24.03.2018 04:49

2891. Kaldbakur EA 1 á leið í Barentshafið.

Togari Útgerðarfélags Akureyringa, Kaldbakur EA 1 hélt af stað frá Dalvík í gær áleiðis til veiða í Barentshafið. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessa myndasyrpu af Kaldbak þegar hann lét úr höfn á Dalvík og sigldi út Eyjafjörðinn í blíðunni í gær.

2891. Kaldbakur EA 1 TFCD á útleið frá Dalvík í gær.

2891. Kaldbakur EA 1.

2891. Kaldbakur EA 1.

2891. Kaldbakur EA 1.

2891. Kaldbakur EA 1.

2891. Kaldbakur EA 1.

2891. Kaldbakur EA 1 heldur til hafs áleiðis í Barentshafið.        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


22.03.2018 05:50

2890. Akurey AK 10 bíður löndunar í Örfirisey.

Ég tók þessar myndir af Akurey AK 10 í gærmorgun þar sem togarinn bíður löndunar við Granda bryggjuna í Örfirisey. Veit ekki hvað þeir voru að fiska en skipið er talsvert sígið að framan. Fallegt skip Akurey.


2890. Akurey AK 10. TFJH.


2890. Akurey AK 10. TFJH.


2890. Akurey AK 10. TFJH.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 mars 2018.

19.03.2018 20:10

2889. Engey RE 1 í slipp.

Engey RE 1 í slippnum í Reykjavík nú í kvöld. Ekki veit ég út af hverju skipið er komið upp, hvort það sé í einhverri skoðun eða eftirliti. Það er rúmt ár síðan Engey kom til landsins. Fallegur skrokkurinn og samsvarar sér vel. Glæsilegt skip Engey RE 1.


2889. Engey RE 1. TFJG. Í slippnum nú í kvöld.


2889. Engey RE 1.


2889. Engey RE 1.


2889. Engey RE 1.


2889. Engey RE 1.


Engey og Cape Race í Slippnum.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 mars 2018.


18.03.2018 09:23

2220. Svalbakur EA 2. TFCL.

Svalbakur EA 2 var smíðaður hjá Örskov Staalskibswærft A/S í Frederikshavn í Danmörku árið 1989 fyrir National Sea Products á Nýfundnalandi, hét Cape Adair. 1.419 brl. 4.484 ha. MaK 9M453C, 3.332 Kw. Smíðanúmer 171. Selt í apríl 1994, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, hét Svalbakur EA 2. Árið 1997 fær skipið nafnið Svalbakur ROS 810, sami eigandi. Hét Svalbakur ÞH 6 frá árinu 1999 með heimahöfn á Raufarhöfn. Skipið var leigt / selt til Færeyja árið 2000, hét þar Ocean Pride VN 555 og var gert út frá Signaböur á austurströnd Straumeyjar í Færeyjum. Skipið heitir Newfound Pioneer og er gert út frá St. John á Nýfundnalandi í dag.


2220. Svalbakur EA 2 við komuna til Akureyrar 22 apríl 1994.                      (C) Snorri Snorrason.


Cape Adair að verða Svalbakur EA 2 í Halifax.                          (C) Útgerðarfélag Akureyringa hf.


Svalbakur EA 2 sjósettur eftir nafnabreytinguna í Halifax.            (C) Útgerðarfélag Akureyringa hf.

      Mikill fjöldi fólks skoðaði Svalbak EA 2                      Fyrsta skrefið til endurnýjunar stigið

Nýr togari, Svalbakur EA-2, bættist í togaraflota Akureyringa sl. föstudag. Töluverður mannfjöldi hafði safnast saman þegar skipið lagði að. Við komu skipsins sagði stjórnarformaður Útgerðarfélags Akureyringa hf., Halldór Jónsson bæjarstjóri, m.a.:
"Við stöndum nú á tímamótum. Þau skip sem Útgerðarfélagið hefur keypt á undanförnum árum hafa öll tengst kaupum á veiðiheimildum til að styrkja okkar stöðu og viðhalda möguleikum okkar til að nýta okkar vinnslugetu. En nú er þessu öðru vísi farið. Það er orðið tímabært að hefja markvissa endurnýjun á okkar fiskiskipum sem mörg eru orðin nokkuð gömul. Fyrsta skrefið hefur verið stigið með kaupum á þessu skipi og með því opnast möguleikar á að takast á við ný verkefni.
Svalbakur er smíðaður í Danmörku árið 1989 og er sérstaklega styrktur til siglingar í ís, auk þess að vera vel búinn tækjum og búnaði. Svalbakur er eitt stærsta og fullkomnasta fiskiskip Íslendinga. Þróunin í veiðum er sú að sífellt er sótt lengra og lengra og því nauðsynlegt að aðlaga veiðitækin að þeirri þróun. Með þessu skipi opnast möguleikar til veiða á úthafinu og á rækju. Það er ósk okkar að Svalbakur eigi eftir að færa mikla björg í bú".

Dagur. 26 apríl 1994.


Newfound Pioneer heitir skipið í dag.                                     (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2220. Svalbakur EA 2. Fyrirkomulagsteikning.                                (C) Ægir. 1 júní 1994.

                  Svalbakur EA 2

Nýr skuttogari bottist við flota Akureyringa 22. apríl sl., en þann dag kom Svalbakur EA 2 í fyrsta sinn til heimahafnar. Skuttogari þessi, sem áður hét Cape Adair, er smíðadur árið 1989 fyrir Kanadamenn hjá Qrskov Christensens Staalskibsvorft A/S í Frederikshavn í Danmörku, smíðanúmer 171 hjá stöðinni. Hönnun skipsins var í höndum Nordvestconsult A/S í Álesund í Noregi. Svalbakur EA er frystitogari með heilfrystilínu og rokjuvinnslulínu. Skipið er storsta skip íslenska fiskiskipaflotans, ívið skrokkstærra en Arnar HU, sem kemur fram í meiri dýpt að þilförum, og þá er aðalvélin sú aflmesta í fiskiskipaflotanum. Skipið var smíðað undir eftirliti Germanischer Lloyd, en fært yfir í Lloyd's Register, og er smíðað í mjög háum ísklassa, og er einnig með flokkun á vaktfrítt vélarúm. Eftir að skipið kom til landsins voru gerðar ákveðnar breytingar á búnaði á vinnsluþilfari. Hinn nýi Svalbakur EA kemur í stað Svalbaks EA 302 (sk.skr.nr. 1352), 781 rúmlesta skuttogara, smíðaður árið 1969, en keyptur til landsins árið 1973. Þess má geta að umræddur togari var flakavinnslutogari, þegar hann var keyptur til landsins, en sá búnaður tekinn úr honum. Jafnframt hverfur úr rekstri frystitogarinn Guðmunda Torfadóttir VE (2191), sem keyptur var til landsins á sl. ári, og lítill trébátur. Svalbakur EA er í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf. Skipstjóri á skipinu er Kristján Halldórsson og yfirvélstjóri Bergur Bergsson. Framkvomdastjóri útgerðar er Gunnar Ragnars.
Mesta lengd 67.00 m
Lengd milli lóðlína 59.30 m
Breidd (mótuð) 14.00 m
Dýpt að efra þilfari 9.00 m
Dýpt að neðra þilfari 6.20 m
Eigin þyngd 2.067 tonn.
Særými (djúprisra 6.20 m)
3.308 tonna burðargeta (djúprista 6.20 m)
1.241 tonna Lestarrými (undirlest) 1.175 m3
Lestarrými (milliþilfarslest) 145 m3
Brennsluolíugeymar 657.4 m3
Ferskvatnsgeymar 48.0 m3 Stafnhylki (sjókjölfesta) 64.6 m3
Andveltigeymir (brennsluolía) 94.0 m3
Brúttótonnatala 2.291 BT Rúmlestatala 1.419 Brl.
Skipaskrárnúmer 2220.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1994.

Heimild: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


17.03.2018 08:33

616. Jón Guðmundsson KE 4. TFNY.

Vélskipið Jón Guðmundsson KE 4 var smíðaður hjá Schlichting Werft í Lubeck-Travemunde í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ólaf Lárusson útgerðarmann í Keflavík. Eik. 68 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Skipið var selt 10 júní 1964, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ísleifur ÁR 4. Selt 7 desember 1971, Bakkaskipi h/f á Eyrarbakka, hét Askur ÁR 13. Ný vél (1976) 425 ha. Caterpillar díesel vél. 11 júlí var Byggðasjóður eigandi skipsins. Selt 15 maí 1981, Herði Bjarnasyni á Ísafirði, hét Guðbjörg ST 17. Frá 18 maí 1981 hét skipið Laufey ÍS 251. Frá sama tíma var skipið skráð á Byggðasjóð. Selt 21 október 1982, Friðrik Friðrikssyni, Sveini Sveinssyni, Jóhannesi Friðrikssyni og Hauki Jónassyni á Siglufirði, hét Dagur SI 66. Selt 18 desember 1985, Flóa h/f á Patreksfirði, hét Egill BA 77. Selt 14 júlí 1987, Stefáni Rögnvaldssyni á Dalvík, hét Stefán Rögnvaldsson EA 345. Ný vél (1988) 510 ha. Caterpillar díesel vél, 375 Kw. Skipið var selt árið 2008, Skarfakletti ehf á Blönduósi, hét Stefán Rögnvaldsson HU 345. Árið 2011 er nafni skipsins breytt, hét þá Stefán HU 38, sami eigandi. Selt sama ár Reddingu ehf á Flateyri, hét Markús ÍS 777. Skipið sökk við bryggju á Flateyri 3 ágúst 2013 en náðist upp stuttu síðar. Það var svo 19 september sama ár þegar Kristbjörg ÍS 177 var með Markús í drætti frá Flateyri til Ísafjarðar, en þar átti að rífa skipið, að það sökk endanlega út af Sauðanesi.


