29.08.2021 11:24

959. Strákur SI 145. TFDH.

Vélbáturinn Strákur SI 145 var smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1956. Eik. 59 brl. 280 ha. MWM vél. 21,41 x 4,67 x 2,21 m. Hét áður Páll Pálsson ÍS 101 og var eigandi hans Ver hf (Jóakim Pálsson og fl.) í Hnífsdal frá 19 janúar 1957. Báturinn var seldur 19 desember 1962, Ver hf á Siglufirði, hét Strákur SI 145. Báturinn sökk út af Hópsnesi við Grindavík 18 október árið 1965. Áhöfnin, 9 menn, bjargaðist á síðustu stundu um borð í breska togarann Imperialist FD 83 frá Fleetwood.
Skipstjóri á Strák var Engilbert Kolbeinsson en aðrir í áhöfn hans voru, Gísli Ólafsson stýrimaður, Aðalsteinn Valdimarsson, Sigurbjörn Guðmundsson, Matthías Bjarnason, Lúðvík Jacobsen, Henning Johannesson, Hans Kálvalíð og Gert Johannesson. Skipstjóri Imperialist hét John Mcklenburgh jr.


Vélbáturinn Strákur SI 145.                                                                (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                 Strákur SI 145

Hlutafélagið Ver í Siglufirði hefur keypt bátinn Pál Pálsson ÍS 101 frá Hnífsdal og nefnist hann nú Strákur SI 145. Báturinn er rúmar 60 lestir á stærð, og búinn öllum tækjum og útbúnaði til Iínu, neta- og síldveiða. Skipstjóri er Sigurjón Jóhannsson. Báturinn hefur þegar farið nokkra róðra og mun leggja aflann upp hjá S.R.

Einherji. 27 október 1962.


Togarinn Imperialist FD 83 frá Fleetwood í Englandi bjargaði áhöfninni af Strák á síðustu stundu. Imperialist var smíðaður hjá Smith´s Dock Co. Ltd, South Bank-on-Tees í Middlesbrough í Englandi árið 1939. 520 brl. 925 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1058. 175,9 ft. á lengd. Hét fyrst Imperialist H 2 og var í eigu Hull Great Northern Fishing Co Ltd í Hull. Togarinn var í eigu Wyre Trawlers Ltd í Fleetwood þegar áhöfninni, 9 mönnum var bjargað af Strák SI 145.                     Mynd úr safni mínu.

