12.12.2017 04:38

S. t. Dhoon FD 54 strandar við Látrabjarg.

Dhoon FD 54 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1915 sem Armageddon H 319 fyrir Cargill Steam Trawling Co Ltd í Hull. 323 brl. 500 ha 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 636. Seldur 30 september 1921, Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood. Fær nafnið Dhoon FD 348. Árið 1927-28 var togarinn gerður út af Hudson Bros Ltd í Hull, hét Dhoon H 396. Árið 1929 er togarinn aftur kominn í eigu Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood, hét Dhoon FD 54. 18 október 1935 verður togarinn fyrir miklu áfalli vestur af St. Kilda í Skotlandi þegar brotsjór hreif með sér stjórnpall skipsins og olli miklu tjóni á honum. Dhoon var þá á heimleið af Íslandsmiðum. Ekkert manntjón varð. Togarinn strandaði við Látrabjarg 12 desember árið 1947. Í hönd fór eitt mesta björgunarafrek sem unnið hefur verið í Íslandssögunni fyrr og síðar.


Breski togarinn Dhoon FD 54 á siglingu.                                                             Mynd úr safni mínu.


Dhoon eftir áfallið sem hann fékk við St. Kilda í október 1935.                         Mynd úr safni mínu.


  Breskur togari strandar undir 200 m. háum                     hamravegg við Látrabjarg                          Ekki tókst að bjarga skipbrotsmönnum í gær 

Tólf eða fjórtán breskir sjómenn börðust í allan gærdag og í nótt er leið, harðri baráttu fyrir lífi sínu, undir 200 metra háum hamravegg, Keflavíkurbjargs við Látrabjarg. Skip þeirra Dhoon frá Fleetwood, rúml. 170 smál. strandaði undir bjarginu í gærmorgun í myrkri og hríð. Gerðar voru tilraunir úr skipum til þess að bjarga skipbrotsmönnum, en þeim varð ekki við komið. Björgun úr landi var ekki möguleg í gær. Sögðu menn í gærkvöldi, litlar líkur til þess að þeim yrði bjargað, en björgunarsveit fer á vettvang í birtingu í dag.
Fyrstu frjettir er Slysavarnarfjelaginu bárust um strandið komu um kl. 10. Var það skeyti frá breskum togara, er sá hvar Dhoon var strandað undir bjarginu. Staðarákvörðun var mjög villandi.  Varðbáturinn Finnbjörn var staddur um það bil 3 klukkustunda siglingu frá strandstað og brá hann þegar við. Var varðbáturinn kominn á vettvang og búinn að finna skipið um kl. 2 í gær. Slysavarnarfjelagið hafði og gert aðvart að Hvallátrum. Fóru menn þaðan að leita hins strandaða skips. Var klukkan orðin um 3 er Hvallátramenn fundu skipið. Staður sá, er hinn breski togari hafði strandað á, heitir Geldingaskorardalur í Keflavíkurbjargi og er á milli Látrabjargs og Bæjarbjargs. Þar er fjöruborðið mjög Iítið, en af hamrabrúninni og þangað niður eru um 200 metrar. Er Hvallátramenn komu var að flæða að, og myrkur að skella á. Var því ekkert hægt að hafast að um björgun skipsbrotsmanna. Togarinn stóð kjölrjettur um 30 metra frá landi og töldu menn hann vera skorðaðan í stórgrýtisurð, sem þarna er. Tvo skipsmenn sáu þeir á hvalbak. Þegar varðbáturinn Finnbjörn kom, voru þar fyrir tveir breskir togarar. Skipsverjum á Finnbirni var það þegar ljóst, að útilokað var fyrir þá, að geta bjargað mönnunum af hinu strandaða skipi. Mikill sjógangur var og allt í kringum skipið braut himinháar öldur á grunnbrotum og sjálft lá skipið undir stöðugum áföllum. Var nú Finnbirni siglt eins nálægt og forsvaranlegt þótti, ef vera kynni, að takast mætti að skjóta af línubyssu að hinu strandaða skipi. En því miður var það ekki hægt. Skipverjar á Finnbirni tóku eftir því, er þeir komu á vettvang, að engan lífbát var að sjá á skipinu. Hefur hann sennilega tekið út skömmu eftir strandið.
Eins og skýrt hefur verið frá hjer að framan, var að flæða að. Um klukkan sex í gærkvöld var komið háflæði og var þá nokkuð af yfirbyggingu þess í kafi, einkum að aftan. Skipverjar voru þá ýmist frammi á hvalbak eða uppi í stjórnpalli. Því nær látlaust gengu sjóar yfir mennina á hvalbaknum, en þeir sem voru í stjórnpalli munu hafa haft þar eitthvert afdrep. Með einhverjum hætti tókst skipbrotsmönnum að kveikja bál á hvalbaknum. Sáu skipverjar á Finnbirni hina bresku sjómenn bera við að eldinum, eftir því sem þeir gátu. Í allan gærdag reyndu skipin þrjú, sem voru fyrir utan strandstaðinn, að hafa samband við skipið. Fyrst í stað voru talstöðvar skipanna notaðar en án árangurs. Þá var sent til þeirra á morse, en ekki var því heldur svarað. Sennilegt er að loftnetið hafi bilað skömmu eftir strandið. Í gærkvöldi náðu skipverjar á breska togaranum Brithis frá Grimsby, sem er annar hinna bresku togara, sem voru þarna, sambandi við skipbrotsmenn. Var það gert með ljósmerkjum. Skipbrotsmenn sögðu þá að einu staðirnir í skipinu, sem menn gætu haldið sig, væri frammi á hvalbak og í stjórnpalli. Ekki gátu þeir þess að neinn þeirra hefði farist í strandinu. Menn þeir er fóru á strandstaðinn í gær, sögðu að lítil von væri um að takast mætti að bjarga mönnunum, þó veður myndi ekki versna til muna. En  þegar þetta er skrifað fór veður versnandi þar um slóðir og versnaði í sjóinn. Menn voru einnig hræddir um að skipið myndi ekki þola hin látlausu og þungu áföll.
Allt björgunarstarf úr landi hefur verið skipulagt og að Hvallátrum voru í gærkvöldi komnir 15 menn er voru að undirbúa björgun skipbrotsmanna. Mun björgunarsveitin fara á vettvang í bíti í dag. Aðstæður allar til björgunarstarfsins eru erfiðar. Fyrst verður björgunarsveitin að klyfa 50 metra háa svellbungu, en er yfir hana er komið þurfa þeir að koma fyrir bjargsigsköðlum, til þess að komast niður í fjöruborðið, en bjargið sem síga þarf er um 150 metra hátt.
Á þessum sama stað strandaði breski togarinn Jeria árið 1936. Fórst togarinn með allri áhöfn og aðeins eitt líkanna rak á land. Þetta er einn allra versti strandstaður við strendur landsins.

