18.12.2019 11:30

Árásin á togarann Arinbjörn hersir RE 1 22 desember árið 1940.

Í byrjun seinni heimstyrjaldar jukust siglingar íslenskra togara með ísfisk til Bretlands til mikilla muna. Bresk hernaðaryfirvöld tóku þá yfir flesta togara breta og mörg önnur skip í þjónustu sína til hernaðarnota. Við þetta hækkaði fiskverð mikið í Bretlandi og þar af leiðandi, batnaði mikið afkoma togaraútgerðarinnar hér heima. Nánast undantekningalaust var siglt með aflann til Bretlands og einnig til Þýskalands til að byrja með. Löndunarhafnirnar voru Hull og Grimsby á austurströndinni fyrsta árið eða svo. Þegar líða fór á stríðið og kafbátahernaður þjóðverja jókst á hafinu og eirði engum skipum, þó að um skip hlutlausrar þjóðar væri um að ræða. Þá var ákveðið að togararnir sigldu um Írlandshaf og lönduðu afla sínum í Fleetwood á vesturströndinni, því á þessari siglingaleið væri minni hætta á kafbátum þjóðverja. En ekki leið á löngu að íslensku togararnir urðu hvergi óhultir á leið sinni yfir hafið og mörgum þeirra var sökkt og aðrir stórskemmdir eftir, svo ég tali nú ekki um allt manntjónið sem var mikil blóðtaka fyrir okkar litlu þjóð. Það var togarinn Skutull ÍS 451 frá Ísafirði sem fyrstur varð fyrir árás, er þýsk sprenguflugvél réðst á hann að morgni 2 mars árið 1940. Var hann þá á heimleið úr söluferð. Varpaði flugvélin sprengjum á hann sem ekki hæfðu og lét síðan vélbyssuskothríðina dynja á togaranum. Enginn meiddist við þessa aðför vélarinnar. Togarinn Arinbjörn hersir RE 1 seldi afla sinn í Fleetwood hinn 20 desember 1940, og fékkst gott verð fyrir hann. Á heimleiðinni, 22 desember, þegar hann var staddur um 12 sjómílur norðvestur af Mull of Cantyre í Skotlandi, gerði þýsk sprengjuflugvél af Heinkel 111 árás á togarann, varpaði sprengjum að honum og lét vélbyssuskothríðina dynja á honum. Særðust þar 5 skipverjar.

Greinin hér að neðan er skrifuð af Agnari Guðmundssyni sem þá var 1 stýrimaður á Arinbirni hersi. Hún birtist í Víkingnum í janúar árið 1941.

Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.


        Árásin á "Arinbjörn hersir"  

Víkingurinn hefir náð tali af Agnari Guðmundssyni, er var 1. stýrimaður á Arinbirni hersi, þegar hin ægilega loftárás var gerð á hann af þýzkri sprengjuflugvél þann 22. des. s. l. 14 sprengjum var varpað á skipið og vélbyssukúlum rigndi yfir skipverja meðan þeir voru að reyna að komast í lífbátana. Agnari segist svo frá:
Sunnudagsmorguninn þann 22. des. s. l., er Arinbjörn hersir var staddur á 53° 23' N. br. og 5° 05' V. lgd., eða um 12 sjómílum NV af Mull of Cantyre, heyrðum við til flugvélar, sem okkur þótti nú engin nýlunda, því urg þeirra er orðið svo hversdagslegt, einkum í námunda við Englandsstrendur. Og það er nú svo, að vanalegast er ekki verið að reikna út, hvort þessari eða hinni flugvélinni búi illt í huga við viðkomandi. Í þessu tilfelli skeði það, sem alltaf má búast við. Flugvélin, sem var ,,Heinkel" 111, long distance twinengine bomber, flaug niður undir masturtoppa skipsins, og lét sprengju falla, er féll bakborðsmegin við skipið og orsakaði óhemju loftþrýsting. Skipið lék á reiðiskjálfi, líkt og því hefði verið siglt með fullri ferð upp í stórgrýti. Eitt og annað gekk úr skorðum, ljós slokknuðu, og leki kom þegar að skipinu. Þegar svona stendur á, má enginn vera að því að íhuga hvaða geigvænlegu augnablik eru að líða, allir hafa nóg að gera við að koma fyrir sig þeim öryggistækjum, sem skipinu fylgja og hægt er að notfæra sér.


B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á toginu.                                                              Guðbjartur Ásgeirsson.  

