Færslur: 2016 Janúar

31.01.2016 11:34

Loftskeytaklefinn úr togaranum Geir RE 241.

Eftir að áhugi útgerðarmanna vaknaði á því að koma loftskeytatækjunum um borð í skipin sín, virtist það ekki standa í vegi þó að skipin væru ekki stór að tonnatölu. Þetta voru nauðsynleg tæki að þeirra mati, það varð að koma þeim einhverstaðar fyrir hvað sem tautaði og raulaði. Þegar skipin voru byggð hafði engan órað fyrir þessari nýju tæknibyltingu, sem vonlegt var.


Loftskeytaklefinn úr togaranum Geir RE 241. Klefinn er til sýnis á Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði í Reykjavík.

Brúttó rúmlesta stærð togaranna var ekki látin standa í vegi fyrir því að loftskeytatæki yrðu sett þar um borð. Jón forseti RE 108 var nú minnsti togarinn, 233 brl. en algengasta stærðin á Íslensku togurunum á þessu tímabili var frá 300 og upp í rösklega 400 brl.


Inngangurinn í klefann.

Útgerðarmenn í Englandi fóru að setja loftskeytatæki í togara sína upp úr 1913 og hafði sú nýjung gefið góða raun, bæði sem öryggistæki og til aflamiðlunar (fiskifrétta á milli skipa). Ensku skipstjórarnir beinlínis kröfðust þess af útgerðarmönnum sínum að fá þessi tæki um borð, enda höfðu þeir sannanir fyrir því að með þeirra hjálp hefði margur veiðitúrinn, sem annars hefði misfarist, heppnast.
Auðvitað spurðist þetta til Íslands. Því var áformað að útbúa togaranna hér heima með loftskeytatækjum.


Loftskeytaklefinn að innan. Myndin á borðinu er af Snorra Jónassyni sem var loftskeytamaður á Geir RE 241 (eldri og yngri)  frá 1923-1953.

Til þess að koma loftskeytatækjunum fyrir um borð í þessum litlu skipum, en smæð skipanna var ekki látin standa fyrir því. Togarafélagið Kveldúlfur reið á vaðið og lét setja loftskeytastöðvar í þrjá togara. Frá því var sagt í Reykjavíkurblöðunum þann 14 mars 1920."Loftskeytatæki" hefur botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson nú fengið í síðustu Englandsferð sinni. Er Egill fyrsti botnvörpungur íslenskur, sem fær þennan útbúnað. Þessi fyrsta loftskeytastöð sem sett var um borð í íslenskan togara var 0,5 Kw. Marconi neistastöð. Skipstjórinn Jónas Jónasson sem tekið hafði loftskeytapróf, annaðist stöðina.


Loftskeytaklefinn að innan.

Þegar Egill Skallagrímsson RE 165 fékk sína fyrstu stöð, var reistur lítill timburklefi framan við bátadekk og afturmastur, aftast á keisnum fyrir ofan eldhúsið. Síðar var það nokkuð algengt að loftskeytaklefa togaranna væri komið fyrir á þessum stað, en þá voru þeir byggðir úr járni. Þannig var þessu fyrirkomið, t.d. á.; Kára, Geir, Surprise, Maí, Karlsefni og Austra, svo nokkrir séu nefndir. Klefarnir voru innréttaðir, oftast með panel og síðan málaðir. Tækjunum var komið fyrir upp á vegg og þar fyrir neðan skrifborði. Svefnbekkur loftskeytamannsins var þarna í klefanum, en ofan í bekknum voru svo rafgeymarnir. Það gefur auga leið að þessi staður fyrir rafgeymanna hefur ekki verið sá heppilegasti fyrir heilsu þess manns, sem í klefanum átti að hafa aðsetur allan sólarhringinn. Seinna var svo rafgeymunum komið fyrir í kistu upp á klefaþakinu.

Klefinn að innan. Hann var ekki stór, enda "húsgögnin" eftir því. Viðtækið og Morse lykillinn á borðinu en loftskeytatækin sjálf voru sett upp á veggina í klefanum.

Á togaranum Leifi heppna RE 146 var tækjunum komið fyrir í klefa 1 stýrimanns, sem var bakborðsmegin framan til við káetuna, en síðar var innréttaður loftskeytaklefi aftan til í brúnni. Það var samdóma álit togaraskipstjóranna að brúin væri heppilegasti staðurinn til að hafa tækin í. Enda fór svo, að á öllum þeim togurum er smíðaðir fyrir Íslendinga eftir að loftskeytatækin komu til sögunnar, var loftskeytaklefanum ætlaður staður í brúnni, aftantil við stjórnklefann. Sumir togararnir höfðu svo stór kortaherbergi að hægt var að stúka þau í sundur og útbúa loftskeytaklefa þar, en þó voru dæmi þess að kortaherbergið væri tekið fyrir loftskeytaklefa og skipstjórinn flutti kortin niður í íbúð sína undir stjórnpalli.


Togarinn Geir RE 241. Upplýsingar um hann má finna hér á síðunni frá 5 sept s.l.
                                                                                                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

Í nokkrum tilvikum var loftskeytatækjunum komið fyrir í íbúð skipstjóra, þannig var þetta t.d. á Arinbirni hersi RE 1, Max Pemperton RE 278, Hafsteini ÍS 449 og f.l. Eins og að framan er sagt var loftskeytatækjunum komið fyrir í klefa framan við káetuna á Leifi heppna til að byrja með, en þessi staður var notaður á þó nokkrum togurum og það til frambúðar, t.d. á Verði BA 142, ex Gulltoppur RE 247 (eldri), Hilmi RE 240, Skúla fógeta RE 144 (yngri). Það má geta þess að talstöðvar voru að ryðja sér til rúms á árinu 1924 og árið eftir voru komnar slíkar stöðvar í um 40 Íslensk skip, en eingöngu voru það kaupskip og nokkrir togarar.

                                                         Heimild: Loftskeytamenn og fjarskiptin, fyrsta bindi, útg 1987.

