04.02.2018 08:19

2940. Hafborg EA 152. TF..

Hafborg EA 152 var smíðuð í Szczecin í Póllandi og Hvide Sande í Danmörku árið 2017. 283 bt. 653 ha. Yanmar díesel vél, 481 Kw. Skipið er 24,94 m. á lengd, 8 m. á breidd og djúprista þess er 6,3 m. Eigandi skipsins er Hafborg ehf á Akureyri en heimahöfn skipsins er í Grímsey. Óska eigendum, áhöfn og öllum Grímseyingum til hamingju með nýja skipið.
Það var Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sem sendi mér í fyrrakvöld myndirnar af Hafborginni við komuna til Dalvíkur hinn 31 janúar síðastliðinn. Þakka ég honum enn og aftur fyrir afnotin af myndunum hans.


2940. Hafborg EA 152 leggst við bryggju á Dalvík.                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152 í Dalvíkurhöfn.                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


              Ný Haf­borg EA í flot­ann

Haf­borg EA 152, nýr bát­ur út­gerðarfé­lags­ins Haf­borg­ar ehf. í Gríms­ey, kom til hafn­ar á Dal­vík í fyrrakvöld eft­ir sigl­ingu frá Dan­mörku. Skipið leys­ir af hólmi annað með sama nafni en er raun­ar fjórða Haf­borg fyr­ir­tæk­is­ins, sem gert hef­ur út frá Gríms­ey í þrjá ára­tugi.
Dönsk skipa­smíðastöð, í Hvi­de Sand, sá um smíði skips­ins. Dan­irn­ir létu reynd­ar smíða skrokk­inn í Póllandi, eins og þeir eru van­ir. Þar var sett aðal­vél, ljósa­vél og gír í skipið og það síðan dregið til Dan­merk­ur þar sem verk­efnið var klárað. 
Nýja Haf­borg er 284 brútt­ót­onn, 26 metr­ar að lengd og átta metra breið. "Hún er tölu­vert stærri en sú gamla sem var mæld 60 brútt­ót­onn."

Mbl.is 2 febrúar 2018.

03.02.2018 09:53

Sæfell SH 210. TFBY.

Vélskipið Sæfell SH 210 var smíðað í Lubeck Travemunde í V- Þýskalandi árið 1959. Eik. 74 brl. 400 ha. MaK díesel vél. Eigendur voru Guðmundur Jensson útgerðarmaður í Ólafsvík og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík frá desember sama ár. Selt 1964, Hjallanesi h/f á Flateyri, sama nafn og númer. Báturinn fórst 11 október árið 1964 á leið frá Akureyri til Flateyrar og með honum áhöfnin, þrír menn.
Umfangsmikil leit var gerð af Sæfelli næstu daga en hún bar engan árangur.


Vélskipið Sæfell SH 210 á sundunum við Reykjavík.                                        (C) Snorri Snorrason.

                Nýr bátur til Ólafsvíkur

Ólafsvík, 16. Janúar. Ellefti báturinn, sem hóf róðra héðan á þessari vertíð, var nýr bátur, Sæfell SH 210. Hann er byggður í Travemunde í Vestur Þýzkalandi og kom til landsins upp úr áramótunum. Eigendur bátsins eru Guðmundur Jensson skipstjóri og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík. Báturinn er 75 tonn að stærð, búinn 380 ha. vél og öllum fullkomnustu siglinga og fiskileitartækjum og hinn vandaðasti að öllum frágangi. Gunnar Valgeirsson skipstjóri sigldi bátnum til landsins og reyndist báturinn í þeirri ferð hið bezta skip. Guðmundur Jensson verður skipstjóri á Sæfelli. Hann er 48 ára að aldri. Hann hóf sjómennsku á unga aldri, varð fyrst formaður á 10 tonna báti, Hrönn, sem hann átti í félagi með stjúpa sínum, Jóhanni Kristjánssyni. Hann hefur ávallt síðan verið formaður og útgerðarmaður, skipt um farkost og fylgi þeirri þróun, sem orðið hefur í útvegsmálum Ólafsvíkur. Hann hefur í alla staði verið hinn farsælasti maður í sínu starfi.
Ólafsvíkurbúar fagna hinu nýja skipi og óska eigendum þess, skipstjóra og áhöfn til hamingju með það.

Alþýðublaðið. 22 janúar 1960.

