Færslur: 2016 Desember

15.12.2016 13:19

Álsey VE 250. TFOL.

Álsey VE 250 var smíðuð í Faaborg í Danmörku árið 1879. Eik 150 brl. 320 ha. Lister díesel vél. (1943). Eigendur voru Gísli Magnússon og Óskar Gíslason í Vestmannaeyjum. Þeir keyptu skipið frá Færeyjum 10 janúar árið 1943. Skipið var selt til Færeyja og tekið af skrá 24 júlí árið 1951.


Álsey VE 250.                                                                                   (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Álsey VE 250 að háfa síld úr nótinni.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

14.12.2016 10:44

Hafþór NK 76.

Hafþór NK 76 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1930. Eik og fura. 23 brl. 96 ha. Tuxham vél. Hét fyrst Hafþór MB 33 og eigendur voru Ingjaldur Þ Sveinsson, Ragnar Friðriksson og Hjalti Benónýsson á Akranesi frá 30 desember 1930. Báturinn var seldur 4 júlí 1939, Jóni Guðmundssyni í Sandgerði, hét þá Hafþór GK 210. Seldur 6 október 1944, Óskari Lárussyni í Neskaupstað, báturinn hét Hafþór NK 76. Ný vél (1947) 115 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 14 september 1954, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét þar Gissur Ísleifsson ÁR 6. Báturinn strandaði í september árið 1958 og eyðilagðist.


Hafþór NK 76.                                                                                             (C) Björn Björnsson.

                 S.Ú.N tekur Hafþór NK 76 á leigu


Árið 1953 varð fyrst af því að S.Ú.N (Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað) tæki bát á leigu í þeim tilgangi að að gera hann út til að afla fiskvinnslustöðinni hráefnis. Var hér um að ræða 23 lesta bát, Hafþór NK 76, sem var í eigu Óskars Lárussonar útgerðarmanns í Neskaupstað. Var báturinn tekinn á leigu í 4 mánuði það ár.

Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.

13.12.2016 10:35

2025. Bylgja VE 75. TFHQ.

Bylgja VE 75 var smíðuð hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1992. 277 brl. 993 ha. Yanmar díesel vél, 730 Kw. Eigandi var Matthías Óskarsson í Vestmannaeyjum frá 14 mars 1992. Eigandi í dag er Bylgja VE 75 ehf og er skipið gert út frá Vestmannaeyjum.


Bylgja VE 75.                                                                                             Ljósmyndari óþekktur.


Bylgja VE 75 í reynslusiglingu á Eyjafirði 14 febrúar 1992.                               (C) Páll A Pálsson.


                    Bylgja VE 75

Nýtt fiskiskip bættis við flota Eyjamanna 14. mars s.l., en þann dag afhenti Slippstöðin hf. á Akureyri m/s Bylgju VE 75, sem er nýsmíði stöðvarinnar nr. 70. Skipið er smíðað sem skuttogari og er með búnað til vinnslu og frystingar á flökum. Skipið er hannað af Slippstöðinni hf. og hófst smíðin fyrir nokkrum árum án kaupanda. Á s.l. hausti, er smíði skipsins var lokið að mestu að undanskilinni tækjaniðursetningu og ýmsum frágangi, samdi núverandi eigandi um kaup á skipinu. Bylgja VE 75 er annað skipið sem Slippstöðin afhendir á skömmum tíma til Vestmannaeyja, hið fyrra var Þórunn Sveinsdóttir, afhent í júlí á s.l. ári. Hin nýja Bylgja VE 75 kemur í stað Bylgju VE 75 (sk.skr. nr. 1443), 149 rúmlesta stálfiskiskips, sem smíðuð var í Stálvfk hf. árið 1976 og skemmdist í bruna á s. I. hausti. Bylgja VE 75 er í eigu Matthíasar Óskarssonar í Vestmannaeyjum, sem jafnframt er skipstjóri. Yfirvélstjóri á skipinu er Einar Axel Gústafsson.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1992.

12.12.2016 11:55

B. v. Apríl RE 151. LCHN.

Apríl RE 151 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920. 339 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var Fiskveiðahlutafélagið Ísland í Reykjavík frá 21 apríl árið 1920. Skipið fórst á leið til Íslands frá Englandi 1 desember 1930. Togarinn var þá að koma úr söluferð og átti eftir um 80 sjómílna siglingu til Vestmannaeyja þegar síðast heyrðist til hans. Áhöfnin, 18 manns, þar af 2 farþegar fórust með skipinu.


Apríl RE 151.                                                                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Apríl RE 151 á toginu.                                                Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

                  Íslandsfélagið 

         Samið um smíði tveggja togara í Beverley


Íslandsfélagið ákvað að láta smíða tvo togara í Bretlandi, og fóru þeir Þorsteinn Þorsteinsson og Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) til að semja um smíði skipanna. Þeir snéru sér fyrst til skipasmíðastöðvar þeirrar í Southbank, sem áður hafði smíðað skip fyrir Íslandsfélagið. En hún hafði þá tekið að sér smíði svo margra stórskipa, að hún gat ekki annað meiru fyrst um sinn.
Þeir Hjalti og Þorsteinn fóru svo til Beverley og sömdu þar um smíði skipanna. Ekki voru bæði skipin smíðuð í einu. Öðru var lokið á árinu 1919, og var það skírt Apríl. Hitt var smíðað 1920, og var það nefnt Maí. Skipasmíði var afardýrt á þessum árum, því nú var einmitt sem óðast verið að koma upp skipum í stað þeirra sem sökkt hafði verið í stríðinu. Svo var og það, að mjög var óséð um allt verðlag og öll viðskipti. Hjalti beitti sér því ákveðið á móti því, að Íslandsfélagið réðist í skipakaup að svo komnu máli, en hann varð að algerum minnihluta í félaginu.

Saga Eldeyjar-Hjalta ll. Guðmundur G Hagalín. 1974.

