04.01.2017 20:03

1038. Álftafell SU 101. TFYL.

Álftafell SU 101 var smíðaður hjá V.E.B. Elber Werft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967. 217 brl. 660 ha. Lister díesel vél. Fyrsti eigandi var Gídeon h/f í Vestmannaeyjum frá 20 október sama ár, skipið hét Gídeon VE 7. Selt 31 desember 1969, Álftafelli h/f á Stöðvarfirði, skipið hét Álftafell SU 101. Selt til Noregs og tekið af skrá 3 maí árið 1976.


Álftafell SU 101 á leið inn til Vestmannaeyja með loðnufarm 10 febrúar 1972. (C) Sigurgeir Jónasson.


Álftafell SU 101 á leið til Eyja 10 febrúar 1972.                                            (C) Sigurgeir Jónasson.

03.01.2017 14:17

303. Auðbjörg NK 66.

Auðbjörg NK 66 var smíðuð á Norðfirði árið 1935 af Sigurði Þorleifssyni. Eik og beyki. 15 brl. 16 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Jakob Jakobsson skipstjóri, Ásmundur Jakobsson og Sveinn Jónsson í Neskaupstað frá 9 mars sama ár. Ný vél (1945) 66 ha. Kelvin díesel vél. Báturinn var gerður út m.a. til síldarleitar og síldarmerkinga. Báturinn var seldur 25 október 1961, Ásmundi Jakobssyni í Reykjavík, hét Auðbjörg RE 266. Báturinn eyðilagðist í Reykjavíkurhöfn árið 1967 og var síðan brenndur.


Auðbjörg NK 66 í bóli sínu á Norðfirði.                                                             (C) Karl Pálsson.


Auðbjörg NK 66 með fullfermi síldar á Norðfirði.                                      Ljósmyndari óþekktur.


Jakob Jakobsson skipstjóri við síldarmerkingar á Auðbjörgu NK. Ljósm. óþekktur.


              Jakob Jakobsson skipstjóri

 "Það sem einkenndi föður minn sem sjómann var fyrst og fremst það að hann leit á sjóinn og bátinn sem sitt vinnusvæði. Hann var aldrei neitt að flýta sér í land eins og ýmsir aðrir starfsbræður hans. Ég held að þetta viðhorf hans hafi mótast þegar hann var á skútunum, en á þeim var alltaf litið svo á að það væri landið sem væri hættulegt. Þeir sem ávallt höfðu verið á veikbyggðum smábátum, höfðu hinsvegar tilhneigingu í þá átt að hugsa um það í hverjum róðri að koma sér í land sem fyrst. í þeirra huga stafaði ógnin frá hafinu. Það er sem sagt staðreynd að faðir minn var ekki eins landbundinn og aðrir sjómenn eystra og hann var alltaf í sínu besta skapi út á sjó."

 Jakob Jakobsson fiskifræðingur um föður sinn Jakob Jakobsson skipstjóra og útgerðarmann í Neskaupstað.

 Sjómannadagsblað Neskaupstaðar

02.01.2017 09:13

B. v. Goðanes NK 105 ferst við Færeyjar.

Í dag eru liðin 60 ár frá því að Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 frá Neskaupstað strandaði á blindskerjum í minni Skálafjarðar í Færeyjum er Flesjar heita. Á nýársdag árið 1957 lagði togarinn af stað frá heimahöfn sinni, Neskaupstað og tók stefnuna á haf út. Ferðinni var heitið til Færeyja, en þangað átti að sækja 14 Færeyska sjómenn sem verið höfðu skipverjar á Goðanesi þá um veturinn. Þegar togarinn lagði frá bryggju í Neskaupstað voru rétt tvö ár liðin frá því að togarinn Egill rauði hafði lagt þaðan af stað í þá ferð, sem endaði undir Grænuhlíð, og aðeins rúmlega tíu ár frá því að Goðanes kom fyrst til heimahafnar, en það var á annan dag jóla árið 1947. Goðanes var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt hlutafélag í Neskaupstað. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Goðanes var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Beverley á árunum 1947-48.

Goðanes NK 105 að koma til hafnar í Neskaupstað árið 1955.                        (C) Björn Björnsson. 

Ekki segir af ferðum Goðaness yfir hafið á leið til Færeyja. Veður var þó fremur slæmt og sjólag illt. Þegar skipið nálgaðist eyjarnar var foráttubrim við þær og farið að ganga á með dimmum éljum. Pétur Hafsteinn skipstjóri, hafði þá samband við hafnaryfirvöld í Þórshöfn og spurðist fyrir um ástandið í höfninni þar. Sökum ókyrrðar í höfninni þar, ákvað Pétur skipstjóri að leita betri hafnar, Rúnavíkur í Skálafirði, enda var skipið komið í mynni fjarðarins og styst þangað. Ekki var að sjá á sjókortum sem um borð voru, annað en að siglingaleiðin inn Skálafjörð til Rúnavíkur væri greið. Rétt áður hafði Goðanes mætt togaranum Austfirðingi við Mjóvanes á leið norður sundið, en togarinn var á heimleið eftir sölutúr til Englands. Ekki hafði Goðanes siglt lengi inn Skálafjörð er skipið tók niðri. Í fyrstu virtist það strjúkast við sker, en síðan tók það harkalega niðri og þrátt fyrir að vélin væri þá komin á fulla ferð afturábak, haggaðist togarinn ekki á skerinu. 


Goðanes NK 105 á Norðfirði árið 1955.                                                       (C) Björn Björnsson.

Þungur sjór hefur verið á Skálafirði, því jafnskjótt og skipið tók niðri á grynningunum, gekk sjór stöðugt yfir það, meira og minna, enda tók skipið brátt að síga að aftan. Togarinn strandaði stundarfjórðungi fyrir klukkan 9, en árangurslausar tilraunir voru gerðar til þess að koma skipsbrotsmönnum til hjálpar, allt fram undir klukkan hálf fimm í gærmorgun, en þá tókst að skjóta björgunarlínu, sem skipsbrotsmenn náðu. Þeir voru þá allir í brúnni, og togarinn tekinn að sökkva mjög að aftan, en ólög gengu yfir hann. Hófst björgunarstarfið síðan og um klukkan 6 í gærmorgun var búið að bjarga 15 skipbrotsmönnum um borð í færeyska skipið Rok.
Er hér var komið björgunarstarfinu báðu Goðanesmenn um að björgun skipbrotsmanna yrði hraðað svo sem föng væru á. Skipið væri að því komið að liðast í sundur undir ólögunum. Báðu Goðanesmenn og um að Færeyingarnir reyndu að koma nær hinu strandaða skipi á trillubátum, sem komnir voru, og vera til taks ef með þyrfti. Var björgunarstarfinu síðan enn haldið áfram. Hálftíma síðar, eða um það bil voru 18 skipbrotsmenn komnir yfir i Rok, og því enn sex menn eftir á flakinu. 


Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                                 (C) Björn Björnsson.

Var skipið þá mjög illa farið, enda gerðist það nú með skjótum hætti, að það valt út af skerinu og sökk og fóru mennirnir allir í sjóinn. Voru nú trillubátarnir til taks. Þeim tókst að bjarga fimm þessara manna, en hinn sjötti fannst ekki. Var það Pétur Hafsteinn Sigurðsson, skipstjóri.
Voru skipbrotsmenn nú fluttir í land á Austurey, en þar er Skálafjörður, ekki í Sandey, eins og hermt var í blaðinu í gær. Þaðan voru þeir fluttir til Þórshafnar, sem er ekki löng ferð. Voru þeir þangað komnir um klukkan 10 í gærmorgun.
Í Þórshöfn, þar sem fréttaritari Ríkisútvarpsins átti tal við 1. stýrimann á Goðanesi, Halldór Halldórsson, sagði Halldór m.a., að hann hafi verið meðal þeirra sex, er voru á skipsflakinu er það sökk og hann hafi séð það síðast til skipstjórans unga, Péturs Hafsteins, að hann var að hjálpa tveim skipsmönnum að komast í björgunarstólinn, en þá var það sem flakið valt út af skerinu og sökk skyndilega.


Skipbrotsmennirnir af Goðanesi.                                            Myndin er tekin í Þórshöfn í Færeyjum.

Halldór Halldórsson, stýrimaður, sagði ennfremur frá þvi, að vegna þess hve togarinn kastaðist mikið til á blindskerinu er ólögin komu á skipið, hafi skipsmönnum mistekizt að koma öðrum björgunarbátnúm út. Var hann á hvolfi, er hann kom í sjóinn. Í hinum brotnaði botninn, er hann var kominn niður. Einnig skýrði hann frá því, að þeim hafi tekizt að losa stóran björgunarfleka, sem var aftan á skipinu og hafi hann verið bundinn við afturenda skipsins. En svo hafi skipið sigið skyndilega svo mikið niður að aftan, að skipstjórinn hafi gefið þeim mönnum er þar voru skipun um að yfirgefa bátapallinn í skyndi. Varð þá flekanum ekki náð. Fóru skipbrotsmenn þá allir inn í brúna og voru þar unz yfir lauk og Goðanes sökk. Ekki var neinn gúmmíbjörgunarbátur á togaranum. Fréttaritari Mbl. í Neskaupstað sagði í gær, að fregnin hefði borizt bæjarbúum árdegis í gær og hefðu þá fánar víða verið dregnir í hálfa stöng í bænum.
Hinn ungi skipstjóri, Pétur Hafsteinn, átti heima þar í bænum. Hann var sonur Sigurðar Bjarnasonar og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur, sem bæði eru komin á efri ár. Einnig lætur hann eftir sig unnustu sína, Elísabetu Kristinsdóttur, sem einnig er Norðfirðingur, og áttu þau eitt barn á öðru ári, sem skírt var á jólunum.


Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri. Ljósmyndari óþekktur.

Pétur Hafsteinn var stýrimaður á Agli rauða, er hann fórst undir Grænuhlíð í fyrravetur. Pétur Hafsteinn var undir venjulegum kringumstæðum 1. stýrimaður á Goðanesi, en skipstjórinn, Ólafur Aðalbjörnsson, var nú í jólafríi. Var Pétur Hafsteinn mjög dugandi skipstjórnarmaður. Einmitt um þessar mundir var hann að láta byggja fyrir sig og tengdaföður sinn, Kristinn Marteinsson, 60 tonna vélbát og mun Pétur Hafsteinn hafa ætlað að vera skipstjóri á bátnum. Hann var aðeins 24 ára að aldri. Er sár harmur kveðinn að fjölskylduliði hans. Togarinn Goðanes var, eins og kunnug; er, einn nýsköpunartogaranna. Fyrir Neskaupstað er skiljanlega mikill skaði að því að hafa nú misst báða togara sína á um það bil einu ári.
Skipstjórinn á Færeyska skipinu, Vesturhavið Blíða, Jakob Andreas Vang sagði frá því stuttu síðar að skerin sem Goðanes strandaði á og hétu Flesjar, væru einu skerin í öllum firðinum og væru þau nokkuð úr siglingaleið. Sagði hann þau ekki koma fram í ratsjá nema í logni, og því engin von til þess að þau sæjust þannig kvöldið sem Goðanes strandaði. Kom þessi vitneskja heim og saman við það sem upplýstist í sjóréttarhöldum yfir þeim sem björguðust, en þau voru haldin í Neskaupstað, strax og skipbrotsmennirnir komu þangað.

Heimildir; Morgunblaðið. 4 janúar 1957.
                  Þrautgóðir á raunastund. V bindi.
                  

        Togarinn Goðanes ferst við Færeyjar

        Skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, drukknaði

Í annað sinn á tæpum tveim árum, er Neskaupstaður harmi lostinn bær vegna stórslysa. Í janúar í hitteðfyrra fórst annar togari bæjarins, og nú hefur sú ógæfa dunið yfir, að hinn togarinn hefur farizt líka og með honum ungur efnismaður. Norðfirðingar eiga allir um sárt að binda vegna þessara stórslysa, en þó engir sem þeir, er misst hafa ástvini sína í þessum slysum.
Klukkan um 5 á nýársdag lagði togarinn Goðanes úr höfn hér í Neskaupstað og var förinni heitið til Færeyja í þeim erindagerðum að sækja sjómenn. Með skipinu voru 24 menn, þar af 7 færeyskir sjómenn. Fyrsti stýrimaður skipsins, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, var skipstjóri í þessari hinstu ferð þess. Um kl. 9 í fyrrakvöld strandaði Goðanes í minni Skálafjarðar. Veðri var svo háttað, að stinningskaldi var á, mikill sjór og dimmviðri. Þegar voru send út neyðarskeyti og komu mörg skip á strandstaðinn, þar á meðal togarinn Austfirðingur. Ekki verður björgunin rakin hér í einstökum atriðum, en snemma í gærmorgun hafði tekizt að ná 18 mönnum í björgunarstóli um borð í færeyska skútu. Var þá skipið mjög tekið að liðast og sýnilegt að það mundi sökkva innan skamms. Bað þá loftskeytamaðurinn, að reynt yrði að senda litla báta sem næst flakinu. Um klukkan hálfsjö í gærmorgun brotnaði svo skipið og sökk, en trillubátar, sem sendir höfðu verið á vettvang, björguðu 5 mönnum, en skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, fórst með skipinu. Hafði hann til hinztu stundar unnið að því að hjálpa félögum sínum í björgunarstólinn. Skipbrotsmennirnir munu koma heim með Austfirðingi væntanlega í kvöld eða nótt. Pétur Sigurðsson var aðeins 24 ára þegar hann fórst. Hann fæddist hér í bænum 10. maí 1932 og voru foreldrar hans hjónin Guðlaug Jónsdóttir og Sigurður Bjarnason. Pétur var heitbundinn Elísabetu Kristinsdóttur og áttu þau einn son, Kristinn, tæplega misserisgamlan. Bróður átti Pétur einn, Birgi, sem lengi hefur verið stýrimaður á Goðanesi, en er nú ráðinn stýrimaður á nýja togarann. Er þessum ástvinum Péturs hinn sárasti harmur kveðinn við hið sviplega og óvænta fráfall hans. Flytur Austurland þeim öllum og öðrum nánustu ættingjum og venzlamönnum Péturs innilegustu samúðarkveðjur, og þykist þar mæla fyrir munn allra bæjarbúa. Allt frá því Pétur var kornungur lagði hann stund á sjó. Hann var 2. stýrimaður á Agli rauða þegar hann fórst. Annar maður, sem í skipreikanum lenti, Axel Óskarsson, loftskeytamaður, var einnig á Agli rauða. Þó ekki séu glöggar fréttir fyrir hendi af björgunarstarfinu og aðstöðu til björgunar, verður ekki annað séð, en að Færeyingar og aðrir, sem að hafa unnið, hafi unnið mikið björgunarafrek, sambærilegt við ýms glæsilegustu björgunarafrek hér við land. Sjópróf vegna þessa hörmulega slyss munu fara fram hér í bæ og hefjast líklega á morgun.

