Færslur: 2017 Febrúar

13.02.2017 17:50

1395. Kaldbakur EA 301. TFBC.

Kaldbakur EA 301 var smíðaður hjá Astillaros Luzuriaga í Pasajes San Juan á Spáni árið 1974. 941 brl. 2 x 1.420 ha. MaK díesel vélar, 1.044 Kw hvor um sig. Eigandi var Útgerðarfélag Akureyringa h/f á Akureyri frá 22 ágúst sama ár. Árið 1999 fær skipið skráninguna EA 1. Selt Brim h/f árið 2004, sama nafn og númer. Árið 2009 fær skipið nafnið Sólbakur EA 1. Selt árið 2011, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, fær aftur sitt gamla nafn. Í janúar á þessu ári (2017) fær skipið nafnið Sólbakur EA 301, því nýtt skip, Kaldbakur EA 1 sem er í smíðum í Tyrklandi er væntanlegur til landsins nú í vor.


1395. Kaldbakur EA 301.                                                                              (C) Snorri Snorrason.


1395. Kaldbakur EA 1.                                                          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Fyrirkomulagsteikning af Spánartogara af stærri gerð. Systurskipið Snorri Sturluson RE 219.


                 Kaldbakur EA 301

19. desember s.l. kom skuttogarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Kaldbakur EA er 4. skuttogarinn sem Útgerðarfélag Akureyringa h. f. eignast og fljótlega mun sá 5. bætast við, Harðbakur EA. Kaldbakur EA er smíðaður hjá spönsku skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A., Pasajes de San Juan og er smíðanúmer 313. Áður hafði stöðin smíðað fjóra skuttogara fyrir Íslendinga eftir sömu teikningu. Fyrsti skuttogarinn af þessari gerð var Bjarni Benediktsson RE 210 (sjá 2. tbl. '73), en hinir þrír eru Júní GK, Snorri Sturluson RE og Ingólfur Arnarson RE. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Kaldbak frá fjórum fyrstu og má þar helzt nefna véla og vindubúnað, sem er af annarri gerð.
Skuttogarinn er byggður skv. reglum Lloyd's Register of Shipping og flokkað +100 Al, Stern Trawler, Ice Class 3, + LMC. í 11. tbl. Ægis 1973 er fyrirkomulagsteikning af þessari skuttogaragerð, sem er með tvö heil þilför stafna á milli, lokaðan hvalbak fremst á efra þilfari og yfirbyggingu á tveimur hæðum aftast á hvalbaksþilfari, íbúðarhæð og brú. Undir neðra þilfari eru fremst hágeymar fyrir sjó kjölfestu og brennsluolíu; fiskilest með botngeymum undir lest fyrir brennsluolíu; vélarúm og aftast geymar fyrir brennsluolíu og ferskvatn. Á neðra þilfari eru íbúðir, vinnuþilfar, fiskmóttaka, stýrisvélarrúm, veiðarfærageymslur o. fl. Í hvalbak er geymsla, íbúðir og klefi fyrir togvindumótor. Aftarlega á togþilfari eru þilfarshús út í síðum, en þar eru geymslur o. fl. Samtals eru íbúðir fyrir 31 mann, sem samanstanda af 11 eins manns klefum, 7 tveggja manna og einum 6 manna klefa. Að auki er svo sjúkraklefi með tveimur hvílum.
Skipið er búið tveimur aðalvélum frá MAK, gerð 6M 452 AK, og skilar hvor um sig 1420 hö við 410 sn/mín. Niðurfærslugír er frá Renk, gerð ASL2xl00 S með niðurfærslu 2:1. Skiptiskrúfubúnaður er frá Kamewa, skrúfa 4ra blaða, þvermál 3100 mm. Inn á gírinn tengjast tveir 550 KVA, 3x380 V, 50 Hz riðstraumsrafalar frá Indar, hvor rafall. Riðstraumsmótor, 550 hö að stærð, knýr 355 KW, 440 V jafnstraumsrafal, sem sér rafmótor togvindu fyrir orku. Omformer þessi er frá AEG. Hjálparvélar eru tvær frá MWM, gerð TD-232-V12, 256 hö við 1500 sn/mín. Við hvora vél er Indar riðstraumsrafall, 200 KVA, 3x380 V, 50 Hz. Af öðrum vélabúnaði má nefna ferskvatnsframleiðslutæki frá Atlas, gerð AFGU 3, afköst 10 tonn á sólarhring og austurskilvindu frá Akers sem afkastar 10 tonn á sólarhring. Stýrisvél er frá Brusselle, gerð HSCE. 185R, snúningsvægi 14,2 tm við 35° útslag.

Ægir. 1 janúar 1975.

12.02.2017 17:09

398. Byr NK 77.

Byr NK 77 var smíðaður í Skipasmíðastöð Mersellíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1955. Eik. 17 brl. 72 ha. June Munktell vél. Eigandi var Haraldur Hjálmarsson útgerðarmaður í Neskaupstað frá 1 júní sama ár. Ný vél (1958) 162 ha. MWM díesel vél. Seldur 17 desember 1960, Sigurbirni Kristjánssyni, Sigtryggi Kristjánssyni og Kristjáni Sigurjónssyni á Húsavík, báturinn hét Fanney ÞH 130. Ný vél (1970) 162 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 apríl 1976, Pálma Karlssyni á Húsavík, hét Helga Guðmundsdóttir ÞH 133. Seldur 29 mars 1978, Húnaröst h/f á Skagaströnd, báturinn hét Húni HU 2. Seldur 14 september 1981, Karel Karelssyni og Gunnari Jónssyni í Hafnarfirði, hét Haftindur HF 123. Seldur 5 nóvember 1982, Eggert Björnssyni og Ásgeiri Árnasyni í Stykkishólmi, hét Gísli Gunnarsson ll SH 85. Frá 7 janúar 1987, hét báturinn Gísli Gunnarsson ll SH 285. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 1 október árið 1987.


Byr NK 77 nýsmíðaður á Ísafirði árið 1955.                                                  (C) Áslaug Helgudóttir.

                       Nýr bátur

Í fyrradag bættist norðfirzka flotanum nýr fiskibátur. Nefnist hann "Byr" og eru einkennisstafir hans N. K. 77. Eigandi bátsins er Haraldur Hjálmarsson, útgerðarmaður. "Byr" var smíðaður í skipasmíðastöð Marselliusar Bernhardssonar á Ísafirði og er 24. báturinn, sem stöðin smíðar. Kaupverð bátsins hefur ekki verið gert upp endanlega, en mun vera um 400 þús. kr. Stærð bátsins mældist 16.82 lestir. Í honum er June-Munktell diesel vél fjögurra strokka 64-72 ha. Í bátnum er svokallað þingeyrarspil, vökvadrifið og flestir hlutir úr járni s. s. dæla og stýrisútbúnaður, var smíðað á Þingeyri. Byr fór í fyrsta róðurinn í gærkvöld, með færi, en mun síðar róa með línu. Austurland óskar Haraldi Hjálmarssyni til hamingju með bátinn.

Austurland. 17 júní 1955.


11.02.2017 12:50

B. v. Arinbjörn hersir RE 1. LBFJ / TFDC.

Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.

B.v. Arinbjörn hersir RE 1.                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Arinbjörn hersir RE 1.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Skip Óskars Halldórssonar útgerðarmanns og síldarsaltanda, Sigríður GK 21 og Faxi RE 17. Einnig má sjá Óskar á myndinni lengst til hægri.         Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.