           Togarinn Apríl talinn af

                                    Átján menn farast

Enn blakta sorgarfánar yfir sjómannabænum Reykjavík. Enn eigum við á bak að sjá hóp vaskra mannvænlegra manna, er samferða hafa orðið einum togaranum í öldudjúp úthafsins. Ættingjar og vinir, ekkjur og börn gráta þá, sem eigi komu heim. Þannig er saga sjómannabæjarins. saga um baráttu og strit, saga um lífsháska og slys, sjóslysin stórfeldu. Fjórir togarar íslenska flotans hafa farist með áhöfn á 6 árum. Tvennt rennur upp fyrir bæjarbúum þegar slík stórslys, sem þessi bera að höndum. Er gert allt sem gert verður til að öryggi sjómannanna sjé sem mest?
Við verðum að vona að svo sjé, að skipaskoðunin og eftirlitið sjé örugt og tryggt, En fyrst svo er, þá er það líka segin saga, að samskonar sorgaratburðir sem hjer endurtakast. Hve oft? Hvenær næst? Það veit enginn.  Vonandi verður nú stundarbið uns næsta stórslys ber að höndum.
Reykvíkingar hafa orð á sjer fyrir hjálpfýsi. Mörg heimili standa nú á flæðiskeri. Jólin fara í hönd. Hjer þarf skjóta hjálp og mikla. Reykvíkingar! Minnist þeirra, sem mist hafa ástvini sína. Rjettið hjálparhönd. Munið, að enginn veit hver verður hjálparþurfi næst.
Vikuna sem leið, fjaraði út öll von um það, að togarinn ,.Aprí!" væri ofan sjávar. þá daga lifði fjöldi manns í þessum bæ milli vonar og ótta, lifði angistar og kvíðafulla daga, er enduðu í sárum söknuði, þegar síðasti vonarneistinn dó út um það að, að nokkrir þeirra átján, sem voru með Apríl væri á lífi. Þann 1. desember síðastliðinn hefir togarinn "Apríl" farist fyrir sunnan land. Með skipinu voru 18 manns, 16 manna skipshöfn og 2 farþegar. Skipið var á leið hingað frá Englandi og vissu menn það seinast til þess að það var komið upp undir Ísland, átti um 80 sjómílur ófarnar til Vestmannaeyja að kvöldi sunnudags 30. nóvember. Þá brast á veðrið mikla, og í því hefir skipið sennilega farist, sokkið niður þar sem það var komið.
Þeir sem fórust með togaranum voru;
Jón Sigurðsson, skipstjóri. Hann átti heima á Holtsgötu 13 hjá foreldrum sínum, 29 ára að aldri, fæddur 13. júlí 1901 á Bug í Fróðárhreppi. Hann var ókvæntur, en trúlofaður Siglin Grímsdóttur, Sigurðssonar frá Nikhól í Mýrdal. Hann tók við skipstjórn "Apríls" í ágústmánuði síðastliðnum.
Jörgen Pjetur Hafstein. Fæddur 15. nóvember 1905, að Óspakseyri. Foreldrar Marino sýslumaður Hafstein og Þórunn Eyjólfsdóttir; bæði á lífi. 5 systur og 2 bræður. Tók stúdentspróf vorið 1925 og embættispróf í lögum vorið 1929, með 1. einkunn. Fékk utanfararstyrk úr Sáttmálasjóði til framhaldsnáms vorið 1930. Fór utan í maí s.l. og hafði lokið námi í Lundúnum. Kosinn í bæjarstjórn Reykjavíkur í janúar 1930. Hann var farþegi með skipinu.
Ólafur Helgi Guðmundsson, 1. stýrimaður. Hann var sonur Guð- mundar Guðnasonar skipstjóra, Bergstaðastræti 26 og konu hans Mattínu Helgadóttur. Hann var fæddur 3. ágúst 1903, ókvæntur og átti heima hjá foreldrum sínum.
Magnús Brynjólfsson, 2. stýrimaður, átti heima á Óðinsgötu 6. Hann var elsti maður á skipinu, 55 ára að aldri, sonur Brynjólfs Bjarnasonar í Engey. Magnús lætur eftir sig konu, Helgu Stefánsdóttur og tvö börn. Einar Eiríksson, 1. vjelstjóri, átti keima á Bragagötu 21. Hann var fæddur 10. nóv. 1898 í Selkoti í Reykjavík. Hann lætur eftir sig konu, Svanhildi Sigurðardóttur, 3 böm og eitt fósturbarn.
Jón Ó. Jónsson, 2. vjelstjóri. átti heima á Njálsgötu 23. Hann var fæddur 7. maí 1892 að Hróaldstöðum í Vopnafirði. Hann lætur eftir sig konu, Margrjeti Ketilbjarnardóttur og 4 börn öll ung. Margrjet er systir Eggerts Ketilbjarnarsonar sem einnig fórst með Apríl.
Friðrik Theodór Theodórsson, loftskeytamaður, átti heima á Marargötu 7, hjá foreldrum sínum Ólafi Theodórs snikkara og konu hans Sigríði Bergþórsdóttur, sem er systir Hafsteins Bergþórssonar skipstjóra. Theodór var 27 ára og ókvæntur. Frá honum komu seinustu kveðjurnar frá "Apríl" er hann hafði loftskeytasambandi við "Otur " á sunnudadagskvöldið 30. nóvember.
Þórður Guðjónsson, bryti, til heimilis á  Lokastíg 28 A. Hann var fæddur 12. desember 1903. Faðir hans heitir Guðjón Egilsson og á heima á Bjargarstíg 3, og eru þar tvær systur Þórðar. Hann var ókvæntur. Mun hafa verið ólögskráður á skipið.
Einar Sigurbergur Hannesson, aðstoðarmatsveinn, var fæddur 17. september 1913. Hann átti heima hjá foreldrum sínum, Hannesi Stígssyni og Olafíu Einarsdóttur á Laugaveg 11. Þau hjón eru Skaftfellingar og eiga nú 6 syni á lífi, flesta yngri en Einar.
Kjartan Reynir Pjetursson, háseti, átti heima á Ásvallagötu 13. Hann var fæddur 11. janúar 1907 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Pjetur Sigurðsson og Gróa Jónsdóttir og eiga þau hjón heima á Vesturgötu 51. Kjartan lætur eftir sig konu, Valgerði Kr. Sigurgeirsdóttur og barn á fyrsta ári.  
Pjetur Ásbjörnsson, háseti, var eini maður á skipinu, sem ekki átti lögheimili í Reykjavík. Hann átti heima í Ólafsvík. var 26 ára að aldri, Iætur eftir sig konu, Ingibjörgu Olafsdóttur frá Sandi og þrjú börn kornung. Foreldrar hans eru Ásbjörn Eggertsson og Ragnheiður Eyjólfsdóttir, bæði um sjötugt.
Einar Axel Guðmundsson, háseti. Hann var fæddur 25. júlí 1910 í Reykjavík og átti heima hjá foreldrum sínum á Framnesvegi 1 A. var ókvæntur.
Páll Kristjánsson, háseti, var fæddur 4. október 1906 að Fossi í Staðarsveit í Snæfellsnessýslu. hann var ókvæntur og átti heima á Frakkastíg 24.
Sigurgísli Jónsson, háseti, var fæddur 11. desember 1892 að Skagnesi í Mýrdal. Hann átti heima á Ljósvallagötu 10 og lætur eftir sig konu, Hólmfríði Jónsdóttur, 4 börn og fósturbarn, hvert öðru yngra, hið elsta. á 12. ári og hið yngsta á 1. ári.
Kristján Jónsson kyndari, var fæddur 20. apríl 1887 á Ísafirði. Átti hann nú heima á Bergstaðastræti 1 hjer í bænum, var ókvæntur, en hafði fyrir þungu heimili að sjá.
Magnús Andrjesson, háseti, var fæddur 18. apríl 1896 á Dagverðarnesi á Skarðsströnd. Átti nú heima á Marargötu 3, hjer í bænum, hann var ókvæntur.
Eggert Snorri Ketilbjarnarson, kyndari, var fæddur 5. september 1909 að Sauðhól í Dalasýslu. Hann var ókvæntur og átti nú heima hjá móður sinni, Halldóru Snorradóttur, á Kárastíg 8. Misti hún þarna í sjóinn samtímis efnilegan son sinn og tengdason, Jón O. Jónsson, 2. vjelstjóra.
Ragnar Júlíus Kristjánsson, fæddur 16. ágúst 1905, átti heima á Holtsgötu 10. Faðir hans er Kristján Sæmundsson, salernahreinsari. Ragnar var kyndari á ,,GuIItoppi", en varð eftir af skipinu í Englandi í seinustu ferð þess og tók sjer þess vegna far með "Apríl".

Morgunblaðið. 13 desember 1930.

11.12.2016 09:34

1664. Emma VE 219. TFUN.

Emma VE 219 var smíðuð hjá Tczew Yard í Tczew í Póllandi árið 1988. Stál. 82 brl. 715 ha. Caterpillar díesel vél, 526 Kw. Eigandi var Emma h/f í Vestmannaeyjum frá 18 maí árið 1988. Skipið var lengt í Intermarine skipasmíðastöðinni í Szczecin (Stettin) í Póllandi árið 1999, mældist þá 114 brl. Einnig var skipt um aðalvél, 760 ha. Caterpillar díesel vél, 559 Kw. Skipið var selt árið 2000, Berg-Huginn h/f í Vestmannaeyjum, hét Háey VE 244. Selt árið 2004, Dala Rafni h/f í Vestmannaeyjum, hét Dala Rafn VE 508. Selt árið 2008, Stíganda ehf í Vestmannaeyjum, hét Stígandi VE 77. Skipið var selt 16 maí 2013, Vinnslustöðinni h/f í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Skipið var selt 2016, Tjaldtanga ehf á Ísafirði, skipið heitir Guðbjörg Sigurðardóttir ÍS 508 og gert út frá Ísafirði í dag.

Emma VE 219 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.        Ljósmyndari óþekktur. Mynd af dagatali.

Emma VE 219 eftir lengingu.                                                                      (C) Snorri Snorrason.

Stígandi VE 77 í Njarðvíkurslipp.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 15 maí 2016.

Guðbjörg Sigurðardóttir ÍS 508 við Grandagarð.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 nóvember 2016.