Morgunblaðið. 13 desember 1947.


Strandstaður togarans Dhoon undir Látrabjargi.               Mynd úr þrautgóðum á raunastund lll bindi.


                 Síðustu fréttir

Um klukkan 11 í gærkvöldi átti Morgunblaðið tal við Harald Björnsson skipherra á varðbátnum "Finnbirni", sem heldur sig í námunda við strandstaðinn. Skipherrann sagði, að sjer væri ekki kunnugt um, að neinn skipbrotsmanna hefði farist. Sagði hann þá vera á stjórnpalli og nokkra undir hvalbak skipsins, en þar logaði enn eldur í báli því, sem þeir höfðu kveikt. Sjóar voru miklir og gengu enn nokkuð yfir skipið, en fjara var. Sagði skipherra skipið standa kjölrjett. Strekkingur var af SA og hafði hann aukist nokkuð með kvöldinu. Hann sagði það álit sitt, að björgun úr landi myndi reynast mjög erfið. Ekki vildi hann spá neinu um örlög skips eða skipshafnar.

Morgunblaðið. 13 desember 1947. 

10.12.2017 10:17

1158. Helgi Bjarnason NK 6.

Helgi Bjarnason NK 6 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1971. Eik. 15 brl. 153 ha. Scania díesel vél. Eigendur voru bræðurnir Guðmundur og Helgi Jóhannssynir og Jón Hlífar Aðalsteinsson í Neskaupstað frá 12 apríl sama ár. Seldur 26 janúar 1973, Kjartani Ívarssyni í Reykjavík og Hinrik Lárussyni í Kópavogi, hét Helgi Bjarnason RE 82. Árið 1975 flytur Kjartan með bátinn til Vestmannaeyja. Seldur 28 nóvember 1976, Baldri Karlssyni og Jóni Baldurssyni í Þorlákshöfn, hét Bjarnavík ÁR 76. Seldur 9 janúar 1978, Grétari Má Jónssyni, Jóni Eðvaldssyni og Guðlaugi V Sigursveinssyni í Sandgerði, hét Bjarnavík GK 49. Seldur 6 janúar 1980, Kristjáni Óskarssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Þorlákshöfn, hét Bjarnavík ÁR 13. Seldur 28 október 1980, Þórði Markússyni á Eyrarbakka, báturinn hét Bakkavík ÁR 100. Ný vél (1982) 200 ha. Scania díesel vél. Báturinn fórst í innsiglingunni að Eyrarbakka 7 september árið 1983. Þrír menn voru á bátnum, allir bræður. tveir fórust en einn bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát við illan leik og var bjargað þaðan á land eftir um klukkustundar hrakningar.
Bræðurnir sem fórust hétu Þórður Markússon skipstjóri, eigandi bátsins, 29 ára og Sigfús Markússon 25 ára. Yngri bróðir þeirra, Vigfús 22 ára, bjargaðist.


Helgi Bjarnason NK 6 sjósettur á skírdag 1971.                                         (C) Sigurður Arnfinnsson.

           Helgi Bjarnason NK 6

Á skírdag var hleypt af stokkunum nýjum fiskibáti hjá Dráttarbrautinni hf. Eigendur eru Jón Hlífar  Aðalsteinsson og Guðmundur og Helgi Jóhannssynir. Báturinn hlaut nafnið Helgi Bjarnason og einkennisstafina NK 6. Heitir hann í höfuðið á Helga Bjarnasyni, sem var kunnur formaður og útgerðarmaður hér í bæ á þeim árum, sem vélbátaútgerðin var að taka út þroska sinn, en hann var móðurfaðir allra eigendanna. Soffía, dóttir Helga og móðir tveggja eigendanna gaf bátnum nafn. Helgi Bjarnason er 16 tonn að stærð með 163 ha Scania-vél og búinn, þeim siglingar og fiskileitartækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð. Hann er smíðaður úr eik eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Smíði bátsins strjórnaði Samúel Andrésson, skipasmíðameistari. Þetta er tíundi báturinn, sem Dráttarbrautin smíðar. Bátasmíðar á vegum fyrirtækisins hafa legið niðri um nokkurt árabil, en eru nú hafnar aftur og eru nú í smíðum tveir bátar, annar úr stáli og er það fyrsti stálbáturinn, sem hér er smíðaður.

Austurland. 16 apríl 1971.


Föðurbróðir minn, Alexander Gjöveraa, skipasmiður að smíða stýrishúsið á Helga Bjarnason NK 6, í Dráttarbrautinni haustið 1970.     (C) Lindberg Þorsteinsson.


Bakkavík ÁR 100.                                                                          (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

Bakkavík ÁR 100 fórst við innsiglinguna                       til Eyrarbakka í gær
    Tveggja ungra sjómanna saknað

 sá þriðji, bróðir þeirra, komst af við illan leik

Tveggja ungra sjómanna er saknað eftir að vélbáturinn Bakkavík ÁR-100 fékk á sig brotsjó og sökk utan við innsiglinguna til Eyrarbakka laust eftir hádegið í gær. Þrír bræður voru á bátnum og áttu hann. Komst sá yngsti þeirra af við illan leik eftir að hafa hrakist hangandi utan í gúmmíbjörgunarbát vestur eftir brimgarðinum í hartnær klukkustund. Talsvert brim var þegar slysið varð, en veður að öðru leyti ekki afgerandi. Bræðurnir, sem saknað er, heita Þórður Markússon, 29 ára, fæddur 29. nóvember 1953, og Sigfús Markússon, 25 ára, fæddur 2. ágúst 1958. Sá sem bjargað var af gúmmí- björgunarbátnum heitir Vigfús Markússon, nýlega orðinn 22 ára. Þeir eru allir ókvæntir og barnlausir, til heimilis í Ásgarði á Eyrarbakka hjá foreldrum sínum. Bræðurnir höfðu í sumar gert tilraunir með veiðar á snurvoð á Bakkavíkinni, sem var 15 lesta eikarbátur, smíðaður í Neskaupstað 1971.
Það var um kl. 13:15 í gær að sjónarvottar sáu hvar báturinn fékk á sig stórt brot af skerinu Brynka skammt utan við sundið í innsiglingunni til Eyrarbakka. Fór báturinn við það á hliðina en skömmu síðar reið yfir hann annað brot og fór hann þá á hvolf. Innan nokkurra mínútna fór hann að sökkva að aftan og hvarf svo um 15 mínútum eftir slysið. Þremenningarnir komust allir i gúmmíbjörgunarbát, skv. upplýsingum Morgunblaðsins, en báturinn rifnaði í sjóganginum og köstuðust þeir þá allir út úr bátnum aftur. Aðeins Vigfús náði taki á bátnum aftur. Áður hafði þeim tekist að skjóta upp neyðarblysi, sem sást á Eyrarbakka. Björgunarsveitarmenn frá Eyrarbakka og Stokkseyri komu fljótlega á vettvang og sömuleiðis hjálparsveitarmenn frá Selfossi og Vestmannaeyjum, sem voru af tilviljun skammt frá. Björgunarsveitarmenn frá Stokkseyri náðu Vigfúsi af gúmmíbátnum austur undir ósum Ölfusár. Var hann þá orðinn mjög þrekaður og þykir hafa sýnt fádæma harðfylgi og kraft. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi og leið í gærkvöldi eftir atvikum. Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði einnig á svæðinu fram í myrkur og björgunarmenn gengu fjörur. Sterkur straumur var vestur með landinu á flóðinu síðdegis í gær og rak brak úr bátnum vestur með ströndinni og upp í árósinn. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í nótt var enn verið að leita eldri bræðranna tveggja.