Austurland. 4 janúar 1957.

  Skipbrotsmennirnir af Goðanesi komnir til Neskaupstaðar

Í gærkvöldi kl. 5,30 kom togarinn Austfirðingur með skipsbrotsmennina af togaranum Goðanesi, sem fórst við Færeyjar. Allir skipsbrotsmennirnir voru við góða heilsu. Reynt var í gærkvöldi að hafa samband við skipsbrotsmenn og fá hjá þeim upplýsingar um nánari tildrög slyssins og nánari frásögn af björguninni, en þeir vörðust allra frétta. Sjópróf munu hefjast í málinu þar eystra í dag. Togarinn Austfirðingur hélt þegar úr höfn og beint á veiðar og verður skýrsla tekin af honum seinna er hann kemur í höfn næst.

Morgunblaðið. 5 janúar 1957.


01.01.2017 10:46

E. s. Reykjavík.

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík var smíðaður í Oscarshamn í Svíþjóð árið 1874. Járn. (141 brl ?) 2 cyl compound vél, 16 nhp. Fyrsti eigandi var C.J. Douhan í Gavle í Svíþjóð frá sama ári, skipið hét Löfsta. Selt 1875, Tönsberg & Horten D/S í Tönsberg í Noregi, hét Tönsberg. Selt árið 1897, Firmanu Fredriksen & Co í Mandal í Noregi, fékk nafnið Reykjavík. Skipið var í áætlunarferðum frá Reykjavík til Akraness, Borgarness og einnig til hafna á suðurnesjum með farþega, vörur og póst. Í norðan stórviðri að kvöldi 19 febrúar 1907, slitnaði Norska kolaskipið Mod frá Haugasundi upp á ytri höfninni í Reykjavík og rakst á Reykjavíkinna með þeim afleiðingum að gat kom á skipið og sjór fossaði inn í það. Einnig slitnaði ankerisfesti skipsins. Skipstjóri Reykjavíkurinnar ákvað að renna skipinu upp í urðina neðan við Skansinn (Batteríið) til að forða því að það sykki á höfninni. Skipið eyðilagðist fljótlega þarna í fjörunni.
Það kemur fram í greininni hér að neðan að skipið hafi verið 87 brl. að stærð. Upplýsingarnar um stærðina hér efst (141 brl) eru fengnar frá Englandi, þannig að ég læt þær báðar standa.


Flóabáturinn Reykjavík á ytri höfninni. Engey í baksýn.                                Ljósmyndari óþekktur.


Reykjavíkin strönduð undir Batteríinu. Skipið fjær gæti verið kolaskipið Mod frá Haugasundi sem rakst á það.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.


                Reykjavíkin strönduð 

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík sleit upp hér á höfninni í nótt snemma í ofsaroki á norðan með kafaldsbyl, og rak beint upp í Skanzinn (Battaríið). Mannbjörg tókst greiðlega, á kaðli. Slysið var að kenna árekstri af, norsku kolafarms-gufuskipi stóru, Maud (Gautesen, um 400 smál.), er kom fyrir fáum dögum til Edinborgar-verzlunar. Það mun hafa misst frá sér bæði akkerin og bar á gufubátinn, sleit akkeriafesti hans með skrúfunni, er var í gangi til bjargar, klauf stefnið og sprengdi upp þilfarið að framan, svo að inn féll kolblár sjór, og sá skipstjórinn eigi annan kost vænni en að hleypa beint á land til skipbrots. Nú liggur Reykjavikin á klöppunum við Skanzinn, hálffull af sjó, og vonlaust um að gert verði við hana. En Maud rásar um höfnina legufæralaus og kallar á hjálp til að geta lagst aftur, en fær ekki. Reykjavíkin var vátrygð í Faxaflóa ábyrgðarfélaginu fyrir 24,000 kr., en virt á 40,000 kr. Það er voðaskellur fyrir félagið, ef skaðinn lendir á því. En sannist sök á hitt skipið um vítaverða ábyrgð á árekstrinum, hlýtur skaðinn að verða dæmdur á það. Reykjavíkin var búin að vera hér í förum um flóann o. s. frv. 11 ár samfleytt, og þótti vel reynast. En var nú orðin of lítil (87 smál.). Flutningur og ferðalög hafa aukist stórkostlega sÍðustu árin. Skipstjóri var Gundersen síðari árin; Waardahl þar á undan. En afgreiðslu hefir alla tíð haft Björn Guðmundsson kaupmaður. ísafold spurði hann um ráðstafanir fyrir framhaldi Eaxaflóaferðanna. Hann kvað ekkert vera farið um það að hugsa að svo komnu. Póstflutning norður og vestur eða þaðan hefir Faxaflóabáturinn verið látinn undanfarin missiri fara með milli Reykjavíkur og Borgarness. Nú mun taka fyrir það að sinni. Póstar þeir eiga nú að fara héðan á föstudaginn (22.), og kvað engu eiga að hagga um það þrátt fyrir þetta slys.

Ísafold. 20 febrúar. 1907.


            Gufubátnum ekki bjargað

Reykjavíkurstrandið. Tekið var í mál að reyna að koma gufubátnum þeim úr urðinni þar sem hann lá við Skanzinn, í því skyni að gera við hann. En meðan á þeim umþenkingum stóð, kom kári til sögunnar  á nýjan leik og muldi hann í spón núna á mánudagsnóttina. Skaðabótamál er höfðað gegn skipstjóranum á gufuskipinu, sem rakst á Reykjavíkina, Mod frá Haugasundi. Sáttafundur á mánudaginn kemur. En hann kvað enga sátt taka i mál.