616. Jón Guðmundsson KE 4.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

     Fimmti nýi báturinn til Keflavíkur

Keflavík, 4. apríl. Nýr bátur kom í morgun til Keflavíkur, Jón Guðmundsson KE 4. Hann er smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi eftir teikningu Tryggva Gunnarssonar frá Akureyri. Í bátnum er 400 ha. Mannheim dieselvél og öll nýjustu og beztu tæki til siglinga og fiskleitar.
Skipið reyndist mjög vel á heimleið. Skipstjóri er Arnbjörn Ólafsson, sonur Ólafs Lárussonar eiganda bátsins, og verður hann einnig fiskiskipstjóri. Hann fer á netaveiðar á morgun. Þetta er 5 nýi báturinn, sem kemur til Keflavíkur á þessari vertíð.

Morgunblaðið. 12 apríl 1960.


616. Jón Guðmundsson KE 4. Líkan Gríms Karlssonar.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


616. Stefán Rögnvaldsson EA 345.                                                 (C) Hafþór Hreiðarson.


616. Markús ÍS 777.                                                                         (C) Jón Steinar Sæmundsson.

      Markús ÍS sökk í Flayteyrarhöfn

Trébáturinn Markús ÍS sökk í Flateyrarhöfn aðfararnótt sunnudags en lensidæla skipsins var ekki í gangi. Guðmundur M. Kristjánsson, yfirmaður hafna Ísafjarðarbæjar, segir bátinn á ábyrgð eigenda sinna og var hann í þeirra umsjá. Reyna átti að ná bátnum upp á þriðjudag. Markús er gamall trébátur sem var smíðaður árið 1960 og hefur ekki verið gerður út í nokkurn tíma.

Bæjarins besta. 8 ágúst 2013.


616. Markús ÍS 777 sokkinn í höfninni á Flateyri.                                              (C) Páll Önundarson.

      Markús ÍS sökk út af Sauðanesi

Þann 19. september 2013 var Markús ÍS 777 í drætti við Sauðanes. Veður: NV 8 m/sek. Það var Kristbjörg ÍS 177 sem var á leiðinni með Markús ÍS frá Flateyri til Ísafjarðar en þar átti hann að fara í niðurrif. Þegar bátarnir voru staddir út af Sauðanesi slitnaði dráttartaugin og eftir nokkurn tíma tókst að koma annarri taug á milli þeirra aftur en þá var Markús ÍS orðinn talsvert siginn. Fljótlega eftir að lagt var að stað aftur sökk Markús ÍS á stað 66°06'52N og 23°40'17V. (Markús ÍS sökk við bryggjuna á Flateyri þann 3. ágúst 2013 eftir að hafalegið þar síðan í mars 2012). Málið hefur ekki verið tekið fyrir.

Rannsóknarnefnd sjóslysa.


12.03.2018 17:56

2894. Björg EA 7 hélt í sinn fyrsta túr í gær.

Samherjatogarinn Björg EA 7 hélt í sinn fyrsta túr í gær. Skipið kom til landsins í október s.l. og hefur Slippstöðin á Akureyri unnið að uppsetningu á vinnslubúnaði á millidekki og í lest skipsins. Björg EA 7 var smíðuð hjá Cemre Shipyard í Yalova / Istanbúl í Tyrklandi árið 2017. 2.081 Bt. 2.203 ha. Yanmar vél, 1.620 Kw. Eins og áður segir, hélt skipið út í gær í sína fyrstu veiðiferð og óska ég þeim gæfu og góðu gengi, enda með nýtt og glæsilegt skip í höndunum. Þessar myndir tók bróðir minn, Alexander S Gjöveraa á Akureyri af skipinu, sennilega í haust stuttu eftir að það kom til landsins. Var búinn að setja inn myndir af Björgu sem Haukur Sigtryggur sendi mér í haust, en mér leiðist það nú ekki að birta myndir af fallegum skipum.


2894. Björg EA 7. TFKO.


2894. Björg EA 7 við bryggju á Akureyri.


2894. Björg EA 7.


2894. Björg EA 7. Sér í 2891. Kaldbak EA 1 til vinstri.


2894. Björg EA 7. Glæsilegt skip.                                      (C) Myndir: Alexander Smári Gjöveraa.

11.03.2018 08:05

2949. Jón Kjartansson SU 111. TFFF.

Nóta og togskipið Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 2003 fyrir Charisma Fishing Company Ltd í Leirvík á Hjaltlandseyjum. Hét Charisma LK 362. 2.424 Bt. 8.158 ha. Wartsiila vél, 6.000 Kw. Eskja h/f á Eskifirði keypti skipið í maí á síðasta ári og er það gert út á loðnu og kolmunnaveiðar. Skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111 er Grétar Rögnvarsson. Haukur Sigtryggur Valdimarsson tók þessar myndir þegar skipið kom til hafnar á Dalvík í gær. Þakka ég honum kærlega fyrir sendinguna.

2949. Jón Kjartansson SU 111 við bryggju á Dalvík í gær.


2949. Jón Kjartansson SU 111 á leið til hafnar á Dalvík.

Eskja kaupir uppsjávarskipið Charisma                 frá Hjaltlandseyjum

Eskja hf. hefur gengið frá samningi um kaup á nýju uppsjávarskipi frá Lerwick á Hjaltlandseyjum. Skipið heitir Charisma, byggt 2003 í Noregi og er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er MAK 6.000 kw og 8.160 hestöfl.
Skipið ber 2.200 rúmmetra í 9 tönkum með RSW kælingu og mun koma til með að leysa af hólmi aflaskipið Jón Kjartansson SU 111 sem kominn er til ára sinna en hefur þjónað félaginu vel í gegnum tíðina. Charisma mun heita Jón Kjartansson og reiknað með að Eskja fái skipið afhent í byrjun júlí.
Nýr Jón Kjartansson mun afla hráefnis í nýtt uppsjávarfrystihús sem tekið var í notkun í nóvember á síðasta ári og fyrirhugað er að það fari á makrílveiðar í byrjun ágúst næstkomandi.

Vefsíða Eskju. 7 júní 2017.2949. Jón Kjartansson SU 111 á leið til hafnar á Dalvík.