Morgunblaðið. 8 september 1983.

 Einn eftir í bátnum er ólagið var farið hjá

  Frásögn Vigfúsar Markússonar, sem komst                  lífs af er Bakkavík ÁR 100 fórst

Vigfús Markússon frá Ásgarði á Eyrarbakka, sem missti tvo bræður sína með vélbátnum Bakkavík ÁR-100 við innsiglinguna þar í fyrradag, þykir hafa sýnt fádæma þrek í þeirri raun, sem hann varð fyrir eftir að báturinn sökk. Vigfús hraktist í brimgarðinum utan við höfnina í a.m.k. klukkustund áður en honum var bjargað. Vigfúsi segist svo frá, að skömmu áður en Bakkavíkin hafi lagt á bússu, en svo heitir innsiglingarleiðin, sem farin er til Eyrarbakka, hafi annar bátur af svipaðri stærð komið að landi. Lágsjávað hafi verið og gott í sjó og brimlaust að kalla. En þegar Bakkavíkin hafi verið rétt komin inn á leiðina hafi risið mikill brotsjór, sem hafi lagt bátinn flatan er hann skall yfir. Áður en nokkuð yrði að gert sáu þeir bræður annað brot koma æðandi. Elsti bróðirinn, Þórður, sem var skipstjóri, skipaði þá að báturinn skyldi yfirgefinn og þess freistað að komast í gúmmíbjörgunarbátana, sem voru tveir  annar skyldubátur, hinn aukabátur sem geymdur var við horn stýrishússins. Skipti svo engum togum að brotið féll yfir flatan bátinn og hvolfdi honum.
Vigfús kveðst hafa komið fyrstur upp á yfirborðið aftur og hafi þá aukalífbáturinn verið upplásinn á floti, fastur við Bakkavíkina. Honum hafi tekist að hjálpa báðum bræðrum sínum upp í gúmmíbátinn, sem hafi fljótlega slitnað frá flakinu. Tókst þeim að skjóta tveimur neyðarblysum frá bátnum, sem velktist um í brimgarðinum. Þá hafi skyndilega riðið yfir hann brotsjór, sem hafi rifið yfirgerð bátsins að mestu af. Þegar ólagið var farið hjá hafi hann verið einn eftir í bátnum, sem engin leið hafi verið að stjórna á nokkurn hátt. Vigfúsi tókst að halda sér í bátinn og hraktist hann í brimgarðinum í minnst klukkustund áður en tókst að bjarga honum. Hann telur sig hafa séð móta fyrir öðrum bróður sínum eftir að ólagið reið yfir gúmmíbátinn en enga möguleika átt til að koma honum til hjálpar, enda dundu brotin á gúmmíbátnum í ólgandi briminu. Þetta var frásögn Vigfúsar Markússonar. Bræður hans tveir, Þórður og Sigfús, eru nú taldir af. Fjörur voru gengnar í gær og fram á kvöld en hvorugur þeirra hefur enn fundist. Brak úr Bakkavíkinni hefur fundist vestur með fjörum og langt upp með Ölfusá að vestanverðu.

Morgunblaðið. 9 september 1983.

09.12.2017 07:59

503. Gunnhildur ÍS 246. TFDW.

Gunnhildur ÍS 246 var smíðuð hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1957 fyrir Magna h/f á Ísafirði. Eik. 59 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Seldur 30 nóvember 1969, Baldri Jónssyni, Ásgeiri Sölvasyni og Helga G Þórðarsyni í Hafnarfirði, hét Gunnhildur GK 246. Ný vél (1973) 370 ha. Cummins díesel vél. Var endurmældur sama ár, mældist þá 56 brl. Seldur 8 nóvember 1979, Magnúsi Geir Þórarinssyni í Keflavík, hét Bergþór GK 5. Báturinn fórst í róðri um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 8 janúar árið 1988. Tveir menn fórust, en þrír björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Stuttu síðar bjargaði áhöfnin á Akurey KE 121 frá Keflavík mönnunum til lands heilum á húfi.
Mennirnir sem fórust með Bergþóri hétu Magnús Geir Þórarinsson skipstjóri og eigandi bátsins og Elfar Þór Jónsson háseti.


Gunnhildur ÍS 246 á siglingu.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

              Nýr glæsilegur bátur

Nýlega er lokið í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar smíði nýs báts, sem hlotið hefur nafnið Gunnhildur ÍS 246. Bátur þessi er allur hinn vandaðasti og búinn öllum nýtízku tækjum. Hann er 60 smálestir með 280 ha. M.W.M. vél. Eigandi bátsins er Magni h.f. nýtt útgerðarfélag, sem stofnað var s.l. ár. Skipstjóri er Hörður Guðbjartsson, 1. vélstjóri Ólafur Gunnarsson og stýrimaður Ólafur Guðjónsson. Skutull óskar eigendum og skipshöfn til hamingju með þessa glæsilegu viðbót við ísfirzka vélbátaflotann.

Skutull. 7 desember 1957.


