01.05.2021 07:00

Saga Nýsköpunartogaranna.

Í greininni sem hér fer að neðan er rakin saga þessara miklu og fríðu skipa sem nýsköpunarstjórnin svonefnda, þ.e. ríkisstjórn Ólafs Thors sem sat frá 21 október 1944 til 4 febrúar 1947, og ríkisstjórn Stefáns J Stefánssonar (Stefanía) frá 4 febrúar 1947 til 6 desember 1949, samdi um smíði á í Bretlandi. Skipasmíðastöðvarnar voru, Cochrane & Sons í Selby, Cook Welton & Gemmell í Beverley, Goole S.B. & Repg. Co Ltd í Goole og svo voru það skipasmíðastöðvarnar, Alexander Hall, John Lewis & Sons og Hall Russell & Co í Aberdeen í Skotlandi. Höfundar þessarar greinar eru þeir Hafliði Óskarsson og Kjartan Traustason á Húsavík. Þeir félagar hafa safnað miklu efni um þá og einnig fjölda ljósmynda. Mikið og þarft verk hjá þeim og má þakka þeim fyrir það. Þessi grein þeirra kom út í tímaritinu Ægi, 6 tbl. 1 júní 2005.
Ég nota ekki sömu ljósmyndirnar og þeir heldur myndir úr safni mínu og Hauks Sigtryggs Valdimarssonar á Dalvík.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f. 654 brl. 1.000 ha. gufuvél.
(C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.

 Merkileg saga nýsköpunartogaranna

Á fimmta áratug síðustu aldar, í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, var ákveðið að verja stórum hluta þeirra stríðsfjármuna sem Íslendingum áskotnaðist til kaupa á togurum sem gætu stuðlað að uppbyggingu öflugs atvinnulífs í sjávarplássum um land allt. Fest voru kaup á fjölda togara í Bretlandi, sem almennt eru kenndir við nýsköpun og bera því nafnið "nýsköpunartogararnir". Togararnir komu til landsins á árunum 1947-1952 og áttu eftir að skipta sköpum í atvinnuuppbyggingu víða um land.
Upplýsingar um þennan hluta í útgerðarsögu landsmanna hafa verið af fremur skornum skammti, eða öllu heldur hefur lítið verið gert til að safna þeim saman, en tveir áhugamenn á Húsavík, þeir Kjartan Traustason og Hafliði Óskarsson, hafa leitast við að ráða bót á því og hafa safnað saman myndum af öllum togurunum og ýmsum fróðleiksmolum um útgerð þeirra. Við samantekt þessarar greinar hefur Ægir fengið ýmsa ómetanlega fróðleiksmola sem Hafliði Óskarsson hefur látið blaðinu í té. Ljósmyndirnar hefur blaðið fengið frá þeim félögum Kjartani og Hafliða. Þeim eru hér færðar sérstakar þakkir fyrir aðstoðina og greiðviknina.


                Á tímum Nýsköpunarstjórnarinnar og Stefaníu.

 Nýsköpunarstjórnin, sem svo er kölluð, ríkisstjórn undir forsæti Ólafs Thors, sat að völdum frá 21. október 1944 til 4. febrúar 1947. Þessi ríkisstjórn samdi við Breta um smíði þrjátíu og tveggja togara, 30 gufukyntra og 2 olíukyntra, sem voru síðan jafnan kallaðir "nýsköpunartogarar". Þann 4. febrúar 1947 tók við ríkisstjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar og var jafnan kölluð "Stefanía". Þessi ríkisstjórn bætti um betur og samdi um smíði tíu togara til viðbótar þeim 32, sem þegar hafði verið samið um smíði á, 8 gufukyntra og 2 olíukyntra, þeir togarar voru almennt kallaðir "Stefaníuskip". Í það heila voru þó allir togararnir 42 almennt kallaðir nýsköpunartogarar. Auk togaranna 42 sem ríkissjóður Íslands samdi um smíði á, var smíðað eitt skip til viðbótar í Englandi, fyrir Guðmund Jörundsson, útgerðarmann, án afskipta stjórnvalda. Það skip var smíðað í Lowestoft og hlaut nafnið Jörundur EA og kom til landsins árið 1949 (sökk löngu síðar). Aukinheldur voru keyptir þrír svokallaðir "sáputogarar", notuð skip, frá Englandi. Tveir þessara togara fóru til Patreksfjarðar og fengu nöfnin Gylfi og Vörður. Vörður fórst síðar og Gylfi var seldur úr landi fljótlega. Patreksfirðingar fengu síðar tvö "Stefaníuskip" á árunum 1951- 1952. Þriðja skipið fór til Reykjavíkur og hlaut nafnið Kári, en var seldur eftir u.þ.b. þrjú ár. Alls komu því 46 togarar til landsins á svokölluðum nýsköpunarárum.


