29.10.2018 12:37

414. Fjalar VE 333. TFPE.

Vélbáturinn Fjalar VE 333 var smíðaður hjá Holms Skeppsvarv í Raa í Svíþjóð árið 1955 fyrir Helga Benediktsson kaupmann og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 49 brl. 180 ha. June Munktell vél. Seldur 14 desember 1965, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf, hét Fjalar ÁR 22. Ný vél (1970) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 13 desember 1972, Sveinbirni Sveinssyni og Sigurði Hreiðarssyni í Stykkishólmi og Jónatan Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Sigurður Sveinsson SH 36. Seldur 11 desember 1973, Jónatan Jóhannessyni í Reykjavík og Garðari Jóhannessyni og Eðvarð Vilmundarsyni í Keflavík, hét Græðir KE 141. Seldur 22 júlí 1977, Jóni Gesti Sveinbjörnssyni og Ómari Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét Þröstur SH 130. 14 september 1977 voru Ómar Sigurðsson í Stykkishólmi og Örn Snorrason á Blönduósi skráðir eigendur, hét þá Þröstur HU 130. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 20 september árið 1979.


414. Fjalar VE 333 í prufusiglingu.                                                  (C) Holms Skeppsvarv í Raa.


414. Fjalar VE 333 sjósettur haustið 1954.                                 (C) Holms Skeppsvarv í Raa.

             V.b. Fjalar VE 333

Fjalar, annar þeirra fiskibáta, sem Helgi Benediktsson hefur látið byggja í Svíþjóð kom til Vestmannaeyja 22. febrúar s. l. eftir viðkomu í Færeyjum vegna leiðréttingar á áttavita. Fjalar er að öllu af sömu gerð og Frosti, sem kom fyrir áramótin. Báturinn er byggður í Raa með 180 hk. June Munktell aðalvél, sem búin er olíudrifinni gangskrúfuskiptingu, auk ljósavélar. Í bátnum er olíudrifin línu og netavinda, M. P. Petersen talstöð og miðunarstöð, dýptarmælir ásamt öllum þeim fullkomnustu og beztu tækjum sem notuð eru í fiskibátum. Gísli J. Johnsen, stórkaupmaður í Reykjavík, hafði milli göngu um samning um byggingu bátsins, en báturinn er byggður samkvæmt smíðalýsingu og miðbandsuppdrætti er Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari í Vestmannaeyjum gerði, og mun vera bezt gerða og nákvæmasta smíðalýsing, sem samin hefir verið af íslenzkum manni. Yfirbygging bátsins er úr létt málmi og íbúðir skipverja mjög vistlegar og vel frágengnar. Umsjón með byggingu bátsins annaðist Stefán Helgason, er nú er nýkominn heim eftir dvöl í Svíþjóð frá því í októbermánuði, en eftirlitsmaður af hálfu Skipaskoðunar ríkisins var Hans Hansson, skipstjóri í Gautaborg. Skipstjóri á heimsiglingunni var Sævaldur Runólfsson, sem verður skipstjóri á bátnum í vetur, en Bogi Sigurðsson stýrimaður. Vélstjórar voru Ingólfur Kristjánsson og Rafn Sigurbergsson.  Fjalar kom fullbúinn til fiskiveiða.

Framsókn. 4 tbl. 4 mars 1955.


28.10.2018 09:40

476. Guðjón Einarsson GK 161. TFZU.

Vélbáturinn Guðjón Einarsson GK 161 var smíðaður í Nyborg í Danmörku árið 1948. Eik. 42 brl. 150 ha. Grenaa díesel vél (1955). Eigendur voru Sigurgeir Guðjónsson og Guðjón Sigurgeirsson í Grindavík frá desember 1955. Hét áður Actinia. Ný vél (1963) 240 ha.Kelvin díesel vél. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 26 apríl árið 1966. Var síðan brenndur stuttu síðar.


476. Guðjón Einarsson GK 161.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Nýlega bættist nýr bátur í flota Grindvíkinga. Er það sex ára eikarbátur með nýrri vél, sem keyptur er þangað frá Danmörku. Báturinn er 48 lestir að stærð og hefir hlotið nafnið Guðjón Einarsson. Þessi bátur, sem gerður verður út frá Grindavík er búinn ágætum siglingatækjum og þægindum við skipstjórn t.d. er talsími úr stýrishúsi fram í bústað áhafnar.

Tíminn. 16 desember 1955.


25.10.2018 09:54

839. Sæljón RE 317. TFLI.

Vélbáturinn Sæljón RE 317 var smíðaður hjá Esbjerg Skibsværft A/S í Esbjerg í Danmörku árið 1955 fyrir Gunnar Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. 62 brl. 265 ha. GM díesel vél. Ný vél (1960) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 25 október 1961, feðgunum Kolbeini Guðmundssyni og Engilbert Kolbeinssyni á Auðnum í Gullbringusýslu, hét þá Sæljón GK 103. Seldur 14 janúar 1966, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sama nafn og númer. Seldur 6 desember 1968, Friðþjófi hf á Eskifirði, hét Sæljón SU 103. Ný vél (1971) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 23 ágúst 1972, Sæveri hf í Stykkishólmi, hét þá Sæljón SH 103. Báturinn var dæmdur ónýtur árið 1979, en var endurbyggður sama ár. Seldur 5 nóvember 1979, Sæljóni hf á Akureyri, hét Sæljón EA 55. Seldur 10 júlí 1981, Rán hf á Dalvík, sama nafn og númer. Báturinn sökk á Skagafjarðardýpi þegar hann var á rækjuveiðum um 25 sjómílur norður af Siglunesi eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 3 menn, björguðust um borð í Vélskipið Bjarma EA 13 frá Dalvík.


