16.03.2020 13:38

483. Sunnutindur SU 59. TFEG.

Vélskipið Sunnutindur SU 59 var smíðaður hjá Gebr. Gehusenstedt K.G. í Bardenfleth í A-Þýskalandi árið 1957 fyrir Búlandstind hf (Þorsteinn Sveinsson og fl.) á Djúpavogi. 75 brl. 280 ha. MWM vél. Kom fyrst til heimahafnar hinn 8 febrúar sama ár. Skipið var selt 8 nóvember 1960, Búðanesi hf á Ísafirði, hét Guðný ÍS 266. Ný vél (1972) 425 ha. Caterpillar vél, 310 Kw. Aftur Ný vél (1981) 431 ha. Caterpillar vél, 317 Kw. Skipið var yfirbyggt árið 1985. Selt 15 júní 1992, Magnúsi Snorrasyni í Bolungarvík. Skutrenna var sett á skipið 1993. Dýri hf í Bolungarvík er skráður eigandi frá 10 janúar 1994, sama nafn og númer. Selt árið 2001, útgerðarfélaginu Gústa í Papey ehf á Höfn í Hornafirði, hét þá Gústi í Papey SF 188. Skipið sökk um 6 sjómílur suður af Langanesi 4 júní árið 2004 eftir að mikill leki kom af því. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í togarann Árbak EA 5 frá Akureyri.


483. Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum í Bardenfleth.                (C) Sveinn Þorsteinsson.

    Sunnutindi hleypt af stokkunum

Bremen, 20. jan. - Nýlega var hleypt af stokkunum í bænum Bardenfleth við Weser-fljót nýjum 75 smálesta fiskibát fyrir íslendinga. Hann hlaut nafnið Sunnutindur. Eigandi bátsins er Þorsteinn Sveinsson, Djúpavogi. Verður hann afhentur eigendum eftir hálfan mánuð og þannig ætlazt til að hann komist á vetrarvertíð við Ísland. Báturinn er 22,5 m langur, 5,62 m á breidd og hæð hans 2,7 m. Hann er smíðaður úr járni og er búinn radar-tækjum. - Hann hefur vistarverur fyrir 11 manns. Er knúinn 280 hestafla fjórgengisvél og getur náð 10,5 sjómílna hraða.

Morgunblaðið. 30 janúar 1957.


Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum.                                                  (C) Sveinn Þorsteinsson.


Sunnutindur SU 59.                                      (C) Sveinn Þorsteinsson.

          Nýr bátur til Djúpavogs

Á föstudaginn var bættist Djúpavogsmönnum nýr fiskibátur, sem þann dag kom nýsmíðaður frá Þýzkalandi. Báturinn er 75 rúmlestir að stærð, byggður úr stáli. Hann er með 280 hestafla Mannheim-dísilvél og 23ja ha. ljósavél og búinn þeim siglingar- og öryggistækjum sem tíðkast á bátum af þessari stærð, þar á meðal fisksjá. En auk þess er báturinn búinn radartæki með 35 mílna sjónhring. Skipstjóri er Karl Kristjánsson, en alls verða skipverjar 11 talsins. Eigandi þessa nýja báts, sem hlotið hefur nafnið Sunnutindur, er hlutafélagið Búlandstindur á Djúpavogi. Báturinn, með öllum útbúnaði, mun kosta 1.7 millj. kr. Níels Ingvarsson, yfirfiskimatsmaður, var staddur á Djúpavogi þegar báturinn kom. Lætur hann mjög mikið yfir því hvað báturinn sé vandaður og fallegur. Telur hann Sunnutind taka hollenzku stálbátunum mjög fram.

Austurland. 15 febrúar 1957.


483. Guðný ÍS 266.                                                                                    (C) Tryggvi Sigurðsson.


483. Guðný ÍS 266. Líkan.                                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                     Nýr bátur

Í fyrra mánuði kom hingað til bæjarins 75 smálesta stálbátur, er hlotið hefur nafnið Guðný ÍS - 266. Eigandi bátsins er nýlega stofnað hlutafélag, Búðanes h.f. Félagið keypti bátinn frá Djúpavogi. Báturinn verður gerður út héðan úr bænum, og er hann þegar byrjaður róðra. Skipstjóri er Halldór Hermannsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Baldur Jónsson.

Ísfirðingur. 6 desember 1960.


483. Gústi í Papey SF 188.                                                                   (C) Sverrir Aðalsteinsson.

              Sökk við Langanes
             þrír menn björguðust 

Leki kom að bátnum Gústa í Papey SF 188 um níuleytið í gærkvöldi. Báturinn sökk síðan um ellefuleytið um sex sjómílum suður af Langanesi. Björgunarsveitinni Pólstjörnunni á Raufarhöfn barst beiðni um að fara með dælur um borð í bátinn um tíuleytið. Björgunarsveitin lagði af stað á björgunarbátnum Gunnbjörgu og Bryndísi ÞH. Þrír menn voru í bátnum og var þeim bjargað af skipverjum á Árbaki EA 5, sem var á leið inn til Akureyrar. Að sögn Stefáns Sigurðssonar, skipstjóra á Árbaki EA 5, voru þeir á siglingu aðeins nokkrum sjómílum frá Gústa í Papey. Veður var ágætt, hæg norðaustanátt. "Við vorum einungis nokkrar mínútur á staðinn, og settum út slöngubát yfir til þeirra, og björguðum þeim yfir í bátinn til okkar um hálftíuleytið. Svo horfðum við á bátinn sökkva," sagði Stefán í samtali við Morgunblaðið.

Morgunblaðið. 5 júní 2004.


12.03.2020 15:24

M. b. Njáll GK 456.

Mótorbáturinn Njáll GK 456 var smíðaður í Reykjavík af Otta Guðmundssyni skipasmið árið 1916, sennilega fyrir Loft Loftsson útgerðarmann í Sandgerði. Eik og fura. 12 brl. 25 ha. Skandia vél. Báturinn var seldur árið 1919, Guðlaugi Br Jónssyni, Jóni Hafliðasyni, Sæmundi Bjarnasyni og fl. í Vestmannaeyjum. Báturinn fórst 16 febrúar árið 1923 þegar hann varð vélavana og rak upp í Hringskersgarðinn (syðri hafnargarðinn) í Vestmannaeyjum. 4 skipverjar fórust strax, en 1 var bjargað á land meðvitundarlausum, en lífgunartilraunir báru ekki árangur. Njáll hafði ekki verið umskráður til Vestmannaeyja þegar hann fórst.


Njáll GK 456 í bóli sínu. Ljósmyndin er tekin á Norðfirði.                                      (C) Carl Ólafsson.


Mótorbáturinn Njáll GK 456. Þessi teikning kom í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1972.

                     Bátstapi

Í Vestmannaeyjum vildi það slys til í fyrradag, að vjelbátur sökk örstutt utan við hafnargarðinn og týndust þar allir skipverjar 4 að tölu. Slysið bar að með þeim hætti, að vjel bátsins stöðvaðist rjett utan við hafnargarðinn. En norðlægur vindur var og hrakti bátinn á sker, sem þarna er skammt frá garðinum og brotnaði óðara. Höfðu tveir vjelbátar aðrir, er til hans sáu, leitast við að koma í hann dráttarkaðli, en ekki tekist. Báturinn hjet Njáll og var úr Skaftafellssýslu. Allir voru mennirnir ættaðir utan Vestmannaeyja. Það fylgir þessari fregn, að slys þetta sje nær því dæmalaust, að vjelbátur sökkvi með þessum hætti svo nálægt höfn. Er það fullyrt, að bátsmenn hefðu ekki þurft annað en að kasta akkeri þegar vjelin bilaði, þá hefði öllu verið borgið.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1923.

Þeir sem fórust með Njáli GK 456 voru;
Sigurfinnur Lárusson formaður, Álftagróf í Mýrdal, 27 ára. Hafði hann farið ungur til sjóróðra í Vestmannaeyjum, en þetta var fyrsta vertíð hans sem formaður.
Erlendur Árnason vélamaður, Borgum í Norðfirði, um þrítugt.
Sigurður Hallvarðsson háseti, Reynisholti á Mýrum, 33 ára.
Guðfinnur Jakobsson háseti, Skammadal í Mýrdal, 24 ára.
Magnús Runólfsson háseti, Skaganesi í Mýrdal, 36 ára. Honum var bjargað á land, einum skipverja, en lífgunartilraunir báru ekki árangur.

Þrautgóðir á raunastund Vlll bindi.


10.03.2020 20:35

727. Akurey SF 52. TFEV.

Vélskipið Akurey SF 52 var smíðað í Faaborg í Danmörku árið 1956 fyrir Hauk B Runólfsson og fl. á Höfn í Hornafirði. Eik. 56 brl. 230 ha. Deutz vél. Selt 28 maí 1962, Jóhanni Antoníussyni og Friðrik Jóhannessyni á Fáskrúðsfirði, hét þá Rán SU 58. Selt 26 júlí 1967, Baldri Karlssyni í Þorlákshöfn, hét þá Gissur ÁR 6. Selt 30 nóvember 1970, Sæmundi Jónssyni og fl. í Grindavík, hét Hraunsvík GK 68. Ný vél (1974) 370 ha. Cummins vél. Víkurhraun hf í Grindavík var skráður eigandi skipsins frá 1 mars 1976. Selt 31 ágúst 1988, Samherja hf á Akureyri, hét þá Baldvinsson EA 410. Talinn ónýtur og tekin af skrá 26 janúar árið 1989.


727. Akurey SF 52 nýsmíðaður í Faaborg í Danmörku.                            Ljósmyndari óþekktur.


727. Rán SU 58.                                                         (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

Tveir nýir bátar bætast í fiskiflota                         Hornfirðinga

Höfn í Hornafirði í gær.
 Í gær komu hingað til Hornafjarðar þeir tveir nýju bátar frá Danmörku, sem tafizt hafa um skeið vegna ísa og verkfalla. Eru þeir þegar byrjaðir róðra. Bátarnir áttu upphaflega að koma upp úr áramótunum. Þeir heita Akurey og Helgi og eru báðir eins að stærð og gerð, 53 lestir með 230 hestafla dísilvél. Þeir eru búnir öllum venjulegum siglingatækjum. Sími er frá stýrishúsi fram í háseteaklefa. Eigandi Akureyjar er Haukur Runólfsson og fleiri, en eigendur Helga eru Tryggvi Sigurjónsson og Ólafur Runólfsson. Bjarni Runólfsson og Guðjón Jóhannsson sigldu bátunum heim, en þeir voru smíðaðir í Faaborg. Bátarnir fóru þegar út til róðra í dag. Afli báta hér er alltaf góður, og mun Gissur hvíti nú vera búinn að fá um 100 skippund, en það er með hæstu, ef ekki hæsti afli báts á þessari vertíð á landinu. Hornafjarðarbátarnir eru nú orðnir fimm.

Tíminn. 8 apríl 1956.


09.03.2020 20:39

3 m. Sk. Sólarris VA 226. KBNT / OXUG.

Þriggja mastra skonnortan Sólarris VA 226 var smíðuð hjá Chantiers Navala St. Malo í Frakklandi árið 1910. Eik og álmur. 235,58 brl. 135 ha. Vél. Djúprista skipsins var 12 ft. Skipið var keypt til Færeyja árið 1929, Hét þá Grande Hermine. Það var C.C. Johansen í Þórshöfn sem átti skipið fyrst í Færeyjum, hét þá Ella TN 331. Á árinu 1930 fær skipið nafnið Sólarris TN 331, sami eigandi. Selt árið 1933, Firmanu Jegvan Elias Thomsens Eftf, í Sandavogi, hét þá Sólarris VA 226.. Skipið sökk eftir að hafa siglt á tundurdufl út af Berufirði, hinn 18 ágúst árið 1941. Var skipstjórinn, Peter Steig við stýrið, en matsveinn og háseti voru aftur í stýrishúsi. Skipstjórinn, matsveinninn og hásetinn, köstuðu sér allir í sjóinn og náðu til björgunarflekans. Áttu þeir ömurlega vist á flekanum og voru þeir í þann mund að bugast af þorsta, að þeir gátu fangað selskóp og drukkið úr honum blóðið. Það var síðan aðfaranótt hinn 21 ágúst að mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi sem bjargaði mönnunum og fór með þá til Djúpavogs. Nöfn mannanna sem björguðust auk skipstjórans voru, Alfred Jacobsen matsveinn og David Maggnúsen háseti.

