12.07.2020 11:08

E. s. Katla l. TFKB.

Eimskipið Katla var smíðuð hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911 fyrir A/S D/S Manchionel O & A. Irgens í Bergen í Noregi. Hét þá Manchioneal. 1.400 ha. 2 þennslu B & W gufuvél. Smíðanúmer 278. Skipið var selt 19 maí 1934, Eimskipafélagi Reykjavíkur hf, hét Katla. Selt í maí 1945, hf. Eimskipafélagi Íslands, hét þá Reykjafoss. Skipið var selt í maí 1949, Kisinbay Biraderlev Ltd í Tyrklandi, hét þá Nazar. Selt 1958, Zeki Ve Ziya Sönmes Izzet Kirtil í Istanbul í Tyrklandi, hét Cerrahazade. Skipið var selt árið 1967, Avram Kohen Ve Ortaklari í Istanbul til niðurrifs.


E.s. Katla l í erlendri höfn. Gaman væri að vita hvar myndin er tekin.                 Mynd úr safni mínu.

                    E.s. Katla

hið nýja skip Eimskipafélags Reykjavíkur, er 1650 smálestir og var keypt í Noregi. Skipið hét áður Manchioneal og var smíðað í Kaupmannahöfn árið 1911. Skipstjóri á E.s. Kötlu verður Rafn Sigurðsson.

Vísir. 23 maí 1934.


E.s. Reykjafoss l. Skipið var í eigu hf Eimskipafélags Íslands frá 1945 til 1949.   Mynd úr safni mínu.

               E.s. Katla keypt

Eimskipafélag íslands hefur nýverið fest kaup á e/s Kötlu, sem verið hefur eign Eimskipafélags Reykjavíkur h/f. Katla var smíðuð í Kaupmannahöfn 1911 og er 1657 rúml. brúttó. Lestarrúm hennar er 92 þús. teningsfet, og er það svipað lestarrúm og er í Fjallfossi. Síðastliðinn vetur fór mikil viðgerð fram á Kötlu og kostaði hún 800-900 þús. kr. Eimskipafélagið keypti skipið fyrir 2 350 þús. kr. Katla hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Reykjafoss.

Ægir. 1 júní 1945.

        Reykjafoss seldur úr landi

Eimskipafélag Íslands hefur ákveðið að selja e.s. Reykjafoss (áður Katla). Skipið er 1656 brúttó smál. að stærð, byggt í Kaupmannahöfn 1911. Einnig er ákveðið að selja e.s. Lagarfoss til niðurrifs. Skipið braut oxulinn í hafi fyrir nokkrum dögum, og þykir ekki borga sig að gera við það. Lagarfoss var byggður 1904 og keyptur af E. Í. skömmu eftir að fyrsta skip þess, Goðafoss, hafði farizt hér við land. Stjórn E. Í. hefur ákveðið að hið nýja farþegaskip félagsins, en kjölurinn að því var lagður 8. janúar s.l., skuli heita Gullfoss.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 maí 1949.Flettingar í dag: 876
Gestir í dag: 277
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960873
Samtals gestir: 496485
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 22:26:08