     Leitað var að Sæfelli í allan gærdag 

Vélbáturinn Sæfell SH 210 er týndur. Ekkert hefur spurzt til bátsins síðan á miðnætti á laugardag, þegar hann var staddur austur af Hornbjargi á leið frá Akureyri til Flateyrar, þar sem hann er gerður út. Á bátnum eru 3 menn. Mjög víðtæk leit er hafin úr lofti, á sjó og landi, en hún hafði ekki borið árangur seint í kvöld. Leitarskilyrði úr lofti voru afleit í dag, en bátar frá Ísafirði og varðskip hafa leitað á Húnaflóa og út af Hornströndum. Leitarveður hefur verið slæmt og bátarnir orðið að halda sig langt frá landi. Verið er að athuga um möguleika á að leita fjörur á Ströndum, en það er erfitt vegna þess að Strandir eru að mestu í eyði. Vitavörðurinn á Hornbjargi, Jóhann Hjálmarsson verður fenginn til að leita fjörur frá Horni suður á Barðsvík, en fólk á Dröngum, sem er bær norðan Ófeigsfjarðar, fengið til- að leita þaðan í Geirhólm í Reykjafjörð nyrðri, en 6 manna leitarflokkur fari frá Ísafirði og verði kominn um Skorarheiði í Furufjörð á Ströndum á morgun. Þar mun flokkurinn skipta sér í tvennt og annar hópurinn leita norður að Barðsvík og hinn í suður að Geirhólmi. Talið er að birtan nægi til að flokkarnir komist yfir þetta svæði. Eins og fyrr er sagt var leitarveður í lofti og á sjó slæmt í dag, en leitinni verður að sjálfsögðu haldið áfram á morgun. Verði gott skyggni, mun flugvél "kemba" ströndina alls staðar þar sem mögulegt er að bátinn hefði borið að landi.
Sæfell er 74 tonna bátur, smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi árið 1959. Hann var fyrst eign kaupfélagsins Dagsbrúnar á Ólafsvík, en var seldur til Flateyrar vorið 1963. Verið var að setja hvalbak á bátinn á Akureyri, en hann áætlaði að vera kominn til Flateyrar í gærmorgun.

Alþýðublaðið. 13 október 1964.


                     Sæfellið talið af

Fullvíst er nú talið að vélbáturinn Sæfell SH 210, hafi farizt og með honum þrír menn. Eins og frá hefur verið skýrt í blaðinu hefur ekkert spurzt til skipsins síðan á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins, en þá var það statt um 20-30 mílur austur af Horni á leið frá Akureyri til Flateyrar, en þangað var skipið keypt fyrir stuttu. Umfangsmikilli leit hefur verið haldið uppi á landi og sjó og úr lofti, en ekkert hefur fundizt er gefið gæti til kynna, hver afdrif skipsins hafa orðið.
Síðast í dag leituðu varðskipsmenn það strandsvæði vestan Horns, sem leitað var úr lofti. en árangurslaust. Með Sæfelli voru þrír menn. Þeir voru:
Haraldur Olgeirsson, skipstjóri, Flateyri, lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Sævar Sigurjónsson, ættaður frá Hellissandi en nýfluttur til Flateyrar. Lætur eftir sig konu og eitt barn. Ólafur Sturluson, Breiðdal í Önundarfirði, ókvæntur.

Tíminn. 16 október 1964.

31.01.2018 19:59

Síldveiðiskipið Kristján EA 390 á málverki.

Ég rakst á þetta fallega málverk af Kristjáni EA 390 um daginn. Listamaðurinn heitir Doddi og hann hefur málað þessa mynd árið 1981, eða fyrir liðlega 37 árum síðan. Gott væri að vita meiri deili á Dodda, en kannski veit einhver hver hann er. Ég var búinn að fjalla um Síldveiðiskipið Kristján EA 390 frá Akureyri 5 október s.l. Læt þær upplýsingar fljóta með hér að neðan.


Síldveiðiskipið Kristján EA 390.                                                            Málverk eftir Dodda 1981.


Kristján EA 390 á síldveiðum.                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

        Síldveiðiskipið Kristján EA 390

Kristján EA 390 var smíðaður í Noregi (Stavanger ?) árið 1919. Eik og fura. 67 brl. 80 ha. June Munktell vél. Eigandi var Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri frá 2 október 1923. Skipið var lengt á Akureyri árið 1937, einnig var sett ný vél, 150 ha. Völund vél. Selt 25 apríl 1952, Sameignarfélaginu Kristjáni á Ólafsfirði, hét Kristján ÓF 26. Ný vél (1953) 330 ha. Gray GM díesel vél. Selt 6 desember 1961, Niðursuðu og hraðfrystihúsi Langeyrar í Súðavíkurhreppi, hét þá Kristján ÍS 125. Skipið rak á land við Langeyri 20 janúar árið 1964 og eyðilagðist.

28.01.2018 09:28

Hera RE 167.

Vélskipið Hera RE 167 var smíðuð af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur (Völundi) árið 1913. Eik og fura. 19 brl. 38 ha. Vél, tegund óþekkt. Eigandi var Garðar Gíslason stórkaupmaður í Reykjavík frá 17 október sama ár. Seld 11 desember 1916, Lofti Loftssyni og Sigurði Oddssyni, sennilega í Sandgerði. Báturinn var seldur árið 1919-20, Þórði Ásmundssyni á Akranesi. Árið 1921 heitir báturinn  Hera MB 107. Fórst í Faxaflóa 11 febrúar árið 1922 með allri áhöfn, 6 mönnum.
Mennirnir sem fórust með Heru voru:
Guðmundur Erlendsson formaður, Heimaskaga á Akranesi. 31 árs.
Valdimar Jónsson vélamaður, Hákoti á Akranesi. 30 ára.
Valgeir Júlíus Guðmundsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Jónsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Oddsson háseti, Steinsstöðum. 52 ára.
Magnús Kristjánsson háseti, Bíldudal. 17 ára.