Það er mikil missögn af þessu sjóslysi, því hér að neðan í frétt Morgunblaðsins segir "að þeir hafi komið siglandi á báti til Djúpavogs og sagt tíðindin. Ennfremur segir að fimm skipverjar hafi farist en tveir bjargast. Í þrautgóðum á raunastund ll bindi segir að það hafi verið mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi sem bjargaði mönnunum, aðfaranótt hinns 21 ágúst. Þar segir ennfremur að þeir hafi verið þrír. Á færeyska skipavefnum, www.vagaskip.dk segir að skipverjar á Sólarris hafi verið átta og að þremur þeirra hafi verið bjargað eftir 84 klukkustunda hrakninga.


Færeyska skonnortan Sólarris VA 226. Þegar þessi ljósmynd er tekin heitir skipið Grande Hermine. Fann þessa mynd í morgun eftir mikla leit.    Mynd á gömlu póstkorti.


Skonnortan Sólarris VA 226 sennilega á Grænlandi.                         Úr safni Finn Björn Guttesen.

  Færeysk skúta ferst á tundurdufli
               fyrir Austfjörðum
 Fimm menn drukkna Tveir bjargast

Seint í gærkvöldi barst hingað sú fregn að færeysk skúta, "Sólaris", hafi rekist á tundurdufl út af Austfjörðum og sokkið. Fimm menn af áhöfninni fórust en tveir björguðust.
Slys þetta mun hafa átt sjer stað út af Djúpavogi. Seint í gær komu tveir menn róandi á báti til Djúpavogs. Voru það skipstjórinn af "Sólaris" og einn hásetanna. Þeir höfðu bjargast og sögðu þeir tíðindin. Ekki var getið að fleiri en 7 hefðu verið á skútunni og getur það vel átt sjer stað, því skipið hefir verið í fiskflutningum.
"Sólaris" var á leið til Seyðisfjarðar og átti að taka fisk þar. Skipið hefir sennilega farið yfir hið auglýsta hættusvæði fyrir Austurlandi.

Morgunblaðið. 22 ágúst 1941.

09.03.2020 10:48

1239. Þverfell ÓF 17.

Vélbáturinn Þverfell ÓF 17 var smíðaður hjá Byggingarfélaginu Bergi hf (Kristján Sigurðsson skipasmiður) á Siglufirði árið 1972 fyrir Sigurjón Antonsson, Ytri Á, á Ólafsfirði. 8 brl. 78 ha. GM vél, 57 Kw. Ný vél (1985) 73 ha. GM vél, 54 Kw. Báturinn sökk við Kerlingarsker um 1 sjómílu út af Gróttu 18 apríl árið 1989. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í vélbátinn Pálmar RE 48. Þverfelli var náð upp síðar og það gert upp. Frá 1990 hét báturinn Fram ll HF 51 og var í eigu Jóns G Hafdal. Árið 1991 var hann í eigu Vélboða hf (Eiríkur Mikaelsson) í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Árið 1993 hét hann Auður HF 51, sami eigandi. Frá árinu 1994 hét báturinn Auður HF 8 og var í eigu Eiríks Ragnars Eiríkssonar í Garðabæ. Ný vél (1995) 122 ha. Ford Sabre vél, 90 Kw. Báturinn var tekinn úr rekstri 14 maí árið 2004. Hef ekki upplýsingar hvað um hann varð.


1239. Þverfell ÓF 17 í Reykjavíkurhöfn.                                      Ljósmyndari óþekktur.

             Siglufjarðarfréttir
                 Bátasmíðar

Hér hefur nokkuð verið unnið að bátasmíðum í vetur og meira en nokkru sinni fyrr. Tveir 11 lesta bátar liggja hér við bryggju, búnir til brottfarar. Fönix, ÞH - 148 fer til Raufarhafnar, eigandi Baldur Hólmsteinsson og Skálafell, SH - 240, fer líklega til Ólafsvíkur og er aðaleigandi hans Kristján Helgason. Skálafell er smíðað hjá þeim Hauki Kristjánssyni Sigurði Konráðssyni og Konráði Konráðssyni en Þverfell hjá Berg, 7-8 smálesta bát í smíðum, sem fer til Ólafsfjarðar. Eigandi hans mun vera Sigurjón Antonsson. Ráðgert er og að hefja þegar smíði á öðrum 11 lesta báti, sem þeir standa að Berg hf og Kristján Sigurðsson. Sá bátur mun fara til Ólafsfjarðar. Loks er Kristján Sigurðsson að smíða tvær trillur, 4-5 lesta. Fer önnur þeirra til Ólafsfjarðar en hin til Grímseyjar.

Tíminn. 14 mars 1972.


1239. Auður HF 8 (á miðri mynd) í Flensborgarhöfninni í Hafnarfirði.        (C) Lárus K Ingason.

  Þremur bjargað af sökkvandi báti

Þrír menn björguðust þegar Þverfell ÓF 17, átta tonna trébátur, lagðist á hliðina og sökk í þokkalegu veðri undan Gróttu um klukkan 16 í gær. Mennirnir þrír björguðust af lunningu bátsins yfir í Pálma RE 48, sjö tonna bát, sem var að veiðum skammt undan. Bátarnir voru að netaveiðum um það bil eina mílu undan Gróttu. "Við vorum að beygja á stjórnborða og ætluðum að fara að leggja út trossu. Þá kom alda undir bátinn stjórnborðsmegin og hann lagðist á hliðina," sagði Jón Barðdal, en hann var um borð í Þverfellinu ásamt Arnari, tvítugum syni sínum, og Sigurjóni Antonssyni, eiganda bátsins og skipstjóra. "Ég var afturá, komst upp á lunningu og náði að losa bátinn. Arnar var niðri í lúkar en komst upp. Skipstjórinn náði að kalla: "Pálmi - Þverfell" í stöðina. Þeir litu við, sáu hvað var að gerast og keyrðu beint til okkar. Þeir voru 2-3 mínútur á leiðinni og við biðum á lunningunni. Þeir Iögðu að og við stukkum yfir til þeirra. Við reyndum að rétta Þverfellið við en það var vonlaust. Ég hugsa að ekki hafi liðið meira en 5-7 mínútur frá því að hann fór á hliðina og þar til hann var sokkinn."

Morgunblaðið. 19 apríl 1989.

08.03.2020 10:40

203. Gísli Jónsson GK 30. TFQY.

Vélskipið Gísli Jónsson GK 30 var smíðaður í Lubeck Travemunde í Vestur Þýskalandi árið 1960 fyrir Jón Gíslason útgerðarmann og fl. í Grindavík. 139 brl. 500 ha. MaK vél. Selt 29 október 1960, Búlandstindi hf á Djúpavogi, hét Sunnutindur SU 59. Skipið var lengt í Noregi 1966 og mældist þá 189 brl. Selt 14 janúar 1972, Glettingi hf í Þorlákshöfn, hét þá Jón á Hofi ÁR 42. Ný vél (1972) 830 ha. MWM vél. Skipið hét Sólveig ÁR 42 frá 4 september 1975, sömu eigendur. Selt 7 nóvember 1975, Sigurði hf í Stykkishólmi, hét Sigurður Sveinsson SH 36. Selt 1 desember 1976, Páli H Pálssyni og Ásgeir Lúðvíkssyni í Grindavík, hét Fjölnir GK 17. Selt 20 maí 1986, Dögun hf á Sauðárkróki, hét þá Röst SK 17. Talið ónýtt og tekið af skrá 17 október árið 1989. Skipið var tekið stuttu síðar í tog austur fyrir land og því síðan sökkt á Rauða torginu, um 80-100 sjómílur austur af Norðfjarðarhorni.


Vélskipið Gísli Jónsson GK 30 nýsmíðaður í Lubeck í Þýskalandi.            (C) Sveinn Þorsteinsson.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Nýlega kom til Grindavíkur nýr 139,5 lesta stálbátur smíðaður í Vestur-Þýzkalandi. Heitir hann Gísli Jónsson GK 30, og eru eigendur þeir Guðjón, Jón og Óskar Gíslasynir og Sæmundur Jónsson. Báturinn fer á síldveiðar í næstu viku og verður Óskar Gíslason skipstjóri.

Morgunblaðið. 8 júlí 1960.


Vélskipið Sunnutindur SU 59 við bryggju á Djúpavogi.                       (C) Sveinn Þorsteinsson.

   Útgerð og aflabrögð á Djúpavogi

Á Djúpavogi var aðeins v/b "Sunnutindur" gerður út, en hóf ekki róðra fyrr en seint í mánuðinum. Þau tíðindi höfðu gerzt í mánuðinum að v/b "Sunnutindur" fyrri var seldur burt úr plássinu, og er þessi "Sunnutindur" nýr stálbátur 140 lesta, og er búinn öllum nýjustu tækjum til veiða og til öryggis. Hann fór aðeins einn túr og fékk 25 lestir. "Sunnutindur" hinn fyrri þótti of lítill til að stunda útilegu á haustin og vetrarverðtíðinni og var þess vegna seldur, og þessi nýi fenginn í staðinn. Engir minni bátar hafa stundað veiðar í mánuðinum.

Ægir. Desember 1960.


203. Fjölnir GK 17.                                                                   (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Síðastliðinn föstudag bættist í flota Grindavíkur 150 lesta stálbátur og nefnist hann Fjölnir GK 17. Var hann keyptur frá Stykkishólmi. Kaupendurnir eru Páll H. Pálsson og Ásgeir Lúðvíksson en skipstjóri verður Hjálmar Júllusson frá Þórkötlustöðum í Grindavik.

Morgunblaðið. 7 júlí 1976.

  Kaup á nýju skipi til rækjuveiða

Í rækjuvinnslunni Dögun h.f. á Sauðárkróki hefur nánast engin vinna verið frá því í janúar í vetur. Síðustu dagar eru þó undantekning en þá hefur verið unninn afli Hafborgarinnar frá Hofsósi sem aflað hefur mjög vel, 13 tonn í þremur róðrum. Nú hefur Dögun fest kaup á 152 tonna skipi sem fór á veiðar um helgina. Að sögn Garðars Sveins Árnasonar, framkvæmdastjóra, eru þessi kaup tilraun til að tryggja hráefni allt árið um kring, en rækjan hefur ekki fengist í firðinum í vetur. Skipið sem hér um ræðir heitir nú Röst SK 17 en hét áður Fjölnir GK 17. Það er smíðað í Þýskalandi 1960 og síðan stækkað 1966. Í skipinu er 810 hestafla MWN-vél sem er smíðuð árið 1972 og gírskiptiskrúfa, ljósavél og rafkerfi frá árinu 1984, en það ár var vélin yfirfarin. Verð skipsins, fullbúið til veiða, er 27 milljónir króna.
Skipinu fylgir 600 tonna fiskkvóti og sagðist Garðar Sveinn vonast til að samkomulag næðist við fiskvinnsluna og útgerðarfélagið um nýtingu kvótans á sem bestan hátt fyrir alla aðila. Sagðist hann þar hafa í huga að skipta við útgerðarfélagið, þannig að togarar félagsins nýttu þá daga, sem ekki nýttust að sóknarmarkinu, til rækjuveiða eins og veiðiskip á nokkrum öðrum stöðum hafa gert. Skipstjóri á Röst er Friðrik Friðriksson, alvanur rækjuskipstjóri. Sex manna áhöfn er á skipinu. Í sumar munu tíu til tólf manns hafa atvinnu af rækjuvinnslunni.

Dagur. 17 júní 1986.