30.01.2016 11:11

975. Bjartur NK 121. TFGT.

Bjartur NK 121 var smíðaður hjá V.E.B. Elber Werft Boizenburg í Austur Þýskalandi árið 1965 fyrir útgerð Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað. 264 brl. 600 ha. Lister díesel vél. Kom fyrst til heimahafnar 14 maí sama ár. Fyrsti skipstjóri á Bjarti var Filip Þór Höskuldsson frá 1965-1967, þar til hann tók við nýjum Birting NK 119. Ísak Valdimarsson frá 1967-1972. Skipið var selt 29 janúar 1972, Fiskanesi h/f í Grindavík, hét Grímseyingur GK 606. Selt 9 febrúar 1976, Félagsútgerð Reynis Jóhannssonar og Benónýs Þórhallssonar í Grindavík, hét Víkurberg GK 1. Selt 27 desember 1979, Þormóði ramma h/f á Siglufirði. 7 febrúar 1980 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands, hét Bjartur og var skráð sem rannsóknarskip. Selt 19 febrúar 1982, Vísi h/f í Grindavík, hét þar fyrst Bjartur GK 57 í stuttan tíma en fékk svo nafnið Sighvatur GK 57. Árið 1983 var sett ný vél í skipið, 850 ha. Caterpillar díesel vél . Skipið hefur verið yfirbyggt. Sighvatur GK 57 er eitt af aflasælustu línuveiðiskipum flotans í dag.


Bjartur NK 121 að koma með fullfermi síldar í Fiskvinnslustöð S.Ú.N, í Neskaupstað, sumarið 1965.
                                          (C) Mynd: Guðmundur Sveinsson. / Skjala og myndasafn Norðfjarðar.


Bjartur NK 121 með fullfermi síldar við bryggju Fiskvinnslustöðvar S.Ú.N í Neskaupstað. Það gæti verið að þessi mynd og hún hér að ofan sé af fyrstu veiðiferð Bjarts.   (C) Mynd: Síldarvinnslan h/f.


Bjartur NK 121 með fullfermi.                                                   (C) Mynd: Svanhildur Óskarsdóttir.


Bjartur NK 121 að landa síld í gömlu síldarbræðslu S.V.N árið 1967 (C) Mynd Sigurður Arnfinnsson.


Rannsóknarskipið Bjartur í Reykjavíkurhöfn árið 1980.                (C) Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.


975. Sighvatur GK 57. Búið að byggja yfir skipið.                              (C) Mynd: Ragnar Hauksson.


975. Sighvatur GK 57 að koma inn til löndunar á Dalvík, 21 sept 2015. Mikil útlitsbreyting hefur átt sér stað á skipinu á þessum rúmlega 50 árum sem það hefur verið gert út og er af þeim sökum óþekkjanlegt frá upphaflega útliti skipsins frá árinu 1965 (C) Mynd:Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

Þessi skemmtilega grein með vísukorni birtist í vikublaðinu Austurlandi 21 maí 1965 og hljóðar hún svona.;

 Hinn 14. þ. m. kom skipið Bjartur NK 121, hið síðara skip, sem Síldarvinnslan hf. keypti í Austur-Þýzkalandi, til Neskaupstaðar. Þegar Barði, fyrra skipið, kom, var ég veikur og gat ekki skoðað hann, en var hressari þegar hið síðara skip kom og brá ég mér þá um borð. Ég fór fyrst inn í stjórnklefann (stýrishúsið). Þar stóð Jóhann Sigurðsson, tollþjónn, vakt og ruddi hann mér strax braut inn í skipstjóraklefann. Þar voru fyrir fjórir menn og var mér þar vel tekið. Skipstjóri, Filip Höskuldsson, bauð mér strax sæti. Hinir aðrir, er þar voru, Guðgeir Jónsson, bílstjóri, Kristinn Sigurðsson, forstjóri og Högni Jónasson, bílstjóri, báðu mig umi að gera vísu í tilefni af komu skipsins, en það kom enginn andi yfir mig þá og því varð engin vísa. En til þess að gera þeim einhverja úrlausn bið ég Austurland fyrir vísur, sem komu í hug mér þegar heim kom og sendi ég þeim þær hér með:

Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn beztu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.

Semsagt fær í flestan sjó
farkostur hinn bezti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.

Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.

Valdimar Eyjólfsson.


          




29.01.2016 09:34

Reykjavíkurhöfn 2 júní 2014.

Tók þessar myndir daginn eftir sjómannadag, 2 júní 2014. Verið er að landa úr togurunum en aðrir bíða löndunar til þess að halda til veiða á ný.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203.


2203. Þerney RE 1 og 2170. Örfirisey RE 4.


1868. Helga María AK 16. Verið er að landa úr togaranum.


1509. Ásbjörn RE 50 bíður löndunar.


1345. Freri RE 73. Togarinn heitir Blængur NK 125 og er gerður út af SVN í dag.


2182. Baldvin Njálsson GK 400 í slippnum.                                       (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

28.01.2016 11:24

Reykjavíkurhöfn um 1930.

Á þessari mynd liggja þeir nokkrir togararnir í Reykjavíkurhöfn um árið 1930. Þeir sem þekkjast á myndinni eru frá vinstri talið,; Gylfi RE 235, smíðaður í Geestemunde ( Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915, 336 brl. Eigandi hans var Félagið Defensor í Reykjavík. Hann var seldur í febrúar 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, sama nafn en BA 77. Var svo seldur til Færeyja í janúar 1947. Hét þar Gullfinnur og seinna Satúrnus. Fórst í ís út af Angmagssalik á Grænlandi 20 mars 1960. Í miðið er Kveldúlfstogari, ekki gerlegt að sjá hver hann er. Til hægri er Njörður RE 36, smíðaður í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Njörð í Reykjavík. Hann var seldur í september 1932, Samvinnufélaginu Haukanesi í Hafnarfirði og fékk nafnið Haukanes GK 347. Seldur úr landi í febrúar árið 1952.


Reykjavíkurhöfn um 1930.                               Ljósm: Magnús Ólafsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

27.01.2016 20:25

934. Þráinn NK 70. TFBR.