Okkar fyrsta verk var að slaka bakborðsbátnum, sem var útsleginn, og meðan við vorum að slaka bátnum, flaug flugvélin yfir okkur og reyndi með vélbyssu sinni að hæfa mennina, sem voru að slaka, um leið og hún lét aðra sprengju falla. Þegar báturinn var kominn í sjóinn og komnir í hann 8 menn, flaug flugvélin yfir í þriðja sinn og lét nú skothríðina dynja á skipinu og bátnum og sleppti nú tveimur sprengjum, sem þó hvorugar hittu skipið. Við þessa skothríð særðust allmikið 5 af þeim, sem í bátnum voru, og einn á þilfarinu. Ennfremur skemmdist báturinn það mikið, að hann flaut aðeins á öftustu loftkössunum. Eftir að við vorum komnir frá skipinu á lífbátnum, sem var illa sjófær, gerði flugvélin 3 árásir á það. Alls lét hún 14 sprengjur falla, en engin hæfði skipið, en svo nærri féllu þær, að skipið kastaðist og liðaðist til, eins og það væri í brimróti upp í skerjagarði. Það var sýnilegt strax, að flugmennirnir beindu skothríðinni aðallega að skipverjum, auk þess, sem þeir skutu á stjórnpallinn og hæfðu báða áttavitana og dýptarmælirinn, sem allt varð ónothæft. Þegar flugvélin var komin úr augsýn, var róið að skipinu og bundið um sár hinna særðu. Ljós voru lagfærð, og er loftskeytamaðurinn hafði komið sínum tækjum til að starfa, var sent út A. A. A., sem er sent í stað S. O.S., þegar flugvél gerir árás á skip. Samband náðist við G. P. K. radio og síðar við björgunarskipið "Superman", sem svo kom til okkar 1 ½ tíma eftir að árásin byrjaði. Hinir særðu voru strax látnir um borð í "Superman". Síðan var athugað, hvort hægt mundi vera að fylgja honum eftir til hafnar, en það reyndist ógerlegt vegna margvislegrar bilunar. Að draga Arinbjörn taldi skipstjórinn á "Superman" að myndi hefta för skipsins of mikið, þar eð hinir særðu þurftu skjótrar læknishjálpar við, og með því, að veður fór versnandi, mikill sjór kominn í skipið og enginn nothæfur lífbátur, var Arinbjörn yfirgefinn og "Superman" hélt til Campbeltown með fullri ferð. Frá "Superman" var sent skeyti og annar dráttarbátur beðinn að fara á vettvang og reyna að ná Arinbirni hersi og draga hann til hafnar. Um borð í ,,Superman" var okkur sagt, að flugvélin hefði fyrst kastað á þá tveimur sprengjum, er hæfðu hvorugar, en þeir hröktu hana á brott með skothríð úr loftvarnabyssum sínum.


B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á siglingu.                                                             Guðbjartur Ásgeirsson.  

Til Campbeltown var komið seinni part sunnudagsins og voru þá hinir særðu, þeir: Jón Kristjánsson, Guðmundur Helgason, Guðjón Eyjólfsson, Ólafur Ingvarsson og Guðmundur Ólafsson fluttir á spítala. Marinó Jónsson var látinn fylgja okkur og um meiðsli hans búið í gistihúsinu.
Við biðum þarna í 7 daga og leið öllum eftir atvikum vel. Egill Skallagrímsson kom og tók okkur, þá sem ferðafærir voru og flutti til Londonderry, en þangað hafði verið farið með Arinbjörn.
Hjá honum fengum við líka tvo menn að láni, þá Jón Ólafsson og Ragnar Karlsson. B.v. "Gyllir", sem einnig kom til Londonderry, lét okkur hafa bát í stað okkar tveggja, sem báðir voru ónýtir. Eftir lauslega skoðun var skipið afhent skipstjóranum fyrir hönd eiganda, af viðkomandi "Naval Officer in Charge". Það var ljótt umhorfs um borð í Arinbirni, þegar við komum þangað. Allt var á tjá og tundri, og svo, að vart er hægt að lýsa með orðum einum. Við skoðunina kom einnig í ljós, að öll matvæli, siglingatæki eins og t. d. 2 sjónaukar, loflvog og vegmælir ásamt öðru lauslegu var horfið. Innsiglið var rofið og þaðan horfið það sem þar fyrirfannst, ennfremur allur fatnaður skipverja og vörur þær, sem beir höfðu keypt í Englandi. Eftir að búið var að standsetja það, sem nauðsynlega þurfti til heimferðarinnar, og leyfi fengið til heimferðar, var haldið á stað. Veður var hið ákjósanlegasta og komið var til Reykjavíkur þann 12. janúar síðdegis eftir rúma 3 sólarhringa ferð.
Nú er frásögn Agnars lokið, af mestu loftárásinni, sem gerð hefir verið á íslenzkt skip. En hverjir verða næst fyrir þessu, og hvenig fer þá? Íslenzku skipin standa öll varnarlaus gagnvart þessum loftvörgum. Þeir geta í rólegheitum leikið sér að bráð sinni, eins og köttur að mús. Einasta vörnin gegn þessu er loftvarnabyssan, sem vera ætti um borð í hverju einasta skipi, sem til Englands siglir.  

Sjómannablaðið Víkingur. 1 tbl. janúar 1941.


Flettingar í dag: 1763
Gestir í dag: 380
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1957571
Samtals gestir: 495493
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 09:40:28