Færslur: 2016 Mars

16.03.2016 20:08

Reykjafoss V. PCCM.

Reykjafoss var smíði no: 22 hjá Schiffswerft & Maschinenfabrik Cassenes GmbH, Emden í Þýskalandi árið 1999 fyrir C.V. Scheepvaartonderneming Westersingel í Hollandi, hét Westersingel. 7.541 brl. 6.000 Kw MaK vél. Frá 2000 til 2001 bar skipið nafnið X-Press Italia. Fékk svo aftur fyrra nafn til ársins 2003. fékk þá nafnið Msc Bosphorus. Fékk aftur sitt fyrsta nafn, Westersingel árið 2004. Um tíma árið 2005 var skipið nefnt Western, en fékk eina ferðina enn sitt fyrsta nafn. Eimskip tók skipið á leigu árið 2005 til þess að leysa af hólmi Lagarfoss lV sem skilað hafði verið til eigenda sinna. Fór skipið eina ferð á vegum félagsins áður en nafni þess var breytt í Reykjafoss, 11 október sama ár. Reykjafoss er skráður á Gíbraltar og mannaður erlendri áhöfn. Tók þessar myndir af honum þegar hann skreið inn Viðeyjarsundið í dag.


Reykjafoss V. PCCM. Á Viðeyjarsundi í dag.


Reykjafoss.


Reykjafoss.


Reykjafoss.


Reykjafoss.


Reykjafoss lagstur við bryggju í Sundahöfn.


Reykjafoss í grænum lit.                                         (C) Mynd: Aart van Bezooijen. MarineTraffic.com


Westersingel.                                                                                       (C) Mynd: MarineTraffic.com

                                                                               (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 16 mars 2016.

15.03.2016 21:30

96. Herjólfur. TFAB.

Herjólfur var smíðaður í Martenshock í Hollandi árið 1959 fyrir Ríkissjóð Íslands (Skipaútgerð ríkisins). 516 brl. 2 x 480 ha. B&W díesel vélar. Skipið var endurmælt í september 1968, mældist þá 495 brl. Skipið var selt til Hondúras 23 september árið 1977.


Herjólfur á útleið frá Vestmannaeyjum fyrir gos. Helgafell í baksýn.                   Ljósmyndari óþekktur.


Herjólfur var seldur til Hondúras árið 1977. Hann hét svo nöfnunum, Little Lil, Able Fox og Tilise Del Mar. Skipið strandaði 13 júní 1983 við eyjuna Bonaire í Vestur Indíum og eyðilagðist. Myndin af flakinu er tekin árið 1988.                                                                                                    (C) Mynd: Shipspotting.


Hinn 23. september 1977 birtist svohljóðandi frétt í blöðum:

Skip Skipaútgerðar ríkisins, Herjólfur hefur nú verið selt til Honduras, og verður skipið afhent hinum nýju eigendum í Reykjavík í dag, en þeir munu sjálfír sigla því út.
Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, sagði í símtali við blaðið í gær, að söluverð skipsins væri 210 þús. dollarar, eða yfir 43 millj. króna. Kvað Guðmundur þetta nettóverð. Þegar skip væru seld, afhentu seljendur það yfirleitt í hinu nýja heimalandi, og af því hlytist töluverður kostnaður. Að sögn Guðmundar hefur Herjólfur verið til sölu í rúmt ár, og ætlaði Skipaútgerðin sér að fá hærra verð fyrir skipið upphaflega en fékkst að lokum. Herjólfur er 495 rúmlestir að stærð, smíðaður í Hollandi árið 1959.
Herjólfur gamli lagði frá bryggju í Vestmannaeyjum í síðasta sinn þriðjudagskvöldið 6. júlí 1977, og var þá fjölmennt á bryggju til að kveðja hann og þakka honum og áhöfnum hans fyrir dygga og heillaríka þjónustu í 17 ½ ár á leiðinni Reykjavík - Vestmannaeyjar - Hornafjörður um nokkurt árabil - Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn - Reykjavík. Heimahöfn skipsins var Vestmannaeyjar. Áður en Herjólfur hóf ferð sína til nýrra heimkynna, hafði hann hlotið nýtt nafn, "Little Lil." Heimahöfn hans nú er Roatan í Honduras, einu af ríkjum Mið-Ameríku. Meðal þeirra, sem sigldu skipinu til hinnar nýju heimahafnar, var Guðmundur Guðmundsson, útgerðarstjóri hjá Hafrannsóknastofnuninni í Reykjavík, en skipstjóri í ferðinni var Magnús Bjarnason.