                Arinbjörn hersir og Snorri goði 
           bjarga 400 mönnum af frönsku skipi 

16. þ. m. voru togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði staddir í Írlandshafi og sáu þá flugvél sökkva stóru skipi með sprengju skammt frá togurunum. Kom upp mikill eldur í skipinu eftir árás flugvélarinnar. Strax og flugvélin hafði yfirgefið hið brennandi og sökkvandi skip, lögðu togararnir að því. Hafði nokkur hluti skipshafnarinnar þá þegar komist í björgunarbátana, og tók Arinbjörn hersir fólkið úr þeim, en Snorri goði lagði að skipshliðinni og bjargaði þar fjölda manns, sem héngu í köðlum og stigum utan á skipinu. Björguðu togararnir alls um 400 manns af áhöfn skipsins, en alls er sagt að um 600 manns hafi verið á skipinu.
Þegar togararnir voru að Ijúka við björgunarstarfið kom brezkur tundurspillir á vettvang til björgunar. Brá hann kastljósi að skipinu til þess að fullvist væri að enginn lifandi maður væri ofan þilja. Sást þá hópur blökkumanna á afturþiljum skipsins, og var þeim bjargað þegar í stað. Skip þetta var franskt og hét Aska. Björgun þeirra Arinbjarnar hersis og Snorra goða þykir mjög frækileg. Að visu var veður gott, en mikil hætta var að nálgast skipið, þar sem búast mátti við sprengingu á hverri stundu. Það er ánægjulegt, hvað íslenzkum togurum hefir tekist að bjarga mörgum mönnum nú í ár. Munu það alls vera yfir 900 manns, sem íslenzkir togarar hafa þegar bjargað.

Vesturland. 21 september 1940.

             Loftárás á Arinbjörn hersi

Samkvæmt símskeyti, sem ríkisstjórnin fékk í gærkvöldi frá Pjetri Benediktssyni sendifulltrúa í London, hefir einn Kveldúlfstogaranna "Arinbjörn Hersir " orðið fyrir árás þýskrar sprengiflugvjelar, er hann var á leið hingað frá Englandi. Mennirnir, 13 talsins, björguðust í bátana , og eru komnir til skoskrar hafnar. Síðari fregn hermir og að dráttarbátur hafi dregið togarann til hafnar. Nánari fregnir af þessum atburði eru ókomnar. Þess er getið í skeyti Pjeturs Benediktssonar, að 4 af skipsmönnum "Arinbjarnar" hafi verið eitthvað meiddir, en enginn þó hættulega.
Þess er ekki getið, hverjir hafi meiðst, en ríkisstjórnin hefir símað út og spurst fyrir um þetta og einnig, hver meiðslin sjeu. Þessi árás á Arinbjörn Hersir átti sjer stað kl. 6 á sunnudagsmorgun. Togarinn fór frá Fleetwood á laugardagskvöld, áleiðis hingað heim. Hefir því árásin átt sjer stað í sundinu milli Írlands og Skotlands. Þar sem svo segir í síðari fregn, að dráttarbátur hafi dregið Arinbjörn til hafnar, bendir það til þess, að sprengja hafi ekki hitt togarann, enda myndi togarinn þá hafa sokkið. Eru því líkurnar þær, að sprengja hafi komið niður nálægt togaranum, en við það gat skipið hafa kastast til og e. t. v. laskast, en það gat aftur verið orsök þess, að mennirnir hafi meiðst. Í skeyti Pjeturs Benedíktssonar segir ekki, að mennirnir sjeu særðir, heldur lítilsháttar meiddir. Bendir þetta til þess, að þeir hafi ekki meiðst af sprengjubrotum. Skipstjórinn á Arinbirni Hersi þessa ferð var Steindór Árnason, sem verið hefir stýrimaður á togaranum.

Morgunblaðið. 24 desember 1940.

10.02.2017 14:59

S. t. Jeria GY 224.

Jeria GY 224 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley árið 1930 fyrir Great Grimsby & East Coast Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 349 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 22 janúar árið 1935 var togarinn að koma frá Englandi og var staddur á Breiðafirði á leið til Patreksfjarðar í var undan ofsaveðri. Fékk togarinn á sig brot um 4 sjómílur undan Látrabjargi með þeim afleiðingum að hálft stýrishúsið brotnaði og reykháfurinn hvarf í hafið. Einnig drapst á vél skipsins og tók að reka að bjarginu. Togarinn strandaði skömmu síðar og fórst áhöfnin 13 menn með honum.


S.t. Jeria GY 224.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


           Grimsbytogarinn Jeria talinn af

Menn ætla að enski botnvörpungurinn Jeria frá Grimsby hafi farist með allri, áhöfn undir Látrabjargi í aftaka vestan veðri síðdegis í gær. Fréttaritari útvarpsins á Patreksfirði símaði í dag á þessa leið: Aftaka veður af vestri með hríðaréljum gerði vestanlands í gær, og lágu margir togarar á Patreksfirði. Um kl. 16 í gærdag fóru 3 þessara togara, Lord Plewder, Reef Flower og Stoke, allir enskir, til þess að aðstoða enska togarann Jeria frá Grimsby, sem rak þá að landi sunnan við Látrabjarg. Hafði hann misst reykháfinn. Vél skipsins var hætt að ganga og ljósin sloknuð, og rak skipið stjómlaust undan stormi og straum. Í gærkveldi fóru 10 menn frá Hvallátrum undir forustu Daníels Eggertssonar út á Bjarg og höfðu með sér eldsneyti, til þess að geta kynt bál, ef vera kynni að þeir sæi eitthvað til skipsins.
Átti bálið að vísa þeim þrem togurum, er voru að Ieita úti fyrir ströndinni, hvar Jeria væri, ef hans yrði vart. Mennirnir komu heim kl. 21 í gærkveldi og sögðu að verið hefði slíkt aftakaveður, að tæplega hafði verið stætt, og stórbrim undir Látrabjargi, en til togarans sáu þeir ekkert. KI. 18,20 í gærkveldi kallaði skipstjórinn á Jeria í 4 mínútur til allra skipa, skeyti það sem hér fer á eftir: "Höfum misst reykháfinn. Rekum að landi milli háfjalls og Látrabjargs. Móttakarinn er bilaður." Samband slitnaði snögglega og heyrðist ekkert til Jeria eftir það. Togarinn Lord Plewder fór mjög nærri Látrabjargi tvívegis í nótt. Skyggni var fremur gott, en ekkert sást til Jeria. Í morgun fóru 6 menn frá Látrum til þess að leita frá Bjargtöngum og inn með Bjargi, og er búist við að þeir komi aftur um kl.18 í kveld. Einnig er búist við að leitað verði frá Rauðasandi. Ensku togararnir héldu áfram 'leitinni í dag.
Síðar í dag símaði fréttaritari útvarpsins á Patreksfirði á þessa leið: Talið er alveg víst að togarinn Jeria hafi strandað og áhöfnin farist, Fregn kom um það frá Rauðasandi klukkan 14 í dag, gegnum simstöðina á Hvalskeri, að nokkrir menn þaðan hefðu farið af stað kl. 21 í gærkveldi og voru þeir á ferðinni alla nóttina að leita skipsins. Þegar þeir komu út eftir sandinum að bænum Brekku, sem er ysti bærinn á Rauðasandi, nú eyðibýli, fóru þeir að finna ýmiskonar dót rekið, svo sem fiskkassabrot, dót úr björgunarbátum, tvo hluta úr bjarghringunum með fullu nafni skipsins, og eftir því sem sunnar dró fundu þeir því meiri reka, og er álitið að skipið hafi strandað og eyðilagst samstundis út undir Lambahlíð, sem er mjög nálægt bænum Keflavík, sem einnig er eyðibýli. Er talið vonlaust öllum skipum, er stranda í vondu veðri á leiðinni frá Bjargtöngum að Rauðasandi. Mennirnir er leituðu fóru allir út á Keflavíkurbjarg svonefnt, en í morgun er þeir sendu mann til Hvalskers, að síma hingað fréttirnar, höfðu enn engin lík fundist.
Slysavarnafélagi íslands barst skeyti um það í gærkveldi, að 6 menn frá Hvallátrum hefði lagt aftur af stað, til þess að hyggja að skipinu. Gengu þeir nú eftir Látrabjargi og fundu engan reka utan Keflavíkurbjargs, en í Keflavík og þar í grend fundust 2 hveitipokar, ómerktir, og var annar furðu lítið blautur, tvennar nýjar buxur, peysa og sokkar, töluvert af litlum Hessianpokum, hlutar úr þilfari, mahognibútar, snerlar af stýrispallshurð, dálítið af þorski og karfa og nokkuð af braki.
Jeria var nýlegt skip, smíðað 1930, 144 smálestir netto, með um 700 ha. vél. Eigi er kunnugt um hve margir menn voru á skipinu, en sennilegt er, að þeir hafi verið 15 eða 16.

