Færslur: 2016 Ágúst

16.08.2016 11:11

1137. Barði NK 120 með fullfermi á leið inn Norðfjörð.

Barði NK 120 var smíðaður hjá Ateliers et Chantters de la Manghe í Dieppe í Frakklandi árið 1967. 327 brl. 1.200 ha. Deutz díesel vél. Eigandi skipsins var Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað. Barði kom í fyrsta sinn til heimahafnar 14 desember 1970. Togarinn hélt til veiða 11 febrúar 1971 eftir nokkrar breitingar sem gerðar voru á skipinu í Neskaupstað. Fyrsti skipstjóri á Barða var Magni Kristjánsson. Togarinn var seldur til Frakklands 24 október árið 1979.


Barði NK 120 á leið inn Norðfjörð.                                                           Ljósm: Sigurður Arnfinnsson.


Brot úr leiðarbók Barða er greinir frá fyrstu veiðiferð skipsins hinn 11 febrúar 1971 sem var suðaustur af Langanesi á 60 til 80 faðma dýpi. Ennfremur segir að afli hafi verið tregur.
                                                                                                    Skjala og myndasafn Norðfjarðar.
                   Skuttogarar til Austfjarða

Í þessum mánuði bættust tveir skuttogarar í flota Austfirðinga, fyrstu skipin þeirrar tegundar, sem Austfirðingar eignast. Hér er um systurskip að ræða, 494 tonn eftir eldri mælingareglum með 1200 ha Deutz aðalvél og þrjár ljósavélar af franskri geið. Bæði eru skipin smíðuð árið 1967 og eru keypt hingað frá Frakklandi. Öll siglingatæki era ný. Skipin eru tveggja þilfara þannig að fiskaðgerð fer fram í lokuðu rúmi. Eigendur annars skipsins, Barða NK 120, er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, en hitt, Hólmatind SU 220, á Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. Það var 14. desember, að Barði kom til Norðfjarðar. Skipstjóri á honum er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður er ráðinn Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, allir í Neskaupstað. Talsverðar breytingar verða gerðar á skipinu og verða þær framkvæmdar af Dráttarbrautinni hf. Er hér einkum um að ræða breytingar á matsal og eldhúsi til samræmis við kröfur okkar, færibönd fyrir fisk á milliþilfar, smábreytingar í lestum og gerð ísgeymsla á milliþilfari. Loks verður skipið útbúið til veiða með flotvörpu. Vinna við breytingarnar hófst skömmu eftir komu skipsins og sækist verkið mjög vel og er gert ráð fyrir að skipið geti farið á veiðar eftir mánuð hér frá.

Hólmatindur kom til Eskifjarðar 22. desember. Breytingar þær, sem á skipinu verða gerðar, munu mestallar framkvæmdar á Eskifirði. Skipstjóri á Hólmatindi verður Auðunn Auðunsson, nafnkunnur togaraskipstjóri, 1. vélstjóri Guðmundur Valgrímsson úr Reykjaivik, en 1. stýrimaður hefur ekki enn verið ráðinn. Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti þvi ætla að afkoma þeirra verði betri og sjómannahlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks.

Vikublaðið Austurland 30 desember 1970.


15.08.2016 08:52

B. v. Forseti RE 10 í slipp á Akureyri árið 1950.

Togarinn Forseti RE 10 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniske Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1928. 405 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét áður Gulltoppur RE 247. Þegar hér er komið sögu á árinu 1950 er togarinn í eigu Forseta h/f í Reykjavík og er í slippnum á Akureyri. Nokkrum árum síðar var hann seldur útgerðarfélaginu Drangi í Saurvogi í Færeyjum og fékk nafnið Tindhólmur VA 115. Var endurbyggður árið 1957 og að lokum seldur í brotajárn árið 1966.


B. v. Forseti RE 10 í slippnum á Akureyri árið 1950.                       Ljósm: Díana Þ Kristjánsdóttir.


Siglt um Færeyjar stuttu eftir 1950 í sölutúr áleiðis til Englands á Forseta RE 10 framhjá tignarlegum Tindhólmi. Örlögin höguðu því svo að Forseti fékk nafnið Tindhólmur í Færeyjum.
                                                                                                 Ljósm: Díana Þ Kristjánsdóttir.

14.08.2016 10:27

S. t. Goth FD 52.

Goth var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Hellyers Bros Ltd í Hull ( Hellyersbræður ). Hét Goth H 211. Smíðanúmer 468. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith Co Ltd í Hull. Í september sama ár hélt togarinn á Grænlandsmið í þeim tilgangi að finna ný fiskimið með ágætum árangri. Á árinu 1929 var Goth um tíma birgða og fisktökuskip á Grænlandsmiðum fyrir lúðuveiðiskip sem stunduðu veiðar þar. 16 apríl 1931 var Goth tekinn af varðskipinu Ægi fyrir ólöglegar veiðar í Íslenskri landhelgi ásamt Hulltogurunum Cape Delgardo H 47 og Cape Trafalgar H 918. Voru þeir færðir til hafnar í Reykjavík og þar réttað yfir skipstjórum þeirra. 29 ágúst árið 1939 var Goth tekinn í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari. Togaranum var skilað til eigenda sinna í nóvember 1945. Goth var seldur í desember 1945, Wyre Steam Trawling Co Ltd í Fleetwood, sama nafn en skráningarnúmer FD 52. 4 desember 1948 hélt Goth frá Fleetwood áleiðis á Íslandsmið með 21 mann innanborðs og skipstjóri var Wilfred Elliott. 10 desember var togarinn að veiðum norðvestur af Straumnesi ásamt Melante GY 80. Síðast spurðist til togarans 14 desember, en þá hafði hann leitað vars inn á Aðalvík ásamt fleiri togurum undan norðaustan íllviðri.