2949. Jón Kjartansson SU 111 í höfn á Dalvík.

               Alli ríki og foreldrar hans

Mikl­ar breyt­ing­ar hafa orðið á skipa­kosti Eskju á Eskif­irði á einu ári. Fjár­fest hef­ur verið í nýrri skip­um, sem nú eru öll á mak­ríl­veiðum í síld­ars­mugunni norðaust­ur af land­inu. Nöfn skip­anna eru gam­al­kunn úr út­gerðar­sögu Eskifjarðar og hafa mikla þýðingu í sögu bæj­ar­fé­lags­ins. Um leið eru þau ná­tengd aðal­eig­end­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­is­ins Eskju, þeim Björk Aðal­steins­dótt­ur og Þor­steini Kristjáns­syni. Í lok ág­úst í fyrra gekk Eskja frá kaup­um á norska upp­sjáv­ar­veiðiskip­inu Li­bas, sem var eitt af stærstu fiski­skip­um norska flot­ans, 94 metr­ar að lengd og tæp­ir 18 metr­ar á breidd. Skipið fékk nafnið Aðal­steinn Jóns­son SU 11, en eldra frysti­skip með sama nafni var selt til græn­lenska út­gerðarfyr­ir­tæk­is­ins Arctic Prime Fis­heries, sem aft­ur seldi það til Rúss­lands. Útgerðarfyr­ir­tækið Brim hf. er hlut­hafi í græn­lenska fyr­ir­tæk­inu.
Upp í kaup­in á Aðal­steini Jóns­syni gekk græn­lenska upp­sjáv­ar­skipið Qa­vak GR 21 og fékk það nafnið Guðrún Þor­kels­dótt­ir SU 211. Það er rúm­lega 60 metra langt, smíðað 1999 í Nor­egi.
Í sum­ar keypti Eskja síðan upp­sjáv­ar­skipið Char­isma frá Hjalt­lands­eyj­um, en það er byggt í Nor­egi 2003 og er 70,7 metr­ar á lengd. Skipið fékk nafnið Jón Kjart­ans­son SU 111, en eldra skip með sama nafni er til sölu.
Daði Þor­steins­son Kristjáns­son­ar er skip­stjóri á Aðal­steini Jóns­syni, Grét­ar Rögn­vars­son er skip­stjóri á Jóni Kjart­ans­syni og Hjálm­ar Ingva­son er með Guðrúnu Þor­kels­dótt­ur. Skip­in afla öll hrá­efn­is fyr­ir nýtt upp­sjáv­ar­frysti­hús Eskju á Eskif­irði sem tekið var í notk­un í nóv­em­ber á síðasta ári. Stjórn­ar­formaður Eskju er Erna Þor­steins­dótt­ir.
Svo aft­ur sé vikið að nöfn­um skip­anna þá hóf Aðal­steinn Jóns­son snemma störf við út­gerð og eignaðist fyrst hlut í bát árið 1946. Árið 1960 tók hann við stjórn Hraðfrysti­húss Eskifjarðar og var for­stjóri fram til árs­ins 2000. For­eldr­ar hans voru Jón Kjart­ans­son póst­ur og Guðrún Þor­kels­dótt­ir hús­freyja og áttu þau sam­an sex börn. Aðal­steinn var þeirra næstyngst­ur. Nöfn skip­anna þriggja eru því sótt til Aðal­steins, Jóns og Guðrún­ar.
Í minn­inga­punkt­um um Aðal­stein seg­ir að rekst­ur fyr­ir­tæk­is­ins hafi ein­kennst af bjart­sýni og áræði Aðal­steins, sem snemma fékk viður­nefnið Alli ríki. Fyr­ir­tækið var jafn­an stærsti vinnu­veit­andi í byggðarlag­inu.
Í lok sjötta ára­tug­ar­ins eignaðist fé­lagið sitt fyrsta skip, Hólma­nes, sem var 130 tonna stál­bát­ur smíðaður í Nor­egi, og var gert út á línu- og neta­veiðar, svo og á síld­veiðar. Á ár­un­um 1962-1970 eignaðist fé­lagið nokk­ur skip af stærðinni 150-260 tonn, sem gerð voru út á línu- og neta­veiðar, síld­veiðar og tog­veiðar.
Í sér­stöku fé­lagi bræðranna Aðal­steins og Krist­ins Jóns­son­ar, sem lengi var stjórn­ar­formaður Hraðfrysti­húss Eskifjarðar, voru gerð út skip­in Jón Kjart­ans­son og Guðrún Þor­kels­dótt­ir og voru bæði mik­il afla­skip, ekki síst á síld.
1967-1968 hvarf síld­in af Íslands­miðum, en nokkr­um árum síðar hóf­ust veiðar á loðnu til bræðslu. Eft­ir því sem þær veiðar juk­ust var talið nauðsyn­legt að fyr­ir­tækið eignaðist skip til hrá­efnisöfl­un­ar og árið 1978 keypti fé­lagið 780 tonna skip er fékk nafnið Jón Kjart­ans­son SU-111, skip­stjóri Þor­steinn Kristjáns­son. 1982 keypti fé­lagið annað skip, 360 tonn, er fékk nafnið Guðrún Þor­kels­dótt­ir SU-211. Hætt var að gera það skip út 2003.
Eft­ir því sem árin liðu urðu breyt­ing­ar í út­gerð og áhersl­um og skipa­kosti sömu­leiðis. Auk­in áhersla var lögð á vinnslu á loðnu, síld og öðrum upp­sjáv­ar­teg­und­um. Nýtt upp­sjáv­ar­skip kom til Eskifjarðar 2006 og fékk nafnið Aðal­steinn Jóns­son. Þá var hins veg­ar ekki að finna Guðrúnu Þor­kels­dótt­ur í flota Esk­firðinga, en það breytt­ist aft­ur í sum­ar. Alli ríki og for­eldr­ar hans hafa því öll verið á sjó síðustu vik­urn­ar. Auk upp­sjáv­ar­skip­anna hef­ur Eskja frá 2010 gert út línu­bát­inn Haf­dísi SU 220
.

Morgunblaðið. 28 september 2017.


Grétar Rögnvarsson skipstjóri í brúarglugganum.           (C) Myndir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Charisma LK 362.                                                                                                (C) Richard Paton.

     Jón Kjartansson klár eftir breytingar

Seint í gærkveldi hélt hinn nýi Jón Kjartansson SU 111 frá Akureyri áleiðið til heimahafnar á Eskifirði og mun stefnan vera sett á loðnuveiðar á allra næstu dögum.  Skipið hefur verið í miklum breytingum frá því í byrjun nóvember hjá Slippnum á Akureyri.
Eru þær helstar að settur hefur verið nótabúnaður í skipið sem ekki var áður, búin var til nótaskúffa  settur niðurleggjari, ný kraftblökk og nótarör ásamt öðrum verkum sem tengjast svona stóru verki en alls tók verkið á þriðja mánuð.
Skipið var keypt frá Hjaltlandseyjum á síðasta ári og hét Carisma LK 362 og er 70.7 metrar á lengd 14.5 á breidd og 2.424 brúttótonn. það er smíðað árið 2003 og er nánast eins og nýtt, allar vistarverur mjög glæsilegar sem og brúin sem er vel búinn tækjum.

Kvótinn.is 15 febrúar 2018.
10.03.2018 14:29

E. s. Muggur. LBQT.

Gufuskipið Muggur var smíðað í Þýskalandi árið 1897. Stál. 75 brl. 150 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var P.J. Thorsteinsson & Co á Bíldudal frá 24 apríl 1898. Selt til Noregs og tekið af skrá 2 janúar árið 1901. 
Árið 1898 keypti Pétur lítið gufuskip. Það skip skírði hann gælunafni sonar síns, Muggs. Pétur gerði skipið út á doríuveiðar með lóðir og var sá veiðiskapur nýmæli hér við land. Þessi veiðiskapur hentaði vel á fiskibönkunum við Nýfundnaland og Labrador, þar sem veður er stillt, en á Íslandsmiðum var þessi tilraun dæmd til að mistakast. Dönsku skipstjórarnir voru heldur ekki öflugustu mennirnir til að gera þá tilraun arðbæra, og mun Pétur hafa gefist upp á þessari nýbreytni eftir eitt sumar. Muggur komst þá í íslenska fiskveiðisögu sem fyrsta gufuskip Íslendinga, sem gert var út til lóðaveiða, en Súlan, sem Konráð Hjálmarsson gerði út frá Mjóafirði austur, hið næsta. Pétur mun hafa notað Mugg nokkuð til flutninga en seldi hann eftir tvö ár úr landi.


Gufuskipið Muggur.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.


Bíldudalur sumarið 1886.                                                                                   Mynd úr safni mínu.


             Gufuskipið "Muggur"

Gufuskipið "Muggur", eign hr kaupmanns P. J. Thorsteinssonar & Co á Bíldudal, er nú þegar byrjaður fiskiveiðar, kvað hann jafnan veiða á eða nærri Bolungarvíkurmiðum, og beita þar niður lóðir með nýrri síld. Þykir Bolvíkingum þetta slæmur gestur, og segja hann spilla fyrir veiðum almennings hér, þar sem enginn hafi slíka beitu að bjóða.

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 16 febrúar 1899.


07.03.2018 19:39

2889. Engey RE 1 á útleið í dag.

Tók þessa myndasyrpu af Engey RE 1 þegar skipið var á útleið. Sannarlega glæsilegt skip og ekki spillti veðrið fyrir. Sannarlega fallegt veðrið í höfuðborginni í dag.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 mars 2018.

04.03.2018 09:39

507. Valbjörn ÍS 13. LBDH / TFCJ.

Mótorskipið Valbjörn ÍS 13 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. 41 brl. 90 ha. Ellwe vél, smíðuð hjá Svenska Maskinverken í Stokkhólmi, Svíþjóð. Eigendur voru Jón Kristjánsson, Sölvi Ásgeirsson, Ketill Guðmundsson, Finnur Jónsson og Vilmundur Jónsson á Ísafirði frá desember á sama ári. Ný vél (1943) 120 ha. Ruston díesel vél. Frá 3 nóvember 1943, var Samvinnufélag Ísfirðinga eigandi bátsins. Seldur 6 desember 1951, Mími h/f í Hnífsdal, hét Mímir ÍS 30. Ný vél (1955) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 31 október 1959, Gylfa h/f á Ísafirði, hét þá Gylfi ÍS 303. Seldur 28 september 1968, Ólafi V Sverrissyni í Grindavík, báturinn hét Gylfi Örn GK 303. Báturinn sökk út af Höfnum á Reykjanesi 23 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í Gullþór KE 85 frá Keflavík.


Valbjörn ÍS 13.                                                                                       (C) Sigurgeir B Halldórsson.

    Bátar Samvinnufélags Ísfirðinga

Mótorskipum Samvinnufjelags Ísfirðinga hafa nýlega verið nöfn gefin. Heita þau Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Vébjörn og Valbjörn. Ráði félagið yfir 100 skipa flota í framtíðinni, gæti svo farið að það yrði í bjarnarnafnahraki, ef ekki má frá þeim víkja.

Verkamaðurinn. 30 október 1928.

