08.06.2019 10:29

E. s. Hrímfaxi GK 2. TFPB.

Gufuskipið Hrímfaxi GK 2 var smíðaður í Middlesborough í Englandi árið 1918. 641 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík í ofsaveðri þann 27 febrúar 1941. Var þá Portúgalskt og hét Ourem. H/f Sviði í Hafnarfirði og h/f Hrímfaxi í Reykjavík keyptu skipið á strandstað, náðu því út og létu gera við það út í Englandi. Fékk nafnið Hrímfaxi GK 2. Skipið var síðan í flutningum með ísvarinn fisk til Englands og í almennum vöruflutningum. Í nokkra mánuði á árinu 1943 og fram á árið 1944 var Hrímfaxi í strandferðum í stað Súðinnar sem var þá í viðgerð eftir árás þýskrar herflugvélar á Skjálfandaflóa. Haustið 1946 og fram á vor 1947 var Hrímfaxi í síldarflutningum frá Reykjavík til Siglufjarðar (Hvalfjarðarsíldin). Að þeim flutningum loknum var skipinu lagt. Skipið var selt 10 október 1950, Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík, hét Auðhumla GK 2. Skipið var selt til Indlands í mars árið 1951.


Hrímfaxi GK 2 í slippnum í Reykjavík.                                                          Ljósmynd úr safni mínu.

