Færslur: 2016 Júlí

09.07.2016 07:44

2203. Þerney RE 1. TFPC.

Þerney RE 1 var smíðuð hjá Sterkoder Mekaniske Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1992. 1.199 brl. 3.345 ha. Wartsiila vél, 2.460 Kw. Hét fyrst Mikhail Levashov. Eigandi var Grandi h/f í Reykjavík frá 2 desember 1993, hét þá Þerney RE 101. Togarinn er gerður út af H.B.Granda h/f í dag og heitir Þerney RE 1.


Þerney RE 1 við bryggju í Örfirisey 26 apríl 2016.


Þerney RE 1 með fullfermi á jóladag 2015.                                  (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

08.07.2016 09:18

50. Fákur GK 24. TFQV.

Fákur GK 24 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1956 fyrir Einar Þorgilsson & Co h/f í Hafnarfirði. Eik, 144 brl. 360 ha. Alpha díesel vél. Skipið var selt 20 janúar árið 1968, Steinunni h/f í Reykjavík, hét Steinunn RE 32. Talið ónýtt og tekið af skrá í desember árið 1979.


Fákur GK 24 á siglingu.                                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

07.07.2016 08:48

Polar Amaroq GR 18-49. OWPN.

Polar Amaroq var smíðaður hjá Societatea Comerciala Navol S.A. í Oltenita í Rúmeníu ( skrokkurinn ) fyrir Hellesöy Verft A.S. í Löfallstrand í Noregi. Skrokkur skipsins var svo dreginn til Noregs og skipið klárað hjá Hellesöy Verft A.S. árið 2004. 3.200 brl. 7.507 ha. Wartsiila díesel vél. Eigandi var K. Halstensen A/S í Östervoll í Noregi frá árinu 2004, hét Gardar. Skipið var lengt árið 2006. Selt 3 desember árið 2013, Polar Pelagic í Tasiilaq á Grænlandi sem Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað á þriðjungshlut í. Heitir í dag Polar Amaroq GR 18-49 og er gert út frá Tasiilaq á Grænlandi. Burðargeta skipsins er 2.535 tonn, þar af 2.000 tonn í kælitanka. Frystigeta um borð er 140 tonn á sólarhring og er þá miðað við heilfrystan fisk en frystirýmið er fyrir 1.000 tonn.


Polar Amaroq GR 18-49 við Grandagarð.


Polar Amaroq við Grandagarð.


Polar Amaroq við Grandagarð.                                  (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 5 og 6 júlí 2016.

06.07.2016 09:36

B.v. Ása RE 226. LCGM.

Ása RE 226 var smíðuð hjá H. J. Coopman & Co í Dordrecht í Hollandi árið 1917. 305 brl. 550 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Vínland RE 226 og var í eigu Geirs Thorsteinssonar & Co frá árinu 1919. Skipið var selt árið 1923, H. P. Duus í Reykjavík, hét Ása RE 226. Togarinn strandaði við Dritvíkurtanga 20 desember árið 1925. Áhöfnin komst í skipsbátana og var bjargað þaðan um borð í þýskan togara og fiskflutningaskipið La France. Skipið eyðilagðist á strandstað. Á myndinni er Ása að toga við sandana, sunnan við Mýrdal í mars árið 1924.

 
Ása RE 226 á toginu út af Mýrdalnum í mars 1924.          Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


ATH.

Ása RE ex Vínland RE 226 var talinn hafa haft einkennisstafina RE 18 og er þannig skráður í 3 bindi, bls 136 í bókaflokknum Íslensk skip. Í 5 bindi sama bókaflokks á bls 148 er skráð, óvíst um númer. Ég fékk þessa mynd af Ásu fyrir stuttu síðan, myndin er í góðri upplausn og sést vel að skipið er með skráninguna RE 226 á lunningunni aftur við hekkið. 
Togarinn var smíðaður fyrir Geir Thorsteinsson & Co árið 1917 en kom ekki til landsins fyrr en 2 árum síðar vegna ófriðarins í Evrópu. 

05.07.2016 11:30

1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. TFKU.

Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var smíðaður í Szczecin í Póllandi árið 1989. 772 brl. 3.346 ha. Wartsiila vél, 2.460 Kw. Eigandi skipsins er Hraðfrystihúsið Gunnvör h/f í Hnífsdal en heimahöfn þess er á Ísafirði.

Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Ægisgarð.


Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Ægisgarð.                                       (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

04.07.2016 08:35

B.v. Jón forseti RE 108. LBJT.

Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Scott & Sons (Bowling) Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1906. 233 brl. 400 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var h/f Alliance í Reykjavík frá 1 febrúar árið 1907. Togarinn strandaði á Stafnesrifi 28 febrúar 1928. 15 skipverjar fórust en 10 var bjargað. Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga og kom hann til landsins í ársbyrjun 1907.


B.v. Jón forseti RE 108.                                              Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mynd í minni eigu.

Jón forseti ferst

Þær vonir hafa brugðist, sem menn gerðu sér í gærmorgun um björgun allrar skipshafnarinnar af Jóni forseta. Seint i gærkveldi bárust fregnir um, að tíu mönnum hefði verið bjargað, en hinir hafa allir farist. Tuttugu og sex menn voru á skipinu, og voru þessir 23 lögskráðir: Magnús Jóhannsson, skipstjóri, Bjargarstíg 6. (Hann var áður 1. stýrimaður skipsins, en hafði nú skipstjórn á hendi í forföllum Guðmundar Guðjónssonar, skipstjóra, sem verið hefir sjúkur að undanförnu). Skúli Einarsson (46 ára), 1. vélstjóri, Efri Selbrekkum. Ólafur Jóhannsson (38 ára), 2. vélstjóri, Bergstaðastræti 63. Ingvi Björnsson (24 ára), loftskeytamaður, Bakkastíg 5. Bjarni Brandsson (39 ára), bátsmaður, Selbrekkum. Magnús Jónsson (43 ára), Hverfisgötu 96 B. Stefán Einarsson (47 ára), bryti, Kárastíg 6. Pétur Pétursson (35 ára), Laugaveg 46 A.  Sigurður Bjarnason (25 ára), Selbrekkum. Sigurður Sigurðsson (27 ára), Framnesveg 2. Kristinn Guðjónsson (28 ára), Selbrekkum. - - Steingrímur Einarsson (24 ára), Framnesveg 61. Jóhann Jóhannsson, Hverfisgötu 60 A. Árni Kr. Stefánssqn (18 ára), hjálparsveinn, Kárastíg 6, Gunnlaugur Jónsson (35 ára), Króki, Kjalarnesi. Magnús Sigurðsson (43 ára), Grandaveg 37. Haraldur Einarsson, Langholti við Beykjavik. Guðm. Kr. Guðjónsson (37 ára), 1. stýrim., Lindargötu 20. Steinþór Bjarnason (34 ára), Ólafsvík. Frimann Helgason (20 ára), Vik, Mýrdal. Ólafur Í Árnason (27 ára), Bergþórugötu 16. Ólafur Jónsson (36 ára), kyndari, Víðidalsá,  Strandasýslu. Bertel Guðjón. En ólögskráðir voru: - Guðjón Jónsson, Túngötu 42, Ragnar Ásgrímsson, Vesturgötu 51 og Guðjón Guðjónsson. Þessir tiu hafa bjargast: Bjarni Brandsson, Magnús Jónsson, Pjetur Pjetursson, Sigurður Bjarnason, Kristinn Guðjónsson, Steingrímur Einarsson, Gunnlaugur Jónsson, Steinþór Bjarnason, Frímann Helgason, Ólafur Í Árnason. Allra ráða var leitað í gær til þess að bjarga mönnunum, og komu þessi skip til hjálpar: Tryggvi gamli, Hafstein, Ver, Gylfi og varðskipin Þór og Óðinn. Auk þess vélbátarnir Björg og Skírnir frá Sandgerði. Á landi voru og margir menn til bjargar. Þeir skipstjórarnir Halldór Kr. Þorsteinsson og Jón Sigurðsson fóru suður að strandstaðnum í fyrri nótt og voru þar allan daginn í gær. Læknir kom þangað frá Keflavik og allar ráðstafanir voru gerðar til björgunar og hjúkrunar, sem kostur var á. Aðstaða öll var hin versta. Brim var afarmikið og hryðjuveður með köflum. Skipið lá 40-50 faðma frá landi um fjöru og var brotsjór þar í milli, en grynningar svo langt út af skerinu, að skipin komust ekki nógu nærri til þess að bjarga mönnunum. Þó tókst að lokum að koma kaðli út í skipið og síðan var bátur dreginn út að skipinu nokkrum sinnum, og hlupu menn í hann og voru dregnir á land. Þeir hrestust furðu fljótt og leið vel eftir atvikum í gærkveldi. Sjö lík höfðu fundist í gærkveldi og flutti Tryggvi gamli fimm af þeim hingað, en hin tvö rak á land.Brim hélst í nótt, og kl. hálf níu í morgun brotnaði það, sem uppi hékk af skipsflakinu og hvarf í brimlöðrið. Sorgarfánar blakta hér um allan bæ i dag og fundi var frestað á Alþingi síðdegis í gær, vegna þessara hörmulegu viðburða.