Þráinn NK 70 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1943. 59.brl. 150 ha. Bolinder díesel vél. Eigandi var Ölver Guðmundsson í Neskaupstað frá 26 október 1946. Árið 1957 var sett í bátinn 280 ha. M.W.M. díesel vél. Báturinn var endurbyggður og lengdur á Akureyri árið 1961, mældist þá 85 brl. Báturinn fórst í Reynisdýpi 5 nóvember 1968 með allri áhöfn, 9 mönnum, þegar hann var á leið til Vestmannaeyja með síldarfarm.

 
Þráinn NK 70 við bryggju í Neskaupstað.                                            (C) Mynd: Þórður M Þórðarson.


Þráinn NK 70 fyrir endurbyggingu og lengingu. Er hér á myndinni í innsiglingunni til Vestmannaeyja.
                                                                                              (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Þráinn NK 70 í endurbyggingu og lengingu á Akureyri 1961.                     Ljósmyndasafn Reykjavíkur.


Þráinn NK 70 í slippnum á Akureyri 1961.                                               Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Hér fyrir neðan er grein sem birtist í vikublaðinu Austurlandi í nóvember 1968 þegar Þráinn NK 70 fórst við suðurströndina.;

Telja má fullvíst, að v. b. Þráinn NK 70 hafi farist fyrir sunnan land á þriðjudaginn með allri áhörn 10 mönnum. Var báturinn á leið til Vestmannaeyja af síldarmiðunum og heyrðist síðast til hans snemma á þriðjudagsmorgun. Þegar báturinn lét svo ekkert til sín heyra næst þegar hann átti að láta af sér vita, var hafin leit. Fundizt hefur ýmislegt lauslegt, sem tilheyrði bátnum. Eigandi Þráins var Ölver Guðmundsson, útgerðarmaður í Neskaupstað. Bátinn hafði hann leigt til Vestmannaeyja í hátt á annað ár. Þráinn var smíðaður í Svíþjóð árið 1943, en endurbyggður og stækkaður á Akureyri fyrir fáum árum. Hann var 85 1. að stærð.

Með Þráni NK 70 fórust þessir menn:

  • Grétar Skaftason skipstjóri f. 26.10.1926
  • Helgi Kristinsson stýrimaður f. 12.11.1945
  • Guðmundur Gíslason vélstjóri f. 2.11. 1942
  • Gunnlaugur Björnsson vélstjóri f. 13. 01.19941
  • Einar Þorfinnur Magnússon matsveinn f. 27.07.1928
  • Marvin Einar Ólason háseti f. 2.05.1944
  • Gunnar Björgvinsson háseti f. 5.9.1950
  • Tryggvi Gunnarssonháseti f. 3.07.1949
  • Hannes Andresson háseti f. 29.11.1946

26.01.2016 19:53

Flak togarans Egils rauða NK 104 undir Grænuhlíð.

Í dag eru rétt 61 ár frá því að Nýsköpunartogarinn Egill rauði NK 104 frá Neskaupstað strandaði undir innra horni Grænuhlíðar, Teistanum sem er um 1,8 sjómílu utan við Sléttu í Jökulfjörðum. Egill rauði var smíði númer 716 hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. Hann var 656 brl. að stærð. Kom til heimahafnar í fyrsta sinn, 12 júlí sama ár. Það er ekki ætlun mín að rekja sögu þessa strands hér því hún er flestum kunn. Þetta hörmulega sjóslys er mér nokkuð skylt því faðir minn heitinn var skipverji  á togaranum í þessari örlagaríku sjóferð sem endaði undir hömrum Grænuhlíðar. Vil ég heldur með þessari færslu heiðra minningu þeirra 5 skipverja sem fórust og einnig þeirra sem björguðust en eru fallnir frá. Tveir menn eru enn á lífi af áhöfn Egils, Færeyingurinn Egin Örvarodd háseti og Guðmundur Arason bátsmaður. Myndirnar hér að neðan eru af flaki togarans og teknar eftir að óveðrinu slotaði. Þær tala sínu máli um örlög hans.










Flak Egils rauða undir Grænuhlíð.                                                   (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.


Skipbrotsmennirnir af Agli rauða. Myndin er tekin á skrifstofu S.V.F.Í í Reykjavík. Þeir eru frá vinstri talið í efstu röð.;

Símun Elías Christiansen háseti Þórshöfn. 2.Sigurd Hentze háseti Skopun. 3.Jallgrim Nielsen háseti Þórshöfn. 4.Adrian Hentze háseti Skopun. 5.Karl Tausen háseti Rúnavík. 6.Hildebjart Olsen háseti Skálavík. 7.Berg Nielsen háseti Þórshöfn. 8.Símun Joensen háseti Gjógv. 9.Hilmar Larsen háseti Dal.
Miðjuröð frá vinstri:
1.Axel Óskarsson loftskeytamaður Neskaupstað. 2.Vittus Zachariasen háseti Sandi. 3.Olavur Joensen háseti Skopun. 4.Marteinn Hjelm háseti Neskaupstað. 5.Johannes Jacobsen háseti Rúnavík. 6.Leivur Clementsen háseti Skopun. 7.Johan Peter Petersen háseti Skálavík. 8.Tórálvur Mohr Olsen háseti Sandi. 8.Vilmundur Guðbrandsson bræðslumaður Neskaupstað.
Fremst frá vinstri:
1.Evald Viderö háseti Sandi. 2.Helgi Jóhannsson matsveinn Neskaupstað. 3.Guðjón Marteinsson 1 stýrimaður Neskaupstað. 4.Guðmundur Ísleifur Gíslason skipstjóri Neskaupstað. 5.Pétur Hafsteinn Sigurðsson 2 stýrimaður Neskaupstað. 6.Sófus Gjöveraa háseti Neskaupstað. 7.Egin Örvarodd háseti Sandi. 8.Olrik Christiansen háseti Þórshöfn. 9.Einar Hólm 2 vélstjóri Eskifirði. Á myndina vantar Guðmund I Bjarnason 1 vélstjóra og Guðmund Arason bátsmann Reykjavík.Þeir sem fórust hétu:
Stefán Einarsson 3 vélstjóri Neskaupstað.
Atli Stefánsson Kyndari Neskaupstað
Hjörleifur Helgason kyndari Neskaupstað.
Magnús Guðmundsson háseti Fáskrúðsfirði.
Sófus Skoralíð háseti Dal í Færeyjum.

