Færslur: 2018 Janúar

04.01.2018 07:59

Pálmi ll EA 536.

Pálmi ll EA 536 var smíðaður af Steinþóri Baldvinssyni á Höfn á Svalbarðsströnd í Eyjafirði árið 1930. Eik og fura. 9 brl. 25 ha. Tuxham vél. Eigandi var Einar Þorvaldsson í Hrísey frá 6 desember sama ár. Seldur 8 febrúar 1940, Vigfúsi Kristjánssyni og Gunnlaugi Sigurðssyni á Litla Árskógssandi, sama nafn og númer. Ný vél (1940) 38 ha. Tuxham vél. Báturinn var endurbyggður og lengdur árið 1958 og mældist eftir það 10 brl. Einnig var sett í bátinn ný 81 ha. MWM díesel vél. Báturinn sökk um 3 sjómílur vestan við Hrísey eftir árekstur við strandferðaskipið Heklu 6 apríl árið 1962. Áhöfnin, fimm menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í Heklu stuttu síðar, heilum á húfi.


Pálmi ll EA 536 í bóli sínu í Hrísey.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Strandferðaskipið Hekla. Skipið var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1948. 1.456 brl.  Úr safni mínu.

           Hekla sigldi niður fiskibát
                       Mannbjörg 

Klukkan 20.30 í fyrrakvöld sigldi strandferðaskipið Hekla niður vélbátinn Pálma II frá Litla-Árskógssandi, skammt innan við Hrísey. Fimm manna áhöfn Pálma bjargaðist ómeidd í gúmbátinn og síðan upp í Heklu . Báturinn sökk á fimm mínútum . Vélbáturinn Pálmi II. var að koma úr róðri, hafði verið á þorskanetum út af Eyjafirði. Hann var með góðan afla. Kom hann siglandi stefnuna frá Gjögrum og á Litla Árskógssand og fór því álinn austan við Hrísey. Hekla var að koma frá Siglufirði og fór álinn vestan við Hrísey. Siglingaleiðir skipanna skerast skammt sunnan við Hrísey og Pálmi hefur Hekluna á stjórnborða. Það skiptir engum togum að skipin sigla saman og lendir stefni Heklu aftarlega á Pálma. Fimm manna áhöfn Pálma bjargaðist í gúmmíbátinn og Hekla reyndi að taka Pálma á síðuna og var rétt búin að koma böndum á hann er báturinn sökk. Áhöfn Pálma var tekin um borð í Heklu. Gott veður var þegar slysið átti sér stað og ekki orðið full dimmt.
Vélbáturinn Pálmi er 10 tonna trébátur smíðaður á Akureyri 1930. Hann er eign Vigfúsar Kristjánssonar o. fl. á Litla-Árskógssandi. Formaður á Pálma var Gunnlaugur Sigurðsson, Brattavöllum. Skipstjóri á Heklu er Guðmundur Guðjónsson. Sjópróf í málinu hófust á Akureyri í gærmorgun kl. 10.30 og stóðu enn yfir er blaðið fór í prentun.

Morgunblaðið. 8 apríl 1962.

02.01.2018 19:43

Grótta EA 364. LBPT / TFLH.

Grótta EA 364 var smíðuð í Noregi árið 1907. Eik og fura. 47 brl. 48 ha. Alpha vél. Eigendur voru Vésteinn og Ingólfur Kristjánssynir á Framnesi við Eyjafjörð frá sama ári. Báturinn hét þá Grótta TH 204. Seldur 1915-16,  Ásgeiri Péturssyni útgerðarmanni á Akureyri, hét þá Grótta EA 364. Ný vél (1932) 100 ha. Völund vél. Seldur 5 febrúar 1946, Friðfinni Níelssyni á Siglufirði, hét Grótta SI 75. Selt 7 febrúar 1957, Steingrími G Guðmundssyni á Akureyri, hét þá Grótta EA 123. Báturinn var talinn ónýtur árið 1960.


Grótta EA 364 við bryggju á Ísafirði. Báturinn greinilega á línuveiðum því uppstokkaðar línur hanga á bómunni eða einhverju tréverki út frá formastrinu.               Ljósmyndari óþekktur.


Grótta EA 364 lengst til vinstri, liggur utan á gufuskipinu Jörundi EA 344. Unnið við losun og lestun á Lagarfossi l. Myndin er tekin á Torfunefsbryggjunni á Akureyri 1921.        (C) Hallgrímur Einarsson.

 Talsverð síld hefur veiðst á Grímseyjarsundi
         Ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði og
      Hjalteyrarverksmiðjan hafa fengið síld.