Vísir. 24 janúar 1935.

09.02.2017 18:15

Von NK 93.

Von NK 93 var smíðuð í Noregi árið 1919. Eik og fura. 26 brl. 60 ha. Finnoy vél. Hét fyrst Von VE 279. Eigendur voru Vigfús Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Jón Vigfússon og Ingi Kristmannsson í Vestmannaeyjum frá 1929. Keyptur það ár frá Noregi. Ný vél (1935) 80 ha. Skandía vél. Seldur 15 nóvember 1943, Svavari Víglundssyni í Neskaupstað, hét Von NK 93. Svavar flutti til Hafnarfjarðar árið 1952, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá og rifinn árið 1955.


Von NK 93 á Norðfirði.                                       (C) Björn Björnsson.

08.02.2017 15:22

B. v. Menja GK 2. LCJP.

Menja GK 2 var smíðuð hjá Schiffs Werft J & S í Hamborg árið 1920. 296 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Grótta í Hafnarfirði. Skipið sökk á Halamiðum 9 júní árið 1928 í góðu veðri. Áhöfninni var bjargað um borð í Hellyerstogarann Imperialist H 143. Menja var talið ótraust skip og af vanefnum smíðað, enda var á þeim árum hörgull á flestu smíðaefni í Þýskalandi.


Menja GK 2.                                                                                      (C) Þjóðminjasafn Íslands.


Menja GK 2.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur.


   Menja GK 2 sekkur í blíðskaparveðri  

Það sló flemtri á menn, er þeir fréttu að "Menja" væri sokkin. "Það er naumast okkur helzt á togurunum," sögðu sumir og auðheyrt var, að skelfingar "Forsetaslyssins vöknuðu upp í huga þeirra. En menn vildu ekki trúa því" að "Menja" hefði sokkið, án þess að árekstur hefði orðið. Töldu sumir fullvíst, að annaðhvort hefði skip siglt á hana eða hún lent á hafísjaka. Kl. 7 í gærmorgun kom togarinn "Surprise" með skipshöfnina af "Menju" til Hafnarfjarðar, bg í gærdag hitti Alþbl. að máli tvo af skipshöfninni. Sögðu þeir söguna á sömu leið báðir.  "Menja" fór héðan út á þriðjudagskvöldið var. Fór hún norður að Reykjarfjarðarál og var þar fyrst að veiðum. Síðan var haldið suður á Hala og var þar fjöldi togara að veiðum, 45 sjómílur undan landi. Síðari hluta föstudagsins var stinningsgola, en hægði með kvöldinu.
Um nóttina var hægviðri, en þó var allmikil alda. Hafði aflast dável, og mun hafa látið nærri, að "Menja" hafi haft um 20 tn. lifrar á föstudagskvöldið. Kl. 2 um nóttina tók kyndari eftir því, að sjór fór að koma í vélarrúmið. Streymdi hann allört upp, og fór kyndarinn því inn til yfirvélmeistarans og sagði honum tíðindin. Vélmeistari vildi í fyrstu vart trúa, en fór þó niður í vélarrúmið. Var þá sjórinn þar í ökla. Nú var skipstjóra gert aðvart. Var þegar tekið að dæla og varpan dregin upp. En dælurnar höfðu ekki við. Sjórinn jókst í skipinu, og ómögulegt reyndist að komast að lekastaðnum. Neyðarfáni var dreginn upp, eimpípan blés og þeir af skipshöfninni, er sváfu, voru vaktir. Bátar voru settir út, og tók það alllangan tíma. Kl. um 31/2 kom togarinn "Imperialist" og fór öll skipshöfnin af "Menju" yfir í hann. Skömmu seinna bar að "Surprise", og kvaðst skipstjóri vera á leið heim.
Fór þá "Menju" skipshöfnin yfir í "Surprise". En kL 4 og 40 mínútur seig "Menja" í djúpið. "Surprise" lagði af stað heimleiðis kl. 10 f. h. á laugardag, og eins og sagt hefir verið, kom hann til Hafnarfjarðar kl. 7 í gærmorgun. Skipverjar á "Menju" héldu lífi og limum, en mistu allan sinn farangur. Á þinginu í vetur kom íhaldið í veg fyrir það, að fram næði að ganga lög um skyldu útgerðarmanna til að tryggja föt og farangur skipverja, þó að svo sé ákveðið í sjólögum margra annara þjóða, að útgerðinni beri að greiða skipshöfnum tjón á fötum og farangri, er þeir verða skipreika. "Menja" sökk án þess að hún ræki sig á önnur skip ,sker eða ís. Ís var ekki einu sinni. nokkurs staðar sjáanlegur. Fólk er slegið ótta, sem vonlegt er. Hverjir verða næstir, og hvernig fer þá? Verða skip í nálægð, og er víst að veður verði sæmilegt, svo að tiltök verði að fara í bátana? Svo spyrja menn. "Menja" var smíðuð í Hamborg árið 1920. Hún var 296 br. smálestir að stærð. Félagið "Grótti" átti hana. Skipstjóri var Kolbeinn Þorsteinsson. Framkvæmdarstjóri "Grótta" er Hjalti Jónsson. Skipið var vátryggt hjá "Trolle & Rothe", og er vátryggingarupphæðin um 400 þús. krónur.

Alþýðublaðið. 11 júní 1928.

07.02.2017 16:14

Halaveðrið mikla í febrúar 1925.

Fiskimiðin kringum landið okkar eru auðug og aflasæl. Og það eru þau, sem hafa á síðari tímum verið undirstaða þeirra afreka, sem unnin hafa verið hér á landi á sviði verklegra framkvæmda og aukinnar menningar. Og við þau eru tengdar vonir okkar um vaxandi menningarafrek á komandi tímum. En þó að hafið sé örlátt, hefur sú barátta verið fórnfrek, sem íslenzkir sjómenn hafa háð á þessum miðum. Margur hefur látið líf sitt í þeirra erfiðu baráttu. Og stundum hefur Ægir verið svo stórtækur í þeim efnum, að þjóðin hefur öll orðið harmi lostin. Við þekkjum óteljandi dæmi þess. Og að þessu sinni verður eins þeirra minnst.


B.v. Leifur heppni RE 146.                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Það var laugardaginn 7. febrúar árið 1925. Fjöldi íslenzkra togara var að veiðum út af Vestfjörðum, flestir á Halamiðum. Þessi fengsælu fiskimið voru þá nýlega orðin eftirsótt af íslenzkum fiskimönnum. En þeir voru ókunnir ennþá hinu óvenjulega veðurfari, sem algengt er á þessum slóðum. Þeir þekktu ekki ennþá nema að örlitlu leyti hinar straumþungu rastir, sem þarna myndast svo víða og gera sjólagið svo óskaplegt, þegar ofviðrin geisa. Hin snöggu veðrabrigði komu þeim enn á óvart. En á Halamiðum er það algengt, að veðurhæðin breytist skyndilega á 20 til 30 mínútum, úr 1-2 vindstigum í 10 vindstig eða meira, með frosthörku og byl. Og þannig var það að þessu sinni. Stormur hafði verið um daginn og höfðu flest af skipunum hætt að toga upp úr hádeginu. Í eftirmiðdaginn hvessti skyndilega og var á svipstundu komið ofsaveður, með frosthörku og hríð. Stóð veður þetta nær óslitið allan sunnudaginn og fram á mánudag. Eftir það fóru togararnir að tínast smám saman í höfn, allir meira og minna brotnir og illa útleiknir eftir veðrið.


Hellyerstogarinn Fieldmarshal Robertson H 104. Smíðaður í Selby 1919. Hét fyrst Jeremiah Lewis FY 4235 og var í eigu breska sjóhersins til 1920, þar til hann komst í eigu Hellyersbræðra í Hull.  