839. Sæljón RE 317 í slipp í Reykjavík.                                               Ljósmyndari óþekktur.

        Myndarlegur vélbátur bætist                          Reykvíska bátaflotanum

Nýlega bættist reykvíska vélbátaflotanum nýr og glæsilegur farkostur, v.b. Sæljón, RE 317. Þetta er nýsmíðaður eikarbátur, byggður við Esbjerg Skibsværft í Danmörku, myndarlegt skip, rúmar 60 lestir að stærð. Eigandi hans og skipstjóri er Gunnar Guðmundsson, útgerðarmaður, Miðtúni 3 hér í bæ. Fréttamaður Vísis átti tal við Gunnar og Magnús Ó. Ólafsson stórkaupmann, sem útvegaði bátinn, og fékk að skoða þenna prýðilega farkost, en hann var á förum norður til síldveiða. Skipið er með alúminíumstýrishúsi, en vélarreisn úr stáli. 200-240 hestafla GM diesel-vél knýr skipið, sem allt er búið hinum nýtízkustu tækjum, svo sem Simrad-dýptarmæli með "útfærzlu", eins og það er nefnt, móttöku- og senditækjum frá hinu kunna danska fyrirtæki, M. P. Pedersen, svo og talstöð. Þá er vélinni að sjálfsögðu stjórnað að öllu leyti frá stýrishúsi. Það er alger nýjung í skipi þessu, að íbúðir eru klæddar plasti, en það gerir m. a. það að verkum, að auðvelt er að halda veggjum og klæðningu í svefnklefum hreinum. Frammi í skipinu eru hvílur fyrir 8 manns, fullkomin olíukynt eldavél af Scandia-gerð, og öllu mjög haganlega fyrir komið. Áhöfnin er alls 10 manns, þar af ein stúlka, sem mun matreiða handa skipsfélögum sínum, Lilja Árnadóttir frá Grindavík. Lilja Árnadóttir er enginn nýliði á sjónum, en fréttamaður Vísis gat skipzt á nokkrum orðum við hana. Hún var áður á v.b. "Gunnari" frá Hólmavík. Henni lízt ljómandi vel á skipið og plastið á veggjunum, sem hún telur til mikilla bóta.  Eruð þér sjóveik? spyr fréttamaðurinn. "Svolítið, til að byrja með," svarar hún, "en það lagast fljótlega, og þegar maður er ekki sjóveikur, er gaman að vera til sjós." Lengra varð samtalið ekki, því að hún var að sinna skyldustörfum sínum, og báturinn senn á förum.

Vísir. 24 júní 1955.


839. Sæljón EA 55.                                                                                                (C) Morgunblaðið.

      Þrír menn björguðust þegar                      Sæljón EA 55 sökk

Þrír menn björguðust í gær er Sæljón EA 55, 61 tonns eikarbátur í eigu útgerðarfélagsins Ránar hf. á Dalvík, sökk um 25 sjómílur norður af Siglunesi. Leki kom að bátnum um kl. 13.30 og var hann sokkinn kl. 18.20 í gærkvöld. Skipverjunum þremur var bjargað um borð í Bjarma frá Dalvík, en báðir bátarnir voru á rækjutrolli á Skagafjarðardýpi. Bjarmi EA kom til Dalvíkur um kl. 23 í gærkvöldi.
Arngrímur Jónsson skipstjóri á Bjarma sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld hafa verið staddur um 20 sjómílur norður af Siglunesi þegar kall hefði borist frá Sæljóni um kl. 14.00 í gær, en þá var Sæljónið statt um sex mílur norðan við Bjarma. "Skipstjórinn var fyrst og fremst að fá upp hvar ég væri nákvæmlega og lét hann mig þá jafnframt vita um ástandið um borð. Þá var kominn leki í vélarrúmi og lensurnar virkuðu ekki. Við töluðum um að hafa samband reglulega. Hann dreif sig í að hífa trollið og var búinn að því hálftíma seinna. Þá sagðist hann ætla að leggja af stað í áttina til mín og spurðist fyrir um hvort í grenndinni væru bátar eða skip með dælu enda skilst mér að útlitið hafi þá verið farið að versna töluvert.
Ekki voru þó nein skip nálæg með dælur. Um fjögurleytið kallaði hann aftur og bað mig um að koma á móti sér. Þá átti hann eftir um tvær mílur í mig. Ég hífði trollið strax og fór á móti honum. Þá var vélin farin að hiksta og mikill sjór kominn í vélarrúmið. Ég var kominn upp að honum um kl 16.30. Sex vindstig voru um þetta leyti og var heldur að bæta í'ann á meðan við vorum að koma vír á milli og þegar farið var að ná mönnunum um borð til okkar. Ég fór upp að hliðinni á Sæljóninu og bakkaði uppað svo þeir gætu stokkið um borð. Fyrst henti ég tógi um borð sem þeir hnýttu í vírinn hjá sér til að tengja á milli bátanna. Ég ætlaði að reyna að draga Sæljónið að landi svo bjarga mætti einhverju, því það var þarna á réttum kili. Þegar mennirnir voru komnir um borð og ég byrjaði að taka á, slitnaði virinn strax á milli. Ég snéri aftur upp að bátnum og sendi tvo menn með vír yfir. Þeir rétt náðu að stökkva aftur um borð í Bjarma þegar Sæljónið fór á hliðina og sökk skömmu síðar. Þá urðum við að klippa á vírinn," sagði Arngrímur að Iokum.
Þórir Ólafsson skipstjóri á Sæljóninu sagðist hafa uppgötvað leka um kl. 13.30 í gær. "Hann ágerðist stöðugt og dælurnar höfðu ekki undan. Auðvitað má segja að við höfum verið í hættu þarna. Það mátti ekki mikið út af bera. Til dæmis hoppuðum við einfaldlega á milli bátana á öldunni úr því að tíminn var orðinn naumur," sagði Þórir. Auk Þóris voru um borð í Sæljóninu þeir Gunnar Þórarinsson vélstjóri og Viðar Þórisson kokkur. Stefán Rögnvaldsson EA frá Dalvík var einnig í nágrenninu og kom hann að í þann mund er Sæljónið var að sökkva.
Rán hf. útgerðarfélag bátsins, gerir einnig út Sænes EA 75, 110 tonna stálskip. Búast má við að sjópróf fari fram í dag.

Morgunblaðið. 6 október 1988.21.10.2018 09:14

Skógafoss GK 280.

Vélbáturinn Skógafoss GK 280 var smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1929 fyrir Valdimar Kristmundsson útgerðarmann í Keflavík. Fura. 20 brl. 45 ha. Rapp vél. Ný vél (1933) 65 ha. June Munktell vél. Seldur 6 janúar 1937, Gunnari Guðjónssyni og Gísla Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Víðir VE 326. Báturinn fórst í róðri með allri áhöfn, 5 mönnum 6 febrúar árið 1938. Stuttu síðar fannst brak úr honum rekið á Álfhólsfjöru í Vestur Landeyjum.

 
Skógafoss GK 280 í bóli sínu í Keflavík.                                                   (C) Gestur Oddleifsson.

          Nýr bátur til Keflavíkur

"Skógafoss" heitir 20 smálesta vélbátur, nýkominn frá Noregi, er liggur hér við Steinbryggjuna. Báturinn er nýr og smíðaður fyrir Valdimar Kristmundsson formann og útgerðarmann í Keflavík. Umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar og vélarinnar, O. Ellingsen, bauð blaðamönnum og ýmsum fleirum að skoða bátinn í gær. Var farið á bátnum út fyrir Engey, svo að gestunum gæfist kostur á að sjá ganghraða hans. Báturinn er smíðaður í Rosendal í Noregi. Viðir bátsins eru að mestu leyti úr furu. Stærð hans er eins og áöur er sagt rúmlega 20 smálestir. Vélin hefir 45 hestöfl og heitir "Rap". En af þeirri vélategund er mikið notað í norska fiskibáta. Mannaíbúð er aðeins í framstafni og er þar vistleg íbúð fyrir 6,menn. Vélin knýr bátinn 8 1/2 mílu á vöku í sæmilegu veðri. Báturinn verður raflýstur hér. Hingað kominn mun hann kosta um 30 þúsundir ísl. kr., og er það mun ódýrara en hægt mun að smíða báta fyrir hér líkrar stærðar. Báturinn var 4 sólarhringa og 6 klst. frá Björgvin til Keflavíkur, er það óvenjulega fljót ferð á smáskipi að vetrarlagi þessa leið. Skipstjórinn var Kristján Kristjánsson, sá er stýrði "Gottu" í sumar í Grænlandsleiðangrinum.

