05.09.2020 19:44

Reykjavíkurhöfn árið 1967.

Þessi ljósmynd er tekin í Reykjavíkurhöfn árið 1967. Það eru mörg skipin þarna við bryggjurnar eins og ævinlega var á árum áður. Það má nú þekkja þarna nokkur skip, t.d. fyrir miðri mynd er 162. Ólafur Tryggvason SF 60. Hann var smíðaður í Uksedal í Noregi árið 1960 fyrir Tryggva Sigjónsson og fl. Á Höfn í Hornafirði. 150 brl. 400 ha. Stork vél. Bar síðan nöfnin, Hringur GK 18 og Bliki EA 12. Seldur úr landi árið 1988. Utan á Ólafi liggur að ég held, 617. Hafnarberg RE 404, smíðaður í Eckernförde í Þýskalandi árið 1959. Eik. 74 brl. 400 ha. MWM vél. Hét fyrst Jón Gunnlaugs GK 444. Bar síðan nöfnin, Jói á Nesi SH, Jói gasalegi SH, Dúa SH og endaði sem Dúa RE 359. Sá skipið síðast í Grindavíkurhöfn í fyrrasumar og var þá að niðurlotum komið. Utan á Hafnarberginu er 815. Haukur RE 64, smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 sem Sveinn Guðmundsson AK 70. Báturinn sökk suður af Stokksnesi 25 nóvember árið 1974. Hét þá Haukur SU 50. Áhöfninni, 4 mönnum var bjargað um borð í vélskipið Skinney SF 20 frá Höfn í Hornafirði. Aftan við bátana er að ég held, 60. Garðar RE 9, smíðaður í Ósló í Noregi árið 1912. Hét fyrst hér á landi Siglunes SI 89. Hét áður Falkur. Hét svo nöfnunum, Sigurður Pétur RE 186, Hringsjá SI 94, Garðar GK 175, svo Garðar RE 9 eins og áður er getið og síðast Garðar BA 64 og var í eigu Jóns Magnússonar útgerðarmanns á Patreksfirði. Garðari  var siglt á land í Skápadal í Patreksfirði árið 1981 og er þar ennþá og er að grotna niður. Svo má sjá í Nýsköpunartogarann Ísborgu ÍS 250 sem á þessum tíma var búið að breyta í flutningaskip. Þá var búið að taka gufuvélina og ketilinn úr því, setja 750 ha. Skandia díesel vél og færa stýrishúsið aftur á keysinn. Þetta er sannarlega falleg mynd.


Úr Reykjavíkurhöfn sumarið 1967.                                                                         (C) Peter Brady.

Flettingar í dag: 516
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723181
Samtals gestir: 53663
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 16:40:19