12.08.2019 20:25

Patreksfjörður um miðja síðustu öld.

Vatneyri og Geirseyri í Patreksfirði voru miklir útgerðarstaðir fyrir og eftir árið 1900 og eru það enn í dag. Islandsk Handels & Fiskeri Kompagni hófu fyrir aldamótin 1900 stórfelda útgerð frá Patreksfirði, og létu smíða togarann Thor hjá Edward Brothers í North Shields í Englandi árið 1899. Þetta var mikið skip á þeim tíma, 205 brl. Það er af honum að segja að hann var seldur Björgunarfélagi Vestmannaeyja haustið 1919 og kom fyrst þangað hinn 26 mars árið 1920. Fékk nafnið Þór og var fyrsta björgunarskip íslendinga. Skipið var selt í júlí árið 1926, Ríkissjóði Íslands og var eftir það í þjónustu Landhelgisgæslunnar sem stofnuð var það ár. Örlög Þórs urðu þau að skipið strandaði á Sölvabakkaskerjum á Húnaflóa 21 desember árið 1929 og eyðilagðist. Einnig var stórfelld þilskipaútgerð gerð út af I.H.F. um aldamótin og lengi eftir það.Togaraútgerð var mikil frá Patreksfirði nánast alla 20 öldina með nokkrum hléum þó. Það má með réttu segja um Patreksfjörð að hann er vagga togaraútgerðar íslendinga, ekki síður en byggðarlaganna við Faxaflóann.


Vatneyri í Patreksfirði um miðja síðustu öld. Sjá má Nýsköpunartogarann Ólaf Jóhannesson BA 77 við bryggju í nýju höfninni.           Ljósmynd í minni eigu.

   Tregur afli á Patreksfirði í sumar

Sumarið, sem nú er að kveðja hefir verið með eindæmum gott. Heyfengur er góður og fullkomlega í meðallagi að vöxtum. Norðanátt er búin að haldast um langt skeið og farið að kólna nokkuð í veðri. Frost hafa þó engin komið enn sem komið er. Vel er sprottið í görðum, en lítið farið að taka upp. Patreksfirðingar hafa séð fyrsta fyrirboða haustsins í snjó í fjöllum milli fjarðarins og Bíldudals. Snjóaði þar fyrir þrem nóttum. Þó að góð tíð hafi líka haldist í sumar til sjávarins, er afkoma þar öllu lakari. Dragnótaveiðarnar hafa gengið illa og afli verið ákaflega tregur. Opnir bátar hafa líka veitt lítið á handfæri í sumar. Um miðjan júlí aflaðist aftur á móti allmikið af lúðu á litla trillubáta. Þetta aflahlaup stóð að vísu stutt, en að því varð mikil bót. Enn stærri bátur rösklega 20, lestir var gerður út á sprökuveiðar og sótti hann á dýpri mið í áttina til Grænlands. Aflaði hann heldur tregar en smærri bátarnir, sem sóttu skemmra. Tveir togarar á karfaveiðum hafa lagt upp afla sinn í verksmiðjuna á Vatneyri. Egill rauði hefir landað tvisvar og Ísólfur 6 eða 7 sinnum. Ganga karfaveiðarnar vel. Fiskur dragnótabátanna og opnu bátanna er frystur fyrir Ameríkumarkað.

Tíminn. 12 september 1950.


Patreksfjörður. Skreiðarhjallarnir í forgrunni vitna um hina miklu fiskvinnslu sem ávallt hefur verið þar frá fornu fari.            Ljósmynd í minni eigu.

            Fréttabréf að vestan:                            Theodór Árnason.
 B.v. Ólafur Jóhannesson fer í fyrstu            veiðiförina á þriðjudag.
        Minna um skipakomur nú til                   Vatneyrar en fyrr í vetur.    