       Bátar Samvinnufélagsmanna

M. s. Sæbjörn, eigandi Ólafur Júlíusson o. fl., kom hingað á aðfaranótt þorláksmessu og hafði verið sjö og hálfan sólarhring frá Risör. M. s. Ísbjörn, eigandi Rögnvaldur Jónsson o. fl., kom hingað að morgni þess 27. M. s. Ásbjörn, eigandi Haraldur Guðmundsson o. fl., var í Vestmannaeyjum í gær. M. s. Vébjörn var í Færeyjum á annan dag jóla, en er nú lagður af stað heimleiðis. M. s. Valbjörn hreppti vont veður og snéri aftur til Noregs, vegna einhverrar bilunar á olíugeymi.
Bátarnir eru allir 44-45 tonn að stærð, með 90 hk. Elwe-vél. Reynst hafa þeir sem komnir eru, hin bestu sjóskip, á þessari löngu og hættulegu ferð.

Vesturland. 29 desember 1928.


507. Valbjörn ÍS 13. Líkan.                                              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Valbjörn ÍS 13

M.b. Valbjörn kom hingað 16. þ m. Eru nú allir bátar samvinnufélagsmanna komnir

Skutull. 18 janúar 1929.


Valbjörn ÍS 13 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                                  (C) Leó Jóhannsson.


507. Gylfi ÍS 303.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

            Sökk á leið í slipp eftir bruna

Vélbáturinn Gylfi ÍS 303 frá Grindavik sökk í gær út af Höfnum á Reykjanesi. Tveir menn voru um borð í bátnum og björguðust þeir yfir í Gullþór KE, sem hafði komið til aðstoðar, þegar mikili leki kom að Gylfa. Gylfi ÍS 303 var 47 tonna eikarbátur, smíðaður í Noregi 1928. Skipstjóri og eigandi var Ólafur Sverrisson, Grindavik, Gylfi var á leið í slipp í Njarðvíkum, en á föstudagsmorgun kom upp eldur í lúkar bátsins í Grindavík. Slökkvilið Grindavíkur var kvatt út klukkan 05:45 á föstudagsmorgun og var lúkar Gylfa þá alelda, Slökkvistarf gekk greiðlega, en miklar skemmdir urðu frammi í bátnum. Talið er, að eldurinn hafi kviknað út frá eldavél.
Seinnipartinn í gær lagði svo Gylfi af stað frá Grindavik til Njarðvíkur, þar sem taka átti bátinn í slipp. Sæmilegt veður var, en þegar báturinn var stadduir út af Hafnabergi, kom að honum mikill leki frammi í. Um borð voru skipstjóri og vélstjóri og tókst þeim ekki að stöðva lekann. Vélbáturinn Gullþór KE var staddur skammt frá og kom hann Gylfa til aðstoðar, en þá hafði vél Gylfa stöðvazt. Gullþór tók Gylfa í tog og var haldið áfram vestur fyrir Reykjanes, en eftir um hálfa klukkstund, um klukkan 18:30 var Gylfi orðinn svo siginn í sjó, að tauginni var sleppt og sökk hann skömmu síðar.
Skipverjar á Gylfa voru þá komnir yfir í Gullþór, sem flutti þá til Grindavíkur. Sjópróf fara fram í dag.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.03.03.2018 07:58

E. s. Ceres. NKHM.

Gufuskipið Ceres var smíðað hjá Kockums Mekaniska Verkstad í Malmö í Svíþjóð árið 1882 fyrir Sydsvenska Angbots A/B í Malmö í Svíþjóð. 1.166 brl. 800 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 36. Skipið var selt Sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn (D.F.D.S), 4 maí 1899. Ceres var í millilanda og strandsiglingum við Ísland í um 20 ára skeið. Margir annálaðir skipstjórar voru þar við stjórn. Má þar nefna, Ryder, Kjær, Da Cunha, Gard, Broberg og Lydersen. Skipinu var sökkt af þýska kafbátnum U-88, um 200 sjómílur norður af Írlandi 13 júlí árið 1917. 2 skipverjar fórust. Aðrir skipverjar og farþegar björguðust um borð í skipsbátana og náðu landi í bænum Barnich á Suðureyjum (Hebrideseyjum), eftir 52 klukkustunda hrakninga.

Strandferðaskipið Ceres á Norðfirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

              "Ceres" hlekkist á

Eimskipið »Ceres« (Broberg skipstjóri) strandaði við Orkneyjar 23. f. m. Var á leið til Reykjavíkur, en rakst á granda þar við eyjarnar og skemmdist dálítið, en þó ekki svo að farþega (né skipverja) sakaði, er allir voru áfram í skipinu þangað til skipsferð féll og þeir gátu haldið burtu. Björgunarskip var þegar sent til þess að draga »Ceres« aftur á flot og gekk það greiðlega, er »Ceres« nú komin til Leith og  verður þar gert við hana svo hún geti byrjað ferðir sínar sem fyrst aftur. Það »sameinaða« hefir þegar sent annað skip til þess að fara þessa ferð er »Ceres« var nú á.

Gjallarhorn. 6 árg. 3 tbl. 5 mars 1912.


Ceres við bryggju á Seyðisfirði.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Ceres sökkt 

Stjórnarráðið fékk í gærmorgun símskeyti frá Lydersen, skipstjóra á Ceres, þess efnis, að skipi hans hafi verið sökkt af þýzkum kafbáti. Skeytið er sent frá litlum bæ sunnarlega á Hebridueyjum kl. 11.50 í fyrradag. Segir skipstjóri að öllum farþegum og skipverjum hafi verið bjargað, nema tveim, öðrum vélameistara, dönskum manni, Danielsen að nafni, og sænskum kolamokara, sem menn ekki vita nafn né deili á með vissu.
Hvar Ceres hafi verið kafskotin, getur ekki um í skeytinu, en það mun hafa verið einhverstaðar í nánd við Hebridueyjar. Ceres var á hingað leið með salt og síldartunnur, en auk þess mun skipið hafa haft póstflutning og nokkra farþega. Vita menn um, að sendimennirnir til London, þeir feðgar Thor Jensen og Richard Thors voru með skipinu og ungfrú Thora Friðriksson. Ennfremur hyggja menn að skipbrotsmenn þeir, sem hér eiga heima, en höfðu ráðið sig á Escondido, sem Þjóðverjar einnig hafa á samvizkunni, muni hafa verið með Ceres.

Morgunblaðið. 18 júlí 1917.


Strand og millilandaskipið Ceres í Kaupmannahöfn.                               Handel & Söfart museet.dk


Ceres. Lituð ljósmynd.                                                                            Handel & Söfart Museet.dk

            Þegar Ceres var sökkt

Í Glasgow í Skotlandi var skipshöfnin af »Ceres« yfirheyrð og sagði hún þá frá því á þessa leið þegar skipinu var sökt:
»Ceres« fór frá Fleetwood hinn 11. júlí og fékk nákvæm fyrirmæli um það, hvaða Ieið hún ætti að fara. Lydersen skipstjóri og stýrimaður sögðu báðir að þeirri stefnu hefði nákvæmlega verið fylgt. Ferðin gekk vel í tvo daga, en er skipið var komið á 50 gr. n. br. og 12 gr. vesturlengdar, kom á það tundurskeyti frá kafbáti, sem eigi sázt. Varð þegar ógurleg sprenging í skipinu. Vélin stöðvaðist samstundis og þegar reykur og gufa fór að réna, var vélrúmið fullt af vatni. Annar vélstjóri, Danielsen og einn kyndari biðu bana við sprenginguna og bakborðsbátur brotnaði í spón. Það tókst að koma stjórnborðsbát á flot og einnig »jullu« og gekk skipshöfnin þar á, ásamt þremur farþegum. »Ceres« sökk á sjö mínútum. Rétt á eftir kom kafbáturinn í ljós á stjórnborða, en þegar hann sá að skipið var sokkið fór hann í kaf aftur. Bátarnir héldu nú til lands. Skömmu síðar sáu þeir tvö svört reköld skammt frá sér og er þeir komu nær sáu þeir að þetta voru fljótandi tundurdufl. Um miðjan dag hinn 15. júli komust bátarnir báðir til þorpsins Bornich á Suðureyjum, eftir harða útivist. Farþegar á Ceres voru 3, þeir Thor Jensen, Richhard Thors og ungfrú Þóra Friðriksson. Nokkrir Íslenzkir sjómenn voru ráðnir á Ceres hér og komu 3 þeirra hingað í gær á Fálkanum. Vér náðum tali af Bjarna Jónssyni Þórðarsonar hafnsögumanns á Vesturgötu 38. Er Bjarni framúrskarandi dugnaðarlegur að sjá og líklega ekki einkisvirði að hafa með á slíkri útivist og þeir áttu, skipverjarnir og farþegarnir á Ceres, eftir að skipinu var sökt. Bjarni segir látlaust og blátt áfram frá, svo sem góðra sjómanna er siður.
Klukkan var 7,15 árdegis föstudaginn 13. júlí. Ceres var þá á að gizka 200 sjómílur norður af Írlandi. Skyndilega varð óttaleg sprenging, vélin stöðvaðist og annar björgunarbáturinn fór í spón, ásamt mörgu öðru á þilfarinu. Kafbáturinn sást þá hvergi, en hann kom úr kafi litlu síðar hinu megin við skipið, en hvarf aftur þegar hann sá, að skipið var að sökkva. Tveggja manna var þegar saknað og hygg eg að þeir hafi báðir farist í vélarúminu þegar sprengingin varð. Farþegar voru ekki komnir á fætur og voru því fáklæddir mjög. En það var um að gera, að hraða sér sem mest. Þóra Friðriksson komst í kjól, en Thor Jensen og Richard Thors voru vestis- og jakkalausir, er þeir hlupu í bátinn. Skipverjar, sem á verði voru, lánuðu þeim nokkuð af sínum fötum, en veður var kalt, rigning og stormur, svo það gat varla farið vel um þau. Þau báru sig samt vel, en sjóveiki hafði ungfrú Þóra megna. Nú var róið og siglt. Mat höfðum við til þriggja daga og vatn nóg.
Og Cognak, ef einhver skyldi veikjast. Eftir 52 stunda veru í bátunum, »julluna« höfðum við bundið aftan í lífbátinn, komum við að landi í Bornich. Var oss tekið þar mjög vel af Bretum og þegar símað eftir skipi til þess að flytja okkur til Skotlands. Í Glasgow vorum við í 10 daga, en fórum svo frá Newcastle til Noregs. Skipverjar og farþegar misstu allt, sem þeir höfðu meðferðis. En það var hreinasta undur, að ekkí skyldu fleiri menn farast, því kafbáturinn gaf oss engan frest til þess að forða oss.