B.v. Egill rauði NK 104. TFKC. Smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar. 656 brl. 1.000 ha. gufuvél. Smíðanúmer 716.
(C) Björn Björnsson.

                             Smíðaðir í Englandi og Skotlandi.

Þeir 32 togarar sem samið var um í tíð nýsköpunarstjórnarinnar voru annars vegar smíðaðir í þremur skipasmíðastöðvum við Humberfljót í Englandi - tvö díselskip í Goole Shipbuilding & Co, tíu gufuskip í Cook Welton og Gemmel í Beverley og átta gufuskip í Cochrane & Sons Ltd. í Selby - og hins vegar í tveimur stöðvum í Aberdeen í Skotlandi - fimm gufuskip í John Lewis & Sons og sjö gufuskip í Alexander Hall. Af tíu Stefaníuskipum voru tvö díselskip smíðuð í Goole Shipbuilding & Co í Englandi, sjö gufuskip í John Lewis & Sons í Aberdeen í Skotlandi og eitt gufuskip í Alexander Hall í Aberdeen. Nýsköpunartogararnir komu til landsins sem hér segir:
Árið 1947 - átján skip: B/v Akurey RE-95 (Rvík), B/v Askur RE-33 (Rvík), B/v Egill Skallagrímsson RE-165 (Rvík), B/v Geir RE-241 (Rvík), B/v Helgafell RE-280 (Rvík), B/v Hvalfell RE-282 (Rvík), B/v Ingólfur Arnarson RE-201 (Rvík), B/v Bjarni Ólafsson AK-67 (Akranes), B/v Elliði SI-1 (Siglufj), B/v Kaldbakur EA-1 (Akureyri), B/v Ísólfur NS-14 (Seyðisfj), B/v Egill rauði NK-104 (Neskaupst), B/v Goðanes NK-105 (Neskaupst) B/v Elliðaey VE-10 (Vestmeyjar), B/v Bjarni Riddari GK-1 (Hafnarfj), B/v Júlí GK-21 (Hafnarfj), B/v Neptúnus GK-361 (Hafnarfj) og B/v Surprise GK-4 (Hafnarfj).
Árið 1948 - tíu skip: B/v Fylkir RE-161 (Rvík), B/v Jón Forseti RE-108 (Rvík), B/v Karlsefni RE-24 (Rvík), B/v Marz RE-261 (Rvík), B/v Skúli Magnússon RE-202 (Rvík), B/v Ísborg ÍS-250 (Ísafj), B/v Bjarnarey VE-11 (Vestmeyjar), B/v Keflvíkingur GK-197 (Keflavík), B/v Garðar Þorsteinsson GK-3 (Hafnarfj) og B/v Röðull GK-518 (Hafnarfj).
Árið 1949 - fjögur skip: B/v Hallveig Fróðadóttir RE-203 (Rvík), B/v Jón Þorláksson RE-204 (Rvík), B/v Úranus RE-343 (Rvík) og B/v Svalbakur EA-2 (Akureyri).
Árið 1950 - eitt skip: B/v Harðbakur EA-3 (Akureyri).
Árið 1951 - sjö skip: B/v Jón Baldvinsson RE-208 (Rvík), B/v Pétur Halldórsson RE-207 (Rvík), B/v Þorsteinn Ingólfsson RE-206 (Rvík), B/v Ólafur Jóhannesson BA-77 (Patreksfj), B/v Sólborg ÍS-260 (Ísafj), B/v Austfirðingur SU-3 (Eskifj) og B/v Júní GK-345 (Hafnarfj).
Árið 1952 - tvö skip: B/v Þorkell Máni RE-205 (Rvík) og B/v Gylfi BA-16 (Patreksfj). Í Goole við Humberfljót voru smíðuð díselskipin Hallveig Fróðadóttir, Jón Þorláksson, Þorkell Máni og Gylfi. Svokölluð "Selbyskip" voru Ingólfur Arnarson, Helgafell, Egill Skallagrímsson, Elliði, Kaldbakur, Ísólfur, Bjarni riddari og Júlí - allt gufuskip. Svokölluð "Beverlyskip" voru Akurey, Jón forseti, Geir, Hvalfell, Skúli Magnússon, Fylkir, Ísborg, Goðanes, Garðar Þorsteinsson og Röðull - allt gufuskip. Aberdeen skipin voru tuttugu talsins. Frá John Lewis & Son komu Bjarni Ólafsson, Surprise, Neptúnus, Bjarnarey, Marz, Harðbakur, Pétur Halldórsson, Þorsteinn Ingólfsson, Jón Baldvinsson, Austfirðingur, Sólborg og Ólafur Jóhannesson - allt gufuskip. Frá Alexander Hall í Aberdeen komu Askur, Egill rauði, Elliðaey, Karlsefni, Keflvíkingur, Úranus, Svalbakur og Júní - allt gufuskip. 