203. Röst SK 17 til vinstri og Hilmir ll SU 177 að leggja af stað síðasta spölinn.                      (C) DV.

           Sökkt á Rauða torginu

Röst SK 17 "prýðir" ekki lengur höfnina á Sauðárkróki en skipið hafði legið þar við bryggju frá því á síðasta hausti að það missti haffærisskírteinið. Úreldingin hefur því tekið langan tíma og það var ekki fyrr en sl. mánudag að það var dregið út úr höfninni af Hilmi II. Ferðinni var heitið á "Rauða torgið" þar sem því var sökkt. Fjöldi fólks var mættur á bryggjuna á mánudag til að kveðja þetta happafley og ekki var laust við að tár læddust fram í augnkrókana á sumum. Það var rækjuverksmiðjan Dögun sem átti Röstina. Á stærri myndinni er Hilmir með Röst í drætti en á þeirri minni sjást þeir sem sem mættu á bryggjuna til að kveðja happafleyið.

Dagblaðið / Vísir. 5 október 1989.

.
04.03.2020 19:22

Skipsbjallan úr Nýsköpunartogaranum Jóni forseta RE 108.

Myndirnar hér að neðan eru af skipsbjöllunni úr Nýsköpunartogaranum Jóni forseta RE 108. Bjallan er 12 kg og í ágætu ástandi og vel eiguleg. Það hafði samband við mig gamall Englendingur John Warman, sem var lengi skipverji á Grimsbytogaranum Ross Revenge GY 718, ex Freyr RE 1. Bjallan er til sölu á ebay og verðið á henni er 1.295 pund. Hann sendi mér link á ebay þar sem bjölluna er að finna. Ég sendi Sjóminjasafninu Víkinni linkinn og þeir eru að hugsa sitt hvað þeir gera.

Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 675 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 792. Skipið var selt 11 maí árið 1966, Henriksen & Co Ltd í Hull, hét Larissa H 266. Togarinn var seldur í brotajárn og rifinn árið 1968. Þeir sem áhuga hafa á að kaupa bjölluna geta farið inn á linkinn hér að neðna.

https://www.ebay.co.uk/itm/Antique-Bell-Lovely-Rare-12kg-Large-Ships-Bell-Jon-Forseti-1948-Reykjavik/124032128117?hash=item1ce0e41475:g:xzAAAOSwrsFeDyiU


Skipsbjalla togarans Jóns forseta RE 108.


Nýsköpunartogarinn Jón forseti RE 108. í Reykjavíkurhöfn.                   (C) Snorri Snorrason.

04.03.2020 09:36

E. s. Reykir LC..

Fiskiveiðagufuskipið  Reykir var smíðaður í Bergen í Noregi árið 1898 fyrir Konráð Hjálmarsson kaupmann og útgerðarmann í Mjóafirði. Stál. 42 brl. 45 ? ha. 2 þennslu gufuvél. Djúprista miðskips var 8 ft. Skipið mun hafa komið til Mjóafjarðar í apríl eða maí sama ár. Skipstjóri mun hafa verið J. Jacobsen, sennilega danskur maður. Konráð kaupmaður gerði Reyki út til fiskveiða en með litlum árangri. Skipið hentaði ekki vel til fiskveiða, enda voru áraskip sem veiddu aflann (þ.e. doríuveiðar) og hann síðan fluttur í Reyki. Einnig var skipið eitthvað í flutningum milli hafna á Austfjörðum. Reykir var seldur til Noregs í október árið 1900.

Sumarið 1898 var Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur við rannsóknir sínar á Austfjörðum. Hann birti grein í tímaritið Andvara í janúar 1899, þar sem hann lýsir þessum rannsóknum og einnig hefur hann fylgst með veiðum Reykis og segir frá þeim annmörkum sem Mjófirðingar áttu við að stríða við útgerð skipsins. Einkar athyglisverð grein. Hún birtist hér að neðan, nokkuð stytt.


Gufuskipið Reykir.                                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Íbúðar og verslunarhús Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði um árið 1900.                 Gamalt póstkort.

             Gufuskipið "Reykir"

"Reykir'', hið laglega fiskiveiðagufuskip kaupmanns Konráðs Hjálmarsonar, hefir af og til komið hingað í sumar í ýmsum erindagjörðum, og nokkrum sinnum flutt lækni fram og til baka.

Austri. 27 tbl. 30 september 1898.


             Fiskirannsóknir 1898
         Eftir Bjarna Sæmundsson

Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér mjóstur allra fjarðanna. Lengdin er rúmar 2 mílur frá línu milli Norðfjarðarnípu og Steinsness, inn í botn. Dýpið er mikið, 40 faðmar inni við botn, og smádýpkar út. Í firðinum er leirbotn, en úti fyrir nokkur hraun. Útræði er frá flestum bæjum við fjörðinn, en einkum frá Brekku. Sé fiskur ekki inni í firðinum, róa menn út í flóann milli Nípu og Dalatanga eða á djúp, alt að 1 mílu undan Dalatanga. Alls ganga úr firðinum 30-40 bátar, flestallir færeyskir, og svo 1 gufubátur. Bræðurnir Konráð kaupmaður og Vilhjálmur hreppstjóri Hjálmarssynir, síra Þorsteinn Halldórsson og Benedikt Sveinsson á Brekku fræddu mig um veiðarnar.
Fyrir hér um bil 10 árum byrjaði Otto sál. Wathne að gjöra út gufuskip til fiskiveiða, hin fyrsta tilraun hér á landi í þá átt. Urðu þau smámsaman 3 að tölu: »Egeria«, »Bjólfur« og »Elín«, (sem áður var strandferðabátur á Faxaflóa).


Fiskverkunarpláss Konráðs í Mjóafirði um árið 1900.                             Mynd á gömlu póstkorti.
  
Hin 2 síðastnefndu eru mjög lítil, en Egeria nokkuð stór. Þau voru látin stunda þorskveiðar með lóð og var fyrirkomulagið þannig, að þau fóru út með smábáta, er lögðu lóðirnar og tóku þær, og voru úti 1-2 sólarhringa, eftir því sem veður var til og afli mikill. Var svo gert að aflanum á landi. Þau fiskuðu á djúpmiðunum í nánd við Seyðisfjörð, en sjaldan lengra burtu, svo sem norður frá, suður af Langanesi, eða úti fyrir Vopnafirði, eða niður með, út af Suðurfjörðunum. Gjörðu menn sér miklar vonir um þessa veiðiaðferð, og í "blöðunum var látið eigi alllítið yfir hinum ágæta afla þessara skipa, og talið víst, að útgerðarmaðurinn hefði mikinn ábata á þeim. Þau hafa og eflaust aflað vel með köflum. En síðari árin hefir þeim ekki gengið vel og ábatinn orðið lítill. Og ekki heyrðist mér á Wathne sál. í sumar, að honum hafí þótt útgerðin vera sérlega arðberandi, sem bezt hefir sýnt sig á því, að hann í hitteð fyrra (1896) losaði sig að mestu leyti við skipin öll, þannig, að hann seldi þau að mestu leyti hlutafélagi einu dönsku, þar sem verzlunarhúsið 0rum og Wulff keypti flesta hlutina, en Wathne átti aðeins lítinn hluta, en hélt áfram að annast um útgerðina og fiskverkunina, ásamt með Bache kaupmanni á Vopnafirði, sem nú er aðal-umsjónarmaður útgerðarinnar. 1897 sagði hann mér, að skaðinn á útgerðinni hefði orðið 15 % og í sumar höfðu skipin varla aflað fyrir kolunum, þegar eg fór frá Austfjörðum; í haust hafa þau ekki aflað svo mikið, að þau hafi borgað sig. Mér heyrðist einnig á Bacbe, að félagið vildi helzt losna við skipin, ef hægt væri að selja þau án mikilla affalla. Eftir þessu að dæma hefir þessi útgerð því ekki orðið eins happasæl og menn gjörðu sér vonir um. Síðustu 3 ár hafa heldur ekki verið góð.


Bjarni Sæmundsson (fjær) við fiskirannsóknir sínar um borð í togaranum Baldri RE 146 árið 1912.
  
Konráð kaupmaður  Hjálmarsson í Mjóafirði lét smíða í fyrravetur gufubát, 14 smál. netto að stærð, fyrir 24,000 kr. Gekk báturinn (»Reykir«) til fiskiveiða í sumar, og var fyrirkomulagið sama og á hinum skipunum, hafði 2 báta með lóð, fór vanalega út á hverjum degi kl. 4 f. m. og kom aftur kl. 2 e. m., þegar veður leyfði. Hann fiskaði vanalega á djúpmiðunum út af Mjóafirði, en stundum nokkuð lengra burtu. Í sumar mun hann ekki hafa borgað sig ( útgerð og rentur), því til þess tíma, sem ég fór af Austfjörðum, gekk honum oftast illa. Þorsteinn kaupm. Jónsson í Borgarfirði átti von á gufubát í sumar, sem á að ganga til fiskiveiða. Þetta eru þær tilraunir, sem Austfirðingar hafa gert til að reka fiskiveiðar með gufuskipum, og þær eru mjög virðingarverðar, þar sem þær sýna mikla framtakssemi og hafa mikinn kostnað í för með sér. En því miður eru ýmsir agnúar á þessari útgerð, sem þegar hafa sýnt afleiðingar sínar á útgerð Watnesskipanna og Konráð jafnvel hefir þegar rekið sig á. Ég skal benda á hina helztu af þeim: Aðalgallinn er sá, að skipin eru of lítil. Af því leiðir, að þau eru nauðbeygð til að leita hafnar, eftir mjög stutta útivist, af því að ekki er hægt, vegna rúmleysis, að gera að aflanum og salta hann á skipinu, en fiskurinn þolir ekki að liggja lengi óslægður, einkum á sumrin. En við þessar tíðu ferðir út og inn eyðist mikið af kolum og tíma.


Bjarni Sæmundsson um borð í togaranum Skallagrími RE 145.
  
Þau eru af þessu einnig bundin við mjög takmarkað fiskisvæði, í stað þess geta haldið á þau mið, þar sem helzt er veiðivon, ef afli bregzt á heimamiðunum. Úr því mætti bæta, ef skipin gætu lagt aflann upp á öðrum hötnum, en til þess þyrfti að vera fólk fyrir til að hirða aflann, eða að hann væri seldur þar. Af smæðinni leiðir ennfremur, að skipin eru eigi eins góð í sjó að leggja og æskilegt væri, því lítil gufuskip eru mjög ágjöful og ókyrr, ef sjór er ókyrr, og því illt að athafna sig á þeim. Þau verða því oftast að liggja inni, þegar opnir bátar ekki geta róið veðursins vegna. Aftur á móti eru stór gufuskip dýr, og eigi þau að vera lengi úti í senn, þurfa þau mikið rúm fyrir kol, sem dregst frá lestarrúmi því, er aflinn ætti að verkast í. En svo er þeirri spurningu enn ósvarað, hvort það muni geta borgað sig, að gera út stór gufuskip til þorskveiða og salta þorskinn á skipinu, og mikið efamál, að það geti orðið, meðan verð á saltfiski er jafnlágt og það hefir verið nú að undanförnu. Konráð kaupmaður bjóst við, að bátur sinn gæti borgað sig, ef fiskur væri ávalt á heimamiðum. En þess skilyrðis ætti ekki að þurfa með, þegar um gufuskip er að ræða, því opnir bátar geta þá líka borgað sig. Það má þá segja, að gufuskipið sé aðeins til að draga bátana á miðin.

Andvari. 1 tbl. 1 janúar 1899.


03.03.2020 15:18

359. Brimnes BA 267. TFWJ.

Vélbáturinn Brimnes BA 267 var smíðaður í Gilleleje í Danmörku árið 1946 fyrir Vesturnes hf á Patreksfirði. Eik. 36 brl. 160 ha. Tuxham vél. Seldur 10 janúar 1955, Jóhannesi Kristjánssyni og Grímólfi Andréssyni í Stykkishólmi, hét þá Brimnes SH 107. Ný vél (1955) 240 ha. G.M. vél. Seldur 31 desember 1955, Þórsnesi hf í Stykkishólmi. 21 júní 1963 er Grímólfur Andrésson aftur orðinn eigandi bátsins, hét þá Brimnes RE 407. Seldur 30 janúar 1967, Freyju hf á Patreksfirði, hét Brimnes BA 214. Báturinn var endurbyggður að stórum hluta árið 1971 og einnig ný vél, 235 ha. Cummins vél. Seldur 28 apríl 1978, Guðmundi Agnarssyni og fl. Á Bolungarvík, hét Brimnes ÍS 214. Seldur 28 nóvember 1979, Magnúsi Daníelssyni í Njarðvík, hét Brimnes KE 204. Seldur 23 maí 1985, Jóhannesi Héðinssyni og Frey Héðinssyni á Patreksfirði, hét Brimnes BA 800. Báturinn sökk út af Blakksnesi 2 apríl árið 1989 eftir árekstur við strandferðaskipið Heklu. Áhöfnin, 3 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í Heklu.