Voru flestir þeirra tilsýndar eins og fljótandi hafísjakar, þaktir samfelldri klakabrynju frá sigluhún niður á þilfar. Öllu, sem lauslegt var ofan þilja, hafði skolað fyrir borð, á mörgum hafði bátaþilfarið brotnað og stjórnpallurinn farið af sumum, allmargir misstu bátana og úr einum brotnaði afturmastrið. Enginn hafði komizt í landvar, áður en ofviðrið skall á. Loks var allur togaraflotinn, að tveimur skipum undanskildum, kominn í höfn. Þeir, sem saknað var, voru Leifur Heppni, eign hlutafélagsins Alliance og brezkur togari, Field Marshal Robertson, sem gerður var út frá Hafnarfirði, (eign Hellyersbræðra frá Hull). Á hinum fyrrnefnda voru 33 menn, allir íslenzkir, en á hinum síðarnefnda 35 menm, 29 íslenzkir og 6 brezkir. Þegar þrír sólarhringar voru liðnir frá því að ofviðrinu slotaði og ekkert hafði spurst til skipanna, fóru menn almennt að verða hræddir um að eitthvert óhapp hefði komið fyrir. Ákvað ríkisstjórnin því, 12. febrúar, að fá danska varðskipið Fyllu til þess að bregða sér vestur á firði og reyna að svipast þar um eftir skipunum. Togarinn Ceresio var sendur frá Hafnarfirði í sams konar leiðangur. Leit þessi varð árangurslaus.


Margir togaranna urðu yfirísaðir og mjög hætt komnir.
  
En þegar hér var komið málum höfðu eigendur skipanna og aðrir útgerðarmenn tekið ákvörðun um að senda togaraflotann, eða þann hluta hans, sem var ferðafær, til þess að leita að skipunum. Á sunnudagsmorguninn snemma fóru 12 togarar frá Reykjavík, en 9 bættust í hópinn af Selvogsbanka, og höfðu þeir lagt af stað kvöldið áður til móts við hina, sem komu frá Reykjavík. Allir togararnir hittust á mánudagsmorguninn 16. febrúar og röðuðu sér með ákveðnu millibili (3-4 mílum) á um 90 mílna vegalengd. Hafði áður verið reiknað út, eftir vindátt þeirri og veðurhæð, sem verið hafði á svæði þessu síðan ofviðrið hófst, hvar helzt myndi að leita skipanna. (Sjá tígullagaða flötinn á uppdrættinum). Meðan á leitinni stóð, var stöðugt loftskeytasamband milli togaranna innbyrðis og við loftskeytastöðina í Reykjavík. Þann 20. febrúar að kvöldi komu margir af togurunum úr leitinni heim aftur. Höfðu þeir einskis orðið vísari um afdrif skipanna, en alls hafði verið leitað á um 18 þús. fermílna svæði.

Uppdráttur af leitarsvæðinu.  Litli krossinn suður af Halamiðum sýnir staðinn, sem Egill Skallagrímsson var staddur á, þegar ofviðrinu slotaði, en Egil rak lengra í veðrinu, en nokkurt annað skip, sem statt var á þessum slóðum, og með hliðsjón af þeirri afdrift var talið líklegt, að skipin myndu vera einhversstaðar innan tígullagaða flatarins neðst á uppdrættinum, sem táknar leitarsvæði togaraflotans.

Þriðja leitin og hin síðasta var hafin fjórum dögum síðar. Í henni tóku þátt fjórir togarar ásamt varð- skipinu Fyllu. Tveir af togurunum voru íslenzkir, Skúli Fógeti og Arinbjörn Hersir, en tveir voru brezkir, Ceresio og James Long. Leitað var að þessu sinni á miklu stærra svæði en áður, farið allt norður að hafísbrún og þaðan austur fyrir Horn. Þá var haldið vestur á bóginn og leitað vestanvert við svæði það, sem togararnir höfðu áður kannað. (Sjá uppdráttinn). Leitin stóð yfir í 12 daga og var alls farið yfir svæði, er nam um 60 þús. fermílum. Þegar leitinni var hætt, voru leitarskipin stödd um 300 sjómílur vestur af Reykjanesi. Veður var gott á öllu þessu tímabili og skyggni ágætt. En leitin varð árangurslaus. Hafið skilaði ekki aftur hinum dýrmæta ránsfeng sínum. Í ofviðri því, sem fyrr var getið, strandaði vélbáturinn Sólveig á Stafnesskerjum og létu 6 menn þar lífið. Alls fórust því í ofviðrinu, á fiskimiðum hér við land, 68 íslendingar og 6 Englendingar. Hátíðleg minningarathöfn var haldin um sjóslys þetta, í Reykjavík og Hafnarfirði, 10. marz. Og um allt land var hinna föllnu minnst með 5 mínútna þögn.


Hellyerstogarinn James Long H 141 var eitt þeirra skipa sem tóku þátt í leitinni af Leifi heppna og Fieldmarshal Robertson. Myndin er tekin í Hafnarfjarðarhöfn af Guðbjarti Ásgeirssyni.

                Frásögn Snæbjarnar Stefánssonar, 

         skipstjóra á b.v. Agli Skallagrímssyni

Við vorum staddir úti á Halamiðum þegar ofviðrið skall á, síðari hluta laugardagsins 7. febrúar. Stormur hafði verið talsverður fyrri hluta dagsins, en sjólag þó sæmilegt. Upp úr hádeginu var hætt að toga og gengið frá lestaropunum eins og vant var og veiðarfærin bundin upp. Var þá sjór tekinn mjög að spillast og veðurhæðin í hröðum vexti. Skömmu síðar var komið ofviðri, með ofsaroki af NA., blindhríð og stórsjó. Veðurofsinn var svo mikill, að stíma varð með hálfri ferð og stundum jafnvel fullri, til þess að halda í horfinu. Gekk erfiðlega að halda "dampi," því að sjór var kominn á "fírplássið og voru því tveir menn sendir af þilfarinu kyndurunum til aðstoðar. Síðari hluta nætur breyttist sjólagið skyndilega og umhverfðist um allan helming. Tel ég líklegt, samkvæmt síðari reynslu, að þá hafi skipið verið komið inn í straumröstina, sem þarna myndast á mótum Golfstraumsins og Pólstraumsins. Ég fékk tækifæri til þess síðar að sjá með eigin augum hvernig sjólagi er háttað, þar sem straumar þessir koma saman.
Það var við önnur og betri veðurskilyrði, í blíðskaparveðri og ládauðum sjó. En svo var straumþunginn mikill. þar sem straumarnir mættust, annar grár að lit, en hinn blár að á haffletinum myndaðist hryggur, þar sem þeir runnu hvor gegn öðrum. Skömmu eftir að sjólagið breyttist lenti stórsjór á skipinu og varpaði því á hliðina, þannig að stjórnpallurinn fór í kaf stjórnborðsmegin. Við veltuna kastaðist allt, sem lauslegt var, út í aðra hlið skipsins, kolin, saltið og fiskurinn. Eldar drápust undir eimkatlinum, því að sjór flaut inn í eldstæðin og gólfplöturnar á "fírplássinu" gengu meira og minna úr skorðum. Báða björgunarbátana tók fyrir borð og er það gleggsta dæmi þess, hve veltan var mikil, að þeir kipptu með sér bátsuglunum upp úr stýringum sínum á bátaþilfarinu með beinu átaki , þannig að ekkert sá á stýringunum.


Kveldúlfstogarinn Egill Skallagrímsson RE 165.                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Skipið lá nú í sjóskorpunni þannig að sjór flaut upp á brúargluggana. Björgunartilraunir voru þegar hafnar og voru skipverjar á svipstundu komnir hver að sínu verki. Tengslin voru höggvin af bátunum, svo að þeir berðust ekki við skipshliðina, kolunum og saltinu var mokað yfir í kulborða til þess að rétta skipið að nýju og síðan var farið að ausa, því að skipið var sem vænta mátti orðið hálffullt af sjó. Nokkur árangur var þegar orðinn af þessu erfiða starfi, þegar brotsjór reið yfir skipið aftur og varpaði því á nýjan leik á sömu hliðina og fyrr. Varð því enn að hefja sama verkið á sama hátt og áður, en alls var unnið að björgunarstarfinu í 36 klst. samfleytt áður en búið var að ausa skipið og koma vélinni af stað. Síðan var lagt af stað til lands. Stýrt var alla leið í SSA, og reyndist sú stefna vera beint til Reykjavíkur. Er það greinilegasta dæmi þess, hve mikið ofviðrið var, að skipið skyldi, meðan á því stóð, hafa hrakið svo langt til hafs.