Strandstaður Egils rauða. Ég tók þessa mynd í ferð þangað 25 júní árið 2005.

 Togarinn  Egill rauði NK 104.                                                         Ljósm: Guðbjartur Finnbjörnsson.     

Það má geta þess að í óveðri þessu fórust einnig tveir breskir togarar um 90 sjómílur norður af Horni, það voru togararnir Lorella H 455 og Roderigo H 135 frá Hull. Það hefur ávallt verið talað um mannskaðaveðrið mikla, 26 janúar 1955, enda orð að sönnu því þennan dag fórust 45 sjómenn, og flestir þeirra á besta aldri. Hér fyrir neðan læt ég fylgja með myndir af bresku togurunum sem fórust.

        Togarinn Roderigo H 135.                                                                             (C) Mynd: James Cullen.

      Togarinn Lorella H 455.                                                                          (C) Mynd: James Cullen.

26.01.2016 09:24

Breski togarinn Kingston Peridot H 591 ferst 26 janúar 1968.

Árið 1968 byrjaði ekki vel á Íslandi. Óstöðug veðrátta og sjaldan gaf á sjó. Engin meiri háttar slys urðu fyrri hluta janúarmánaðar en það átti eftir að breytast. Föstudaginn 26. janúar skall á með slæmu norðanveðri og gætti þess mest norðanlands. Vindhraðinn náði 12 vindstigum og frostið var meira en 10 gráður um kvöldið. Illviðrið stóð fram á næsta dag. Þegar kom fram á sunnudag fór að bera á olíubrák í Axarfirði og daginn eftir fannst mannlaus gúmmíbátur þar í firðinum. Að morgni þriðjudagsins 30. janúar lýsti Slysavarnafélag Íslands eftir enska togaranum Kingston Peridot en ekkert samband hafði náðst við hann í fjóra daga. Fjörur voru gengnar um allt Norð- austurland en án árangurs og á föstudeginum var leit hætt. Nokkrum dögum áður hófst leit að togaranum St. Romanus sem hélt til veiða frá Hull 10. janúar eða sama dag og Kingston Peridot lagði af stað til Íslands. Ferð St. Romanus var heitið á miðin við Norður Noreg en talið er að togarinn hafi farist daginn eftir að hann lét úr höfn. Ekki var tilkynnt um hvarf hans fyrr en 24. janúar.
Togarinn Kingston Peridot var í eigu hins þekkta útgerðarfyrirtækis Hellyers Brothers í Hull. Togarinn var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948. Hann var 658 tonn að stærð og hafði lengst af stundað veiðar við Ísland.


Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                                           (C) Mynd: James Cullen.

Togarinn var lengst af við veiðar út af Norðurlandi og um hádegisbil, 26 janúar hafði skipstjórinn á Kingston Peridot samband við skipstjórann á togaranum Kingston Sardius H 588, sömu útgerðar en sá togari var að veiðum út af Langanesi. Var Kingston Peridot þá að veiðum á norð-austur horni Skagagrunns en væri hættur veiðum þar sem veður fór sífellt versnandi. Ákvað skipstjórinn á Kingston Peridot að halda austur fyrir Langanes þar sem veður væri betra þar. Það síðasta sem heyrðist frá Kingston Peridot var þegar loftskeytamennirnir á honum og Kingston Sardius ræddust við um kvöldið, sagði loftskeytamaður Kingston Peridot að komið væri vitlaust veður og ís væri farinn að hlaðast á skipið. Eins og hér að framan greinir hafði Slysavarnarfélag Íslands þegar gert ráðstafanir til leitar er félaginu barst fréttin um að togarans væri saknað. Umfangsmikil leit var gerð af togaranum næstu daga en ekkert fannst fyrir utan gúmmíbátinn og þessa olíubrák utarlega á Öxarfirði.


Togarinn St.Romanus H 223.                                                                                    (C) Mynd: James Cullen.

Það var ekki fyrr en 22 apríl að togskipið Sæþór ÓF 5 frá Ólafsfirði var á togveiðum djúpt út af Öxarfirði. Var hann að toga í suðlæga stefnu að Mánáreyjum. Þegar trollið var híft sáu skipverjar strax að í því var einhver undarlegur aðskotahlutur. Sáu þeir að þetta var einskonar hetta af loftventli af skipi. Tóku þeir einnig eftir því að um leið trollið var tekið, kom olíubrák á sjóinn. Var álitið að togarinn hafi farist á þessum slóðum, honum hvolft skyndilega út af ofurþunga íss og hafróts og sokkið. Milil réttarhöld fóru fram í Bretlandi vegna þessara skipstapa og átti þessi ventilhetta eftir að skipta sköpum þar sem álitið var að togararnir væru vart haffærir og allra síst í vetrarveðrum við Ísland.


Togarinn Kingston Sardius H 588.                                                                            (C) Mynd: Steve Farrow.

Í Bretlandi var mjög mikið skrifað um hvarf togaranna og ekkjur sjómannanna sem fórust með þeim ákváðu að senda Harold Wilson forsætisráðherra áskorun um að rannsókn færi fram og að stjórnvöld beittu sér fyrir því að öryggi togarasjómanna yrði bætt. Var ákveðið að sjómannskonur og fulltrúar frá verkalýðsfélagi færu til Lundúna og afhentu þar áskorun til Wilsons. En áður en lagt var í hann bárust válegar fréttir frá Íslandi. Svo hörmulegar og ógnþrungnar að út yfir tók. Fólk hlustaði agndofa á fréttirnar og enn á ný höfðu embættismenn konunglegu nefndarinnar ærinn starfa. Vonir þeirra um að það illa væri yfirstaðið þegar þeir höfðu tilkynnt aðstandendum áhafnanna á Kingston Peridot og St Romanus að þær væru taldar af rættust ekki. Enn urðu þeir að ganga hús úr húsi og flytja váleg tíðindi.

                                                                    Heimildir: Þrautgóðir á raunastund. XVll bindi.