Síldveiðin er byrjuð fyrir Norðurlandi. Síldarverksmiðjur ríkisins eru farnar að taka á móti síld. Síldveiðiskipið "Grótta" kom til þeirra í fyrra kvöld með 550 mál af síld, sem það hafði fengið úti á Grímseyjarsundi. Síldin var afar mögur, fitumagn hennar aðeins 7,9%, en í gærkveldi kom Sæhrímnir með 200 mál og reyndist sú síld mikið feitari, eða yfir 10%. Fleiri skip höfðu fengið síld á Grímseyjarsundi, þótt þau hafi enn ekki komið til Siglufjarðar, og munu þau hafa fengið um 200 mál. Meðal þeirra voru Ólafur Bjarnason, Stella og Garðar frá Vestmannaeyjum. Um 30-40 skip eru þegar komin út og munu halda sig mest á Grímseyjarsundi, því að síldar hefir enn ekki orðið vart annars staðar. Skip eru nú sem óðast að fara út og önnur að búa sig á veiðar. Rigning og súld er hér í dag og tæplega veiðiveður, en stormur var úti fyrir í gær. 

Frá frjettaritara Alþýðublaðsins á Siglufirði.

Alþýðublaðið. 13 júní 1938.

01.01.2018 10:50

226. Óli Óskars RE 175. TFSD.

Óli Óskars RE 175 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Vestur Þýskalandi árið 1958 sem Þormóður goði RE 209 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f. 849 brl. 1.600 ha. Krupp díesel vél. Var togaranum ætlað að taka við hlutverki Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208, er strandaði undir Hrafnkelsstaðabergi á Reykjanesi í mars árið 1955. Skipið var selt, 27 nóvember 1978, Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík. Skipið var yfirbyggt í Kotka í Finnlandi, veturinn 1978-79 og því breitt í loðnuveiðiskip. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.640 ha. Wartsila díesel vél, 1.942 Kw. Fékk nafnið Óli Óskars RE 175 og hóf hann loðnuveiðar um miðjan febrúar 1979 og varð eitt aflasælasta fiskiskip íslenska flotans. Hann var fjórði síðutogarinn sem breitt var í nótaskip með útbúnað til uppsjávarveiða á loðnu og kolmunna. Skipið var selt 21 maí 1981, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað, fékk nafnið Beitir NK 123, en það er önnur saga sem tekin verður saman síðar.


226. Óli Óskars RE 175 á landleið með fullfermi af loðnu, um 1.400 tonn.       (C) Guðni Ölversson.

      Þormóður goði 20 ára síðutogari                      orðinn að nýtísku nótaskipi

Nú er verið að breyta hverjum síðutogaranum á fætur öðrum í nýtísku nótaveiðiskip. Fyrir skömmu sögðum vlð frá því að verið væri að breyta Júpiter í nótaveiðiskip, og nú næstu daga er Þormóður goði sem er 20 ára gamall síðutogari væntanlegur heim frá Finnlandi, þar sem honum hefur verið breytt í nótaveiðiskip. Þormóður goði var smíðaður 1958 og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Í  fyrra keypti Ólafur Óskarsson útgerðarmaður skipið og sendi það sl. vor til Kotka í Finnlandi, þar sem breytingarnar voru framkvæmdar. Byggt var yfir skipið, settar í það nýjar vélar og öll fiskleitartæki. Þar með er Þormóður goði orðinn einn af stærstu nótaveiðiskipunum, mun bera 1300 til 1400 lestir af loðnu. Skipinu hefur nú einnig verið gefið nýtt nafn,Óli Óskars. Breytingin kostaði rúman hálfan miljarð króna. Skipstjórar á Óla Óskars verða Eggert Þorfinnsson og Marius Héðinsson. 

Þjóðviljinn. 5 janúar 1979.


Óli Óskars RE 175 í Reykjavíkurhöfn.                                                            (C) Jón Páll Ásgeirsson.