                                                                                                            Heimild: Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1978.

14.03.2016 21:00

Á síldveiðum við Jan Mayen.

Síldveiðifloti okkar Íslendinga þurfti oft á tíðum að fara langar leiðir á eftir síldinni, enda fór hún sínar eigin leiðir, svona eins og kötturinn. Þegar fór að líða vel á sjöunda áratuginn var veiðisvæði Íslensku skipanna aðallega á miðunum við Jan Mayen og Svalbarða og var þá jafnan landað í fisktökuskip sem fylgdi flotanum eftir. Það skip var Haförninn sem var í eigu Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Á myndinni eru skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Bjartur NK 121, nær og Barði NK 120 að háfa úr nót sem hefur fyllt bæði skipin. Ansi skemmtileg mynd, skipverjar að lempa síldinni niður í lestar skipanna og ekki hefur blíðan spilt neinu fyrir þeim.


Barði NK 120 og Bjartur NK 121 að háfa síld úr nót.                          (C) Mynd: Kristinn V Jóhannsson.

13.03.2016 22:42

Ocean Tiger R 38. OZKA.

Danski Úthafsrækjutogarinn Ocean Tiger R 38 var smíði no: 116 hjá Söviknes verft A/S í Haram í Noregi árið 1997. 2.223 bt. Wartsiila 12V32E, 6.686 ha. 4.920 Kw. Togarinn er gerður út af Ocean Seafood A/S í Danmörku. Heimahöfn skipsins er Nexö á Borgundarhólmi í Danmörku. Það má geta þess að Ocean Tiger er systurskip togarans Guðmundar í Nesi RE 13 sem er í eigu Brims h/f í Reykjavík.


Ocean Tiger R 38.


Ocean Tiger R 38.


Ocean Tiger R 38.


Ocean Tiger R 38.
                                                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. Hafnarfjarðarhöfn 12 mars 2016. 

12.03.2016 22:01

Leiknir BA 167. LBHV / TFHD.

Leiknir BA 167 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Fiskveiðahlutafélagið Ara fróða í Reykjavík. Togarinn hét fyrst Ari RE 147. 321 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var selt 14 janúar 1928, Kárafélaginu í Viðey, hét Ari GK 238. 9 janúar 1932 er skráður eigandi Útvegsbanki Íslands, fékk þá aftur upprunalega nafnið, Ari RE 147. Skipið var selt 3 september 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét Leiknir BA 167. Togarinn sökk á Halamiðum 2 október 1936. Áhöfnin, 15 menn, bjargaðist um borð í togarann Gylfa BA 77 frá Patreksfirði.


Leiknir BA 167.                                                                                   Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson.

Togarinn "Leiknir" sökk á Halamiðum.
Vörpuhleri orsakar skipstapa.