Alþýðublaðið. 9 desember 1929.

                      Átakanlegt slys 

   M.b. Víðir VE 326 ferst með allri áhöfn                            fimm mönnum.

Þann 6. þ. m. var hér hægviðri snemma morguns og reru allmargir bátar. Í birtingu tók að hvessa á suðaustan, og um hádegi var komið hvassviðri. Eftir kl, tvö fór aftur að hægja og vindur að ganga suðlægari. Meðan vindurinn var mestur var mikil snjóhríð, er síðar um daginn breyttist í rigningu. Þegar leið á daginn fóru bátar smátt og smátt að koma heim og allir komu þeir heim um kvöldið nema m.b. Víðir VE 326. Um kvöldið fór varðskipið Þór að leita hans. Einnig leitaði m.b. Ver nokkuð um kvöldið. M.b. Víðir hafði lagt línu sína um 25 sjóm. NV. frá Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir leit nokkurra skipa í fullan sólarhring sást ekki til bátsins. Fóru menn þá að verða vonlausir um heimkomu hans, þó að öllum sjómönnum kæmi saman um það, að eitthver óvænt óhapp, annað en stormurinn, hefði grandað bátnum. Báturinn var vel sterkur, vel útbúinn, 20 tonn að stærð og vel mönnum skipaður.
Skipstjóri var Gunnar Guðjónsson 32 ára,
Gísli Guðjónsson 1. vélstjóri 23 ára, bræður frá Kirkjubæ hér,
Ólafur Markússon frá Fagurhól hér, 2. vélstjóri um tvítugt
og tveir Eyrbekkingar Árni Bjarnason og Halldór Þorleifsson.
Allir vaskleikamenn. Nú má telja víst að bátur þessi hafi farist með allri áhöfn, enda hefir heyrst um rekald úr honum á Landeyjasandi. Það er alltaf hörmulegt að ungir menn og frískir hverfi í fullu fjöri, og í þessu tilfelli er ekki síst sorglegt til þess að vita, að móðir bræðranna, Gunnars og Gísla, Halla Guðmundsdóttir, hafði áður mist tvo syni sína í sjóinn, á unga aldri, hér við Eyjar. Eftir að þetta var skrifað, hefir bátinn rekið upp á Landeyjasand, brotinn til ónýtis. Hvers vegna báturinn hefir lent þarna í brotsjóum skamt frá landi verður aldrei vitað með vissu, en sennilega hefir kompáskekkja eða vélarstopp valdið þessu hörmulega slysi.

Víðir. 10 tbl. 19 febrúar 1938. 


20.10.2018 08:09

620. Hjálmar NK 3 TFWY.

Vélbáturinn Hjálmar NK 3 var smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1960 fyrir Harald Hjálmarsson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik. 82 brl. 525 ha. MWM díesel vél. Seldur 1 júní 1962, Jónasi Jónassyni á Miðnesi og Sigurði Bjarnasyni í Sandgerði, hét þá Jón Oddsson GK 14. Mikill eldur kom upp í bátnum þegar hann var á humarveiðum um 10 sjómílur vestur af Eldey 24 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 7 menn, fóru um borð í Útey KE en vélbáturinn Helga Björg HU 7 tók Jón í tog og dró hann inn til Keflavíkur þar sem eldurinn var slökktur. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekin af skrá árið 1972.


Vélbáturinn Hjálmar NK 3 í reynslusiglingu á Ísafirði í júlí 1960.        (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

      Nýr bátur til Neskaupstaðar

Neskaupstað 7. Júlí. Kl. 11 í dag kom hingað vélbáturinn Hjálmar NK 3, eign Haraldar Hjálmarssonar, útgerðarmanns í Neskaupstað. Er þetta nýr bátur, smíðaður í skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf. á Ísafirði og kom hann nú í fyrsta skipti til heimahafnar. Báturinn fór frá Ísafirði um síðustu helgi til Reykjavíkur og tók síðan veiðarfæri í Vestmannaeyjum. Vélbáturinn Hjálmar er 82 lestir að stærð, með 525 ha Mannheimvél. Hann er búinn öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum. Þykir smíði hans öll hin vandaðasta. Báturinn fer á síldveiðar á morgun. Skipstjóri er Þórlindur Magnússon frá Eskifirði, og 1. vélstjóri Jón Árni Sigurðsson frá Seyðisfirði.

Morgunblaðið. 9 júlí 1960.


Hjálmar NK 3 við bryggju síldarsöltunarstöðvarinnar Drífu í Neskaupstað.  (C) Þórarinn Ölversson.


Helga Björg HU 7 með Jón Oddsson GK 14 alelda í togi.           (C) Morgunblaðið / Gunnar Steinn.

                   Eldur í báti

Eldur kom upp í vélarrúmi Jóns Oddssonar GK 14 frá Keflavík, þegar báturinn var að humarveiðum um 10 mílur vestur af Eldey um hádegisbilið í gær. Skipverjum tókst ekki að ráða niðurlögum eldsins og var þá vélarrúminu lokað, en vélbáturinn Helga Björg dró Jón til Keflavíkur. Þangað komu bátarnir um sjöleytið í gærkvöldi. Slökkvilið beið á bryggjunni og tók um klukkustund að slökkva eldinn í bátnum. Miklar skemmdir urðu í vélarrúminu. Þegar fréttist af eldinum um borð í Jóni fór Snarfari RE frá Sandgerði með slökkvidælu og menn, en þegar aðstæður höfðu verið kannaðar, þótti ekki rétt að freista slökkvistarfs á sjó úti. Áhöfnin á Jóni Oddssyni, 7 menn, fór um borð í Útey KE, sem fylgdi Helgu Björg og Jóni Oddssyni til hafnar í Keflavík.
Jón Oddsson er 82 tonna eikarbátur, smíðaður á Ísafirði 1960.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.


14.10.2018 09:36

Togarar við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.

Á þessari ljósmynd Björns Björnssonar ljósmyndara liggja tveir Nýsköpunartogarar, tvö tog og síldveiðiskip og einn línu og netabátur við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað sumarið 1949. Nokkrum árum áður hafði þessi bryggja verið byggð og batnaði þá öll hafnaraðstaða í bænum til mikilla muna. Sú hafskipabryggja sem notuð var áður, Sigfúsarbryggjan út á eyri var komin til ára sinna, enda byggð árið 1915. Togararnir sem liggja við bryggjuhausinn eru, Hafnarfjarðartogarinn Júlí GK 21, fórst 10 árum síðar á Nýfundnalandsmiðum með allri áhöfn, 30 mönnum. Utan á honum er togari Útgerðarfélags Akureyringa, Kaldbakur EA 1. Í kverkinni er vélbáturinn Draupnir NK 21, smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Að innan verðu eru Freyfaxi NK 101, smíðaður í Halsö í Svíþjóð árið 1946 og Hrafnkell NK 100, smíðaður í Spillersboda í Svíþjóð árið 1946.