Goth FD 52.                                                                                                         (C) James Cullen.

Þegar ekkert spurðist til togarans eftir óveður þetta, var hafin að honum leit sem breskir togarar og íslenskar flugvélar tóku þátt í. Var leitað vítt og breitt á því svæði sem talið var hugsanlegt að togarinn væri á, svo og strandlengjan, ef vera kynni að skipið hefði strandað. En hin mikla leit bar engan árangur, og fannst ekkert sem bent gæti til afdrifa skips og áhafnar. Það var ekki fyrr en 15 nóvember 1997 að örlög Goth urðu kunn, því þá fékk togarinn Helga RE 49, skorstein af gömlum togara í trollið þegar hann var að veiðum á 343 faðma dýpi á Halamiðum, um 43 sjómílur norðvestur af Straumnesi. Skorsteinnin af Goth FD 52 var gerður upp og er nú minnismerki um drukknaða sjómenn í Fleetwood.


Goth H 211.                                                                                     Ljósmyndari óþekktur. 


Skorsteinnin af Goth FD 52 í Fleetwood.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

Leifar af breska togaranum Goth fundnar eftir 49 ár

STAÐFESTING hefur fengist á því að reykháfurinn sem Helga RE fékk í troll síðastliðinn laugardag og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, er af togaranum Goth frá Fleetwood sem fórst árið 1948 með 21 manns áhöfn. Hannes Þ. Hafstein, fyrrverandi forstjóri Slysavarnafélags Íslands, hafði getið sér til um að reykháfurinn væri af Goth vegna áletrunar á honum.Bretinn Michael Thompson, sem rannsakað hefur sögu breskrar togaraútgerðar og veiðar við Ísland, segir að skrásetningarnúmerið H- 211 sem sást á reykháfnum sé það sem Goth bar áður en hann var seldur frá borginni Hull til Fleetwood árið 1946. Hluti af máluðu skrásetningarnúmeri hefur einnig varðveist á reykháfnum og má þar greina bókstafina F og D. Skrásetningarnúmer Goth í Fleetwood var FD-52.

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins hafði samband við Thompson í gær kannaðist hann strax við skráningarnúmerið því hann er einmitt þessa dagana að kanna heimildir um Goth og fleiri togara sem smíðaðir voru í sömu skipasmíðastöð.

Goth var smíðaður árið 1925 og gerður út frá Hull fram yfir stríð. Árið 1939 var skipinu breytt í tundurduflaslæðara og því hlutverki þjónaði hann fram til stríðsloka.
Í desember 1946 var skipið selt frá Hull til útgerðarfyrirtækisins Wire Stream Trawlers of Fleetwood í bænum Fleetwood á norðvesturströnd Englands í héraðinu Lancashire. Nafn togarans hélst óbreytt þrátt fyrir eigendaskiptin.

Ætlaði að leita skjóls nær landi

Um miðjan desember 1948 fréttist af Goth vestur á Aðalvík. Síðastur til að heyra frá togaranum var skipstjóri á öðrum togara, Lincoln City frá Grimsby. Það var hinn 16. desember. W. Elliott, skipstjóri á Goth, sagðist þá ætla að leita skjóls nær landi. Allt virtist þá vera með felldu um borð. Eftir þetta fréttist ekkert af Goth.

Þess má geta að Viðar Benediktsson, skipstjóri á Helgu RE, sem fann reykháfinn, er fæddur 14. desember 1948 á Hólmavík. Ljósmóðirin sem tók á móti honum átti í nokkrum erfiðleikum með að komast til móður hans vegna ofviðrisins sem þá geisaði. Líklegt er að Goth hafi farist skömmu síðar.

Skipuleg leit að togaranum hófst í byrjun janúar. Fram kemur í Morgunblaðinu 7. janúar 1949 að deginum áður hafi Geysir, flugvél Loftleiða, flogið könnunarflug yfir svæðinu í tvo og hálfan tíma. Katalínuflugbátur frá Flugfélagi Íslands leitaði meðfram strandlengju Aðalvíkur og meðfram víkum á Ströndunum. Einnig var ráðgert að senda báta til leitar meðfram strandlengju Aðalvíkur og lengra ef þörf þætti á. Hvorki fannst tangur né tetur af togaranum þá né síðar.