  Stórfellt skipatjón af völdum fárviðris

    43 skipbrotsmönnum bjargað

Á fimmtudaginn hvesti mjög af norðaustri hjer við sunnanverðan Faxaflóa. Jókst veðrið er á daginn leið og var komið fárviðri kl. 8 á fimmtudagskvöld. Þá um kvöldið fór vindhraðinn hvað eftir annað upp í 12 vindstig. Hjelst sá vindstyrkur alla föstudagsnóttina og áfram í gær til kvölds. Skipatjón af völdum þessa fárviðris hefir orðið gríðarmikið, og er ekki fengið glögt yfirlit yfir það, þegar þetta er ritað. Frjest hefir um manntjón af einum siglfirskum bát, er á voru sex menn. Símalínur slitnuðu mjög í ofviðrinu og eru fregnir utan af landi því ekki greinilegar. En svo virtist í gær, sem veðurofsinn hafi verið mestur við Faxaflóa, bæði við Breiðafjörð og í Vestmannaeyjum hafi vindstyrkur verið mun minni. Hjer verður lauslega skýrt frá skipatjóni því, sem varð í Reykjavíkurhöfn af völdum óveðursins. Eins og frá var skýrt hjer í blaðinu í gær, rak erlent skip á land við Sjávarborg kl. um 10 á fimmtudagskvöld. Reyndist þetta vera portúgalska skipið Ourem, sem er 321 netto tonn og lestar 800 tonn. Farmur skipsins var áfengi og sement. Á skipinu voru 19 menn. Jafnskjótt er skipið hafði kent grunns gekk sjólöðrið yfir það, enda þótt það í fyrstu lægi beint fyrir. Var rokið þá svo mikið að rokmökkinn lagði inn yfir bæinn og voru sumar göturnar sævi drifnar. Kl. 10 ½  komu þeir á strandstaðinn Jón O. Jónsson, Guðbjartur Ólafsson forseti Slysavarnafjelagsins og Jón Bergsveinsson erindreki, ásamt fleiri mönnum. Átti Morgunblaðið tal við Jón O. Jónsson um björgunina og styðst frásögn blaðsins við það. Auðsætt var þá þegar, að ómögulegt mundi að koma bátum við við björgunina sökum veðurofsans. Var þá skotið fluglínum að skipinu og tókst brátt að hitta yfir það mitt. Virtust þá skipverjar draga að sjer skotlínuna, en drógu hinsvegar ekki að sjer sjálfa gildari taugina með björgunarútbúnaðinum. Furðaði þá, sem að björguninni unnu mjög á því. Ekki sinntu skipverjar heldur ljósmerkjum, er björgunarsveitin fékk breskan aðstoðarmann til að gefa þeim. Var í tvær klukkustundir samfleytt reynt að gefa þeim merki og fleiri línum skotið yfir skipið, en allt kom fyrir ekki, skipverjar virtust ekki átta sig á, hvernig þeir ættu að snúa sjer í þessu. En öðru hverju þeyttu þeir eimflautu skipsins. Af þessu leiddi að björgunarsveitin gat ekki hafst að og varð því að bíða alla nóttina. Voru það 4 menn og voru það auk Jóns Oddgeirs, þeir Ingvar Magnússon vjelamaður hjá Sláturfjel. Suðurlands, Guðmundur Sigurðsson og Jóhannes Guðjónsson. Hjeldu þeir vörð á staðnum. Lögreglan lánaði bifreið með mjög sterkum Ijósum og var sundið milli skips og lands lýst upp með þeim. Er á nóttina leið versnaði veðrið mjög og hefði þá alls ekki verið hægt að bjarga í björgunarstól. Gekk nú sjór allmjög yfir skipið og það tekið að velta. Hafði skipshöfn þess þá safnast saman í brúnni. KI. 8 um morguninn tókst svo dönsku skipshöfninni að skjóta línu til lands. Var þá hnýtt í hana línu úr landi og drógu skipsmenn hana síðan að sjer og síðan sjálfan björgunarstólinn.
Hófst nú björgunin og var allri skipshöfninni, samtals 24 mönnum, bjargað í land í björgunarstólnum á þremur stundarfjórðungum. Var skipshöfnin lítt velkt og hin hressasta. Kvað skipstjórinn þá hafa reynt að bjarga portúgölsku skipshöfninni yfir í sitt skip, en það hefði ekki tekist vegna þess, að ekki tókst að fá þá til þess að taka við línum frá þeim, enda var þá naumas hægt að hreyfa sig nokkuð á Ourem vegna sjógangs og brimlöðurs.
Þegar Dönunum hafði verið bjargað var tekið að athuga möguleikana á frekari björgunartilraunum gagnvart skipshöfninni á Ourem. En vegna sjógangs varð ekki aðhafst þá þegar, en beðið þess, að lágsjávað yrði. Kl, 10 voru svo fimm hraustir og þrekmiklir ungir menn, allir íslenskir, dregnir í björgunarstólnum út í danska skipið. Hjet sá Hafliði Magnússon, er fyrstur fór um borð. Er hann þekktur íþróttamaður og hraustmenni. Hlutverk þeirra fimm var að leggja kaðla á milli skipanna , og í brúna á portúgalska skipinu og fikra sig eftir þeim yfir í það til þess að sækja hina þjökuðu skipshöfn, einn á eftir öðrum. En þegar hjer var komið tókst 4 skipverjum að komast af sjálfsdáðum yfir í danska skipið og voru þeir fluttir til lands í björgunarstólnum og Síðan haldið áfram með björgunina, Var íslendingunum, sem að því verki unnu mjög óhægt um vik vegna þess, hve þjakaðir og máttfarnir skipverjar voru. Aðalörðugleikarnir voru á því að koma skipbrotsmönnum yfir í danska skipið., En fyrir mjög vasklega framgöngu sjálfboðaliðanna er að björguninni unnu, tókst björgun allrar skipshafnarinnar slysalaust og var því lokið kl. 11 ½  árdegis. Hinir portúgölsku skipbrotsmenn voru mjög illa til reika, sumir berfættir, klæðlitlir, votir og kaldir. Engir þeirra höfðu spent á sig  björgunarbelti. Einn skipbrotsmannann var fluttur í sjúkrahús en aðrir á gistihús. Jón O. Jónsson. sem björguninni stjórnaði, rómaði mjög kjark og dugnað þeirra sem að björguninni unnu. Þá lá og við að þriðja skipið ræki á land í gær af ytri höfninni. Var það 848 tonn nettó og heitir Cler Miston.  Fyrrihluta dags tók það að reka á legunni, en tókst þó að halda sjer frá landi.

Morgunblaðið. 1 mars 1941.


