06.08.2021 10:31

766. Skírnir ÍS 410.

Mótorbáturinn Skírnir ÍS 410 var smíðaður af Bárði Tómassyni á Ísafirði árið 1917 fyrir Jón Grímsson kaupmann og Sigurð Hallbjörnsson skipstjóra á Suðureyri við Súgandafjörð. Fura. 21,41 brl. 28 ha. Avance vél. Kjölur bátsins var lagður árið 1916, og smíði hans fór fram undir beru lofti sundamegin  á Ísafjarðartanga, innantil við skipadokku verslunar Árna Jónssonar á Ísafirði. Skírnir var smíðaður að nokkru eftir módeli af Samson, sem strandaði utanvert við Suðureyri vorið 1915. Bárður smíðaði bátinn og réði gerð hans í samráði við Sigurð Hallbjörnsson eigenda hans. Skírnir var tvímastraður, með hekk og rúnnað stefni við sjólínu, grænn á lit með hvíta rönd í efsta borði. Seldur 1924-25, Magnúsi Jónssyni og Valdimar Guðmundssyni á Flateyri. Seldur stuttu síðar, Finni Guðmundssyni frá Görðum í Önundarfirði. Seldur 1926, Haraldi Böðvarssyni útgerðarmanni á Akranesi. Ný vél (1926) 50 ha. Tuxham vél. Frá 26 nóvember 1927 er Haraldur Böðvarsson & Co í Sandgerði eigandi bátsins. Frá 1929 ber Skírnir skráningarnúmerið GK 515. Ný vél (1936) 64 ha. Tuxham vél. Ný vél (1939) 90 ha. June Munktell vél. Frá árinu 1942 er báturinn skráður Skírnis MB 94 og eigandi er Haraldur Böðvarsson & Co á Akranesi. Frá árinu 1946 er hann skráður AK 94. Seldur 20 desember 1948, Sigurgeir Guðjónssyni og Guðjóni Sigurgeirssyni í Grindavík, hét þá Skírnir GK 79. Seldur 16 maí 1955, Guðmundi Guðmundssyni og fl. Miðneshreppi. Talinn ónýtur vegna þurrafúa og tekinn af skrá árið 1966. Skírnir endaði á þrettándabrennu í Keflavík hinn 6 janúar árið 1968.

Skírnir ÍS 410 var einnig sagður vera 28 brl í þessari heimild Páls, en líklegra er að hann hafi verið eitthvað minni, eins og segir hér að ofan, 21,41 brúttólest.

Heimild: Flotið á fleyjum tólf.
Páll Hallbjörnsson. Ægisútgáfan 1969.


Skírnir ÍS 410.                                                                               Málverk Jóhanns Pálssonar.

                Aflabrögð 1929

Sumir mótorbátar hafa aflað með afbrigðum vel og eftir því, sem "Ægir" hefir frjett, hefir einn þeirra sett met. Er það mótorbáturinn "Skírnir" frá Sandgerði G. K. 515, nú eign Haralds Böðvarssonar kaupmans á Akranesi; áður Í. S. 410, eign Finns Guðmundssonar á Önundarfirði. Formaður "Skírnis" nú, er Eyjólfur Jónsson að Bræðraborg á Akranesi. Afli hans var frá ársbyrjun til 20. maí, 988 skippund af fullstöðnum fiski og hlutur hvers háseta 3168 krónur. Við bátinn unnu 11 menn, 5 á sjó og 6 á landi. Þessi bátur hjelt til í Sandgerði; hann er 21 smálest að stærð.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1929.


Skírnir GK 515.                                         Ljósmyndari óþekktur. Úr safni Haralds Sturlaugssonar.


Skírnir GK 79 brotinn niður á þrettándabrennu í Keflavík 1968.   (C) Sveinn Þormóðsson.

           "Og skipin koma og skipin
          blása og skipin fara sinn veg"

            Nokkur orð um gamalt skip,
            sem brennt verður í kvöld

"Hér heilsast fánar framandi þjóða.
Hér mæla stkipin sér mót,
sævarins fákar, seim sæina klufu,
og sigruðu úthafsins rót.
Og höfnin tekur þeim opnum
örmum,
og örugg vísar þeim leið.
Því skip er gestur á hverri höfn.
þess heimkynni djúpin breið.
Svo mælir Tómas Guðmundsson í einu kvæða sinna úr "Fögru veröld". Ekkert tæki sem mannshöndin stjórnar er eins lifandi og skipið, skipið, sem hefur öslað gegn ólgandi hafi, liðið um sléttan sæ álfabreiða og hlaðizt gulli lands okkar. Þeir sem ganga um bryggjurnar og horfa á skipin bundin við kengi sjá, að þau toga stöðugt í og vilja hreyfingu og þau toga ósjálfrátt í manninn sem horfir á og koma honum á hreyfingu einnig, hvort sem það er af gleði eða ótta. Skip njóta styrkra handa sjómanna í hversdagsbaráttunni og hver hlutur um borð á sína sögu og sál, því skipið er flókin keðja tryggra hlekkja, stýrishjól, kjölur, ankeri, kaðlar, kinnungur, stefni, landþernur o.fl. o.fl., sem mannshöndin hefur handleikið. Þessar línur eru hripaðar í tilefni þess að í kvöld verður bálför gamals skips íslenzku þjóðarinnar, skips, sem færði björg í bú og átti giftu heppninnar. Skipið kemur ekki oftar sem gestur til hafnarinnar, eða heim til sín á miðin, það verður bálköstur á þrettándagleði og álfadansi í Keflavík í kvöld, það mun brenna eins og skip víkinganna forðum.
Vélbáturinn Skírnir var keyptur til Akraness frá Flateyri af Haraldi Böðvarssyni árið 1926. Þá var sett ný vél í fleytuna, sem var 28 tonn að stærð og aflakóngurinn Eyjólfur Jónsson á Akrnesi var ráðinn skipstjóri á bátinn. Aðra vertíðina sem Eyjólfur var með bátinn setti hann aflamet og fiskaði 200  skippund. Skírnir reyndist mesti happabátur og var lengi í eigu Haraldar Böðvarssonar og Co og var með betri bátum þess fyrirtækis. Skírnir var síðar seldur til Grindavíkur og var stöðugt í notkun þar til að yfir lauk og þurrafúi og fleiri bátakvillar heltóku skrokkinn. En Skírnir er ekki úr sögunni því að Haraldur Bövarsson og Co á nýjan Skírnir AK-12 úr stáli, 150 tonna skip, sem var byggt 1960 og hefur einnig reynzt happaskip, Tómas heldur áfram í einu ljóða sinna og segir: "Og skipin koma og skipin blása og skipin fara sinn veg."

Morgunblaðið. 6 janúar 1968.
Grein Árna Johnsen.


Flettingar í dag: 941
Gestir í dag: 399
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388412
Samtals gestir: 621436
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 18:48:30