Bergþór KE 5.                                                                              (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Bergþór KE 5 sökk 8 sjómílur NV af Garðsskaga

    Þrír menn björguðust en tveggja er saknað

Þrír menn björguðust en tveggja er saknað eftir að fiskibáturinn Bergþór KE 5 sökk um 8 sjómílur NV af Garðsskaga á Reykjanesi. Bergþór, sem er 56 tonna trébátur smíðaður 1957, fékk á sig brotsjó þegar hann var við línuveiðar laust eftir kl. 16.30 í gær. Lagðist báturinn á stjórnborðshlið og sökk nær samstundis. Þrír úr áhöfninni komust í björgunarbát og var bjargað um borð í Akurey KE 121 um kl. 18. Leit að hinum tveimur úr áhöfn bátsins bar engan árangur í gærkvöldi en leitinni var hætt kl. 22.00.
Akurey tilkynnti kl. 17.22 í gær á neyðarbylgju skipa, að sést hefði til neyðarblyss suðvestur frá skipinu séð. Slysavarnafélag íslands lét Landhelgisgæsluna strax vita. Vont veður var á þessu svæði, vestsuðvestan 7 til 8 vindstig og éljagangur. Fimm skip höfðu gefið Tilkynningaskyldu íslenskra skipa upp staðarákvörðun þarna nálægt. Slysavarnaféiagið kallaði skipin upp og héldu þau strax í þá átt sem blysið sást úr. Kl. 17.55 tilkynnti Akurey að sést hefði annað neyðarblys og kl. 18.00 kom hún að gúmbjörgunarbáti með þremur mönnum innanborðs. Búið var að ná mönnunum um borð í Akurey kl. 18.09 og töldu þeir þá að þeir hefðu verið í björgunarbátnum í um eina og hálfa klukkustund. Árni Vikarsson skipstjóri á Akurey sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að mjög vont hefði verið í sjóinn en samt hefði gengið mjög vel að ná mönnunum úr björgunarbátnum. Þeir hefðu verið sæmilega á sig komnir. Tveir þeirra hefðu að vísu verið nokkuð kaldir en náð sér fijótt. Árni hafði það eftir mönnunum að Bergþór hefði sokkið 2-3 mínútum eftir að hann fékk á sig brotið. Tveir þeirra sem björguðust voru á þilfari og náðu að losa björgunarbátinn með handleysibúnaði. Sá þriðji var niðri í káetu en honum tókst að brjótast upp gegnum glugga á brúnni áður en báturinn sökk og komast í björgunarbátinn. Annar mannanna sem saknað er var í brú skipsins en hinn var niðri í lúkarnum. Akurey hóf strax leit á svæðinu auk fleiri skipa sem komu þarna að.
Landhelgisgæslan kallaði út áhafnir þyrlunnar TF-Sif og flugvélarinnar TF-Syn, og fór þyrlan af stað til leitar kl. 18.14 en hún er búin innrauðum hitaleitartækjum. Þyrlan var komin á slysstaðinn kl. 18.27 og heyrði þá í neyðarsendi bátsins en til hans hafði ekki heyrst úr skipum á svæðinu. Leit var haldið áfram fram eftir kvöldi og tóku þátt í henni, auk TF-Sif, Skógarfoss, Stafnes KE 130, Happasæll KE 94, Hafberg GK 377, Vonin KE 2, Víðir II GK. 275, Sigurjón Arnlaugsson HF 210 og Viðey RE 6. Einnig var danska varðskipið Hvidebjörn komið á svæðið um kl. 20.30. TF-Sif snéri aftur til lands og lenti um kl. 21.30 en TF-Syn lagði af stað á leitarsvæðið kl. 21.25. Talsvert af hlutum hafði þá fundist úr skipinu, þar á meðal þrír bjarghringir, en leit að mönnunum tveimur bar engan árangur. Leit verður hafin aftur í birtingu í dag og mun TF-Syn fara á leitarsvæðið auk báta. Akurey kom til Keflavíkur um kl. 22 í gærkvöldi með skipverjana þrjá af Bergþóri. Þrír menn eru í áhöfn Akureyjar auk skipstjóra og vildi Árni Vikarsson þakka áhöfn sinni það hve vel tókst til með björgunina.

Morgunblaðið. 9 janúar 1988.

             Brot lagði bátinn á hliðina  

Sjópróf vegna Bergþórs KE 5 sem sökk 8 sjómílur NV af Garðskaga á föstudaginn fóru fram hjá Bæjarfógetaembættinu í Keflavík í gær. Skipverjarnir þrír af Bergþóri sem björguðust komu fyrir dóminn ásamt skipstjóranum á Akurey KE 121 sem ásamt áhöfn sinni bjargaði mönnunum. Dómformaður sjódómsins var Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómslögmaður og meðdómendur voru Ingólfur Falsson og Jóhann Pétursson fyrrverandi skipstjórar.
Við sjóprófin kom fram að verið var að draga síðustu bjóðin þegar brot kom á bátinn aftanverðan og lagði hann á hliðina. Sjór flæddi niður í lestina sem var að mestu opin, skipstjórinn reyndi að keyra bátinn upp, en það tókst ekki og sökk hann á hliðina á nokkrum mínútum. Skipstjóra og stýrimanni tókst að skjóta gúmbát úr gálga með handfangi úr brú, en líflínan sem var fest með lás í gálgan slitnaði. Skipverjarnir sögðust hafa lent í erfiðleikum við að blása bátinn upp og töldu þeir að ýmislegt hefði mátt fara betur í búnaði hans. Þeir nefndu að á gúmbátnum hefði aðeins verið eitt op og það snúið áveðurs vegna þess að rekankeri var fest þeim megin. Þeim hefði gengið erfiðlega að ausa af þessum sökum. Töldu þeir að opin hefðu átt að vera tvö. Ennfremur kom fram að rekankerið slitnaði frá bátnum og töldu skipverjar að línan hefði mátt vera traustari. Fram kom að álpokar sem voru í gúmbátnum rifnuðu þegar skipverjar ætluðu í þá, en þeir töldu samt að þeir hefðu komið að gagni. Tveir neyðarflugeldar voru í gúmbátnum og töldu þremenningarnir að þeir hefðu mátt vera fleiri. Einnig kom fram að gerðar höfðu verið breytingar á Bergþóri fyrir nokkrum árum og þá meðal annars skipt um brú á bátnum. Ein hurð var á nýju brúnni, var hún stjórnborðsmegin, en neyðarútgangur var bakborðsmegin. Þá hafði hvalbakur sem var opinn verið lengdur. Ennfremur kom fram að Bergþór KE 5 hafði fyrir tveimur árum lagst á hliðina og á möstur eftir að brot kom á hann á siglingu frá Sandgerði til Keflavfkur, en þá tókst að keyra bátinn upp.

Morgunblaðið. 13 janúar 1988.

07.12.2017 08:49

Birkir SU 519. TFDK.

Birkir SU 519 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1934, Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Eigandi var Útgerðarsamvinnufélagið Kakali á Eskifirði frá febrúarmánuði árið 1934. Seldur í febrúar 1936, Þorláki Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu h/f á Eskifirði. Ný vél var sett í bátinn árið 1946, 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951, Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 október árið 1951. Breski togarinn Reighton Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. 


Vélskipið Birkir SU 519.                                                                           (C) Sveinn Guðnason.