Brimnes BA 267 í Reykjavíkurhöfn.                                                                 (C) Þráinn Hjartarson.

        Nýr bátur til Patreksfjarðar

Þann 22. desember síðastliðinn kom nýr vélbátur til Patreksfjarðar. Bátur þessi er 38 rúmlestir að stærð og er smíðaður í Gilleleje í Danmörku. Hann heitir Brimnes og er eign Vesturnes h/f á Patreksfirði. Helgi Guðmundsson skipstjóri á Patreksfirði sigldi bátnum upp og verður hann með hann á vertíðinni.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1947.


359. Brimnes BA 214.                                                           Úr safni Sigurðar Bergþórssonar.


Brimnes BA 800 að sökkva út af Blakk eftir áreksturinn. Skipverjarnir 3 í gúmmíbátnum.
(C) Þorgrímur Jónsson.

        Brimnes sökk eftir árekstur                              við  Heklu                            Þriggja manna áhöfn bjargaðist
       um borð í strandferðaskipið

Þrír menn komust í gúmbjörgunarbát þegar Brimnes BA 800 sökk eftir að báturinn lenti í hörðum árekstri við strandferðaskipið Heklu skammt út af Blakksnesi um klukkan sjö í gærkvöld. Hekla var á siglingu suður með Vestfjörðum en skipið var á leið til Reykjavíkur. Brimnes var á leið til Patreksfjarðar að loknum línuróðri. Þrír menn voru á Brimnesi og björguðust allir. Ekki lá ljóst fyrir í morgun með hvaða hætti áreksturinn varð. Jóhannes Héðinsson, skipstjóri á Brimnesi, vildi lítíð um atburðinn tala er DV náði sambandi við hann. Jóhannes sagði að prýðilegt veður hefði verið og vel hefði gengið að komast um borð í björgunarbátinn og þaðan um borð í Heklu.
Stýrimaður á Heklu vildi lítið sem ekkert um atburðinn ræða og vísaði til sjóprófa sem verða haldin í dag. Sjópróf verða hjá sýslumanninum á Patreksfirði í dag. Tveir af þremur skipverjum á Brimnesi voru í lúkar bátsins þegar áreksturinn varð og þykir mildi að þeir skyldu sleppa ómeiddir. Brimnes, sem er 34 tonna eikarbátur, sökk fáum mínútum eftir áreksturinn og aldrei var von til að bjarga bátnum. Tveir af þremur skipverjum á Brimnesi, það er skipstjórinn og vélstjórinn, eru bræður og eru þeir jafnframt eigendur bátsins.

Dagblaðið / Vísir. 3 apríl 1989.

02.03.2020 09:58

1293. Börkur NK 122. TFND.

Nótaskipið Börkur NK 122 var smíðaður hjá Trondhjems Mekanisk Verksted A/S í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norska útgerðarfélagið Fishing Intenational Ltd í Hamilton á Bermúdaeyjum, hét áður Devonshire Bay. 711 brl. 1.200 ha. Wichmann vél. Smíðanúmar 269/629. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað kaupir skipið í ágúst árið 1972. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu, t.d. var það útbúið til flotvörpuveiða og fl. Fiskimjölverksmiðja var í skipinu, en hún var tekin úr því og seld úr landi. Börkur kom svo í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10 febrúar 1973. Börkur stundaði að mestu loðnuveiðar fyrstu árin. Einnig var skipið á kolmunnaveiðum og kom með fyrsta farminn, um 200 tonn til Neskaupstaðar hinn 19 maí það ár. Í október 1975 fór Börkur á makrílveiðar undan ströndum Máritaníu við norðvestur Afríku, en gengu þær veiðar frekar illa. Ný vél var sett í skipið, 2.100 ha. Wichmann vél árið 1979.

Ég tel og fullyrði, að kaupin á stóra Berki, smíðin á skuttogaranum Bjarti NK 121 í Niigata í Japan og svo náttúrulega kaupin á skuttogaranum Barða NK 120 í desember árið 1970, bestu skipakaup Síldarvinnslunnar og mörkuðu mikil tímamót í útgerð í Neskaupstað. Börkur aflaði um 1,5 milljón tonna á þeim 43 árum sem skipið var gert út frá Neskaupstað. Bjartur NK 121 mun hafa aflað um 140 þúsund tonn af fiski þau 43 ár sem hann var gerður út frá Neskaupstað.


1293. Börkur NK 122 við komuna til Neskaupstaðar 10 febrúar 1973.             (C) Tryggvi Ingólfsson.


1293. Börkur NK 122 við komuna til Neskaupstaðar 10 febrúar 1973.     (C) Guðmundur Sveinsson.


Síldarbræðsla SVN árið 1965. Kaupin á Berki voru gerð til að tryggja verksmiðjunni meira hráefni. Ljósmyndin er tekin sumarið 1965.         (C) Hjörleifur Guttormsson.

      Stærsta fiskiskip Íslendinga                        til Neskaupstaðar  

Á næstunni munu þrjú ný og stór fiskiskip bætast í flota Norðfirðinga, og það fyrsta er væntanlegt til Neskaupstaðar eftir um það bil 10 daga. Það skip er Börkur NK 122. Börkur er 1017 lestir að stærð, smíðaður í Noregi fyrir fjórum árum, og að undanförnu hefur verið unnið að breytingum á skipinu í Fredrikstað í Noregi. Strax og Börkur kemur heim, fer hann til loðnuveiða með nót og flotvörpu og verður það langstærsta skipið, sem þær veiðar stundar í vetur, og jafnframt stærsta fiskiskip, sem er í eigu Íslendinga. Börkur var upphaflega smíðaður sem veiði- og bræðsluskip, en nú hefur síldarbræðslan, sem í skipinu var, verið tekin úr því. Gert er ráð fyrir, að skipið taki allt að 1.100 lestir af loðnu. Skipstjórar á Berki verða bræðurnir Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. Þá hefur hlutafélagið Bylgjan fest kaup á Gissuri hvíta SF 1, en sem kunnugt er skemmdist Gissur hviti mikið, er hann féll á hliðina, þegar skipalyftan á Akranesi bilaði í fyrra. Nú hefur skipið verið endurnýjað af fyrirtækinu Stáli h.f. á Seyðisfirði, og mun báturinn verða afhentur um næstu mánaðarmót. Fer skipið þá til loðnuveiða. Skipstjóri á því verður Ísak Valdimarsson.
Þriðja skipið, sem kemur til Neskaupstaðar, er Bjartur NK 121, en það er einn af skuttogurunum, sem smíðaðir eru fyrir íslendinga í Japan. Skipið mun leggja af stað til Íslands frá Japan einhvern næsta dag. Skipstjóri á Bjarti er Magni Kristjánsson. Með þessum nýju fiskiskipum eiga Norðfirðingar orðið mjög góðan skipakost, en fyrir eru í Neskaupstað skuttogarinn Barði, tveir 270 tonna bátar, einn 200 tonna bátur og margir minni bátar. Að auki mun atvinnuöryggi Norðfirðinga aukast mikið, þegar Bjartur kemur, því þá verða togararnir orðnir tveir, en við það mun hráefni berast mikið oftar og jafnar til frystihúss staðarins.

Tíminn. 16 janúar 1973.


Devonshire Bay í höfn í Leirvík á Hjaltlandi 14 júlí 1968 þá nýsmíðaður.                  (C) Jim Hugson.

    Síldarvinnslan í Neskaupstað kaupir
                  1000 lesta veiðiskip

        Viðtal við Jóhann K. Sigurðsson                            framkvæmdastjóra

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað befur um árabil rekið útgerð með glæsibrag. Hefur sú útgerð heppnazt mjög vel, enda mjög færir menn staðið við stjórntæki skipanna og hæfir og duglegir menn í hverju rúmi. Það er og eftirtektarvert, að stjórn útgerðarinnar í landi hefur verið í góðum og öruggum höndum, enda er Útgerð Síldarvinnslunnar tvímælalaust brautryðjandi í ýmsum greinum útgerðarreksturs hér á landi. Þessi útgerð hefur jafnan verið rekin með hag allra þáttttakenda hennar fyrir augum, en þar á ég við sjómennina sjálfa, útgerðarfyrirtækið og fólkið, sem vinnur við aflann í landi. Og hagur þessara aðila er jafnframt hagur allra bæjarbúa bæði beint og óbeint. Skip Sildarvinnslunnar hafa borið mikinn afla að landi í þessum bæ, og þannig á þetta fyrirtæki öðrum stærri þátt í því, að hér þrífst mikið og öflugt atvinnulíf og fólk býr við góða, fjárhagslega afkomu; Nú eru framundan miklar breytingar á skipakosti fyrirtækisins, og til þess að fræðast um gang þeirra mála, hitti tíðindamaður Austurlands að máli framkvæmdastjóra Útgerðar Síldarvinnslunnar, Jóhann K. Sigurðsson.


Börkur NK 122 með fullfermi af loðnu í fyrstu veiðiferð sinni í febrúar 1973. (C) Guðmundur Sveinsson.
  
Frá því hefur verið sagt áður, að Síldarvinnslan er að kaupa japanskan skuttogara, og nú er ákveðið að kaupa annað ennþá stærra skip. Viltu segja okkur frá aðdraganda þessarar ákvörðunar, Jóhann ? - Í febrúar í vetur fórum við að ræða um það í stjórn Síldarvinnslunnar, að við þyrftum að fá stærra loðnuskip. Þegar loðnan veiðist svo langt í burtu, sem raun var á síðasta vetur, eru Börkur og Birtingur of litlir í að stunda þessar veiðar með það fyrir augum að sigla með aflann heim, en það er 14-18 stunda sigling. Sigling með fullfermi svo langa leið er illframkvæmanleg í misjöfnum vetrarveðrum, og ekki hægt að ætlast til slíks af sjómönnunum. Hins vegar þarf verksmiðja okkar að fá meira hráefni til vinnslu, og hugmyndin er að reyna að tryggja aukna hráefnisöflun. Talað hafði verið um að selja skuttogarann Barða, þegar kaupin yrðu gerð á japanska skuttogaranum, þar sem við gætum ekki misst loðnuskipin, enda þótt ýmsir annmarkar væru á því, eins og að framan segir, að eiga ekki stærra skip til þessara veiða. Menn eru líka farnir að hugsa af alvöru til kolmunnaveiða og ennfremur að veiða loðnu í flotvörpu fyrri hluta vetrar, kannski aðallega í desember og janúar. Þær veiðar yrðu úti í hafi, allt upp í 100 mílur. Hvort tveggja þessar veiðar verða ekki stundaðar á þeim bátum, gem við eigum, heldur þarf til stærri skip. Að þessu athuguðu ákváðum við að eiga Barða áfram,, en selja hins vegar Börk og Birting.


1020. Börkur NK 122. TFNR. Smíðaður hjá Ankerlökken Værft A/S í Florö í Noregi árið 1966. 301 brl. 800 ha. Lister vél.     (C) Guðmundur Sveinsson.  

