13.09.2020 11:10

Landlega á Siglufirði.

Á síldarárunum svonefndu lágu oft á tíðum fjöldi skipa inn á Siglufirði vegna brælu á miðunum eða að síldin lét ekki sjá sig eins og hennar var von og vísa. Þekkja má þarna nokkur skip, m.a. 414. Fjalar VE 333, 49 brl smíðaður í Raa í Svíþjóð fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Svo má sjá, 599. Ingjald SH 154 ex ÍS 82 ex Kylle, 47 brl. smíðaður í Marstal í Danmörku árið 1946. Var fyrst í eigu Samvinnufélags Dýrfirðinga á Þingeyri. Svo má sjá í 77. Hafþór RE 95 ex Jón Valgeir ÍS 98, 100 brl, smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ríkissjóð Íslands og hf. Vísi í Súðavík. Fjöldi nótabáta er í forgrunni myndarinnar sem mun vera tekin sumarið 1957-58.


Landlega síldveiðiflotans á Siglufirði sumarið 1958-59.                    (C) Hannes Baldvinsson.

      Landlega í gær á Siglufirði

Í gær var landlega á Siglufirði og lágu um 160 skip bundin við bryggjur. Þau komu inn í fyrradag og lönduðu en hafa síðan ekki farið út vegna storms á miðum. Í gær var sólskin á Siglufirði framan af degi en fór að hvessa er á daginn leið og illt veður úti fyrir. Var ekki búizt við að nein skip færi á veiðar í nótt. Síldarleitarflug lá niðri í allan gærdag. Í fyrrakvöld var fjölsóttur dansleikur á Siglufirði en fór hið bezta fram og ölvun lítil, enda hefur útsala ATVR verið lokuð frá því um helgi. Nokkuð bar þó á ölvun og óspektum um nóttina, voru menn hávaðasamir og fyrirferðarmiklir og var 7 görpum vísað til sængur í Steininum.
Talið er að leynivínsalar frá Akureyri hafi séð sér leik á borði, meðan útsalan var lokuð á Siglufirði og flutt hinar dýru veigar norður.

Tíminn. 6 júlí 1960.


Flettingar í dag: 1183
Gestir í dag: 368
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2036059
Samtals gestir: 521000
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 18:48:16