Hera RE 167 sjósett 17 október 1913 með hvítbláann í skut.              (C) Magnús Ólafsson.


          Bátasmíðastöð Reykjavíkur

Árið 1906 eða 1907 gekk Bjarni Þorkelsson til samstarfs við trésmiði í Völundi og stofnuðu Bátasmíðastöð Reykjavíkur sem hafði aðsetur á Völundarlóðinni ( á horni Klapparstígs og Skúlagötu) Þar voru fjölmargir bátar smíðaðir og sumarið 1913 var ráðist í það stórvirki að smíða 19 smálesta mótorbát með 38 hestafla vél fyrir Garðar Gíslason stórkaupmann. Var það mesta stórvirki í vélskipasmíðum til þess tíma. Magnús Guðmundsson var yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri Slippfélagsins, hafði umsjón með verkinu.

Saga Reykjavíkur. 1870-1940. Guðjón Friðriksson 1991.


             Vélskipið Hera RE 167

Hera, hið nýja  vélarskip, sem Garðar kaupmaður Gíslason lét smíða í vetur, fór fyrstu för sína til Hafnarfjarðar í gær. Var margt manna með, og kemur nákvæm ferðasaga á morgun.

Morgunblaðið. 1 apríl 1914.


Teikning af bát smíðuðum af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur.


             Með Heru til Hafnarfjarðar

Í fyrradag voru margir Reykvíkingar, 20-30 talsins boðnir að skoða hið nýja vélskip Garðars Gíslasonar kaupmanns, Heru, og fara með þvi fyrstu ferðina, sem heitið var til Hafnarfjarðar. Veður var hið glæsilegasta, skínandi sólskin og blæjalogn. Flestir blaðamenn bæjarins, ýmsir kaupmenn, smiðir skipsins o. fl. voru meðal farþega. Hera tók farþegana á bæjarbryggjunni og lét síðan í haf fánum skreytt »frá hvirfli til ilja«. Þótti öllum skipið hið fegursta og til þess vandað í hvívetna. Gekk ferðin hið bezta út undir Gróttu, en þá kom í ljós, að lítilsháttar aukastykki í vélinni var bilað, hefir liklega brotnað af því að skipið rakst á grunn upp við bæjarbryggju. Varð því að stöðva hana um hríð, meðan að var gert. En ekki margt að því fyrir farþega að sitja á skipsfjöl í slíku veðri eins og í fannhvítum fjallasal, því að sól skein á tinda allra Faxaflóafjalla, hin dýrlegasta sjón.
Meðan beðið var, skemmtu menn sér við söng og samræður. Síðan var haldið með fullum hraða til Hafnarfjarðar, stigið þar í land og notið hressingar í Hótel Hafnarfjörður. Flutti Garðar kaupmaður þar ræðu, sagði frá tilgangi sínum með því að ráðast í að láta smíða Heru, taldi slík smáskip hina hentugustu flóabáta. Var síðan drukkin velfarnaðarskál Heru og eiganda hennar og Garðari fluttar samfagnaðarræður. Um kvöldið var svo haldið til Reykjavíkur, en fyrir innan Gróttu kom það í ljós að vélin hafði hitnað um of og varð að kæla hana, svo af varð dráttur nokkur. Vélin í Heru er hin eina þeirrar tegundar hér. Nú er tilætlun Garðars að fá Jessen vélfræðing, kennara Stýrimannaskólans, til þess að skoða hana grandgæfilega og kenna síðan meðferðina á henni ítarlega, svo að eigi geti bilanir neinar átt sér stað. Til stendur, að Hera verði á Breiðafirði í sumar til vöru- og mannflutninga.
Er Sæmundur kaupmaður Halldórsson frá Stykkishólmi staddur hér nú til þess að gera samninga um leigu á henni. Vér óskum eiganda Heru góðs gengis henni til handa. Framkvæmdasemi hans í þessu efni, ætti að bera góðan ávöxt.
»Hera« var smíðuð hér í skipasmíðastöð Völundar í sumar og haust. Var hún 7 mánuði í smiðum og var Magnús Guðmundsson yfirsmiður en Othar Ellingsen forstjóri umsjónarmaður verksins. Skipið ,er 52,6 fet á lengd, 12,4 á breidd og ber 19 smálestir. Í því er 38 hestafla hreyfivél og á það að geta farið 7-8 mílur á vöku. Það hljóp af stokkunum þann 17. okt. s. l. og hefir legið hér á höfninni síðan.

Morgunblaðið. 2 apríl 1914.


Hera RE 167 á Reykjavíkurhöfn árið 1919.                         (C) Magnús Ólafsson.