Þétt legið við innri bæjarbryggjuna á Norðfirði sumarið 1949.                            (C) Björn Björnsson.

     Hafnarbætur í Neskaupstað

Í Neskaupstað var byggð hafskipabryggja. Landbryggjan er samtals 47 metra löng frá jafnhæð í bakka, 8,0 metra breið og tekur þá við bryggjuhaus, sem er sem næst þvert á landbryggjuna, 35 metra langur og 10 metra breiður. Á efstu 38 metrunum er landbryggjan steypt og nær á 1,5 m dýpi við stórstraumsfjöru, en fremstu 9 metrar hennar, svo og bryggjan í haus, er staurabryggja. Utan við landbryggjuna, sambyggt við hana, var byggð uppfylling, og er framveggur hennar við slórstraumsfjöruborð. Kostnaður við þetta verk mun verða kr. 550-600 000.00.

Ægir. 38 árg. 2-4 tbl. 1 febrúar 1945.


13.10.2018 08:42

Skíðblaðnir VE 287.

Vélbáturinn Skíðblaðnir VE 287 var smíðaður í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1929 fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum (Verslunarfélag Vestmannaeyja). Eik og fura. 16 brl. 40 ha. Saffle vél. Ný vél (1939) 65 ha. June Munktell vél. Seldur árið 1950, Einari Hannessyni og fl. í Keflavík, hét Skíðblaðnir KE 10. Seldur 24 janúar 1953, Jóni Jóhannssyni, Stefáni Jóhannssyni og Ólafi Stefánssyni í Sandgerði, hét þá Elín GK 127. Talinn ónýtur árið 1960 og tekinn af skrá 27 febrúar árið 1961.
Skíðblaðnir var fyrsti báturinn í Stokkseyrarferðum, þ.e. í áætlunarferðum milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar með vörur og farþega. Það var Sigurjón Ingvarsson (í Skógum) ásamt Jóni í Látrum sem hófu þessar ferðir milli eyja og Stokkseyrar árið 1940. Hann tók vélbátinn Skíðblaðni VE á leigu af Helga Benediktssyni útgerðarmanni í Vestmannaeyjum það ár.


Skíðblaðnir VE 287.                                                       Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.


Skíðblaðnir VE 287 við bryggju í Vestmannaeyjum.  Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.


Skíðblaðnir KE 10. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

09.10.2018 05:47

388. Emma VE 219.

Vélbáturinn Emma VE 219 var smíðaður af Bárði Tómassyni á Ísafirði árið 1919 fyrir Johan Reyndal í Vestmannaeyjum. Eik. 16 brl. 46 ha. Densil vél. Emma var fyrsti báturinn sem Bárður smíðaði eftir að hann kom heim eftir nám í Danmörku og Englandi. Var báturinn sá fyrsti sem var plankabyggður á Ísafirði. Seldur 1920, Birni Bjarnasyni, Bjarna Einarssyni og Jóni Einarssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Árið 1921 selja Bjarni Einarsson og Jón Einarsson eignarhluta sína í bátnum til Björns Bjarnasonar og Eiríki Ásbjörnssyni í Vestmannaeyjum. Ný vél (1931) 64 ha. Ellwe vél. Ný vél (1944) 70 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 27 janúar 1951, Gústaf Finnbogasyni, Guðmundi Andrési Guðmundssyni og Nikulási Níelsen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 1 október 1952, Gústaf Sigurjónssyni í Vestmannaeyjum. Seldur 2 ágúst 1954, Árna H Bachmann í Njarðvík og Sigurði Bachmann í Keflavík, hét þá Emma GK 279. Seldur 26 júní 1963, Sigurgarði Sturlusyni í Reykjavík og Hákoni Sturlusyni í Arnarfirði, báturinn hét þá Emma RE 353. Talinn ónýtur og brenndur á þrettándabrennu í Hafnarfirði 6 janúar árið 1968.


Emma VE 219. Myndin er tekin á Ísafirði.                                             (C) Byggðasafn Vestfjarða.


Emma GK 279. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

       "Nú er glatt í hverjum hól"

Myndarleg þrettándagleði var haldin í Hafnarfirði á þrettándanum með bálför og álfadansi. Skátar í Hafnarfirði stóðu að skemmtuninni og var hún þeim til hins mesta sóma. Um leið og kveikt var í bálkestinum komu álfakóngur og drottning með fylktu liði inn á hátíðasvæðið og var farið með ýmsum tilburðum og söng. Bálkösturinn var bátsflalk af Emmu RE 353, en hún var 16 tonn að stærð og smíðuð á Ísafirði 1919. Emma var eikarbátur og fyrsti bátur sem Bárður G. Tómasson smíðaði á Íslandi eftir að hann kom heim frá námi í Danmörku og Englandi, en Bárður var fyrsti tæknimenntaði skipaverkfræðingurinn í íslenzkum skipasmíðum. Hann samdi smíðareglur um smíði trébáta eftir að hann smíðaði Emmu og gilda þær reglur enn í dag í grundvallaratriðum um smíði trébáta. Emma var lengi gerð út frá Vestmannaeyjum, var seinna seld þaðan og fór þá víða. Æviskeið sitt endaði Emma sem bálköstur á álfadansi Hafnfirðinga s.l. laugardag.

Morgunblaðið. 9 janúar 1968.


07.10.2018 09:14

B. v. Snorri Sturluson RE 242. LBFS.

Botnvörpungurinn Snorri Sturluson RE 242 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919 fyrir breska flotann. Hét fyrst HMT James Mansell. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Admiralty no: 4238, smíðanúmer 881. Skipið var selt í árslok 1920, hf Kveldúlfi í Reykjavík, fékk þá nafnið Snorri Sturluson RE 242. Seldur í desember 1922, Henry Smethurst í Grimsby, hét þá James Mansell GY 409. Seldur 1923-24, Hudson Steam Fishing Co Ltd í Hull, fær nafnið Trier H 782. Árið 1924 fær togarinn nafnið Cape Hatteras H 782. Seldur 1926, Trident Steam Fishing Co Ltd í Hull, hét þá Girdleness H 782. Togarinn fórst við Suðurey í Færeyjum 18 desember árið 1931 með allri áhöfn, 11 mönnum.


B.v. Snorri Sturluson RE 242. Á myndinni ber hann sennilega sitt síðasta nafn, Girdleness H 782.

        Snorri Sturluson RE 242

Snorri Sturluson heitir nýr botnvörpungur er kom frá Englandi nýlega. Er hann eign hf Kveldúlfs.

Ísafold. 6 desember 1920.


