08.12.2022 17:17

63. Goðafoss III. TFMA.

Goðafoss III var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1948 fyrir hf. Eimskipafélag Íslands. 2.905 brl. 3.700 ha. B & W vél, 2.720 Kw. 89,48 x 14,06 x 8,29 m. Smíðanúmer 689. Goðafoss var einn þriggja systurskipa, hin voru Lagarfoss II og Dettifoss II. Goðafoss var jafnframt fyrsta mótorskipið sem Eimskipafélag Íslands eignaðist. Goðafoss var aðallega í ferðum á milli Íslands og Evrópu og einnig til Bandaríkjanna með frystan fisk. Skipið var selt í júní árið 1968, Cape Horn Shipping Development Co í Líberíu, hét þá Arimathian. Selt árið 1970, Neravlax Co Ltd á Kýpur, hét Krios. Skipið sökk um 400 sjómílur undan ströndum Brasilíu 24 janúar árið 1971. Mannbjörg varð. Skipið var þá á leið til Piraeus í Grikklandi með vörur.
 

Goðafoss III við öldubrjótinn á Siglufirði fullhlaðinn tómum síldartunnum.  Ljósmyndari óþekktur.
 
Goðafoss III í fyrsta skipti í Reykjavíkurhöfn hinn 23 mars 1948. Handan við Goðafoss, yst á Faxagarði liggur Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161. Hann sökk á Halamiðum eftir að tundurdufl sprakk við síðu skipsins hinn 14 nóvember árið 1956.