         Emma VE 219 lengd í Póllandi 

Togbáturinn Emma VE 219 kom til Vestmannaeyja í byrjun árs eftir verulegar endurbætur í Póllandi. Skipið var m.a lengt um 5,5 metra og er nú 28,94 metrar að lengd. Eftir lenginguna rúmast 128 fiskikör í lest á móti 68 körum áður. Skipið var smíðað hjá TCZEW Yard í Póllandi árið 1988 og teiknað hjá Ráðgarði Skiparáðgjöf hf, sem einnig sá um hönnun breytinganna nú. Skipið er í eigu Emmu ehf  í Vestmannaeyjum sem er að jöfnu í eigu skipstjórans Kristjáns Óskarssonar og Arnórs Páls Valdimarssonar 1. vélstjóra. Stýrimaður og afleysingaskipstjóri er Óskar Kristjánsson.
Emma VE var lengd um rúma 5,5 metra hjá skipasmíðastöðinni Intermarine í Stetting í Póllandi. Lunningar á efra þilfari voru hækkaðar upp í 2,2 metra, lunning á stefni var hækkuð nokkuð og skýli byggt á afturbrú yfir hífingavindur á brúarreisn. Netatromla var sett niður fyrir aftan reisnina. Nýju þilfarshúsi var komið fyrir bakborðsmegin á efra þilfari með stigagangi niður á vinnsluþilfar. Aðalvélinni var skipt út fyrir nýja. Vélin er sama grunntegundin og áður, endurbætt með tölvustýrðri eldsneytisinnsprautun og er 786 hestöfl við 1200 sn/mín. Skrúfugírinn var yfirfarinn og skipt um allar legur. Aðstaða fyrir áhöfn var endurbætt með nýrri setustofu og stakkageymslu sem komið var fyrir stjórnborðsmegin við íbúðir. Vinnsluþilfarið var allt endurgert og klætt. Lenging skipsins kemur öll fram í lestinni, sem nú rúmar 128 fiskikör og er um 210 rúmmetrar.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1999.
10.12.2016 08:43

B. v. Þormóður goði RE 209. TFSD.

Þormóður goði RE 209 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 849 brl. 1.600 ha. Krupp díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 28 janúar árið 1958 og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 9 apríl sama ár. Þormóður var annar togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga í Þýskalandi eftir lok seinni heimstyrjaldar og tók hann við hlutverki Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208 sem strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi í lok mars árið 1955. Hans Sigurjónsson var fyrsti skipstjóri togarans. Þormóður goði var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til 27 nóvember árið 1978, eða í 20 ár, en þá var hann seldur Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík, en það er önnur saga sem tekin verður saman hér á næstunni. Þormóður goði var einn af síðustu síðutogurunum sem Íslendingar gerðu út, ef ekki sá síðasti.


226. Þormóður goði RE 209.                        (C) Ásgrímur Ágústsson. Úr safni Hafliða Óskarssonar.

Bjart veður og sólskin var, er Þormóður goði sigldi fánum skrýddur inn á ytri höfnina hér í Reykjavík um klukkan 11,30 f. h. í gær. Þá þegar lögðu margir leið sína niður að höfn til þess að sjá togarann, sem er allur hið glæsilegasta skip. Um kl. 1 síðd. lagðist togarinn að hafnarbakkanum undir kolakrananum. Var þar fyrir allmargt fólk. Á nokkrum byggingum við höfnina var flaggað í tilefni af komu togarans. Um nónbil í gær bauð skipstjórinn, Hans Sigurjónsson blaðamönnum að skoða togarann. Tók hann á móti gestum sínum í hinni glæsilegu skipstjóraíbúð. Þar voru þeir einnig Hafsteinn Bergþórsson framkv.stj. og Þorsteinn Arnalds skrifstofustjóri Bæjarútgerðarinnar. Skipstjórinn skýrði meðal annars frá því, að í síðari reynsluför hefði togarinn náð 15 sjómílna hraða. Hann kvað enga reynslu enn komna á sjóhæfni togarans því ládauður sjór hefði verið alla leiðina. Þjóðverjar sögðu, að þó togað væri í 9 vindstigum, væri hvorki öryggi skipsmanna né skips teflt í tvísýnu. Á heimleið var komið við í Grimsby og tekin þar veiðarfæri og ýmislegt fleira.Þormóður goði RE 209 á Humberánni á leið til Hull.                                      Ljósmyndari óþekktur.

 Eru í togaran um um 400 tonn af salti og á annað hundrað tonn af öðrum farangri, svo að heita má að hann hafi verið ,á hleðslumerkjum', er hann kom. Hann var þrjá sólarhringa frá Grimsby. Skipstjórinn sagði frá nokkrum nýjungum. Á stjórnpalli eru t. d. þrjú stýri, sem nota má til skiptis eftir þörfum. Það er stýri í miðri brúnni, hið venjulega stýri, skipsins, en svo eru stýri á hvorri síðu, sem notuð eru þegar togarinn er að veiðum. Í brúnni sýndi skipstjórinn blaðamönnum tvær fisksjár. Er önnur þýzk, og er hún jafnframt dýptarmælir, en hin er Kelvin-Hughes fisksjá. Þá sýndi hann sérstakan lofthemlaútbúnað fyrir vörpuna, sem verða á til mikils hagræðis við veiðar. Stjórnpallur skipsins er stór og bjartur. Sími er lagður um allt skipið, alls konar rofar og öryggistæki, sem gripið er til, ef eitthvað óvænt ber að höndum, t. d. eld. Loftskeytamaðurinn, Guðmundur Pétursson, sýndi gestunum hina miklu loftskeytastöð togarans. Sagði hann, að stöð skipsins væri það öflug að á stuttbylgjum mætti ná talsambandi við skipið nærri því hvar sem er á þeim siglinga og veiðisvæðum, sem ísl. togararnir kæmu á hér við land og við Grænland. Þá sýndi hann lítið tæki, sem er sjálfvirkur neyðarsendir og setja skal í samband, ef yfirgefa þarf skipið, hvort heldur er vegna strands eða óvæntra atvika á hafi úti. Þessi sjálfvirki neyðarsendir gerir það kleift fyrir önnur skip og strandstöðvar, að miða togarann nákvæmlega út. Gísli Jón Hermannsson, fyrsti stýrimaður, fylgdi blaðamönnunum um skipið.


Þormóður goði RE 209 í Reykjavíkurhöfn.                                                  (C) Valdimar Jónsson.

 Allar íbúðir og gangar eru klæddir að innan með ljósum harðviði.. Eru íbúðirnar hinar vistlegustu og rúmgóðar. Gísli Jón benti á ýmislegt af því, sem nýtt er í þessu skipi. Sérstakur gangur er úr brú og aftur í skipið til mikils hægðarauka og öryggis fyrir skipsmenn. Þegar komið er í hásetaíbúðir, er fyrst komið í þurrkklefa, þar sem skipsmenn fara úr hlífðarfötum, en þar fyrir innan er hvítmálað, bjart snyrtiherbergi. Íbúðir eru allar hitaðar upp með rafmagni. Eru hásetaklefar ýmist 2 eða 4 manna og eru þar inni borð, kollar og bekkir. Rafmagnseldavél er í stóru og rúmgóðu eldhúsi og í matsalnum geta 26 skipsmenn borðað samtímis. Athygljsvert er það og að klampar allir í fisklestinni eru úr aluminium og einangrun fisklestar er jöfn í lofti sem gólfi lestarinnar. Sérstakur stigi er úr stigahúsi við framsiglu, niður í fisklestar. Hafsteinn Bergþórsson framkvæmdastjóri, upplýsti aðspurður, að þessi stóri togari, sem er eign Reykvíkinga, hefði kostað um 14 milljónir króna. Þormóður goði hefur meiri úthaldsmöguleika en nokkur annar íslenzkur togari. Hann getur verið að veiðum án þess að koma til hafnar og endurnýja vatns eða olíubirgðir samfleytt í 45 daga. Hafsteinn sagði að togarinn myndi í fyrstu veiðiförinni veiða fisk til söltunar. Lestarrýmið er það mikið, að ef vel gengur, getur togarinn komið með um 550 tonn af saltfiski úr þessari veiðiför. Það er nær 100 tonnum meira en "methafinn" Þorsteinn Ingólfsson, hefur landað eftir eina veiðiför. Hafsteinn Bergþórsson sagði, að nú ætti eftir að reyna það, hversu vandað skip Þormóður goði væri. Hið ytra væri svo að sjá, sem allt væri sérlega vandað og vandvirknislega af hendi leyst. Skipasmíðastöðin Seebeck í Bremerhaven hefur ekki fyrr smíðað jafnstóran togara. Aðalvél skipsins er 1650 hestafla Krupp vél. Sagði skipstjórinn frá því að í reynsluförinni hefði ekki orðið vart neins titrings, þó snúningshraðinn næði hámarki. Nú þegar er búið að ráða um 30 menn á Þormóð goða. Í gærdag komu um borð nokkrir sjómenn til þess að falast eftir skiprúmi. Væntanlega heldur Þormóður goði til veiða um helgina. Togarinn verður til sýnis fyrir almenning milli kl. 5 og 9 síðdegis í dag.