Breski togarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Hann var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull.
Mynd úr safni mínu.

 Dóttur skipstjórans bjargað á síðustu stundu
            þegar vélbáturinn Birkir brann

Laust fyrir klukkan átta í fyrramorgun var vélbáturinn Birkir frá Reykjavík, eign Höskulds Jóhannessonar, Drápuhlíð 48, staddur 40 sjómílur norðvestur af Siglufirði á Ieið vestur og suður um af síldveiðum nyrðra. Skipstjórinn, Guðmundur B. Pétursson, Seljavegi 3A, brá sér fram í lúkarinn, en er hann hafði verið þar svo sem fimm mínútur, kallaði piltur, sem var á vakt, Eggert Kristjánsson, að eldur væri kominn upp miðskips.
Við vorum ellefu skipsmenn, sagði Guðmundur við tíðindamann Tímans í gær, en auk þess var með í förinni konan mín, Lydia Guðmundsdóttir og tvö börn okkar, tíu ára telpa, Hilda að nafni, og þriggja ára sonur. Svaf telpan í herbergi mínu í brúnni. Er ég heyrði köll Eggerts, hljóp ég þegar aftur á, og hafði eldurinn þá magnast svo á svipstundu, að engin leið var að komast í brúna um stiga og dyr. Eggert hafði  hins vegar tekizt á siðustu stundu að bjarga sofandi telpunni út. Skipið varð á svipstundu alelda, og við áttum ekki annars úrkostar en fara í bátinn, og komumst allir það, án þess að nokkur meiddist. Rerum við spölkorn frá bátnum og biðum þar átekta.
Fjórar til fimm sjómílur frá okkur var enskur togari að veiðum, og sá áhöfnin á honum strax eldinn og reykinn. Kom togarnn til okkar eftir 2-3 stundarfjórðunga og tók okkur um borð. Við fórum nú aftur yfir að Birki, og tókst okkur að koma í hann taug. Varð það að ráði, að enski togarinn drægi bátinn undir Skaga, en Ægir, sem kom á vettvang frá Siglufirði, skyldi koma þangað á vettvang og freista þess að slökkva eldinn.
Ægir náði okkur klukkan hálf-tvö, tólf sjómílur undan Skaga. Var þá reynt að slökkva eldinn, og tókst að læga hann. Þó var mikill reykur og eldur niðri í skipinu, en ekki hægt að dæla í það meiri sjó. Var haldið áfram með það vestur um. Eftir tveggja tíma stím var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá aftur tekið að loga upp úr. Hófst þá slökkvistarf að nýju. Birkir var nú orðinn afarmikið skemmdur af eldinum en á hinn bóginn sýnt, að ekki var hægt að slökkva eldinn, án þess að sökkva skipinu. Varð því að ráði að halda áfram til Höfðakaupstaðar og  draga það þar upp í fjöru. Við komum þangað á níunda tímanum í fyrrakvöld. Var Birkir dreginn upp í fjöru við Hólanes, og þar brann hann í alla fyrrinótt, og er gerónýtur.
Við misstum með skipinu allt, sem við skipverjarnir áttum á því, svo að við fórum ekki í land með annað en fötin, sem við stóðum í, sagði skipstjórinn að lokum. En auk þess brann mikill farmur. Við vorum með 500 tunnur á skipinu, sykursaltað í 230 tunnum, en saltsíld í 140 tunnum, en hinar voru tómar.
Áhöfnin á Birki fór til Reykjavíkur landleiðis í gær, en skipstjórinn ,kona hans og börn eru væntanleg hingað í dag.

Tíminn. 23 ágúst 1951.

03.12.2017 08:58

509. Gylfi EA 628. TFVK.

Gylfi EA 628 var smíðaður af Kristjáni Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri árið 1939 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgerðarmann í Rauðuvík í Eyjafirði. Eik og beyki. 35 brl. 100 ha. Alpha díesel vél. Ný vél (1944) 240 ha. GM díesel vél. Ný vél (1957) 250 ha. GM díesel vél. Seldur 20 desember 1965, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Fróði RE 44. Seldur 10 júní 1971, Svavari Gunnþórssyni og Guðlaugi Gunnþórssyni á Grenivík, hét Eyfirðingur ÞH 39. Seldur 22 janúar 1974, Sigurjóni Jónssyni á Seltjarnarnesi, hét Fróði RE 111. Seldur 8 mars 1975, Steinþóri Þorleifssyni í Grindavík, hét Sigurþór GK 43. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 október árið 1983.


Gylfi EA 628 að háfa síld.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Gylfi EA 628 á landleið eftir góða síldveiði.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Mikilsverðar framkvæmdir á Oddeyrartanga

                   Smíði á mótorbátum

byrjun febrúarmánaðar s. l. var hafin hér á Oddeyrartanga smíði á 2 mótorbátum 24/25 smálesta og 1 bát 35 smálesta. Litlu síðar var svo hafin smíði á 12 smálesta mótorbát á sama stað. Ef til vill er bæjarbúum ekki kunnugt um þessar framkvæmdir, þar sem smíði bátanna fer fram á þeim stað í bænum, er almenningur leggur tiltölulega sjaldan leið sína um. En þar sem hér er um að ræða mjög ánægjulegar framkvæmdir, er skapa bæjarbúum mikla atvinnu, skal farið nokkrum orðum um þennan iðnað. Fiskimálanefnd tilkynnti um s. l. áramót, að veittur yrði styrkur til smíða á mótorbátum, og eru líkur til, að það hafi ýtt undir það að hafizt var handa. Eins og að ofan getur eru smíðaðir 2 bátar 24/25 smálesta. Annan bátinn eiga Garðar og Björn Ólasynir, Hrísey, en Þorleifur Þorleifsson og Björgvin Jónsson á Dalvík hinn. Tólf smálesta bátinn á Guðjón Ágústsson, Gróf, Grenivík. Alla þessa báta smíðar Gunnar Jónsson skipasmiður, í ákvæðisvinnu, stærri bátana fyrir kr. 26.400.00 og þann minni fyrir kr. 13.200.00 eða sem næst 1100 krónur smálestin, og er þar í innifalið allt efni og vinna; þar með talið járnsmíði og seglasaumur. Undanskilið ákvæðisverðinu er þó vél og línuspil, en vélarnar kosta um 18.000 krónur. Stærsti báturinn, 35 smál., er smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík. Er hann smíðaður í tímavinnu, og annast Kristján Nói Kristjánsson um smíðina. Allir stærri bátarnir verða með 90/100 hestafla Alfa-Diesel vélum, en 12 smálesta báturinn með 42 hestafla Tuxham mótor. Tveir af bátunum eru með nýtízku lagi, en 35 smálesta og 12 smálesta bátarnir með eldra lagi. Bátarnir eru byggðir úr eik og allt efni og vinna er vandað svo sem tök eru á, og gert er ráð fyrir að bátarnir verði tilbúnir um n. k. mánaðamót. Styrkur sá, er Fiskimálanefnd veitir til bátasmíðanna, nemur ca. 23% af andvirði þeirra, miðað við að smálestin kosti um kr. 1.500.00 (með vél). Þau hlutföll breytast og einnig, verði bátarnir allmiklu dýrari en ætlað var í fyrstu, vegna gengisbreytingar íslenzku krónunnar, sem stafar af því, að talsvert af efni og vélarnar voru ókomnar hingað, er gengið breyttist.
Allt efni, áhöld og vélar til bátanna útvegaði Kaupfélag Eyfirðinga.