Skipverjar yfirgáfu skipið í flýti, TOGARINN "Leiknir" frá Patreksfirði sökk í fyrrinótt á Halamiðum. Skipverjar allir björguðust í bátana og síðan um borð í togarann "Gylfa", sem fór með skipshöfnina til Patreksfjarðar, eftir að Leiknir var sokkinn. Leiknir var að karfaveiðum á Halamiðum og í fyrrakvöld kom allt í einu óstöðvandi leki að skipinu, dælurnar höfðu ekki við, og er svo mikill sjór var kominn í skipið, að hætta gat verið á ketilsprengingu, neyddust skipverjar til að yfirgefa skipið. Misstu þeir allt sitt dót, nema það, sem þeir stóðu í. Dagbók 1. vjelstjóra, sem var á verði í vjelarúmi, gefur einna glegsta hugmynd um, með hverjum hætti slysið vildi til. Þar segir svo: "Klukkan 6,10 e. h. kom jeg á vakt og var þá allt í venjulegum gangi. Klukkan 10 er híft upp á hálfri ferð og stoppi. Kl. 10,15 er vjelin stöðvuð og skellur þá afturhlerinn stjórnborðsmegin með óvenju miklu höggi, svo að öryggi fjell úr rafmagnsborðinu, sem var á þilinu, og ljet jeg það í aftur. Kl. 10,25 tek jeg eftir því, að óvenju mikill sjór er í vjelrúmsbotninum. Þar eð hann var tómur þegar verið var að hífa, setti jeg því lensidælurnar í gang og tilkynti lekann. Því næst lýsir vélstjórinn í dagbókinni ýmsum varúðarráðstöfunum, sem hann gerði, en alt kom fyrir ekki, sjórinn jókst jafnt og þjett. Kl. 10,45 kom skipstjóri niður í vjelarrúm og tilkynti vjelstjórinn honum þá, að hann hefði ekki við að dæla. Var sjórinn þá kominn upp í sveifar og flaut yfir ketilrúmsgólfið. Klukkan 11 var sjór farinn að renna inn í miðeldhólfið og þá gaf skipstjórinn skipun um að yfirgefa skipið. Skömmu síðar komu togararnir Gylfi og Egill Skallagrímsson á vettvang og fóru skipverjar um borð í Gylfa. Var síðan komið vírum frá Gylfa um borð í Leikni og helt Gylfi af stað með hann í eftirdragi áleiðis til lands. Leiknir fyltist æ meir af sjó og rúmlega 3 klukkutímum eftir að Gylfi hafði tekið hann í eftirdrag, sökk skipið, og var þá höggvið.á vírana milli skipanna. Skipið sökk austanvert við Nesdýpi á 56 faðma dýpi, um 25 mílur NV af Sauðanesi. Gylfi kom til Patreksfjarðar kl. 10 í gærmorgun með skipshöfnina, og leið öllum vel. Sjópróf byrjuðu kl. 4 í gær. ,,Leiknir" var 321 smálest brúttó að stærð. Bygður í Selby á Englandi árið 1920, og þá keyptur hingað til lands af hlutafjelaginu "Ari fróði". Þá hjet skipið "Ari". 1928 keypti Kárafjelagið í Viðey "Ara" og árið 1932 núverandi eigendur þess, Ó. Jóhannesson á Patreksfirði, sem þá breyttu um nafn á skipinu og nefndu það "Leikni".
                                                                                                        

                                                                                                  Morgunblaðið 3. Október 1936.
11.03.2016 22:10

Íslenzkar eimskipamyndir ll.

Á þessu ári eru liðin ein 85 ár frá því að eimskipamyndirnar voru gefnar út en það var árið 1931. Þær voru í sígarettupökkum sem nefndust Commander og voru gefnar út af Tóbaksverslun Íslands h/f í samstarfi við Westminster Tobacco Co Ltd í London.


Brúarfoss l. LCKM / TFUA. Smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1927. Smíðanr: 181. 1.579 brl. 1.000 ha. B&W gufuvél. Eimskipafélag Íslands lét smíða frystiskip hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1927 og hlaut það nafnið Brúarfoss og var fyrsta Íslenska sérsmíðaða frystiskipið og olli smíði hans kaflaskiptum í útflutningi á landbúnaðarvörum. Áhöfnin á Brúarfossi bjargaði á stríðsárunum skipbrotsmönnum á tveimur skipum sem hafði verið sökkt. Þann 22 maí 1941 bjargaði hún 34 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Rothermere þar sem þeir voru að hrekjast um í björgunarbát undan suðurodda Grænlands. Ári síðar, 4 nóvember 1942, bjargaði hún svo 44 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Daleby sem sökkt var af Þýskum kafbát. 11 apríl 1948 strandaði Brúarfoss í Húnaflóa og fór viðgerð á skipinu fram í Leith í Skotlandi. Var vélum skipsins þá breytt frá kolakyndingu í olíukyndingu. Brúarfoss var seldur 10 júní 1957, Freezer Shipping Line Inc í Líberíu, hét Freezer Queen. Skipið var selt Jose A Naveira í Líberíu, hét Reina Del Frio. Árið 1960 var skipið skráð í Argentínu, sami eigandi. Árið 1964 skemmdist skipið af eldi er það var statt á Rosario fljótinu í Argentínu og var því lagt þar. Eftir brunann lá það í níu ár og var loks rifið árið 1973. Brúarfoss var síðasta olíukynta gufuskipið í eigu Eimskipafélags Íslands.