Ísafold. 2 mars 1907.

31.12.2016 14:02

Áramótabrenna í Neskaupstað 1999.Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Kærar kveðjur til ykkar allra.

30.12.2016 11:09

1686. Valbjörn ÍS 307. TFAW.

Valbjörn ÍS 307 var smíðaður hjá Herði h/f í Ytri Njarðvík árið 1984 fyrir Þorstein h/f á Ísafirði. 57 brl. 470 ha. Gummins díesel vél. Hét fyrst Haukur Böðvarsson ÍS 847. Selt 8 apríl 1990, Ísgulli h/f í Reykjavík, hét Gullþór KE 70. Seldur 19 desember 1990, Snorra Snorrasyni á Dalvík, hét Gullþór EA 701. Báturinn hét Kristján Þór EA 701 frá 29 janúar 1991. Seldur 21 mars 1992, Birni h/f í Bolungarvík, hét Gunnbjörn ÍS 302. Skipið var endurbyggt og stækkað árið 1996 í Póllandi og aftur árið 2000. Ný vél (2000) 952 ha. M.T.U. díesel vél, 700 Kw. Mældist eftir breytingarnar 263 brl. Árið 2007 fær skipið einkennisstafina ÍS 307. Fær nýtt nafn árið 2009, Valbjörn ÍS 307. Heitir það í dag og gert út af Birni ehf í Bolungarvík.


Valbjörn ÍS 307 í slipp í Reykjavík.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 janúar 2016.


Valbjörn ÍS 307 við Ægisgarð.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 febrúar 2016.

29.12.2016 13:44

166. Guðmundur Þorlákur RE 45. TFLP.

Guðmundur Þorlákur RE 45 var smíðaður í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1946. Eik. 89 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Mar í Reykjavík frá 12 mars árið 1947. Ný vél (1954) 330 ha. Alpha díesel vél. Skipið var endurmælt árið 1949, mældist þá 100 brl. Selt 25 júní 1957, Ásgeiri Bergssyni og Sverri G Ásgeirssyni í Neskaupstað, skipið hét Bergur NK 46. Selt 10 nóvember 1961, Ingjaldi h/f í Reykjavík, hét Pétur Ingjaldsson RE 378. Selt 10 febrúar 1965, Sigurði Pétri Oddssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Guðjón Sigurðsson VE 120. Ný vél (1968) 450 ha. Wichmann díesel vél. Selt 20 febrúar 1970, Sigurgeir Ólafssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Lundi VE 110. Skipið rak upp í suður hafnargarðinn í Vestmannaeyjum 10 apríl árið 1972. Skipið náðist á land en var það illa farið eftir barninginn við garðinn að það var talið ónýtt.


Guðmundur Þorlákur RE 45.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

        Trolldræsur stöðvuðu vélina í brimrótinu
                                  90 tonna bátur ónýtur
                   Skall hvað eftir annað á hafnargarðinn

Netadræsur úr togaratrolli urðu þess valdandi í fyrrinótt að 90 tonna bátur, Lundi VE 110, varð stjórnlaus í brimgarðinum í Vestmannaeyjahöfn þegar stór trolldræsa fór í skrúfu skipsins, en þá var hið versta veður, 10 vinstig á austan. Bátinn rak upp í hafnargarðinn og er talin mikil mildi að enginn af áhöfninni fórst, en einn maður sem féll fyrir borð, náðist aftur. Talið er mögulegt að áhöfn brezks togara, sem sigldi frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsum í sjóinn þarna. Lundi er talinn ónýtur. Skipstjóri á Lunda er Sigurgeir Ólafsson og var 8 manna áhöfn á bátnum. Um kl. 3.30 í fyrrinótt var Lundi að sigla út úr höfninni í Vestmannaeyjum í róður, en vindur var þá 10 vindstig af austri og allimikill sjór. Siglingin út úr höfninni í Eyjum er beint í austur.
Skipti engum togum þegar báturinn var kominn skammt út fyrir hafnargarðinn að vél skipsins stöðvaðist, þegar togaratrolldræsurnar fóru í skrúfu skipsins. Rak bátinn þá stjórnlaust upp í suðurhafnargarðinn, sem er fjær Heimakletti. Þrisvar sinnum skellti brimið Lunda upp á garðinn miðjan og í einu slíku broti tók einn skipverja út, Anton Einar Óskarsson, en það varð honum til bjargar, að hann náði taki á netadruslum sem flutu upp fastar í skrúfu skipsins og tókst skipsfélögum hans að ná honum um borð án þess honum yrði meint af. Brimið bar bátinn með hafnargarðinum að innsiglingunni og skrallaði hann eftir garðinum og síðan inn fyrir í höfnina undan veðrinu. Var hann þá kominn að því að sökkva.
Allir skipverjar fóru strax í björgunarvesti þegar netin fóru í skrúfuna, en ekki var viðlit að fara í björgunarbát eða komast í land eins og sjólagið var þarna við hafnargarðinn, enda svartamyrkur og úthafsaldan ekki létt þegar hún skellur þarna í 10 vindstigum. Eins og fyrr segir er báturinn talinn ónýtur. Lóðsinn í Eyjum var strax kallaður út og kom hann Lunda að bryggju áður en hann sökk. Var strax hafizt handa við að dæla úr bátnum og í gær var hann tekinn í slipp. Kjölur skipsins er allur undan, þilfarið gengið upp og báturinn er allur skakkur og skældur, svo að hann er að öllum líkindum ónýtur. Í gærmorgun fóru hafnsögubátarnir í Eyjum út fyrir hafnargarðana að leita að frekari netadruslum og fundu þeir fleiri dræsur af sömu gerð.
 Veður var farið að stillast og náðu þeir netadræsunum. Bátar sem sigldu úr höfninni í gær þorðu ekki annað en að hafa mann frammi í stafni á útstíminu og kom það sér vel a.m.k. hjá einum bátnum, því að hann fékk dræsu í sinni stefnu, en skipverjinn, sem stóð í pusinu frammi á gat sagt til um hana. Menn velta þvi fyrir sér hvernig standi á því að svo margar togaranetadræsur reki þarna á sama tíma, en talið er mögulegt að brezkur togari, sem sigldi út frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsunum fyrir borð. Þegar brezki togarinn lá í Vestmannaeyjahöfn voru skipverjar að slá upp fyrir nýju trolli og var mikið af netadræsum á dekkinu. Troll togara er gert úr miklu grófara garni en bátatroll og allar dræsurnar sem fundust við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn voru úr togaratrolli. Skipstjórinn á Lunda, Sigurgeir Ólafsson, og bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum, Ólafur Helgason hófust handa um það strax í gær að reyna að fá leigðan netabát í stað Lunda, en það hafði ekki tekizt í gærkvöldi.

Morgunblaðið. 11 apríl 1972.

28.12.2016 17:24

Gamalt áraskip.