Veturinn hefir verið æði harður hér, síðan hann settist að (um 20. nóv.), veðrátta óvenju umhleypingasöm og frosthörkur nokkrar. Er þó líklegt, að hér sé síður um að kvarta en víðasthvar annarsstaðar á landinu. Tófur munu hafa verið talsvert mikið á ferli nálægt byggð og jafnvel í byggð, og þó nokkrar verið skotnar á næstu grösum. Einn morguninn, fyrir skemmstu, var mér sýnd slóð eftir tófu, sem farið hafði í hægðum sínum undir gluggunum á framhlið spítalans (þar, sem ég hefi dvalið) og stefnt niður á Vatneyri.
Merkustu tíðindi í þessu plássi á vetrinum er að sjálfsögðu koma nýja togarans, Ólafs Jóhannessonar, en hann sigldi inn á nýju höfnina árdegis hinn 14 þ.m., fánum skreittur, í fögru veðri. Þyrptust þorpsbúar allir, sem vettlingi gátuð valdið niður að höfninni, til þess að fagna komu hans og skoða hann. Stutt en virðuleg fagnaðarathöfn fór þá fram þar, við höfnina, en um kvöldið var ýmsum borgurum og frúm þeirra boðið til hófs, úti í skipinu. Hafði það farið virðulega fram og vakti það fögnuð, að frú Áróra Jóhannesson, ekkja Ólafs heitins Jóhannessonar, stofnanda þeirra miklu fyrirtækja, sem nú hafa um langt skeið haldið uppi mestum atvinnurekstri hér, háöldruð kona, sem aldrei sést nú orðið á mannamótum, heiðraði hóf þetta með nærveru sinni. Dagarnir, sem síðan eru liðnir, hafa verið notaðir til þess að búa skipið á veiðar, meðal annars til að fullgera hraðfrystikerfið, sem komið hefir verið fyrir í skipinu, og eins og menn vita, er það í fyrsta sinni, sem slík tilraun er gerð á togara hér.
Mjölvinnslutækin voru þá og reynd og er talið, að þau séu í bezta lagi, enda var reyndur maður sendur út héðan til þess að vera með í ráðum um fyrirkomulag þeirra og var farið að tillögum hans. Fer "Ólafur Jóhannesson" nú út í frumlega veiðiför á morgun (þriðjudag), eða í fernskonar tilgangi: fyrst og fremst á hann að veiða bæði í salt og ís, þá á að reyna til þrautar gúanótækin, og loks á að flaka og hraðfrysta um borð, það, sem til vinnst. Það hef eg ennfremur frá góðum heimildum, að von muni vera á öðrum nýjum togara, síðar á þessu ári.
Skipakomur hafa verið minni hér nú upp á síðkastið, en var í haust og fyrri hluta vetrar, því að þá var það svo að segja daglegur viðburður, að hingað leituðu erlendir togarar, fleyri og færri. Voru hér þá oft 8-10 þýskir togarar og enskir í einu, ef nokkuð var að veðri á miðunum. Það var t.d. áberandi, hversu mikið var um slysfarir á erlendu togurunum, einkum hinum þýsku, og þótti líklegt að nú er mikið af óvönum mönnum og unglingum á þeim togurum. Lágu oftast margir erlendir sjómenn á spítalanum hér samtímis. Hafa þeir eflaust spurnir af því að hér ar afburða góður læknir og nýja sjúkrahúsið fyrirmyndar stofnun. Þekki ég það nú sjálfur af eigin raun, eftir tíu vikna, erfiða legu þar Hefi  ég aldrei notið betri hjúkrunar og aðhlynningar á sjúkrahúsi. Fyrst og fremst er yfirhjúkrunarkonan, kornung manneskja, frábær í sínu fagi, svo að sjúklingar hljóta að dá hana og virða. En síðar er starfsliðið allt góðlyndar og glaðlyndar stúlkur, sem allt vilja gera sjúklingum til þægðar og aldrei eru önugar. Það þótti mér nýstárlegt á sjúkrahúsi. Og þess vegna nefni ég það hér. 
 En sú skipakoman, sem mesta athygli vakti hér, önnur en koma nýja togarans var það, er "TröIlafoss", stærsta skip íslenzka flotans, kom hingað, laust eftir mánaðamótin og brunaði viðstöðulaust inn í nýju höfnina. Tók Tröllafoss hér um 800 smál. af karfamjöli og 100 smál. af hraðfrystum fiski. Mönnum hefir, að því ég held, þótt það miður, að t.d. strandferðaskipin "Esja'' og "Hekla" hafa ekki nótað nýju höfnina nema stöku sinnum. Bera því fyrir sig, að þau þurfi að fara aftur á bak út úr henni, enn, sem komið er. Þetta er hégómalegur fyrirsláttur.
Úr því að Tröllafoss gerir þetta, þá ættu hin skipin að gera það líka, því að fyrst og fremst er þetta engin töf. Og í öðru lagi er afgreiðsla öll miklu greiðari í nýju höfninni en við gömlu bryggjuna. Þetta sönnuðu togararnir í vetur, þeir sem lönduðu hér karfa. Þeir fóru jafnan inn í nýju höfnina og voru afgreiddir á allt að því helmingi skemmri tíma en togarar voru afgreiddir nokkurstaðar annarsstaðar á landinu. T.d. 400 smálesta afli á einum vinnudegi.
Félagslíf er hér frábrotið. Og ég held að fólkið hér sé fáskiptnara og máske hlédrægnara en víða annarsstaðar. Tvívegis hafa þó verið leiknir hér sjónleikir í vetur, og sérstaklega annar þeirra "Öldur" eftir Jakob Jónsson frá Hrauni, var mikið rómaður, að því leyti, að þar hefði verið vel leikið. Og nú er í uppsiglingu ný leiksýning "Græna lyftan" sem Slysavarnardeildin "Unnur" ætlar að sýna. Íþróttastarfsemi hefir legið niðri í vetur, þangað til íþróttafélagið Hörður fékk hingað íþróttakennara í þessum mánuði, fyrst og fremst handa æskulýðnum og síðan að sjálfsögðu nýtur barnaskólinn góðs af. Er það Magnús Jóhannes verzlunarmaður, sem hefir verið lífið og sálin í félagsskap æskufólksins í vetur og átti, þó að hann sé ekki íþróttamaður sjálfur, hugmyndina og upptökin að því, að íþróttakennarinn var fenginn hingað. Það gefur góða von um að leikfimikennsla verði upp tekin aftur hér í barnaskólanum og að íþróttaáhugi vakni hér, yfirleitt, að m.a. hafi nokkrar fullorðnar, giftar konur myndað flokk, sem fimleikakennarinn hefir með höndum.
 Tveir bátar hafa gengið héðan til róðra á þessari vertíð, en bæði er það, að gæftir hafa verið, slæmar og afli rýr, það sem af er vertíðinni. Hefir m.b. Skálaberg farið 20 róðra og aflað 124 skpd., en m.b. Freyja hefir farið 17 róðra og aflað 124 skpd. og hefir aflinn verið frystur jafnharðan í frystihúsunum hér.

Vísir. 28 mars 1951.


Flettingar í dag: 1116
Gestir í dag: 345
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2035992
Samtals gestir: 520977
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 18:16:07