Selfoss l. LCFM / TFEB. Smíðaður hjá Porsgrund Mekanik Verksted í Porsgrund í Noregi árið 1914 fyrir A/S D/S Jyden ( J Villemoes ) í Esbjerg í Danmörku og fékk nafnið Villemoes. Smíðanr: 72. 775 brl. 550 ha. gufuvél. Ríkissjóður Íslands keypti skipið í maí 1917 og var nafni skipsins haldið óbreyttu. Eimskipafélagi Íslands var falinn rekstur skipsins og var það haft í millilandasiglingum, en hafði einnig viðkomu í innanlandshöfnum. Auk þess var það  um tíma í leigusiglingum vestan hafs. Eftir að flutningar á olíu höfust með tankskipum hér við land árið 1928 hafði ríkissjóður ekki lengur þörf fyrir Villemoes, en hann hafði annast flutninga á olíu í tunnum til innanlandshafna. H/f Eimskipafélag Íslands keypti þá skipið og fékk það nafnið Selfoss l. Selfoss var í förum milli Íslands og Evrópulanda, en hóf Ameríkusiglingar á árum seinni heimstyrjaldarinnar. Selfoss var í tveggja mánaða leigu hjá Bandaríkjamönnum árið 1943 og þá í siglingum við vesturströnd Grænlands. Í stríðslok hóf skipið aftur Evrópusiglingar. Hinn 19. desember 1950 lenti Selfoss í árekstri við danska skipið Skjold, sem var í eigu DFDS, á Schelde-fljóti þegar skipið var nýlagt af stað frá Antwerpen til Íslands. Talsverðar skemmdir urðu á skipinu sem snéri aftur inn til Antwerpen þar sem viðgerð fór fram á því. Árið 1956 var Selfoss seldur til niðurrifs í Belgíu og afhentur þar 9. febrúar sama ár. Selfoss var síðasta kolakynta gufuskipið í eigu Eimskipafélagsins. 

Dettifoss l. LCKR / TFDA. Smíðaður hjá Frederikshavn Værft & Flydedok A/S í Frederikshavn í Danmörku árið 1930. Smíðanr: 190. 1.564 brl. 1.500 ha. B&W gufuvél. Var skipinu einkum ætlað til vöruflutninga milli Hamborgar, Hull og Íslands. Árið 1936 voru gerðir sölusamningar við Englendinga um kaup á freðfiski. Þar sem Brúarfoss l var þá eina frystiskipið í eigu félagsins varð úr að Fiskimálanefnd veitti Eimskipafélaginu styrk til að láta breyta lestarrími í Dettifossi að hluta í frystirými. Dettifoss var í siglingum milli Íslands og Evrópu fram að heimstyrjöldinni síðari, en hóf þá Ameríkusiglingar. Undir lok styrjaldarinnar tók hann að hafa viðkomu í Englandi á ný. Í mars 1932 bjargaði áhöfn Dettifoss skipshöfn þýska togarans Lubeck sem hafði strandað á skeri í Herdísarvík. Var áhöfn heiðruð af Hindenburg forseta Þýskalands fyrir björgunina. Í desember 1938 bjargaði áhöfnin svo þremur mönnum af fiskiskipinu Rafni EA er það sökk á leið frá Þingeyri til Reykjavíkur. 21. febrúar 1945 sökkti þýski kafbáturinn U-1064, undir stjórn K-H.Schneidewind, Dettifossi með tundurskeyti. Var skipið þá statt í Írlandshafi um 30 sjómílur SA af Dublin og fórust tólf skipverjar og þrír farþegar. Var skipið á leið frá Belfast til Reykjavíkur í skipalest UR-155 og var Dettifoss eina skipið sem kafbáturinn U-1064 sökkti í stríðinu.
                                                                              Heimildir: H/f Eimskipafélag Íslands í 100 ár.
                                                                              (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.


10.03.2016 21:26

Grandagarður nú í kvöld.

Það má segja að það hafi verið þétt setinn bekkurinn við Grandagarð nú í kvöld. Verið var að landa úr Frosta ÞH, veit ekki hvað hann var að fiska en það hefur verið þó nokkuð miðað við öll körin sem voru á bryggjunni, flest full af fiski. Einnig lá þarna Rannsóknarskipið Dröfn RE 35 ex Ottó Wathne NS, togarinn Ljósafell SU, Laugarnes auk Qavak, þeim Grænlenska og Ísbjörn ÍS, en þeir eru búnir að vera hér í höfninni síðan snemma í haust.


