03.11.2020 17:21

L.v. Sverrir EA 20. TFKG.

Línuveiðarinn Sverrir EA 20 var smíðaður hjá Kockum Mekaniska Verkstad Aktiebolag í Malmö í Svíþjóð árið 1895. 158 brl. 160 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét fyrst Smiril og var í eigu Mortensens Handil (bræðurnir Niels Juel Mortensen og Petur Mortensen Tvöroyri) í Færeyjum og var skipið í vöru og farþegaflutningum um eyjarnar frá 1895 til 1933. Endurbyggt að einhverju leiti 1901. Selt 14 mars 1934, Sigurði Sumarliðasyni útgerðarmanni og Gunnari Guðlaugssyni á Akureyri, hét Sverrir EA 20. Þeir gerðu skipið út á þorsk og síldveiðar. Selt 23 október 1940, Fáki hf (Sigfúsi Blöndahl stórkaupmanni) í Reykjavík. Skipið var endurbyggt árið 1942. Selt 7 júlí 1945, Hf. Sverri í Keflavík. Skipið var selt í brotajárn árið 1956.


Sverrir EA 20 inn á Siglufirði.                                                                          (C) Regin Torkilsson.

 Skipsstrand í Vestmannaeyjahöfn

Línuveiðarinn "Sverrir " frá Akureyri strandaði í Vestmannaeyjahöfn í gærdag , en náðist út aftur. Skipið er þó töluvert laskað og talið leka mikið. Lv. "Sverrir" , sem er 158 brúttó smálestir að stærð, var að koma frá Englandi til Eyja hlaðinn kolum. Ætlaði skipið inn á höfn án hafnsögumanns og rakst upp í nyrðri hafnargarðinn á svonefnda Hörgseyri. Vjelbáturinn "Már " úr Reykjavík, sem staddur var í Eyjum fór "Sverri " til hjálpar og tókst að draga skipið út af skerinu.

Morgunblaðið. 28 mars 1940.


Smiril nýsmíðaður frá Kockum skipasmíðastöðinni í Malmö 1895.                   Mynd úr safni mínu.

         7 skipverjar réru til lands,                       en skipið finnst ekki

Á laugardagskvöldið var, komu 7 menn í björgunarbát róandi að Skálanesi, sem er ysti bær í Seyðisfirði að sunnanverðu, og tilkyntu þeir að línuveiðarinn Sverrir lægi með bilaða vél um 30 sjómílur suðaustur af Dalatanga. Töldu menn þessir, sem allir voru hásetar á Sverri, að stimpill hefði brotnað í vélinni, þannig að skipið væri ósjófært og yrði að fá sem skjótasta hjálp. Bæjarfógetanum á Seyðisfirði, Hjálmari Vilhjálmssyni, var þegar tilkynnt hvernig komið væri, og fyrir meðalgöngu hans fékst norskur línuveiðari til þess að halda frá Seyðisfirði og leita að Sverri. Lagði hann af stað kl. rúmlega 9 á laugardagskvöldið og leitaði á þeim slóðum, er talið var að Sverrir lægi, en alt kom fyrir ekki. Kom línuveiðari þessi því næst aftur til Seyðisfjarðar, eftir árangurslausa leit. Bæjarfógetinn á Seyðisfirði skýrði Slysavarnafélagi Íslands því næst frá því, hvernig komið væri, og hefir starfað í samráði við það. Reyndi hann í gær að fá flugvél eystra, til þess að svipast um eftir Sverri, en það tókst ekki.
Þá leitaði hann fyrir sér um báta, er fáanlegir væru til þess að hefja leit og tókst að fá þrjá báta frá Seyðisfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði, til þess að leggja út. Lögðu bátarnir af stað í gærkveldi og höguðu för sinni þannig, að allir fóru þeir af stað á miðnætti, einn frá Gerpi, annar frá Vattarnesi og Hinn þriðji frá Hafnarnesi, og leituðu 40 sjómílur til hafs. Bátar þessir hafa allir talstöðvar, og náði bæjarfógeti tali af þeim í morgun kl. 8, en þá hafði leit þeirra engan árangur borið. Bæjarfógeti sendi Sverri skeyti gegnum loftskeytastöðina á Seyðisfirði, og bað skipstjórann um að gefa glögg ljósmerki í nótt, með því að leitinni myndi verða haldið áfram. Slysavarnafélagið hefir reynt að fá flugvélar hér syðra til þess að leita að skipinu, en svo illa stendur á, að sjóflugvélin mun vera í viðgerð, en landflugvélar eiga erfitt með förina. Tveir menn, sem eftir urðu um borð í Sverri, eru skipstjórinn, Lárus Blöndal, 2. stýrimaður, 1. vélstjóri og matsveinn. Veður er hið ágætasta eystra, og skipinu því ekki talin nein hætta búin eins og sakir standa.
Eigandi Sverris er Sigfús Blöndahl stórkaupmaður hér í bæ, og hafði hann nýlega keypt skipið af Sigurði Sumarliðasyni, útgerðarmanni á Akureyri. Samkvæmt skeyti, er Slysavarnafélaginu barst kl. 1 í dag, fannst Sverrir 26 sjómílur út af Dalatanga. Eru nú vélbátarnir á leið til hafnar.

Vísir. 25 nóvember 1940.

Flettingar í dag: 384
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723730
Samtals gestir: 53713
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 12:06:32