  Fjórða síðutogaranum breytt í nótaskip

Óli Óskars RE 175 renndi sér mjúklega inn í Vesturhöfnina í  Reykjavík síðdegis í fyrradag. Þarna var gamli síðutogarinn Þormóður goði á ferð, en undanfarna  mánuði hefur skipinu verið breytt í nótaskip í Kotka í Finnlandi. Óli Óskars heldur væntanlega á loðnuveiðar upp úr miðri næstu viku þegar gengið hefur verið frá ýmsu smálegu um borð í skipinu. Þormóður Goði er fjórði síðutogarinn, sem breytt er í  nótaskip. Jón Kjartansson SU 111, áður Narfi, var yfirbyggður 1974, en breytt í nótaskip 1977. Skipið er byggt í V-Þýzkalandi 1960. Sigurður RE 4, var smíðaður í V-Þýzkalandi 1960, yfirbyggður 1976. Víkingur AK 100 er sömuleiðis byggður í Þýzkalandi árið 1960, en var breytt í nótaskip 1977. Oli Óskars RE 175, áður Þormóður goði, er byggður í V-Þýzkalandi 1958, en yfirbyggingunni er nýlokið í Finnlandi. Loks er verið að breyta Júpiter í nótaskip í Stálvík í Garðabæ. Skipið er smíðað í Þýzkalandi 1956 og hét þá Gerpir, síðar Júpiter og núverandi eigandi er Hrólfur Gunnarsson í Reykjavík.

Morgunblaðið. 11 febrúar 1979.

Hér fyrir neðan eru myndir af breytingunum á skipinu í Kotka í Finnlandi veturinn 1978-79. Myndirnar eru úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur, dóttur Ólafs Óskarssonar útgerðarmanns og þakka ég henni fyrir afnot þeirra.


Þormóður goði RE 209. Búið að hreinsa ofan af dekki skipsins.


Komið fyrir skilrúmum í lestar skipsins.


Skutur skipsins endurbyggður.


Unnið við "nýja" millidekk skipsins.


Skrokkur skipsins óðum að taka á sig nýja mynd.


Endurbætur á brú og skorsteini skipsins.


Skipið í flotkví.


Gamla Krupp vélin hífð á land.


Nýja 2.640 ha. Wartsila vélin komin á sinn stað.


Bátadekkið rifið og skorsteinninn endurbyggður að hluta.


Sést vel hversu feiknamikið lestarrými er í skipinu.


Síðurnar miðskips skornar af.


Búið að byggja yfir skipið. Þarna sést vel hvað skipið er skrokkfallegt.

 Loðnuveiðiskipin eiga ekki margra kosta     völ.15 kg af kolmunna fyrir 1 kg af olíu
  segir Ólafur Óskarsson, útgerðarmaður

Um þessar mundir er verið að hugleiða hvaða magn af loðnu sé óhætt að veiða á haust- og vetrarvertið og hafa 600 þúsund tonn verið nefnd í því sambandi. Á fundi hagsmunaaðila fyrir skemmstu með ráðherra var rætt um að stöðva veiðarnar nú fyrir áramót og geyma nokkurt magn fram á næsta ár, en gera þá enn hlé, þar til hrognataka hefst í mars. En hvað geta loðnubátarnir hafst að meðan veiðar liggja niðri? Við spurðum Ólaf Óskarsson útgerðarmann þessarar spurningar í gær, en skip hans, Óli Óskars, er eitt stærsta og best búna skipið á veiðunum og næst hæst að aflamagni.
"Ég held að fátt verði hægt að gera á meðan, því við förum ekki að búa okkur út á net, vegna 12- 13 róðra, eins og var í fyrra, þvi slík veiðarfæraskipti eru talsvert verk. Verði hins vegar engin loðnuveiði eftir áramótin, mundum við fara á net á okkar minni bát, Óskari Halldórssyni, sem er einn minnsti loðnubáturinn nú. Hann þótti stór hér áður, en þetta sýnir þróunina. Stærri báturinn hjá mér, Óli Óskars, hefur ekki við neitt að vera nema þetta, enda sérhannað loðnuveiðiskip. Okkur þýðir ekkert að hugsa til veiða á kolmunna og spærling þvi verðið er svo lágt að við þyrftum að veiða 15 kg. af þessum fiski, til þess að hafa fyrir 1. kg af oílu. Verðið var níu krónur síðast og rikið greiddi auk þess þrjár krónur með fyrstu 20 þúsund tonnunum, til þess að koma okkur af stað og finna einhver verkefni. Það verður varla gert aftur nú.


226. Óli Óskars RE 175 á siglingu á loðnumiðin.                                            Ljósmyndari óþekktur.
  