Í vor kom svo í ljós, að í Noregi var til sölu 1.000 lesta skip, sem gæti hentað okkur. - Hafið þið skoðað þetta skip? - Já, um miðjan júní fórum við þrír til Noregs, Ólafur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Sigurjón Valdimarsson, skipstjóri og ég. Við vorum þar í 7 eða 8 daga og skoðuðum skipið vandlega og töluðum við marga sérfróða menn um ástand þess og útbúnað, m. a. ræddum við þar við skipstjórann, er síðast var með skipið og eins 1. vélstjóra. Einnig ræddum við, við verkfæðing hjá Ankerkonsul í Bergen, en það er þekkt skipaverkfræðifirma. - Og hvernig skip er þetta ? - Þetta er fjögurra ára gamalt verksmiðjuskip, sem smíðað er í Noregi, en hefur stundað nótaveiðar við Kanaríeyjar.
Til sölu voru tvö skip af nákvæmlega sömu gerð. Okkur fannst skipið stórt, en það er 1.000 lestir,, eins og ég sagði áðan. Við óttuðumst, að kasthringur þess væri mjög stór, og yrði það því að vera búið afar stórri nót. En í viðtölum við skipstjóra og vélstjóra kom fram, að þetta þyrfti ekki að óttast, enda er skipið sérstaklega hannað fyrir nótaveiðar. - Þú segir, að þetta sé verksmiðjuskip. Er ætlunin að hafa veriksmiðju í því áfram,, og hvað um anman búnað þess? - Í skipiniu er síldarverksmiðja, sem getur brætt um 100 lestir á sólarhring, aflvélin er 1.200 ha Wickmann vél. Í skipinu eru þrjár 178 ha Ijósavélar og auk þess er það búið öllum venjulegum siglinga- og fiskileitartækjum. Ætlunin er að taka verksmiðjuna úr skipinu og selja hana. - En þarf ekki að gera einhverjar breytingar á skipinu? - Jú, nokkrar breytingar verða gerðar, og ætlunin er, að þær verði hannaðar í Noregi og síðan boðnar út. Lestin verður hólfuð í tanka og verða tveir þeirra einangraðir til að unnt sé að flytja síld kælda um lengri veg, t. d. hingað heim af Norðursjávarmiðum.


1046. Birtingur NK 119. TFBQ. Smíðaður hjá Flekkefjord Slip & Maskinfabrik A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1967. 306 brl. 800 ha. Lister vél.     (C) Guðmundur Sveinsson.  

Þá verða sett í skipið tvö 15 tonna spil, gálgar fyrir flotvörpu og flotvörputromla. Einnig verður sett í það Netsontæki, en það er tæki, sem sett er á höfuðlínuna og myndar það, sem í sjónum er, ennfremur verður settur upp flotvörpudýptarmælir. Engar breytingar þarf að gera á ílbúðum skipshafnar eða eldhúsi, það er allt fyrsta flokks. Eftir þessar breytingar ber skipið 1.100 tonn. Svo verður skipið allt yfirfarið fyrir afhendingu, vélar og tæki prófuð og framkvæmd botnskoðum og öxuldráttur. - Og hvað á skipið að kosta? - Verð þess eins og það er eða verður að heildarskoðun lokinni er 69.9 millj., en áætlað er, að breytingarnar kosti 27 millj., svo að heildarverð skipsins verður þá 96.9 millj. kr. - Þessi skipakaup eru þá sem sagt orðin að veruleika, en hvenær er skipið væntanlegt heim? - Þessi kaup eru fastákveðin og búið er að inna af hendi fyrstu greiðslu til seljenda. Við skrifuðum undir kaupsamning í júní í Noregsferð okkar með fyrirvara um samþykki stjórnar Síldarvinnslunnar og stjórnvalda hérlendis.


1278. Bjartur NK 121. TFNV. Smíðaður hjá Niigata Enginering Co Ltd í Niigata í Japan á árunum 1972-73. 461 brl. 2.000 ha. Niigata vél.  (C) Guðmundur Sveinsson.
  
Nokkuð hefur dregizt, að hægt væri að ganga formlega frá kaupunum, en það er búið nú. Ekki er gott að segja nákvæmlega um það hvenær skipið kemur hingað heim, en mér þykir trúlegt, að það verði kringum áramótin. Segja má, að afgreiðsla málsins hafi dregizt um mánuð frá því sem við gerðum ráð fyrir í byrjun. En ég vil geta þess hér, að við höfum notið góðrar fyrirgreiðslu Landsbankans og ríkisstjórnarinnar við þessi kaup. - Þið ætlið þá að reka þrjú skip áfram, og það verða allt stór skip? - Já, Sídarvinnslan ætlar að eiga þrjú skip áfram, Barða, japanska togarann, sem kemur í lok febrúar og þetta norska skip. Þessi floti verður um 2.000 lestir að stærð. - Er ákveðið, hvað þessi nýju skip eiga að heita? - Japanski skuttogarinn á að heita Bjartur NK 121 og þetta skip, sem við höfum verið að tala um, á að heita Börkur NK 122. - Útgerð þessa skips er tvímælalaust nýjung í íslenzkri útgerð, ertu bjartsýnn á hana, Jóhann ? - Það má segja, að hér sé rennt dálítið blint í sjóinn og nokkur áhætta tekin. Við förum hér inn á nýja braut, eins og við gerðum, er við keyptum Barða. En við teljum, að breyta þurfi útgerðarrekstrinum og skipin þurfi að stækka. Ef lokað verður fyrir veiðar í Norðursjó, sem vel getur orðið, eru minni bátarnir úr leik, nema yfir vetrarvertíðina. Verksmiðjan þarfnast aukins hráefnis, en að undanförnu hefur hún aðeins getað unnið samfellt í 2 mánuði á ári. Loðnuafli á að geta haldizt, ef spár fiskifræðinga rætast, og nú eigum við að geta náð honum hingað heim til vinnslu.


1137. Barði NK 120. TFTS. Smíðaður hjá Ateliers et Chantters de la Manghe í Dieppe í Frakklandi árið 1967. 328 brl. 1.200 ha. Deutz vél.           (C) Sigurður Arnfinnsson.
  
Talið er, að 10 millj. lesta af kolmunna séu hér í hafinu, og að því hlýtur að koma, að hann verði veiddur í ríkum mæli og nýttur. Hann er hér skammt undan á vissum tímum og gengur upp að suðausturströndinni á sumrin upp á 40-50 mílur. Trúlegt er, að unnt verði að veiða kolmunnann í flotvörpu með góðum árangri í framtíðinni. Norðmenn hanna nú stærri skip bæði fyrir nóta- og flotvörpuveiðar. Ríkið ætti að koma á móts við okkur í þessum tilraunum. Ég vil að lokum segja það, að það hefur verið lán þessarar útgerðar, að í sjö ár hafa verið á skipum hennar nær sömu skipstjórar og vélstjórar og margir aðrir yfir- og undirmenn. Ekkert er eins dýrmætt í útgerð eins og traustir og hæfir sjómenn. Þar með slítum við talinu, og ég þakka Jóhanni kærlega fyrir spjallið. Austurland óskar Síldarvinnslunni til hamingju með bæði þau nýju skip, sem brátt munu sigla undir merki hennar og eiga vonandi eftir að reynast happafleytur.

Austurland. 18 ágúst 1972.
Birgir Stefánsson.

29.02.2020 16:03

E. s. Súlan SU 1. LBJC / TFBG.

Gufuskipið Súlan SU 1 var smíðuð í Gausvik í Hörðalandi í Noregi árið 1902 fyrir Konráð Hjálmarsson útgerðar og kaupmann í Mjóafirði, síðar á Norðfirði. 117 brl. 75 ha. 2 þennslu gufuvél. Kom fyrst til heimahafnar Mjóafjarðar hinn 2 febrúar árið 1903. Nafn skipsins er dregið af fjallinu Reykjasúlu (878 m) sem er í Mjóafirði að sunnanverðu. Skipið var selt 21 nóvember 1910, Thor E Túliníus útgerðar og kaupmanni í Kaupmannahöfn og Ottó Túliníus kaupmanni á Akureyri. Því hefur verið lengi haldið fram að Súlan hafi verið fyrsta gufuskip íslendinga sem gert var út til fiskveiða, en það er ekki rétt. Það mun hafa verið Muggur, Péturs J Thorsteinssonar, sem gerður var út á doríuveiðar frá Bíldudal árin 1899-1900.
Sögufræg er heimsigling Súlunnar. Hún var þá nærri farin. Skipstjóri var hvalveiðimaður hjá Ellefsen , Ebenezer Ebeneszarson frá Flateyri, en stýrimaður Sveinbjörn Egilsson og hefur hann lýst því á prenti, hversu litlu munaði að skip og menn færust og er sú lýsing frábær , eins og aðrar lýsingar Sveinbjarnar, en náttúrlega er hann sjálfur söguhetjan. Eftir að Súlan hafði staðizt þessa raun og komin upp til Íslands 1903, hlekktist skipinu ekki á sem heitið getur fyrr en það fórst 1963.

Hér fyrir neðan er greinin sem Sveinbjörn skrifaði um heimferðina en hún birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1939. Það kemur meira síðar um Súluna, enda sögufrægt skip sem gert var út, þá mest á síldveiðar í rúmlega 61 ár.

Heimildir: Sjómannadagsblaðið. 1939 / 1990.
                


Gufuskipið Súlan. Ljósmyndin sennilega tekin í Noregi í janúar 1903.           Ljósmyndari óþekktur.

               Eimskipið "Súlan"

Borgareyri 5. febr. 1903.
Þá er nú hið nýa fiskiskip kaupmanns Konráðs Hjálmarssonar komið, »Súlan«. Það kom 28. f. m. eftir 9 daga ferð frá Stavangri. Það hreppti mjög vond veður, skipsbáturinn brotnaði og fleira gekk úr lagi, en skipið reyndist ágætlega gott sjóskip, svo þeir er með voru þóttust eigi hafa komið á betra sjóskip, og eru slíkt miklir og góðir kostir á fiskiveiðaskipi, enda skipið að öllu leyti mjög myndarlegt, og spá mín er það, að ef þetta skip borgar sig eigi við fiskiveiðar, í höndum þess eignarmanns sem nú er, þá mun gufuskipaúthald til fiskiveiða eigi borga sig fyrst um sinn hjer við strendur. Jeg óska útgerðarmanninum til heilla með tilraun sína, og vona sú ósk rætist.
Jeg hef heyrt sagt að það hefði 7 mílna hraða á vakt, en svo hefur það líka allhá siglutrje og segl, sem það á að nota jafnframt gufunni, er ástæður leyfa. Það ber 120 tonn. Skipstjórinn heitir Ebeneser Ebenesarson, hefur verið töluvert lengi með Ellefsens-skipunum. Stýrimaðurinn heitir Sveinbjörn Þorsteinsson Egilsen úr Hafnarfirði, maskínistar eru Norðmenn, en fiskimenn allir verða Íslendíngar. Nú sem stendur er skipið suður á Eskifirði til mælinga og til að takast í tölu íslenskra skipa, og svo fer það suður til Reykjavikur, og leggur síðan út til fiskiveiða.

Bjarki 5 tbl. 11 febrúar 1903.

          "Súlan" SU 1 / E A 300

Á þessum tímamótum "Súlunnar", þegar hún skiptir um stað á skipalista landsins, fer úr tölu eimskipa með sína gömlu 75 ha. vél, og verður sett á listann meðal mótorskipa, með 225 ha. June-Munktell vél, má ekki minna vera en að ég minnist þessarrar gömlu vinkonu minnar með fáum orðum. - Nokkur aðdragandi varð til kunningsskapar okkar og skýri ég hér lauslega frá tildrögum. Þ. 11. Október 1902, var ég skráður í Kaupmannahöfn af símalagningaskipinu "Örsted" og fór að venju til sjómannaheimilisins í Holbergsgötu 17, þar sem ég ætlaði að gista, þar til, ég fengi skiprúm. Þegar þangað kom var húsfyllir, um 40 sjómenn, allir atvinnulausir, og eftir því sem mér var sagt, lítil von um vinnu. Mér leizt ekki á blikuna, en hingað var ég kominn og hér varð ég að vera þar til ég yrði rekinn út, vegna peningaleysis, eða heppnin væri með og ég fengi skiprúm áður en ég væri alblankur. Á hverjum degi fór ég á skipaskráningaskrifstofur og spurðist fyrir um skiprúm, en hvarvetna var svarið: "Ekkert skip." Ég fór einnig til Þórarins Tuliníus útgerðarmanns, en fékk þar sama svarið og góð orð. Á sjómannaheimilinu var meðal annarra, norskur bryti, ungur maður. Við fórum stundum út í borgina og urðum kunningjar. Einn dag, er við höfðum verið vinnulausir í mánuð, spyr hann mig, hvort við eigum ekki að verða samferða til Noregs, við gætum líklega fengið frítt far; var ég til í það. Vissi hann af gufuskipi, sem fara átti til Skien við Kristianiafjörðinn og gengum við þegar í það að fá farið, sem gekk greiðlega, gegn því, að við ynnum á leiðinni fyrir fæði, því nóg var að starfa og hreinsa, áður en skipið kæmi heim og hætti siglingum.


