Færslur: 2018 Ágúst

05.08.2018 13:04

Stuðlaberg NS 102. TFSY.

Vélskipið Stuðlaberg NS 102 var smíðað í Mandal í Noregi árið 1960 fyrir Útgerðarfélagið Berg hf (Björgvin Jónsson, Jón Jörundsson og Kristján Jörundsson) á Seyðisfirði. 152 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Skipið fórst út af Stafnesi 18 febrúar árið 1962 með allri áhöfn, 11 mönnum. Stuðlaberg var þá á landleið til Keflavíkur.


Vélskipið Stuðlaberg NS 102.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

      Nýtt stálskip til Seyðisfjarðar

Seyðisfirði, 28. júní. Nýtt skip kom hingað í gærkvöldi. Það er Stuðlaberg NS 102. Skipið eiga þeir Björgvin Jónsson, fyrrv. alþingismaður, og bræðurnir Jón og Kristján Jörundssynir. Jón verður skipstjóri en Kristján vélstjóri. Stuðlaberg er stálskip, 151 smálest að stærð, með 400 hestafla Mannheim vél. Öll nýtízku siglingatæki eru í skipinu og er það mjög vel útbúið. Það var smíðað í Mandal í Noregi. Á skipinu er japanskur léttbátur með 24 hestafla vél. Hann er ætlunin að nota við athuganir á síldveiðum. Fjölmargir Seyðfirðingar voru til að fagna skipinu er það kom til bæjarins. Stuðlaberg gekk 11 sjómílur í reynsluför. Það fékk mjög gott veður á leiðinni heim. Stuðlaberg mun væntanlega halda til síldveiða á miðvikudag og veiða með kraftblökk.

Alþýðublaðið. 29 júní 1960.


Emil Ragnarsson með bjarghringinn af Stuðlabergi sem hann fann í fjörunni við Þóroddstaði á Miðnesi ásamt systur sinni Sólrúnu.        (C) Sveinn Þormóðsson / Morgunblaðið.


           Bjarghringur fundinn

Fréttamenn Morgunblaðsins komu að Þóroddsstöðum á Miðnesi um miðnættið í gærkvöldi. Þar hittu þeir fyrir Ragnar Guðjónsson og eiginkonu hans, Viktoríu Finnbogadóttur. Ragnar er sjómaður á Stafnesinu G.K. 274. Ellefu ára gamall sonur þeirra hjóna, Emil, gekk niður í fjöruna ásamt átta ára gamalli systur sinni, Sólrúnu, á sunnudagsmorguninn milli kl. 10 og 11 og fundu þau þá ýmislegt brak í fjörunni, Lestarlúgu, krókstjaka, árar og spýtnabrak úr bát. Þau fóru strax heim og sögðu tíðindi. Ragnar brá skjótt við, en allir héldu, að þetta væri brak úr mótorbátnum Geir goða, sem strandaði þarna í fjörunni í vetur, þangað til tekið var eftir því, að liturinn á brakinu var annar en á Geir goða. Þegar svo Emil litli og Sólrún, systir hans, fundu bjarghring sídegis á mánudag um fjögurleytið með áletruninni, Stuðlaberg, Seyðisfjörður, þá setti þegar illar grunsemdir að fólkinu. Þegar svo lýst var eftir Stuðlaberginu síðdegis í gær, þóttust flestir vita, hvað gerzt hefði. Ragnar sagði loks við fréttamann Mbl, að bjarghringi tæki oft út af skipum, og ef ólag riði yfir gæti ýmislegt losnað, sem síðar kynni að reka á fjörur. Á myndinni sést Emil með bjarghringinn. Myndin er tekin af ljósm. Mbl. Sveini Þormóðssyni við Þóroddsstaði í nótt.

Morgunblaðið. 22 febrúar 1962.


