipavík, nýbyggingu trébryggju, vörukanti við Mylluhöfða, lengingu Austurkants í Stykki og loks ísvarnargarði milli lands og Súgandiseyjar. Einnig er gert ráð fyrir dýpkun við Steinbryggju og viðgerð á henni. Ekki fékkst fjárveiting til framkvæmda við höfnina á árinu 1979 af þeim 223 millj. króna, sem varið er til hafnarmála á Vesturlandi, en vonir standa til, að veruleg fjárveiting fáist til hafnarframkvæmda á næsta ári í samræmi við væntanlega framkvæmdaáætlun.

Sveitarstjórnarmál. 2 hefti. 1 apríl 1979.



Flettingar í dag: 256
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 697795
Samtals gestir: 52749
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 10:00:38