Gufuskipið Súlan, sennilega á síldveiðum.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

Gekk þetta allt vel og ákvað ég að halda til Tönsberg og reyna þar að komast á hvalveiðaskip, en hafði þó enga hugmynd um staðinn, eða hvort nokkur vinna væri þar fáanleg. Brytinn og ég skildum í Skien hinn 14. nóvember um fjögur leytið; hélt hann til Porsgrund; átti hann þar heima, en til að spara peninga, hélt ég gangandi til Sandef jord og bar eitthvað af fötum.
Þangað kom ég seint um kvöldið, gekk inn á veitingahús og keypti mat og mikið kaffi og spurði um leið til Tönsberg; var mér sagt að hún væri löng, en ég ásetti mér að leggja þegar af stað gangandi, en ég var talinn af því, einkum vegna þess að frost var mikið, og ekki væri víst hvaða flökkurum ég kynni að mæta, en ég hélt þó áleiðis, gekk alla nóttina og kom til Tönsberg kl. 7 f. h. hinn 15. nóvember. Hinn 17. byrjaði ég vinnu á skipasmíðastöðinni "Kaldnæs Patentslip og Mekaniske Værksted" á Nátterö við Tönsberg. Þegar ég kom, var þar fyrir Jón Hinriksson, gamall kunningi frá Brekku á Álftanesi, síðar verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum; hann er nú dáinn fyrir mörgum árum. Útvegaði Jón mér þegar verustað í sama húsi og hann hélt til, hjá svínaslátrara Kettilsen og hans góðu konu og var þar gott að vera. Eg vann nú dag hvern við hampþéttingu skipa, barði ryð, málaði, lagaði reiða á hvalabátum, sem stóðu uppi o. s. frv. Leið svo fram til jóla. Á annan í jólum skrapp ég inn á lestrarstofu sjómanna og spurði hvort nokkuð bréf væri til mín. Jú, þar var bréf, ekki þaðan sem ég bjóst við, heldur frá Þórarni Tuliníus, sem spyr, hvort ég vilji fara stýrimaður á nýju skipi, sem kaupmaður Konráð Hjálmarsson sé að láta smíða í Stavanger, og vilji ég þetta, skuli ég snúa mér til skipstjóra Ebenesar Ebenesarsonar, sem búsettur var í Tönsberg.


Fjallið Reykjasúla í Mjóafirði að sunnanverðu. Nafn skipsins er dregið af fjallinu.     (C) Hjörleifur G.

Ég fór heim til hans og sýndi honum bréfið. Hann kannaðist við þetta og var ráðinn skipstjóri á hinu nýja skipi, til þorskveiða heima. Við þekktumst ekkert, en svo fór, að ég ákvað að ráðast á skipið. Þegar svo var komið sendi ég Tuliníusi skeyti, þess efnis, að ég tæki tilboðinu. Ég vann í slippnum milli jóla og nýjárs og til 4. janúar 1903. 6. janúar áttum við skipstjóri að leggja af stað, áleiðis til Stavanger. Fyrsta áfangann fórum við með járnbrautarlest til Laurvík og gistum þar um nóttina og næsta morgun fórum við út á fallegt, lítið strandferðaskip "Dronningen", sem kom við, nálega á hverri höfn, alla leið til Stavanger. Var skipið fullt af fólki, ýmsar mállýzkur talaðar og mörg gömul skrínan opnuð til að ná í bita og dram. Í Kragerö, Tvedestrand, Arendal, Grimstad og Kristiansand mátti líta hin gömlu bark- og briggskip, sem nú voru lögð upp, en einu sinni voru skrautleg langferðaskip.
Þau höfðu lifað sitt bezta, og lengstu ferðir þeirra nú, voru til Englands á sumrin eftir kolafarmi, ef vindmyllan, sem knúði dælurnar, gat haft við lekanum, að öðrum kosti var það timburflutningur og að fljóta á farminum. Allt þetta var nú að týna tölunni, smá hverfa og víkja fyrir öðrum aðferðum til vöruflutninga á hafinu. Þegar til Stavanger kom, settist skipstjóri að á "Victoria Hotel", en mér var útveguð gisting á matsöluhúsi hjá Thorbjörnsen nokkrum, sem var hinn mesti óreglugemsi og húsið hafði á sér versta orð, en milli skipstjóra og stýrimanns er mikið djúp og þess vegna voru líka dvalarstaðir okkar eftir því.


Síld landað og söltuð úr Súlunni SU 1 á Akureyri.                                   (C) Þjóðminjasafnið.

Samt var ég ekkert að grufla út í þetta; ég hafði gott rúm, nóg að borða, kaup og náðuga daga, meðan við biðum eftir að skipið yrði ferðbúið, en það var hinn 16. janúar. Ég komst að því, að margir ungir menn komu oft til skipstjórans; voru það atvinnulausir íslendingar, sem vildu komast heim. Ég réð skipstjóra til, að reyna að fá 2 duglega háseta til ferðarinnar og matsvein, en það fór öðruvísi. Við fylltum farmrúmin með kolum, tókum nauðsynleg matvæli, og annað er til ferðar þurfti, en á meðan var ég einn af skipshöfn og hafði engan séð, nema hina tvo norsku vélamenn, sem ráðnir voru. En 20. janúar kom skipshöfnin, ekki 2-3 menn, heldur 9 menn, flestir sjóklæðalausir, með ekkert, sem heitið gat, meðferðis. Einn var mér sagt að væri bakari og átti hann að vera matsveinn, að sögn. Rúmföt eða teppi voru lítt sjáanleg en þó var þar einn í hópnum, stór, laglegur maður, sem hafði allt meðferðis, sem til sjóferða heyrir, kistu, rúmföt, sjóstígvél og olíuföt; hét hann Valdemar Jóhannesson, ættaður frá Svalbarðsströnd, náfrændi Þórðar Iæknis Edilonssonar í Hafnarfirði. Reyndist hann hinn mesti dugnaðarmaður þessa ferð. Síðar fór hann til Ameríku. Loks kom kveldið 20. janúar. Þá létum við í haf og ferðin til Íslands byrjaði. Nú átti hið nýja skip að sýna kosti sína og galla, sem það og gerði þá 12 daga, sem við vorum á leiðinni. Vélin var lítil, þá talin 87 hö., en er nú aðeins 75, af hverju sem það er. Urðum við því brátt þess varir, að hraði skipsins var lítill, kringum 6-7 mílur. Meðan veður var sæmilegt, höfðum við skipstjóri og Valdemar þá ánægju, að sjá einn og einn háseta vera að skjótast upp á þilfar og matsveinninn eldaði til kveldsins 23. janúar, en þá gerði austan rok. Klukkan eitt um nóttina vorum við Valdemar í stýrishúsi og skipið andæfði. Þá reis sjór, sem hvolfdi sér yfir það, svo það nötraði og skalf og leið góð stund þar til það komst upp úr sjólöðrinu, en nú hafði það slagsíðu og vildi ekki rétta sig; kom þá fyrsti vélstjóri upp í stýrishús og heimtaði, að eitthvað yrði gjört til að rétta skipið, með öðrum orðum moka kolunum, sem farið höfðu út í aðra hliðina, en til þess þurfti að opna lúgur, en það var óðs manns æði að byrja á slíku, því fleiri sjóir gátu riðið yfir það og þá vissi ég hvernig fara myndi. Ég bað vélstjóra að vera rólegan, nú reyndi ég að leggja skipið yfir og sjá til, hvort ekkert lagaðist, þegar við fengjum sjóina á hlið og heppnaðist þannig að fá kolin í samt lag aftur, skyldi hann stöðva vélina og skyldum við svo láta reka. Sættum við nú lagi og fengum vind og sjói á hlið og eftir stóra öldu, sem kastaði skipinu á hliðina, heyrðum við skruðning í farmrúmi og réttist það þá nokkuð. Þá hringdi ég til vélstjóra og var vélin stöðvuð og við biðum átekta.


Brekkuþorp í Mjóafirði um það leiti sem Súlan kemur þangað.                 Ljósmyndari óþekktur.
  
Skipstjóri hafði frívakt og skildi ég ekki, hvers vegna hann kom ekki upp, því hann hlaut að hafa orðið þess var, þegar sjórinn reið yfir skipið. Fór ég því niður á þilfar til að athuga hvernig umhorfs væri og hið fyrsta, sem ég rak mig á var skipsbáturinn, laus og brotinn rétt við káetukappann, hurð þar brotin og eflaust fleira, en svo var dimmt, að ég sá vart handa minna skil. Reyndi ég nú að ýta bátnum frá káetudyrunum og fór niður. Ég heyrði stunur og kallaði til skipstjóra, sem ég ekki sá, því slokknað hafði á lampanum. Hann var í rúmi sínu, en þegar sjórinn skellti skipinu á hliðina, þá hentist hann út úr kojunni, yfir borðið og lenti á bekk og hafði brotið eða brákað rif og legið þannig nokkra stund, og líklega hefir liðið yfir hann. Í myrkrinu fálmaði hann sig svo upp í koju og leið mjög illa er ég kom. Rokið var hið sama, en með stöðvaða vél lá skipið ágætlega, hafði hagrætt sér sjálft og var afturhluti þess um 3 strik frá vindi. Ég yfirgaf skipstjóra, fór til Valdemars í stýrishús og bað hann að liðsinna skipstjóranum, kveikja, ná í áburð eftir hans fyrirsögn í meðalakistu og bera á hann, ef hann vildi. Mig langaði til að vita, hvað hásetunum liði, og fór fram í lúkar. Þar var ljótt umhorfs, þegar ég loks gat kveikt ljós. Sumir spúðu, aðrir stundu og enn aðrir báðu fyrir sér og var það fallegt, en lítil uppörfun fyrir mig, að sjá mannskapinn þannig. Ég spurði hvort enginn treysti sér á þilfar, en það var enginn. Þeim var bæði kalt og voru sjóveikir, og ég held, sumir hræddir. Leið nú nóttin og birta tók, fórum við Valdemar að rannsaka skemmdir.
Báturinn var ónýtur, annað siglingaljósið horfið en káetuhurð mátti gera við og var það okkar fyrsta verk. Skipið fór vel í sjó og er bjart var orðið hengdum við tvo olíupoka til kuls, og eftir það kom vart skvetta á þilfar. Valdemar gerði við hurðina, ég fór að sinna skipstjóra, og kokkinn varð að drífa upp til að matreiða, og einhvernveginn heppnaðist að elda kjötsúpu og kom hún sér vel, en matarlyst var engin hjá stafnbúum. Ég fór smátt og smátt að taka eftir, hvílíkt gæða sjóskip "Súlan" var, og það strammaði mig upp, eins og menn segja, því ömurlegt var á þessum blessuðum spítala.