Þormóður goði RE 209 í Reykjavíkurhöfn á 8 áratugnum.                               Ljósmyndari óþekktur.

Síðdegis í gær skoðuðu borgarstjóri, bæjarstjórn og nokkrir gestir skipið. Formaður útgerðarráðs, Kjartan Thors, flutti við það tækifæri eftirfarandi ræðu: "Virðulegir gestir Bæjarútgerð Reykjavíkur er það mikil ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomna um borð í þetta nýjasta og stærsta skip útgerðarinnar. Vissulega er slík viðbót við fiskiflota landsmanna merkur og gleðilegur viðburður. Og  efast ég ekki um að flestir íbúar þessa bæjar óski þess af heilum hug að gæfa og gengi megi ætíð fylgja hinu fagra skipi og áhöfn þess. Í fljótu bragði virðist einnig, að ástæðulaust ætti að vera að óttast að slíkar óskir rættust ekki. Þormóður goði mun vera stærsta og fullkomnasta fiskiskip, sem til þessa dags hefir komið í eigu íslendinga. Það er byggt í einhverri þekktustu og beztu togarasmíðastöð, sem starfrækt er í Evrópu, undir umsjón ágætra manna. Ekkert hefir heldur verið sparað til þess að það geti gegnt því forustuhlutverki í veiðiflota íslendinga, sem vonast mætti til af svo stóru og vel búnu skipi. Gera verður einnig ráð fyrir að skiprúm verði eftirsótt og í það veljist úrval ágætis manna. Dagleg stjórn í landi verður einnig í höndum hinna valinkunnu framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar. Tvennt er þó það, sem varpar dálitlum skugga á gleði mína. Má þar fyrst nefna hina ískyggilegu aflatregðu, er nú um langt skeið hefir verið á veiðisvæðum togaranna. Og í öðru lagi mjög svo ófullnægjandi starfsgrundvöllur, sem þessum veiðiskipum er búinn. Aflabrestinn ráðum við ekki við, en með bjartsýni útvegsmannsins er sífellt vonað að úr rætist. Ég held að allir séu mér sammála um að starfsgrundvöllur sá, er togararnir búa við, er allsendis óviðunandi. Og þarf þar skjótra úrbóta, ef forða á vandræðum. Hefi ég ástæðu til að ætla, að bráðlega verði gerðar ráðstafanir til lagfæringar.
Að lokum vil ég biðja ykkur, góðir gestir, að rísa úr sætum og sameinast um þá ósk, að þetta nýja skip megi ætíð verða sannkölluð happafleyta. Guð og gæfa fylgi ætíð skipi og áhöfn þess. Það lifi". Gunnlaugur Briem, ráðuneytisstjóri þakkaði af hálfu gesta og árnaði skipinu heilla.

Morgunblaðið. 10 apríl 1958.  

Nýja bæjarútgerðartogaranum var gefið nafnið Þormóður goði

                   Áætlað að skipið verði fullbúið í marz

Hinn nýi togari, er Reykjavíkurbær á í byggingu hjá A. G. Weser "Werk" Seebeck, Bremerhaven, var flotsettur í fyrrdag, 28. janúar og gefið nafnið Þormóður goði. Skrásetningarnúmer hans verður RE 209 og einkennisbókstafir TFSD. Nafngiftina framkvæmdi, samkvæmt ósk borgarstjórans í Reykjavík, frú Magnea Jónsdóttir, kona Hafsteins Bergþórssonar framkvæmdastjóra, er einnig var viðstaddur sem umboðsmaður eigenda skipsins. Ennfremur voru viðstaddir Gísli Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, Erlingur Þorkelsson eftirlitsmaður og fyrsti vélstjóri skipsins, Pétur Gunnarsson. Þeir Gísli og Erlingur hafa annazt eftirlit með smíði skipsins. Áætlað er, að skipið verði fullbúið í marzmánuði n. k.

Alþýðublaðið. 30 janúar 1958. 

09.12.2016 12:32

336. Björg NK 103. TFGR.

Björg NK 103 var smíðuð í Skipasmíðastöð Ársæls Sveinssonar í Vestmannaeyjum (Skipasmíðastöð Vestmannaeyja) árið 1947. Eik. 65 brl. 225 ha. Lister díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 25 janúar 1947. Smíðanúmer 6. Eigandi var Hlutafélagið Björg í Neskaupstað (Gísli Bergsveinsson og fl.) frá 15 október 1947. Ný vél (1952) 225 ha. Lister díesel vél. Árið 1955 uppgötvaðist þurrafúi í skipinu og þurfti þá að skipta um hvert einasta band aftur að vél og mikið af dekkbitum. Í reyndinni var skipið allt endursmíðað að innan en byrðingurinn var óskemmdur. Árið 1966 varð nafnbreyting á skipinu, hét þá Björg ll NK 3, sami eigandi. Skipið var talið ónýtt vegna þurrafúa og það brennt í Njarðvík 26 júní árið 1967.

Björg NK 103 að landa síld á Raufarhöfn.                                                          (C) Ari Magnússon.


Björg NK 103.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

08.12.2016 07:30

1396. Gulley KE 31.

Gulley KE 31 var smíðuð hjá Básum h/f í Hafnarfirði árið 1974. 20 brl. 188 ha. Cummins díesel vél. Báturinn hét fyrst Haftindur HF 123 og var í eigu Karels Karelssonar í Hafnarfirði frá 2 október sama ár. Seldur 3 október 1978, Guðmundi Halldórssyni á Drangsnesi, hét Gunnvör ST 39. Seldur 29 desember 1988, Guðmundi R Guðmundssyni á Drangsnesi, sama nafn og númer. Ný vél (1994) 305 ha. Cummins díesel vél, 224 Kw. Báturinn var seldur 2004, Kári borgar ehf á Borgarfirði eystra, hét Glettingur NS 100. Seldur sama ár, Nýju húsi ehf, Vogum á Vatnsleysuströnd, hét Gunnvör ST 38. Seldur árið 2005, Nýju húsi Eignarhaldsfélagi ehf í Reykjavík, hét Lena GK 72, með heimahöfn í Vogum. Árið 2008 er báturinn í eigu Fast fjárfestingu ehf í Njarðvík. Báturinn var seldur árið 2010, Súðvíkingi ehf í Súðavík, hét Lena ÍS 61. Árið 2012 heitir báturinn Móna GK 303, sami eigandi en gerður út frá Sandgerði. Árið 2013 er báturinn skráður í Vogum, sama nafn og númer. Seldur sama ár, Mónu ehf í Reykjanesbæ, báturinn heitir Gulley KE 31 í dag.


Gulley KE 31 við bryggju í Keflavík 13 október 2013.


Gulley KE 31 við bryggju í Keflavík 13 október 2013.