Báturinn heitir Ólafur Skagfjörð og er áttæringur, smíðaður í Flatey á Breiðafirði á árunum 1875-80. Ólafur Kristjánsson Skagfjörð (1851-1887) verslunarstjóri í Flatey, stóð fyrir samskotum til að smíða þennan bát handa Sigurði Jónssyni, aflasælum formanni sem kallaður var "stormur". Bátur Sigurðar hafði brotnað á ís og hann hafði ekki ráð á nýjum bát.
Samskotin fengu svo góðar undirtektir að Sigurður fékk þennan bát sem hann skírði eftir Skagfjörð verslunarstjóra í þakklætisskyni. Sigurði aflaðist hinsvegar ekki vel á Ólafi og seldi hann Pétri Guðmundssyni frá Brennu, reyndum og heppnum aflamanni sem réri frá Austurkleif. Veturinn 1911 lenti Pétur í miklum hremmingum á bátnum þegar norðan áhlaup skall á honum á Svöðumiði en skipið náði landi í Skarðsvík.
Pétur aflaði jafnan vel á Ólafi. Þegar Pétur flutti frá Hellissandi, seldi hann Haraldi Guðmundssyni skipið. Haraldur var síðasti eigandi þess og afkomendur hans afhentu safninu það. Róið var á Ólafi fram á 7. Áratuginn, síðast frá Rifi.

Heimild: Sjóminjasafnið á Hellissandi.


Gamla áraskipið Ólafur Skagfjörð. Báturinn er að koma í viðgerð hingað til Reykjavíkur og fer síðan að viðgerð lokinni aftur vestur á Hellissand.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 nóvember 2016.

27.12.2016 09:43

1598. Örvar HU 21. TFUR.

Örvar HU 21 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1982 fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. 499 brl. 2.400 ha. Wichmann díesel vél. Smíðanúmer 64. Örvar var fyrsti svokallaði flakafrystitogari okkar Íslendinga. Togarinn var seldur til Rússlands og tekinn af skrá 11 september árið 1997.

Örvar HU 21.                                                                                               (C) Snorri Snorrason. 


Örvar HU 21.                                                                                                (C) Snorri Snorrason.

            Nýr og glæsilegur togari

                     Hlaut nafnið Örvar HU 21

Laugardaginn 31. okt. s.l. var sjósettur nýr skuttogari hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri, fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. Hlaut hann nafnið ÖRVAR HU-21. Togarinn er 50,5 metrar á lengd, með 2400 ha. Wickman aðalvél. Hann er útbúinn með flökunarvél, roðflettingarvél og frystitækjum svo hægt er að vinna allan afla um borð. Útbúnaður þessi var settur í skipið vegna þess að mjög hefur dregist að hefja framkvæmdir við nýtt frystihús á Skagaströnd, sem átti að vera tilbúið um svipað leyti og togarinn. Skipstjóri á hinu nýja skipi verður Guðjón Sigtryggsson sem verið hefur skipstjóri á skuttogara félagsins Arnari HU-1 frá upphafi. Fyrsti vélstjóri á Örvari er ráðinn Magnús Sigurðsson sem einnig hefur starfað um nokkurt skeið hjá fyrirtækinu.
Á laugardagsmorguninn snemma, flykktust Skagstrendingar til Akureyrar að vera viðstaddir sjósetningu skipsins. Mun láta nærri að um 30% hluthafa félagsins hafi mætt við þessa athöfn. Þá var og mættur Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra sem fór nokkrum orðum um endurnýjun skipastólsins um leið og hann óskaði Skagstrendingum til hamingju með þetta ágæta skip. Að skírn og sjósetningu lokinni bauð Slippstöðin h/f gestum til veglegrar veislu í Sjálfstæðishúsinu. Þar afhenti stjórnarformaður Slippstöðvarinnar h/f, Stefán Reykjalín, frú Halldóru Þorláksdóttur, sem gaf skipinu nafn, veglegt gullarmband, sem á var greipt nafn skipsins og einkennisstafir. Frú Halldóra er kona Guðjóns Sigtryggssonar skipstjóra.

Feykir. 6 nóvember 1981.

                    Örvar HU 21

7 apríl s.l. bættist nýr skuttogari við fiskiskipastól landsmanna er Örvar HU-21 kom til heimahafnar sinnar, Skagastrandar, í fyrsta sinn. Örvar er smíðaður hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri og er  smíðanúmer 64. Þetta er sjötti skuttogarinn, sem Smíðaður er hjá stöðinni, en áður hefur hún afhent; Guðmund Jónsson GK (nú Breki VE), Óskar Magnússon AK, Björgúlf EA, Sigurbjörgu ÓF og Kolbeinsey  ÞH. Tvö fyrsttöldu skipin eru jafnframt búin til nótaveiða. Skipð, sem er hannað hjá stöðinni, er ný hönnun, en byggir að verulegu leyti á síðustu nýsmíði Slippstöðvarinnar, Kolbeinsey ÞH-10. Helstu  breytingar á smíði og fyrirkomulagi eru: Smíðalengd aukin um 2.75 m; dýpt að þilförum aukin um 4 cm; Í stað þilfarshúsa meðfram síðum á efra þilfari, undir hvalbaksþilfari, og opins gangs á milli fyrir bobbingarennur, er lokað rými á fremri hluta efra þilfars, undir hvalbaksþilfari; Í stað reisnar undir brú er íbúðarhæð; og breytt fyrirkomulag á togþilfari (ekki tveggja-vörpu fyrirkomulag) og í íbúðum. Örvar HU hefur sérstöðu í íslenzka skuttogaraflotanum hvað varðar vinnsluþilfar, en í skipinu er búnaður til vinnslu og frystingar á flökum, og er hann  fyrsta fiskiskipið hérlendis þannig búið. Fiskvinnslutækin eru frá Baader og frystitækin frá Kværner Kulde A/S. Eigandi Örvars HU er Skagstrendingur h/f á Skagaströnd, en það fyrirtæki á fyrir skuttogarann Arnar HU, sem smíðaður var í Japan árið 1973. Skipstjóri á Örvari HU er Guðjón Sigtryggsson, 1 vélstjóri er Magnús Sigurðsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sveinn Ingólfsson.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1982.