                     Hörmulegt manntjón

 14 eða 15 menn farast í laugardagsveðrinu

Ofviðrið á laugardaginn var hefir því miður haft sorglegar afleiðingar í för með sjer. 11 febrúar er langmesti mannskaðadagurinn á þessu ári, eða þeim stutta tíma, sem af því er liðinn og verður vonandi eigi annar dagur sorglegri á árinu. Tveir mótorbátar hafa að öllum líkindum farist, er fullvíst um annan, og því miður örlitlar vonir um hinn. Auk þess hefir menn tekið út af tveimur eða, þremur bátum öðrum. Á laugardagsmorguninn, snemma var besta veður í Sandgerði en útlit eigi sem best. Ganga þaðan um 25 mótorbátar, eigi aðeins frá Sandgerði heldur einnig frá öðrum veiðistöðvum og munu þeir flestir eða allir hafa farið í róður kl. 4-6 um morgnninn. Fara bátarnir um það bil tveggja tíma leið á miðin. Undir klukkan átta versnaði veðrið nokkuð og hvesti á landsunnan og sneru sumir bátarnir þá þegar við. Hjá einum bátnum bilaði vjelin um morguninn og sneri hann því til lands.
Aðeins þessi bátur og tveir aðrir náðu lendingu í Sandgerði, sá seinasti um kl. 10 um morguninn, en þá var komið ofsarok á útsunnan, svo að fleiri bátar náðu ekki lendingu í Sandgerði. Urðu þeir að leita lendingar í Njarðvík, Keflavík og 5 komust alla leið hingað til Reykjavíkur. Allir bátarnir nema tveir náðu lendingu og þessir bátar voru "Njáll" frá Sandgerði og "Hera" frá Akranesi.
Að því er vjer höfum heyrt, höfðu skipverjar á mótorbátnum "Björg" sjeð "Njál" farast nálægt miðjum degi á laugardaginn. Kom feikimikill sjór á bátinn og sökti honum. Á bát þessum voru fimm menn og hafa þeir allir farist. Formaðurinn var Kristjón Pálsson, ættaður úr Ólafsvík, en nú heimilisfastur hjer. Lætur hann eftir sig ekkju og tvö börn, hið síðara vikugamalt. Kristjón var talinn einn allra duglegasti formaðurinn, sem sjó hefir stundað í Sandgerði. Auk hans druknuðu þessir menn á ,,Njáli" : Skarphjeðinn Pálsson úr Ólafsvík, bróðir formannsins, Snorri Magnússon vjelstjóri, heimilisfastur hjer. einhleypur maður, Ingimar Jónsson og Ólafur Sigurðsson báðir einhleypir menn af Miðnesinu. Allir voru þessir menn ungir og miklir dugnaðarmenn.
Nöfn skipverjanna á "Heru" höfum vjer eigi frjett annara en formannsins, sem hjet Guðmundur Erlendsson. Munu 6 eða 7 menn hafa verið á því skipi. Þá missti m.k. "Ása" úr Hafnarfirði tvo menn og "Gunnar Hámundarson einn. Um aðra mannskaða höfum vjer ekki sannfrjett.

Lögrétta. 17 febrúar 1922.


27.01.2018 05:49

B. v. Seagull RE 100. LBJM.

Botnvörpungurinn Seagull RE 100 var smíðaður hjá J. R. Oswald & Co í Milford Haven í Wales í Bretlandi árið 1894. 146 brl. 94 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Ross & Duncan í Glasgow í Skotlandi 1874. Smíðanúmer 267. Hét fyrst Seagull M 4 og var gerður út frá Milford. Kom togarinn til landsins 10 júní árið 1905 (3 mánuðum á eftir Coot). Eigendur hans voru kaupmennirnir Benedikt Stefánsson og Eyjólfur Ófeigsson, Bjarnhéðinn Jónsson járnsmiður og Guðmundur Einarsson steinsmiður. Enginn þessara manna hafði komið að útgerð áður, hvað þá að gera út botnvörpung. Seldur Þorvaldi Björnssyni í Reykjavík árið 1906. Seldur í maí 1907 Pétri Jónssyni í Reykjavík. Seldur í september 1907, Bárði Kristjáni Guðmundssyni í Reykjavík. Togarinn slitnaði upp og strandaði í Vestmannaeyjum haustið 1907. Náðist út af strandstað og var dreginn til Reykjavíkur. Var rifinn í fjöru í Hafnarfirði nokkrum árum síðar. 
Ég var búinn að setja inn innlegg um Seagull 5 október 2015 en það var ekki rétt mynd af honum þá, heldur af frönskum togara sem lá við stjóra í Vestmannaeyjahöfn. Seagull gæti hafa haft skráningarnúmerið M 112 í Milford, en eftir myndinni hér að neðan er ekki betur séð en að það hafi verið M 4. Skipið hér fremst á myndinni ber nafnið Seagull og þá ætti gamli "fjósarauður" að vera kominn í leitirnar.

Botnvörpungurinn Seagull M 4 sem síðar varð RE 100 og kallaður manna í milli "fjósarauður" til háðungar eiganda sínum, Þorvaldi Björnssyni óðalsbónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Þeir eru þarna 4 togararnir, allir eins og voru smíðaðir í Milford.       (C) Robert Kettle.

               Botnvörpungurinn Seagull

Í fyrsta tölublaði Ægis, í júlí 1905, er sagt frá komu Seagulls og henni fagnað. Segir þar m.a.:

"Heyrst hefir að margir hér í Reykjavík og nágrenninu hefðu í hyggju að selja þilskip sín ef kostur er og kaupa aftur botnvörpuskip,og sýnir þetta virðingarverðan áhuga fyrir að fylgja með tímanum í fiskiveiðamálunum."