Togarar hf. Kveldúlfs í Reykjavíkurhöfn árið 1921-22. Þeir eru frá vinstri taldir; Þórólfur RE 134, Snorri Sturluson RE 242 og Skallagrímur RE 145. Fremstur er Egill Skallagrímsson RE 165.
(C) Helgi Sigurðsson.

      Kveldúlfstogarar á síldveiðar

Hf. Kveldúlfur er að gera út tvo botnvörpunga sína á síldveiðar frá Hjalteyri, þá Snorra Sturluson og Egil Skallagrímsson. Ennfremur fer vélbáturinn Þórir norður til síldveiða. Í ráði er að félagið sendi tvö skip til veiða vestur um haf, Skallagrím og Þórólf.

Vísir. 19 júlí 1922.

                Kveldúlfsskipin

Egill Skallagrímsson og Snorri Sturluson, eru væntanleg af síldveiðum fyrri hluta dags á morgun. Egill Skallagrímsson hefir veitt liðlega 7 þúsund tunnur og Snorri lítið eitt minna.

Vísir. 9 september 1922.


 

30.09.2018 07:35

S. k. Þórir RE 194. LBFD.

Skonnortan Þórir RE 194 var smíðaður af N.P. Petersen í Thurö í Danmörku árið 1886 fyrir Geir Zoega kaupmann og útgerðarmann í Reykjavík, hét fyrst Geir (gamli Geir). Eik 35 brl. Fékk síðar skráningarnúmerið RE 194. Geir var seldur, sennilega árið 1908, þegar Geir Zoega hætti útgerð, Bergi Rósinkranssyni kaupmanni á Flateyri við Önundarfjörð, hét Geir ÍS 114. Árið 1916 er Geir gerður út af Hannesi B Stephensen & Co á Bíldudal. Árið 1917 er Geir kominn í eigu hf Kveldúlfs í Reykjavík, heitir þá Þórir RE 194. Margir frægir aflaskipstjórar voru með Þórir á þessum árum, s.s. Snæbjörn Stefánsson, Guðmundur Jónsson, Sigurður Guðbrandsson og fl. Sama ár var sett 50 ha. Bolinder vél í bátinn. Báturinn var seldur 1933, Jóni Sveinssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Torfi Halldórsson var þar skipstjóri um tíma. Ný vél (1934) 90 ha. June Munktell vél. Þórir strandaði á Kerlingarskeri í Skerjafirði 7 mars árið 1941. Áhöfninni, 13 mönnum var bjargað um borð í dráttarbátinn Magna. Þórir náðist út, en ekki þótti svara kostnaði að gera við hann.


Vélbáturinn Þórir RE 194. Hét áður Geir og jafnan kallaður "gamli" Geir.       Ljósmyndari óþekktur.

              Skonnortan "Geir"

Kaupmaður Geir Zoéga eignaðist í haust nýtt þilskip í viðbót til fiskiveiða, skonnert, sem heitir Geir, 35 smálestir að stærð, er hann hefir látið smíða fyrir sig í sumar í Thurö í Danmörku. Smiðurinn heitir N. P. Petersen. Skip þetta er mjög vandað í alla staði, að efni, lagi og öðrum frágangi, og sjerlega traust. Það kvað hafa kostað með öllum útbúnaði velvönduðum um 9. 1/2 þús. kr., þar sem það var smíðað. Þilskip til fiskiveiða hjer við land þurfa að vera vel traust, og vönduð að öllum útbúnaði, en það hlýtur að koma fram í verðinu, enda mun í fáum tilfellum jafn-viðsjált eða óhyggilegt að gangast mest eða nær eingöngu fyrir lágu verði, eins og í þilskipakaupum.

Ísafold. 17 nóvember 1886.


             V.b. Þórir strandar

Um miðnætti í nótt barst Slysavarnafjelaginu tilkynning frá skipstjóranum á v.b. Þórir, um að skipið væri strandað einhversstaðar í nánd við Skerjafjörð, en svarta þoka var og vissu skipverjar ekki hvar þeir voru staddir. Slysavarnafjelagið fjekk dráttarbátinn Magna til að fara og leita Þóris í nótt. V.b. Þórir er rúmlega 30 smálestir og er gerður út hjeðan frá Reykjavík.

Morgunblaðið. 8 mars 1941.


29.09.2018 17:15

561. Hermóður RE 200. LBHT / TFPH.

Vélbáturinn Hermóður RE 200 var smíðaður í Rödvig í Danmörku árið 1917 fyrir Fiskveiðafélagið Dröfn í Reykjavík. Eik. 39 brl. 48 ha. Alpha vél. Báturinn var gerður út af O Johnson & Kaaber í Reykjavík fyrsta árið (fiskiskýrslur 1917), en frá 1918 er báturinn gerður út af hf Dröfn. Seldur 1920-21, Engilbert Hafberg á Þingeyri, sama nafn og númer. Seldur 1923-24, Sigurði Hallbjarnarsyni á Suðureyri við Súgandafjörð, sama nafn og númer. Ný vél (1927) 96 ha. Tuxham vél. Seldur árið 1933-34, Guðmundi Magnússyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Ný vél (1947) 160 ha. Tuxham vél. Ný vél (1955) 115 ha. Caterpillar díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá í október árið 1967.


561. Hermóður RE 200.                                              (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

              Hermóður RE 200

Nýr mótorkútter, sem Hermóður heitir, kom hingað í gærmorgun frá Danmörku. Hafði verið um 3 vikur á leiðinni vegna olíuleysis. Báturinun er 37 smálestir að stærð og er eign Fiskveiðafélagsins »Dröfn«. Verður hann þegar sendur á síldveiðar.

Morgunblaðið. 25 júlí 1917.28.09.2018 10:23

1451. Stefnir ÍS 28 í slipp.

Ég tók nokkrar myndir af Ísafjarðartogaranum Stefni ÍS 28 í slippnum í Reykjavík í fyrrakvöld, Stefnir, sem áður hét Gyllir ÍS 261 og gerður var út frá Flateyri í tæp 20 ár, var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1976 fyrir Útgerðarfélag Flateyrar hf. 431 brl. 1.780 ha. MaK vél, 1.310 Kw. Togarinn var seldur til Ísafjarðar í mars 1993, var þar fyrst í eigu Þorfinns hf. Fékk þá nafnið Stefnir ÍS 28. Frá 16 febrúar 1995 var Íshúsfélag Ísfirðinga hf eigandi. Stefnir er nú í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf á Ísafirði. Mikið afla og happaskip.


1451. Stefnir ÍS 28 í slippnum í Reykjavík.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 sept. 2018.


1451. Stefnir ÍS 28.                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 sept. 2018.


1451. Stefnir ÍS 28.                                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 sept. 2018.


1451. Stefnir ÍS 28 við Grandagarð.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 26 ágúst 2015.


1451. Gyllir ÍS 261 og 1278. Bjartur NK 121 í Reykjavíkurhöfn.             Ljósmyndari óþekktur.


1451. Gyllir ÍS 261. Líkan.                                                               Smiður og ljósmyndari óþekktir.