Minningarathöfn var haldin í Dómkirkjunni í Reykjavík um þá sem fórust í Halaveðrinu.
  
Það er erfitt að skýra frá atburði þessum svo að ekki sé að einhverju leyti minnzt þess dugnaðar, sem skipverjar sýndu. allir án undantekningar meðan á björgunarstarfinu stóð. En sem dæmi þess vil ég aðeins nefna eftirfarandi atvik:
Meðan enn var verið að rétta skipið eftir áfallið, sem fyrr var nefnt, varð þess vart, að á einu af lestaropunum, því sem aftast var á þilfarinu, hafði losnað um ábreiðuna, sem breidd var yfir lestarhlerana. Hér var sýnilega hætta á ferðum, sem vel gat orðið afdrifarík fyrir skip og áhöfn, ef ábreiðan losnaði alveg og hlerarnir færu af lestaropinu, þannig að sjór flæddi niður í skipið. Þessari hættu varð að afstýra, en það var erfitt verk og áhættusamt. Fárviðrið var í algleymingi, frostharkan mikil, og hríðin og náttmyrkrið svo að varla sá út úr augunum.
Tveir af skipverjum buðust þó þegar til að leysa starfið af hendi. Fóru þeir fyrst fram í hásetaklefann, til þess að klæða sig úr trollstökkunum, því að sjálfsagt var, vegna ofviðrisins, að vera svo léttklæddur sem unnt var, eftir að komið væri út á þilfarið og stakkarnir myndu hvort sem var verða gagnslitlir sem hlífðarflíkur, þegar þangað kæmi. Þeir höfðu lokið þessum undirbúningi og stóðu í vari undir hvalbaknum, voru að bíða eftir því að færi gæfist til þess að komast út á þilfarið. Þá reið ólag yfir skipið og sjórinn flæddi eins og straumröst yfir þilfarið og inn undir hvalbakinn. Datt víst fáum í hug, að þeir, sem þar voru kæmust lifandi úr þeirri eldraun.


Minningartafla um þá sem fórust með togaranum Fieldmarshal Robertson, gefin af Hellyersbræðrum, eigendum skipsins. Taflan er í kór Hafnarfjarðarkirkju.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.  
  
Þessi forleikur spáði ekki góðu um það, sem við mætti búast síðar, þegar komið væri út á þilfarið og ekkert yrði framar til að skýla þar við starf sitt hinum ótrauðu sjálfboðaliðum. Ráðgert hafði verið í fyrstu að hafa bönd á þeim í öryggisskyni, en því neituðu þeir ákveðið, töldu vonlaust að sleppa ómeiddir, ef að sjór kæmi á skipið undir slíkun kringumstæðum. Þá kusu þeir heldur ef ekki yrði hægt að ná handfestu, að verða hafinu að bráð, en að berjast um í böndum, eins og rekald í brimi, á snarbröttu og hálu þilfarinu. Þegar færi gafst, sættu þeir lagi, komust slysalaust á ákvörðunarstaðinn og luku rólegir við starf sitt, þó að vinnuskilyrði væru erfið. Og að verkinu loknu, þegar hættunni hafði verið afstýrt, hurfu þeir aftur í raðir félaga sinna, eins og ekkert hefði í skorizt, til þess að vinna með þeim að austri skipsins og öðrum nauðsynlegum björgunarráðstöfunum.
Einnig fórst í þessu óveðri vélbáturinn Sólveig frá Ísafirði með 6 mönnum, en þennan bát hafði Óskar Halldórsson útgerðarmaður og síldarsaltandi á leigu og gerði út frá Reykjavík.

Heimildir:
Sjómannablaðið Víkingur. 1 febrúar 1965.
Þrautgóðir á raunastund. Vll bindi.

06.02.2017 15:47

1326. Stálvík SI 1. TFRS.

Stálvík SI 1 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð Stálvíkur h/f í Garðahreppi árið 1973. 314 brl. 1.750 ha. Wichmann díesel vél, 1.288 Kw. Eigandi var Þormóður rammi h/f á Siglufirði frá 15 september 1973. Skipið var lengt og endurmælt árið 1986, mældist þá 364 brl. Skipið var selt 27 desember 1997,  Þormóði ramma-Sæberg h/f á Siglufirði, sama nafn og númer. Stálvík var lagt árið 2004 og síðan tekið af skrá 26 ágúst 2005. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur sama ár. Stálvík var fyrsti Skuttogarinn sem smíðaður var hér á landi.

Stálvík SI 1.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 


Stálvík SI 1.                                                                                                        Mynd á frímerki.


Stálvík SI 1 við komuna til Siglufjarðar.                                                          (C) Mynd úr Einherja.

                        Stálvík SI 1

Sunnudaginn 16. sept. s. l. kom B. v. Stálvík SI 1, fyrsti skuttogarinn, sem smíðaður er á Íslandi, til Siglufjarðar. Mikill mannfjöldi var á Hafnarbryggjunni til að fagna skipinu, en það er eign Þormóðs ramma h. f. á Siglufirði. Er skipið hafði lagst að bryggju flutti Ragnar Jóhannesson stjórnarformaður Þormóðs ramma h. f. stutta ræðu. Bauð hann skipshöfn og skip velkomið til heimahafnar og hvaðst vonast til að þessi glæsilegi farkostur ætti eftir að færa Siglfirðingum mikla björg í bú. Þá þakkaði Ragnar öllum þeim er stuðlað höfðu á einhvern hátt að smíði togarans, svo sem ríkisstjórn, þingmönnum kjördæmisins, peningastofnunum og mörgum öðrum.
Eininig töluðu við þetta tækifæri, þ. Ragnar Jónasson, settur bæjarstjóri og Þórður Vigfússon framkvæmdastjóri Þormóðs ramma h. f. Síðan var fólki boðið að ganga um borð og skoða skipið. Þá var og öllum Siglfirðingum boðið til kaffidrykkju að Hótel Höfn í tilefni af komu skipsins, Síðar um daginn var svo starfsfólki Þormóðs ramma h. f. og fleirum boðið í stutta siglingu með hinu nýja skipi. Stálvík SI 1, er hið glæsiegasta skip, um 450 brúttólesta skuttogari, smíðaður hjá skipasmíðistöðinni Stálvík h. f. í Garðahreppi, en forstjóri hennar er Jón Sveinsson. Að allra dómi virðist hér vera um mjög vandað skip að ræða og allur frágangur smekklegur. Öll siglinga og fiskileitartæki eru af fullkomnustu gerð og þeim vel fyrir komið. Verð skipsins frá skipasmíðastöðinni er um kr. 149 milljónir en heildarverð, sem næst 160 milljónum.
Fiskilest er búin fiskikössum að 2/3 og hægt að koma fyrir kössum í henni allri. Skipstjóri á b. v. Stálvík er Hjalti Björnsson og 1. vélstjóri Agnar Þór Haraldsson.
Félagið á í smíðum annan skuttogara á Spáni, er hlotið hefur nafnið Sigluvík SI 2, en sá togari er svipaður að stærð og Stálvík, og er væntanlegur hingað um mánaðarmótin febr-mars n. k. Einnig á Þormóður rammi h. f. 100 lesta stálskip m. s. Selvík SI 4, sem nú er á línuveiðum og hefur aflað mjög sæmilega að undanförnu. Eins og kunnugt er, er hér nú hafin bygging á stóru fiskiðjuveri fyrir Þormóð ramma h. f. Er þegar búið að steypa grunn og verið að ganga frá gólfplötu að fyrsta áfanga byggingarinnar, en það er 1000 m2 frystigeymsla, sem áætlað er að komist undir þak um n. k, áramót. Í vetur er svo meiningin að einangra klefann og ganga frá honum að öðru leyti. Frystihúsið verður byggt þannig að stækkunarmöguleikar séu auðveldir, þegar þörf krefur, en það sem byggt er nú og næsta ár, er 4.100 m2 frystihús með öllum nauðsynlegum búnaði á einni hæð og síðan á 2. hæð 650 m2 skrifstofuhúsnæði, með matsal fyrir starfsfólk frystihússins, eldhúsi og fl. Gert er ráð fyrir að hægt sé að vinna í þessu húsi um 60 tonn af hráefni á dag, án yfirvinnu, með 120- 140 starfsmönnum að jafnaði. En með fyrirhugaðri stækkun síðar verður starfsfólkið allt að 200 manns.