Morgunblaðið. 17 ágúst 1917.


01.03.2018 18:47

Reykjavíkurhöfn í blíðunni í dag.

Það var fallegt veðrið í höfuðborginni í dag, það besta í nokkrar vikur. Hafði það á tilfinningunni að vorið væri að koma, en það er bara 1 mars, já bjórdagurinn, mætti alveg skála fyrir honum. Nei, það er langt í vorið ennþá, langi mars eftir. Reykjavíkurhöfn er alltaf falleg. Tók þessar myndir þar í blíðunni í dag.


Sól og blíða í Reykjavíkurhöfn í dag.


Grandagarður.


Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.


Vesturhöfnin.


Helga María AK 16 og Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 mars 2018.

28.02.2018 19:14

Dráttarbáturinn Magni í slippnum í Reykjavík.

Það var falleg sjón að sjá Magna kominn í slipp. Gott og þarft verk að gera skipið upp, eða að reyna það. Mér finnst nú að ríkið eigi að styrkja þetta verkefni, þetta er jú fyrsta stálskip sem smíðað er hér á landi. Það vantar ekki að það er hlaupið til þegar á að vernda eða endurbyggja einhverja fúabragga hér og þar um landið, þá er til nóg fé. Það vantar ekki. Magni er stór hluti af skipasögu okkar sem ber að varðveita. Mér skilst að ný vél í hann (samskonar vél og er í honum) kosti um 6 milljónir. Minjastofnun mætt alveg koma að þessu verkefni fyrir hönd ríkisins. En hvað um það, Magni er glæsilegt skip og markaði merk tímamót í sögu okkar Íslendinga.


146. Magni. Dráttarskip.      


                                                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 28 febrúar 2018.

  "Magni"afhentur hafnarstjórn á laugardag
  Mjög traustur, verður notaður sem dráttarbátur,                    
ísbrjótur og til vatnsflutninga

Dráttarbáturinn Magni, fyrsta stálskipið, sem smíðað hefur verið hér á landi, var afhent hafnarstjórn á laugardaginn. Benedikt Gröndal verkfræðingur afhenti skipið fyrir hönd Stálsmiðjunnar, en Valgeir Björnsson hafnarstjóri veitti því móttöku fyrir hönd hafnarstjórnar. Í tilefni afhendingar skipsins var borgarstjóra, hafnarstjórn, ýmsum er unnið höfðu að byggingu skipsins og fleiri gestum boðið um borð í Magna, og var skipinu siglt upp undir Gufunes, en þar fór afhendingin fram, Gekk báturinn í þessari siglingu rúmar 11 sjómílur, en hafði áður í reynslusiglingu gengið 12,2 sjómílur á klukkustund. Samningar um smíði Magna voru undirritaðir 28. apríl 1953, og var skipið sjósett frá Stálsmiðjunni 15. október 1954. Síðan hefur verið unnið að niðursetningu véla, innréttinga og öðrum útbúnaði skipsins, og hafa þar ýms fyrirtæki lagt hönd að verki. Vélsmiðjan Hamar sá um niðursetningu aðalvéla, Héðinn um spil, stýrisútbúnað, skrúfu og fleira. Allt tréverk var unnið á vegum Slippfélagsins og raflagnir annaðist Volti h.f. Eins og kunnugt er, þá er Magni byggður sem ísbrjótur, og því mun sterkbyggðari en venjuleg skip, og þó að hann sé einkum ætlaður sem dráttarbátur og til vatnsflutninga fyrir höfnina (en hann tekur um 65 tonn af vatni), er hann byggður samkvæmt fyllstu kröfum um úthafsskip. Vistarverur skipshafnar eru mjög rúmgóðar og smekklega innréttaðar, en í skipinu eru vistarverur fyrir 7 manns, auk sjúkraherbergis. Skipstjóri á Magna verður Theodór Gíslason, en 1. vélstjóri Sigurður Ólafsson. Aðalaflvél skipsins er 1.000 hestöfl, og má geta þess, að hún vegur um 20 smálestir. Auk aðalvélarinnar eru fjórar hjálparvélar, dæluvél og ljósavélar. Rúmteikningar að skipinu gerði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri, en yfirumsjón með byggingunni hafði Gunnar Norðland skipaverkfræðingur Stálsmiðjunnar. Byggingarkostnaður Magna var áætlaður við samningsgerð 6,4 milljónir króna, og sagði hafnarstjóri í ræðu sinni við móttöku skipsins, að líkur væru á að sú áætlun stæðist, en ennþá eru ýmsir reikningar í sambandi við byggingu skipsins óuppgerðir. Tjáði Hafnarstjóri Stálsmiðjunni þakkir sínar fyrir hið stórhuga átak og brautryðjendastarf er hún hefði unnið með byggingu þessa fyrsta stálskips landsins, og kvað alla samvinnu við fyrirtækið hafa verið hina ánægjulegustu.

Vísir. 27 júní 1955.


27.02.2018 07:39

B. v. Jón forseti RE 108. LBJT.

Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Scott & Sons Shipbuilders Bowling Near Glasgow í Skotlandi árið 1906. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Alliance (Thor Jensen kaupmaður og skipstjórarnir Magnús Magnússon, Jón Ólafsson, Halldór Þorsteinsson, Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Sigurðsson) í Reykjavík. Kom skipið til Reykjavíkur hinn 24 janúar árið 1907. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð við Stafnes á Reykjanesi aðfaranótt 27 febrúar árið 1928. 15 skipverjar fórust en 10 skipverjum var naumlega bjargað við hinar verstu aðstæður. Togarinn eyðilagðist og brotnaði hann fljótlega og sökk. 90 ár eru liðin frá þessu átakanlega sjóslysi sem varð til þess að Slysavarnarfélag Íslands var stofnað. Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga að öllu leiti og mjög til hans vandað.B.v Jón forseti RE á siglingu, sennilega á Arnarfirði.                                           (C) Jón J Dahlmann.

      Botnvörpungurinn "Jón forseti"

»Jón forseti«, hið nýja botnvörpuskip Thors kaupmanns Jensens og þeirra 4 skipstjóra, Magnúsar Magnússonar, Jóns Ólafssonar, Halldórs Þorsteinssonar, Kolbeins Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar, kom hingað þann 24. Janúar, beina leið frá smíðastöðinni, Glasgow á Skotlandi. Skipið er mjög fallegt útlits og vandað að öllum frágangi. 86 netto smálestir að stærð, en 250 smálestir brúttó. Það er byggt úr 1/20 þumlunga þykkra járni, með 6. 1/10 þumlunga sverari keðju og 200 punda þyngri atkerum, en Lloyds krefst. Skipið kostar hér um bil 145,000 kr. sjótrygging hér um bil 12,000 kr. um árið.

Tímaritið Ægir. 9 tbl. 1 mars 1907.


Áhöfnin á "forsetanum". Guðmundur Guðjónsson skipstjóri á brúarvængnum ?.  Þjóðminjasafnið.


Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108.                                                            Mynd í minni eigu.

    Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance"

Elsta og stærsta togaraútgerðarfélag á íslandi

Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance" var stofnað árið 1906. Voru stofnendur þess: Thor Jensen kaupmaður, og skipstjórarnir, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Kolbeinn Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Fjórir þessara skipstjóra höfðu áður gert með sjer fjelag og keypt kúttera árið 1904, en þilskipaútgerð stóð þá hjer í mestum blóma. Í páskaveðrinu 7. apríl 1906 fórst Jafet Ólafsson, ásamt mörgum öðrum, en árið 1910 seldi Thor Jensen hlut sinn og gekk úr fjelaginu. Þegar h/f. "Alliance" var stofnað, höfðu Íslendingar litla þekkingu á togaraútgerð og enga reynslu á því sviði.


Athafnasvæði h/f Alliance í Ánanaustum um 1930.                               (C) Magnús Ólafsson.
  