                                                                                  Bæjarins besta. febrúar árið 2008.

25.01.2016 21:55

Sjö Kveldúlfstogarar.

h/f Kveldúlfur var stofnað 22 mars árið 1912 í Reykjavík. Stofnandi þess var Thor Jensen og synir hans, Thorsararnir eins og þeir voru nefndir, en þeir voru einhverjir umsvifamestu athafna og stjórnmálamenn á Íslandi á fyrri hluta 20 aldar. Tilgangur félagsins var að stunda útgerð og flytja út fiskafurðir. Fyrsta árið átti Kveldúlfur einn togara en keypti og verkaði fisk frá öðrum skipum og flutti út til Kaupmannahafnar. Fyrirtækið rak saltfiskverkun í Reykjavík og nágrenni. Kveldúlfur stækkaði og keypti fleiri togara og byggði höfuðstöðvar við Skúlagötu árið 1914. Þar voru geymslur fyrir útgerðina, þvottahús og þurrkhús fyrir fisk og geymslupláss fyrir verkaðan fisk. Skrifstofur Kveldúlfs voru á neðri hæð. Kveldúlfur var eftir 1920 stærsti atvinnurekandi á Íslandi. Talið er að skipverjar á skipum félagsins hafi á tímabili verið 250-350 en landverkafólk sem starfaði við síldarsöltun og saltfiskvinnslu var miklu fleira. Bræðurnir Richard og Ólafur báru mesta ábyrgð á rekstri Kveldúlfs á þessum tíma, Richard stjórnaði fjármálum og erlendum samskiptum en Ólafur var andlit fyrirtækisins og málsvari.
Kveldúlfur var stærsta útgerðarfélag á Íslandi fram að seinni heimstyrjöld og gerði út sjö togara þegar mest var. Eftir styrjöldina dró úr umsvifum þess og fór svo að lokum að aðeins einn togari var eftir í rekstri og var hann að lokum seldur árið 1971. h/f Kveldúlfur var formlega afskráð árið 1977.

Sjö kveldúlfstogarar við bryggju. Næstur okkur er Arinbjörn hersir RE 1 og utan á honum er Egill Skallagrímsson RE 165. fleiri þekkjast nú ekki.                                                              Ljósm: óþekktur. 

24.01.2016 12:17

Síldveiðiskip Hans Lindahl Falcks Konsúls við Ísland um og eftir 1900.

Síldarsöltun á Akureyri á fyrsta tug 20 aldar. Skip útgerðarfélagsins, Stavanger Havfisk Co í Stavanger í Noregi sem Hans L Falck er í forsvari fyrir, liggja við bryggjuna. Verið er að salta úr Atlas sem var á snurpunótaveiðum. Síldin er flutt í tvíhjóla handvagni og sturtað í stóran kassa eða ramma úr tré. Utan við kassann bogra síldarstúlkurnar við að kverka síldina í stampa. Þeir eru síðan dregnir að tunnunum og síldin söltuð í þær. Á myðri mynd stendur maður og styður sig við skóflu. Hlutverk hans var að lempa síldinni til stúlknanna.

Síldveiðiskip Hans L Falcks Konsúls við bryggju á Akureyri.              (C) Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Það er ekki úr vegi að skoða skip Falcks aðeins betur. Eins og sést á myndinni eru skipin þrjú, það eru Atlas og Albatros en það þriðja gæti verið Bremnæs. Útlendingum var óheimilt að stunda atvinnurekstur í útgerð hér á landi, því þurfti Falck að láta "leppa" fyrir sig útgerðina hér. Mun það hafa verið Torvald L Imsland kaupmaður á Seyðisfirði sem það gerði. Skipin voru svo seinna gerð út á togveiðar við Ísland.

Albatros Falcks. Myndin sennilega tekin á sama tíma og sú hér að ofan. Albatros var smíði númer 611 hjá Edwards Brothers í North Shields á Englandi árið 1899. 138 brl. (97,1 ft) 51 ha. 3 þjöppu gufuvél frá MacColl & Pollock Ltd í Sunderland. Eigandi var Stavanger Havfiske Co í Stavanger í Noregi frá 1899. Skipið var lengt 1904, mældist þá 189 brl.(121,5 ft). Skipið var selt til Rússlands árið 1918. (C) Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Atlas Falcks. Smíði númer 610 hjá Edwards Brothers í North Shields á Englandi árið 1899. 137 brl. (97,1 ft). 51 ha. 3þjöppu gufuvél frá MacColl & Pollock Ltd í Sunderland. Eigandi var Stavanger Havfiske Co í Stavanger í Noregi frá 1899. Skipið var lengt 1905, mældist þá 191 brl. (121 ft). Selt til Rússlands árið 1918.
                                                                                    (C) Mynd: Stavanger Maritime Museum.

Veiðarnar virðast hafa gengið ágætlega hjá Falck miðað við það sem kemur fram í greinunum tveimur hér að neðan.;