                                                         
                             Goðafoss kemur til landsins

Þriðjudaginn 23. marz kom hið nýja skip Eimskipafélagsins, Goðafoss, til Reykjavíkur. Veður var hið ákjósanlegasta og var skipinu heilsað með miklum fögnuði af þúsundum bæjarbúa. Meðan skipið beið á ytri höfninni var Pétur Björnsson skipstjóri sæmdur stórriddarakrossi fálkaorðunnar, en hann er nú elzti starfandi skipstjóri á skipum félagsins. Þá er skipið hafði lagzt við landfestar, fluttu þeir Guðmundur Vilhjálmsson framkvæmdarstjóri félagsins og Emil Jónsson siglingamálaráðherra ræður. Fyrsti Goðafoss var byggður 1915. Annar fossinn með því nafni 1921 og hinn þriðji á árunum 1946—1948. Lengd fyrsta Goðafoss var 225 fet, annars 235 fet, en þetta skip er 290 feta langt. Breidd tveggja fyrri fossannna var 35 fet, en þessi er 46 fet á breidd. Fyrsti Goðafoss var 1375 smálestir brúttó, annar Goðafoss 1541 smál., en þetta skip er 2905 smálestir brúttó, „deadweight". Smálestatala fyrsta Goðafoss var 1475 smál., annars um 2000 smál., og hins þriðja 2700 smál. Rúmmál lestarrúmsins var 67 500 teningsfet í fyrsta Goðafossi, en 77 þúsund teningsfet í öðrum Goðafossi, lestarrúm þessa nýja Goðafoss er hins vegar um 150 þúsund teningsfet. Vélin í fyrsta Goðafossi var um 750 hestöfl, í öðrum Goðafossi var hún um 1000 hestöfl, en í þessu skipi, sem er mótorskip, er hún 3700 hestöfl. Ganghraði fyrsta Goðafoss var 10 mílur, annar Goðafoss gekk 11 mílur, en hinn nýi Goðafoss mun ganga 15 milur.
Hingað til hafa öll þau skip, sem Eimskipafélagið hefur átt, verið gufuskip, en nú hefur orðið sú breyting á, að Goðafoss og þau önnur skip, sem samið hefur verið um byggingu á, auk hins nýkeypta „Tröllafoss", eru mótorskip. Mótorskipin hafa í seinni tíð mjög rutt sér til rúms, enda eru þau að ýmsu leyti hentugri heldur en gufuskipin. Í stríðsbyrjun átti Eimskipafélagið 6 skip, samtals 9400 D. W. smálestir. Í stríðinu missti félagið 3 skip (Gullfoss, Goðafoss og Dettifoss), en keypti 2 skip (Fjallfoss og Reykjafoss). Áður en nýju skipin bættust í hópinn, var skipaeign félagsins 5 skip, samtals 8270 D. W. smál. Á þessu og næsta ári er gert ráð fyrir að flotanum bætist 5 skip, samtals 14950 D. W. smál, Aukning kaupskipaflota félagsins nemur því um 160%, ef miðað er við skipaeign félagsins eins og hún var fyrir stríð, en um 180% eins og hún var 1947. Naumast verður því með sanngirni sagt, að Eimskipafélagið hafi haldið að sér höndum eftir stríðið og ekkert aðhafst. Ég sé ekki ástæðu til að þreyta háttvirta áheyrendur á að lesa hér upp nákvæma lýsingu af Goðafossi. Hún hefur þegar birzt í blöðum og útvarpi og nú hafa fréttamenn útvarps og blaða átt kost á að skoða skipið og vænti ég þess, að þeim finnist ástæða til að skýra þjóðinn frá hvernig þeim kemur skipið fyrir sjónir. Ég vil þó aðeins geta þess, að skipið er búið öllum hinum nýjustu og beztu siglingatækjum, til aukins öryggis á siglingu, svo sem réttvísandi „Gyro"-áttavita, botnloggi, miðunarstöð o. s. frv. Þá mun verða sett Radartæki í skipið, þegar kostur er á.
Loks vil ég geta þess, að sérstakur sjúkraklefi er í Goðafossi. Undanfarin ár hefur skipakostur Eimskipafélagsins reynst allsendis ónógur til þess að fullnægja flutningaþörf þjóðarinnar. Af þessum ástæðum hefur félagið orðið að taka allmörg skip á leigu, en oft hefur reynst erfitt að fá hentug skip og í mörgum tilfellum hafa skipaeigendur algerlega neitað að gefa samþykki til að skipin kæmu nema á beztu aðalhafnir á landinu. Hefur þetta oft valdið tilfinnanlegum erfiðleikum. Ég vil taka það fram hér, að það er einlægur vilji stjórnenda Eimskipafélagsins að takast megi í framtíðinni að fullnægja sanngjörnum kröfum landsmanna um hentugar og góðar samgöngur á sjó, bæði að því er snertir millilandasiglingar og strandsiglingar. Ég vil benda á, að hin nýju skip félagsins, auk Brúarfoss, geta árlega flutt til útlanda um 70 þúsund smálestir af hraðfrystum fiski, auk þess kjöts, sem líkur eru til að flutt verði til útlanda. Eftir að nýju skipin hefja siglingar ætti skipastóll félagsins að nægja til flutnings á öllum aðkeyptum erlendum varningi, að undanskildum kolum, salti, sementi og timbri. Stærð Goðafoss, lestarrúm, ganghraði og farþegarúm var ákveðin samkvæmt tillögum framkvæmdastjóra félagsins. Teikningar skipsins voru gerðar af Burmeister & Wain, en nokkrar breytingar voru gerðar á upphaflegu teikningunum, aðallega eftir tillögum formanns félagsins Eggerts Classen og Sigurðar Péturssonar, skipstjóra, sem báðir hafa lagt feikna vinnu í að gagnrýna og bæta teikninguna. Goðafoss er byggður í hinni heimsþekktu skipasmiðastöð Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn. Er það trygging fyrir að skipið er vel smíðað, enda hefur ekkert verið til sparað af eigendanna hálfu að það gæti orðið fullkomnasta og traustasta skip að öllu leyti, enda byggt samkvæmt hæsta flokki „Lloyds". Aðaleftirlit með byggingu skipsins hafa annazt trúnaðarmenn félagsins í Kaupmannahöfn Brorsen & Overgaard.
Daglegt eftirlit með byggingu sjálfs skipsins hefur G. Wilkens Sörensen vélstjóri annast, en eftirlit með byggingu vélanna hefur Hallgrímur Jónsson vélstjóri haft með höndum. Meðan fyrrverandi framkvæmdastjóra Emil Nielsens naut við, þá kom hann fram sem trúnaðarmaður félagsins gagnvart skipasmiðastöðinni, en síðan hann féll frá hefur Jón Guðbrandsson, framkvæmdastjóri félagsins í Kaupmannahöfn, haft það starf með höndum. Eins og flestum mun þegar kunnugt, hefur hinum valinkunna skipstjóra Pétri Björnssyni verið falin skipstjórn á Goðafossi. Hann hefur með ágætum annast skipstjórn á skipum félagsins um 30 ára skeið, og er stjórnendum félagsins ánægja að fela honum stjórn á þessu glæsilega skipi. Fyrsti vélstjóri er Hallgrímur Jónsson, sem verið hefur vélstjóri á skipum félagsins í 30 ár. Fyrsti stýrimaður er Haraldur Ólafsson, sem hefur verið í þjónustu félagsins í nærfellt 30 ár. Aðrir yfirmenn svo og starfsmenn á þilfari og í vél hafa flestir verið lengi í þjónustu félagsins og eru þeir ágætir starfsmenn hver á sínu sviði. Ég treysti því, að úrvals skipshafnir megi ávallt starfa á flota Eimskipafélagsins, þannig að þar verði valinn maður í hverju rúmi. Eg tel það mikið þjóðarlán að Eimskipafélagið hefur getað hafist handa um byggingu og kaup allra þessara nýju og glæsilegu skipa, en því aðeins getur það talist lán, að takast megi að reka skipið á heilbrigðum fjárhagslegum grundvelli, en það tekst því aðeins, að allir þeir sem yfir flutningum ráða og þjóðin öll styðji félagið framvegis eins og hingað til. Ég býð Goðafoss velkominn. Sömuleiðis býð ég skipstjóra og skipshöfn velkomna. Ég óska þess af heilum hug, að heill og hamingja megi ávallt fylgja þessu fagra skipi. Að lokum vil ég bera kveðjur frá herra forseta Íslands, sem vegna forfalla gat ekki verið hér viðstaddur.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1948.

Flettingar í dag: 31
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723377
Samtals gestir: 53674
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 01:21:45