B.v. Pétur Halldórsson RE 207. TFAH. Smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 708 brl. 1.000 ha. gufuvél. Hét Máni á smíðatíma. Smíðanúmer 227.          (C) Snorri Snorrason.

                                          Fóru um allt land.

Þegar heimahafnir skipanna voru ákvarðaðar var þess í stórum dráttum gætt að deila þeim nokkuð jafnt niður á landshlutana. Ekki tókst þó að ná fullkominni sátt um staðsetningu skipanna, enda kannski vart við því að búast. En skiptingin eftir landshlutum var eftirfarandi, sbr. listinn hér að framan: Til Reykjavíkur fóru nítján skip, sjö í Hafnarfjörð, fimm á Vesturland og Vestfirði, fjögur á Norðurland, fjögur á Austfirði og þrjú á Suðurland og Reykjanes. Heimahafnir skipanna urðu alls tólf við komu þeirra og átti einungis eftir að fjölga um eina áður en yfir lauk - þ.e. Ólafsfjörður.

                                           
                                         Nafnabreytingar.


 Fjórtán nýsköpunartogarar komu með svokallaðan "bakka" og af þeim voru t.d. tíu svokölluð Beverley-skip, þ.e. smíðuð í samnefndri borg. Fimmtán skipanna komu með bátapall, þar með talin öll Stefaníuskipin. Einnig var bátapallur settur síðar á fjögur skipanna, trúlega vegna síldveiða á árunum 1950 -1960 - B/v Egil Skallagrímsson RE, B/v Elliða SI, B/v Ísborgu ÍS og B/v Surprise GK. Selby-skipin voru ein um að vera það sem kallað er "joggluð", en þar er átt við samsetningu á plötum í skrokk skipanna. Nýsköpunartogararnir fengu margir ný nöfn í fyllingu tímans. Fjórar eftirfarandi nafnabreytingar urðu innan sömu hafnar: B/v Bjarnarey VE varð Vilborg Herjólfsdóttir VE, B/v Ingólfur Arnarson RE varð Hjörleifur RE, B/v Ísólfur NS varð Brimnes NS og B/v Jón Þorláksson RE varð Bylgja RE. Níu nafnabreytingar urðu vegna flutnings milli hafna: Vilborg H varð Norðlendingur, Norðlendingur varð Hrímbakur, Elliðaey varð Ágúst, Austfirðingur varð Haukur, Keflvíkingur varð Vöttur, Vöttur varð Apríl, Helgafell varð Sléttbakur, Gylfi varð Haukanes, Garðar Þorsteinsson varð Hafliði og Egill Skallagrímsson varð Hamranes (síðastnefnda nafnabreytingin átti sér stað skömmu eftir sölu skipsins). Samtals skiptu því ellefu nýsköpunartogarar um nafn í fjórtán skipti.


B.v. Goðanes NK 105. TFUD. Smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley fyrir Goðanes h/f í Neskaupstað. 655 brl. 1.000 ha. gufuvél. (C) Björn Björnsson.


                                Úr landi eftir dygga þjónustu.

