09.08.2021 10:19

2. m. kt. Verdandi KG 380. KCJD.

Mótorkútterinn Verdandi KG 380 var smíðaður í Great Yarmouth í Englandi árið 1884 fyrir George Beeching í Hull, hét þá Aloungpyah H 1391. Eik. 88 brl, 55 nettó. Dýpt miðskips var 10,6 ft.Var í eigu Hull Steam Fishing & Ice Company í Hull frá 1891-1899. Óvíst hvenær vél var sett í skipið, en í því virðist hafa verið 100 ha. Bolinder vél eftir fréttaklausunni hér að neðan. Heimild frá Færeyjum segir vélina hafa verið 50 ha. Árið 1920 kaupa þeir Helgi Hafliðason kaupmaður, Sören Goos síldarsaltandi og Jón Sigurðsson skipstjóri á Siglufirði skipið í Svíþjóð, hét það þá Verdandi 3519. Ætlun þeirra var að nota skipið til fiskveiða í Faxaflóa. Einnig var það notað til flutninga milli landa á ýmsum vörum. Verdandi var seldur árið 1922, J.F. Kjölbro í Klaksvík í Færeyjum, hét þá Verdandi KG 380. KCJD. Ný vél (1927) 70 ha, gerð óþekkt. Selt 1931, A/S Balslev & Gose í Þórshöfn, hét þá Verdandi TN 335. Ný vél (1936) 47 ha, gerð óþekkt. Selt 1938, S. Simonsen í Saltangaraa (Þórshöfn), hét Verdandi FD 535. Skipið fórst með allri áhöfn, 13 mönnum í miklu óveðri er geisaði við Norður og Vesturland hinn 26 október árið 1944. Verdandi var þá á leið til Reykjavíkur frá Siglufirði.

Heimildir: Jan Erik Simonsen.
                  Birgir Þórisson.
                  Enska skipaskráin.


Mótorkútterinn Verdandi KG 380 frá Klaksvík.                   (C) Jan Erik Simonsen.

         Mótorkútterinn "Verðandi"

»Verðandi« heitir mótorkútter sem hér er kominn er þeir kaupmennirnir Helgi Hafliðason og Sören Goos og skipstjóri Jón Sigurðsson keyptu í Svíþjóð síðastliðinn vetur og var ætlun þeirra að halda skipinu út á fisk við Faxaflóa. Verðandi er myndarlegt skip nær 100 smálestir á stærð, með 100 hesta Bolindervél og vel útbúinn. Í vor og sumar hefur hann verið í flutningaferðum milli landa, kom nú með timburfarm til Blönduóss. Verðandi á heimilisfang í Siglufirði og er fyrsta skipið sem skrásett er héðan, hann hefur merkið S.F. 71.

Fram. 34 tbl. 25 ágúst 1920.


Verdandi KG 380.                                                                           (C) Jan Erik Simonsen.


Verdandi á siglingu. Þeir gátu sopið sjóinn kútterarnir.                             (C) Jan Erik Simonsen.


Verdandi að lands saltfiski í Skálafirði árið 1939.                                    (C) Jan Erik Simonsen.

          Færeyska skútu vantar

Slysavarnafjélagið lýsti í gærkvöldi eftir færeyskri skútu, Verðandi. Skipið fór frá Siglufirði þann 25. okt. s.l. og ætlaði til Reykjavíkur. Skipið er enn ókomið og hefir Slysavarnafjelagið spurst fyrir um skipið, en ekkert til þess frjett. Verðandi mun vera 70-80 smálestir með fjögurra til 6 manna áhöfn.

Morgunblaðið. 5 nóvember 1944.


Málverk af Verdanda.                                                                                          (C) Hans Skálagard.

       Færeyski kútterinn talinn af
                13 menn fórust

Færeyski kútterinn ,Verðandi" frá Saltangirá, er Slysavarnafjelagið lýsti eftir s. l. laugardag 4. nóv., er talinn af. Með skipinu fórust 13 menn, en ekki sex, eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu, allt Færeyingar. Ekkert hefir spurst til skipsins síðan það fór frá Siglufirði, þann 25. október og ætlaði til Reykjavíkur. Afspyrnu veður var fyrir Norður- og Vesturlandi um þetta leyti og urðu skip fyrir miklum skemdum á þeim slóðum. Verðandi var mjög gamalt skip, eigandi þess Simon Simonsen. Skipstjóri var einn af bestu skipstjórum færeyska flotans, Ole Larsen.

Morgunblaðið. 7 nóvember 1944.
Flettingar í dag: 941
Gestir í dag: 399
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388412
Samtals gestir: 621436
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 18:48:30