26.12.2020 17:56

1308. Júní GK 345. TFKT.

Skuttogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Astilleros Luzuriga skipasmíðastöðinni í Pasajes á Spáni árið 1973 fyrir Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. 942 brl. 2 X 1.400 ha. MAN Bazan díesel vélar. Smíðanúmer 112. Kom fyrst til heimahafnar, Hafnarfjarðar á sjómannadaginn 3 júní það ár. Árið 1980 var sett ný vél í skipið, 3.200 ha. MaK díesel vél, 2.355 Kw. Togarinn var seldur Hval h/f Miðsandi Strandarhreppi í Borgarfjarðarsýslu, 23 apríl 1986, hét Venus HF 519. Einnig var skipinu breytt í frystiskip það ár. Skipið var lengt árið 1995 og mældist þá 1.156 brl. Skipið var selt 17 desember 2013, Grænlenska Útgerðarfélaginu Northern Seafood Aps í Grænlandi. Togarinn hét þá Juni GR 7-519 og gerður út frá Maniitsoq á Grænlandi af Íslenskum aðilum. Sú kaup gengu til baka ári síðar. Var svo seldur aftur í júní 2015, Grænlenska sjávarútvegsfélaginu Enoksen Seafood A/S og hét Maja E GR 8-83 og var gerður út frá Sisimiut á V-Grænlandi.


Skuttogarinn Júní GK 345 leggst að bryggju í heimahöfn sinni, Hafnarfirði í fyrsta skipti á sjómannadaginn 3 júní árið 1973.  (C) Kristinn Benediktsson.

    Nýr skuttogari til Hafnarfjarðar

Í fyrradag, sunnudaginn 3. júní, kom til landsins hinn nýi skuttogari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní GK 345, Júní er þriðja skip Bæjarútgerðarinnar með þessu nafni. Togarinn er systurskip b.v. Bjarna Benediktssonar, smíðað á Spáni. Á leiðinni hingað hafði það viðkomu í Noregi og lestaði þar fiskikassa fyrir B.Ú.R. Að þessari viðkomu meðtaldri tók siglingin hingað tiu daga og reyndist meðalganghraði skipsins um 14,6 sjómílur við 80% álag. Skipstjórinn á Júní, Halldór Halldórsson, sem er þekktur aflakóngur, tjáði blaðinu, að siglingin hefði gengið mjög að óskum og hefðu allir verið ánægðir með skipið. Hann bætti því við, að sú nýjung væri í þessu skipi, að hægt er að toga með einu trolli og hafa annað tilbúið á bobbingum og ef eitthvað kæmi fyrir trollið, sem úti væri, væri hægt að renna hinu fyrirvaralaust út og halda áfram veiðum eins og ekkert hefði í skorizt, í stað þess að venjulega varð löng bið á því að veiðar gætu hafizt aftur. Halldór sagði, að vegna reynslunnar, sem fengizt hefði af vélunum í Bjarna Benediktssyni, en það eru eins vélar og í Júní, þýskar M.A.N. vélar, settar saman á Spáni, hefðu verið keyptar aukaolíusíur í Frakklandi og þær settar á vélarnar til að koma í veg fyrir óæskileg óhreinindi, sem valdið geta skemmdum.
Halldór áleit, að veiðar gætu hafizt eftir hálfan mánuð, eftir að lagfæringar og smá breytingar hefðu verið gerðar í fiskmóttöku og vinnslusal. öll fullkomnustu og beztu fiskileitartæki eru í skipinu og stjórntæki öll eins fullkomin og kostur er á, sagði Halldór Halldórsson og sagðist hann jafnframt hlakka til veiðiferða á nýja skipinu. Einar Sveinsson, forstjóri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, sagði kostnað við byggingu skipsins ekki liggja fyrir, en um upphæðir hefði verið samið í dollurum og hefði verðgildi dollarans gagnvart íslensku krónunni breytzt svolitið, síðan samningar voru gerðir. Samningsupphæð um smíði skipsins hefði verið 1,7 millj. dollara og þar af hefði ríkið lánað beint 80% og 5% af útborgun. Auk þess lánaði ríkið 2 ½ % af kaupverði veiðarfæra. Eins og áður segir er þetta þriðji togairi B.H., sem ber heitið Júní, en 1948 strandaði elzti Júní í Önundarfirði og 1964 var Júní nr. 2 seldur til Grikklands. Varðandi önnur skipakaup í náinni framtíð sagði Einar, að í athugun væri að B.H. gengi í hlutafélagið Samherja í Grindavík, sem hyggst kaupa skuttogara frá Póllandi. Á Júní mun verða 24 manna áhöfn og mun skipið fyrst um sinn veiða karfa á heimamiðum.