Helga RE var á veiðum á 343 faðma dýpi þegar reykháfurinn fannst, en Hannes Þ. Hafstein hefur getið sér þess til að Goth hafi sokkið á grynnra vatni en færst til síðar. Togarinn liggur í halla norðnorðvestur af Halanum.
Goth var 394 tonna togari knúinn kolum. Hann var 147 fet á lengd. Skipstjórinn í síðustu ferðinni, W. Elliott, var 36 ára gamall en flestir áhafnarmeðlimir voru á þrítugsaldri. Yngstur var sextán ára gamall háseti og loftskeytamaðurinn var 19 ára.
 
Enn eimir eftir af Íslendingaandúð.

Íslandsmiðin urðu togurum frá Fleetwood sífellt mikilvægari eftir stríð og í byrjun sjöunda áratugarins var veiðin þar orðin uppistaðan í lönduðum afla í bænum. Útfærsla landhelginnar á áttunda áratugnum varð því bænum mikið áfall. Nú er engin togaraútgerð lengur frá Fleetwood.
Michael Thompson segir að enn eimi nokkuð eftir af andúð gagnvart Íslendingum í bænum, hún sé þó á undanhaldi. 
Vikublaðið Fleetwood Weekly News frétti í gær af fundi reykháfsins af Goth. Ritstjóri blaðsins sagðist ætla að hafa ítarlega umfjöllun um fundinn, enda væru margir ættingjar manna, sem fórust, búsettir í bænum.

Morgunblaðið 19 nóvember 1997.


13.08.2016 09:27

Sæfell VE 30. NCFP / OUIP / TFNB.

Sæfell VE 30 var smíðað hjá Helsingör Jernskibs & Maskinbyggeri A/S í Helsingör í Danmörku árið 1890 fyrir Östersöen D/S. A/S í Kaupmannahöfn, hét upphaflega Maja. Smíðanúmer 23. 391 brl. 240 ha. 2 þennslu gufuvél. Selt 19 júní 1897, D.F.D.S. (Sameinaða gufuskipafélagið), sama nafn. Selt 12 febrúar 1938, Kaptajn Börge Bentzen í Kaupmannahöfn, fær nafnið Christian B. Selt 29 mars 1939, Secunda A/S í Kaupmannahöfn, sama nafn. Selt 10 júní 1939, Christian Holm Jacobsen í Þórshöfn í Færeyjum, hét Sildberin. Skipið var selt árið 1942, Hlutafélaginu Sæfelli í Vestmannaeyjum, fær nafnið Sæfell VE 30. Skipið fór margar ferðir með ísvarinn fisk til Englands á stríðsárunum og á árunum þar á eftir. Selt árið 1948, Júpíter h/f í Reykjavík (Heimild til fyrir þessari sölu). Skipið var selt 15 júní 1948, Ingólfi h/f á Ingólfsfirði á Ströndum, Ragnari Stefánssyni í Vestmannaeyjum og Kristmanni Hjörleifssyni í Reykjavík, skipið hét Ófeigur VE 30. Skipið var selt til niðurrifs 19 september árið 1950 og tekið af Íslenskri skipaskrá 1951.
Sæfell VE 30 í Vestmannaeyjahöfn á stríðsárunum.        Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu. 

12.08.2016 10:36

S. s. Camoens.

Camoens var smíðaður hjá Andrew Leslie & Co, Hebburn-on-Tyne í Newcastle á Englandi árið 1871 fyrir Lamport & Holt Line í Liverpool. Smíðanúmer 136. 1.093 brl. 170 ha. 2 þennslu gufuvél, smíðuð hjá R. Stephenson & Co í Newcastle. Selt árið 1879, R. D. Slimon í Leith í Skotlandi. Árið 1882 var Camoens í föstum siglingum á milli Granton í Skotlandi og Íslands. R.& D. Slimon voru jafnan nefndir "sauðakaupmennirnir" hér á landi því þeir keyptu og fluttu út til Skotlands sauðfé á fæti í miklum mæli. Eins sigldu margir Íslendingar sem fluttu til Vesturheims með því til Granton og Leith og fóru þaðan í skip til New York. Svo illa tókst til með siglingar á vegum Slimons árið 1884 að Camoens strandaði við Orkneyjar það ár. Árið áður hafði skipið siglt á ísjaka út af Hornströndum og skemmst töluvert og þá orðið að sigla upp í fjöru í Trékyllisvík á Ströndum. En saga skipsins eftir þetta er að það náðist út af strandstraðnum við Orkneyjar og virðist þá hafa verið eitthvað endurbyggt, því árið 1887 mældist það 1.265 brl. Skipið var selt 1888, Navigazione Generale Italiana Line í Palermó á Ítalíu, hét Oreto. Síðan selt árið 1914, G. Messina í Palermó, hét Logoduro. Skipið var rifið í brotajárn árið 1923.


Camoens í Trékyllisvík í júní árið 1883. Skipinu var siglt upp í fjöru meðan verið var að þétta göt eftir árekstur við ísjaka út af Hornströndum.                                       Ljósm: Sigfús Eymundsson.