Ægir. 1 júlí 1905.Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi.Fæddur í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum 18. október 1833, dáinn 30. nóvember 1922. Bóndi í Núpakoti undir Eyjafjöllum 1863-1886, í Svaðbæli 1886-1905, vann þar mjög að jarðabótum, hýsti stórmannlega og nefndi býlið Þorvaldseyri. Dvaldist í Reykjavík 1905-1909 og átti þá talsverðan þátt í togaraútgerð. Fluttist síðan aftur að Núpakoti og var þar til æviloka. Alþingismaður Rangæinga 1886-1891.
                                                                                              Innlendur botnvörpungur sektaður

Botnvörpungurinn Seagull, er keyptur var hingað í vor sem leið frá Englandi af nokkrum Reykvíkingum í félagi (þorvaldi fyrrum óðalsbónda á þorvaldseyri Bjarnarsyni, Guðmundi Einarssyni steinsmið, og 3-4 öðrum) og haldið var út í sumar við botnvörpuveiðar, varð uppvís að því, að hafa brotið landbelgislögin hér suður í Garðsjó og hlaut fyrir það hér í fyrradag, 1.100 kr. sekt, auk málskostnaðar og aflamissis og veiðarfæra, sem var allt gert upptækt. Málskostnaður mun hafa verið töluverður, með því að sýslumaðurinn í Kjósar- og Gullbringusýslu varð að hafa töluvert fyrir að fá brotið sannað, ferðalög og annað. Skipstjórinn, Árni Eyjólfsson (Byron) var ekki betri en hinir útlendu sökudólgar með það, að hann þrætti fyrir brotið, eins og þeir, meðan hann gat. Skipið kvað hafa aflað illa í sumar og skaði því mikill á útgerðinni.

Ísafold. 28 október 1905.

                               Skipsstrand.

Frá Seyðisfirði er símað nýlega "Seagull" slitnaði upp á höfninni í Vestmanneyjum 8. desember og rak í land, bilaði svo, að er ósjófær. Ábyrgðin var í ólagi. Viðlagasjóður hafði lánað út á hann 15,000 kr. Búist er við, að björgunarskip geti náð honum út "Seagull" var botnvörpuskip, fyrrum eign Þorvalds Björnssonar frá Þorvaldseyri en nú sameign allmargra manna hér í bæ og haft til flutninga fyrir Edinborgar verzlun.

Ingólfur. 7 janúar 1908.

                       "Útgerð" Seagull

Útgerð Seagulls gekk alla tíð á afturfótunum. Fljótlega eftir að skipið kom til Reykjavíkur, var því haldið til veiða undir stjórn Árna Eyjólfssonar, en afli var lítill sem enginn. 
Sá maður,sem kunnastur er af útgerð Seagulls, er Þorvaldur Björnsson óðalsbóndi, ýmist kendur við Núpakot eða Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hann var kominn yfir sjötugt er hann lenti í hinu misheppnaða Seagullsævintýri. Honum hafði græðst fé á búskap og var hann í tölu kunnari bænda á Suðurlandi. Þorvaldur fluttist til Reykjavíkur árið 1905 og mun þá fljótlega hafa komist inn í félagsskapinn um Seagull. Fullkominn eigandi Seagulls er hann ekki talinn fyrr en frá 1 desember 1906. Átti hann togarann einn til 28 maí 1907, en þá var hann gjaldþrota á fyrirtækinu. Togarinn var stundum nefndur manna í milli "Fjósarauður"Þorvaldi til háðungar og einnig vegna litarins, en hann var rauðbrúnn. Síðast var hann notaður til flutninga, allt þar til hann slitnaði upp,rak á land og skemmdist við Vestmannaeyjar í desember árið 1907. Hinn 9 júlí 1908 var auglýst nauðungaruppboð á botnvörpuveiðiskipinu Seagull og skyldi það fara fram hinn 13 sama mánaðar "við skipið, þar sem það nú stendur uppi í fjörunni hjer (þ.e. í Vestmannaeyjum)"Á Seagull hvíldi skuld við Fiskiveiðasjóð Íslands, sem lenti á ekkju Péturs Jónssonar blikksmiðs sem var gerð gjaldþrota þess vegna. Flakið hefur líklega verið dregið til Hafnarfjarðar, því að þar var það rifið mörgum árum seinna.

 Heimildir: Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                   Birgir Þórisson.

 

25.01.2018 21:59

2926. Stormur HF 294. TF..

Neta og línuveiðiskipið Stormur HF 294 var smíðaður hjá Alkor SP. Z. O. O. UL í Gdansk í Póllandi árið 2015. 1.027 Bt. (680 brl.) 3 x 632 ha. Caterpillar C 18. 1.896 ha, 1.395 Kw. Eigandi skipsins er Stormur Seafood ehf í Hafnarfirði. Upphaflega var skipið 23 m. á lengd, en var lengt um 22 m. og breytt á margan hátt. Skrokkur skipsins kom frá Nýfundnalandi. Ekki annað að sjá en að skipið er hið glæsilegasta og búið fullkomnum búnaði til línuveiða og mun án efa reynast vel.