 Eftir að hafa þjónað vel hér á landi árum saman hurfu togararnir úr landi, einn af öðrum. Ásigkomulagið var mismunandi gott, enda höfðu margir legið við bryggju í nokkur ár og litu því allt annað en vel út. Sumum togaranna var siglt utan fyrir eigin vélarafli, einskipa, með annað skip í eftirdragi og eða voru dregnir af dráttarskipum. Í einu tilviki, árið 1969, dró t.d. varðskipið Óðinn þrjá nýsköpunartogara í einu til Belgíu til niðurrifs, Ask og systurskipin Geir og Hvalfell. Nýsköpunartogararnir voru seldir til Belgíu og Spánar til niðurrifs, en einnig fóru þeir til Danmerkur, Englands, Grikklands, Noregs og Skotlands. Líkast til munu Norðmenn og Grikkir hafa verið hvað ötulastir að nýta skipin eitthvað áfram. Norðmenn nýttu til dæmis B/v Bjarna Ólafsson, B/v Akurey og B/v Ólaf Jóhannesson. Grikkir notuðu M/s Ísborg eitthvað (skipinu hafði verið breytt í flutningaskip) og í það minnsta eitt til, B/v Ágúst (ex Elliðaey) Einnig var B/v Jón forseti gerður út í ein tvö ár frá Englandi eftir að hann var seldur þangað. En níu af togurunum fjörutíu og tveimur fórust af ýmsum orsökum. Fjórir þeirra strönduðu - B/v Egill rauði NK (1955), B/v Jón Baldvinsson RE (1955), B/v Goðanes NK (1957) og B/v Surprise GK (1968). Tveir fórust eftir að hafa fengið tundurdufl í veiðarfæri, sem síðan sprungu við hlið skipanna eða undir þeim, B/v Fylkir RE (1956) og B/v Hamranes RE (1972), tveir togaranna fórust í ofsaveðri á veiðislóð, B/v Júlí GK (1959) og B/v Elliði SI (1962) og einn sökk undan loðnufarmi, Bylgjan RE (1974), sem upphaflega hét Jón Þorláksson RE. Þá fórst eitt skip, en þar var um að ræða fyrrum Patreksfjarðartogarann Ólaf Jóhannesson BA, sem sökk við Suður-Ameríku árið 1993.

                                      Ekki verið sómi sýndur.

 "
Ég hef lengi haft áhuga á nýsköpunartogurunum og þess vegna fór ég út í að safna myndum af þeim. Vissulega var töluvert mikil vinna að ná þessu saman, en það var þess virði," segir Kjartan Traustason á Húsavík, sem lengi var til sjós á Sigurði VE í Vestmannaeyjum, en er nú starfandi í landi á Húsavík, en hann býr yfir safni ljósmynda af öllum nýsköpunartogurunum. "Mér hefur oft fundist sem skipum frá þessum tíma hafi ekki verið sýndur sá sómi sem þeim ber," sagði Kjartan, en hann hefur unnið að þessari söfnun með Hafliða Óskarssyni á Húsavík. "Hafliði hefur grúskað öllu meira í þessu en ég, en í sameiningu höfum við náð saman ýmsum upplýsingum um skipin, t.d. hverjir voru í fyrstu áhöfnum skipanna, hvar þau voru smíðuð og hvaða nöfn þeim var gefið í upphafi o.s.frv. Fyrstu myndirnar sem ég eignaðist komu frá föður mínum, en þær voru teknar um borð í Kaldbaki EA á Akureyri á sjötta áratugnum," segir Kjartan, en greininni fylgja nokkrar af þeim myndum sem er að finna í myndasafninu hans.


B.v. Gylfi BA 16. TFKJ. Smíðaður hjá Goole S.B. & Repg. Co Ltd í Goole í Englandi árið 1952 fyrir Vörð h/f á Patreksfirði. 696 brl. 1.332 ha. Ruston díesel vél. 
(C) Hannes Pálsson. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


                             Ómetanlegar myndir í skókössum.

 "Við Kjartan erum sammála um að nýsköpunartogurunum hefur ekki verið sá sómi sýndur sem þeim ber. Við vorum því ákveðnir í að reyna að gera bragarbót á því og hófum að afla okkur upplýsinga um togarana. Við höfum hringt í fjölda fólks og fengið gríðarlega miklar upplýsingar. Einnig höfum við fengið margar myndir til þess að skanna og varðveita á stafrænu formi. Það hefur komið í ljós að ómetanlegar myndir eru oft geymdar í t.d. gömlum skókössum uppi á háaloftum víða um land. Við vitum að það er til miklu meira af myndum og því vildum við gjarnan fá að koma þeim skilaboðum til fólks að okkur þætti vænt um, ef hægt væri, að fá myndir til þess að taka eftir þeim og við ábyrgjumst síðan að þær verði jafnskjótt sendar til eigenda. Við höfum komist að raun um gríðarlega að margir hafa miklar taugar til þessara skipa, en hins vegar heyrist miklu oftar talað frekar neikvætt um þau. Og ég þekki það frá æsku minni á Húsavík, sem ekki var togarabær á þeim tíma, að mórallinn var á þá lund að togarafiskur væri vart mannamatur. Oft var einnig talað um að það væru tómar fyllibyttur á þessum skipum, í heimabæjum togaranna, en þessu sama fólki fannst t.d. alveg sjálfsagt þegar það mætti til vinnu í frystihúsunum að morgni annars janúar, að loknu góðu jólaleyfi, að það lægju helst ein 250 tonn af hráefni á gólfinu. Fólk velti því ekki mikið fyrir sér að allt þetta hráefni kom auðvitað af þessum sömu nýsköpunartogurum, frá "fyllibyttunum" sem fórnuðu jólunum fyrir þetta. Við eigum að láta af þessu sem ég vil kalla einu orði, niðurlægingu, um þessi skip og það fólk sem á þeim starfaði," segir Hafliði.