Að vísu höfðu verið keyptir tveir togarar hingað til lands frá Englandi, en þeir voru báðir gamlir og mjög ófullkomnir, enda varð árangurinn eftir því. Í febrúar 1907 kom fyrsta skip fjelagsins, "Jón forseti", hingað til lands, og stýrði honum Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri, sem þá hafði dvalið á annað ár í Englandi til þess að kynna sjer botnvörpuveiðar. "Jón forseti" var smíðaður í Glasgow svo fullkominn, sem þá var frekast kostur. Var hann fyrsti togari, er Íslendingar ljetu smíða, og má því segja, að með komu hans hefjist togaraútgerð Íslendinga. Það kom strax í ljós, að togaraútgerð gæti, ef skynsamlega væri að farið, orðið arðvænlegur atvinnuvegur fyrir landsmenn, enda fóru menn þá óðum að feta í fótspor þessara manna og hefir togurum síðan fjölgað ár frá ári, uns íslendingar eiga nú 40 togara. Fjelagið hefir eignast 6 togara, en af þeim misst tvo, þá Skúla fógeta, byggðan 1911, fórst hann í Norðursjónum í byrjun ófriðarins, 26. ágúst 1914, og Jón forseta, sem strandaði á Stafnestöngum 27. febrúar 1928; á það því nú 4 togara. Auk þess eiga stofnendur "Alliance", þeir sem enn eru í fjelaginu, 4 aðra togara að nokkru eða öllu leyti, og hafa þannig umráð yfir 1/5 hluta af togaraútgerð landsmanna. Fjelagið hefir komið sjer upp fullkomnum fiskþurrkunarstöðvum með tilheyrandi húsakynnum og getur það nú breitt til þurrkunar í einu ca. 600,000 kg. fiskjar. Auk þess hefir fjelagið byggt fiskþurrkunarhús, sem afgreiðir að meðaltali 10,000 kg. af fullþurrum fiski á sólarhring.


Gamla saltfiskþurrkunarhús Alliance í Ánanaustum.        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 14 sept. 2014.  

Árið 1929 voru útfluttar afurðir h/f. "Alliance" og þeirra fjelaga, sem það hefir umsjón með, sem hjer segir:
Verkaður saltfiskur 3180 þúsund kg.
Óverkaður saltfiskur 2080 þús. kg.
Ísfiskur kr. 675.000.
Lýsi kr. 358.800.
Sama ár flutti fjelagið inn 14,000 smálestir af kolum og 7,000 smálestir af salti. Mestan hluta veiðarfæra lætur fjelagið vinna á vinnustofu sinni við Tryggvagötu, og er unnið að netagerð o. fl. allt árið. Hjá fjelaginu voru sama ár unnin:
Á skipunum 50.000 dagsverk.
Við fiskverkun 27.600 dagsverk.
Netagerð 1.460 dagsverk.
Uppskipun. 7.880 dagsverk.
Önnur störf 7.070 dagsverk, og hafa þannig verið unnin 314 dagsverk að meðaltali hvern virkan dag ársins. Stjórn fjelagsins hafa þeir alla tíð skipað: Jón Ólafsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Jón Sigurðsson, og Jón Ólafsson, sem jafnan hefir verið framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 26 júní 1930.


B.v. Jón forseti RE 108 á Reykjavíkurhöfn.                                                      (C) Magnús Ólafsson.

               "Jón forseti" strandar
  Eitt af hinum hörmulegustu sjóslysum hjer

Kl. 1 aðfaranótt mánudags 27. febrúar, eða þar um bil, strandaði togarinn "Jón forseti" á Stafnesi. Er það rétt hjá Stafnesvita. Er þar að allra sögn einhver hinn versti og hættulegasti staður hér á landi, fyrir skip, sem stranda. Rifið er langt frá landi og er þar sífellt brim þótt sjór sje hægur annarsstaðar. En að þessu sinni var brim mikið. Skipið var að koma vestan úr Jökuldjúpi og ætlaði suður á Selvogsgrunn. Brimið fór vaxandi með flóðinu, og gengu brotsjóir yfir skipið hver á fætur öðrum. Reis skipið nokkuð að framan, og leituðu hásetar sér skjóls frammi undir "hvalbak". Skipið sendi út neyðarskeyti og varð fyrsta skipið á vettvang "Tryggvi gamli". Kom það þangað kl. 6 um morguninn. Var þá niðamyrkur, svo dimmt að " Tlryggvi gamli" sá skipið alls ekki, fyrr en fór að birta, eða um klukkan 7.30.


Líkan af Jóni forseta RE á Sjóminjasafninu Víkinni.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Komu nú þarna smám saman fleiri skip, togarinn "Ver" og "Hafstein", en gátu enga björg veitt mönnum um borð í "Jóni forseta". Litlu seinna kom björgunarskipið "Þór" einnig á vettvang og 2 bátar frá Sandgerði, mannaðir mönnum, sem eru gjörkunnugir á þessum slóðum. Allan daginn, fram í myrkur var björgunartilraunum haldið áfram af mesta hetjudug og dugnaði. En brotsjóirnir slitu sjómennina af skipinu, einn á fætur öðrum, án þess við yrði ráðið. Þegar fram á daginn kom sáu skipin, sem þarna voru, að þau fengu ekkert að gert og týndust burtu smám saman. Eitt hið seinasta, er fór af vettvangi, var "Tryggvi gamli". Kom hann hingað um kvöldið klukkan 10 og flutti hingað lík 5 manna, af skipshöfn "Jóns forseta", sem höfðu fundist á reki framundan skerinu, sem hann strandaði á. "Morg.bl." hitti Kristján Schram skipstjóra á "Tryggva gamla" að máli og spurði hann tíðinda. Honum sagðist svo frá:
Þegar birti svo um morguninn að við sáum "Jón forseta" þar sem hann lá á skerinu, lá hann þannig, að hann hallaðist mikið á bakborða og var þá bátlaus að því er best varð séð. Sáust þá engir menn uppi. Höfðu þeir leitað sér skjóls fram undir "hvalbaknum". Skipið virtist þá óbrotið að ofan. Skömmu eftir að við komum þar að, komu mennirnir út á þilfar. Skiftu þeir sér þá. Fóru nokkrir upp á "hvalbak", sumir í reiðann og sumir upp á stýrishúsið.


B.v. Jón forseti RE 108.                                       Teikning Róberts Inga Guðmundssonar. (Ringi).  

Sáum við þar þrjá menn. Leið nú og beið og komumst við hvergi nærri til að bjarga, en kvikan fór vaxandi og ruggaði skipið mjög á grunninu og gengu brotsjóir yfir það að aftan. Klukkan rúmlega 10 skall á það brotsjór, svo ægilegur, að hann tók með sér stýrishúsið og reykháfinn. Eftir það fór skipið að síga að framan og leituðu þá þeir í reiðann, sem áður höfðu haldist við á "hvalbaknum", og röðuðust þar alveg upp í siglutopp. Gekk nú sjór alltaf yfir skipið, en er fór að fjara dró úr kvikunni nokkuð, en þó voru brotsjóir allt umhverfis skipið, svo að hvergi var hægt að koma nærri.
Bátur frá landi náði þá sambandi við "Þór" og fékk hjá honum björgunartæki og síðan var björgunartilraunum haldið áfram frá landi, þótt aðstaða væri þar afar slæm. Við biðum fram eftir deginum, eða fram til klukkan 6.30. Var þá skollið á myrkur. Vélbátar frá Sandgerði voru sífellt á sveimi fyrir utan rifið til þess að leita að líkum manna er skoluðust fyrir borð, vegna þess að þeir gátu ekki veitt neina aðra aðstoð. Fundu þeir þessi fimm lik, sem við komum með. Er eitt þeirra af Ólafi Jóhannssyni, 2. vélstjóra, annað af Stefáni Einarssyni bryta og hið þriðja af syni hans Árna, sem var hjálparmatsveinn hjá föður sínum. Hin tvö likin af Ingva Björnssyni og Haraldi Einarssyni. Allir voru menn þessir með björgunarbelti og bar útfallið líkin út yfir rifið.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.


Togararnir Jón forseti RE og Þór RE við bryggju á Svalbarðseyri.                        (C) Karl L Nielsen.

                    Björgunarstarfið
   Frásögn þeirra Halldórs Þorsteinssonar                                 og Jóns Sigurðssonar.