Morgunblaðið. 5 júní 1973.


1308. Júní GK 345. Myndin af skipinu gæti verið tekin af því nýsmíðuðu á Spáni. Mynd í minni eigu.


1308. Venus HF 519.                                                                                          (C) H.B. Grandi hf.


     Frystitogarinn Venus kominn                         til heimahafnar 

Frystitogarinn Venus HF 519 var væntanlegur til heimahafnar í Hafnarfirði í nótt. Hann hét áður Júní GK 345, en hefur nú verið breytt í frystiskip, sem er í eigu Hvals hf. Fyrri eigandi var hlutafélag í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. Áætlaður kostnaður við breytingar og endurbætur á skipinu er 200 milljónir króna, en það kostaði um 100 milljónir er það var keypt. Togarinn var byggður á Spáni 1973 og var þá 942 lestir. Skipt var um vél í honum árið 1980. Í byrjun apríl var byrjað á breytingum á togaranum í Dannebrogs Værft í Arósum og átti þeim að vera lokið í seinni hluta ágústmánaðar. Verkið hefur hins vegar tekið um helmingi lengri tíma en áætlað var og stafar það fyrst og fremst af því, að nægur mannsskapur var ekki fyrir hendi í skipasmíðastöðinni að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals. Hann sagði ennfremur í samtali við Morgunblaðið, að vegna þess hefði komið upp ágreiningur um verð, sem nú hefði verið leystur og virtust þessar viðamiklu breytingar kosta um 200 milljónir króna. Hann sagði það mjög bagalegt að ekki hefði verið hægt að hefja veiðar á þessu ári, en svo virtist hæpið nú. Skipið væri skráð á sóknarmarki, sem þýddi að því væri óleyfilegt að selja kvóta. Því væri þorskurinn þeirra vonandi óáreittur í sjónum enn sem komið væri.
Eftir breytingarnar mælist togarinn Venus 1.002 brúttólestir og er með MaK-vél frá 1980, 2.354 hestöfl. Meðal annars hefur skipið verið sandblásið, trolldekk og vinnsludekk verið endurbætt og lestar einangraðar. Þá hafa frystivélar og -tæki verið sett upp svo og vinnsluvélar fyrir algengustu flsktegundir og rækju. Allt spilkerfið hefur verið endurnýjað og "Autotrawl-búnaður" verður settur í skipið við heimkomuna. Skipt hefur verið um brú á skipinu og íbúðir, eldhús og aðrar vistarverur verið endurbættar. Þá hafa flest tæki í brú verið endurnýjuð.

Morgunblaðið. 4 desember 1986.


1308. Venus HF 519 í Reykjavíkurhöfn.                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1308. Venus HF 519 í Reykjavíkurhöfn. Búið er að selja skipið til Grænlands og verið er að setja á það nýtt nafn.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 janúar 2014.


1308. Júní GK 345. Fyrirkomulagsteikning.                                  Mynd úr Ægi.

                 Júní GK 345

Á sjómannadaginn, 3. júní s.l., kom skuttogarinn Júní GK 345 til Hafnarfjarðar. Júní er byggður á Spáni, í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A. og er annar skuttogarinn sem Spánverjar byggja fyrir íslendinga. Á næstu síðu er fyrirkomulagsteikning af skipum þessum, en alls munu koma sex skip af þessari gerð. Fyrsti skuttogarinn frá Spáni var Bjarni Benediktsson RE 210, en honum var lýst í 2. tbl. Ægis, og á sú lýsing við Júní GK 345 að nær öllu leyti. Einu breytingarnar frá Bjarna Benediktssyni eru þær, að botni fiskmóttöku hefur verið lyft, og í stað annarar "roterandi" þvottavélarinnar er komin kerþvottavél. Eigandi Júnís er Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, en skipstjóri er Halldór Halldórsson og 1. vélstjóri Óskar Guðjónsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Einar Sveinsson.
Stærð skipsins 942 brl.
Mesta lengd 68.70 m.
Lengd milli lóðlína 59.00 m.
Breidd 11.60 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.50 m.
Dýpt frá neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista 4.80 m.
Lestarrými 730 m3.
Olíugeymar 414 m3.
Ferskvatnsgeymar 80 m3.
Ballastgeymir (stafnhylki) 45 m3.
Lýsisgeymar 30 m3.
Hraði í reynslusiglingu 15,3 sjómílur.

Ægir. 11 tbl. 15 júní 1973.






Flettingar í dag: 643
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720540
Samtals gestir: 53513
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:15:59