Gulley KE 31 komin á land í Njarðvík 15 maí 2016.                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

07.12.2016 11:34

493. Gullfaxi ÍS 594.

Gullfaxi ÍS 594 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1944 fyrir Kaldbak h/f á Þingeyri. Eik. 19 brl. 60 ha. Kromhout vél. Ný vél (1947) 80 ha. June Munktell vél. Ný vél (1954) 150 ha GM vél. Seldur 7 nóvember 1969. Ólafi Össurarsyni og Ægi S Ólafssyni á Ísafirði. Ný vél (1969) 150 ha. GM díesel vél. 3 desember 1971 var Gullfaxi h/f á Ísafirði eigandi bátsins, sömu eigendur. Ný vél (1973) 230 ha. GM díesel vél. Árið 1979 eru eigendur bátsins Ólafur og Valdimar Össurarsynir á Ísafirði. Báturinn fórst í Ísafjarðardjúpi 25 febrúar árið 1980 og með honum áhöfnin, 2 menn.

Gullfaxi ÍS 594.                                                                                          (C) Leó Jóhannsson.

Gullfaxi ÍS 594 og Dýrafjarðarferjan við Hamarinn í Svalvogum. Hamarinn í Svalvogum er lífhöfn fyrir öllum veðrum nema vestanátt. Þegar stórt átak var gert í ræktunarmálum á nesinu, allt frá Keldudal vestur í Lokinhamradal, var hin glæsilega Dýrafjarðarferja notuð við flutninginn á vélum og tækjum. Dráttarskip ferjunnar var Gullfaxi ÍS 594  16 tonna bátur, smíðaður á Ísafirði fyrir Kaldbak hf. á Þingeyri. Kom í heimahöfn 14. nóvember 1944. Seldur til Ísafjarðar, fórst 25.febrúar 1980 í Ísafjarðardjúpi.
                                                                                                              (C) Kristján Ottósson.    Þriggja rækjubáta með sex mönnum saknað

Óttast er um afdrif þriggja rækjubáta, tveggja frá Ísafirði og eins frá Bíldudal. Tveir skipverjar eru á hverjum báti. Í gærkvöldi fannst gúmbátur af einum bátanna við Skarð á Snæfjallaströnd og stíuborð fundust við Auðkúlu í Arnarfirði, sem talið er að séu af Bíldudalsbátnum. Bátarnir, sem saknað er eru Vísir BA 44,16 tonna eikarbátur frá Bíldudal. Gullfaxi ÍS 594, 19 tonna eikarbátur frá Ísafirði, og Eirikur Finnsson ÍS 26. 17 tonna eikarbátur frá Ísafirði.
Rækjubátar réru frá Ísafirði í sæmilegu veðri í gærmorgun og fóru bátarnir, sem saknað er frá Ísafirði, til veiða í innanverðu Djúpi. Upp úr hádegi var skollið á aftakaveður af suðvestri.  Um klukkan 15 voru bátarnir 'beðnir um að tilkynna sig og þá kom í ljós, að tveggja báta, Gullfaxa og Eiríks Finnssonar, var saknað. Síðast er vitað um Gullfaxa út af Arnarnesi á leið til Ísafjarðar, og um Eirík Finnsson þar sem hann var að hífa innan við Ögurhólma skömmu eftir hádegi, en hafði ekki leitað vars. Þrír línubátar frá Ísafirði fóru til aðstoðar og leitar fyrir klukkan 3 í gærdag og björgunarsveitarmenn frá Súðavík, Ísafirði, Hnífsdal og Bolungavík voru tilbúnir.
 Línubáturinn Guðný fór með átta björgunarsveitarmenn og kom þeim í land á Sandeyri á Snæfjallaströnd við erfiðar aðstæður. Þeir munu ganga ströndina í dag og bændur á Snæfjallaströnd byrjuðu leit á landi þegar síðdegis í gær og menn frá Unaðsdal fundu í gærkvöldi gúmbát, sem talinn er vera úr Eiríki Finnssyni, við Skarð á Snæfjallaströnd. í dag verður leitað á sjó, landi og úr lofti ef veður leyfir. Fyrrnefndar björgunarsveitir munu hafa aðstöðu í húsi SVFÍ í Bolungarvík, en í gær tóku auk fyrrnefndra aðila þátt í leitinni starfsmenn Slysavarnafélagsins í Reykjavík, Landhelgisgæzlu og ísafjarðarradíós. Upp úr hádegi var farið að óttast um rækjubátinn Vísi frá Bíldudal, Frigg BA var þá inni á Bíldudal og var strax beðinn um að fara og svipast um eftir bátnum.
 Þá var varðskipi, sem var miðsvæðis út af Vestfjörðum, snúið við og stefnt í Arnarfjörð. Það hafði áður verið beðið um aðstoð vegna Ísafjarðarbátanna, en snúið við þar sem færri skip voru til leitar í Arnarfirði. Vísir hafði verið að hífa fyrir innan Gíslasker þegar síðast fréttist, en bátarnir Vísir og Pílot BA 6 höfðu haft samband sín á milli. Varðskipið fór inn fyrir Gíslasker, inn á Dynjandisvog og Borgarfjörð, en sá ekki neinn bát. Hins vegar fannst ómerktur rækjukassi og lestarborð út af bænum Auðkúlu. Bændur á Auðkúlu fundu síðan í gærkvöldi grámáluð stíuborð með rauðum röndum, sem talið var að væru frá Vísi. Björgunarsveitarmenn fara með varðskipi í dag og taka land á Rafnseyri til þess að leita fjörur við norðanverðan Arnarfjörð. 

Morgunblaðið. 26 febrúar 1980.

                     Vestfjarðafárviðrið

                          Sjómennirnir taldir af

Sjómennirnir sex af vestfirsku rækjubátunum þremur sem saknað var á mánudag eru nú taldir af og er formlegri leit hætt í ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Flugvél frá flugfélaginu Örnum flaug leitarflug í gær án árangurs, en næstu daga verður gengið á fjörur eftir því sem aðstæður leyfa. Vitað er um flökin af Gullfaxa og  Eiríki Finnssyni á 50 og 36 faðma dýpi skammt norður af Vigur og brak hefur fundist úr Vísi.
 Með Gullfaxa fórust bræðurnir Ólafur S. Össurarson og Valdimar Þ. Össurarson Ísafirði. Ólafur var 48 ára gamall, kvæntur og þriggja barna faðir. Valdimar var 40 ára, kvæntur og átti 4 syni.

Morgunblaðið. 28 febrúar 1980.06.12.2016 00:04

252. Jón Kjartansson SU 111. TFKK.

Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted A/S í Harstad í Noregi árið 1963. 278 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Eigendur voru Jón Kjartansson h/f á Eskifirði og Þorsteinn Gíslason í Reykjavík. 30 júní árið 1971 var nafni skipsins breytt, hét þá Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. 8 júlí árið 1971 var skráður eigandi Sæberg h/f á Eskifirði, skipið hét Sæberg SU 9. Skipið var endurmælt í júní 1972, mældist þá 226 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1978, mældist þá 275 brl. Ný vél (1980) 1.350 ha. Wichmann díesel vél. Selt 7 júlí 1986, Eskfirðingi h/f á Eskifirði, hét Eskfirðingur SU 9. Skipið sökk út af Héraðsflóa 14 júlí árið 1988. Áhöfnin, 6 manns var bjargað um borð í Hólmaborg SU 11.


Jón Kjartansson SU 111 með fullfermi síldar á Eskifirði.                             (C) Vilberg Guðnason.


Jón Kjartansson SU 111.                                                                         (C) Vilberg Guðnason.


Sæberg SU 9.                                                                               (C) Guðni Ölversson.


Eskfirðingur SU 9.                                                                         (C) Þorgrímur Aðalgeirsson.