Um borð í Camoens. Hópur Íslendinga á leið til Vesturheims.                (C) Þjóðminjasafn Íslands.


Camoens á strandstað við Orkneyjar sumarið 1884. (C) Orkney Image Library.

Camoens hlekktist á við Hornstrandir 23. júní. Var á leið norður fyrir land frá Rvík með 84 vesturfara, eptir 8-900 í viðbót á 6 höfnum nyrðra og eystra. Hitti fyrir hafís við Horn, komst gegnum hroða inn fyrir Reykjarfjörð, varð að snúa þar aptur, af því að þar var fyrir samföst spöng, en laskaðist af jökum fram undan Trjekyllisvík og hleypti þar á land. Höfðu höggvist tvö göt á síðuna sitt hvoru megin að framan. Náði landi í smárri möl fjórðung stundar eptir, sigið þá um 2 1 /2 fet. Fólk allt óskemmt á land. Ekki vonlaust um að bæta megi svo, að skipinu verði fleytt tómu til hafnar hingað til Rvíkur og kannske lengra. Skrifað hjeðan til Skotlands eptir öðru skipi í staðinn með franska herskipinu öðru í fyrra dag, en Coghill segir því ekki muni verða hætt norður fyrir land fyr en í ágústmánuði.

Ísafold. 30 júní 1883.


11.08.2016 08:53

M. b. Fagranes. TFKA.

Fagranes var smíðað í Molde í Noregi árið 1934. Eik og fura, 60 brl. 150 ha. Skandía vél. Eigendur voru Leifur Böðvarsson og Ármann Halldórsson á Akranesi frá 16 júlí 1934. Hét Fagranes MB 32. Lengt árið 1939, mældist þá 70 brl. Skipið var selt 2 nóvember árið 1942, Hlutafélaginu Djúpbátnum á Ísafirði, sama nafn. Ný vél (1946), 240 ha. Mirrless vél. Fagranesið var í áætlunarferðum í Ísafjarðardjúpi til ársins 1963 að það var talið ónýtt og skipinu lagt.


Djúpbáturinn Fagranes.                                                                                   Ljósmyndari óþekktur.


Djúpbáturinn Fagranes.                                                        Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

10.08.2016 10:21

2643. Júpíter ÞH 363. TFJA.

Júpíter ÞH 363 var smíðaður hjá Smedvik Mekanisk Verksted A/S í Tjörvaag í Noregi árið 1978. Hét áður Heröytral og Eros. 821 brl. 3.000 ha. MaK vél (1997) 2.206 Kw. Eigandi var Hraðfrystistöð Þórshafnar h/f á Þórshöfn frá árinu 2004. Skipið var selt Ísfélagi Vestmannaeyja h/f í október árið 2009, sama nafn og númer en heimahöfn skipsins er á Þórshöfn.

Júpíter ÞH 363 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn.                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 október 2014.


Júpíter ÞH 363 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 október 2014.

09.08.2016 11:44

Þuríður sundafyllir ÍS 452. LBMV / TFLE.

Þuríður sundafyllir ÍS 452 var smíðuð í Selby á Englandi árið 1922. 98 brl. 220 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Colutea. Eigendur voru Sigurður Þorvarðsson og Þorvarður Sigurðsson í Hnífsdal frá 25 apríl 1925. Skipið var selt 28 maí 1927, Ludvig C Magnússyni og Ingvari Benediktssyni í Reykjavík, hét þá Þuríður sundafyllir RE 271. Selt 31 desember 1930, h/f Fjölni í Reykjavík, skipið hét Fjölnir RE 271. Skipið var selt 7 mars 1933, h/f Fjölni á Þingeyri, hét Fjölnir ÍS 7. Frá árinu 1941 mælist skipið 123 brl. Fjölnir fórst á leið frá Íslandi til Englands eftir árekstur við breskt skip, Lairdsgrove, undan ströndum Írlands 10 apríl 1945. 5 menn fórust en 5 mönnum var bjargað um borð í breska skipið.


Línuveiðarinn Þuríður sundafyllir ÍS 452.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

                Línuveiðarinn Fjölnir ferst. 