        Skuttogarinn Gyllir ÍS 261   

16. marz sl. kom skuttogarinn Gyllir ÍS 261 til heimahafnar sinnar, Flateyrar, í fyrsta sinn. Gyllir ÍS er byggður hjá Flekkefjord Slipp og Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord, Noregi, smíðanúmer 121, og er sjöundi skuttogarinn sem þar er byggður fyrir íslendinga. Skuttogari þessi er byggður eftir sömu teikningu og er í megindráttum eins og skuttogarinn Guðbjörg ÍS 46, sem er sjötti í röðinni. Fimm þeir fyrstu voru 3.30 m styttri en Guðbjörg ÍS, en að öðru leyti byggðir eftir sömu teikningu. Eigandi Gyllis ÍS er Útgerðarfélag Flateyrar h.f.
Skipig er byggt skv. reglum Det Norske Veritas í flokki + 1A1, Stern Trawler, Ice C, + MV. Skipið er skuttogari með tveimur þilförum milli stafna og skutrennu upp á efra þilfar. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með 4 vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki fyrir brennsluolíu, íbúðir framskips, fiskilest, vélarúm og aftast skutgeymar fyrir brennsluolíu. Undir íbúðum og fiskilest eru botngeymar fyrir brennsluolíu, ferskvatn og sjókjölfestu. Aftan við stafnhylkið eru keðjukassar, en asdikklefi er fremst í fiskilest. Fremst í vélarúmi eru and-veltigeymar frá Ulstein. Á neðra þilfari er fremst stafnhylki, en þar fyrir aftan íbúðir. Aftan við íbúðir er vinnuþilfar með fiskmóttöku og stýrisvélarrúmi aftast fyrir miðju. Til hliðar við fiskmóttöku og stýrisvélarrúm eru verkstæði, vélarreisn og geymsla. Framarlega á efra þilfari er þilfarshús, en til hliðar við það eru lokaðir gangar fyrir bobbingarennur. Í þilfarshúsi er íbúð skipstjóra, klefi fyrir ísvél og klefi fyrir togvindumótor, auk salernis fyrir yfirmenn. Yfir þilfarshúsi og göngum er hvalbaksþilfar, sem nær aftur fyrir afturgafl þilfarshúss. Aftan við þilfarshús er togþilfarið. Vörpurenna kemur í framhaldi af skutrennu og greinist hún í tvær bobbingarennur, sem liggja í göngum og ná fram að stefni. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús (skorsteinshús). Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi, en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur sem gengur niður í síðuhúsin. Aftarlega á hvalbaksþilfari er brú skipsins.
Aðalvél skipsins er MAK, gerð 8M452 AK, 1780 hö við 375 sn/mín, sem tengist gegnum kúplingu við skiptiskrúfubúnað frá Hjelset, gerð RKT 60/260. Skrúfa skipsins er 3ja blaða, þvermál 2.150 mm, og utan um hana er skrúfuhringur. Í skipinu er fullkominn búnaður til svartolíubrennslu og er þetta fyrsta íslenzka fiskiskipið sem þannig er búið frá upphafi. Framan á aðalvél er Framo deiligír, gerð WG3, sem við tengjast tvær 98 ha Brusselle háþrýstidælur fyrir vökvavindur og ACEC jafnstraumsrafall fyrir togvindumótor, 243 KW, 400 V, 1500 sn/ mín. Hjálparvélar eru tvær Volvo Penta, gerð TAMD 120 AK, 245 hö við 1500 sn/mín. Hvor vél knýr Stamford riðstraumsrafal, 207 KVA, 3x230 V, 50 Hz. Við aðra hjálparvélina er einnig tengd 65 ha háþrýstidæla, varadæla fyrir vökvavindur, en við hina hjálparvélina tengist 49 KW jafnstraumsrafall, vararafall fyrir togvindumótor. Stýrisvél er rafstýrð vökvaknúin frá Tenfjord, gerð L-155-2ESG. Helztu tæki í stýrishúsi eru: Ratsjá: Kelvin Hughes 18/12 (3 cm), 64 sml. Ratsjá: Kelvin Hughes 19/12 (10 cm), 64 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A130. Loran: Decca DL 91, sjálfvirkur Loran C, með 350 T skrifara. Gyroáttaviti: Anschútz, Standard VI. Sjálfstýring: Anschútz. Vegmælir: Sagem. Dýptarmælir: Simrad EQ 50. Dýptarmælir: Simrad EK 38 með MA botnstækkun og 10 kw púlssendi. Fisksjá: Simrad CI. Asdik: Simrad SB 2. Netsjá: Simrad FB með EQ 50 sjálfrifa og FI botnþreifara og 2.000 m kapal. Talstöð: Sailor T122/R105, 400 W SSB. Örbylgjustöð: Sailor RT 143.
Skipstjóri á Gylli ÍS er Grétar Kristjánsson og 1. vélstjóri Halldór Stefánsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Jón Gunnar Stefánsson.
Rúmlestatala 431 brl.
Mesta lengd 49.85 m.
Lengd milli lóðlína 44.00 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt að efra þilfari 6.60 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.35 m.
Lestarrými 438 m.3
Brennsluolíugeymar 123 m3
Skiptigeymar (br.olía/sjókjölf.) 28 m.3
Ferskvatnsgeymar 37 m.3
Skipaskrárnúmer 1451.

Tímaritið Ægir. 14 tbl. 15 ágúst 1976.


24.09.2018 18:17

B. v. Skúli fógeti RE 144. LBMQ.

Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1911 fyrir Fiskveiðafélagið Alliance í Reykjavík. 272 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 508. Togarinn sigldi á tundurdufl þegar hann var staddur um 25 sjómílur út af mynni árinnar Tyne á Englandi 26 ágúst árið 1914. 4 skipverjar fórust en 13 skipverjar komust í björgunarbát og var síðan bjargað um borð í breskt fiskiskip. 


Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

         Skúli fógeti RE 144

Hinn nýi botnvörpungur Forsetafélagsins kom hingað 2. dag jóla. Skúli fógeti er stærsti íslenzki botnvörpungurinn og hið sélegasta skip á að líta. Hann er 142 smálestir netto, 136 fet og 8 þml. að lengd, 23 feta breiður og 13 feta djúpur. Smíðaður er hann í Selby, og búinn að öllu eftir nýjustu og fullkomnustu gerð. Skipstjórinn er Halldór Þorsteinsson.

Ísafold. 30 desember 1911.