               Jón Kjartansson SU 111

Þann 23. des. sl. kom nýr bátur til Eskifjarðar, m/b "Jón Kjartansson" SU 111. Er hann 278 brúttó rúmlestir og er eign samnefnds hlutafélags og Þorsteins Gíslasonar, sem sigldi bátnum til landsins. Aflvél er 600 hestöfl frá Wichmann. Hjálparvélar eru tvær frá Volvo Penta 60 hestöfl hvor. Við hvora hjálparvél er 35 kw riðstraumsrafall og mun það nýjung í fiskibát hér. Sendir og sjálfstýring er frá Robertson, en miðunarstöð frá Kodan. Tvö sjálfvirk síldarleitartæki eru í bátnum, Simrad sildeasdic og Atlas perifon 4. 48 mílna radar er frá Kelvin Hughes. í bátnum eru íbúðir fyrir 20 menn og geta allir á þorsk og síldveiðum búið aftur í. Þá þykir kostur að í bátnum eru tvær aðskildar lestar sem eiga að geta rúmað um 2800 hl., svo að mesti hluti afla á síldveiðum getur verið undir þilfari. Jón Kjartansson er byggður hjá Kaarbös mek. verksted í Harstad, en það er stærsta skipasmíðastöð í Norður-Noregi. Fyrr á árinu hafði stöðin afgreitt til Islands m/b Gróttu" og  Árna Magnússon og mun fljótlega á þessu ári afgreiða Höfrung III AK og nýtt skip fyrir eigendur Árna Magnússonar. Allt fyrirkomulag og vinna þykir sérlega vel af hendi leyst. Í reynsluferð fór báturinn 11,5 sjómílur og á heimleið fékk hann vont veður og reyndist prýðilega. Hann stundar nú þorskveiðar frá Eskifirði og skipstjóri í vetur verður Þorsteinn Þórisson.

Ægir. 15 janúar 1964.


      Eskfirðingur SU 9 sökk á Héraðsflóa

Það var kominn mikill bakborðshalli á Eskfirðing þegar við komum að honum. Þetta leit alls ekki vel út. Við vorum að draga um 7 sjómílur fyrir norðan bátinn þegar við fréttum af lekanum. Þá var ekki talin hætta á ferðum. Við ákváðum samt að fara strax á staðinn þar sem við vorum með dælu um borð og gætum ef til vill hjálpað eitthvað. Þegar við komum að bátnum var eiginlega ekki annað að gera fyrir skipverjana en að stökkva frá borði, sagði Jóhann Kristjánsson, skipstjóri á Hólmaborg frá Eskifirði, við DV í morgun. Eskfirðingur SU 9 sökk út af Héraðsflóadýpi um klukkan átta í morgun. Sex manns voru um borð og björguðust þeir allir um borð í Hólmaborg frá Eskifirði sem var á veiðum rétt hjá. Eskfirðingur, sem er 275 lesta stálbátur, fór á rækjuveiðar í gærkvöldi. Klukkan hálfátta í morgun fékk Slysavarnafélagið tikynningu um að leki væri kominn að bátnum. Voru send út boð til slysavarnasveitanna á Borgarfirði eystra og Vopnafirði um að koma að Eskfirðingi með dælur. En lekinn var mikill og ljóst að slysavarnasveitirnar næðu ekki á staðinn í tæka tíð. Sökk Eskfirðingur um klukkan átta eða á hálfttíma.

Að sögn heimildarmanns DV gerðist þetta eins og hendi væri veifað. Hólmaborg, áður Eldborg frá Hafnarfirði, var þá komin á staðinn eins og áður sagði og bjargaði áhöfn Eskfirðings um borð. Að sögn skipstjóra Hólmaborgar var líðan mannanna góð eftir atvikum, Ágætis veður var á þessum slóðum þegar þetta gerðist.

DV. 14 júlí 1988.

05.12.2016 10:13

Kolbeinn ungi EA 450. TFEI.

Kolbeinn ungi EA 450 var smíðaður í Harstad í Noregi árið 1920. Fura. 58 brl. 60 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Jón Jónsson á Akureyri (sennilega frá 1920-21). Skipið var selt 20 júní 1928, Sigurði Bjarnasyni á Akureyri. Ný vél (1930) 130 ha. Völund vél. Árið 1939 er dánarbú Sigurðar Bjarnasonar eigandi skipsins. Selt sama ár til Ísafjarðar, kaupandi óþekktur en skipið lá þar við bryggju í einhvern tíma. Skipið var selt 1 maí 1943, h/f Hólmsbergi í Keflavík (Stefán Franklín). Skipið var endurbyggt sama ár og ný vél, 136 ha. Ruston díesel vél sett í það hjá Dráttarbraut Akureyrar h/f, mældist þá 63 brl. Hét Hólmsberg GK 395 eftir endurbæturnar. Skipið brann og sökk 23 ágúst 1947 þegar það var á síldveiðum skammt frá Grímsey. Áhöfnin komst í nótabátanna og var bjargað þaðan um borð í Sjöstjörnuna VE 92 frá Vestmannaeyjum.

Kolbeinn ungi EA 450 á leið inn Siglufjörð með síldarfarm.                 (C) Minjasafnið á Akureyri. 


Hólmsberg GK 395 eftir endurbygginguna á Akureyri 1943.                   (C) Minjasafnið á Akureyri.

                        "Eyjafjarðarlík"

í Skutli 10. júní s. l. var grein um Sjómannadaginn. Hún byrjar svo; Hátíðáhöld sjómanna settu alveg sinn svip á bæinn á sunnudaginn var. Snemma morguns var hvert skip í höfninni fánum skreytt, nema hið brezka herskip Leda, sem lá hér við bryggju, og svo Kolbeinn ungi, Eyjafjarðarlík, sem Eyfirðingum tókst að selja hingað til greftrunar.

Skutull. 24 júní 1939.

        Hólmsberg brann og sökk við Grímsey                       5 eða 6 síldveiðiskip hafa farist í sumar

Enn eitt síldveiðiskipið fórst við Norðurland í gærmorgun. Það var m.s. Hólmsberg frá Keflavík. Eldur kom upp í skipinu og mátti ekki tæpara standa, en að áhöfn skipsins yrði bjargað yfir í annað skip. Þetta gerðist um kl. 8,30 í gærmorgun norður við Grímsey, Þar var Hólmsberg að veiðum, ásamt fleiri skipum er eldurinn braust út.
Eldurinn kom upp í vjelarúmi og varð þar allt því nær alelda í einni svipan Einn maður mun hafa verið þar niðri á vakt og komst hann upp án þess að hann sakaði. Skipshöfnin gerði nú tilraun til þess að kæfa eldinn í vjelarúmi skipsins, en hann magnaðist svo á skömmum tíma, að ekki var við neitt ráðið og varð skipshöfnin að yfirgefa skipið í snatri. Báðum nótabátunum var bjargað, svo og nótinni, en skipverjar munu hafa misst fatnað og annað sem þeim tilheyrði.
Það var m.s. Sjöstjarnan frá Vestmannaeyjum, er kom mönnunum til hjálpar. Munu þeir verða fluttir til Siglufjarðar og var búist við þeim í gærkvöldi, Engin síld mun hafa verið í skipinu er þetta gerðist.
Hólmsberg var eign hlutafjelagsins Hólmberg í Keflavík, Það var rúmar 62 lestir brúttó, Byggt 1920, en endurbyggt 1943, Um nokkurn tíma var það í ferðum milli Akraness og Reykjavíkur.

Morgunblaðið. 24 ágúst 1947.

04.12.2016 12:35

Drífa SU 392. TFDL.

Drífa SU 392 var smíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 29 brl. 36 ha. Alpha vél. Fyrstu eigendur voru Magnús Hávarðsson, Jón Sveinsson og Sigurður Jónsson á Nesi í Norðfirði. Báturinn var seldur árið 1919, Konráð Hjálmarssyni kaupmanni og útgerðarmanni á Nesi. Seldur 1927-28, Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Var báturinn hafður í förum á milli fjarða eystra til að safna saman beinum til vinnslu í verksmiðjunni. Fyrir kom að Drífa væri send til hafna á Norðurlandi eftir hráefni. Árið 1929 fær Drífa skráningarnúmerið NK 13. Ný vél (1929-30) 40 ha. Wichmann vél. Seldur 20 september 1936, Magnúsi Pálssyni og Anton Lundberg í Neskaupstað. Drífa var endurbyggð og lengd í Neskaupstað árið 1938, mældist þá 38 brl. Einnig var sett í bátinn ný vél, 50 ha. Wichmann vél. Seldur 26 janúar 1940, Faxa h/f í Reykjavík, hét Drífa RE 42. Seldur 18 september 1950, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík. Ný vél (1950) 132 ha. Kelvin vél. Báturinn strandaði við Hafnir á Reykjanesi 6 febrúar 1953. Slysavarnadeildin Eldey í Höfnum bjargaði áhöfninni, 6 mönnum á land en Drífa eyðilagðist á strandstað.