Einherji. 22 október 1973.

05.02.2017 14:07

Dóra SU 36. TFRK.

Dóra SU 36 var smíðuð í Inverness í Skotlandi árið 1913. Eik. 93 brl. 200 ha. Atlas vél. Marteinn Þorsteinsson kaupmaður og útgerðarmaður á Fáskrúðsfirði keypti skipið frá Skotlandi vorið 1939. Skipið hét áður Gweeldore. 4 mars árið 1940 selur Marteinn skipið að hálfu, Árna S Böðvarssyni í Vestmannaeyjum. Skipið var selt 1 nóvember 1940, Beinteini Bjarnasyni í Hafnarfirði, hét Dóra GK 49. Skipið var lengt árið 1941, mældist þá 101 brl. Ný vél sama ár, 240 ha. Atlas díesel vél. Ný vél (1951) 250 ha. Cummins díesel vél. Ný vél (1955) 270 ha. Lister díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 28 júlí árið 1964.


Dóra SU 36.                                                                                       (C) Emma Guðmundsdóttir.


Dóra SU 36.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur.                                                                                         

04.02.2017 15:10

2 m. sk. Haffrúin (Havfruin) LBFC.

Skonnortan Haffrúin var smíðuð í Kjerteminde í Danmörku árið 1875. Eik. 38 brl. Fyrsti eigandi hér á landi mun hafa verið Jón Jónsson snikkari, fæddur í Geiteyjum á Breiðafirði árið 1829. Hann mun hafa gert skipið að mestu út á hákarlaveiðar. Árið 1879 er skipið komið í eigu Kristjáns Andréssonar í Meðaldal og fl. í Dýrafirði. 30 mars árið 1880 komst skipið í eigu Lárusar A Snorrasonar á Ísafirði og í Kaupmannahöfn. Árni Sveinsson kaupmaður á Ísafirði átti skipið einnig og þá trúlega um aldamótin 1900.Haffrúin fékk skráningarnúmerið ÍS 27 um 1905. Skipið var selt Hjálmari Sigurðssyni kaupmanni í Stykkishólmi árið 1914-15. Í sjómannaalmanaki frá 1917 er Hjálmar skráður eigandi og skipið þar sagt 40,23 brl. að stærð. Skipið var talið ónýtt og rifið á Bíldudal ekki löngu síðar.


Haffrúin. Þetta líkan af skonnortunni er í Þjóðminjasafninu. Líkanið smíðaði Hálfdán Bjarnason skipasmiður á Ísafirði.                                              
(C) Þórhallur S Gjöveraa. 3 febrúar 2017.


                  Þingeyrarflotinn

 "HAFFRÚIN" með heill og prýði höppum sækir að. Kristján ræður röskum lýði rostungs fram um hlað. Fagurt skip og guma góða geta menn þar séð, þó að herði hræsvelg óðan heppnin þeim er með"
Vísa þessi mun vera ort eftir Sighvat Grímsson Borgfirðing á tímabilinu 1890-95, sem lengi átti heima í Dýrafirði.
 "HAFFRÚIN" átti ekki heima á Þingeyri. Hún var keypt frá Danmörku. Lárus Snorrason á Ísafirði, Jón snikkari og "Hnífsdalfólkið" keypti hana. Hún var gerð út frá verzlun Lárusar Snorrasonar. Skipstjórinn var Dýrfirðingur, Kristján Andrésson frá Meðaldal. Verður hans að nokkru getið síðar. Með "HAFFRÚNA" kom danskur skipstjóri hingað til lands. Í Danmörku hafði skipið verið lystiskip. Það var skonnorta, afar fallegt og vandað skip og ágætur siglari, "fartaði vel", en "tók ekki hátt"  gekk ekki vel, ef stýrt var nærri vindi, varð að fá seglin full af vindinum, "hálsarnir máttu ekki kitla". Hálsarnir = framrönd seglsins, kitla = blakta). "RÓSAMUNDA" sigldi betur, "tók hærra." "HAFFRÚIN" var með "hálfdekki" fram fyrir aftursiglu = þilfarið lá hærra þar en annarsstaðar, um 20 þumlungum hærra en framar á skipinu. Á sumum skipum voru töppur til uppgöngu á "hálfdekkið", ef það var miklu hærra en hinn hluti þilfarsins. Danski skipstjórinn var svo "fínn með sig", að ekki mátti renna færi upp á "hálfdekkinu". Þangað mátti ekki koma fiskblóð né slor.En þetta bann var ekki haldið lengi. En nú skulum við víkja nokkru nánar að skipstjóranum á "HAFFRÚNNI", Kristjáni Andréssyni. Þar er aðalheimildarmaður minn Sigurður. Fr. Einarsson, en hann hafði mestan fróðleik sinn um hann frá Ólafi Guðbjarti Jónssymi í Haukadal, sem gerþekkti Kristján, eins og fram mun koma hér síðar.
Hann var skipstjóri á þessu skipi mörg ár og aflaði ágætlega. Hann var dugnaðarmaður með afbrigðum, sem gat "valið úr fólki", eins og þá var sagt um þá, sem menn sóttust eftir að komast í skipsrúm hjá. Hann var í hvívetna framfaramaður og stundaði sjómennskuna  bæði á þilskipum og bátum að haustinu. Hann hafði brennandi áhuga fyrir öllu því, sem að sjósókn og aflabrögðum laut. Kristján Andrésson varð fyrstur manna til að halda sjómannaskóla á heimili sínu á vetrum. Margir ungir og efnilegir menn nutu þar fræðsu hans og hvatningar svo vel, að þeir voru honum þakklátir alla ævi sína, dáðu hann og virtu.
Látum Sigurð Fr Einarsson segja frá: "Sá, sem bezt sagði már frá Kristrjáni, Skóla hans og heimili, var Ólafur Guðbjartur Jónsson í Haukadal, hinn mikli dugnaðar og sómamaður. Ég var háseti hjá Ólafi. Einu sinni spurði ég hann í einfeldni minni, hvort þeir, (sem hefðu Iært siglingafræðina bara hjá Kristjáni í Meðaldal, gætu siglt til annara Ianda. Þá segir Ólafur, "Það væri ekki Kristjáni að kenna, þó að við, strákarnir hans, gætum ekki siglt kringum heiminn". Í þessum látlausu orðum Ólafs Guðbjarts, fannst mér Iiggja svo mikil hlýja, viðurkenning og þakklæti, sem bezt er hægt að borga fyrir sig með". Ekki vita menn til þess, að Kristján hafi verið styrktur hið minnsta, hvorki til skólahalds né annars. Hann keypti fyrsta vélbátinn, sem til Dýrafjarðar kom. Þetta var lítill opinn bátur, með Alpha-vél. Á þessum báti sótti Kristján jafnvel alla leið norður í Djúpsál til sílld og þorskveða. Kristján Halldórsson frá Vöðlum, er heimildarmaður að eftirfiarandi upplýsingum um "HAFFRÚNA", hún var keypt af "Hnífsdalsfólki" o. fl., eins og getið hefur Verið um hér framar. Þegar Bjarni Halldórsson í Hnífsdal og Páll bróðir hans féllu frá, komst skipið í eigu Árna Sveinssonar kaupmanni á Ísafirði. Þegar hann fluttist tii Reykjavíkur, keypti Bergur Rósinkransson kaupmaður á Flateyri "HAFFRÚNA".
Árið 1910 var skipstjóri á henni Jón Bjarnason frá Patreksfirði. Bergur Rósinkransson átti skipið Már. Þaðan fór það til Geirseyrar í Patreksfirði. Stóð það þar uppi alllengi og var keypt og rifið af Gísla Jóhannessyni skipasmið á Bíldudal. Hann smíðaði bát úr sumu af efninu, og nefndi hann "HAFFRÚ". Þennan bát seldi hann til Súgandafjarðar. Þar keypti hann Helgi Sigurðsson Skipstjóri."HAFFRÚIN" var gullfallegt, sterkt skip og vandað. Það var venja á Þingeyri að setja skipin á land að haustinu, þegar veiðitíminn var úti. Áttu þeir Brekku menn, Steindór og Guðmundur Jensson, oft ferð til Þingeyrar, til þess að líta eftir skútunni og sjá um, að allt væri eins og það átti að vera. Sigurður Fr. Einarsson segir svo orðrétt: "Sé ég þá stundum Steindór sál. bókstflega klappa skipinu og heyrði hann segja: "Og blessuð skútan." Honum þótti svo vænt um skipið, eins og það væri lifandi vera, gædd tilfinningum, og ég held eða mér sýndist að hann áliti það heilaga skyldu sína að vera góður við hana.
Þetta litla atvik, að ég $á hann klappa skipinu, lýsti, (að því er mér fannst) Steindóri sáluga eða hans innri  manni. Seinna komst ég að því, að ég hafði rétt fyrir mér í þessu. Hann var hin ágætasta sál, vandaður eins og gull, hreint gull, - áreiðanlegur, tryggur og vinafastur, og heimilisfaðir sem bezt verður á kosið. Allt hið sama get ég sagt um Guðmund sál. Jensson, sem var stýrimaður hjá Steindóri. Kjarkur þessara manna var ódrepandi, atorkan röm og viljinn óbiandi og gæfan rík. Þeim hlekktist aldrei á og sóttu þó sjóinn stíft. Ég er ekki viss um, hvar þeir lærðu siglingafræði, en líklega hjá Kristjáni í Meðaldal."