Súlan SU 1 að landa síld á Akureyri.                                             (C) Handels & Söfart Museets.dk

Svo gekk á ýmsu, við héldum ferðinni áfram þegar færi gafst, stöðvuðum vél og létum út olíupoka, þegar sjóir urðu svo miklir, að ekki var siglandi, og svo kom 27. janúar. Um morguninn er birti, tók ég eftir því, að skipið lét ekki að stjórn. Veður var sæmilegt, en vindur á móti. Ég komst brátt að því, að stýrið höfðum við ekki misst, en vegna þess að járnhetta var yfir stýrisleggnum þar sem hann kom upp úr stýrisgatinu, skrúfuð niður, að mig minnir, með 32 skrúfboltum, þá gat ég ekki séð missmíði. Einn háseti var þá í stýrishúsi, því Valdemar svaf þegar ég varð þessa var. Ég fékk nú fleiri háseta á þilfar og skipstjóri, sem legið hafði þessa daga, kom sárlasinn upp og svo var farið að losa járnhettuna, og þegar hún var laus kom í ljós, hvað að var og það var ekki þeim að þakka, sem svikið höfðu útbúnað hér, að okkur auðnaðist að fá við það gert. Um hádegi þennan dag sást til sólar og mældi ég þá hæð og var það í eina skiptið, sem þess var kostur alla ferðina. Um kveldið, um 7 leytið, breyttist vindstaða til suðvesturs og gerði él; leið ekki á löngu þar til komið var rok og hauga sjór. Stóð svo alla þá nótt, en lygndi með morgninum og gekk síðan til suðausturs; varð sjór þá svo úfinn, að furðu sætti að skipið skyldi verja sig eins og raun varð á; hér dugðu engir olíupokar, til þess voru sjóir of krappir og tíðir; áfram varð að síga. Hinn 28. gátum við haldið áfram ferðinni, en 29. og 30. janúar var vestan stormur og lágum við með stöðvaða vél 15 klukkutíma á því tímabili. Dagana 31. janúar og 1. febrúar var veður gott, en þungur sjór, og eftir leiðarreikningi hefðum við átt að sjá land, síðari hluta dags hins 1. febrúar, en ekkert sást og héldum við áfram um nóttina, en lóðuðum annan hvorn tíma, en fundum ekki botn. Þegar birti 2. febrúar, var veður heiðskírt og logn; sáum við þá hvít fjöll og bil milli þeirra, sem við álitum fjörð.
Við tókum stefnu á fjörðinn og er við vorum komnir í mynni hans, sáum við bát og sigldum að honum og spurðum mennina, hvaða fjörður þetta væri, sem við sæjum. ,,Það er Norðfjörður", svöruðu þeir. Ég undraðist þetta meira en þótt þeir hefðu sagt, Finnafjörður eða Reyðarfjörður, því á réttan stað bjóst ég alls ekki við, að við kæmum, með þeim skilyrðum, sem mér virtust vera, bæði hvað stefnur, logg og fleira áhrærði. Er við höfðum talað við mennina í bátnum, breyttum við stefnu, og um hádegi 2. febrúar höfðum við varpað akkerum á Mjóafirði, og eigandi skipsins, Konráð Hjálmarsson, var kominn út á skip, ferðinni var lokið, og dáðist ég þá í huga mínum að allri frammistöðu "Súlunnar" á hafinu, þótt ferðin færi nokkuð fram úr áætlun.

Sjómannadagsblaðið árg. 1939.
Sveinbjörn Egilson. 
24.02.2020 20:46

M. b. Friðþjófur SU 371.

Mótorbáturinn Friðþjófur SU 371 var smíðaður í Kaupmannahöfn árið 1914-15 fyrir Kristján Jónsson útgerðarmann og fl. á Eskifirði. Eik. 7 brl. 20 ha. Skandia vél ?. Ný vél (1928) 20 ha. Skandia vél. Ný vél (1942) 40 ha. Gray vél. Seldur 9 desember 1950, Ásgeiri J Ágústssyni, Eiríki B Ágústssyni og Einari B Jóhannssyni á Raufarhöfn, hét Friðþjófur TH 171. Báturinn var talinn ónýtur árið 1957.


Mótorbáturinn Friðþjófur SU 371.                                            Teikning eftir Aage Nielsen Edwin 1972.


Áhöfnin á Friðþjófi SU 371 árið 1941. Frá vinstri er Aðalsteinn Jónsson (Alli ríki ?), Hafsteinn Stefánsson, Karl Kristjánsson skipstjóri í glugganum og Stefán B Guðmundsson.         Ljósmyndari óþekktur.


Mótorbáturinn Friðþjófur SU 371.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

19.02.2020 20:59

263. Þorbjörn ll GK 541. TFCF.

Vélskipið Þorbjörn ll GK 541 var smíðaður í Djupvík í Svíþjóð árið 1964 fyrir Hraðfrystihús Þórkötlustaða hf í Grindavík. Eik. 168 brl. 600 ha. Deutz vél. Ný vél (1970) 700 ha. Cummins vél. Selt 6 júlí 1977, Gunnlaugi Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét Gandi VE 171. Selt 23 janúar 1985, Langanesi hf á Húsavík, hét þá Björg Jónsdóttir ÞH 321. Selt 12 febrúar 1988, Haraldi hf á Dalvík, hét Hafsteinn EA 262. Selt 28 maí 1990, Siglfirðingi hf á Siglufirði, hét Hafsteinn SI 151. Selt 17 maí 1991, Söltunarfélagi Dalvíkur hf, hét þá Valeska EA 417. Selt til Noregs og tekið af skrá 11 ágúst árið 1992.

Skipið virðist hafa verið illa hirt síðustu árin hér á landi, samanber mynd hér að neðan. Sennilega hefur Valeska EA 417 legið við bryggju í einhvern tíma áður en það var úrelt og selt úr landi haustið 1992.
Einnig er mynd hér að neðan af skipinu tekin í Noregi fyrir nokkrum árum. Ekkert eftir nema skrokkur skipsins sem trúlega hefur beðið nokkuð síns vitjunartíma.


263. Þorbjörn ll GK 541.                                                                        (C) Hafsteinn Jóhannsson.


263. Þorbjörn ll GK 541 að koma til hafnar í Grindavík 19 ágúst 1971.        (C) Henning Henningsen.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Klukkan tæplega eitt í nótt kom nýr bátur til Grindavíkur, Þorbjörn II. GK-541 eigandi hlutafélagið Þorbjörn, Grindavík. Þetta er eikarbátur smíðaður í Djúpavík í Svíþjóð. Hann er 169 lestir með Deutz 585 hestafla vél og tvær ljósavélar, önnur 95 hestafla með 30 kw rafmagn, en hin aðeins 5 hestöfl með 30 kw. Í reynsluferð gekk báturinn 12 mílur og meðalhraði bátsins á leiðinni heim var 10 og hálf míla. Sími er um allt skipið, og það er gert fyrir 12 manna áhöfn og Viktor Jakobsson skipstjóri sigldi skipinu heim. Skipstjóri á fiskveiðum verður Þórarinn Ólafsson.
Forstjóri Þorbjörns er Jón Daníelsson.

Tíminn. 1 maí 1964.


263. Björg Jónsdóttir ÞH 321 að landa síld á Húsavík.                            (C) Þorgrímur Aðalgeirsson.


263. Valeska EA 417 í Reykjavíkurhöfn. 1345. Freri RE 73 í baksýn.    Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Svona leit skipið út fyrir nokkrum árum. Ég veit ekki hvað um það varð.            (C) Stefán Helgason.

 Tveir nýir línubátar væntanlegir til Rifs í ár

    fjórir bátar í úreldingu í stað þeirra

Kristján Guðmundsson hf á Rifi hefur gengið frá samningum um smíði tveggja báta í Noregi. Bátarnir eru eins, búnir sjálfvirkum útbúnaði til línuveiða og veiða í net og verður frystibúnaður um borð í þeim báðum. Á móti verða bátarnir, Tjaldur og Kópanes, Brynjólfur og Valeska úreltir. Nýju bátarnir verða afhentir að áliðnum ágúst á næsta ári og um næstu áramót. Kristján Guðmundsson hefur gert út bátana Tjaldur og Kópanes um langt skeið. Tjaldur var smíðaður á Ísafirði 1971 og hefur síðan bæði verið yfirbyggður og lengdur. Hann er 138 tonn að stærð. Kópanes var smíðað á Akureyri 1973 og hefur síðan verið lengt og yfirbyggt. Það er 167 tonn að stærð. Þá hafa bátarnir Brynjólfur og Valeska sérstaklega verið keyptir til úreldingar.
Nýju bátarnir verða 42,90 metrar á lengd og 9 metra breiðir. Fiskilestir verða 415 rúmmetrar. Skipin eru hönnuð í samvinnu við kaupendur og byggð af Solstrand skipasmíðastöðinni í Noregi. Þau verða búin Mustad-sjálfvirknibúnaði til línuveiða og um borð verða tveir lóðréttir plötufrystar. Frystigeta verður 20 til 24 tonn á sólarhring, en aflann verður einnig hægt að lausfrysta eða salta um borð. Aðalvélar verða 1.000 hestafla Caterpillar og gírinn Volda. Þá eru bæði skipin með eina Brunvoll 150 hestafla bógskrúfu. Að öðru leyti eru þau búin hefðbundnum siglinga- og fiskileitartækjum og búnaði til veiða í net. Kristján Guðmundsson segir í samtali við Verið, að það sé kominn tími til að endurnýja gömlu bátana. Þeir séu báðir um tvítugt og því ekki seinna vænna að grípa til endurnýjunar meðan einhver verðmæti felist í þeim.

Morgunblaðið. 8 janúar 1992.


19.02.2020 08:03

V. b. Heimir VE 9. TFYK.

Vélbáturinn Heimir VE 9 var smíðaður í Fanö í Danmörku árið 1931. Eik. 47 brl. 120 ha. Deutz vél (1939). Það var Árni Böðvarsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum sem keypti bátinn frá Belgíu árið 1939. Þá var hann nýuppgerður og lengdur. Hét áður Rita. Árni flutti til Reykjavíkur í apríl 1946 með bátinn, hét hann þá Heimir GK 386. Ný vél (1947) 200 ha. Lister vél. Seldur 29 október 1952, Kjartani Steingrímssyni í Keflavík, hét Kristín KE 40. Ný vél (1954) 240 ha. GM vél. Seldur 2 janúar 1957, Hraðfrystistöðinni hf í Reykjavík, hét þá Kristín RE 45. Talinn ónýtur og tekinn af skrá í ágúst árið 1964. Báturinn var síðan brenndur stuttu síðar.


Heimir VE 9.                                                                                                            (C) Heimaslóð.is


Kristín RE 45.                                                             (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

               V.b.  Heimir VE 9

Nýr bátur, 55 smálestir að stærð eign Árna Böðvarssonar, kom til Vestmannaeyja á miðvikudag frá Belgíu, en þar var hann keyptur. Báturinn er 7 ára gamall, smíðaður í Danmörku, en nýuppgerður og lengdur. Báturinn er úr eik, mjög sterkur, með 120 til 150 hestafla Deutz-Diesel-vél. Hann var um fjóra sólarhringa frá Aberdeen til Vestmannaeyja og reyndist að sögn skipstjórans, Jóns Sigurðssonar frá Reykjavik, ágætt sjóskip. Verð er um 60 þúsund krónur. Báturinn verður gerður út frá Vestmannaeyjum með net. Skipstjóri verður Karl Sigurðsson.

Alþýðublaðið. 18 mars 1939.


13.02.2020 17:23

469. Guðbjartur Kristján ÍS 268. TFSI.

Vélskipið Guðbjartur Kristján ÍS 268 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1961 fyrir Eyr hf á Ísafirði. Eik. 86 brl. 310 ha. Alpha vél. Hét Dan ÍS 268 frá árinu 1964, sömu eigendur. Seldur 20 ágúst 1969, Borgey hf á Höfn í Hornafirði, hét Hvanney SF 51. Ný vél (1971) 500 ha. Alpha vél. Frá 25 apríl 1975 hét báturinn Lyngey SF 61, sömu eigendur og áður. Seldur 11 maí 1978, Sverri Guðnasyni á Höfn í Hornafirði, hét þá Andri SF 50. Seldur 19 nóvember 1979, Ólafi Svani Gestssyni og Jóni Inga Pálssyni á Höfn í Hornafirði, hét þá Hafnarey SF 36. Seldur 24 maí 1983, Jóni Hafdal Héðinssyni, Gísla Páli Björnssyni og Elínu Kristjönu Þorvaldsdóttur á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer. Skipið sökk eftir að skuttogarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 bakkaði á það við bryggju á Höfn 13 janúar árið 1986. Hafnarey SF var talin ónýt eftir þetta.

Hafnarey SF 36 náðist upp seinna og var síðan seld í maí, sama ár til Keflavíkur. Það er af togaranum Þórhalli Daníelssyni SF 71 að segja að hann sökk þarna í höfninni líka og urðu gífurlegar skemmdir á togaranum og tók nokkurn tíma að gera við þær.