     Stuðlaberg ferst út af Stafnesi

Miðvikudaginn 21. febrúar s. l. var Slysavarnafélaginu tilkynnt, að Seyðisfjarðarbátsins Stuðlabergs NS 102, hefði ekki orðið vart síðan á laugardagskvöld, er síðast var haft samband við hann út af Selvogi. Um leið og leit var hafin kom í ljós, að brak hafði fundizt á fjörunum milli Garðskaga og Sandgerðis, þar á meðal merktur bjarghringur, og nót hafði sézt mílu út af Stafnesi á mánudag. Á Stuðlaberginu voru 11 menn, en ekkert hefur til þeirra spurzt. Það var bróðir stýrimannsins, Björn Þorfinnsson,, skipstjóri á Heimaskaga, sem tilkynnti Henry Hálfdanarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins, að aðstandendur væru orðnir uggandi um bátinn, en útgerðarstjórinn, Jón Jörundsson úr Keflavík, var jafnframt skipstjóri bátsins og því um borð. Útgerðarfélagið er Berg h.f. á Seyðisfirði, og eigendur auk skipstjórans Björgvin Jónsson á Seyðisfirði og Kristján Jörundsson, bróðir skipstjórans, sem einnig var á Stuðlabergi. Er áhöfnin skráð í Njarðvíkum, aðeins einn skipverja frá Seyðisfirði og samkvæmt upplýsingum frá útgerðinni á Seyðisfirði hefur báturinn lagt upp hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi og er skipstjórinn hafði samband við Albert Bjarnason, útgerðarmann í Keflavík á laugardagskvöld, var báturinn staddur út af Selvogi á heimleið. Það kvöld var slæmt veður á þessum slóðum.
Mörg skip voru á þessari siglingarleið, bæði á undan bátnum og eftir, en enginn virðist hafa heyrt neitt til hans eftir þetta. Slysavarnafélagið sendi strax út tilkynningu um, að bátsins væri saknað og bað fólk á svæðinu frá Höfnum að Garðskaga um að leita, svo og slysavarnadeildirnar á þessu svæði. Kom þá í Ijós, að þarna hafði rekið heilmikið brak af þilfarinu, án þess að því væri veitt athygli, þar sem ekki var saknað neins skips, þar á meðal bjarghringur með nafni bátsins hjá Þóroddsstöðum, milli Garðskaga og Sandgerðis. Birtu var farið að bregða er leitin hófst í fjörunni. Þá kom í ljós, að Jökulfellið hafði kl. 8,30 á mánudagsmorgun tilkynnt að sézt hefði síldarnót liðlega mílu undan Stafnesi. Hafði landhelgisgæzlan beðið Maríu Júlíu að huga að þessu, en hún komst hvergi nærri vegna þess, hve þar var grunnt, krappur sjór og hvasst. Í gær flaug svo landhelgisflugvélin Rán yfir og sá þá, að nótin var enn á svipuðum stað, en lítið eitt innar. Þegar féttamaður Mbl, í gærkvöldi hitti skipstjórann á Jökulfellinu, Arnór Gíslason, að máli, sagðist hann gera ráð fyrir því, að nótin væri föst í botni. Þegar blaðið hafði fengið fregnir af því, að föst nót hefði sézt liðlega mílu út af Stafnesi, rak okkur minni til að þetta væri á sama stað og Hermóður fórst. Við hringdum því í Lárus Þorsteinsson, skipherra, en það var hann, sem fann brakið, sem talið var vera af Hermóði. Lárus staðfesti, að þetta væri sami staður og aðspurður um, hvernig þarna háttaði, sagði hann, "Þetta er á venjulegri siglingaleið, þegar gott er í sjó, en í verra veðri fara menn yfirleitt dýpra. Þar sem fer að grynnka verður ákaflega kröpp alda,, en strax betra 3 mílum utar. Mér hefur fundizt að svona 1,7 ,mílur út væri sjólagið verst". Þeir sem fórust með Stuðlabergi, voru þessir:
Jón Jörundsson, skipstjóri, Faxabraut 40B, Keflavík, 32 ára,, kvæntur og átti 4 börn.
Pétur Þorfinnsson, stýrimaður, Engihlíð 12, Reykjavík, 30 ára, trúlofaður með 2 börn á framfæri.
Kristján Jörundsson, 1. vélstjóri, bróðir skipstjórans, Brekku, Ytri-Njarðvík, kvæntur en barnlaus.
Karl Jónsson, 2. Vélstjóri, Heiðarvegi 2, kvæntur.
Birgir Guðmundsson, matsveinn, Njálsgötu 22, Reykjavík, kvæntur og átti 4 börn.
Stefán Elíasson, háseti, Hafnarfirði, ókvæntur.
Guðmundur Ólason, Stórholti 22, Reykjavík, kvæntur, átti 3 börn.
Gunnar Laxfoss Hávarðsson, Kirkjuvegi 46, Keflavík, 17 ára.
Örn Ólafsson, Langeyrarvegi 9, Hafnarfirði, 22 ára, kvæntur en barnlaus.
Kristmundur Benjamínsson, Kirkjuteig 14, Keflavík, kvæntur og átti 3 börn.
Ingimundur Sigmarsson frá Seyðisfirði, 31 árs ókvæntur.
Ekki er blaðinu kunnugt um heimilisástæður hjá öllum.
Stuðlaberg NS 102 var stálbátur, 152 lestir að stærð, byggður í Noregi árið 1960 og hefur s. l. ár verið gerður út frá Suðurnesjum.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1962.