Menn gætu hugsað sér að hægt væri að fara á línuveiðar, en nú er ekki lengur að hafa fólk til þess að vinna slíkt, ekki á þessum útilegubátum. Beitingamenn eru varla til lengur. Hrognavinnslan mun enn sem fyrr verða óvissu undirorpin. Þetta var nær ekkert í hitteðfyrra en gott í fyrra. Láti loðnan ekki sjá sig fyrir vestan Portland, eins og í hitteðfyrra, verða engir möguleikar á að koma þessu að landi. Svo er hitt að verði allur þessi floti settur í hrognatökuna, er engin aðstaða í landi til þess að vinna þetta. Það setti stórt strik í reikninginn, þegar verksmiðjan í Keflavík var stöðvuð, en hún tók úrganginn frá frystihúsunum, og í Keflavík voru ágæt tæki til þess að vinna þetta . Þó er aðstaða nokkuð góð í Grindavík og Vestmannaeyjum og ég skal ekki segja hvað hægt verður að gera, ef allir bátanna búa sig sérstaklega út til þess að skilja hrognin úr. Nú er verið að endurskoða við hvaða aflamagn verður miðað í haust, og ég á heldur von á að það verði aukið. Því er þó ekki að leyna að við sem erum með þessi nýju skip teljum útlitið dökkt, því aðstæður hafa mikið breyst frá því er við byrjuðum á þessu, olia og vaxtakostnaður er orðinn allur annar en var fyrir svo sem tveimur árum. Þó held ég að margir hafa gert meiri skyssu, en ég þegar ég lét endurbyggja Þormóð Goða og breyta honum í fullkomið loðnuveiðaskip. Báturinn hefur reynst eins vel og hugsast má, alveg hundrað prósent.

Tíminn. 18 október 1979.

        Óli Óskars RE til Neskaupstaðar?

Viðræður hafa farið fram milli Ólafs Óskarssonar útgerðarmanns nótaskipsins Óla Óskars RE 175 og Ólafs Gunnarssonar framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um að Síldarvinnslan kaupi Óla Óskars. Þessar viðræður eru á frumstigi, að því er Ólafur Gunnarsson tjáði Mbl. í gær, en ef hægt er að fá gott skip á góðu verði þá er sjálfsagt að hugleiða málið, sagði Ólafur Gunnarsson. Óli Óskars var áður síðutogarinn Þormóður Goði, en skipið var yfirbyggt og því breytt árið 1978.

Morgunblaðið. 5 mars 1981.


226. Óli Óskars RE 175 með fullfermi af loðnu til Vestmannaeyja.                (C) Tryggvi Sigurðsson.

   Átak í atvinnumálum Neskaupstaðar

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur nú fest kaup á nótaskipinu Óla Óskars. Rekur félagið nú af miklum myndarskap fimm skip, þrjá skuttogara og tvö nótaskip. Nær allur afli þessara skipa er unninn í Neskaupstað af fiskvinnslufyrirtækjum félagsins sjálfs og er þessi starfsemi öll meginþátturinn í atvinnulífi kaupstaðarins. Reynslan hefur sýnt, að skynsamlegt er að hráefnisöflunin og vinnslan sé á einni hendi. í því er fólgin mikil trygging fyrir því, að atvinnutækin nýtist bæjarbúum sem best, auk þess, sem hver þáttur styður annan, þannig að tap á einum þætti rekstursins vinnst oft upp með hagnaði á öðrum. Tilgangurinn með kaupum Óla Óskars, sem senn mun fá annað nafn, er fyrst og fremst sá, að tryggja hráefnisöflun til bræðslunnar, en nú á tímum veiðitakmarkana og kvótaskiptingar, er þýðingarmikið fyrir bræðslurnar, að gera út eigin skip til öflunar hráefnis. Þær veiðar, sem fyrirsjáanlegt er, að Óli Óskars stundar, eru loðnuveiðar og kolmunnaveiðar, en að því hlýtur að reka, að íslenskir sjómenn komist upp á lag með að veiða kolmunna eins og sjómenn annarra þjóða. En enn Þarf Síldarvinnslan að bæta aðstöðu sína og er nú hugað að þeim málum.
Fyrirtækið hefur tryggt sér lóð við nýju höfnina og hyggst reisa þar sem fyrst frystigeymslur sem fyrsta áfanga nýs frystihúss, en takmarkaðar frystigeymslur eru oft til mikils baga. Sjálfsagt verður bið á því að nýtt frystihús komist í gagnið, en þegar það er risið við höfnina, verður aðstaða frystihússins öll önnur og betri. Til dæmis verða þá flutningsleiðir með hráefni og afurðir eins stuttar og verða má. Vonandi vegnar Síldarvinnslunni svo vel, að þess verði ekki langt að bíða, að hún geti af fullum krafti ráðist í byggingu nýrrar fiskvinnslustöðvar.

Austurland. 23 apríl 1981.

Flettingar í dag: 761
Gestir í dag: 362
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398526
Samtals gestir: 624720
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 12:30:21