2926. Stormur HF 294 við Grandagarð.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 janúar 2018.


2926. Stormur HF 294 fyrir lengingu og breytingar í Póllandi.                               (C) Lurkurinn.

             Storm­ur kom­inn til hafn­ar

Nýtt neta- og línu­veiðiskip, Storm­ur HF, kom til hafn­ar í Reykja­vík í gær­morg­un, eft­ir að hafa verið full­smíðaður í Gdansk í Póllandi. Þar var skrokk­ur­inn lengd­ur úr 23 í 45 metra en út­gerðarfyr­ir­tækið Storm­ur Sea­food ehf. keypti skrokk­inn í Ný­fundna­landi fyr­ir nokkr­um árum.
Skipa­sýn hannaði breyt­ing­arn­ar en skipið er raf­knúið og búið ýms­um full­komn­um tækj­um. Rými er fyr­ir 20 í áhöfn.

Mbl.is. 19 desember 2017.

21.01.2018 13:01

Helena ÍS 424. LBHQ / TFBJ.

Vélbáturinn Helena ÍS 424 var smíðaður í Noregi árið 1918. Fura. 36 brl. 40 ha. Bolinder vél. Helena var fyrst í eigu Magnúsar Thorberg útgerðarmanns á Ísafirði frá árinu 1923, en þá var báturinn innfluttur. Seldur sennilega árið 1924, Jóhanni J. Eyfirðingi & Co á Ísafirði. Seldur 25 janúar 1929, Högna Gunnarssyni, Ólafi Péturssyni og Guðmundi Guðlaugssyni í Bolungarvík, báturinn hét Vigri ÍS 424. Ný vél (1930) 70 ha. Densil vél. Seldur 15 maí 1936, Magnúsi Guðmundssyni í Reykjavík, hét Gautur RE 70. Báturinn var endurbyggður 1936 og ný 90 ha. Bolinder vél var þá sett í hann. Seldur 28 febrúar 1942, Óla Konráðssyni, Konráð Sigurðssyni og Þorvaldi Guðjónssyni á Akureyri, hét Gautur EA 669. Seldur 22 nóvember 1944, Sveini Frímannssyni og Agli Sigurðssyni á Akureyri, sama nafn og númer. Ný vél (1946) 135 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 21 desember 1951, Pétrínu Jónsdóttur í Keflavík, hét Sæborg EA 669. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1955.
Það má geta þess að það var Gautur EA 669 sem bjargaði áhöfninni á vélbátnum Einari þveræing EA 537, þegar hann brann og sökk út af Hraunhafnartanga 24 júlí árið 1947.


Helena ÍS 424 á Ísafirði.                                                                                              (C) M. Simson.


Helena ÍS 424 á síldveiðum.                                                                            Mynd úr Íslensk skip.

           Loðnuveiðar í Faxaflóa
                á vertíðinni 1938

Hinn 22. febrúar fréttist hingað, að loðna væri komin til Vestmannaeyja og næstu daga var hún komin í Miðnessjó og inn í Faxaflóa. "Dagsbrún" RE. 47 og "Gautur" RE. 70, voru gerðir út á loðnuveiðar og seldu beitu í Keflavík og víðar og allir bátar höfðu loðnuháfa. Aflaðist vel á hana, en slæmt sjóveður dró mjög úr veiði. Síðustu daga febrúarmánaðar var loðna komin um allan flóann og mikill afli. M/b. "Þráinn" NK. 70 var á loðnuveiðum og seldi Sandgerðisbátum beitu, sömuleiðis "Aðalbjörg" RE. 5, um tíma, sem flutti loðnu til Akraness og seldi þar.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1938.

20.01.2018 08:54

Sexæringurinn Stanley. Fyrsti mótorbátur landsmanna.

Sexæringurinn Stanley var smíðaður á Ísafirði um 1860. Eik og fura. 2 brl. 2 ha. Möllerup vél var sett í bátinn haustið 1902. Stanley var þá í eigu Sophusar J. Nielsen verslunarstjóra og Árna Gíslasonar fiskmatsmanns og formanns á Ísafirði. Guðmundur Guðmundsson bóndi á Eyri í Mjóafirði lét upphaflega smíða bátinn fyrir sjálfan sig. Skipasmiðurinn var Þórir Pálsson fæddur 1797 og dó skömmu eftir 1880. Báturinn hefur sennilega verið smíðaður fyrir eða um 1860. Um 1885 gekk báturinn undir nafninu Skálin og átti Guðmundur á Eyri verbúð í Bolungarvík sem kölluð var Skálarbúð. Nafngiftin mun hafa komið af því að Guðmundur fór með bátinn eins og hann væri glerskál eða postulín. Þórir skipasmiður prófaði allan við sem nota átti í bátinn með að höggva af spæni og setja á vatn og neitaði að nota við sem illa flaut og kallaði það manndrápsvið. Árni keypti Skálina 1890 af Ebenezer tengdasyni Guðmundar á Eyri og var hún þá nýviðgerð. Ebenezer bjó í Þernuvík og á Hvítanesi við Skötufjörð. Árni breytti nafni skipsins og kallaði það Stanley og bar báturinn það nafn þegar vélin var sett í það. Útgerð bátsins gekk vel þangað til hann rak í land í Borgarbót í Skötufirði árið 1908 og brotnaði þar. Þá var báturinn í eigu Bjarna Sigurðssonar bónda á Borg í Skötufirði. 


