23.03.2017 22:40

2730. Margrét EA 710. TFCR.

Margrét EA 710 var smíðuð hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1998. 1.271 brl. 11.257 ha. Wartsiila díesel vél, 8.280 Kw. Smíðanúmer 169. Eigandi var Samherji h/f á Akureyri frá árinu 2006. Hét áður Serene LK 297. Skipið var selt í maí 2010, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað, hét Beitir NK 123. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 18 desember árið 2013.


2730. Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2730. Beitir NK 123.                                                                               (C) Jóhann Ragnarsson.

     Nýtt skip til Neskaupstaðar


Norðfirðingar tóku í dag á móti nýju skipi Beiti NK 123 sem skapar ný störf á sjó og í landi.
Í Fjarðabyggð er sjómannadeginum fagnað alla helgina. Í morgun héldu börnin í Neskaupstað niður á bryggju og tóku þátt í dorgkeppni. Verðlaun fengust fyrir stærsta, þyngsta og ljótasta fiskinn. Og einnig fyrir mesta aflann. Fullorðna fólkið lauk íslandsmeistaramóti í sjóstangveiði og var handagangur í öskjunni þegar aflinn var vigtaður.
Eftir hádegið voru svo skipsflautur þeyttar úti á firðinum. Nýr Beitir sigldi í höfn en sá gamli fór í niðurrif fyrir nokkrum árum. Nýja skipið var keypt af Samherja og hét áður Margrét EA. Það var Sigurjón Valdimarsson, fyrsti skipstjórinn hjá útgerð Síldarvinnslunnar, sem gaf skipinu nafn.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í móttökuræðu sinni að Síldarvinnslan væri eitt af kvótahæstu félögum landsins í uppsjávarfiski og að hún ætti eitt öflugasta uppsjávarfrystihús í heimi. Koma skipsins myndi auka enn á möguleika til frekari manneldisvinnslu í frystihúsinu. Skipið var smíðað í Noregi árið 1998. Það er 71 metri á lengd og 13 metra breytt. Vélin er 11.500 hestöfl. Alls eru 16 manns í tvískiptri áhöfn.

Rúv. 5 júní 2010.

Flettingar í dag: 1080
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 724426
Samtals gestir: 53732
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 22:47:25