Dagur. 22 júní 1939.

                      Nýir bátar

Meðal nýrra báta í síldveiðiflotanum eru þrír eyfirzkir bátar, smiðaðir hér á Akureyri í vetur. Bátar þessir eru:
Gylfi (35 tonn) eign Valtýs Þorsteinssonar í Rauöuvík, smíðaður af Nóa Kristjínssyni.
Björn Jörundsson (25 tonn) eign Garðars og Björns Ólasona í Hrísey og
Leifur Eiríksson (25 tonn) eign Þorleifs Þorleifssonar frá Hóli á Upsaströnd og Björgvins Jónssonar á Dalvík, báðir bátarnir smíðaðir af Gunnari Jónssyni.

Íslendingur. 4 ágúst 1939.

                Fyrsta bræðslusíldin

M.b. Gylfi E.A. 628 landaði í Rauðku í gærmorgun fyrstu bræðslusíld sumarsins 170 málum, sem hann fékk í tveimur köstum á Skagafirði á sunnudagskvöld. Síldin var smá og horuð. Nokkur skip eru nú þegar komin út á veiðar, en litlar fréttir berast enn af síld, nema þá helzt af stökksíld, sem ekki er kastandi á.

Siglfirðingur. 29 júní 1948.

          Þorrablótið dró dilk á eftir sér

     Ævintýraferð Gylfa endaði í strandi

Þorrablót var haldið á Flateyri á laugardagskvöld og dró dilk á eftir sér. Vélbáturinn Gylfi úr Eyjafirði, sem leigður hefur verið til Suðureyrar í vetur og er gerður þaðan út fór til Flateyrar á laugardagskvöldið með eitthvað af fólki frá Suðureyri, sem ætlaði á blótið. Þeirra á meðal var skipstjórinn á bátnum. Gekk sú ferð að óskum og héldu menn til fagnaðarins, allir nema einn skipverja. Hann tók bátinn traustataki um kvöldið, og sigldi honum einn til Suðureyrar. Á meðan báturinn var á leiðinni til Suðureyrar var hringt frá Flateyri og sagt frá bátshvarfinu. Óttuðust menn að skipverjinn hefði farið sér að voða einn á bátnum, en þegar hann kom klakklaust í höfn á Suðureyri önduðu menn léttar.
Engum kom til hugar að skipverjinn myndi endurtaka þetta ævintýri, en um nóttina fékk hann tvo eða þrjá menn til liðs við sig og héldu þeir af stað frá Suðureyri um nóttina til þess að sækja skipstjórann og aðra gesti, sem farið höfðu á þorrablótið. Þá tókst ekki betur til en svo að eftir stutta siglingu strönduðu þeir félagar bátnum í árósum hjá prestssetrinu í Staðardal, en þetta er sunnanmegin Súgandafjarðar, um miðja Ieið út fjörðinn frá Suðureyri, Skipbrotsmenn fóru gangandi um 20 mín. leið til Suðureyrar og sögðu farir sínar ekki sléttar. Á sunnudagsmorguninn var hafizt handa um að bjarga bátnum og var varðskipið Albert fengið til að draga bátinn á flot og tókst það giftusamlega á flóðinu. Gylfi virðist ekki mikið skemmdur. Kafari frá Albert athugaði skemmdir á bátnum á strandstaðnum og segir að skemmdir hafi orðið á strákjöl og botninn eitthvað meira nuddaður. Gylfi er kominn til ísafjarðar og á að fara í slipp hjá Marselíusi Bernharðssyni, en í dag var ekki hægt að taka bátinn upp, því annar er fyrir í slippnum. Verður ekki hægt að ganga til fulls frá fyrr en báturinn kemst á flot. Gylfi er 35 tonna bátur.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1963.

02.12.2017 08:49

Ísafold GK 481. LBFT.

Ísafold GK 481 var smíðuð í Stavanger í Noregi árið 1885 sem seglskip. Eik og fura. 35 brl. Eigandi var Halldór Andrésson á Flateyri við Önundarfjörð frá árinu 1886-87. Frá árinu 1891 er Torfi Halldórsson verslunar og útgerðarmaður á Flateyri, eigandi skipsins. Árið 1906 er Ólafur Jóhannesson & Co á Patreksfirði eigandi skipsins, hét þá Ísafold BA 102. 1909-10 er skipið komið í eigu P.J. Thorsteinssonar & Co á Bíldudal. Árið 1917 er skipið gert upp í Hafnarfirði og breytt í vélskip. Þá var  sett í skipið 44 ha. Avance vél. Skipið var þá komið í eigu Verslunar Böðvarssona í Hafnarfirði, fékk þá nafnið Ísafold GK 481. Skipið var talið ónýtt og rifið í Hafnarfirði árið 1933.


Ísafold GK 481 við bryggju í Hafnarfirði.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


26.11.2017 12:22

B. v. Júpíter GK 161. LBQG / TFJD.

Botnvörpungurinn Júpíter GK 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Fiskveiðihlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 476. Togarinn var seldur í nóvember árið 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Seldur í apríl 1948, h/f Júpíter í Reykjavík, hét Júpíter RE 61. Seldur í ágúst árið 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét hjá þeim Guðmundur Júní ÍS 20. Seldur í júní 1955, Einari Sigurðssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur vorið 1963, Magnúsi Kristinssyni í Njarðvík. 18 maí árið 1963 kom upp eldur í togaranum og eftir það var hann talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá. Nú er flak togarans í uppfyllingu við höfnina á Ísafirði.


Júpíter GK 161 á leið til Englands með fullfermi.                                                Mynd úr safni mínu.


Júpíter GK 161 í slippnum í Reykjavík.                                                    (C) Óttar Guðmundsson.


Trollið tekið á Júpíter GK árið 1930.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Pokinn tekinn innfyrir á Júpíter GK árið 1930.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Áhöfnin á Júpíter GK árið 1930.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                                               (C) Samuel Arnoldsson.