Í gærkvöldi komu þeir skipstjórarnir Halldór Þorsteinsson og Jón Sigurðsson hingað til bæjarins og náði "Morgunbl." þá tali af þeim, spurði þá um slysið og björgunarstarfið. Þeim segist svo frá: Aðfaranótt mánudags kl. 1.30. barst Hf. Alliance skeyti um það, að "Jón forseti" væri strandaður á Stafnesrifi. Vissum við þá fljótt hvílíkur háski var hér á ferðum, því að flestra kunnugra dómi getur ekki hættulegri og verri strandstað á öllu Íslandi heldur en þennan. Bjuggumst við þegar við því, að skip og öll áhöfn mundi farast þarna, en til þess að reyna að bjarga einhverjum mannanna, rukum við þangað suður eftir í bifreið. Lögðum við á stað héðan kl. 2.30. og héldum til Fuglavíkur, bæjar, sem er svo að segja mitt á milli Sandgerðis og Stafness. Lengra varð ekki komist í bifreið, því að þar tekur við hinn versti vegur suður á Stafnes, og verður tæplega farið nema fetið þótt bjart sé og góð færð. Er þaðan nær 1.1/2. tíma ferð Suður á strandstaðinn. Við fengum okkur hesta í Fuglavík og héldum hiklaust áfram. Komum við að Stafnesi kl. rúmlega 7 um morguninn. Þegar þangað kom sáum við hvar skipið lá í brimgarðinum á Stafnesrifi. Vissi stafn að landi, en skipið hallaðist á sjó. Sáum við þá, að menn stóðu í reiðanum, sem þéttast, maður við mann. Ekki gátum við séð hve margir þeir voru, en aðstaðan var svo að okkur kom ekki til hugar að unt mundi verða að bjarga neinum þeirra. Svo hagar til þarna, að 300-400 faðma undan landi er rif það er nefnist Stafnnesrif. Er grunt á því og sker og flúðir allt um kring og brýtur þar alltaf, þótt gott sé veður, en nú var þar brimgarður einn, og allt umhverfis skipið. En fyrir innan er lón nokkurt, sem nefnist Hólakotsbót og er þar hyldýpi, en var svo lítið að brotsjóarnir af rifinu og skerjunum fara þar yfir um flóð.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Holskeflurnar hömuðust á skipinu og bjuggumst við við því á hverri stundu að sjá sigluna brotna og fara með alla mennina fyrir borð með sér, eða þá að skipið mundi skrika inn af rifinu og fara á kaf í hafdýpið þar fyrir innan. Þegar við komum á strandstaðinn, voru skipin "Tryggvi gamli", "Ver" og "Hafstein" komin á vettvang til að reyna að bjarga. Lágu þau þar úti fyrir. Seinna kom björgunarskipið "Þór" og togarinn "Gylfi". Reyndu þessi skip með öllu móti að komast í námunda við "Forsetann", meðal annast með því að lægja brimgarðinn á þann hátt að hella olíu og lýsi í sjóinn. En það bar engan árangur. Vindur stóð af landi og hjálpaðist hann að því með straum að bera olíuna og lýsið frá rifinu og til hafs. Komust skip þessi því ekki í námunda við "Forsetann" og var sýnt, að aldrei mundi takast að bjarga mönnunum hafsmegin, hvernig, sem að væri farið. Voru nú góð ráð dýr, því að eina vonin, þótt veik væri, var sú, að takast mætti að bjarga einhverjum úr landi. Brugðum við nú skjótlega við, og náðum í báta á Stafnnesi, áttæring, sem þarna var kominn á flot og tvo minni. Samtímis sendum við hraðboða ríðandi til Fuglavíkur til að ná í lækni. Brá hann (Helgi Guðmundsson læknir) skjótt við og kom suðureftir. Varð koma hans þangað til hins mesta gagns við björgunina, því að hann tók á móti hverjum manni, sem við náðum, jafnharðan, og veitti honum alla þá hjálp, sem læknisvísindin eru um megnug. Nú komu tveir vélbátar frá Sandgerði á vettvang. Gátu þeir að vísu ekki veitt "Forsetanum" neina hjálp, en þeir færðu okkur steinolíu. Var nú reynt úr landi að lægja brimskaflinn með því að bera olíu í sjóinn úr því að það tókst ekki að utanverðu, en árangur varð enginn vegna þess að olían barst með landinu, Annar Sandgerðisbáturinn kom við hjá "Þór" og fékk léða þar línubyssu, ef vera mætti að hann gæti fremur notað hana en skipið, en hún kom ekki að neinu gagni. Það var sýnt þegar í upphafi, að engum manni mundi verða bjargað, nema það tækist með fjörunni.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Skipverjar höfðu um nóttina gert ýmsar björgunarráðstafanir um borð og útbúið sig með ýms tæki, en meðan á flóðinu stóð, og flestir mennirnir fórust, skoluðust og fyrir borð öll þeirra tæki. En af tilviljun var mjór kaðall bundinn í reiðann og var þar fastur. Þegar skipverjar sáu nú að viðbúnaður var í landi að taka í móti þeim, leystu þeir kaðal þennan, náðu í dufl og bundu þar við og vörpuðu svo duflinu fyrir borð. Voru bátarnir þrír komnir frá landi. Lagðist áttæringurinn við festa milli lands og skips en minni bátarnir fylgdu honum. Tókst þeim að ná í duflið og festa kaðlinum í áttæringinn. Voru nú bundnir 8 lóðarbelgir á annan litla bátinn svo að hann gæti ekki sokkið, og hann búinn út sem dragferja milli skipsins og áttæringsins.
Fylgdu honum engir menn og var hann oftast nær í kafi meðan hann var dreginn á milli. Urðu skipverjar að fara ofan í hann fullan af sjó, marandi í kafi og með holskeflurnar yfir sér. Þetta lánaðist svo vel, að 10 menn björguðust heilir á húfi. Hafa minni sögur, sem frægar eru, verið settar í letur en þær sögur er segja mætti um afrek ýmsa þeirra manna, og hinna, sem störfuðu að því að bjarga þeim. Fyrstu mennirnir náðust á fjórða tímanum. Einn maður henti sér fyrir borð og synti út í bátinn. Kafaði hann undir hvert ólag, er að honum reið. Annar maður, sundmaður góður, hljóp líka fyrir borð, en útsogið tók hann og hvarf hann í brimólguna.


Það hefur verið eitthvað svipað um að litast á strandstað Jóns forseta við Stafnes. Þessi mynd er hinsvegar frá strandi Alliance togarans Skúla fógeta RE 144, en hann strandaði rétt vestan Staðarhverfis í Grindavík 10 apríl árið 1933. Þar fórust 13 menn en 24 var bjargað á land.

Í annari ferð, sem báturinn var dreginn fram að skipinu, brotnaði hann við skipshliðina vegna öldugangsins. Fór þá úr honum stafninn og losnaði bandið, sem hann var bundinn með. Þeir skipverjar, sem eftir voru, fleygðu nú öðru dufli fyrir borð og fylgdi kaðall. Náðist þetta dufl líka. Var þá fenginn annar bátur í stað hins, sem brotnað hafði og björguðust nú fleiri menn. Að lokum voru þrír eftir. Gátu þeir dregið bátinn að skipinu, en áttu afar erfitt með að halda honum þar, vegna brimgangsins. Þá slitnaði kaðallinn aftur. Tveir af mönnunum fleygðu sér í sjóinn og ætluðu að bjargast á sundi, en hinn þriðji varð eftir og kleif upp í reiðann. Það er af mönnum þessum að segja, er fleygðu sér útbyrðis, að annar þeirra synti langa hríð og náði loks bátnum. Var báturinn alveg í kafi og svamlaði maðurinn upp í hann, náði tökum og bjargaðist svo.
Hinn náðist líka og var fluttur í land. Læknir var í 2 klst. að reyna að lífga hann, en það tókst ekki. Þriðji maðurinn, sem eftir var um borð, fórst með skipinu. Var engin leið að bjarga honum, því að með aðfallinu óx brimið afskaplega. Fór þá líka myrkur að, en með morgni, um áttaleytið brotnaði skipið í tvent. Mennirnir, sem björguðust, báru sig framúrskarandi karlmannlega og enginn þeirra er mikið meiddur. Voru þeir ótrúlega hressir, er þeir komu á land. Læknir tók þar fyrstur manna á móti þeim, en síðan voru þeir fluttir heim til Stafness og gistu þar um nóttina. Voru hafðir 4 hestar til að flytja þá jafnharðan neðan af klöppunum heim til bæjarins og fylgdu þeim menn, til að styðja þá. Á Stafnesi var þeim tekið framúrskarandi vel og fólkið þar á bæjunum í kring gerði allt, er í þess valdi stóð til þess að hjúkra þeim sem best. Ekki bera þeir skipstjórarnir verra orð þeim, sem unnu á sjónum að björguninni. Voru þeir allir boðnir og búnir til bess að hætta lífi sínu fyrir skipverja. Munu á bátunum hafa verið allt að 20 manns, og lögðu þeir allir líf sitt bersýnilega í hættu við björgunina. Fundin eru lík 10 manna sem fórust.


Minnisvarðinn um strand Jóns forseta á Stafnesi.                                           (C) Reynir Sveinsson.