2433. Frosti ÞH 229 að landa afla sínum.


2433. Frosti ÞH 229.


2433. Frosti ÞH 229.


1277. Ljósafell SU 70, 1574. Dröfn RE 35 og 2433. Frosti ÞH 229.


Það má segja að það sé þétt setinn bekkurinn í höfninni eins og er.


Laugarnesið í forgrunni, Dröfn RE og Ljósafell SU.


Laugarnesið upplýst eins og jólatré.


Það var nóg að gera hjá lyftaramanninum.


1277. Ljósafell SU 70 bíður þess að veður gangi niður á suðvestur svæði svo hægt sé að klára togararallið í ár. Sér í Dröfn RE 35 til hægri.

                                                                            (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 10 mars 2016.

09.03.2016 21:45

1277. Ljósafell SU 70 í Reykjavíkurhöfn í dag.

Ljósafell SU kom inn til Reykjavíkur í gærkvöldi. Togarinn er í hinu árlega togararalli á vegum Hafrannsóknarstofnunar en kom inn vegna brælu. Þeir fara víst ekki út fyrr en eftir helgi. Eiga eftir um 50 togstöðvar og munu væntanlega klára þær í næstu viku ef veður leyfir. Matsveinn togarans bar að þegar ég var að mynda skipið og bauð hann mér um borð. Þáði ég það að sjálfsögðu með þökkum. Hér eru nokkrar myndir af skipinu og um borð í því. Ljósafell er glæsilegt skip.


1277. Ljósafell SU 70.Verið er að kara og ísa hann.


1277. Ljósafell SU 70.


Það eru alltaf sömu lengjurnar sem Hafró notar, bara járnbobbingar og sjálfsagt sömu netadruslurnar.


Það er sérlega góð vinnuaðstaðan á dekkinu.


Togarinn ísaður.


Setustofa í borðsalnum. Sér í matborðið til hægri.


Eldhúsið.


Kokkurinn á Ljósafelli. Þórir heitir hann ef ég man rétt.


Kælirinn og frystir eru fyrir aftan eldhúsið og þaðan er hægt að komast út á millidekkið.


Millidekkið.


Millidekkið.


Síginn fiskur, hið mesta góðgæti.


Skutrennan.                                                              (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016. 


08.03.2016 19:24

1275. Hvalbakur SU 300. TFBN.

Hvalbakur SU 300 var smíðaður hjá Narasaki Zosen K.K. í Muroran í Japan árið 1973 fyrir Hvalbak h/f á Stöðvarfirði. 462 brl. 2.000 ha. Niigata díesel vél. Seldur árið 1977, Hraðfrystihúsi Fáskrúðsfirðinga h/f á Fáskrúðsfirði og fékk nafnið Hoffell SU 80. Skipið var lengt árið 1986, mældist þá 548 brl. Einnig var skipt um vél, 2.300 ha. Niigata díesel vél, 1.691 Kw. Togarinn var seldur Vinnslustöðinni h/f í Vestmannaeyjum árið 1997, hét í fyrstu Jón Vídalín ÁR 1, en fékk svo nafnið Jón Vídalín VE 82 og er gerður út af Vinnslustöðinni h/f í Vestmannaeyjum í dag.


1275. Hvalbakur SU 300 við bryggju á Breiðdalsvík.                          (C) Mynd: Guðjón Sveinsson.


1275. Hoffell SU 80.                                                         (C) Mynd: Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga.


1275. Jón Vídalín ÁR 1 í Reykjavíkurhöfn sumarið 1998.               (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


1275. Jón Vídalín VE 82 í Reykjavíkurhöfn 26 júlí 2014.                (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

07.03.2016 21:33

Bátalíkön lV.

Hér koma nokkrar bátamyndir úr smiðju Hauks Sigtryggs Valdimarssonar á Dalvík. Að venju eru þessi bátalíkön hvert öðru fallegra og enn og aftur sannkölluð listaverk.


3. Akraborg EA 50. TFAL. Smíðuð í Svíþjóð árið 1943. Eik 178 brl. 160 ha. Bolinder vél. Eigandi var Valtýr Þorsteinsson á Akureyri frá 3 febrúar 1947. Árið 1953 var sett ný vél í bátinn, 400 ha. Alpha díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 7 nóvember 1979.