Tíminn Sunnudagsblað. 18 maí 1969.
Jón Kr Ísfeld tók saman.

03.02.2017 19:14

Togarar í slippnum í Reykjavík.

Það er að jafnaði alltaf mikið líf við höfnina, skip að koma og skip að fara. Enn nú meira er lífið þar ef slippur er í nálægð hafnar eins og er í Reykjavíkurhöfn. Slippfélagið í Reykjavík var stofnað 21 október árið 1902. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, en einnig komu þar að kaupmennirnir Jes Zimsen og Ásgeir Sigurðsson. Á þessum árum var í aðsigi mikill framkvæmdahugur meðal framámanna borgarinnar og landsins alls, stofnun skipafélags, reisa hafnargarða við Reykjavíkurhöfn og margt fl. Svo í kjölfarið komu togararnir til sögunnar og eftir því hvað þeir stækkuðu, þurfti stærri dráttarbrautir til að þjónusta þá ef vel ætti að vera. Hér eru nokkrar myndir úr safninu af togurum í slippnum í Reykjavík.


1868. Helga María AK 16.

               Slippfélagið í Reykjavík

Um aldamótin síðustu voru stundaðar þorskveiðar við Faxafloa á sjötíu þilskipum, sem keypt höfðu verið notuð fyrir tiltölulega lágt verð, einkum frá Englandi og Skotlandi. Skipin gengu fljótt úr sér og var snemma brýn nauðsyn á því, að hægt væri að gera við þau hér á landi. Þetta sáu og skildu ýmsir framsýnir menn, er nærri útveginum stóðu, og varð það til þess, að þeir hófust handa á þann hátt, sem skýrt er frá hér á eftir. 28. des; 1901 kom til umræðu á fundi útgerðarmanna að eignast slipp til að geta dregið skip á land. Formaður Útgerðarmannafélagsins, Tryggvi Gunnarsson, bar upp tillögu um að félag skyldi nú stofnað til að koma upp dráttarbraut og var það samþykkt og var þá þegar lofað nokkrum fjárframlögum til stofnunar félagsins. 15. marz 1902 var haldinn undirbúningsfundur að stofnun slíks félags. Ákveðið var að fá menn frá Noregi til að annast uppsetningu á slipp. 21. október 1902 var haldinn stofnfundur Slippfélagsins. Ákveðið var að félagið skyldi vera hlutafélag með kr. 15 þús. í hlutáfé og skyldi félagið heita: "Slippfélagið í Reykjavík". Lög félagsins voru samþykkt og fyrsta stjórn kosin og hlutu kosningu: Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, Jes Zimsen, kaupmaður, Ásgeir Sigurðsson kaupmaður.


1274. Páll Pálsson ÍS 102.

Tryggvi Gunnarsson var formaður félagsstjórnarinnar frá byrjun til 1917, er hann dó. Jes Zimsen og Ásgeir Sigurðsson sátu í stjórninni til 1930. Árið 1902 var hafin bygging á dráttarbraut á Hlíðarhúsasandi eftir fyrirsögn hins norska manns, er stjórnin hafði ráðið. Maðurinn reyndist illa og allt varð dýrara en ráð var fyrir gert. Lenti félagið þegar í byrjun í fjárþröng. Fékk það þá 4000 kr. styrk úr "Varasjóði sparisjóðs Reykjavíkur" til að fullgera dráttarbraut. Árið 1903 var ráðinn annar norskur maður, O. Ellingsen, til Slippfélagsins og taldi hann Slippinn þurfa endurbóta við, enda mun hann hafa verið mjög ófullkominn. Sama ár sendi félagið bænaskrá til Alþingis um 10 þús. kr. styrk til að koma upp "Patent slipp". Var féð veitt. 1904 var hlutafé félagsins aukið í þeim tilgangi að kaupa nýjan slipp frá Englandi.


1345. Freri RE 73.

Sama ár var slippur keyptur í Englandi. Var slippurinn síðan byggður og skip tekin upp á hann það ár. Var hann stærsta þess háttar mannvirki hér á landi um 28 ára bil eða til 1932, er Slippfélagið byggði dráttarbraut fyrir togara. Þessi slippur gat tekið skip allt að 200 smálestir að þyngd. Um það bil sem slippurinn var byggður, munu hafa verið hér um 60-70 íslenzkir kútterar. Var því mjög mikil þörf fyrir þetta fyrirtæki, enda fékk það þegar nóg að starfa við viðhald og viðgerðir á skipum. Rekstur fyrirtækisins gekk vel allt til ársins 1920, því að auk upptöku skipa og viðgerða á þeim rak félagið mikla verzlun með timbur og ýmsan útbúnað til skipa o. fl. Þó að Slippfélagið væri stærsta iðnfyrirtæki landsins í sinni grein um árabil, byggði það á þessu tímabili ekki skip að nýju. Á árunum 1912-18 fækkaði kútterunum jafnt og þétt og í lok stríðsins voru þeir horfnir úr íslenzkri eign. Í stað þeirra komu togarar, en þeir voru of stórir fyrir dráttarbraut félagsins. Á fundi Slippfélagsins 1914 minntist Tryggvi Gunnarsson á þörfina fyrir að koma upp dráttarbraut, er tekið gæti á land togara. Nærri því árlega var um þetta mál rætt á fundum félagsins, en aldrei varð úr framkvæmdum.


1279. Brettingur KE 50.

Um eitt skeið var um það rætt, að erlent félag keypti eignir Slippfélagsins og reisti hér skipasmíðastöð. En úr því varð ekki. Afkoma félagsins versnaði því fljótt eftir stríðið og 1931 var félagið komið í f járþröng, svo að ekki leit út fyrir annað en gjaldþrot. Var þá hafizt handa af nokkrum framtakssömum mönnum, er um það leyti höfðu keypt hluti í félaginu, um að byggja dráttarbrautir, er gætu tekið upp stærstu togara og koma upp skipaviðgerðar og skipasmíðastöð, er fullnægði þörfum landsins. Árið 1932 fékk félagið lán hjá Hafnarsjóði Reykjavíkur og Skipaútgerð ríkisins í því skyni að byggja slipp fyrir togara. Þá var hlutaféð aukið mjög og gamla hlutaféð fært niður. Keyptir voru 2 dráttarvagnar með vindum fyrir 400 og 800 smálesta skip. Minni dráttarbrautin var svo byggð um haustið og fyrsti togarinn tekinn á Iand 15. des. 1932. 1933 byggði félagið aðra dráttarbraut fyrir 800 smálesta skip og fékk til þess lán hjá erlendu félagi. Var þá svo komið, að hægt var að taka hér á land allan togaraflotann, strandferðaskipin, varðskipin og minnstu millilandaskipin. Í beinu sambandi við byggingu þessarar dráttarbrautar var 1934 stálsmiðjan stofnuð, sem annaðist plötuviðgerðir skipa. Var þá svo komið, að hægt var að gera hér við og flokka öll skip allt að 800 smálestir að stærð.