      Brezkur togari bjargaði skipverjum
            af vélbátnum Strák SI 145

Vélbáturinn Strákur, SI 145, fórst út af Grindavík í gærkvöldi, en enski togarinn Imperialist bjargaði áhöfninni, 9 mönnum, á síðustu stundu. Strákur, sem var 59 tonna eikarbátur, var á leið frá Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar. Klukkan fimm mínútur yfir sex í kvöld sendi Strákur út neyðarkall, sem Loftskeytastöðin í Reykjavík tók á móti. Sagðist skipstjórinn þá vera út af Grindavík, og væri talsverður leki kominn að bátnum. Bað hann um að samband væri haft við Grindavík, til þess að vita um hvort unnt væri að sigla þangað inn. Þegar þetta gerðist var sunnan hvassviðri á þessum slóðum og mikill sjór. Eins og við mátti búast var haugabrim í Grindavík og innsiglingin algerlega ófær. Varð því þegar ljóst, að ekki væri um að ræða að sigla þangað inn. Skömmu síðar, stöðvaðist vél bátsins, vegna þess hve mikill sjór var kominn í vélarrúmið, og var því útlitið harla óglæsilegt og báturinn þá staddur rúmar tvær mílur undan Hópsnesi.
Kallaði Loftskeytastöðin í Reykjavík nú upp öll skip, sem nálæg voru og náðist samband við nokkur þeirra, m. a. togarana Ask og Hvalfell og flutningaskipið Önnu Borg. Askur var næstur þessara skipa, en þó um 35 mílur í burtu. Hélt hann á fullri ferð til aðstoðar hinum nauðstadda báti. Skipsmenn á Strák settu upp segla útbúnað til þess að freista þess að slaga bátnum fyrir utan og reyna að hamla á móti því að hann ræki upp í land, en landtaka er þarna næstum eins óglæsileg og hún getur verið í slíku veðri. Jafnframt þessu var slysavarnadeildin í Grindavík kvödd út og fylgdist hún vel með bátnum, en ljós hans og neyðarblys sáust frá Grindavík. Ætluðu björgunarsveitarmenn að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að bjarga mönnunum, ef svo tækist til að bátinn ræki upp í fjöru. Gekk svo nokkra hríð og jókst stöðugt lekinn í bátnum, en bátsverjum tókst að halda bátnum frá landi og slaga austur fyrir Hópsnes, og voru þá á rýmri sjó. Um klukkan átta í kvöld náðist svo allt í einu samband við brezka togarann Imperialist, sem reyndist örskammt undan bátnum. Tók hann Þegar að leita hans. Klukkan tíu mínútur yfir átta tilkynnti skipstjórinn á Strák að hann sæi til togarans. Um klukkan tuttug mínútur yfir átta taldi skipstjórinn á Strák ekki þorandi fyrir mannskapinn að vera lengur um borð og tilkynnti að þeir færu að fara í gúmbátana. Þegar til kom vildi svo illa til að annar báturinn reyndist í ólagi, eins og því miður kemur of oft fyrir, og var ekki talið ráðlegt að nema sjö menn færu í hann, en skipstjórinn varð eftir við annan mann. Örskömmu síðar kom svo togarinn Imperialist að Strák.
Lagði hann tvisvar að bátnum og í annari atrennu tókst mönnunum að stökkva um borð. Er togarinn lagði að Strák í annað sinn mun báturinn hafa brotnað eitthvað. Skipstjórinn sagði, áður en hann yfirgaf Strák, að hann myndi láta vita, þegar hann væri kominn yfir um borð í Imperialist. Leið nú og beið alllöng stund, eða nær klukkutími, svo ekkert heyrðist til Imperialist og voru menn orðnir uggandi um björgunina. Loftskeytastöðvarnar í Grindavík og Reykjavík, sem höfðu verið í stöðugu sambandi við Strák, kölluðu Imperialist upp í sífellu og fengu íslenzk og ensk skip í lið með sér, en árangurslaust. Klukkan hálf tíu barst svo loks hið langþráða svar. Þá kallaði skipstjórinn af Strák út frá Imperialist og svaraði togaranum Aski og sagði að allir skipverjar af Strák væru komnir heilu og höldnu um borð í togarann.
Báturinn Strákur SI, 145 var 59 tonna eikarbátur byggður á Ísafirði árið 1956 og hét áður Páll Pálsson, ÍS 101. Báturinn var á leið frá Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar þegar óhappið varð. Mun skipstjórinn hafa siglt bátnum við annan mann til Vestmannaeyja til þess að ná þar í mannskap á bátinn og Sæljónið frá Hafnarfirði. Voru níu menn á bátnum, þegar óhappið varð. Imperialist hélt með mennina til Reykjavíkur og var togarinn væntanlegur um þrjúleytið í nótt.

Tíminn. 19 október 1965.


Vélbáturinn Páll Pálsson ÍS 101.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

              Nýr glæsilegur fiskibátur í eigu                                            Hnífsdælinga  

Á laugardagskvöldið hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar h.f. á Ísafirði,  nýr 59 smálesta bátur. Þetta er glæsilegt og traust skip vandað að frágangi, eins og öll skip frá þessari kunnu skipasmíðastöð. Hann er smíðaður úr eik, en yfirbygging er úr stáli. Nafn bátsins er Páll Pálsson Í.S. 101 og er heimilisfang Hnífsdalur. Báturinn er smíðaður eftir teikningu Eggerts B. Lárussonar, og er með 280 hestafla Mannheim dieselvél. Í bátnum er dekkspil og vökvadrifið línuspil, Simrad dýptarmælir með asdicútfærslu. Þá á að setja í bátinn ljósavél. Mannaíbúðir eru klæddar með plastikplötum og eru þær sérlega smekklegar.
Yfirsmiður við smíði bátsins var Marsellíus Bernharðsson. Vélsmiðjan Þór h.f. sá um uppsetningu vélar. Neisti h.f. annaðist raflagnir og Ólafur Kristjánsson, málningu. Skipstjóri á bátnum verður Jóakim Pálsson og vélstjóri Friðbjörn Friðbjörnsson. Eigandi bátsins er Ver h.f. í Hnífsdal og er stjórn félagsins þannig skipuð:
Jóakim Pálsson, formaður, Ingimar Finnbjörnsson og Friðbjörn Friðbjörnsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Einar Steindórsson. Páll Pálsson mun hefja róðra innan skamms.

Vesturland. 24 janúar 1957.


Flettingar í dag: 550
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720447
Samtals gestir: 53510
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 07:22:16