Ourem og Sonja Mærsk á strandstað í Rauðarárvíkinni.                Mynd úr þrautgóðir á raunastund.

            "Ourem" náð á flot
  Rennt á land í Örfirisey í morgun

Á flóðinu í morgun tókst að flytja e.s. "Ourem", sem strandaði í Rauðarárvík á síðasta ári frá strandstaðnum og inn í höfnina hér, en vegna þess, að slippurinn getur ekki tekið skipið upp sem stendur, var því rennt á land í Örfirisey. Eins og sagt var frá í Vísi á sínum tíma í desember, tókst þá að rétta skipið við, það hallaðist frá landi, en það valt aftur, þegar festar, sem, áttu að halda því, slitnuðu. Hefir það komið fyrir oftar en einu sinni, að tekizt hafi að rétta skipið, en festarnar slitnað og það hallast frá landi á ný. En fyrir hálfum mánuði tókst að lyfta því hærra í fjöruna og var þá hægt að hreinsa lestar þess að mestu eða öllu. Síðan var sú aðferð höfð, að fram- og miðlestir skipsins voru gerðar loftþéttar að ofan og vatninu þrýst úr þeim með lofti, en afturlestin var þurrkuð með því, að sjónum var dælt úr henni. Flaut skipið þá og var þá hægt að flytja það inn á höfnina. Vísir hitti einn af eigendum Ourem, Sigfús Bjarnason, heildsala, í morgun. Keypti hann skipið í mai s.l. ásamt Ólafi Georgssyni, en síðan gekk þriðji maðurinn, Baldvin Einarsson, í félagið. Þeir voru svo heppnir, að fá Markús Ívarsson, hinn þjóðkunna dugnaðarmanna, til að taka að sér að stjórna björguninni og hefir þessi árangur náðst eftir hans fyrirsögn. Kristján Gíslason, vélsmiður, var aðalverkstjóri, og á hann auðvitað sinn þátt í árangrinum. Við marga örðugleika var að etja, fyrst og fremst vegna vöntunar á tækjum, og í öðru lagi skilningsleysi ýmsra manna, en margir veittu þeim mjög góða aðstoð, svo sem, Commander Watchlin, Salvage Officer, sem lánaði ágæt björgunartæki, Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri, Bjarni Tómasson, kafari og Ólafur Jónsson, framkvæmdarstj Alliance og Pálmi Loftsson, forstjóri Skipaútgerðarinnar, sem lánuðu skip. Björgunin hefir reynzt mjög kostnaðarsöm, enda tekið langan tíma.

Vísir. 17 febrúar 1942.


Ourem náð á flot í Rauðarárvíkinni í febrúar 1942.                    Mynd úr Þrautgóðir á raunastund.

 E.s. "Hrímfaxi" strandar á Raufarhöfn
  Skipið komst út aftur, en er skemmt

Gufuskipið Hrímfaxi, hjeðan úr Reykjavík, strandaði í gærmorgun á Raufarhöfn, en komst á flot aftur, mikið skemmt. Blaðið hafði í gærkveldi tal af framkvæmdastjóra Hrímfaxa h.f., sem á skipið, Kristján Bergsson, og sagðist honum svo frá: Um kl. 10 í gærmorgun strandaði skipið, er það var á leið út úr höfninni á Raufarhöfn, áleiðis til Þórshafnar. Hafnsögumaður var ekki farinn af skipsfjöl, er skipið tók niðri. Þar sem skipið tók niðri, stóð það fast í rúma klukkustund, en komst þá af eigin ramleik á flot aftur, og leitaði hafnar af nýju. Var það þá allmjög laskað, leki kominn að því, stýrið og skrúfan brotið. Er jafnvel ekki víst að takast megi að halda skipinu á floti með dælunum, og bjóst framkvæmdastjórinn jafnvel við að renna þyrfti því á land. Sjór var kominn í vjelarrúm skipsins, en ekki hafði sjór komist í lestarrúm þess, er framkvæmdastjórinn átti síðast tal við Raufarhöfn, um hádegi í gær. Hrímfaxi er gufuskip, um 800 smálestir að stærð. Var það áður í eigu Portugalsmanna og strandaði hjer á Rauðarárvíkinni í ofveðrinu mikla þann 15. jan. 1941. Skipið hefir verið í vöruflutningum á vegum Skipaútgerðar ríkisins. Líklegt er talið að draga verði skipið hingað suður til viðgerðar.

