26.05.2019 11:27

1351. Snæfell EA 310. TFBY.

Togarinn Snæfell EA 310 er búinn að liggja lengi við bryggju á Akureyri og endar sjálfsagt í brotajárni á næstu misserum eins og önnur gömul skip sem hefur verið lagt. Skipið var smíðað hjá Söviknes Verft A/S í Syvikgrend í Noregi árið 1968, hét fyrst Stella Kristína. 1.319 bt. 2.996 ha. Bergen vél, 2.205 Kw. Skipið komst í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf árið 1973 og hét Sléttbakur EA 304.Skipið var lengt og breytt í frystiskip árið 1987. Hét svo seinna Akureyrin EA 110, þá í eigu Samherja hf. sem á skipið í dag. Einstaklega fallegt og vandað skip.


1351. Snæfell EA 310 við bryggju á Akureyri.                                        (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                                                                              (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Sléttbakur EA 304.                                                                                  Ljósmynd í minni eigu.

                 Ný fiskiskip
                   Sléttbakur EA 304
                   Svalbakur EA 302

Í desember s. l. komu tveir skuttogarar til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Togara þessa keypti útgerðarfélag Akureyringa h.f. frá Færeyjum, og hétu þeir áður Stella Kristina og Stella Karina. Skipin voru byggð í Sovikens Verft A/S í Noregi á árunum 1968-1969, og útbúin sem verksmiðjuskip. í skipunum voru vinnslu- og frystitæki, þar sem fullvinna átti fiskinn um borð, en vinnslutæki hafa nú verið fjarlægð og sett í staðinn blóðgunarker, aðgerðarborð, þvottaker og færibönd eins og algengast er í skuttogurum þeim sem íslendingar hafa fengið undanfarið. Þar sem hér var um verksmiðjuskip að ræða var gert ráð fyrir stórri áhöfn, 48-50 mönnum, svo rúmt ætti að vera um þessa 23-24 menn sem á skipunum verða. Meðfylgjandi mynd sýnir fyrirkomulag í þessum skipum, sem eru systurskip. Eftirfarandi lýsing á tækjabúnaði á því við um hvort skipið sem er.
Aðalvél skipsins er frá MWM, gerð TBRHS 345 A, sem skilar 2.200 hö. við 500 sn/mín. Við vélina er niðurfærslugír (2:1) frá RENK, gerð AUSL 63, sem tengist 4ra blaða skiptiskrúfu frá Liaaen, gerð CP D71/4, um 2,8 m í þvermál. Framan á vélinni er aflúttak fyrir vökvadælur vindukerfisins. Hjálparvélar eru þrjár, allar eins, frá MWM, gerð RHS 518 A, sem gefa 166 hö. við 1000 sn/mín. Á vélunum eru rafalar frá Siemens, sem gefa 154 KVA, 380 V, 50 rið. Stýrisvél er frá Frydenbö, gerð HS 40, sem gefur maks. snúningsvægi 8000 kgm. Sjálfstýring er frá Anschútz. Vindukerfi skipsins er vökvaknúið (lágþrýst), og er það frá A/S Hydraulik Brattvág. Togvindur eru tvær (splitwinch), gerð D1A10U, sem gefa hvor um sig 6,5 tonna meðaltogkraft við 66 m /mín vírahraða. Víramagn á hvora tromlu er 1500 faðmar af 3 1/4" vír. Togvindurnar eru staðsettar aftarlega á togþilfari, sitt hvoru megin við skutrennu. Grandaravindur eru tvær, gerð MA8/A8, sem gefa um 6 tonna togkraft. Þessar vindur eru staðsettar framarlega á togþilfari, og eru bobbingarennurnar í göngum sitt hvorum megin við þilfarshúsið. Vegalengd frá skutrennu og að vindum er um 45 m. Þá eru tvær samskonar vindur á bátaþilfari, en þær eru fyrir hífingar. Aftast á bátaþilfari er vinda, með 5 tonna togátaki, til að losa trollpokann og hífa hann aftur, þegar kastað er. Akkerisvindan er af gerðinni 3/B7-47. Vindum er stjórnað frá stjórnklefa, sem staðsettur er á togþilfari, aftan við þilfarshúsið. Af siglingatækjum um borð í skipinu má nefna: Loftskeytastöð: Dansk Radio. Ratsjár: Raytheon 1060/25, 10 cm, 48 sml. og Raytheon 1060/6X, 3 cm, 48 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A 201, sjálfvirk. Loran: Furuno LC-1. Gyroáttaviti: Anschútz. Fiskleitartæki eru eftirfarandi: Asdik: Simrad Sonar SB 3 tengt fisksjá Simrad Sonar Scope CK 2. Dýptarmælar: Simrad EK 38 A og Simrad EK 50 A. Við þessa mæla er tengd fisksjá Simrad Echo Scope CB 2. Netsjá: Elac.
Stærð skipsins 834 brl.
Mesta lengd 61.74 m.
Lengd milli lóðlína 54.33 m.
Breidd 10.21 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.00 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.80 m.
Djúprista 4.75 m.
Lestarrými undir neðra þilfari . . 820 m3
Lestarrými á milliþilfari 180 m3
Olíugeymar (skiptigeymar) ... . 398 m3
Ferskvatnsgeymar 41 m3
Lýsisgeymar 42 m3
Hraði í reynslusiglingu 13,9 sm
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson og fyrsti vélstjóri Valur Finnsson. Á Svalbak er Halldór Hallgrímsson skipstjóri og fyrsti vélstjóri er Freysteinn Bjarnason. Framkvæmdastjórar Útgerðarfélags Akureyringa eru Vilhelm Þorsteinsson og Gísli Konráðsson. Ægir óskar eigendum og áhöfnum til hamingju með þessi glæsilegu skip.

Tímaritið Ægir. 1 desember 1973.


Flettingar í dag: 667
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723332
Samtals gestir: 53672
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 23:28:56