Sexæringurinn Stanley.                                                                 Málverk eftir Sigurð Guðjónsson.

    Fyrsti Íslenzki vélknúni fiskibáturinn 

Vestfirðingar hafa löngum eins og vera ber verið forustumenn um sjósókn alla og sjómensku. Það er því ekki undarleg tilviljun, að fyrsta mótorvélin í fiskibát skyldi verða á Vestfjörðum, og þá sérstaklega hér við Ísafjarðardjúp, þar sem sjósókn hefir löngum mest verið. Það þykir hlýða, að rifja hér upp nokkuð úr sögu þessarar merku tilraunar, sem orðið hefir svo afdrifarík fyrir íslenzkar fiskiveiðar, og einmitt í sambandi við sjómannadaginn. Hefir Vesturland því átt viðtal við forgöngumann þessarar merkilegu nýbreytni, Árna Gíslason fyrv. yfirfiskimatsmann. Eru hér birt aðalatriðin úr frásögn hans. En Árni hefir nú í smíðum yfirlitsritgerð um þetta, sem mun birtast innan skamms. Tildrög þess, að Árni fór að hugsa um að fá mótorvél í fiskibát voru fregnir þær, er Árna bárust af mótorvélum, sem Danir, er stunduðu kolaveiðar á Önundarfirði, höfðu í smábátum. Spurði hann Dani, er hann kyntist á spekulantsferðum hér um Djúpið, um mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar. Var það álit flestra, að mótorvélar myndu koma íslenzkum fiskiveiðum að gagni. Sannfærðist Árni af þessum viðtölum um að hér væri um merkilega og gagnlega nýbreytni að ræða. Þeir, Árni og Sophus Jörgen Nielsen, fyrrv. verzlunarstjóri Tangsverzlunar hér, áttu þá í félagi sexæringinn "Stanley". Hreyfði Árni því 1901 við sameignarmann sinn, að hann vildi fá mótorvél í bátinn, á þann hátt að sameigendurnir legðu fram andvirði vélarinnar í félagi. Nielsen tók þessu dauflega og með vantrú á nýbreytnina, en Árni endurtók ósk sína. Fór svo, að Nielsen, sem átti bróður í Esbjerg, kvaðst skyldi leita upplýsinga um þessar nýju mótorvélar í Danmörku og reynslu þeirra þar.


Opnir mótorbátar við bryggju á Ísafirði við konungsheimsóknina þangað árið 1907. Trúlega hefur Stanley verið í þessum fríða bátahópi.   (C) Björn Pálsson.
  
Vildi svo til að þessi bróður Nielsens var vélfræðingur á mótorverkstæði C. H. Möllerups í Esbjerg. Skrifaði hann Nielsen ýtarlegt bréf og hvatti hann til þess að reyna mótorvélar á Íslandi. Pöntuða þeir Árni og Nielsen svo 2ja hestafla vél frá C. H. Möllerup í Esbjerg, í júní 1902. Kom vélin hingað 5. nóv. 1902, með síðustu ferð þess árs. Með þeirri ferð kom einnig maður frá vélaverkstæðinu, J. H. Jessen, þá 17 ára gamall. Setti hann niður vélina og kendi Árna meðferð hennar og hirðingu. Tókst það allt vel, og Jessen fór aftur til Danmerkur eftir áramótin. 1904 kom svo Jessen aftur hingað og setti upp hér á Ísafirði fyrsta vélaverkstæði hér á landi, og starfaði hér til dauðadags. Voru þá þegar komnar svo margar mótorvélar hér og í nágrenninu, að nauðsyn var á viðgerðaverkstæði. Beittu útvegsmenn sér fyrir stofnun þess og gengu 14 formenn héðan og úr nágrenninu ásamt Jóni Laxdal verzlunarstjóra í ábyrgð fyrir 15 þús. kr. láni til áhaldakaupa fyrir Jessen. Reyndist Jessen hinn þarfasti og bezti maður í sinni iðngrein og náði almennu trausti og vinsældum. Hjá Jessen lærðu margir efnismenn. Má meðal þeirra nefna: Gisla Jónsson, eftirlitsmann skipa og véla í Reykjavik, Sörensen, 1. vélstjóra á Brúarfossi, Gunnlaug Fossberg vélstj. í Reykjavík, Kjartan Tómasson, vélstj. við rafveitu Reykjavíkur, Hallgrímur Jónsson, vélstj. í Rvik, formaður Vélstj.fél. íslands, Þorsteinn Árnason, féhirðir Vélstj.fél. Íslands og Ágúst Guðmundsson, vélstj. við rafveitu Reykjavlkur. Hin nýja fyrsta íslenzka mótorvél var sett í "Stanley." Var honum breytt aðeins að því leyti, að sett var nýtt afturstefni fyrir vélskrúfuna og byrðingurinn hækkaður með skjólborðum.