Reknetaveiðar Falcks konsúls hér við land. Hr. Falck konsúll í Stavangri, sem tvö síðustu árin hefir gert út gufuskip og seglskip meðfram til reknetaveiða hér við land, hefir bæði árin ritað hr. stórkaupmanni Thor E. Tulinius skýrslu um þetta fyrirtæki. Skýrslan um reknetaveiðarnar 1900 mun hafa verið prentuð í »ísafold«. Nú hefir »Norðurlandi« verið send skýrslan 1901, og er hún dagsett 12. okt. síðastl. í fyrra fekk hr. Falck 536 tunnur af síld í reknet. Síldin var góð, en meðferðinni á henni nokkuð ábótavant. Allgóð vara varð úr henni. Eftir þá reynslu, sem Falck konsúll hafði fengið fyrsta árið, bjó hann skip sín betur úr garði í ár, tvö gufuskip, »Albatros« og »Bremnæs« og tvær seglskútur, »Solo« og »Duo«. Öll þessi skip voru að fiskiveiðum hér við land og seldu fiskinn á Seyðisfirði og ísafirði. Svo var fyrir þau lagt, að þegar dimmt væri á nóttum, skyldu þau fást við síldarveiði í reknet, og seglskúturnar áttu að stunda þær veiðar, þegar tilefni væri til þess, bæði til þess að afla sér beitu og til söltunar. »Albatros« kom með 517 tunnur til Noregs, »Bremnæs« með 309 tunnur. »Solo« og »Duo« komu hvort um sig með 45 tunnur, auk þess, sem þau notuðu til beitu. Þetta verða alls 916 tunnur. Veður var ekki hagstætt og við það bættist það, að síldin kom fyr en hún var vön að koma, og þegar skipin komu á fiskistöðvarnar, var sfldin í allsmáum torfum. Eina nótt lágu »Bremnæs« og »Albatros« rétt hvort hjá öðru; þá nótt fekk »Bremnæs 100 tunnur, en »Albatros« ekki nema eina. Síldin, sem veiddist, var stórsíld, og við aðgreining á henni og söltun reyndust fara um 300 síldir í fulltroðna tunnu (90 kg.) Hún var fyrirtaks-góð, og »því engin furða, þó að eg fengi hátt verð fyrir hana,« segir konsúllinn. »Eftir þessar tilraunir er það ljóst, sem eg gerði mér í hugarlund þegar í fyrra, að við ísland og umhverfis það er fyrirtaks-góð síld, en landsmenn hafa hennar ekki not, af því að þeir eru sér ekki ( útvegum um áhöld til að veiða hana. Reyndar hefir mér veizt sú ánægja, að fleiri hafa nú gert dálitlar tilraunir til að fara sömu leiðina, og ýmsum íslendingum hefi eg veitt aðstoð með kaup á netjum og frætt þá um það, sem þeir hafa æskt eftir, um veiðina og meðferðina á síldinni. Svo mikla athygli hafa tilraunir mínar vakið á íslandi, að eg efast ekki um, að á næsta ári muni margir fleiri útvega sér net.. Þessar veiðar má reka á slúffum, skútum og gufuskipum, í stuttu máli, á hvers konar skipum, sem vera skal. En netin verða' þá að vera löguð eftir því, sem við á. Mér virðist svo, sem þessar veiðar ætti að stunda til muna á íslandi, og að íslendingar ættu að gera það, því að varan hefir þessi tvö ár, og einkum í ár, reynst svo góð, að jafnvel þótt markaðurinn sé offyltur, má búast við að fá gott verð fyrir hana.                                        Norðurland 1 árg. 1901-1902. 6 tbl. 5.11.1901.


 Árið 1899 byrjaði norskt fyrirtæki, sem hét Havfiskecompaniet, reknetaveiðar fyrir Norðurlandi, undir stjórn Hans L. Falks. Tilraunir þessar gáfust vel og einnig voru þær reyndar af öðrum við Austurland og í Faxaflóa. Næstu árin á eftir var þetta algeng veiðiaðferð, sem gaf miklar vonir um góðan árangur. 

Sumarið 1904 komu um 100 norsk skip til Siglufjarðar. Á meðal þeirra voru nokkrir "stórir barkar", sem áttu að vera fljótandi stöðvar, til að salta og geyma síldina í. Þetta ár markar tímamót í síldveiðum við Ísland, vegna nýrrar veiðitækni. Tvö norsk gufuskip, Atlas og Albatros, komu með snurpinót, öðru nafni herpinót, á Íslandsmið og veiddu mjög vel. Þetta nýja veiðarfæri er upphaflega bandarískt. Talið er að sjómenn á Rhode Island hafi fundið herpinótina upp árið 1826 og notað hana til smáfiskaveiða. Norðmenn kynntust nótinni 1876 og munu hafa verið fyrstir Evrópuþjóða til þess að reyna þessa aðferð við síldveiðar. Tilraunir þeirra og Svía um 1880 heppnuðust vel. Það var Hans L. Falk konsúll í Stavanger, sem fyrr er nefndur, sem taldi möguleika á því að nota slíka nót við síldveiðar eins og við aðrar smáfiskaveiðar og sendi því skipin á Íslandsmið. Þann 26. júlí 1904 var fyrstu tvö hundruð tunnunum af herpinótasíld landað á Siglufirði. Þessi tvö skip veiddu mjög vel um sumarið, en reknetaskipunum gekk frekar illa og þau veiddu lítið. Varð þetta til þess að gjörbreyta veiðivenjum og þessi nýja aðferð ruddi sér til rúms. Með þessu hófst nýtt tímabil mikilla umsvifa á Siglufirði. Litla þorpið, sem áður var að mestu óþekkt utanlands og jafnvel innanlands, varð nú frægt fyrir hinar miklu síldveiðar, sem skip frá ýmsum þjóðum stunduðu þaðan. Í annað sinn höfðu norskir menn hafið landnám á Siglufirði, og þannig fetað í spor Þormóðs hins ramma Haraldssonar, þó með allt öðrum hætti væri. 

                                                                   Morgunblaðið 21 des 1997.  /   Siglfirskir söguþættir Ragnar Jónasson.




23.01.2016 22:16

33. Dettifoss ll. TFDA. Líkan.

Dettifoss var smíði númer 690 hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1949 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 2.918 brl. 3.700 ha. B&W díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 5 ágúst 1948. Dettifoss og systurskip hans, Goðafoss lll og Lagarfoss ll voru smíðuð á árunum 1948-49 og gengu ætíð undir heitinu þríburarnir. Dettifoss var afhentur Eimskipafélaginu 1 febrúar 1949. Dettifoss var í siglingum bæði til Evrópu og Bandaríkjanna. Einnig var hann á árunum 1961-63 í nautakjötsflutningum milli Bandaríkjanna og Dublin og kjúklingaflutningum frá Bandaríkjunum til Rotterdam og Hamborgar með viðkomu á Íslandi í báðum leiðum. Í mars 1969 var skipið selt Carlos A.Gothong Lines Inc á Filippseyjum, hét Don Sulpico. Nafni skipsins var breytt í Don Carlos Gothong árið 1976. Hinn 12 október 1978 hvolfdi skipinu og það sökk á grunnsævi nálægt Cebu á Filippseyjum. Mannbjörg varð. Líkanið af Dettifossi er á skrifstofum Eimskips við  Sundagarða.