             Leist ekki á frystinguna fyrst

      Viðtal við Guðjón Ebba Sigtryggsson skipstjóra

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna einmitt frystitogara fyrir að nýta ekki aflann nógu vel og koma ekki með allan afla að landi. Hverju svarar frumkvöðull veiða á frystitogurum þeirri gagnrýni? "Það eru til nákvæmar skýrslur af Örvari og Arnari frá því veiðar á frystingu hófust. Það kom eftirlitsmaður um borð eftir hvern einasta túr og tók út það sem við höfðum fryst af undirmálsfiski. Stundum var hluti af því dæmt upp í stærra en oftast var það í lagi. Við vorum allir af vilja gerðir til að nýta allan afla sem kemur um borð." Það var í apríl 1982 sem Örvar HU, fyrsti frystitogari íslendinga, kom til heimahafnar á Skagaströnd og hélt fljótlega til veiða. Hvernig var fyrsti túrinn? "Ég var nú ekki hrifinn af þessu í fyrstu. Mér óx þetta töluvert í augum en lét slag standa. Allir útreikningar sýndu að þetta væri hægt og ég held að Örvar hafi alltaf verið hagkvæmt skip. Hitt er svo annað mál að það var upphaflega ekki gert ráð fyrir að við afköstuðum nema 8-10 tonnum af flökum á dag en þau fóru fljótlega upp í 14-15 tonn og svo upp undir 20 tonn á dag. Í fyrsta túrnum fórum við í grálúðu, lentum í mikilli veiði og lágum mestan hluta sólarhringsins í aðgerð, toguðum ekki mjög mikið. Byrjunarerfiðleikarnir voru miklir og álagið gífurlegt á áhöfnina. Ég man eftir því að bátsmaðurinn hjá mér, ákaflega samviskusamur maður og duglegur, var fjórum kílóum léttari eftir túrinn og var hann þó ekki stór fyrir. Okkur fannst mjög erfitt að liggja í aðgerð meðan aðrir togarar mokuðu fiskinum upp í flottrollinu. Fyrstu mánuðina voru menn afar óhressir og sumir hættu jafnvel. En þetta hefði aldrei tekist nema vegna þess að við vorum með þrautþjálfaða og vana áhöfn. Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er einn eigenda Samherja, kom með okkur í fyrsta túrinn en hann var ráðgjafi útgerðarinnar við þessar breytingar. Við sáum fljótlega að sá skurður á flökunum sem frystihússérfræðingarnar vildu að við beittum tafði okkur gífurlega svo við breyttum því og ákváðum að bjóða fiskinn unninn á þennan hátt. Þetta skipti sköpum og fljótlega jukust afköstin mjög mikið. En fyrsta árið á þessum veiðum var erfitt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1996.

            Örvar HU seldur Rússum

Skagstrendingur hf. á Skagaströnd hefur selt togarann Örvar HU-21 til rússneskra aðila og er kaupandinn Permina Shipping. Skipið hélt úr höfn á Akureyri í gær undir stjórn nýrra eigenda og fer á miðin í Barentshafi en þar hafa kaupendur drjúgan kvóta til ráðstöfunar. Örvar var eitt af þeim skipum íslenska flotans þar sem fiskur var fyrst sjófrystur um borð.

Morgunblaðið. 24 október 1997.

26.12.2016 11:01

453. Gísli Gunnarsson SH 5.

Gísli Gunnarsson SH 5 var smíðaður í Hafnarfirði árið 1961. Eik og fura. 12 brl. 68 ha. Bolinder Munktel vél. Eigandi var Eggert Björnsson í Stykkishólmi frá 14 mars 1963, en þá var báturinn dekkaður og skráður sem fiskibátur. Ný vél (1975) 115 ha. G.M. díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 október árið 1983. Myndirnar af Gísla eru teknar af tengdamóður minni í dúnleitum í Elliðaey á Breiðafirði um miðjan sjöunda áratuginn.


Gísli Gunnarsson SH 5 í lendingunni í Elliðaey á Breiðafirði.              (C) Hulda Björk Kolbeinsdóttir.


Gísli Gunnarsson SH 5 í Elliðaey á Breiðafirði.                                (C) Hulda Björk Kolbeinsdóttir.

25.12.2016 11:49

B. v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.

Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Hlutafélagið Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 694. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 16 febrúar árið 1955. Togarinn var síðan seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Odense (Óðinsvé) sama ár. Þórólfur og systurskipið, Skallagrímur, voru mikil afla og happaskip og einnig afburða góð sjóskip.


Þórólfur RE 134 með trollið á síðunni.                             Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Þórólfur RE 134.                                             (C) Tóbakseinkasala ríkisins. sígarettupakka mynd.


Fiskur flattur um borð í Þórólfi RE 134 árið 1946.                                         (C) Hjálmar R Bárðarson.


Þórólfur RE 134.                                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                  Halaveðrið mikla

                             Togararnir

Þeir koma allir inn meira og minna brotnir. Á sumum hafa yfirmenn staðið 15 tíma samfleytt á stjórnpalli.

                               Þórólfur

Fremur lítið hafði orðið að á því skipi, loftskeytastengurnar þó brotnað og bátarnir laskast.

Morgunblaðið. 11 febrúar 1925.

              Þórólfur varð fyrir áfalli.

        Missti báða bátana, og bátadekkið brotnaði.

Togarinn Þórólfur, eign Kveldúlfs h.f. varð fyrir áfalli í grend við Vestmannaeyjar í ofsaveðrinu á föstudagskvöldið. Reið ólag yfir skipið og missti það báða bátana og bátadekkið brotnaði. Skipið lagðast á hliðina við áfallið og urðu skipverjar að moka til í því frá því klukkan 11 um morguninn og þar til kl. 7 morguninn eftir, til þess að rétta það að fullu við. Engan mann sakaði. Skipið kom á Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær.

Alþýðublaðið. 19 desember 1948.

24.12.2016 10:23

Reykjavíkurhöfn á vetrarsólkvörfum.

Skipin komin til hafnar.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 desember 2016.


Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar

Bestu jólakveðjur til ykkar.22.12.2016 00:45

Nonni NK 86.

Nonni NK 86 var smíðaður á Akureyri árið 1928. Eik og fura. 10 brl. 20 ha. Skandia vél. Báturinn hét fyrst Baldvin Þorvaldsson EA 442 og var eigandi hans Loftur Baldvinsson útgerðarmaður á Böggvisstöðum í Svarfaðardal frá 28 nóvember 1930. Ný vél (1931) 35 ha. Bolinder vél. Seldur 7 nóvember 1940, Jóni Svan Sigurðssyni í Neskaupstað, hét Nonni NK 86. Ný vél (1944) 32 ha. June Munktell vél. Seldur 15 nóvember 1944, Steingrími Ingimundarsyni á Djúpavogi, báturinn hét Nonni SU 14. Talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1954.


Nonni NK 86 á siglingu á Norðfjarðarflóa. Barðsneshorn (Norðfjarðarhorn) í baksýn. (C) Björn Björnsson.

21.12.2016 00:36

2413. Guðrún Gísladóttir KE 15. TFGL.

Guðrún Gísladóttir KE 15 var smíðuð hjá Huangpu Shipyard í Guangzhou í Suður Kína árið 2001 fyrir útgerðarfélagið Festi h/f í Grindavík. 1.301 brl. 7.200 ha. Bergen diesel vél, 5.290 Kw. Skipið strandaði á skeri í Nappstraumensundi við Lófoten í Norður Noregi, 18 júní 2002 og sökk þar nokkru síðar. Guðrún var á leið til löndunar í Leksnes með um 900 tonn af frystum síldarflökum. Áhöfnin, 20 menn komust í björgunarbáta og var bjargað þaðan um borð í Norskt björgunarskip. Margar tilraunir voru gerðar til þess að ná skipinu af hafsbotni, en þær báru engann árangur.