Þann 9. apríl síðastliðinn,  fórst línuveiðarinn Fjölnir frá Þingeyri, er hann varð fyrir árekstri erlends skips undan ströndum Englands. Fjölnir var á leið frá Vestmannaeyjum hlaðinn fiski. Var þettla fyrsta ferð hans út á þessu ári, því að hann var nýkominn úr langri viðgerð. Ferðin gekk að óskum, þar til kl. 11 að kvöldi þess 9. apríl, að skipverjar sáu allt í einu ljós á skipi og í sama mund rákust skipin á, og var þó  Fjölnir með öll lögleg ljós. Skipið, sem árekstrinum olli, lagði Fjölni þegar á hliðina, svo að hann sökk samstundis. Skipverjar munu allir hafa hent sér í sjóinn, er þeir sáu hversu fara myndi, nema einn eða tveir, er ekki munu hafa komizt frá skipinu. Björgunarfleka skipsins skaut brátt upp, er Fjölnir var sokkinn og lýsti þá Ijós flekans. Fjórir skipverjanna, er syndir voru, komust upp á flekann, og stýrimanninum, er var ósyndur, tókst einnig að bjarga þangað. Hið erlenda skip var stöðvað þegar eftir áreksturinn Og skotið út báti af því til að bjarga skipbrotsmönnunum. Var siðan leitað á slysstaðnum, en árangurslaust. Hið erlenda skip reyndist vera Lorids Grovve frá Glasgow,  2000 rúml. að stærð. Fyrst var farið með skipbrotsmennina til Londonderry og fengu þeir þar hinar beztu viðtökur á sjómannaheimilinu, en þaðan fóru þeir svo samdægurs til Fleetwood. Af skipshöfninni fórust þessir menn: Gísli Gíslason, háseti, frá ísafirði, f. 19. Júní 1914. Guðmundur Ágústsson, kundari, frá Sæbóli í Aðaldal, f. 21. apríl 1922. Magnús G. Jóhannsson, matsveinn, Þingeyri, f. 25. júní 1922. Pétur Sigurðsson, kyndari, Dýrafirði, f. 25. marz 1918. Pálmi Jóhannesson, háseti, Miðkrika Hvolhreppi, f. 1918. Menn þessir voru allir ókvæntir og einhleypir. Þessir menn björguðust: Jón Sigurðsson, skipstjóri, Reykjavík. Þorkell Þórðarson, 2. vélstjóri, Reykjavik. Steinþór Benjamínsson, stýrimaður, Þingeyri. Jón Gislason, 1. vélstjóri, Reykjavík. Þorlákur Arnórsson, háseti, Ísafirði. Fjölnir var smíðaður í Selby 1922 og var 123 rúml. brúttó. Hann var eign H/f. Fjölnir á Þingeyri. 

Ægir. 38 árg. 1945. 2-4 tbl. 

                           

08.08.2016 09:59

B. v. Skúli Magnússon RE 202. TFYD.

Skúli Magnússon RE 202 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur til Belgíu í ágústmánuði árið 1967. Skúli var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru í Beverley fyrir Íslendinga á árunum 1947-48, hinir voru, Akurey RE 95 / AK 77, Fylkir RE 161, Garðar Þorsteinsson GK 3 / Hafliði SI 2, Geir RE 241, Goðanes NK 105, Hvalfell RE 282, Ísborg ÍS 250, Jón forseti RE 108 og Röðull GK 518.


193. Skúli Magnússon RE 202.                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.             (C) J.A. Hugson. Shetland museum.


Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.    (C) Mynd: J.A. Hugson. Shetland museum.


Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.    (C) Mynd: J.A. Hugson. Shetland museum.

                  Skúli Magnússon kom í gær

SKÚLI MAGNÚSSON, annar nýsköpunartogari Reykjavíkurbæjar, sigldi fánum skreyttur hjer inn á höfn í gærmorgun. Nokkru fyrir hádegi fór borgarstióri bæjarráðsmenn og útgerðarráð bæjarins, um boð í skipið til að skoða það. Skúli Magnússon er nokkru lengri en Ingólfur Arnarson. Þilfarslengd skipsins er 180 1/2 fet, en togarinn þarf 199 feta langt bryggjupláss, þar sem hann liggur við Faxagarð. Ferðin heim gekk mjög vel og láta skipverjar vel yfir skipinu. Einkennisstafir Skúla Magnússonar eru RE-202. í reykháf skipsins er hið nýja merki Bæjarútgerðar Reykjavíkur, en það er bókstafurinn R í skildi, sem málaðir eru á fánalitirnir. Þetta merki teiknaði Halldór Pjetursson. Skipstjóri á Skúla Magnússyni er Halldór Guðmundsson, er lengi var á Júní. Fyrsti stýrimaður er Sigurður Þorleifsson er var skipstjóri á Skutli og fyrsti vjelstjóri er Loftur Ólafsson, en hann var á Max Pemperton um langt skeið.

Morgunblaðið. 9 júlí 1948.07.08.2016 08:58

M. b. Þráinn NK 70.

Þráinn NK 70 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1935. Eik og fura, 22 brl. 60 ha. Tuxham vél. Eigandi var Ölver Guðmundsson útgerðarmaður í Neskaupstað frá 23 september árið 1936. Báturinn var seldur til Færeyja árið 1947. Hét lengi vel Broddur VA 224 og gerður út frá Saurvogi, en er nú í eigu áhugamannafélags í Vogi sem er að gera hann upp.


Þráinn NK 70 á fjörukambi í Neskaupstað.                                                      Ljósm: Björn Björnsson.