2184. Vigri RE 71.

Þau 9 ár, sem liðin eru síðan þessar dráttarbrautir voru gerðar, hafa yfir 1200 skip af togara stærð og stærri verið tekin á land og framkvæmdar á þeim stærri og minni viðgerðir. Auk þess hefir verið gert við mörg minni skip. Það má fullyrða, að það hefir verið útgerð landsmanna ómetahlegur hagnaður, að dráttarbrautir þessar voru byggðar, ekki sízt nú síðan stríðið hófst og skipin fá ekki framkvæmdar neinar teljandi viðgerðir í Englandi. Líklegt er, að meiri hluti togaraflotans væri nú ósjófær, ef dráttarbrautir Slippfélagsins væru ekki til. Oft á ári hefir það komið fyrir, að skip fullfermd af ísfiski hafa bilað, brotið skrúfu eða orðið lek og verið tekin í slipp og gert við þau á nokkrum klukkustundum. Áður varð í þessum tilfellum að losa skipin og auk þess kostnaðar og tafar, er það tók, ónýttist fiskurinn oft að mestu eða varð verðlítill. Undanfarin 3-4 ár hefir Slippfélagið ásamt Stálsmiðjunni unnið að undirbúningi að því að koma upp skipabyggingastöð, er byggt getur togara og jafnvel stærri skip.


2182. Baldvin Njálsson GK 400.

Með samningum við Reykjavíkurbæ og Skipulagsnefnd hefir félögum þessum verið tryggt nægilegt athafnasvæði við höfnina. Á þessu svæði hafa félögin gert áætlun um skipabygginga og skipaviðgerðastöð, er ætla má að fullnægi íslenzkum þörfum næstu áratugi. Auk þeirra mannvirkja, er þegar eru gerð, er ætlunin að bæta við 2 dráttarbrautum, þurkví, er tekur allt að 4-5000 tonna skip, og tveim byggingabrautum fyrir togara. Ennfremur verkstæði, efnisgeymslur, skrifstofur o. fl. Tillögur þessar hafa verið sendar bæjarstjórn Reykjavíkur og ríkisstjórninni. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir þegar fallist á tillögurnar með því að breyta skipulaginu á þessu svæði, er þær ná til, í samræmi við þær. Ennfremur hafa félögin fyrir alllöngu leitað aðstoðar ríkisstjórnarinnar til að hefja framkvæmdir. En stríðið hefir aukið mjög erfiðleikana á að fá vélar og nauðsynlegt efni. Daníel Þorsteinsson skipasmíðameistari tók við framkvæmdastjórn af O. Ellingsen 1915 og hafði þann starfa á hendi þar til Sigurður Jónsson tók við. Stjórn Slippfélagsins skipa nú: Hjalti Jónsson, formaður, Kristján Siggeirsson kaupmaður, Þórarinn Kristjánsson hafnarstjóri og  Geir Zoega vegamálastjóri.

Vikan 12 nóvember 1942.


02.02.2017 13:38

20. Ásúlfur ÍS 202. TFWR.

Ásúlfur ÍS 202 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð A/S Sverre í Gautaborg í Svíþjóð árið 1947. Eik. 97 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 10 maí 1947. Selt 6 maí 1949, Skutli h/f á Ísafirði. Árið 1953 var skipið endurmælt, mældist þá 102 brl. Ný vél (1959) 375 ha. Kromhout díesel vél. Skipið var selt 12 nóvember 1963, Þorsteini N Halldórssyni í Keflavík, hét Gulltoppur KE 29. Skipið var endurmælt 1966, og mældist þá 90 brl. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 6 september árið 1967.


Ásúlfur ÍS 202.                                                                                   (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Ásúlfur ÍS 202. Líkan.                                                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


                   Nýr Svíþjóðarbátur

Haraldur Guðmundsson, skipstjóri, kom hingað til bæjarins með nýjan vélbát frá Svíþjóð þann 15. þessa mánaðar. Heiti bátsins er Ásúlfur ÍS 202 en eigandi hans er Skutull h.f. Ísafirði. Jón Björnsson skipstjóri í Reykjavík sigldi bátnum til landsins frá Svíþjóð. Haraldur Guðmundsson hefur dvalið í Svíþjóð undanfarna mánuði eða frá því í nóvember á síðastliðnu ári, til þess að fylgjast með smiði bátsins. Báturinn er 103 smálestir að stærð og útbúin nýtízku tækjum, svo sem dýptarmæli, sendi og móttökutækj um, ásamt miðunarstöð. Í bátnum er aðalvélin Atlas-Pólar diesel 260 ha. og tvær bolinder ljósavélar. Bátur þessi lítur príðilega út að öllum frágangi og eru vistarverur allar rúmgóðar og þægilegar í alla staði. Hann er byggður eftir teikningu Daníels Þorsteinssonar skipasmiðs í Reykjavík, en smíði hans framkvæmdi skipasmiðastöðin A/S Sverre í Gautaborg. Ganghraði bátsins reyndist á heimleiðinni vera 9 sjómílur til jafnaðar. Veður var gott mestalla leiðina og reyndist báturinn vel á sjó, að því er frekast varð séð. Vegna þess hvað áliðið er vors verður báturinn ekki gerður út á veiðar fyrr en á síldarvertíð í sumar.

Vesturland. 22 maí 1947.


01.02.2017 13:21

Grótta ÍS 580. TFNM.

Grótta ÍS 580 var smíðuð sem 3 m. skonnorta í Fécamp í Frakklandi árið 1920. Eik og álmur. 236 brl. 144 ha. vél, gerð óþekkt. Ásgeir Pétursson kaupmaður, útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri og víðar, keypti skipið árið 1940 af A. Peturssyni á Skálum í Færeyjum, skipið hét þá Grotta FD 605, en bar áður nöfnin, Tvey Systkin og Ernest Emilie. Skipið var endurbyggt í Skipasmíðastöð Bárðar G Tómassonar á Ísafirði árið 1942, mældist þá 310 brl. Einnig var skipt um vél, sama ár, 320 ha. Lister Blackstone díesel vél. Skipið var selt í apríl 1942 eða 43, Hlutafélaginu Björgvin á Ísafirði. Fékk þá nafnið Grótta ÍS 580. (Kom inn á skipaskrá 1944 á meðan prentun stóð yfir). Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950.


Grotta FD 605. Myndin sennilega tekin á Siglufirði.                                        Ljósmyndari óþekktur.


Grótta ÍS 580 á síldveiðum.                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


              Vélskipið Grótta ÍS 580

Síðastliðið sumar fór fram gagngerð breyting og stækkun á m. s. Grótta, sem er eign h. f. Björgvins á ísafirði. Skipasmiðastöð Bárðar G. Tómassonar á Ísafirði framkvæmdi breytinguna, nema hvað bakki skipsins var smiðaður í skipasmíðastöð Marzelíusar Barnharðssonar á Ísafirði. Grótta var upphaflega byggð sem þrímöstruð skonnorta, og smíðuð var hún í Frakklandi 1920. Hingað til lands var hún keypt frá Færeyjum 1940 af Ásgeiri Péturssyni, en hann seldi hana h. f. Björgvin 1942. Með breytingunni var siglunum fækkað úr þremur í tvær, sett í það ný og stærri vél, byggður opinn bakki, stýrishús og vélarúm, ásamt nýjum vistarverum. Skipið stækkaði við breytinguna um 74 rúml., og er nú 310,23 rúml. brúttó. Í skipinu er 320 hestafla Blackstone R. A. Lister, Dieselvél. Með 450- 500 snúningum gengur skipið um 8 1/2 sjómílu á klst. Olíugeymar skipsins rúma 18.000 litra. Skipstjóri á Gróttu er Lárus Blöndal.

Ægir. 1 maí 1943.


Flettingar í dag: 608
Gestir í dag: 184
Flettingar í gær: 1749
Gestir í gær: 662
Samtals flettingar: 2030934
Samtals gestir: 519166
Tölur uppfærðar: 27.9.2020 07:23:30