19.04.2019 14:19

M. b. Sæfari MB 11.

Mótorbáturinn Sæfari  MB 11 var smíðaður í Frederikshavn í Danmörku árið 1913 fyrir Sigurð Þorvarðarson Kaupmann, Þorvarð Sigurðsson og Karvel H Jónsson, allir í Hnífsdal og Grím Jónsson verslunarmann í Álftafirði, hét þá Sæfari ÍS 360. Eik og fura. 27 brl. 36 ha. Alpha vél. Sæfari var í póst og vöruflutningum á Ísafjarðardjúpi, veturinn 1913-14. Seldur Sigurði Þorvarðarsyni árið 1923. Seldur 1 nóvember 1930, Magnúsi Guðmundssyni og Axel Sveinbjörnssyni á Akranesi, hét þá Sæfari MB 11. Ný vél (1931) 76 ha. Tuxham vél. Ný vél (1937) 90 ha. June Munktell vél. Seldur 2 nóvember 1940, Hreggviði Bergmann og Huxley Ólafssyni í Keflavík, hét Ægir GK 263. Ný vél (1945) 165 ha. Gray vél. Hét Ægir KE 11 frá árinu 1949. Seldur 15 nóvember 1949, Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, hét Þorlákur ÁR 5. Báturinn slitnaði úr legufærum í óveðri í Þorlákshöfn,13 apríl árið 1962 og rak á land og eyðilagðist.


Sæfari MB 11 á siglingu.                                                                                    Ljósmynd í minni eigu.

       Nýr vélarbátur til Hnífsdals

Nýr vélarbátur, af sömu gerð og vélarbátur Karls Löve og þeirra félaga, kom hingað á sunnudaginn. Hafði haft 12 daga útivist og fengið harðneskjuveður. Með bátinn komu: Hjörtur Lárusson skipstjóri, Ingólfur Jónsson formaður og Eiríkur Einarsson skipstjóri.
Eigendur eru sagðir: Sigurður Þorvarðsson kaupmaður í Hnífsdal og Þorvarður sonur hans, Karvel H. Jónsson formaður og Grímur Jónsson verslunarmaður í Álftafirði. Báturinn heitir "Sæfari."

Vestri. 33 tbl. 30 ágúst 1913.

       Sæfari ÍS 360 í póstferðum

Sæfari heitir vjelabátur er hafður verður í vetur á Ísafjarðardjúpi til þess að annast þar flutning á pósti farþegum og farangri. Byrjar hann ferðir sínar kl. 7 í fyrramálið frá Ísafirði, en áætlaðar 4-5 ferðir um Djúpið í hverjum mánuði. Viðkomustaðirnir eru helstir þessir:
Aðalvík, Ármúli, Arngerðareyri, Grunnavík, Hesteyri, HnífsdaIur, Höfði, Laugaból, Melgraseyri, Sandeyri, Skálavík, Vatnsfjörður, Æðey og Ögur.

Vísir. 4 nóvember 1913.


Þorlákur ÁR 5 á línu eða netaveiðum.                                             (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

     Bát rekur á land í Þorlákshöfn

Í landssynningsrokinu í morgun slitnuðu legufæri 27 tonna vélbátsins Þorláks ÁR-5 austur í Þorlákshöfn. Rak bátinn þegar upp að klöppunum aðeins um bátslengd norðar en þar sem vélbáturinn Faxi fórst fyrr í vetur. Leki kom þegar að Þorláki og mun hann vera fullur af sjó en stendur eins og skorðaður í klöppinni. Er hugsanlegt að tilraun verði gerð til að bjarga honum síðar í dag, ef vindurinn snýst til sunnanáttar eins og spáð er. Þó er óvíst um björgun vegna þess að báturinn er gamall, smíðaður 1913 í Frederikstad. Þorlákur hét áður Ægir frá Keflavík. Nokkur ár eru síðan hann var keyptur til Þorlákshafnar og hefur hann verið gott aflaskip, skipað þúsundum lesta af fiski á land í Þorlákshöfn á undanförnum árum.
Vísir átti í morgun tal við Benedikt Thorarensen framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Meitils. Hann sagði að legufærin á Þorláki hefðu slitnað kl. 9 í morgun. Það byrjaði að hvessa af SA í gærkvöldi og stóð rokið af sömu átt alla nóttina.
Þetta er hættulegasta áttin í Þorlákshöfn, sérstaklega ef hún er stöðug lengi. Þorláki var lagt nyrzt af Þorlákshafnarbátum, en það vantar eins og 2-3 steinker í hafnargarðinn til þess að bátur sem þar er sé öruggur. Það sem hér gerðist var að við lágfjöru fóru að skella grunnbrot yfir Þorlák. Keðjan var fullstrekkt þegar brot kom yfir hann og var það svo mikið að áður en það skall yfir sá í botnkeðjuna. Í þessu tilfelli slitnaði báturinn ekki upp vegna þess að lásaðist úr, heldur slitnaði keðjan beinlínis í sundur. Það skipti svo engum togum að bátinn rak upp í fjöru undir frystihúsið á líkum stað og Faxa fyrr í vetur. Eins og nú er ástatt í rokinu er ekki hægt að komast út í bátinn hvorki frá sjó né landi. Skipið var mannlaust. 

Vísir. 13 apríl 1962.


Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723706
Samtals gestir: 53706
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 11:45:26