13.12.2020 11:47

2 m. kt. Hákon RE 113. LBPH.

Kútter Hákon RE 113 var smíðaður í Rye í Sussex á Englandi árið 1878. Eik. 74 brl. Hét fyrst hér á landi Haraldur og fékk einkennisnúmerið MB 1 árið 1903 eða 1904. Hét áður William Boyes H 1182 og var í eigu T. Doyle Ltd. í Hull og var gerður út þaðan. Fyrsti eigandi hér á landi var Böðvar Þorvaldsson á Akranesi frá apríl árið 1897. Skipið var keypt frá Hull, sennilega af Geir Zoega kaupmanni og útgerðarmanni í Reykjavík fyrir Böðvar. Árið 1901 keyptu Einar Ingjaldsson á Bakka og Björn Hannesson, Litlateigi á Akranesi skipið. Skipið var selt 1907, Árna Kristni Magnússyni, Eyjólfi Eyjólfssyni, Carli Bjarnasen og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 24 maí 1907 Árna Magnússyni og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 6 október 1910, Firmanu H.P. Duus í Reykjavík. Fékk þá nafnið Hákon RE 113. 57 ha. Alpha vél var sett í skipið, óvíst hvenær, gæti hafa verið á árunum eftir fyrra stríð. Selt 1920, hf. Hákon ( Geir Sigurðsson og fl. ) í Reykjavík. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926. Áhöfnin, 21 maður, bjargaðist í skipsbátnum til lands við vitann á Reykjanesi eftir 9 klukkustunda hrakninga.


Kútter Hákon RE 113.                                                                                    (C) Magnús Ólafsson.

                   Skipakaup

"William Boyes" 75,64 brl, skipstjóri Jörgensen til G. Zoega. Keypt í Englandi til fiskiveiða.

Ísland. 18 tbl. 1 maí 1897.

        Þilskipið "Hákon" strandar                            við Grindavík
                Menn komust af 

Á sunnudagsnóttina var, var fiskiskipið "Hákon" hjeðan úr Reykjavík á leið heih af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðan byl, mestu stórhríðina sem hjér hefir komið sunnanlands um mörg ár. Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi "Hákon" grunns. Var svarta bylur og vissu skipverjar ekki fyrr en þeir voru strandaðir skammt frá Hrauni, innsta bæ í Grindavík, rétt fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fannst skipverjum að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglöggt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það, og eftir 9 klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi og komust heilu og höldnu í land.
Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru í gærmorgun til Gringavíkur til þess að líta á skipið. Það mun vera mikið brotið, eftir því sem morgunblaðið frjetti í gær, var það allt að framan. Það var með 7 þúsund af fiski.
"Hákon" var byggður 1878 í Englandi og var keyptur hingað til lands 20 árum síðar. Hann er 74 smálestir brúttó. Eigandi hans var nú Geir Sigurðsson skipstjóri og fleiri. Hann mun hafa verið vátryggður sæmilega.

Með "Hákon" er nú farið síðasta þilskipið af gamla tæginu sem var eftir orðið hjer í Reykjavík.

Morgunblaðið. 11 maí 1926.

 

Flettingar í dag: 1080
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 724426
Samtals gestir: 53732
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 22:47:25