Vísir 28 febrúar 1928.


03.07.2016 11:02

Namdal RE 260. LCFJ. Línuveiðari.

Línuveiðarinn Namdal RE 260 var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1907. Stál 99 brl. 130 ha. 2 þjöppu gufuvél. Eigendur voru Magnús Kristjánsson og Stefán Jóhannsson í Reykjavík frá 12 júní 1924. Árið 1930 var talinn eigandi dánarbú Magnúsar Kristjánssonar á Akureyri. Skipið rak upp í fjöru í ofsaveðri í Hafnarfirði haustið 1931 og eyðilagðist. Einnig rak á land í óveðri þessu og eyðilagðist, línuveiðarinn Eljan SU 433 sem var í eigu h/f Júní í Hafnarfirði. Eljan var smíðuð í Álasundi í Noregi árið 1908 og var 82 brl. að stærð.


Namdal RE 260.                                                                  Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


Eljan SU 433 til vinstri og Namdal RE 260 í fjörunni eftir óveðrið haustið 1931.           Ljósm: Óþekktur.

02.07.2016 10:38

Erlend skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn.

Á þessum árstíma er mikið um komur erlendra skemmtiferðaskipa til landsins og fer þeim stöðugt fjölgandi ár frá ári. Þessi tvö skip voru í Reykjavíkurhöfn í gær. Annað þeirra er Hamburg sem er 15.067 brl. smíðað árið 1997 og Star Legend, 9.961 brl. smíðað árið 1992. Bæði eru þau skráð í Nassau á Bahamaeyjum.


Hamburg við Miðbakka Reykjavíkurhafnar.


Hamburg við Miðbakkann.


Star Legend við Faxagarð. Laugarnesið dælir brennsluolíu á skipið.


Star Legend við Faxagarð. Skúturnar liggja í röðum við Ingólfsgarðinn. 
                                                                                                 
                                                                                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 1 júlí 2016.

01.07.2016 08:45

M.s. Hekla l. TFCA. Strandferðaskip.

Hekla var smíðuð í Álaborg í Danmörku árið 1948. 1.456 brl. 2 x 1.600 ha. Polar díesel vélar. Eigandi var Skipaútgerð ríkisins frá 6 september 1948. Hekla var í strandferðum við Ísland og flutti farþega, póst og vörur milli hafna. Árin 1949 til 1953 var Hekla í farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Glasgow í Skotlandi á sumrin og frá 1954 til 1956 var hún að sumri til í farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar með viðkomu í Færeyjum og Björgvin á útleið, en kom við í Gautaborg, Kristiansand og Færeyjum á heimleið. Hekla var seld til Grikklands árið 1966, hét þar Kalymnos og var farþegaferja milli hafna í Eyjahafinu.

 
90. Hekla l á siglingu.                                                          (C) Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk


M.s. Hekla l við bryggju á Ísafirði.                                                                          Mynd í minni eigu.
Flettingar í dag: 1183
Gestir í dag: 368
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2036059
Samtals gestir: 521000
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 18:48:16