Broddur VA 224 í Færeyjum.                                                                   (C) Mynd: www.vagaskip.dk

Hér fyrir neðan er rakin saga Þráins NK 70 frá því hann var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1935 til dagsins í dag;

1935 - Þráinn NK 70, Neskaupstaður, Ísland - Ölver Guðmundsson
1946 - Stjørnan KG119, Klaksvík - Bethuel Johannesen
1951 - Broddur VA224, Sørvág - P/F N.Niclasen
1962 - lagdur.
1963 - Broddur, VA224, Sørvág - Dánjal J.F. Hermansen, Hósvík
1965 - Streymsund, VN164, Hósvík - Dánjal J.F. Hermansen.
1970 - Streymsund, TN164, Tórshavn - Herman B. Hermansen
1977 - Birita, VA11, Miðvágur - Arnhold og Karl Johannesen 
1980 - Birita TG30, Lopra - William Suni Bech
1983 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - Niels Helgi Bech
1986 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - A.E.Joensen
1989 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - J.F.Hansen
1991 - Nestindur KG681, Klaksvík - Jógvan Oluf Vesturlið
2005 - Kára TN1188, Tórshavn - Eli Petersen
2011 - Broddur - Grunnurin "Broddur" - Áhugafelag í Vágum 

Heimild: www.vagaskip.dk

06.08.2016 11:36

E.s. Ásgeir litli.

Gufubáturinn Ásgeir litli var smíðaður í Gautaborg í Svíþjóð, ókunnugt um smíðaár. 36 brl. 50 ha. gufuvél. Eigandi var Ásgeir G Ásgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður á Ísafirði frá árinu 1889. (Ásgeirsverslunin á Ísafirði). Hann var notaður áður sem fljótabátur í Þýskalandi. Ásgeir var fyrsta vélknúða kaupskip í eigu Íslendings og fyrsti póstbátur á Íslandi, en heimahöfn hans var alla tíð í Kaupmannahöfn. Kom fyrst til Ísafjarðar í júlímánuði árið 1890 eftir vetrardvöl í Færeyjum. Hóf hann fljótlega póstferðir um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði og fór öðru hvoru norður í Aðalvík og Hornvík og vestur á firði. Auk póstferðanna var Ásgeir litli í vöruflutningum fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði til útibúanna. Hann aðstoðaði einnig seglskip út og inn sundin á Ísafirði. Árið 1910 hætti hann alveg póstferðum og sigldi eftir það eingöngu fyrir Ásgeirsverslun. Ásgeir litli hætti siglingum árið 1915. Stóð fyrst í stað í upp í slipp, sem gerður hafði verið fyrir hann til að standa í á vetrum (hann var yfirleitt ekki á ferðinni nema á sumrin). Síðan var hann settur upp í fjöru og notaður til íbúðar í nokkur ár og var að lokum rifinn þar.


Ásgeir litli á pollinum á Ísafirði.                                                                   Ljósm: Björn Pálsson.

  Hálfrar aldar afmæli íslenzkra gufuskipa. "Ásgeir litli" var fyrsta íslenzka gufuskipið.

 Ásgeir G. Ásgeirsson kaupmaður og etatsráð - varð til þess að eignast fyrsta íslenzka gufuskipið. Var það »Ásgeir litli,« sem allir eldri ísfirðingar kannast við, og sem smíðaður var til þess að fullnægja samgönguþörfinni um ísafjarðardjúp. Var »Ásgeir litli« svo langt á undan tímanum, þótt lítill væri, að hann var um langt skeið myndarlegasti og þægilegasti flóabáturinn hér á landi. Og stórum betri, miðað við fhitningaþörlina eins og hún var þá, en þeir farkostir sem nú eru tíðastir í Djúpferðum. 30. f. m. voru liðin rétt 50 ár síðan »Ásgeir litli« kom hingað til Ísafjarðar; kom hann 30. júní 1890 og hóf skömmu síðar Djúpferðir, og fór alls 14 áætlunarferðir það sumar, en auk þess aukaferðir í þágu verzlunarinnar, sem hafði fiskimóttöku víðsvegar í Djúpinu og sumstaðar fastar verzlanir, og auk þess á Suðureyri í Súgandafirði og Flateyri í Önundarfirði.

Styrkur til ferðanna var 3 þúsund krónur, og þótti mörgum mikill. Hélzt hann óbreyttur mörg ár, en hækkaði nokkuð síðar, einkum eftir að P. M. Bjarnarson annaðist Djúpferðirnar með gufubátnum Tóta. Djúpferðunum fór smáfjölgandi ár frá ári. Sáu menn skjótt þægindin við fastar áætlunarferðir. Fargjald frá ísafirði til Arngerðareyrar var kr. 2,50 og frá Ísafirði til Hesteyrar kr. 2,00. "Ásgeir litli" var ekkert stórskip, 17 rúmlestir netto, en hafði rúmgóða káetu með stoppuðum bekkjum. Heldur þólti hann hættuskip lítið hlaðinn; talinn hlunnvaltur, en aldrei henti neitt slys í hinum mörgu ferðum litla Ásgeirs, eins og hann var almennt kallaður. Má eflaust þakka það aðgætni skipstjóranna, en þeir voru tveir allan tímann, sem litli Ásgeir var í förum. Fyrst danskur maður, Bley. Kom hann með skipið hingað frá Danmörku, og stýrði honum í mörg ár. Sigldi hann til Danmerkur að haustinu, venjulegast með skipum Ásgeirsverzlunar. Fyrst með skonnortunni S. Louise og síðan með gufuskipinu »Stóra Ásgeir,« sem Ásgeirsverzlun keypti 1902. Þegar Bley hætti skipstjórn á Asgeiri litla tók við henni Ole Andreasen, norskur maður; kom hann hingað til Ásgeirsverzlunar sem seglmakari, og stundaði jafnan þá iðn að vetrinum. 50 ára afmæli Ásgeirs litla, sem brautryðjanda í starfrækslu íslenzkra gufuskipa á að vera lögeggjan til allra ísfirðinga um það, að fá sem allra fyrst farkost í Djúpferðirnar, sem sé ekki minna merkilegur og á undan tímanum en Ásgeir litli var á sínum tíma. Það er öllum Ijóst, að flutningaþörfin hefir margfaldast á síðustu árum, og hitt er þá líka jafn ljóst að þeirri þörf verður ekki forsvaranlega fullnægt með misjöfnum leiguskipum. Til þess að fá varanlegan og góðan farkost um Djúpið er því aðeins tvent fyrir hendi, annaðhvort að kaupa hentugt skip til ferðanna eða láta smíða nýtt skip.