33.Dettifoss ll.                                                                                 (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


33. Dettifoss ll.                                                                                        (C) Mynd: Pétur Hauksson.

22.01.2016 22:20

1585. Sigurfari ll SH 105. TFGH.

Sigurfari ll SH 105 var smíðaður hjá Þorgeiri & Ellert h/f á Akranesi árið 1981 fyrir Hjálmar Gunnarsson og Gunnar Hjálmarsson á Grundarfirði. 431 brl. 2.230 ha. Alco díesel vél. Skipið var selt,11 febrúar 1986, Haraldi Böðvarssyni & Co h/f á Akranesi, fær nafnið Sturlaugur H Böðvarsson AK 10. Sama ár var sett ný vél í skipið, 1.650 ha. Stork Werkspoor díesel vél. 1 janúar 2004 sameinaðist Haraldur Böðvarsson & Co h/f og Grandi h/f í Reykjavík undir merkjum H.B.Granda h/f í Reykjavík og er togarinn gerður út af H.B.Granda h/f í dag. Þetta er sennilega síðasta árið sem hann verður gerður út því þrír nýir togarar eru í smíðum fyrir H.B.Granda í Tyrklandi og eru þeir væntanlegir á þessu ári og því næsta.

1585. Sigurfari ll SH 105.                                                    Mynd af gömlu dagatali. Ljósm: óþekktur.

1585. Sturlaugur H Böðvarsson AK 10.                                              (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Togdekkið og gálginn.                                 (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Millidekk togarans.                                                                           (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Skorsteinshúsið og inngangurinn í vélarúmið.                                      (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.



21.01.2016 21:47

Draugagangur eða hvað....?

Þegar ég las söguna um Helgu sem sigldi nöfnu sinni, EA 2 frá bryggju á Drangsnesi forðum daga, rifjaðist upp fyrir mér mynd sem ég sá fyrir mörgum árum í blaði nokkru sem Laugdælingur heitir. Frásögnin sem skrifuð var með myndinni set ég óbreytta hér. Hvort eitthvað sé til í þessu skal hver og einn dæma fyrir sig.

Þessi mynd er ein af mjög fáum sem náðst hefur af íslenskum Móra en það sést móta fyrir honum lengst til hægri á myndinni. Saga þessarar myndar er með þeim hætti að Móri fylgdi öðrum manninum sem sést á myndinni (ekki ljóst hvorum). Sá vildi aldrei láta taka mynd af sér og var þessi mynd tekin í hans óþökk. Aðeins tveir menn voru þarna (auk myndatökumanns), þegar myndin var tekin, en þegar hún var framkölluð sást móta fyrir Móra. Mynd þessi vakti talsverða athygli á sínum tíma og var filman m.a. send í rannsókn en ekkert fannst athugvert við hana. Mynd úr Laugdæling, uppsveitablað júní 2005.

Mér dettur í hug að myndin sé tekin út í Breiðafjarðareyjum, fjallgarðurinn til vinstri gæti verið Klofningurinn og Skarðsströndin. Þá væri myndin tekin í einhverjum inneyjanna, s.s. Rauðseyjar, Rúfeyjar eða Sviðnur. Þetta er nú bara hugdetta hjá mér, en landslagið er ekki ósvipað.



20.01.2016 09:46

Bátalíkön ll.

Höldum áfram með bátalíkönin, þessar myndir hér að neðan eru úr smiðju Hauks Sigtryggs Valdimarssonar á Dalvík. Þessi líkön eru sannkölluð listaverk og mun halda til haga útgerðarsögu okkar Íslendinga um ókomna tíð.


Gylfi EA 460. Smíðaður á Akureyri 1929. 12 brl. 40 ha. Skandía vél. Bar alla tíð sama nafn en mismunandi skráningarnúmer en þau voru, ÍS 510, EA 729 og SF 54. Báturinn var gerður að uppskipunarbát árið 1948.


Helga EA 2. LBHP. Smíðuð sem vélarlaust seglskip í Englandi árið 1874. Hét upphaflega Onward. Eik 72 brl. Fyrsti eigandi á Íslandi mun hafa verið Þórarinn Tulinius á Eskifirði frá 1898. Ottó Tulinius á Akureyri var eigandi frá 1901. Selt Hinum sameinuðu verslunum á Akureyri, óvíst hvenær. Árið 1916 er sett í skipið 44 ha. Dan vél. Selt Ludvig Möller á Hjalteyri í nóvember 1930. Selt Víglundi Möller á Hjalteyri í september 1931. Árið 1934 var sett í skipið ný vél, 130 ha. June Munktell vél. Skipið var endurbyggt, óvíst hvenær það var. Skipið var dæmt ónýtt og tekið af skipaskrá í ágúst árið 1944.


Helga EA 2 eftir endurbyggingu. Haukur Sigtryggur Valdimarsson setti inn sögu Helgu hér að neðan í athugasemdum,einkar fróðleg grein þar á ferð.


Kristján X EA 388. Smíðaður á Akureyri 1923. 12 brl. 12 ha. Hein vél. Báturinn hét Vonin GK 253 frá október 1940. Báturinn sökk í Höfnum á Reykjanesi í mars 1948 og eyðilagðist.

                                                                                    (C) Myndir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 

19.01.2016 14:18

147. Maí GK 346. TFKZ.

Maí GK 346 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. 982 brl. 2.100 ha. MAN díesel vél. Togarinn var seldur til Noregs í maí árið 1977.


