26.05.2018 09:24

L. v. Óskar VE 286. LBCN.

Línuveiðarinn Óskar VE 286 var smíðaður hjá Mackie & Thomson Ltd (Covan Shipbuilding Yard) í Glasgow í Skotlandi árið 1891 fyrir British Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét fyrst Locust H 174. Járn. 155 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Muir & Houston Ltd í Glasgow. Smíðanúmer 40. Skipið var selt 1911, James Alexander í Glasgow, sama nafn og númer. Selt 1913, Thomas Davidson & Alexander Forbes Wood í Aberdeen í Skotlandi, hét Locust A 564. Selt 1914, A. Andersen í Frederikshavn í Danmörku, hét Asta FN. Skipið stundaði síldveiðar við Ísland árið 1915 og m.a. strandaði það í Hrísey í ágúst árið 1915. Björgunarskipið Geir dró það á flot nokkrum dögum síðar. Selt 1915-16, Nils Ahler í Gautaborg í Svíþjóð, sama nafn og númer. Selt 1927, Johan S Djurhuus í Vestmanna í Færeyjum, sama nafn. Skipið var selt í janúar 1929, Gísla Magnússyni útgerðarmanni í Vestmannaeyjum, skipið hét Óskar VE 286. Óskar strandaði og sökk við Lundey á Skagafirði 14 október árið 1930. Áhöfnin bjargaðist um borð í Ágústu VE 250 sem einnig var í eigu Gísla Magnússonar. Voru bæði skipin á kolaveiðum í Skagafirði.


Óskar VE 286. Skipið heitir þarna Asta FN frá Frederikshavn og er myndin tekin af skipinu á strandstað í Hrísey í ágúst árið 1915 frá Björgunarskipinu Geir sem dró það á flot.  (C) Holger Petersen.

                   Í þokunni

Það er víst mjög sjaldgæft, að menn hafi hjer átt jafnmiklum þokum að venjast og raun hefir orðið á nú síðustu vikurnar. Hefir þokan tafið mjög siglingu skipa hjer um fjörðinn og enda orðið þess valdandi, að nokkur þeirra hafa strandað. Á laugardaginn var strandaði norska kolaskipið »Smaragd« við Siglunes. Sama dag strandaði norska flutningsskipið "Jökul« á Þistlingunum, fram af Látrum. Björgunarskipið »Geir« kom með það inn á höfnina á mánudaginn. Þriðjudagsnóttina var, rann »Skallagrímur« á land við Hrísey, en komst þó bráðlega á flot af eigin rammleik. Sömu nótt strandaði norska síldveiðaskipið »Hareid« fyrir innan Látur. »Eggert Ólafsson hjálpaði því á flot, en sænska síldveiðaskipinu »Asta« hjálpaði »Geir«. »Asta« hafði strandað við Hrísey á þriðjudagsnóttina. Öll voru þessi skip óskemmd eða lítt skemmd nema »Smaragd«, sem sagt er talsvert mikið skemmt.

Íslendingur. 20 ágúst 1915.


Óskar VE 286 með fullfermi af síld á Siglufirði.                                                         (C) Heimaslóð.

Línuveiðarinn Óskar frá Vestmannaeyjum
               strandar við Skagafjörð
                        Mannbjörg

Síðastliðinn þriðjudag voru tvö Skip frá Vestmannaeyjum við kolaveiðar í Skagafirði. Var annað línuveiðarinn Óskar, um 152 smálesta eimskip, eign Gísla Magnússonar, útgerðarmanns í Eyjum. Hitt var vjélbáturinn Ágústa, einnig frá Vestmannaeyjum. Aflinn var settur í Óskar og átti hann að fara með aflann til Englands. Aðfaranótt miðvikudags lögðust bæði skipin austan við Lundey og ætluðu að liggja þar næturlangt. En um nóttina rak Óskar upp á sker, sem er fyrir sunnan Lundey, brotnaði hann á skerinu og fylltist af sjó. Skipsmenn komust allir yfir í vjelbátinn og þeir gátu náð farangri sínum með  , en öðru ekki. Næsta dag fóru þeir aftur um borð í Óskar til þess að reyna að bjarga einhverju en , þá var skipið komið á hliðina, og um sama leyti, tók það af skerinu og sökk. Er fjögra faðma dýpi þar sem skipið sökk. Nokkuð af fiski var í Óskari, er hann sökk. Skipið var vátryggt í Sjóvátryggingarfjelaginu fyrir 50 þúsund krónur, en sú vátrygging var lág, því nýlega hafði verið kostað miklu til skipsins. Er tjón eiganda tilfinnanlegt.
Gísli Magnússon var sjálfur á skipinu þegar það strandaði, en skipstjóri var Egill Jóhannsson, duglegur maður og sjógarpur hinn mesti. Ágústa flutti strandmennina til Siglufjarðar, og koma þeir hingað með fyrstu ferð.

Morgunblaðið. 17 október 1930.


Magnús Hinriksson kafari með vélsímann úr Óskari VE.                                            Mynd úr Feyki.

Fann flak skips sem strandaði 1930

Magnús Hinriksson kafari á Sauðárkróki fann nýlega flak skips sem strandaði við Lundey á Skagafirði á haustdögum 1930. Magnús náði vélsímanum úr skipinu, nokkuð heillegum en að vonum hefur tækið látið ansi mikið á sjá eftir að hafa legið í sjónum í tæp 67 ár. Það er nú til meðhöndlunar í Minjahúsinu á Sauðárkróki hjá Sigríði Sigurðardóttir minjaverði. Magnús sagðist í samtali við Feyki hafa vitað af flakinu þarna í nokkurn tíma og verið ákveðinn í að finna það. Hafði hann viðað að sér upplýsingum varðandi staðsetningu þess m.a. fengið lóranpunkta frá Ragnari Sighvatssyni trillusjómanni á Sauð- árkróki, en hann festi ígulkeraplóg í því á sínum tíma. Það var ansi erfitt að rogast með stykkið upp úr sjónum, en flakið var á 12 metra dýpi. Ég fann ekki akkerið frá bátnum sem ég var á, ætlaði að binda í það, og var að verða súrefnislaus þegar ég kom upp", sagði Magnús. Hann kvað afturhluta skipsins enn heillegan þar sem það lægi á hliðinni, gufuketillinn væri upp úr botnleðjunni sem og skipsskrúfan. Það var 15. október 1930 sem línuveiðarinn Óskar VE-286 hraktist undan veðri inn á Skagafjörð og steytti á skeri við Lundey. Skipverjunum var bjargað af áhöfn Ágústu VE sem var skammt undan. Óskar, sem sökk daginn eftir, var 152 tonn að stærð, smíðaður í Englandi 1890. Eigandi skipsins var Gísli Magnússon útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

Feykir. 16 tbl. 7 maí 1997.


Flettingar í dag: 589
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719316
Samtals gestir: 53455
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:24:42