Málverk Sigurðar Guðjónssonar af Stanley ásamt upplýsingum. Þarna kemur fram m.a. að Stanley hafi heitið áður Fenix.

Vélin var 2ja hestafla frá mótorverksmiðju C. H. Möllerup í Esbjerg, eins og áður er sagt. Kostaði hún 1300 krónur hingað komin. Manninn til þess að setja niður vélina kostaði verkstæðið, en þeir Árni og Nielsen kostuðu uppihald hans hér. Á Páskum 1903 byrjaði Árni vorvertið í Bolungavík á sínum nýja vélknúna bát, sem margir litu á með vantrúaraugum, eins og gerist og gengur með nýbreytnina. Einkum óttuðust menn, að erfitt yrði að lenda vélbát í Bolungavík, jafn stórgrýtt og oft var í lendingunni, en að eiga þar bát á floti var þá ekki um að ræða, jafnvel ekki að vorlagi. Varð að setja bátana eftir hvern röður og löngum síðar, þar til öldubrjóturinn gaf svo mikið hlé, að óhætt var, að leggja bátum að vor og sumarlagi. Á 3. dag Páska var ágætis sjóveður og reru þá allir Bolvíkingar. Var það fyrsta sjóferð Árna þar á nýja bátnum. Lánaðist hún svo vel, að hann gat vegna vélaflsins verið það fljótari en hinir, að fara tvisvar yfir daginn og fékk hlaðafla í bæði skiftin. Þetta varð sigurdagur þeirrar nýbreytni, að vélaaflið kom í stað mannsorkunnar. Vantrúin fauk út í veður og vind, og menn skildu brátt, að þarna var bæði um aukið hagræði og mikla framtíðarmöguleika að ræða. Árni átti "Stanley" í 3 ár, eftir að vél var sett í hann, og hélt honum jafnan út til fiskjar, hér frá Ísafirði og Bolungarvík. Eina vélarbilunin hjá Árna allan þennan tíma, var það óhapp, að ytra byrði sívalningsins (cylinders) sprakk sökum þess að kælivatn fraus í vatnsrörinu. Gerði Albert sálugi Jónsson járnsmiður hér við þessa bilun, og dugði sú aðgerð meðan Árni átti bátinn. 1906 og næstu ár á eftir varð einskonar mótorbátakapphlaup víðsvegar um land. Fóru menn þá að fá sér báta, er sérstaklega voru smíðaðir fyrir vélar, stærri og betur útbúna. Voru þeir flestir keyptir frá útlöndum. Árni varð aftur sá fyrsti til þess að fá nýjan bát.


Starfsmenn Vélsmiðju J. H. Jessen á Ísafirði, þeirri fyrstu hér á landi árið 1908. Talið frá v: Óskar Sigurgeirsson, Þórður Þórðarson, A. Nyberg, Fridtiof Nielsen, J. H. Jessen, Gísli Jónsson, óþekktur, Þorsteinn Thorsteinsson, Hinrik Hjaltason, Jón Þorbergsson, Guðbrandur Jakobsson og Alfred Jessen. (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.  

Seldi hann gamla "Stanley" 1906, mági sínum , Bjarna Sigurðssyni á Borg í Skötufirði og fékk sér sama ár nýjan vélbát, smíðaðan í Friðrikshöfn, með 4 hestafla Alphavél. 1909 fékk Árni þriðja vélbátinn með þilfari, einnig með 4 hesta Alphavél. Sá bátur fórst í fiskiróðri héðan 23. des. 1910 með vaskleikamanninum Hrólfi Jakobssyni sem formanni, og einvala skipshöfn. Fjórða vélbátinn, Geysi, með 6 hestafla Alphamótor, keypti Árni 1911 og var formaður á honum til 1912, að hann var skipaður yfirfiskimatsmaður hér á Vestfjörðum.
Endalok "Stanleys" fyrsta vélknúna bátsins, urðu þau, að hann rak á land í Borgarbót í Skötufirði 1908. Líkindi eru til að vélin úr honum hafi náðst, því í leitirnar hefir komið í Bolungavik 2ja hestafla MöIIerupsmótor, smíðaður 1902, sem síðar hefir verið breytt í landmótor, af Th. Thomsen vélsmið, er fyrstur hafði vélaverkstæði í Bolungarvík, en síðar í Vestmannaeyjum. Hefir Friðrik Teitsson vélsmiður í Bolungavík lánað vél þessa til sýningar. Verður hún sýnd í Reykjavík nú á Sjómannadaginn. Bendir ýmislegt til, að þarna sé einmitt fyrsta íslenzka fiskibátavélin, þótt ekki liggi fyrir um það óyggjandi vissa. Er sjálfsagt að grafast þar betur fyrir, og setja vélina á fiskveiðasafn, ef satt reynist, en geyma hana í þjóðmenjasafninu þar til fiskveiðasafnið kemst á fót.

Vesturland. 3 júní 1939.

Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 440
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 1329723
Samtals gestir: 367792
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 02:12:01