              Skúli fógeti ferst

   Rakst á tundurdufl í Norðursjónum
 Fjórir menn farast og þrír menn meiðast

Þær sorglegn fregnir bárust hingað í gærkvöldi, að Skúli fógeti hefði rekist á tundurdufl í Norðursjónum, 35 enskar mílur austur af Tyne, og farist. Þrettán mönnum var bjargað en fjórir fórust. Þrír meiddust, en hve alvarleg þau meiðsl eru vita menn enn eigi, og ekki heldur hverjir þeir menn eru, sem þau hafa hlotið. Mennirnir sem fórust hétu:
Þorvaldur Sigurðsson frá Blómsturvöllum í Reykjavík, giftur maður, lætur eftir sig konu og börn.
Jón Jónsson frá Oddgeirsbæ í Reykjavík, einhleypur maður.
Jón Jónsson.
Þorkell Guðmundsson.
Tveir hinir síðarnefndu voru ekki heimilisfastir hér í bænum.
Skipstjóri var áður Halldór Þorsteinsson, en hann fór af þvi í sumar og tók Kristján Kristjánsson við af honum. Skipið var eign »Alliance-félagsfélagsins og vátrygt í »Det Köbenhavnske Söassurance-Selskab í Kaupmannahöfn, sem Johnson & Kaaber eru umboðsmenn fyrir. Í sama félagi eru og trygðir flestir hinna íslenzku botnvörpunga. En þeir eru ekki trygðir gegn stríðshættu og fær því útgerðarfélagið ekki eins eyris skaðabætur. Verður þetta því tilfinnanlegt tjón fyrir það.

Morgunblaðið. 28 ágúst 1914.


B.v. Skúli fógeti RE 144.                                     Málverk Bergs Pálssonar stýrimanns á togaranum.

             Skúli fógeti RE 144
                 nánari fregnir  

Í enskum blöðum frá 28. f. m. er sagt frá slysum þeim sem urðu fyrir framan Tyne-ósa 26. ág. og næstu daga. Skúli fógeti var fyrsta skipið, sem fórst. Hann var staddur 30. mílur (48 kílómetra) norðaustur af Tyne, þegar hann rakst á sprengiduflið. Kom þegar gat á bóg skipsins og inn féll kolblár sjór. Nokkrir af skipshöfninni voru í hásetarúminu og hlupu þeir sem uppi voru strax til að bjarga og gátu dregið upp tvo menn, og var það mjög hættulegt verk. Þeir fjórir menn sem fórust munu hafa dáið strax annað hvort af sprengingunni eða drukknað. Enskur blaðamaður hefir átt tal við Berg Pálsson stýrimann á Skúla fógeta og segir stýrimaður svo frá atburðinum:
Ég var á stjórnpallinum þegar sprengingin varð. Eg vissi strax hvað um var að vera, og reyndi til að gera menn vara við. Ég féll við hristinginn og lenti með höfuðið á veggnum. Þegar ég komst á fætur náði ég í Kristján skipstjóra og hlupum báðir fram að hásetarúminu. Það var þá orðið fullt af sjó, en við náðum í tvo háseta og gátum dregið þá upp. Það var enginn tími til að ná í hina. Þegar við vorum komnir í bátinn sökk skipið. Enskt síldarskip var þar skammt frá að veiðum. Þeir sáu blossann af tundurduflinu, sem Skúli rakst á og rétt áður höfðu tvö sprengidufl sprungið í netum þeirra. Ekki vissu þeir þó af þvi að skip hefði farist, en fundu bátinn frá Skúla skömmu síðar og fluttu í land til Shields. Fáum klukkustundum eftir að Skúli sökk, rakst norskt skip »Gottfred« á tundurdufl á sömu slóðum; það sökk þegar án þess hægt væri að koma út báti. Skipstjóri og 3 menn aðrir náðu í rekald og var bjargað af ensku síldveiðaskipi eftir 3 klukkutíma. Átta manns drukknuðu.
Þriðja skipið sem fórst var sænskt, Ena frá Svenborg, og bjargaði enskur tundurbátur skipshöfninni. Fjórða og fimmta skipið voru breskir botnvörpungar, sem voru að slæða upp tundurdufl. Af þeim fórust fimm manns.

Morgunblaðið. 4 september 1914.


23.09.2018 11:21

Hafdís RE 66. TFIO.

Vélbáturinn Hafdís RE 66 var smíðaður hjá Ringens Bátvarv í Marstrand í Svíþjóð árið 1946 fyrir Hafdísi hf (Þorkel Jónsson og fl.) í Reykjavík. 52 brl. 170 ha. Atlas díesel vél. Hafdís RE var sá fyrsti af 50 tonna Svíþjóðarbátunum sem komu til landsins, kom hann hinn 15 apríl 1946. Seldur 18 janúar 1952, Hafdísi hf í Vestmannaeyjum, hét Sigrún VE 50. Seldur 12 ágúst 1960, Hilmari Rósmundssyni og Theodóri Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Sæbjörg VE 50. Báturinn sökk út af Vík í Mýrdal í blíðskaparveðri, 13 október árið 1963. Áhöfninni, 5 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Gylfa VE frá Vestmannaeyjum.


Vélbáturinn Hafdís RE 66 í Reykjavíkurhöfn.                                         Ljósmyndari óþekktur.

     Fyrsti Svíþjóðarbáturinn sem                ríkið lét smíða er kominn

    Hafdís fékk vont veður á leiðinni
 Hafði samflot við dansksmíðaðan bát

Í gær kom til Reykjavíkur fyrsti Svíþjóðarbáturinn, sem smíðaður er á vegum ríkisstjórnarinnar. Er það m.b. "Hafdís". Vísir hefir haft tal af Þorkeli Jónssyni, skipstjóra bátsins, og innt hann eftir hvernig báturinn hafi reynst í ferðinni. Sagðist honum svo frá:
Við lögðum af stað frá Gautaborg föstudaginn 5. apríl. Fengum við slæmt veður á leiðinni til Færeyja, 7-9 vindstig á móti. Frá Færeyjum fengum við hvasst S-A.-veður nær alla leiðina til Reykjavíkur. Reyndist báturinn vera alveg prýðilegt sjóskip og vélin ekki síðri, eða svo, að ég tel að vart verði á betra kosið. Báturinn er byggður í Ringens Bátvarv, Marstrand og er ca. 50 smálestir að stærð og er hinn traustbyggðasti í alla staði. Gangvél bátsins er 170 ha. Atlas Dieselvél. Þess má geta í sambandi við smíði bátsins, að fremur illa gengur með afhendingu og vinnu við niðursetning vélanna, en hjá skipasmíðastöðvunum sjálfum er annars mikill áhugi fyrir að ljúka smíði bátanna hið fyrsta. Ákveðið er að gera bátinn út á togveiðar svo fljótt sem unnt er.
Samflota "Hafdísinni" var bátur, er smíðaður var í Frederikssund Skibsværft í Danmörku. Heitir bátur sá "Fram" og er eign hlutafélagsins "Stefnis" í Hafnarfirði. Reyndist bátur þessi hið traustasla og bezta sjóskip. Er bátur þessi um 60 smálestir að stærð, með Tuxham dieselvél. Var samið um smíði bátsins í ágústmánuði s. l., og er kostnaður við smíðina töluvert minni en þeirra sænsku. Eru nú 15 bátar í smíðum í þeirri skipasmíðastöð, sem smíðaði "Fram". Hafa borist miklu fleiri pantanir, en ekki hefir verið hægt að taka fleiri sökum anna.