Guðrún Gísladóttir KE 15.                                                                             (C) Sverrir Jónsson.


Guðrún Gísladóttir KE 15 að sökkva.                     Ljósmyndari óþekktur.


Guðrún Gísladóttir KE 15. Líkan.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014.

    Guðrún Gísladóttir KE 15 sökk við           strendur Noregs  

Eitt stærsta skip íslenska fiskiflotans, Guðrún Gísladóttir KE 15, sökk skammt frá Lofoten í Noregi aðfaranótt miðvikudags eftir að hafa strandað á skeri morguninn á undan. Við sjópróf kom fram að skerið sem togarinn strandaði á var ekki merkt inn á sjókort. Skipið var á leið til löndunar í Leknesi á Lofoten með tæplega 900 tonn af frystri síld og átti um þrjár sjómílur ófarnar þegar það steytti á skeri með fyrrgreindum afleiðingum. Tuttugu manna áhöfn togarans sakaði ekki.
Gerð var tilraun til að koma skipinu á flot á þriðjudagskvöld sem ekki tókst og sökk það í morgunsárið næsta dag.Fyrir utan síldina hafði togarinn um 300 tonn af hráolíu og 2 tonn af smurolíu innanborðs og óttast norsk yfirvöld mjög mengun af þessum sökum. Hefur útgerðin lofað að hreinsa olíu úr flakinu sem fyrst.

Morgunblaðið. 23 júní 2002. 


 Héldu að skipinu myndi hvolfa af skerinu

Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE 15 átti erfitt með að trúa þeim tíðindum að skipið hafi sokkið á strandstað tæpum sólarhring eftir að skipið sigldi á óþekkt sker í Lófóteyjaklasanum þriðjudaginn 18. júní sl. Þegar skipið sigldi á skerið kom rétt rúmlega eins metra löng rifa á skrokk þess og fljótlega kom á það um 45 gráðu halli. Neyðaráætlun var þegar sett í gang og skipið hafði verið yfirgefið eftir 7-8 mínútur. Kristinn Pálsson var kokkurinn um borð og hafði fylgt skipinu allt frá því Guðrún Gísladóttir KE 15 var sjósett í Kína fyrir tæpu ári. Hilmar Bragi Bárðarson blaðamaður ræddi við Kristinn í vikunni.
Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið var smíðað til veiða og vinnslu á uppsjávarfiski og frystingar um borð. Í skipinu var 7200 hestafla aðalvél. Guðrún Gísladóttir KE er hönnuð af Skipatækni ehf. Skipið var rétt rúmlega 70 metra langt skip og 14 metra breitt. Fjórar Baader vélar voru á millidekki. Þá var búnaður til að slógdraga og hausa, sannkallaðar fjölnota vélar eins og margt annað í skipinu. Einnig voru tveir sjálfvirkir frystar sem gátu fryst allt að 180 tonnum á sólarhring. Frystilestar voru 1300 rúmmetrar og fjórir RSW kælitankar samtals 800 rúmmetrar að ógleymdri ísvél sem getur útbúið 30 tonn á sólarhring. Vinnslulína skipsins var sú fullkomnasta sem völ var á og í raun einsdæmi. Sjálfvirknin var mikil og eingöngu fjórir menn unnu við framleiðslulínuna sem var stjórnað af iðntölvu. Guðrún Gísladóttir KE var tryggð fyrir rúma tvo milljarða íslenskra króna og skipsskaðinn er stærsta einstaka tjón sem íslenskt tryggingafélag þarf að bæta. Þá eru ekki taldar með tryggingar á veiðarfærum og afla en skipið var á leið í land með síldarflök að verðmæti um 100 milljónir króna.
Guðrún Gísladóttir KE var á landleið til Leknes í Norður Noregi með 870 tonn af frystum síldarflökum þennan örlagaríka morgun um miðjan júní. Kristinn segir í samtali við Víkurfréttir að skipið var að vera komið í gegnum sund syðst í Lófóteyjaklasanum þegar það steytti á óþekktu skeri og strandar undan bænum Ballstad. Guðrún Gísladóttir var að koma af síldveiðum úr lögsögu Jan Mayen með 870 tonn af frystum síldarflökum. Vinnslu afurða um borð hafði lokið kl. 03 um nóttina og mannskapurinn var að þrífa skipið þegar ósköpin gengu yfir.
Hvernig gerðist þetta?
Þetta var ekki mikið högg, eins og keyrt væri á vegg. Skipið vípraði hins vegar stafnana á milli og tilfinningin var óþægileg. Mönnum var strax ljóst hvað væri að gerast og neyðaráætlun var þegar sett í gang um borð í skipinu".
Kristinn sagði að skipið þegar hafa hallað mikið. Þeir sem voru í koju vöknuðu við lætin þegar skipið strandaði og mannskapurinn var kominn upp í brú með það sama. Skipið hallaði um 45 gráður á skerinu að sögn Kristins var mannskapurinn mjög rólegur um borð.
Við óttuðumst þó strax að skipinu gæti hvolft af skerinu miðað við hvað það hallaði mikið. Vegna þess var allt kapp lagt á að komast sem fyrst frá borði. Við vorum tuttugu um borð og fórum allir í flotgalla í brúnni. Fimmtán fóru í sjóinn bakborðsmegin og fimm á stjórnborða. Áður höfðu björgunarbátar verið sjósettir og allir komust mjög fljótt í bátana og enginn blotnaði alvarlega".
Kristinn sagði skipið hafa staðið á skerinu að framan og þar hafi komið rúmlega metra löng rifa á skipið og sjór flætt í astikrými og í rými hjá frystivélum fremst í skipinu. Engin sjór hafi verið aftan til í skipinu, og þar flaut skipið. Þannig voru 11,5 faðmar niður á botn við skut skipsins.
Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur var búin að yfirgefa skipið á 7-8 mínútum. Strandið er tilkynnt til norsku strandgæzlunnar kl. 08:45 að íslenskum tíma og greint er frá því í útvarpi á Íslandi í fréttatíma kl. 09:00. Það eru áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE mjög ósátt við. "Sérstaklega í ljósti þess að þá erum við ennþá í björgunarbátum á sjónum við skipið og okkur var ekki bjargað fyrr en hálftíma síðar en norskt björgunarskip er að bjarga okkur á tímabilinu 09:30 til 10:00 að íslenskum tíma", segir Kristinn og segist vita til þess að nokkur dæmi séu um það að eiginkonur skipverja hafi fyrst heyrt af slysinu í útvarpi og í hafi þá ekki vitað um afdrif sinna manna.
Guðrún Gísladóttir KE var að koma úr sinni sjöundu veiðiferð þegar ósköpin gengu yfir. Eins og áður hefur komið fram hallaði skipið strax mikið og óttuðust menn í fyrstu að skipinu myndi hvolfa af skerinu. Þegar menn könnuðu aðsæður um borð í skipinu á kvöldflóðinu var enginn sjór kominn upp á millidekk þess og menn voru því vongóðir um að það tækist að bjarga því. "Skipið rétti sig alveg á flóðinu um kvöldið og menn voru mjög vongóðir. Þá voru hins vegar ekki til staðar dráttarskip sem gátu ráðið við Guðrúnu Gísladóttur KE. Skipið var um 3000 tonn og á staðinn var kominn dráttarbátur með 17 tonna dráttargetu.
Það var síðan tveimur tímum fyrir morgunflóðið sem skipið fór að sökkva að aftan og Guðrún Gísladóttir KE var sokkin á tíu mínútum," sagði Kristinn þegar hann lýsti atburðarásinni fyrir blaðamanni. Kristinn segir það ekki vitað hvers vegna skipið sökk, miðað við skemmdirnar á skrokk skipsins.
Það að skipið hafi sokkið var mikið áfall fyrir mannskapinn í landi, enda menn fullir bjartsýni á að björgun tækist vel. Sjórinn á slysstað var líka sem heiðartjörn og það var ekki í hugum manna að svona færi.
Áhöfnin tapaði miklu af persónulegum munum við skipsskaðann. Menn fóru frá borði í gallabuxum og bol og skildu allt annað eftir í vistarverum skipsins. Þannig eiga áhafnarmeðlimir sjálfir engar myndir frá vettvangi slyssins aðrar en þær sem birst hafa í norskum blöðum. Allar myndavélar áhafnarmeðlima voru um borð í hinu strandaða skipi. Þá voru einnig fjölmargir aðrir persónulegir munir um borð, enda algengt að sjómenn hafi með sér persónulega muni þegar haldið er í langan tíma frá heimahögum.
Kristinn sagði norsku björgunarskipin vel búin og aðstaða um borð verið til fyrirmyndar. Þannig hafi skipbrotsmenn fengið inniskó og þurrar peysur um borð og minnsta mál að henda blautum fötum í þvottavélar og þurrkara. Svo þegar komið var í land hafi verið látið opna verslanir fyrir þá þannig að hægt væri að kaupa skó og annan fatnað.
Mikill meirihluti áhafnar Guðrúnar Gísladóttur KE hefur farið á námskeið í Slysavarnaskóla Sjómanna og sagði Kristinn þá reynslu hafa komið sér vel þegar yfirgefa þurfti skipið. Mönnum var brugðið við þær aðstæður sem menn stóðu frammi fyrir en Kristinn sagði áfallið hafa komið eftirá og sérstaklega þegar mönnum var ljóst að skipið hafi sokkið á nokkrum mínútum.
Við sjópróf kom fram að skerið, sem Guðrún Gísladóttir KE steytti á og sökk við í Lófót, var ekki merkt inn á sjókort. Skipstjórinn sagði við sjópróf í Noregi að hann hefði verið í góðri trú um að hann væri að sigla á réttri slóð þegar skip hans strandaði. Sjóprófin voru haldin í bænum Svolvær í Lófót og hófust þau á því að Sturla Einarsson greindi frá því hvað hefði gerst. Sturla sagðist hann hafa undirbúið siglinguna eftir bestu getu innan norska skerjagarðsins til bæjarins Leknes þar sem landa átti 870 tonnum af síldarflökum. Þetta var í annað sinn á örfáum vikum sem Sturla sigldi skipinu þangað en í þetta sinn var ný leið valin. 
Sturla sagðist við sjóprófin hafa kannað sjókort gaumgæfilega og rætt við hafsögumenn á Lófótsvæðinu áður en hann ákvað leiðina sem farið skyldi. Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara hvergi um svæði þar sem dýpi undir kili skipsins fullfermdu væri minna en 14 metrar og taldi skipið á slíkri siglingaleið þegar það strandaði. Þá var Guðrún Gísladóttir á um 6 sjómílna ferð. 
Sturla lagði fram sjókort máli sínu til stuðnings í sjóréttinum og kom fram í norskum fjölmiðlum að framburður hans hafi verið mjög trúverðugur og að fas hans hefði borið vitni um að þar færi rólyndur og þaulvanur skipstjórnarmaður.
Þegar þetta er skrifað er ennþá óljóst hvað tekur við hjá þeim 40 sjómönnum sem misstu vinnu sína við skipsskaðann. Það voru tvær 20 manna áhafnir á Guðrúnu Gísladóttur KE, enda skipið í raun fullkomin verksmiðja sem átti aldrei að stoppa. 

Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip sem smíðað hefur verið fyrir íslenska fiskiskipaflotann. Svona skip liggja ekki á lausu og eru í raun ekki til í heiminum í dag. "Guðrún Gísladóttir KE var algjör hafborg og mikill söknuðu af þessu skipi," sagði Kristinn Pálsson í samtali við Víkurfréttir. Krisinn var þess heiðurs aðnjótandi að sækja skipið nýtt til Kína á síðasta ári og sigla með því um 10.000 sjómílna leið til Íslands og þurfti meðal annars að fara um tvær hættulegustu siglingarleiðir heimsins, þar sem sjórán og jafnvel morð á sjómönnum eru algeng. Eftir að hafa sloppið áfallalaust í gegnum þær slóðir kom mönnum ekki til hugar að tæpu ári síðar ætti þetta rúmlega tveggja milljarða króna skip eftir að liggja á hafsbotni við Norður Noreg.

Viðtal við Kristinn Pálsson matsvein í Víkurfréttum frá 2002. 

20.12.2016 00:13

1829. Máni ÁR 70.

Máni ÁR 70 var smíðaður hjá Mossholmens Marina í Rönnang í Svíþjóð árið 1987. 11 brl. 153 ha. Volvo Penta díesel vél, 113 Kw. Smíðanúmer 20. Hét fyrst Garðar GK 26, og eigandi hans var Erlingur Garðarsson Vogum á Vatnsleysuströnd frá 20 júlí árið 1987. Seldur 21 október 1987, Bjarnfinni Jónssyni á Eyrarbakka, báturinn hét Dofri ÁR 43. Seldur árið 1991, eigandi óþekktur, hét Dofri ÍS 243. Seldur sama ár, Mána ÁR h/f. Báturinn var lengdur árið 1995. Eigandi bátsins í dag er Haukur Jónsson á Eyrarbakka, báturinn heitir í dag Máni ÁR 70. 

Máni ÁR 70 í Njarðvík.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 desember 2016.


Máni ÁR 70.                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 desember 2016. 
Flettingar í dag: 873
Gestir í dag: 452
Flettingar í gær: 1515
Gestir í gær: 616
Samtals flettingar: 776314
Samtals gestir: 212401
Tölur uppfærðar: 18.10.2017 21:53:56