17.10.2017 12:13

Hlutafélagið Kveldúlfur og Kveldúlfstogararnir.

Í árslok 1910 hætti Thor Jensen framkvæmdastjórn í Alliance og seldi hlut sinn þar Gunnari Gunnarssyni kaupmanni í Reykjavík. Sagðist Thor hafa viljað koma undir sig fótum með sjálfstæðan togararekstur og þótt of þröngt um sig í Alliance. Einnig kom upp ágreiningur um það, hversu fljótt ætti að færa út kvíarnar í rekstri félagsins. Vildi Thor fara þar hægar í sakirnar en sumir samstarfsmanna hans. Eftir að Thor hætti í Alliance, sá hann að togaraútgerð var arðvænlegasti atvinnurekstur á Íslandi, og vildi tryggja sjálfum sér sem besta aðstöðu til þess að stunda hana til hags fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann skorti þó fé til þess að geta hafið þessa útgerð á eigin spýtur og varð að leita til félaga síns úr Milljónafélaginu, A. Möllers stórkaupmanns. Stofnuðu þeir Hlutafélagið Draupni og keyptu frá Englandi togarann Snorra goða snemma árs 1911.
Thor Jensen átti helming hlutafjár í Draupni, bræðurnir Möller og konur þeirra ¼  og Ziemsen góðseigandi í Mecklenburg, mágur Möllersbræðra ¼. Þetta félag starfaði til ársins 1915, en þá keyptu þeir Thorsfeðgar hlutabréf þau er voru í danskri eigu. Draupnir var síðan sameinaður togarafélaginu Kveldúlfi.
Þó að Thor Jensen hefði tekist að komast yfir togara að hálfu, var hann engan veginn ánægður með það. Árið 1911 byrjaði hann að leita fyrir sér um fjármagn til frekari togarakaupa. Tókst honum að fá lán í Landsbankanum, og var það þó með eftirgangsmunum að sögn hans sjálfs. Thor keypti nú togarann Skallagrím, fyrsta skip þess félags, sem átti eftir að verða mesta togarafélag á Íslandi fram yfir seinna stríð. Það var Hlutafélagið Kveldúlfur. Formlega var gengið frá stofnun þess á fundi 23 mars árið 1912. Um starfsemi félagsins segir í firmatilkynningu, "að það muni reka atvinnugreinar, er standa í sambandi við fiskiveiðaútgjörð, verslun og hefir á hendi umboðssölu." Hlutafé var 150 þús kr., en þess ber þó að geta, að hér var um fjölskyldufyrirtæki að ræða, hið fyrsta í togaraútgerð hér á landi. Stjórnina skipuðu þeir bræður, Richard Jensen, Kjartan Jensen og Ólafur Jensen, eins og þeir kölluðu sig þá. Kveldúlfur dafnaði fljótt og réðst í miklar framkvæmdir tengdar togaraútgerð. Félagið lét reisa síldarstöð á Hjalteyri og útgerðarstöð á svokölluðum Kveldúlfshöfða við Skúlagötu í Reykjavík.  Kveldúlfur var stærsta útgerðarfyrirtæki á Íslandi fram yfir seinna stríð, eins og áður segir, og gerði út sjö togara þegar mest var. Eftir styrjöldina dró úr umsvifum þess, og fyrirtækið var aðeins með einn togara að síðustu. Kveldúlfur hf. var afskráð árið 1977.
Hér er einugnis stiklað á stóru um sögu þessa merka útgerðarfélags, stofnun þess og fyrstu árin. Hér fyrir neðan eru ljósmyndir af togurum Kveldúlfs þegar vegur þeirra var sem mestur á fjórða áratugnum og gerðu þá út sjö togara.


Arinbjörn hersir RE 1. LBFJ / TFDC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco H 791. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,08 x 7,22 x 3,77 m. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.


Egill Skallagrímsson RE 165. LCGP / TFJC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1916 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 308 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 3,33 m. Smíðanúmer 663. Fljótlega eftir að smíði hans lauk var hann tekin í þjónustu breska sjóhersins, hét þar Iceland. Togarinn kom ekki til landsins fyrr en árið 1919. Seldur í maí 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Drangey í Reykjavík, hét Drangey RE 166. Seldur í febrúar 1945, Engey h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur til Svíþjóðar í maí árið 1948.


Gulltoppur RE 247. LBDF / TFGD. Smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1928, 405 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,46 x 7,66 x 4,05 m. Smíðanúmer 50. Eigandi var h/f Sleipnir í Reykjavík frá 28 október 1928. Skipið var selt 3 maí 1932, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Skipið var selt 26 ágúst 1944, Fiskiveiðahlutafélaginu Hængi á Bíldudal, skipið hét Forseti RE 10. Selt 30 mars árið 1950, Forseta h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Togarinn var seldur p/f Drangi í Saurvogi í Færeyjum árið 1955, hét þar Tindhólmur VA 115. Skipið var endurbyggt árið 1957. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1966.
Gulltoppur var smíðaður á sama tíma og systurskipið Snorri goði RE 141 á árinu 1921 en lá hálfkaraður til ársins 1928 að skipið var dregið til Kinghorn í Skotlandi, þar sem sett var í skipið vél og það klárað fyrir h/f Sleipni.


Gyllir RE 267. LBFM / TFWC. Smíðaður hjá Unterwaser Schiffs und Maschinenbau í Geestemunde í Þýskalandi árið 1926 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Sleipni í Reykjavík. 369 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,37 x 7,72 x 3,39 m. Smíðanúmer 222. Skipið var selt í maí árið 1932, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Togarinn var seldur Ísfelli h/f á Flateyri í janúar 1952, hét Gyllir ÍS 261. Skipið var selt í brotajárn til Belgíu og rifinn í Ghent í október árið 1960. Á myndinni er togarinn sennilega kominn í eigu Ísfells h/f á Flateyri.


Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 693. Þann 16 júní árið 1940 bjargaði áhöfn togarans 353 skipbrotsmönnum af breska Hjálparbeitiskipinu Andaníu um 85 sjómílum suður af Ingólfshöfða. Mun þetta vera ein fjölmennasta björgun um borð í íslenskt skip. Skallagrímur var alla tíð mikið afla og happaskip, rétt eins og systurskipið Þórólfur RE 134. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 16 febrúar árið 1955.


Snorri goði RE 141. LBMG / TFYC. Smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir A/S. Det Norske Damptrawlselskab í Álasundi í Noregi, hét Aalesund. 374 brl. 578 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,39 x 7,66 x 3,27 m. Smíðanúmer 49. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í Reykjavík í ágúst 1924, hét Snorri goði RE 141. Ný vél (1930) 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Granton í Skotlandi og rifinn þar í maí árið 1952.Snorri goði var upphaflega smíðaður sem selveiðiskip en ekki klárað. Kveldúlfur keypti togarann á nauðungaruppboði í Noregi.
Snorri var ekki gott togskip. Hann var með hraðgenga vél með lítilli skrúfu. Til að reyna að bæta úr því var ný gufuvél sett í hann 1930. Eftir að þeir eignuðust systurskipið Gulltopp RE 247 hafi staðið til að skipta um vél í honum en aldrei orðið úr því.


Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Hlutafélagið Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 16 febrúar árið 1955. Togarinn var síðan seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Óðinsvé sama ár. Þórólfur og systurskipið, Skallagrímur, voru mikil afla og happaskip og einnig afburða góð sjóskip.


Hlutabréf í h/f Kveldúlfi. Eins og sést hefur verið lagt mikið í þau, enda falleg og eiguleg.


 

Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699098
Samtals gestir: 52777
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:05:20