05.08.2018 08:24

Seglskipið Amerigo Vespucci í Reykjavíkurhöfn.

Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci var smíðað hjá Naval Shipyard of Castellammare di Stabia í Napólí á Ítalíu árið 1931 fyrir ítalska flotann sem skólaskip. Stál. 3.360 brl. 2 x 1.824 ha. 12VM33F2 MTU vélar, 2 x 1.360 Kw. Skipið var tekið í notkun 6 júní 1931 og hefur verið í þjónustu flotans síðan ef undanskilin eru ár seinni heimstyrjaldarinnar. Skipið er 101 m. á lengd, 15,5 m. á breidd og djúprista þess er 7,3 m. Segl skipsins eru samtals um 2.650 m2. Í áhöfn skipsins eru um 270 manns. Skipið ber nafn hins fræga Amerigo Vespucci (1454-1512) sem var ítalskur landkönnuður og kortagerðarmaður frá Flórens.Talið er að heimsálfan Amerika dragi nafn sitt af honum. Vespucci tók þátt í nokkrum portúgölskum leiðöngrum til Suður Ameríku á árunum 1499 til 1502. Nokkrar frásagnir af þessum leiðöngrum sem voru eignaðar honum komu út á prenti milli 1502 og 1504 og leiddu til þess að þýski kortagerðarmaðurinn Martin Waldseemuller kaus að nefna álfuna eftir honum, án þess að Vespucci sjálfur hefði hugmynd um það. Amerigo Vespucci er eitt fallegasta seglskip heims og var það hannað af ítalska sjóliðsforingjanum Francesco Rotundi. Myndirnar hér að neðan tók ég í gær þegar ég skoðaði skipið hátt og lágt eins og hægt var. Sannkölluð "mubla" þarna á ferð.


Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci við Ægisgarð í gær.


Amerigo Vespucci við Ægisgarð í gær.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 ágúst 2018.

     Seglskipið Amerigo Vespucci

Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci sigldi að landi við Ægisgarð í Reykjavík snemma í morgun og verður í höfn fram á mánudagsmorgunn. Skipið er þriggja mastra seglskip sem hefur siglt um heiminn frá árinu 1931 og er talið eitt fallegasta skip heims.
Seglskipið er notað sem kennsluskip fyrir ítalska flotann og er Reykjavíkurhöfn þriðji viðkomustaður skipsins í árlegum þjálfunarleiðangri. Á skipinu starfa 124 liðsforingjar sem hafa verið í þjálfun frá því í byrjun júlí en heildarfjöldi á skipinu er um 450 manns.
Í þessari fyrstu heimsókn skipsins til landsins er landsmönnum boðið að skoða skipið og kynnast litla samfélaginu um borð. Opið verður fyrir almenning á morgun laugardag kl. 11-12:30 og 15-17. Einnig á sunnudag kl. 10-12:30 og 15-21. 

vísir.is 3 ágúst 2018.


02.08.2018 10:54

Skarðsvík SH 205. TFXY.

Vélbáturinn Skarðsvík SH 205 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1960. Eik. 86 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Skarðsvík hf á Rifi frá 19 desember 1960. Báturinn sökk út af Snæfellsnesi 11 febrúar árið 1962. Hann var þá á heimleið eftir að hafa tekið þátt í björgun skipverjanna af togaranum Elliða SI 1 frá Siglufirði. Mikill leki kom að honum með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 6 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var svo bjargað um borð í vélbátinn Stapafell SH 15 frá Ólafsvík.


Skarðsvík SH 205 í Reykjavíkurhöfn.                                                            (C) Snorri Snorrason.  

    Báturinn var við Færeyjar er búizt             var við honum í höfn á Íslandi

Skip í hafi fyrir sunnan Ísland heyrðu um jólin, að radíóstöðvar , hér á Íslandi voru að kalla á  vélbátinn Skarðsvík. Skarðsvík , svaraði aldrei, og árangurslaust var báturinn kallaður upp. Það var ekki fyrr en síðdegis í gær, að loks heyrðist svar frá bátnum. Hann var þá við Færeyjar. Það var Hornafjarðar-radíó, sem náði sambandi við hann. Báturinn, sem er nýsmíðað skip, 85 tonn, lagði af stað frá Fredrikssund í Danmörku á miðvikudaginn var. Með bátnum eru alls 9 menn, en heimahöfn hans verður Sandur, og þaðan eru mennirnir. Þegar báturinn loks svaraði í gær, hafði hann sýnilega hreppt hið versta veður í hafi, því að hann var búinn að vera um það bil sex sólarhringa á leiðinni til Færeyja. Lá báturinn þar í vari og ætluðu skipsmenn að bíða hagstæðara veðurs yfir hafið. Líðan manna er góð um borð. Þegar báturinn lét úr höfn í Danmörku, stóðu vonir til að hann myndi verða kominn til hafnar á Sandi að kvöldi annars í jólum.
Eigendur hins nýja báts eru þeir Kristján Guðmundsson skipstjóri frá Stykkishólmi, Sveinbjörn Benediktsson símstöðvarstjóri á Sandi og Sigurður Ágústsson alþingismaður.