Vesturland 13 júlí 1940.


05.08.2016 09:20

E.s. Ingólfur. LBKF.

Ingólfur var smíðaður hjá Mjellem & Karlsen Verft í Björgvin í Noregi árið 1908 fyrir Gufubátsfélag Faxaflóa h/f í Reykjavík. Stál og tré, 126 brl. 150 ha. 2 þjöppu Compound gufuvél. Kom í fyrsta skipti til Reykjavíkur hinn 9 maí 1908 eftir átta daga heimferð frá Bergen. Ingólfur var fyrsta vélknúða farþega og flutningaskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og hafði íslenskan skipstjóra og íslenska skipshöfn. Ingólfur var í póstferðum í Faxaflóa milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness á árunum 1908 til 1918. Hann fór einnig stöku ferðir til Suðurnesja og vestur á Búðir á Snæfellsnesi. Skipstjóri á Ingólfi var alla tíð Sigurjón Pétur Jónsson, ættaður austan af Eyrarbakka. Ingólfur var seldur til Noregs árið 1919.


Gufubáturinn Ingólfur.                                          Ljósmynd: Magnús Ólafsson. Mynd í minni eigu.

Faxaflóabáturinn nýí, Ingólfur , leggur ekki á stað frá Norvegi hingað fyr en 1. maí. Hann byrjar ferðir sínar hér um flóann á að gizka um miðjan maí. Þarf að hafa tíma til að búa sig, þegar hér er kominn, afla sér vista o.s. frv.

Ísafold 29 apríl 1908.


Faxaflóabaturinn nýi, Ingólfur, hafnaði sig hér í morgun eftir 8 daga ferð frá Björgvin. Skipstjórinn heitir Sigurjón Pétur Jónsson, 27 ára gamall, ættaður af Eyrarbakka (bróðir Sigurðar Iæknis Jónss. í Khöfn); hann hefir átt heima í Stafangri 4 ár, kvæntur þarlendri stúlku og flytja þau sig nú hingað alkomin. Báturinn er nær 70 smálestir að stærð, tekur um 60 farþega í 2. farrými og nál. 40 í 1. farrými, hefir um 9 mílna hraða í vökunni, er smíðaður úr stáli, traustur mjög og vandaður í alla staði. Skipshöfnin hrepti vonzkuveður, blindbyl og rok á miðvikudag suður undan Ingólfshöfða, og gjörir hún mikið orð á því, hve báturinn hafi reynst prýðilega. Hann hefir kostað 66 þús. krónur.

Ísafold 9 maí 1908.


Faxaflóabáturinn nýi, Ingólfur, er nú tekinn við ferðunum um flóann. Fór til Keflavíkur daginn eftir að hann kom hingað og sótti á 4. hundrað manns, auk fullfermis af flutningi. Samtímis sótti Geraldine fólk og flutning suður fyrir Skaga, eins margt og hún tók. Þar með hætti hún áætlunarferðunum, en verður í flutningum áfram hins vegar og fer siðan að stunda fiskiveiðar. Hún hættir við góðan orðstir fyrir flýti og ferðavaskleik; hefir aldrei brugðið út af áætlun i allan vetur, hverju sem viðrað hefir, og hefir skipstjórinn, Jón Árnason, fengið á sig almenningsorð fyrir óvenjumikla atorku og áræði og þar með stilling og gætni, enda komið sér mætavel við ferðafólk fyrir lipurð og alúðlega nærgætni, hann og hans menn. Hann er og allra manna kunnugastur öllum leiðum hér um flóann, þvi mikill söknuður að honum frá þeim starfa. Bót í máli, að hinn nýi skipstjóri á Ingólfi fær og bezta orð hjá þeim, er hann þekkja. Ingólfur mikið sélegur bátur, vandaður að sjá að öllu smíði og haglega fyrir komið farþegarúmi í honum. Hann er dável hraðskreiður, 8 ½ -8 ¾  mílna ferð á vöku. Hann er hið fyrsta alislenzkt farþegagufuskip. Skipshöfn öll islenzk, nema vélstjóri (norskur).