Drífa SU 392 nýsmíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum 1917.             Ljósmyndari óþekktur. 


Drífa RE 42.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

      Vb. Drífa strandaði í nótt, mannbjörg varð

     Bátnum hvoldi á skerinu með flóðinu, rétt eftir að björgun var lokið

Vélbáturinn Drífa, RE-42, strandaði í nótt skammt fyrir sunnan Kalmanstjörn á Reykjanesi, en skipverjum var bjargað á land heilum á húfi. Samkvæmt upplýsingum, er Vísir fékk hjá skrifstofu SVFÍ,strandaði báturinn kl. 2.50 í nótt á skeri skammt sunnan Kalmanstjarnar. Veður var þá gott, vestanátt, en talsvert brim við ströndina. Það var vb. Svanur, RE 88 sem tilkynnti um strandið, en í fyrstu var óljóst, hvar það hefði orðið, og voru slysavarnasveitir víða á Reykjanesi til taks, en um 20 mínútum síðar fékkst örugg vitneskja um strandstaðinn, og brá slysavarnadeildin Eldey í Höfnum þegar við og kom á strandstaðinn undir stjórn formanns síns, Vilhjálms Magnússonar. Var þegar hafizt handa um björgun, og tókst hún mjög greiðlega, en skipverjum, 6 að tölu, var bjargað í land á björgunarstól. Sýndi deildin mikið snarræði við þetta tækifæri, Segja sjónarvottar, að ekki hafi mátt tæpara standa. Báturinn strandaði á fjöru, en brátt tók að falla að, og hvoldi honum á skerinu skömmu eftir að síðasti skipverjinn komst í land. V.b. Drífa, RE-42, er 38 brúttólestir að stærð, smíðaður í Kongshavn 1917, en endursmíðaður árið 1938. Eigandi hans er Jón Þórarinsson hér í bæ. Skipstjóri á Drífu er Kristinn Maríasson. Talið er sennilegt, að báturinn sé ónýtur með öllu, en ókunnugt er um orsakir strandsins.

Vísir. 6 febrúar 1953.

03.12.2016 10:50

Magnús NK 84. TFXE.

Magnús NK 84 var smíðaður í Gordon í Skotlandi árið 1906. 75 brl. 145 ha. 2 þennslu gufuvél. Fyrsti eigandi hér á landi var Sigurður Hallbjarnarson á Akranesi frá desember 1939, hét Sigrún MB 27. Skipið var keypt frá Færeyjum og hét þar Industri og stundaði síldveiðar við Ísland sumarið 1939. Skipið var selt 10 desember árið 1940, Ölver Guðmundssyni, Jónasi Thoroddsen, Jóhanni Magnússyni og Reyni Zoega í Neskaupstað, hét Magnús NK 84. Skipið var endurbyggt í Reykjavík árið 1941 og ný vél sett í það, 200 ha. Lister díesel vél. Eftir þessar breytingar nældist skipið 77 brl. 26 mars 1944, kaupir Guðmundur Sigfússon í Neskaupstað, hlut Ölvers í skipinu og ári seinna, hlut Jónasar. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá árið 1951.


Magnús NK 84 á sjómannadag í Neskaupstað árið 1943.                                 (C) Björn Björnsson.


Magnús NK 84 í bóli sínu á Norðfirði.                                                                     (C) Karl Pálsson.


Magnús NK 84 á síldveiðum sumarið 1944.   Ljósm: Einar Guðmundsson.


Magnús NK 84 á síldveiðum sumarið 1944. Ljósm: Einar Guðmundsson.

  Þýsk sprengjuflugvél ræðst á Norðfjarðarbáta 

Aðeins einu sinni á árum seinni heimstyrjaldarinnar urðu Norðfjarðarbátar fyrir árás óvina. Svo bar til eitt sinn að lokinni sölu í Englandi, að Magnús og Sleipnir höfðu samflot á siglingunni til Íslands. Gekk Magnús mun betur en Sleipnir, eða um 8 sjómílur, og til þess að flýta förinni tók Magnús Sleipni í tog. Þegar komið var langt á haf út eygðu skipverjar á Magnúsi flugvél, sem flaug mjög lágt yfir haffletinum. Flaug hún rétt fyrir framan stefni Magnúsar og skömmu síðar var skotið á skipið úr hríðskotabyssu. Ekkert skotanna hæfði og líklega hefur Þlóðverjunum ekki þótt bátarnir verulega girnilegt skotmark, því ekki gerði flugvélin aðra atlögu.

Frásögn Sigurjóns Ingvarssonar og Reynis Zoega.
             Sjómannadagsblað Neskaupstaðar 1981.

02.12.2016 10:55

Gunnar EA 405. LBDN.

Gufubáturinn Gunnar EA 405 var smíðaður hjá Laksevaag Maskin & Jernskibsbyggeri í Laksevaag í Bergen Noregi árið 1891. Stál og járn. 57 brl. 55 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Rundemanden. Eigandi var Halldór Guðmundsson á Siglufirði frá 2 apríl árið 1924. Seldur 1926, Eggert Jónssyni í Reykjavík. Seldur 1927, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Seldur árið 1930, Árna Böðvarssyni í Vestmannaeyjum. Báturinn var seldur 28 maí 1932, Sigurði Samúelssyni, Kristjáni Sigurgeirssyni, Sigurvin Pálmasyni og Guðmundi Bjarnasyni á Ísafirði, báturinn hét Gunnar ÍS 87. Báturinn var í vöruflutningum við Vestfirði og norður um land til Eyjafjarðar og var á leið frá Hrísey til Ísafjarðar þegar hann fórst út af Húnaflóa 27 ágúst 1933 með allri áhöfn, 5 mönnum.


Gunnar EA 405. (ÍS 87).                                                                              Ljósmyndari óþekktur.

           Gufubáturinn Gunnar ÍS 87 ferst.

Gufubáturinn Gunnar fór héðan þann 23. ágúst með salt til síldarbræðsluverksmiðjunnar í Krossanesi, en síðan tók hann möl í kjalfestu á Litla Árskógssandi vestan Eyjafjarðar. Þar tók hann einnig um 20 smálestir af skreið fyrir fiskimjölsverksmiðju Björgvins Bjarnasonar. Þaðan fór hann til Hríseyjar og bætti við sig einni eða tveimur smálestum skreiðar. Frá Hrísey fór Gunnar svo kl. 11 árdegis, laugardaginn 26. ágúst, og hefir ekkert spurst til hans síðan. Aðfaranótt sunnudagsins hvessti á suðaustan, og varð fárviðri sunnanlands og vestan, en sjómenn segja, að minna hafi orðið úr storminum fyrir Norðurlandi. Þó kvað hafa verið illt í sjó norðurum, því veður var tvíátta um nóttina. Siðari hluta mánudags var farið að óttast um Gunnar, og Slysavarnafélag íslands beðið að hefja eftirgrennslan um, hvort skip hefðu orðið hans vör. En enginn árangur varð að þeim fyrirspurnum. Má því telja víst, að Gunnar hafi farist aðfaranótt sunnudagsins 27. ágúst. Skipveijar voru 5 : Sigurður Matthías Samúelsson, skipstjóri, 32 ára að aldri. Hann var kvongaður og átti 1 barn á þriðja ári. Stýrimaðurinn Kristján Sigurgeirsson var 35 ára gamall. Hann lætur eftir sig unnstu og 2 ung börn. Sigurvin Pálmason I. vélstjóri var 31 árs gamall og lætur eftir sig unuustu og 1 barn á fyrsta ári. Annar vélstjóri á Gunnari var Guðmundur Bjarnason frá Skálavík, 29 ára, ókvæntur. Þessir 4 menn, sem nú voru nefndir, voru allir eigendur Gunnars. Keyptu þeir hann fyrir rúmu ári siðan fyrir 30 Þús kr. Fimmti maðurinn, sem fórst á Gunnari, var Hatsteinn Halldórsson, unglingspiltur um tvítugt. Er mikil eftirsjá að þessum ungu og ötulu sjómönnum, og fráfall þeirra þungbært eftirlifandi ástvinum. Gunnar var 57 smálestir að stærð, og var bæði skip og farmur vátryggt.

