23.08.2020 09:44

Um borð í togaranum Úranusi RE 343.

Þessar ljósmyndir hér að neðan eru teknar um borð í togaranum Úranusi RE 343 og eru þær úr safni Atla Michelsen stýrimanns sem var skipverji á togaranum um miðjan 7 áratuginn. Myndirnar eru einstakar heimildir um þessa liðnu tíma í útgerðarsögu okkar íslendinga, um skipin og sjómennina. Og meira er, að Atli hefur haldið vel til haga nöfnum skipsfélaga sinna og viðurnefni þeirra sumra að mestu leiti.  Margar fleiri myndir er ég með úr safni Atla og mun ég setja þeir hér inn á næstunni.
Togarinn Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725. Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20 maí árið 1974.
Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið. Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.


Árni Múli og Guðni jobbari um borð í Úranusi RE 343.

 
Sverrir Erlendsson skipstjóri í glugganum.


Viggó Gíslason vélstjóri.

     Úranusi hleypt af stokkunum

Í gær var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen, nýsköpunartogaranum Úranus RE 343. "Úranus" er af minstu gerð nýsköpunartogaranna, 175 fet á lengd. Eigandi hans er h.f. Júpíter hjer í Reykjavík, en framkvæmdastjóri fjelagsins er Tryggvi Ófeigsson. Var hann viðstaddur athöfnina, ásamt dóttur sinni, Herdísi, er Skýrði skipið.

Morgunblaðið. 6 október 1948.


Daði bræðslumaður.


Johan Karl Færeyingur.


Jón Júlíusson á trollvaktinni.                                                 (C) Atli Michelsen.


B.v. Úranus RE 343 á toginu. Takið eftir hvað bómurnar eru hátt í fremri vantinum.
(C) Sigurgeir B Halldórsson.

            Úranus kemur í dag

Í dag kemur nýsköpunartogarinn Úranus hingað til lands. Er þetta næst síðasti togarinn, sem samið var um smíði á. Úranus er eign h.f. Júpíters hér í Reykjavík. Skipstjóri er hinn kunni aflamaður Bjarni Ingimarsson. Einn togari, utan tveggja dieseltogara, er enn í smíðum í Englandi og er það Svalbakur, sem bojarútgerð Akureyrar á.

Vísir. 5 apríl 1949.
Flettingar í dag: 1049
Gestir í dag: 323
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2035925
Samtals gestir: 520955
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 17:39:55