Morgunblaðið. 23 desember 1943.


Hrímfaxi GK 2 í Vestmannaeyjahöfn.                                                            Ljósmynd úr safni mínu.

E.s. Hrímfaxi GK 2. TFPB  /  Ourem

E.s. Hrímfaxi. TFPB-GK 2 Stálskip með 700 ha. gufuvél. Stærð: 641 brúttórúml. og 313 nettórúml. Aðalmál: Lengd: 52,44 m. Breidd: 9,17 m. Dýpt: 4,68 m. Smíðað i Middlesbourough í Englandi árið 1918 fyrír brezka sjóherinn sem eyðingarskip þýzkra kafbáta. Var skipið smíðað stefnislaga að aftan til þess að villa kafbátsmönnum sýn um á hvaða leið það væri. Þá var það vel búið vélum og gat gengið 16 sjómilur. Skip þetta kom fyrst hingað til Íslands sem leiguskip og hét þá Ourem frá Portúgal. Í ofsaveðri þann 27. febrúar 1941 sleit Ourem upp hér á Reykjavíkurhöfn og rak á land í  Rauðarárvikinni ásamt danska flutningaskipinu Sonju Mærsk. Að ári liðnu var skipinu náð út og gert við það í Grimsby í Englandi, og hlaut það þá nafnið Hrímfaxi. Eigendur þess urðu hf. Sviði í Hafnarfirði og Hf. Hrímfaxi í Reykjavík. Hrímfaxi hóf siðan og siglingar til Bretlands með ísaðan fisk undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra. Flutti skipið um 7500 kit í ferð. Árið 1943 var Hrímfaxi leigður Skipaútgerð ríkisins til strandferða og var í Þeim næstu fimm árin. Siðla árs 1950 var skipið tekið í notkun á ný eftir tveggja ára legu inni á Sundum og hét þá Auðhumla. Auðhumla fór síðan nokkrar ferðir til Bretlands og meginlandshafna, unz það var selt Indverjum og afhent í Bretlandi árið 1951. Myndin af Hrímfaxa er tekin í Vestmannaeyjum 1943. Skipið er málað grárri stríðsmálningu, eins og öll íslensku flutningaskipin, sem voru í millilandasiglingum á þeim tíma.

Heimild: Æskan. 2 tbl. 1 feb 1972. / Íslensk skip. Guðmundur Sæmundsson.

"Fell" og "Auðhumla" seld til útlanda

Tvö íslenzk skip hafa nýlega verið seld til útlanda. Annað þeirra er e.s. Auðhumla, sem áður hét Hrímfaxi hefur nú verið seld til Indlands. Auðumla gamla hefur lent í ýms ævintýri. Hingað kom hún undir spönsku eða portugölsku flaggi með vínfarm á stríðsárunum síðustu. Í ofviðri rak hana upp í Rauðarárvíkinni áður en farminum hafði verið skipað upp. Þá gengu marglr á reka í Rauðarárvíkinni. Einhverjum tókst að ná í tunnu af víni sem lögreglan svo náði af þeim aftur. Aðrir gátu fyllt flöskur af hinum gómsæta vökva. Þá voru nokkrir sem aðeins fengu á makakútinn. Auðhumla var síðan keypt af nokkrum íslendingum og gerð héðan út. Hitt skipið er vélskipið Fell, er hefur verið selt til Svíþjóðar og fór það þangað um síðustu mánaðarmót. Eigandi þess var Sigurjón Sigurðsson útgerðarmaður.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1951.Flettingar í dag: 399
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 708
Gestir í gær: 231
Samtals flettingar: 1922777
Samtals gestir: 487651
Tölur uppfærðar: 13.7.2020 15:12:43