Nöfn þeirra skipverja sem fórust með togaranum voru:
Magnús Jóhannsson, skipstjóri, fæddur 7 júní 1894. Átti heima á Bjargarstíg 6. Kona hans heitir Kristín Hafliðadóttir og áttu þau 5 börn á aldrinum 2-10 ára.
Guðmundur Knútur Guðjónsson, 1. stýrimaður, til heimilis á Lindargötu 20. Hann var fæddur 22. júlí 1891. Hann var kvæntur maður og heitir ekkja hans Pálína Vigfúsdóttir. Á framfæri þeirra er eitt fósturbarn og aldurhnigin móðir hans.
Skúli Einarsson, 1. vélstjóri. Hann var fæddur 14. febrúar 1881 að Mykjunesi í Holtum. Fluttist hann hingað til Reykjavíkur árið 1914, og átti nú heima að Efri-Selbrekkum. Hann lætur eftir sig konu, Ingibjörgu Stefánsdóttur og 8 börn; tvö af þeim eru komin yfir fermingaraldur.
Ólafur Jóhannsson, 2. vélstjóri fæddur 27. nóvember 1888 á Hrófá í Strandasýslu. Var fyrstu 5 árin hjá móðurafa sínum, Páli Ingimundarsyni í Mýratungu, föður Gests sál. Pálssonar; er móðir Ólafs enn á lífi hér í Reykjavík, 78 ára gömul. Hann kvæntist 25. júní 1921 eftirlifandi konu sinni, Valgerði Guðnadóttur, Símonarsonar frá Breiðholti. Eiga þau tvo sonu á lífi, báða unga og óuppkomna.
Ingvi Björgvin Björnsson loftskeytamaður, fæddur 14. febrúar 1905 að Hvítanesi í Skilmannahreppi. Fluttist hingað til Reykjavikur árið 1914 og átti nú heima á Bakkastíg 5, hjá foreldrum sínum, Birni Jóhannssyni og Þórunni Guðbjörgu Guðmundsdóttur.
Stefán Einarsson, matsveinn, fæddur 20. mars 1880. Hann átti heima á Kárastíg 6, og var kvæntur Ólínu Hróbjartsdóttur. Áttu þau 9 börn og eru átta þeirra á lífi en hið níunda, Árni Kr. Stefánsson fórst með föður sínum. Hann var aðstoðarmatsveinn á skipinu, fæddur 10. júlí 1911.
Sigurður Sigurðsson, háseti, Framnesveg 2, fæddur í Reykjavík 3 október 1900. Faðir hans, Sigurður Oddgeirsson drukknaði árið sem hann fæddist, en móðir hans er Málfríður Jóhannesdóttir. Sigurður var einhleypur maður og átti heima hjá móður sinni og stjúpa.
Jóhann Jóhannsson, háseti, Hverfisgötu 60 a. Hann var fæddur 1. apríl 1887 að Hámundarstöðum í Vopnafirði. Ungur fór hann í siglingar, fyrst á norsk flutningaskip og síðan á hvalveiðaskip í Suðurhöfum. Þá réðist hann á þýsk skip og var í siglingum til nýlenda Þjóðverja í Suður-Afríku er stríðið hófst. Englendingar náðu skipinu, en vegna þess að Jóhann var útlendingur, losnaði hann brátt úr haldi. Fór hann þá til Höfðanýlendu (Cape Town) og gekk í nýlenduher breta. Var hann þar í eitt ár meðan á stríðinu stóð, en kom hingað til lands alfarinn aftur 1921, þá frá Suður-Ameríku. Foreldrar hans eru á lífi enn; móðir austur á Seyðisfirði, en faðir hér í Mosfellssveit, gamall og blindur.
Magnús Sigurðsson, háseti, Grandaveg 37, fæddur 15. febrúar 1885 að Bug, Innra-Neshreppi í Snæfellsnessýslu. Hann var kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóltur, og eru börn þeirra sex, hið elsta komið yfir fermingu.
Haraldur Einarsson, háseti, frá Lágholti í Reykjavík. Hann var fæddur 12. október 1901. Hann var ógiftur maður og hafði allan aldur átt heima hjá foreldrum sínum.
Ólafur Jónsson, kyndari, frá Víðidalsá í Strandasýslu. Hann var 36 ára að aldri. Hann var bóndi á Víðidalsá þangað til í fyrra. Þá brá hann búi og vildi gerast sjómaður. Var hann nýkominn hingað, er hann réðist í þessa ferð með "Jóni forseta". Hann var kvæntur Halldóru Árnadóttur, og dvelur hún nú á Víðidalsá ásamt fjórum börnum þeirra; er hið elsta á 12. ári, en hið yngsta á 5. ári.
Bertel Guðjónsson, kyndari, Hverfisgötu 107 í Reykjavík, 21. árs að aldri. Hann átti alla æfi heima hér í bænum. Faðir hans er á lífi, en móðir dáin.
Guðjón Angantýr Jónsson, háseti, Túngötu 42 í Reykjavík. Hann var fæddur 14. nóvember 1909 og var fyrirvinna móður sinnar, sem er ekkja og heitir Hugborg Ólafsdóttir.
Eyþór Rangar Ásgrímsson, háseti, Vesturgötu 50 í Reykjavík. Hann var fæddur 7. janúar 1911 og dvaldi hjá móður sinni, sem Ingveldur Jónsdóttir heitir. Annan uppkomin son missti hún í október í haust.


Skipverjarnir 9 sem komust af þegar Jón forseti strandaði við Stafnes 27 febrúar árið 1928. Myndin var tekin 27 febrúar árið 1958 þegar þeir minntust skipsfélaga sinna sem fórust. Fremri röð frá v: Gunnlaugur Jónsson, Bjarni Brandsson, Magnús Jónsson og Sigurður Bjarnason. Aftari röð frá v: Ólafur Árnason, Kristinn Guðjónsson, Steinþór Bjarnason, Pétur Pétursson, Guðmundur Guðjónsson (skipstjóri, var ekki með í  síðustu veiðiferðinni) og Frímann Helgason. 10 skipverjinn, Steingrímur Einarsson var fjarverandi, var á sjó.        (C) Ólafur K Magnússon.  

Nöfn þeirra skipverja sem björguðust af "forsetanum" voru:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum,
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96, Pétur Pétursson, Laugaveg 76,
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum,
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum,
Steingrímur Einarsson, Framnesveg 61,
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi,
Steinþór Bjarnason, Ólafsvík,
Frímann Helgason, Vík í Mýrdal.
Ólafur I. Árnason, Bergþórugötu 16. "Jón Forseti" var smíðaður árið 1906. Hann var minnstur af íslensku togurunum, 233 "brúttó" smálestir, eign h.f. Alliance. Skipstjóri var Guðmundur Guðjónsson en hann var ekki með skipið þessari ferð, né í hinni næstu þar á undan, því að hann hefir legið rúmfastur um hríð.
Stýrimaðurinn, Magnús Jóhannsson, var skipstjóri báðar þessar ferðir.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.
(Morgunblaðið. 29 febrúar 1928.)


26.02.2018 10:09

758. Sjóli RE 135. TFVQ.

Vélskipið Sjóli RE 135 var smíðaður í Ekenas í Svíþjóð árið 1946 fyrir útgerðarfélagið Hafstein h/f á Dalvík. Hét fyrst Hannes Hafstein EA 375. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Ný vél (1954) 240 ha. G.M. díesel vél. Seldur 27 júní 1963, Jóni Guðmundssyni og Haraldi Kristjánssyni í Reykjavík, skipið hét Sjóli RE 135. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 25 júlí árið 1973.


758. Sjóli RE 135.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


758. Hannes Hafstein EA 475.                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Metafli á þurrafúabát
 Skakbátur veiðir fyrir tvær milljónir á 2 mánuðum

Óvenjumörg skip hafa stundað handfæraveiðar í sumar, enda var á tímabili uppgripa afli, einkum ufsi og eru skipverjar á mörgum bátanna komnir með góðan hlut. Fimmtíu tonna eikarbátur, sem nú er kominn upp í slipp vegna þurrafúa hefur komið með meiri verðmæti að landi en sum 300 lesta síldarskipanna í sumar.
Það er vélbáturinn Sjóli RE 135 en hann er hæstur Reykjavíkurbátanna á skakinu með 400 tonn í tvo og hálfan mánuð. Verðmæti aflans losar tvær milljónir og hásetahluturinn er á 2. hundrað þúsund. Vísir spjallaði í morgun við skipstjórann á Sjóla, Harald Kristjánsson og sagðist hann alveg eins búast við að báturinn færi ekkert á sjó meira, fyrst þeir væru búnir að finna í honum þurrafúann. Við byrjuðum strax og við hættum á netunum í vor, sagði Haraldur og hættum fyrir nokkru. Það hafa óvenjumargir bátar stundað þessar veiðar í sumar, alls staðar að, allt upp í hundrað tonna bátar. Veiðin hefur verið með meira móti og mjög góð á tímabili. Ég held að það sé í og með vegna þess að við höfum leitað á nýjar slóðir, lengra út en áður og svo er sjálfsagt óvenjumikil ufsagengd á miðunum í sumar. Ufsagöngur hafa ekkert verið rannsakaðar? Mjög lítið, held ég. Þjóðverjar hafa eitthvað verið að athuga þetta. Þetta er víst sami ufsinn og heldur sig við Grænland, Færeyjar og Noreg. Hann hringlar svona á milli eins og síldin. Þessi ufsi, sem við erum að drepa er svona hálfvaxinn, meðalstór og er þarna í botnæti. Við héldum okkur mest út af Eldeyjarboðanum. Það er ekki einu sinni til kort yfir þetta svæði. Það nær ekki lengra en rétt út fyrir boðann.
Ef Sjóli kemst á flot á næstunni, sagðist Haraldur hafa í hyggju að fara austur á "Rauðatorg" seinna í sumar, þegar síldin kemur þangað, en þetta alræmda torg er djúpt úti af Austfjörðum og ufsinn eltir síldina gjarna, þegar hún kemur þangað á sumrin, ef hún kemur þá nokkuð að þessu sinni.

Vísir. 18 ágúst 1967.


Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 440
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 1329723
Samtals gestir: 367792
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 02:12:01