Vísir. 15 apríl 1946.


Fyrirkomulagsteikning af 50 tonna bát, smíðuðum í Svíþjóð árið 1946.


Sæbjörg VE 50 í Vestmannaeyjahöfn.                                                         (C) Tryggvi Sigurðsson.

         Sæbjörg VE 50 sökk á                           rúmri klukkustund

Vélbáturinn Sæbjörg áður Sigrún VE 50, 52 tonn að stærð, sökk er hún var að veiðum út af Vík í Mýrdal s.l. sunnudagsmorgun. Á skipinu voru 5 menn og björguðust þeir allir yfir í vélbátinn Gylfa, sem flutti þá til Vestmannaeyja síðari hluta sunnudags. Nánari atvik þessa slyss eru sem hér segir eftir því sem fram kom við sjópróf: 
 Sæbjörg hélt héðan í róður s.l. föstudag, en báturinn stundaði botnvörpuveiðar. Var haldið austur að Alviðruvita og verið þar nokkurn tíma. Síðan er haldið vestur aftur og verið að veiðum út af Vík í Mýrdal um kl. 7 á sunnudagsmorgni. Þegar einu kastinu er lokið fara allir niður í lúkar nema skipstjórinn, Hilmar Rósmundsson, sem var á vakt á toginu. Áður en farið er niður, segir vélstjórinn, Theodór Ólafsson, að hann hafi gengið niður í vélarrúmið til að dæla á hæðarbox og fleira er ditta þurfti að, dæla út sjó o.þ.h. Sá hann þá ekkert athugavert. Þegar klukkan er tekin að ganga níu lítur skipstjórinn niður í vélarrúm og sér þá að mikill sjór er kominn í vélarrúmið. Hann fer strax fram í lúkar og kallar á skipsmenn og segir þeim að koma upp í snarheitum því mikill leki virðist kominn að skipinu. Þá er svo komið að sjór er kominn á lúkargólfið. Vélstjóri fer strax aftur í vélarrúm og er þá kominn svo mikill sjór þar, að hann stóð í mitti við vélina, en aðalvél hélzt þó enn í gangi. Hann tengdi þegar sjódælu við aðalvél og ætlaði síðan að setja aðra sjódælu í gang, sem tengd var við ljósavél, en gat ekki sett ljósavélina í gang sökum þess að hún var þegar hálf í sjó. Meðan þessu fór fram, kallaði skipstjórinn út og bað um hjálp, náði fljótt í Vestmannaeyjaradió, svo og í nærstadda báta og var Gylfi þeirra næstur og kom fljótt að. Samtímis þessu var gúmmbátur skipsins hafður til taks. Skipverjar reyndu einnig að dæla með þilfarsdælu og ausa með fötum, en þrátt fyrir þetta jókst sjórinn stöðugt í skipinu.
Á tíunda tímanum kom Gylfi á vettvang. Tók hann trollið um borð til sín, en það hékk aftan í Sæbjörgu, tekur síðan bátinn í slef og ætlaði að sigla móti hafnsögubátnum, sem var lagður af stað úr Eyjum til að flýta því að samband næðist við Lóðsinn, sem hefir mjög sterkar dælur. Þegar Gylfi er búinn að draga Sæbjörgu í nokkrar mínútur, virðist báturinn síga svo að aftan að þeir leggja alla áherzlu á að ausa og hætta að draga bátinn, en sjá fljótt að þetta er vonlaus barátta. Skipsmenn af Sæbjörgu fara þá í gúmmbátinn og eru þeir tæplega komnir yfir að Gylfa þegar Sæbjörg er sokkin. Veður var allan tímann mjög gott og nær alveg sjólaust. Klukkan var um 10,30 þegar báturinn sökk. Við réttarhöldin kom fram að enginn skipverja gat gefið neina skýringu á því hvernig á þessum leka stóð. Báturinn hafði ekki lent í vondu veðri, eða öðru áfalli og hafði verið við land í viku tíma vegna ógæfta og veikinda áhafnar. Fréttamaður blaðsins átti stutt samtal við Hilmar skipstjóra Rósmundsson í dag og sagði hann svo frá:
Við fórum í róður á föstudaginn, höfðum legið inni í nokkra daga. Kastað var einu sinni við Alviðru en við náðum halinu ekki kláru. Þegar búið var að koma því í lag var komið vont veður og færðum við okkur þá vestur á Vík. Þar toguðum við á laugardag, en hættum um nóttina og lágum, en byrjuðum að kasta um kl. 7 um morguninn. Afli var tregur. Ég var einn á vaktinni, en mennirnir höfðu lagt sig. Þegar ég var búinn að toga í klukkustund sé ég að vélarúmið er orðið hálffullt af sjó, er ég leit þangað niður. Kallaði ég þá mennina út og bað þá vera við öllu búna því mikill leki væri kominn að bátnum. Þegar ég hafði sagt mönnum að hafa til gúmmbátinn kallaði ég út í talstöðina og síðan reyndum við að halda skipinu á floti þar til hafnsögubáturinn Lóðsinn kæmi á vettvang, en það tókst ekki. Þegar Gylfi kom á vettvang var reynt að draga bátinn en þá færðist sjórinn aftur í hann og varð að hætta því. Sökk báturinn um klukkustund eftir að Gylfi kom á vettvang. Ég get ekki gert mér nokkra grein fyrir hvernig á lekanum stendur. Þarna var sjólaust og bezta veður. Á bátnum voru þrír bræður vélstjórinn Theodór Ólafsson og tveir bræður hans, sagði Hilmar.
Sæbjörg hét áður Sigrún og er 52 tonn að stærð byggð í Svíþjóð 1946.

Morgunblaðið. 15 október 1963.


22.09.2018 08:26

374. Drífa RE 18.

Vélbáturinn Drífa RE 18 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið í Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1929 sem Glaður GK 405. Eik og fura. 22 brl. 50 ha. Skandia vél. Fyrstu eigendur voru Einar Jónasson, Egill Jónasson og fl. í Ytri Njarðvík og Keflavík. Hét þá Glaður GK 405 eins og áður segir. Ný vél (1934) 90 ha. June Munktell vél. Seldur 24 maí 1945, Halldóri Jónssyni í Ólafsvík, hét Glaður SH 67. Kristmundur Halldórsson eignast hlut í bátnum 15 júní árið 1951. Ný vél (1954) 150 ha. General Motors vél. Seldur 13 september 1956, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík, hét þá Drífa RE 18. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 14 maí árið 1965.


Drífa RE 18 á siglingu.                                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Glaður GK 405. Á innfeldu myndinni er Magnús Guðmundsson skipasmiður.    Ljósmyndari óþekktur.
Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 653
Gestir í gær: 140
Samtals flettingar: 1437412
Samtals gestir: 392946
Tölur uppfærðar: 24.5.2019 08:47:17