Maí GK 346 að veiðum.                                                                     (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Hér fyrir neðan er grein úr morgunblaðinu frá 19 maí árið 1960 og hljóðar hún svo.;

Í fegursta veðri sigldi hinn glæsilegi togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Maí, hingað inn á höfnina í gærdag, fánum skrýddur. Mannfjöldi mikill var á bryggjunni til að fagna honum, og við það tækifæri lék Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Karlakórinn Þrestir söng nokkur lög. Þegar landfestar höfðu verið bundnar, tóku til máls af stjórnpalli Adolf Björnsson, formaður útgerðarráðs og Stefán Gunnlaugsson bæjarstjóri, sem buðu togara og áhöfn velkomin. Fer hér á eftir lýsing á togaranum í stórum dráttum: 16,2 mílur í reynsluferð. Maí er 1000 tonn og hinn stærsti togari, sem Islendingar hafa eignazt til þessa. Lengd er 210 fet. Breidd 34 fet. Dýpt 17 fet. Allar vélar og hjálparvélar í skipinu eru MAN-vélar frá Þýzkalandi. Aðalaflvél er 2280 hestöfl. Maí er fyrsti íslenzki togarinn með fullkomna skiptiskrúfu, þannig að vélin er alltaf látin ganga áfram, hvort sem skipið er keyrt áfram eða afturábak. Með skurði á skrúfunni má ákveða hvort skipið er keyrt áfram eða afturábak, og má því nota hagkvæmasta snúningshraða vélar hverju sinni, og skiptir það sérstaklega miklu máli, ef um krítiskan snúningshraða er að ræða. Ljósavélar eru þrjár, tvær 135 hestöfl hvor og ein 40 hestöfl, til notkunar þegar skipið liggur við landfestar. MAN-vélar hafa þann kost að nota má ódýrari olíur en á venju legar dieselvélar. Togvindumótor er 227 kw. 1 Maí er Sal-log hraðamælir af nýrri gerð og með tæki er honum fylgir má kanna fiskmagn í vörpunni hverju sinni. Tveir Decca radarar eru í skipinu, annar með sendiorku 45 kw., en hinn 20 kw., en draga hvor 48 mílur. Ný gerð er af Sperry-lóran. 1 stað þess að eftir eldri gerð lóran þurfti margvíslega útreikninga við staðarákvörðun, reiknast staðarákvörðun út sjálfkrafa eftir hinni nýju gerð. Loftskeytatæki eru frá Telefunken í Þýzkalandi og m. a. er stuttbylgjustöð, sem gerir fært að tala megi frá Nýfundnalandi til Þýzkalands. Kallkerfi er komið fyrir í tólf stöðum í skipinu af svonefndri Intercon-gerð frá Marconi. Gíróáttaviti og sjálfstýring er í 'skipinu. í Maí eru taeki til þess að dæla 70-80 gráða heitum sjó frá fjórum stöðum í skipinu, ef um ísingu er að ræða. Þá er algjör nýung, að í framsiglu er komið fyrir rafmagnshitun, er nota má ef ísing sezt á siglutréð, og getur hún brætt allan klaka af á örstuttum tíma. Fiskleitartæki eru af Kelvin Hughes gerð. Perulag er á stefni, sem á að auka ganghraða og draga úr veltingi miðað við fyrri gerð stefna. Lestar eru 27 þúsund kúbíkfet, almuníumklæddar, og eiga að rúma 500-550 tonn af fiski. Séfstakur góðfiskklefi er ofanþilfars, sem rúmar 5-10 tonn.

18.01.2016 12:24

2882. Víkingur AK 100.

Víkingur AK 100 var smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Celiktrans Deniz Insaat Ltd í Tyrklandi fyrir H.B.Granda h/f. 3.670 brl. 4.500 Kw Wartsiila díesel vél. Skipið er 81,19 m á lengd og 17 m á breidd. Ég tók þessar myndir af honum í Sundahöfn í gær þegar hann var að taka nótina um borð og hefur haldið fljótlega til veiða eftir það. Víkingur er hið glæsilegasta skip á að líta og megi gæfa og gifta fylgja því og áhöfn þess hvert sem það fer.


Víkingur að taka nótina um borð.                                                       (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


2882. Víkingur AK 100.                                                                     (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Víkingur AK 100.                                                                              (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Víkingur AK, glæsilegt skip.                                                              (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Víkingur AK 100.                                                                             (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Þessa grein hér fyrir neðan er á vef Akraneskaupstaðar.;

Í tilefni af komu Víkings AK 100 til Akraness var haldin móttökuathöfn á bryggjunni í Akraneshöfn 21. desember. Fjöldi fólks var mætt til þess að líta nýtt skip augum. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda setti athöfnina og bauð gesti velkomna og sagði frá skipinu sem er annað tveggja nýrra uppsjávarskipa sem HB Grandi tekur í notkun á þessu ári. Víkingur sem er 81,19 metra langur og 17 metrar á breidd var smíðaður í skipasmíðastöðinni Celiktrans Deniz Insaat Ltd í Tyrklandi. Einar Guðfinnsson forseti Alþingis flutti ávarp og fjallaði um um mikilvægi fiskveiðistjórnunarkerfisins fyrir sjávarútveg á Íslandi og Karlakórinn Svanir sungu frumsamið lag eftir Valgerði Jónsdóttur um systurnar söltu. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri ávarpaði því næst samkomuna og sagði frá sögu Víkings sem er samofin sögu sjávarútvegs á Akranesi en skipið er það fjórða á Akranesi sem ber nafnið Víkingur. Hún færði Alberti Sveinssyni skipstjóra gjöf frá Akraneskaupstað, málverk af gamla vitanum á Breið eftir myndlistarmanninn Bjarna Þór. Regína sagði við afhendingu gjafarinnar að myndin væri táknræn þar sem vitinn ætti að vísa veginn heim. Steinunn Ósk gaf skipinu nafn með hefðbundnum hætti og séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur blessaði skipið og áhöfnina. Haraldur Böðvarsson lét smíða skip með nafninu  Víkingur MB 2, í Lambhúsasundi á Akranesi árið 1913 og var það ásamt Val MB 1 fyrstu skipin sem voru smíðuð þar. Nýr Víkingur kom svo tuttugu árum síðar eða 1933 en þá keypti fyrirtækið nýtt skip, Heimaey sem var smíðað í Friðrikssundi í Danmörku og skírði það Víking MB 80. Þriðja skipið með þessu nafni, Víkingur AK 100 kom til heimahafnar í október 1960 en hann var smíðaður í Bremerhaven í Þýskalandi. 
Flettingar í dag: 329
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689275
Samtals gestir: 51463
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:34:17