26.12.2020 09:04

790. Stefnir GK 329. TFNP.

Vélskipið Stefnir GK 329 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946 fyrir Fiskveiðafélagið Stefni hf. Í Hafnarfirði. Eik. 66 brl. 265 ha. Alpha vél. Ný vél (1959) 310 ha. Alpha vél. Seldur 3 febrúar 1970, Andrési Finnbogasyni og fl. Á Flateyri, hét þá Sölvi ÍS 125. Skipið var mikið endurbyggt árið 1970, m.a. settur hvalbakur og nýtt stýrishús á skipið. Mældist eftir þessar breytingar 71 brl. Skipið sökk út af Krísuvíkurbjargi eftir að eldur kom upp í því hinn 10 júlí árið 1975. Áhöfnin, 5 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í vélbátinn Pétursey GK 184 frá Grindavík. Sölvi ÍS var á humarveiðum þegar eldurinn kom upp. Skipið var þá komið í eigu Faxavíkur hf. Í Reykjavík.


790. Stefnir GK 329 á siglingu út Hafnarfjörðinn.                              (C) Haukur Sigtryggsson.

        Nýr bátur til Hafnarfjarðar

Í gærmorgun kom nýr vjelbátur til Hafnarfjarðar. Bátur þessi heitir "Stefnir", og er eign H.f. Stefnis í Hafnarfirðí. M.b. Stefnir var smíðaður í Fredrikssund í Danmörku, hann er 66 tonn að stærð með 240 hestafla díeselvjel og búinn öllum nýtísku tækjum. Þetta er annar vjelbáturinn er H.f. Stefnir fær frá Danmörku og gerir út frá Hafnarfirði. Hinn bátinn, m.b. Fram, fjekk fjelagið í vor, og er hann sömu tegundar og m.b. Stefnir. Þriðji bátur fjelagsins er í smíðum í Fredrikssund og er hann væntanlegur fyrir næstu vertíð. M.b. Stefnir er þegar útbúinn til síldveiða og mun fara norður á morgun.
Skipstjóri bátsins er Björgvin Jónsson frá Dalvík. Framkvæmdastjóri H. f. Stefnis er Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður, en Jón Eiríksson, skipstjóri, hefir fylgst með smíði beggja bátanna af hálfu fjelagsins.

Morgunblaðið. 30 júlí 1946.


790. Stefnir GK 329 eins og hann leit út upphaflega.                         Ljósmyndari óþekktur.


790. Sölvi ÍS 125 í ljósum logum út af Grindavík.            (C) Morgunblaðið / Guðfinnur.

       Sölvi ÍS 125 brann og sökk

Vélbáturinn Sölvi ÍS 125 sökk í gær út af Krýsuvíkurbjargi, gjörónýtur af eldi, sem hafði logað í bátnum frá því snemma morguns. Áhöfnin fór frá borði í gúmbát innan tveggja tíma eftir að eldsins varð vart og var bjargað innan tíðar í vélbátinn Pétursey. Voru allir skipverjar ómeiddir. Það var klukkan rúmlega átta í gærmorgun, sem skipverjar sendu út hjálparbeiðni vegna elds sem logaði í bátnum, þar sem hann var 16-18 sjómílur suðaustur af Reykjanesi, á svonefndu Grindavíkurdjúpi. Nokkru siðar yfirgáfu þeir bátinn og fóru í gúmbát, þar eð eldurinn var orðinn það mikill að þeir fengu ekki við neitt ráðið og mikill reykur fylgdi honum. Vitað var að varðskip yrði komið á staðinn innan skamms tíma. Veður var gott og engin hætta á ferðum varðandi gúmbátinn. Tveir bátar héldu út frá Grindavík til aðstoðar og tók Pétursey GK 184 skipverja af Sölva um borð og kom svo taug í brennandi bátinn og tók hann í tog. Um hádegið voru skipin á móts við innsiglinguna til Grindavíkur og komu slökkviliðsmenn þá á báti út til að berjast við eldinn. Hann var þá orðinn geysimikill og sást reykurinn vel úr landi. Skömmu síðar komu óskir frá tryggingafélagi bátsins um að láta hann bara sökkva í stað þess að reyna að slökkva eldinn, enda var stýrishúsið þá fallið og olíugeymarnir sprungnir. Var Sölvi síðan dreginn austur með landinu og sökk loks um kl. 15:44 úti af Krýsuvíkurbjargi.
Sölvi ÍS 125 var 71 lestar eikarbátur, smíðaður í Danmörku 1946, skráður eign Faxavíkur hf. í Reykjavík. Hann hafði verið á humarveiðum.

Morgunblaðið. 11 júlí 1975.

Flettingar í dag: 338
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723003
Samtals gestir: 53659
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 09:45:26