                            Lögðu grunninn að hagsældinni.

 Skipstjórnarmenn sem voru um borð í nýsköpunartogurunum tala almennt vel um vistina um borð í þeim. Auðvitað gat þetta verið botnlaus vinna, en sjómennirnir sem voru um borð í togurunum segja þessi ár vera þau eftirminnilegustu til sjós. "Ég vil segja að þessir togarar lögðu grunninn að þeirri efnahagslegu hagsæld sem við búum við í dag. Það var reyndar talað um að tap hafi verið af rekstri þeirra, en það er eins og það er. Maður ólst líka upp við þann söng að endalaust tap væri á frystihúsunum. Engu að síður voru þau rekin áfram og stjórnvöld felldu gengið með reglulegu millibili til þess að halda þessu öllu gangandi."


B.v. Hvalfell RE 282. TFLC. Smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley árið 1947 fyrir h/f Mjölni í Reykjavík. 655 brl. 1.000 ha. gufuvél.   (C) Ólafur K Magnússon.


Fullt dekk af fiski um borð í B.v. Hvalfelli RE 282.                                             Ljósmynd í minni eigu.


B.v. Sólborg ÍS 260. TFQD. Smíðuð hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen árið 1951 fyrir Ísfirðing h/f á Ísafirði. 732 brl. 1.000 ha. gufuvél. Hét Stígandi á smíðatíma. Smíðanúmer 736.
(C) Jón Hermannsson.  Ljósmynd í minni eigu.


B.v. Þorkell máni RE 205. TFCG. Smíðaður hjá Goole S.B. & Repg. Co Ltd í Goole árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f. 722 brl. 1.332 ha. Ruston díesel vél. Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77. TFUC. Smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen árið 1951  fyrir h/f Gylfa á Patreksfirði. 681 brl. 1.000 ha. gufuvél. Hét Andvari á smíðatíma. Smíðanúmer 825. 
Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.

                                   Hafsjór af fróðleik.

 Hafliði segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á skipum, "allt frá því ég sá skip fyrsta sinni", eins og hann orðar það. "Ég man eftir því að hafa farið sem krakki niður á höfn og um borð í einhver skip og sett krónu eða fimmeyring á vísan stað fram á stefni, nánar tiltekið við hnýfilinn. Fór síðan um borð næst þegar skipið kom til Húsavíkur jafnvel eftir margar vikur eða mánuði og athugaði hvort peningurinn væri ennþá á sama stað. Ég man ennþá lyktina um borð í sumum millilandaskipunum," segir Hafliði, sem síðar fór sjálfur til sjós sautján ára gamall 1977 og var meira og minna á sjó til ársins 1997 þegar hann ákvað að láta staðar numið vegna áverka í baki sem hann hafði hlotið í alvarlegu bílslysi fimm árum áður. Það fer ekkert á milli mála að Hafliði er hafsjór af fróðleik um íslenska skipasögu, ekki síst nýsköpunartogarana, sem hann segir að hægt væri að segja margt um. "Það er til dæmis ekkert um það í þessari upptalningu hver var mestur munur á fyrstu 32 skipunum og "Stefaníuskipunum" en þar er af nógu að taka, sem bíður betri tíma. Það má tína til ýmsar upplýsingar um aukna stærð skipanna, lunningar, bátadavíður, mjölvinnslu, kælingu í lest, frystitæki ofl. Sú vitneskja er í öllu falli til ennþá. og verður vel varðveitt." Hafliði tekur undir að nauðsynlegt sé að koma upp veglegri sýningu um þennan þátt í togaraútgerðarsögu Íslendinga. Það væri vissulega verðugt verkefni.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 2005.
Hafliði Óskarsson.
Kjartan Traustason. 






 
Flettingar í dag: 283
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722469
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 16:30:35