18.08.2020 18:00

B. v. Njörður RE 36. LCJD / TFEC.

Botnvörpungurinn Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Njörð í Reykjavík. 341 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur Samvinnufélaginu Haukanesi í Hafnarfirði í september árið 1932, hét þá Haukanes GK 347. 23 júní 1939 var Útvegsbanki Íslands h/f skráður eigandi. Seldur Vífli h/f í Hafnarfirði í október 1940. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu í febrúar árið 1952.


B.v. Njörður RE 36 með trollið á síðunni.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

             Nýr botnvörpungur

Í nótt kom enn einn nýr íslenskur botnvörpungur. Það er Njörður, eign hins nýja Njarðarfélags, stórt skip, svipað þeim, sem hingað hafa komið í vetur og vor. Skipstjóri er Guðmundur Guðnason.

Vísir. 9 júlí 1920.


B.v. Njörður RE 36.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Haukanes GK 347 á siglingu sennilega á sjómannadag.           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

   Þegar tveir þeirra gömlu kvöddu 

Þess var getið í síðasta blaði að togararnir Haukanes og Baldur hefðu verið seldir til niðurrifs til Belgíu. Áður en þeir fóru héðan voru þeir fylltir af brotajárni, en þýzkur dráttarbátur var sendur til að draga þá utan. Þeir lögðu úr höfn mánudaginn 2. marz, en þegar komið var suður í Grindavíkursjó varð þess skjótlega vart, að kominn var talsverður sjór í Haukanes. Leit svo út um tíma, að það mundi sökkva og voru gerðar ráðstafanir til að koma viðgerðarmönnum um borð í skipið, en öll var þrenningin skammt undan landi. En þeir komust ekki um borð vegna veðurs. Dráttarbátnum tókst hins vegar að dæla sjónum úr Haukanesi og kom hann aftur með bæði skipin til Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós, að leki hafði ekki komizt að Haukanesi, heldur hafði farið sjór inn um akkeriskeðjugatið. Nú eru skipin öll komin heil á húfi til Belgiu.

Ægir. 1 mars 1952.

Flettingar í dag: 1049
Gestir í dag: 323
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2035925
Samtals gestir: 520955
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 17:39:55