Flakið af Guðmundi júní ÍS 20 hálf sokkið á Ísafirði.                             (C) Sæmundur Þórðarson.

               Júpíter GK 161

Hið nýja botnvörpuskip sem fyrri eigendur Belgaums hafa keypt, kom hingað í fyrradag. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson. Skipið er 147 fet á lengd  og vandað að öllum frágangi.

Morgunblaðið. 8 desember 1925.

                 Togarakaup

Hlutafjelagið Júpíter hefur keypt botnvörpunginn Júpíter af Þórarni Olgeirssyni. Verður skipstjóri á honum Tryggvi Ófeigsson. Þórarinn er að láta smíða nýjan togara í Englandi.

Norðlingur. 29 nóvember 1929.

     35 ára gömlum togara breytt                        í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip.
Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni.
Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.25.11.2017 10:49

Faxi RE 219. LBJS.

Flóabáturinn Faxi RE 219 var smíðaður í Holbæk í Danmörku árið 1917 sem seglskip. Eik. 57 brl. 60 ha. Vesta vél. Eigandi var Faxi h/f í Reykjavík (Sigurjón Pétursson í Álafossi, Þorlákur Vilhjálmsson í Reykjavík og Gísli Magnús Oddsson á Ísafirði, síðar skipstjóri á togaranum Leifi heppna RE 146 og fórst með honum í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925). Faxi var í vöru og fólksflutningum norður um land til Siglufjarðar með viðkomu á Ísafirði á vegum verslunar Sigurjóns Péturssonar í Reykjavík. Einnig fór Faxi í ferðir til Eyrarbakka og Vestmannaeyja. Skipið var í eigu margra aðila fyrstu árin. Selt 8 maí 1924, Frón h/f á Seyðisfirði (Vilhjálmi Árnasyni, Sigurði Vilhjálmssyni, Árna Vilhjálmssyni, Hermanni Vilhjálmssyni og Þórhalli Vilhjálmssyni), hét Faxi NS 251. Ný vél (1929) 110 ha. Avance vél. Skipið var selt 1931-32, Gísla Magnússyni í Vestmannaeyjum, hét Faxi VE 246. Skipið slitnaðu upp frá múrningu í Vestmannaeyjahöfn í suðvestan ofsaroki,13-14 janúar árið 1933. Rak það upp í suðurhafnargarðinn vestanverðan og eyðilagðist. Engan mann sakaði.


Faxi RE 219 nýkominn til landsins. Ýmsar upplýsingar eru skrifaðar á myndina. Þar má lesa að skipið var 65 fet á milli stafna, 15,5 fet á breidd og 8,5 fet á dýpt.               (C) Magnús Ólafsson.


Faxi RE 219 á Reykjavíkurhöfn.                                                                     (C) Magnús Ólafsson.

                      Ný skip

Frá útlöndum eru nýkomin 4 mótorskip, eign hérlendra manna, eru þau öll nýsmíðuð í Danmörku, og heita þau:
»Faxi«, eign kaupmanns Sigurjóns Péturssonar o. fl.
»Skaftfellingur«, eign Skaftfellinga, vöruflutningaskip.
»Bifröst«, eign kaupmanns Jóns Björnssonar í Borgarnesi og
»Björgvin«, eign Einars Sveinbjarnarsonar í Sandgerði o. fl.
»Faxi hefir fengið útbúnað til botnvörpuveiða og hefir stundað þá veiðiaðferð síðan síðustu daga í maí og hepnast vel.

Ægir. 1 júní 1918.

        Faxi RE 219 á togveiðum

Faxi, mótorskip þeirra Sigurjóns Péturssonar o. fl., fer nú til fiskiveiða. Hefir nú verið settur á skipið útbúnaður til þess það geti veitt með botnvörpum, að minsta kosti ef dýpi er ekki mjög mikið, og í bærilegu veðri. Annað mótorskip, Sigurður I., sem nú fer póstferðirnar héðan til Borgarnes, hefir slíkan botnvörpuútbúnað, og hefir reynst sæmilega. Skipstjóri á Faxa verður Gísli Magnús Oddsson frá Ísafirði.

Frón. 20 tbl. 1 júní 1918.

           Vjelbáturinn Faxi VE

Tvo vjelbáta rak upp af höfninni í Vestmannaeyjum í ofviðrinu fyrir helgina, sem áður er sagt. Hefir tekist að ná öðrum þeirra út, þeim minni. En stærri bátnum, Faxa, eign Gísla Magnússonar, hefir ekki tekist að ná út. Bátur þessi var festur utan á skipið Örn, er lá við bryggju, en er Örn losnaði og rak í bátaþvöguna á höfninni, losnaði Faxi frá Erni, og rak síðan upp í hafnargarðinn. Um stórstraumsflóð var reynt að ná Faxa út. Var enskur togari fenginn til þess að reyna að draga hann á flot, en það mistókst. Báturinn er talsvert brotinn. Talið er tilgangslaust að reyna að ná honum út, úr því ekki tókst í síðasta stórstreymi, fyrri en þá um næsta stórstraum, ef báturinn verður þá ekki laskaður, meira en hann er nú, en hætt er við að svo verði ef óveður halda áfram.

Morgunblaðið. 18 janúar 1933.

22.11.2017 18:50

Siglunes SI 15. LBWM / TFKE.

Siglunes SI 15 var smíðað í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1875. Járn og stál. 88 brl. 250 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Rolf. Eigandi var Henrik Henriksen útgerðarmaður og síldarsaltandi á Siglufirði frá júnímánuði árið 1923. Við andlát Henriks árið 1924, er skipið gert út af erfingjum hans. Selt 1926, T. Hoffmann Olsen á Siglufirði, sama nafn og númer. Selt 1928-29, Fáfni h/f í Reykjavík (Magnúsi Guðmundssyni og fl.), skipið hét Fáfnir RE 3. Selt 20 júní 1934, Bergþóri Teitssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt 26 nóvember 1937, Jóni Ásgeirssyni á Siglufirði, hét þá Hringur SI 1. Skipið var lengt árið 1942, mældist þá 93 brl. Ný vél (1942) 190 ha. Gummins díesel vél. Selt 2 janúar 1946, Guðmundi Jörundssyni útgerðarmanni á Akureyri, hét Njörður EA 767. Ný vél (1947) 200 ha. Ruston díesel vél. Selt 1 mars 1947, Pálmari G Guðnasyni og Jóni G Sólnes á Akureyri og Steingrími Sigurðssyni á Hjalteyri. 5 júlí 1949, var Sólnes h/f á Akureyri eigandi skipsins. Selt 1957, Húnasíld h/f í Höfðakaupstað (Skagaströnd). 25 júlí 1957 var Fiskveiðasjóður Íslands eigandi skipsins. Selt 29 janúar 1958, Vísundi h/f í Reykjavík, hét Vísundur RE 280. Talið ónýtt og tekið af skrá árið 1963.