469. Guðbjartur Kristján ÍS 268 á landleið með fullfermi af síld.                    Ljósmyndari óþekktur.

                   Nýtt fiskiskip

Fimmtudaginn 3. þ.m. kom til bæjarins nýtt fiskiskip er hlotið hefur nafnið Guðbjartur Kristján, ÍS 268. Þessi bátur er byggður í Frederikssund í Danmörku. Hann er 86 smálestir, með 310 ha. Alfavél, og er búinn öllum nýjustu siglinga- og öryggistækjum. Í honum eru og fiskileitartæki af fullkomnustu gerð. Eigandi skipsins er Eir h.f. á Ísafirði. Skipstjóri verður Hörður Guðbjartsson. Framkvæmdasjóri félagsins er Baldur Jónsson.

Ísfirðingur. 9 ágúst 1961.

      Milljóna tjón á Höfn í Hornafirði

              Togarann rak á land og                                   80 lesta bátur sökk 

Milljóna tjón varð á Höfn í Hornafirði í gær, er togarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 slitnaði frá bryggju. Togarann rak á 80 lesta trébát, sem sökk og lagðist togarinu síðan á hliðina á leirflákum við Óslandið og hálffylltist af sjó. Trébáturinn, Hafnarey SF 36 er talinn ónýtur og togarinn talsvert skemmdur. Tryggingamat Hafnareyjar er 16 til 17 milljónir króna. Engin slys urðu á mönnum.
Óhapp þetta átti sér stað síðdegis er verið var að færa togaranna að bryggjunni við frystihúsið til að taka ís. Mjög hvasst var af norðaustri, allt að 12 vindstig. Er togarinn var kominn að bryggjunni og tógum komið í land, kom mikil hviða og sleit hann lausan. Vélin var tengd bakkgír og við þetta lenti skipið þvert yfir höfnina á nokkurri ferð án þess að tækist að aftengja vélina og á Hafnareyna miðja, þar sem hún lá við viðlegukant við Óslandið beint á móti frystihúsinu. Hafnarey brotnaði illa og sökk á örskömmum tíma. Þórhall Daníelsson rak síðan undan vindinum upp á leirflákana þar sem hann lagðist á hliðina. Nokkrir skipverja voru um borð, en engan þeirra sakaði og komust þeir klakklaust á þurrt. Vegna veðurs reyndist ekki unnt að kanna skemmdir á skipunum fyllilega og ókleift að hefja björgun þeirra.
Hermann Hansson, stjórnarformaður Borgeyjar, sem gerir togarann út, sagði í samtali við Morgunblaðið, að óhapp þetta væri mjög tilfinnanlegt því togarinn væri mjög mikilvægur hráefnisöflun á staðnum. Hann sagði skemmdir óljósar og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um atburðinn. Jón Hafdal, eigandi Hafnareyjar, sagði skipið hafa sokkið á mjög skömmum tíma, enda virtist hafa komið stórt gat á það. Það væri nú nánast alveg í kafi og engin leið að kanna skemmdir. Sér virtist þó ólíklegt að skipið færi á sjó að nýju. Hann sagði Hafnareyna tryggða fyrir 16 til 17 milljónir króna og tjónið því mjög tilfinnanlegt. Hann hefði keypt skipið fyrir tveimur árum og meðal annars hefði verið nýbúið að endurnýja siglinga- og stjórntæki í brúnni. Áhöfnin hefði um þessar mundir verið að búa skipið á vertíð og ætlunin hefði verið að byrja um mánaðamótin. Hvað framundan væri, sagði hann alveg óljóst, en taldi erfitt að fá annað skip í staðinn.
Þórhallur Daníelsson er skuttogari smíðaður í Noregi 1975, 299 lestir að stærð. Hann hét áður Erlingur. Hafnarey er trébátur, 81 lest að stærð og byggð í Danmörku 1961. Hún hét áður Andri.

Morgunblaðið. 14 janúar 1986.


469. Hafnarey SF 36 og togarinn Þórhallur Daníelsson SF 71 sokkin í höfninni í Höfn í Hornafirði 14 janúar árið 1986. (C) Morgunblaðið.


1449. Þórhallur Daníelsson SF 71. Smíðaður í Noregi árið 1975, hét fyrst Erlingur GK 6 og var í eigu útgerðarfélagsins Fjörður í Garði. 299 brl. 1.800 ha. Wichmann vél, 1.324 Kw. Togarinn var seldur 14 ágúst 1992, Snorra Snorrasyni útgerðarmanni á Dalvík, hét þá Baldur EA 71. Selt til Nýja-Sjálands 19 nóvember 1993, hét þar Baldur og var notað sem gripaflutningaskip.   (C) Þór Jónsson.

          Sjónarvottar um sjóslysið í                                Hornafjarðarhöfn:

   "Rosalegt högg, feiknarlegt brak og brestir"
  þegar togarinn sigldi á Hafnarey við bryggju
         og sökkti henni á fáum mínútum

Jón Hafdal, skipstjóri og annar eigandi Hafnareyjar SF 36, naut þess út í æsar að liggja í heitu baði heima hjá sér á Höfn upp úr klukkan fimm á mánudaginn "með bara hausinn upp úr", eins og hann orðaði það, þegar síminn hringdi: Hafnareyin var sokkin í höfninni. Um tíu mínútum síðar var Jón kominn niður að viðlegukantinum, þar sem hann hafði skilið við bátinn í austan rokinu fyrr um daginn, "og þá var hún eins og ég í baðinu, bara hausinn upp úr," sagði Jón. Nokkrum metrum vestar lá togarinn Þórhallur Daníelsson SF á hliðinni með stefnið á kafi í sjó og skutinn upp í Óslandsfjöruna. "Þetta var rosaleg tilfinning," sagði Jón þegar hann og meðeigandi hans, Gísli Páli Björnsson vélstjóri, ræddu við blaðamann Morgunblaðsins á bryggjukantinum í gærmorgun. 
"Ég vaknaði aftur í nótt og hélt þá að þetta væri einhver vitleysa. Þetta gæti bara ekki verið. Maður átti frekar von á dauða sínum en að báturinn sykki hér í höfhinni." "Það er erfitt að skilja að þetta geti gerst hér," bættí Gísli við. "Hér í höfninni gárar eiginlega aldrei sjó. Þetta hefur verið röð af óhöppum, hvert öðru afleitara." Þeir félagar keyptu Hafnareyna í maí 1983 og hafa síðan unnið hörðum höndum ásamt fjölskyldum sínum að því að borga hana niður. "Konurnar og börnin hafa tekið fullan þátt í því með okkur að komast yfir bátinn," sögðu þeir, "og þetta hefur gengið alveg þokkalega með mikilli vinnu. Okkur hefur tekist að standa í skilum, en við höfum ekki farið í sumarfrí síðan við keyptum bátinn. Nú var hins vegar farin að sjást glæta og við vorum farnir að sjá fram á, að kannski kæmumst við í frí á þessu ári. En þá fer þetta svona." Tjón þeirra Jóns og Gísla og fjölskyldna þeirra er fyrirsjáanlega mikið. Báturinn er líklega ónýtur, en á fjörunni síðdegis í gær var farið að losa tæki úr brúnni, flest nýleg. "Þetta var góður bátur," sögðu eigendurnir dauflega. "Það er hæpið að við fáum betra sjóskip en Hafnareyna, það er búið að fiska vel á þennan bát."
Um það leyti sem Jón skipstjóri Hafdal lagðist í heitt baðið heima hjá sér var verið að búa Þórhall Daníelsson SF 71 undir veiðiferð, sem átti að hefjast klukkan tíu í gærmorgun. Um borð voru, auk Jóhannesar Sigurðssonar skipstjóra og vélstjóra togarans, verkstjóri úr Hraðfrystihúsi KASK á Höfn (þar sem fiskiskipafloti þorpsins leggur upp sinn fisk) og sex ungir starfsmenn hans, 17-20 ára. Veður var hið versta, tólf vindstig af austri og vafalaust meira í hviðunum. "Það átti að færa togarann fyrir bryggjuhornið til að taka ís þegar við tókum eftir að hann var farinn að halla," sögðu fimm piltanna, sem Morgunblaðsmenn hittu á Höfn í gær. "Við héldum að þetta væri bara vegna veðursins og að hann myndi rétta sig við aftur en þá vantaði eina slorlúguna á millidekkinu og þar flæddi sjórinn inn." Fimmenningarnir sögðu að þrátt fyrir ítrekaðar tílraunir tíl að halda skipinu við bryggju hefði allt komið fyrir ekki og á endanum hefði skipið fests í bakkgírnum og siglt á fullri ferð aftur á bak yfir höfnina. Tveir þeirra voru þá frammi á hvalbaknum en hinir aftast í skipinu ásamt verkstjóranum og vélstjóranum. Þeir tveir á hvalbaknum komu sér í skjól þegar togarinn lét ekki að stjórn til að verða ekki fyrir sverum fastsetningarendunum þegar þeir slitnuðu "með ægilegum smellum", eins og þeir orðuðu það.
Um borð í Sigurði Ólafssyni SF 44, sem lá við viðlegukant hinum megin í höfninni, voru tveir menn að vinna. Annar þeirra var Bjarnar Karlsson stýrimaður. "Við ákváðum að fara upp örstutta stund til að kíkja á rokið og bátana," sagði Bjarnar þegar Morgunblaðsmenn hittu hann um borð. "Það er ekki oft sem maður sér rjúka svona hér í höfninni. Þegar við komum upp sáum við hvernig Þórhallur hallaðist við bryggjuna þegar þeir voru að færa hann fyrir hornið.
Eftir örstutta stund var greinilegt að þeir réðu ekkert við hann og þá kom hann með afturendann þvert yfir höfnina. Þegar hann var kominn á að giska hálfa leið sáum við að við myndum sleppa sjálfir en þá sagði ég: "Nú sekkur hann Hafnareynni." Og það stóð heima: hann kom með skutinn á miðja síðuna á bátnum hérna við nefið á okkur. Það varð af þessu talsverður hvellur og greinilegt að báturinn brotnaði mikið. Ætlann sé ekki ónýtur bara? Það hefði verið óskemmtilegt að fá hann hérna á hann Sigurð og við niðri án þess að vita nokkurn hlut." Það fór óhugur um nokkra ungu piltanna um borð í Þórhalli þegar þeir sáu að skipið stefndi öfugt á Hafnareyna. "Þá urðum við hræddir," sagði einn þeirra, Ragnar Geirsson" sem ákvað að stökkva yfir í Hafnareyna og upp á bryggjuna ásamt Valgeiri bróður sínum um leið og færi gæfist. "Höggið var rosalegt," sögðu þeir, "feiknarlegt brak og brestir, og timbrið flísaðist í allar áttir. Vélstjórinn datt við áreksturinn en meiddist ekkert og stóð strax á fætur aftur." Togarinn var nú farinn að halla um allt að 45 gráður. Eftir áreksturinn fikruðu félagarnir af hvalbaknum sig eftir handriðinu stjórnborðsmegin aftur til félaga sinna. "Þegar togarinn stefndi upp í fjöruna vissum við ekki hvað myndi gerast," sagði einn þeirra, Óskar Þórólfsson. "Ég ákvað að stökkva í sjóinn og koma mér í land. Ég hef lent í svona tveggja metra djúpum sjó og gat vaðið í land. Kalt? Nei, ég varð ekki var við kulda. Ég var um annað að hugsa - og hef sennilega verið skíthræddur!" Næstur var félagi hans Gunnar Ingi Valgeirsson, sem hikaði á borðstokknum stutta stund, en lét sig svo falla og sökk á bólakaf. "Það var hrikaleg tilfinning," sagði hann, "því ég reiknaði með að lenda á botni. Ég tók andköf þegar ég kom upp og barði frá mér en gat lítið synt, því ég var í galla og klofstígvélum. Ragnar kom svo á móti mér og dró mig í land." Enn voru fimm menn um borð í Þórhalli Daníelssyni, allir hinir rólegustu. Þegar togarinn hafði lagst á hliðina og sat fastur í leirfjörunni fikruðu þeir sig aðeins áfram eftir skipinu, settu út lítinn bát og reru örfáa metra í land. Enginn þeirra blotnaði.

Morgunblaðið. 15 janúar 1986.


Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2034893
Samtals gestir: 520639
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 00:15:10