Ísafold 13 maí 1908.


04.08.2016 10:25

Síldveiðiskip við bryggju í Neskaupstað um 1970.

Það var oft mikið um að vera við bryggjurnar í Neskaupstað á síldarárunum milli 1960 til 70. Eftir að síldin hvarf af Íslandsmiðum var aðal veiðisvæði skipanna á fjarlægum miðum, við Jan Mayen og Svalbarða og einnig í Norðursjónum. Þessi mynd er tekin í Neskaupstað 1969 eða 1970 og skipin eru frá bryggjunni talin;, 1044. Hilmir SU 171 ex Fylkir RE 171, smíðaður í Deest í Hollandi árið 1967. Var í eigu Söltunarstöðvarinnar Hilmis s/f á Fáskrúðsfirði. Næstur er 1031. Magnús NK 72, smíðaður í Risör í Noregi árið 1966, var í eigu Ölvers h/f í Neskaupstað. Þá næst er 217. Björg NK 103 ex Vattarnes SU 220, smíðuð í Rosendal í Noregi árið 1960. Var í eigu Bjargar h/f í Neskaupstað.  Og ystur er 1019. Sveinn Sveinbjörnsson NK 55, smíðaður í Hommelvik í Noregi árið 1966. Var í eigu Múla h/f í Neskaupstað. Ljósmyndina tók Sigurður Arnfinnsson sem var nágranni minn í Neskaupstað í á annan áratug, en er nú látinn fyrir stuttu. Eftir hann liggja margar myndir af mannlífinu í Neskaupstað og víðar. 


Síldveiðiskip við bryggju í Neskaupstað.                                                Ljósm: Sigurður Arnfinnsson.

03.08.2016 12:21

2731. Þórir SF 77. TFAK.

Þórir SF 77 var smíðaður í Kaohsiung í Taiwan árið 2009. 383 bt. 711 ha. Mitsubishi díesel vél, 523 Kw. Þórir er gerður út af Skinney-Þinganesi h/f á Höfn í Hornafirði.


Þórir SF 77 í Reykjavíkurhöfn.                                       (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 28 júlí 2016.


Verið að landa úr Þóri SF í Reykjavíkurhöfn.                  (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 23 júní 2016.

Skinney-Þinganes var stofnað árið 1999 með samruna þriggja fyrirtækja, Borgeyjar hf., Skinneyjar hf. og Þinganess ehf. Borgey var elst þessara fyrirtækja, stofnað af Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga ásamt hópi einstaklinga árið 1946, en Skinney og Þinganes voru fjölskyldufyrirtæki með um það bil 30 ára sögu að baki. Skinney var stofnuð árið 1968 en Þinganes fjórum árum síðar. Bæði fyrirtækin gerðu út vertíðarbáta og frá árinu 1987 rak Skinney einnig allumfangsmikla saltfiskverkun, humarfrystingu, síldarsöltun, síldar- og loðnufrystingu og niðurlagningu á síld.


02.08.2016 10:02

116. Hvalur 7 RE 377. TFJK.

Hvalur 7 RE 377 var smíðaður hjá Smiths Dock & Co Ltd í South Banks í Middlesborough á Englandi árið 1945 fyrir Hvalveiðifyrirtækið, The South Georgia Company (Christian Salvesen & Co) í Leith í Skotlandi. Skipið hét fyrst Southern Wilcox. 427 brl. 2.102 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hvalur h/f á Miðsandi í Hvalfirði eignast skipið 25 ágúst árið 1961 og fær þá nafnið Hvalur 7 RE 377. Aðfaranótt 9 nóvember árið 1986 brutust tveir félagar í umhverfissamtökunum Sea Shepherd inn í Hvalstöðina á Miðsandi í Hvalfirði og unnu þar mikil skemmdarverk á tækjum og búnaði og sökktu svo um nóttina tveimur hvalbátum, þeim Hval 6 RE 376 og Hval 7 RE 377 við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn. Þótt hvalveiðar legðust af í rúma tvo áratugi (1989), var hvalstöðinni og skipunum haldið vel við. Hvalveiðar hófust að nýju árið 2009, en á þessu ári, 2016 eru engar veiðar fyrirhugaðar. Hval 6 og Hval 7 var lagt fyrir nokkrum árum og liggja þeir upp í fjöru rétt innan við Hvalstöðina í Hvalfirði.


Hvalur 7 RE 377 á siglingu.                                               Ljósm; Snorri Snorrason. Mynd í minni eigu.


Southern Wilcox.                                                                                                     Mynd frá Lartex.


Hvalur 7 RE 377 á endastöð ásamt Hval 6 RE 376 rétt innan við Hvalstöðina í Hvalfirði.
                                                                                  (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 3 ágúst 2015.
Flettingar í dag: 862
Gestir í dag: 369
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398627
Samtals gestir: 624727
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 13:48:05