20. Ásúlfur ÍS 202. TFWR. Smíðaður í Svíþjóð árið 1947. Eik 97 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 10 júní 1947. Skipið var selt 6 maí 1949, Skutli h/f á Ísafirði. Árið 1953 var skipið endurmælt og mældist þá 102 brl. Árið 1959 var sett ný vél í skipið, 375 ha. Kromhout díesel vél. Selt 12 nóvember 1963 Þorsteini N Halldórssyni í Keflavík, hét Gulltoppur KE 29. Árið 1966 var skipið endurmælt aftur og mældist þá 90 brl. Talið ónýtt og tekið af skrá 6 september 1967.


28. Björn Jónsson RE 22. TFSR. Smíðaður í Djúpvík í Svíþjóð árið 1947. Eik 105 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 5 júlí 1947. Seldur 21 febrúar 1949, h/f Guðjóni í Reykjavík. Selt 20 desember 1959, Ísbirninum h/f í Reykjavík. Skipið sökk við Tvísker 29 júlí 1965 þegar það var á síldveiðum. Áhöfnin, 11 menn komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í björgunar og eftirlitsbátinn Eldingu (Hafsteinn Jóhannsson) sem kom þeim til lands heilum á húfi. 
                                                                          (C) Myndir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

Skipverjar á síldveiðibátnum Akraborg EA 50 hafa sent Emil Jónssyni sjávarútvegsmálaráðherra mótmælaskeyti vegna gerðardómsins um skiptakjör síldveiðisjómanna. Skeytið er svohljóðandi: - Herra sjávarútvegsmálaráðherra, sjávarútvegsmálaráðuneytinu, Reykjavík. Þar sem þér hafið notað vald yðar og þar með stuðlað að stórkostlegri kjararýrnun sjómanna á síldveiðibátum á yfirstandandi vertíð, fyrst með bráðabirgðalögum' og síðan gerðardómi, þá mótmælum við harðlega niðurstöðum gerðardóms um' skiptakjör og aðgerðum þessum í heild. Skipverjar vs. Akraborg EA 50.                                                                                     Þjóðviljinn 9 ágúst 1962.

06.03.2016 17:16

Skip í slipp.

Þær eru nú orðnar ansi margar myndirnar sem ég er með af ýmisskonar skipum sem eru í slipp. Ágætt að leifa þeim að fljóta með hér á síðunni annað slagið.


Nýsköpunartogarinn Askur RE 33 í slipp í Reykjavík. Askur var smíði no: 718 hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. 657 brl. 1.000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi hans var Askur h/f í Reykjavík frá nóvember 1947, þar til hann var seldur Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni í Reykjavík í febrúar árið 1961, sama nafn og númer. Seldur í brotajárn til Belgíu 2 júlí 1969.                          (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


Togarinn Gerpir NK 106 í slipp í Reykjavík 30 mars 1957. Var hann að koma í 4 mánaða eftirlit eins og skilt er með nýsmíðuð skip. Gerpir var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar. 804 brl. 1.470 ha. MAN díesel vél. Togarinn var seldur Júpíter h/f í Reykjavík (Tryggva Ófeigssyni), 12 júlí 1960, hét þar Júpíter RE 161. Hét einnig nöfnunum Júpíter ÞH 61, Suðurey VE 12, Bjarnarey VE 25 og var svo seldur í brotajárn til Esbjerg í Danmörku í mars árið 2008 undir nafninu Bjarnarey VE 21. 
                                                                                    (C) Mynd: Morgunblaðið 30 mars 1957.

Í gærkvöldi um klukkan 10, kom hinn nýi glæsilegi togari Norðfirðinga, Gerpir, hingað til Reykjavíkur í fyrsta skipti. Er togarinn kominn til eftirlits, en um fjórir mánuðir eru liðnir frá því hann kom til landsins. Verður togarinn að fara í slipp og verður hann tekinn upp árdegis í dag.
                                                                                                  Morgunblaðið 29 mars 1957.

05.03.2016 17:58

2865. Börkur NK 122. TFEN.

Börkur NK 122 var smíðaður hjá Celiktrans í Istanbúl í Tyrklandi árið 2012. 3.588. bt. 5.875 ha. MaK  vél, 4.320 Kw. Hét áður Malene S. Skipið er 80,3 m. á lengd, 17 m á breidd og djúprista er 9,6 m. Burðargeta skipsins er 2.500 tonn. Ég tók þessar myndir í Hafnarfjarðarhöfn í morgun, en þangað kom hann með brotna kraftblökk eftir að hafa landað í Helguvík í nótt.