Skutull. 11 árg. 35 tbl. 1933.

01.12.2016 11:04

425. Jón Ben NK 71.

Jón Ben NK 71 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1956. Eik. 24 brl. 166 ha. Buda díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Stapi í Neskaupstað, (Samvinnufélag útgerðarmanna, Bjarni Þórðarson,Jóhannes Stefánsson og fl). Báturinn var seldur haustið 1960 til Ytri Njarðvíkur, sama nafn, eigandi ókunnur,(sami). Seldur í desember árið 1962, Gísla Snæbjörnssyni á Patreksfirði, báturinn hét Freyja BA 272. Fórst á Ísafjarðardjúpi 1 mars árið 1967 með allri áhöfn, 4 mönnum.


Jón Ben NK 71.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

                     Jón Ben NK 71

Síðastliðinn laugardag var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar nýbyggðum fiskibáti. Hlaut hann nafnið Jón Ben og heitir í höfuðið á Jóni Benjamínssyni, einum mesta aflamanna í hópi norðfirzkra skipstjóra. Einkennisstafir bátsins eru N. K. 71. Jón Ben er 24 lestir að stærð með 170 hestafla Buda diesilvél. Hann er vel búinn að siglingar og öryggistækjum, hefur Atlasdýptarmæli og fisksjá og gúmmíbjörgunarbát, sem fullnægir kröfum samkvæmt reglum, sem gert er ráð fyrir að settar verði á næstunni um gerð slíkra báta og skyldu manna til að hafa þá um borð í fiskibátum. Eigandi Jóns Ben er hlutafélagið Stapi, en aðalhluthafi er Fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna. Í stjórn eru Jóannes Stefánsson, formaður og framkvæmdastjóri, Óskar Lárusson og Vigfús Guttormsson. Skipstjóri verður Rafn Einarsson.
Yfirsmiður var Sverrir Gunnarsson, sem einnig teiknaði bátinn. Báturinn kostar yfir 600 þús. kr. með öllum útbúnaði, eða um 26 þús. kr. pr. tonn. Hjá Dráttarbrautinni er smíði 60 lesta báts komin á góðan rekspöl og byrjað er að smíða bát af sömu stærð og Jón Ben. Þá hefur verið pantað efni í nýjan 60 lesta bát. Þeir feðgar Ásgeir Bergsson og Guðlaugur Ásgeirsson eiga 55 lesta bát í smíðum á Isafirði, en hann mun ekki kominn langt áleiðis. Fleiri Norðfirðingar munu hyggja á bátakaup. Jón Ben er enn ekki tilbúinn til veiða, en vonazt er til að hann geti byrjað róðra í næsta smástraum. Annars er sjósókn sáralítil þrátt fyrir reytingsafla. Aðeins tveir bátar, Hafbjörg og Björg hafa róið að undanförnu, auk einhverra minni báta. Í gær var Björg þó ekki á sjó. Austurland óskar eigendum og áhöfn Jóns Ben til hamihgju með bátinn.

Austurland. 2 nóvember 1956.

  Mjög víðtæk leit að bátnum frá Súðavík í gær

Vélbáturinn Freyja BA 272 frá Súðavík, sem lýst var eftir í fyrrakvöld var ekki kominn fram, er blaðið fór í prentun í gærkvöldi, en bátsins hafði þá verið leitað frá því í fyrrakvöld. Fjórir bátar leituðu í fyrrinótt og í gær leituðu tvær flugvéJar og nærri 20 bátar. Á Freyju eru fjórir menn. Síðast heyrðist til Freyju kl. 16,30 í fyrradag, en þá mjög ógreinilega og gæti það bent til ísingar. Í fyrrinótt leituðu Freyju fjórir bátar, ísafjarðarbáturinn Hrönn, Heiðrún og Einar Hálfdáns frá Bolungarvík og strandferðaskipið Blikur og í birtingu í gærmorgun leitaði landhelgisgæzluflugvélin Sif og flugvél Vesturflugs á ísafirði ásamt 17 bátum hvaðanæva af Vestfjörðum. Leitarskilyrði voru góð. Freyja mun hafa verið stödd út af svokölluðum Eldingum, þegar síðast spurðist til hennar en kl. 5 var þar NA 8 stiga vindur og blindhríð. Þremur klukkustundum síðar hafði hvassviðrið hert og var þá vindhæðin komin í 9 stig og úrkoma hafði aukizt. Frost var á og skyggni ekki meira en um 100 metrar. Landfhelgisgæzluflugvélin Sif leitaði úti fyrir öllum Vestfjörðum og Vesturflugsflugvélin leitaði Norðurdjúpið, Jökulfirðina, í Aðalvík. Leitað var úr landi þar sem því var við komið.
Björgunarsveitin í Bolungarvík þræddi ströndina til Skálavíkur, leitað var á Ingjaldssandi út undir Barða og vitavörðurinn á Galtarvita leitaði í umhverfi vitans. Minni bátar, sem þátt tóku í leitinni þræddu og strendurnar. Í gær fundust línubelgir í beina vindstefnu NA frá þeim stað, sem báturinn gaf síðast upp. Voru belgirnir í fjörunni við Galtarvita og báru merki Freyju. Þá fannst bólfæri, sem ekki hafði verið vitjað um, sem einnig tilheyrði Freyju og er einsýnt að báturinn hefur ekki fundið það í sortanum í fyrradag. Bólfærið var 7 mílur frá Deild og 6,4 mílur frá Rit. í gær fór veður versnandi á leitarsvæðinu og var að hvessa en veðrið í gær var mjög hentugt til leitar. Bátar voru farnir að tínast inn, þegar blaðið hafði síðast fréttir af leitinni. Var þá að koma myrkur og farið að snjóa. Skipstjóri, sem jafnframt er eigandi bátsins, er Birgir Benjamínsson, kvæntur maður, 38 ára gamall og á uppkomin stjúpbörn. Aðrir á bátnum eru Lúðvík Guðmundson, ókvæntur og innan við tvítugt. Lúðvík er stjúpsonur Birgis, Páll Halldórsson er einhleypur maður 50 ára að aldri og Jón Þórðarson á unnustu og tvö börn og er 22ja ára. Freyja hét áður Jón Ben og var þá gerður út frá Neskaupstað, en til Súðavíkur kom hún fyrir um það bil þremur árum.

Morgunblaðið. 3 mars 1967.


                      Vb. Freyja talin af

                    Með henni fórust fjórir ungir menn

Vélbáturinn Freyja BA 272 er nú talin af og er leit að bátnum hætt. Með bátnum fórust fjórir ungir menn, Birgir Benjamínsson, skipstjóri, 38 ára gamall og lætur eftir sig konu og uppkomin stjúpbörn, Lúðvík Guðmundsson, háseti, 17 ára, stjúpsonur Birgis skipstjóra, Páll Halldórsson, vélstjóri, 50 ára ó- kvæntur og barnlaus og Jón Þórðarson, háseti, 21 árs, kvæntur og á tvö ung börn. Snjókoma og dimmviðri tafði mjög alla leit í gær, en eins og kunnugt er var bátsins saknað á miðvikudag og strax sama kvöld var hafin umfangsmikil leit, sem bar þann árangur að fjórir línubelgir fundust. Bólfæri fundust skammt vestur af Eldingum, en á þeim slóðum mun báturinn hafa verið þegar síðast heyrðist til hans. Eldingar eru þau mið, þar sem Ritur ber í hvilftina þá Straumnesshlíð hverfur, að sögn skipstjóra úr Djúpinu. Varðskip leitaði í gær á þessum slóðum, en annars var ekki leitað að marki í gær vegna dimmviðris fyrir vestan. Bátar, sem verið hafa að fara út og inn úr Djúpinu hafa þó farið með ströndum og svipazt um, en einskis orðið vísari eins og áður er sagt. Að sögn Slysavarnafélagsins hefur leitin verið mjög víðtæk og í fyrradag leituðu tvær flugvélar og nær 20 bátar við mjög góð leitarskilyrði.

Morgunblaðið. 4 mars 1967.

Flettingar í dag: 641
Gestir í dag: 233
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963093
Samtals gestir: 497227
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 02:37:32