Siglunes SI 15 á síldveiðum á Skagafirði. Drangey í baksýn.                               Mynd úr safni mínu.


Hringur SI 1.                                                                                                         Mynd úr safni mínu.

19.11.2017 09:38

368. Dalaröst NK 25. TFZW.

Dalaröst NK 25 var smíðuð hjá Sören Larsen & Sönner í Nyköbing Mors í Danmörku árið 1959. Eik. 69 brl. 360 ha. Lister Blackstone díesel vél. Eigandi var útgerðarfélagið Glettingur h/f í Neskaupstað frá febrúar árið 1959. Selt 12 ágúst 1965, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ögmundur ÁR 10. Selt 16 nóvember 1973, Hafliða h/f í Þorlákshöfn, hét Guðfinna Steinsdóttir ÁR 10. Selt 28 desember 1976, Sif h/f á Hvammstanga, hét Sif HU 39. (Heimild fyrir því að skipið hafi heitið áður Sif RE 39). Ný vél (1978) 425 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Selt 1 nóvember 1982, Friðriki Sigurðssyni, Birgi Karlssyni og Guðmundi Jóhannssyni á Hvammstanga, sama nafn og númer. Selt 14 mars 1983, Kristni V Sveinbjarnarsyni og Guðmundi Hólm Svavarssyni í Ólafsvík, hét Lómur SH 177. Selt 21 september 1988, Sæborgu s/f í Ólafsvík, hét Lómur ll SH 177. Selt 15 maí 1989, Magnúsi s/f í Ólafsvík, hét Magnús BA 127. Heimahöfn skipsins var á Brjánslæk á Barðaströnd. Selt 30 júní 1990, Rekey h/f útgerðarfélagi á Brjánslæk. Frá 9 maí 1991 hét skipið Bjargey BA 407. Selt 16 júní 1993, Seley h/f á Brjánslæk, hét Hrauney BA 407. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 18 maí árið 1999 og það síðan brennt á Ísafirði.

Dalaröst NK 25 í innsiglingunni til Vestmannaeyjahafnar.                               (C) Tryggvi Sigurðsson.

Dalaröst NK 25 og Heimir SU 100 við Garðarsbryggjuna á Seyðisfirði.  (C) Magnús Þorvaldsson.


Dalaröst NK 25 á síldveiðum.                                                                  (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Hrauney BA 401. Ekki sjón að sjá skipið svona útlítandi.                             (C) Tryggvi Sigurðsson.


Hrauney BA 401. Engin furða að gömul skip endi á bálinu þegar umgengnin er svona um þau. Dapurleg örlög sem margur báturinn fékk.                         (C) Tryggvi Sigurðsson.

                Dalaröst NK 25

Í gærkvöldi kom hingað nýr fiskibátur, smíðaður í Nyköbing Mors í Danmörku eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Báturinn er 69 smálestir með 360 hestafla Blackstone Lister vél og búinn öllum nýjustu siglingatækjum m. a. Decca ratsjá. Báturinn er mjög vandaður að öllum frágangj. Hann var aðeins 3 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Nyköbing Mors, en það er bær lítið eitt stærri en Akureyri, sem stendur við Limafjörðinn á Jótlandi. Kom báturinn við í Færeyjum á heimleið. Skipstjóri á bátnum er Þorleifur Þorleifsson og sigldi hann honum til landsins. Fyrsti vélstjóri er Rögnvaldur Sigurðsson, en stýrimaður verður Þórður Víglundsson.
Báturinn heitir Dalaröst NK 25. Eigandi er hlutafélagið Glettingur en aðal hluthafar í því eru Eyþór Þórðarson kennari, Þorleifur Þorleifsson skipstjóri og Björgvin Jónsson kaupfélagsstjóri á Seyðisfirði, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins. Báturinn fór strax í morgun til Seyðisfjarðar, en fer fljótlega til Keflavíkur, en þangað er hann leigður í vetur.

Austurland. 13 mars 1959.18.11.2017 20:42

306. Auðunn EA 157.

Auðunn EA 157 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1963 fyrir Kristinn Jakobsson og Garðar Sigurpálsson í Hrísey. Eik. 21 brl. 200 ha. Scania Vabis díesel vél. Seldur 28 janúar 1972, Brynjari Sigurðssyni, Sævari Sigurðssyni og Daða Eiðssyni í Grýtubakkahreppi í Suður-Þyngeyjarsýslu, hét Sævar ÞH 3. Ný vél (1974) 230 ha. Scania díesel vél. Seldur 20 maí 1977, Sverri Sigurðssyni í Bolungarvík, hét Árni Gunnlaugs ÍS 32. Seldur 21 ágúst 1980, Hrönn s/f á Ólafsfirði, hét Hrönn ÓF 58. Seldur 29 maí 1985, Fiskverkun Jóhannesar og Helga h/f á Dalvík, hét Hrönn EA 158. Seldur 30 nóvember 1994, Árna og Herði Sigurbjarnarsonum á Húsavík, heitir Knörrinn ÞH. Báturinn er gerður út sem hvalaskoðunarskip og er í eigu Norðursiglingar á Húsavík í dag.


Auðunn EA 157 á siglingu á Eyjafirði.                                                                Ljósmyndari óþekktur.


Knörrinn ÞH við bryggju á Hjalteyri.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

                         Knörrinn ÞH


Knörrinn var fyrsti báturinn á Íslandi til að fara í áætlunarferðir í hvalaskoðun. Hann var byggður á Akureyri árið 1963 og hefur allt tíð síðan reynst hið mesta happafley. Knörrinn hefur marga hildi háð og stóð meðal annars af sér hið fræga "apríl veður" 1963 þegar hann var mánaðargamall á veiðum norður af landinu. Í þessu sama veðri fórust bátar og skip og með þeim 16 sjómenn. 1968 var honum siglt á ísjaka á fullri ferð en það, sem og annað, stóð hann af sér og er það spurning hvort að það sé gullpeningi sem settur var undir formastrið við smíði bátsins að þakka eður ei.
Knörrinn kom til Húsavíkur árið 1994 og var endurnýjaður um veturinn. Síðan 1995 hefur Knörrinn siglt óslitið í hvalaskoðun um Skjálfandaflóa.

 

Af heimasíðu Norðursiglingar á Húsavík.

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1251
Gestir í gær: 207
Samtals flettingar: 1257579
Samtals gestir: 355374
Tölur uppfærðar: 17.11.2018 00:07:21