2865. Börkur NK 122 í Hafnarfjarðarhöfn í morgun.


Börkur NK 122.


Börkur NK 122.


Börkur NK 122.


Börkur NK 122.


Börkur NK 122. Þetta er blökkin sem brotnaði niður sem ber í kranabómuna.


Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri. Við vorum saman til sjós í mörg ár á togaranum Bjarti NK 121. Mikill öðlingsdrengur þarna á ferð.


                                                                               (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 5 mars 2016.

04.03.2016 21:49

1868. Helga María AK 16. TFJD. Myndasyrpa.

Helga María AK 16 var smíðuð hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Noregi árið 1988. 882 brl. 2.992 ha. Wartsiila díesel vél, 2.200 Kw. Togarinn var smíðaður sem frystitogari fyrir Sjólaskip h/f í Hafnarfirði og hét fyrst Haraldur Kristjánsson HF 2. Helga María AK er gerð út á ísfisk í dag og er í eigu H.B. Granda h/f í Reykjavík. Ég tók þessa myndasyrpu af togaranum frá Ingólfsgarði þegar hann var að koma inn til löndunar í Reykjavík í maí árið 2014.

1868. Helga María AK 16. TFDJ.
 


Fallegt skip Helga María AK 16.                                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 4 maí 2014.

Nýr skuttogari, M/S Haraldur Kristjánsson HF 2, bættist við fiskiskipaflotann 23. mars s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Haraldur Kristjánsson HF er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 141 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h. f. Í Reykjavík. Haraldur Kristjánsson er systurskip Sjóla HF, sem er í eigu sömu útgerðar og kom til landsins í september á s. I. ári (sjá ÆGI, 11. tbl. '87). Skipið er fjórtándi skuttogarinn sem stöðin afhendir íslenskum útgerðaraðilum. Haraldur Kristjánsson HF kemur í stað Karlsefnis RE 24, elsta skuttogara landsins, smíðaður árið 1966 og keyptur til landsins árið 1972. Lítils háttar frávik eru í fyrirkomulagi og búnaði skipsins frá Sjóla. Þar ber helst að nefna að sérstakt frystivélarými er milli vélarúms og lesta, sem þýðir um 98 m 3 minni lest, bætt við hjálparvélasamstæðu (báðar í vélarúmi) og vinnslubúnaður umfangsminni, þar sem gulllax-vinnslutækjum er sleppt. Haraldur Kristjánsson HF er í eigu Sjólastöðvarinnar h.f. í Hafnarfirði. Skipstjóri á skipinu er Helgi Kristjánsson og yfirvélstjóri Þorbergur Þórhallsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Haraldur Jónsson.

Ægir 81. árg 1988. 5 tbl.

03.03.2016 21:03

Nýsköpunartogarinn Hvalfell RE 282 með fullt dekkið af fiski.

Þetta hafa verið ansi margir pokarnir og framundan er mikil vinna hjá skipverjum að ganga frá aflanum, hvort sem er í ís eða salt.Hvalfell var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947. 655 brl. 1000 ha. gufuvél. Fyrsti eigandi var h/f Mjölnir í Reykjavík. Togarinn var svo seldur í febrúar 1961, Síldar og Fiskimjölsverksmiðjunni í Reykjavík. Seldur í brotajárn til Belgíu árið 1969.

109. Hvalfell RE 282. TFLC.                                                             (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

02.03.2016 10:09

Á útleið frá Ísafirði á Bjarti NK 121 í maí 1990.

Við vorum á Grálúðu út í Víkurál þegar togspilið bilaði hjá okkur. Það tók þó nokkurn tíma að snörla vírunum inn því Grálúðan er oftast á miklu dýpi og þá er mikill vír úti. En allt gekk þetta vel og haldið var til hafnar á Ísafirði til að fá gert við spilið. Ég tók þessar myndir á Ísafjarðardjúpinu á útleiðinni frá Ísafirði.


Horft inn Ísafjarðardjúp.


Á Ísafjarðardjúpi.


Óshlíð.


Bolungarvík með Traðarhyrnu til hægri.


Mynni Jökulfjarða, Vébjarnarnúpur og Snæfjallaströnd.


Útvörður Ísafjarðardjúps í norðri, Riturinn og Grænahlíð.

                                                                                     (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. Maí 1990.
Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25