Morgunblaðið. 28 desember 1960.


Skarðsvík SH 205 með fullfermi af síld á Siglufirði.                                       (C) Hannes Baldvinsson.

         Nýr 86 lesta bátur til Rifs

Hellissandi í gær. Frá fréttaritara Þjóðviljans.
Ný bátur kom til Rifs í gærkvöld, fimmtudag, v.b. Skarðsvík SH 205. Báturinn er 87 lestir að Stærð, með 400 hestafla Manheim-vél, smíðaður í Frederikssund Danmörku. Báturinn var sex sólarhringa á leiðinni til Íslands, en skipstjóri í ferðinni var Kristján Guðmundsson. Skipstjóri á bátnum í vetur verður Sigurður Kristjónsson. Eigendur eru Sveinbjörn Benediktsson, Sigurður skipstjóri o. fl. Skarðsvík er annar báturinn, sem kemur til Rifs á seinni hluta þessa árs.

Þjóðviljinn. 31 desember 1960.


Skarðsvík SH 205 á leið til löndunar á Siglufirði.                                           Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Óðinn hefur tekið Skarðsvík í tog. Til vinstri er togarinn Þorkell máni RE 205 og ber Stapafell SH 15 í hann. Togarinn Júpíter er lengst til hægri.        (C) Adolf Hansen.

      Skarðsvík sökk á heimleið úr                     leitarleiðangrinum

Skarðsvík SH 205, sá báturinn sem fyrstur komi að gúmmíbátnum með hinum látnu mönnum tveim af Elliða, kom ekki aftur úr þeirri leit. Leki kom að bátnum um 15 sjómílur V-NV af Öndverðarnesi um 2 leytið í gær er hann var á leið heim og sökk hann. Áhöfnin, 6 manns, komist á gúmmíbátnum yfir í Stapafellið. Sem dæmi um það hve ört lekinn magnaðist í Skarðsvík má geta þess, að fréttaritari blaðsins á Hallissandi var ásamt fleiri Snæfellingum staddur við Hvítárbrú í áotlunarbílnum til Reykjavíkur er Skarðsvíkin heyrðist senda frá sér hjálparbeiðni, en bíllinn var ekki kominn lengra en í Hvalfjörðinn er fólkið heyrði gegn um talstöðina að Skarðsvíkin var sokkin. Skipstjórinn á Skarðsvík var hinn kunni aflakóngur þar vestra Sigurður Kristjónsson, enda hafði báturinn skilað þriðjungi hærri afla en næsti bátur í þeim 19 róðrum sem af eru þessari vertíð. Í gær áttum við símtal við Sigurð, sem skýrði frá því sem gerðist;
Um 7 leytið á laugardagskvöldið fór Skarðsvíkin út til að leita að gúmmíbátnum af Elliða ásamt öðrum Snæfellsnesbátum og var við leitina þar til báturinn fannst. Þið komuð fyrstir báta að gúmmíbátnum, Sigurður? Báturinn var á hvolfi og mennirnir lágu á botninum í sjó. Hann var á svipuðum slóðum og togarinn sökk. Vindáttiin hafði breytt sér og hann rekið eitthvað til baka. Við vorum búnir að leita innar en farnir að leita á þessum slóðum. Við létum skipherrann á Óðni vita og hann tók líkin. Við voru rétt lagðir af stað í land, þegar lekans varð vart frammi í og sjórinn flæddi inn. Við vorum nýbúnir að fá okkur að borða þar, og tveir menn voru þarna enn. Hvað heldurðu að hafi komið fyrir. Sló báturinn úr sér? Það tel ég útilokað. Þetta var miklu meiri leki en það. Það var engu líkara en eitthvað mikið hefði opnazt. Hvernig var veðrið þá? Það voru 6-7 vindstig og var að ganga upp í NA ofan í vestan sjó. Við sendum út hjálparbeiðni. Óðinn var í ca. 15 mílna fjarlægð og var kominn eftir 45 mínútur. Hann tók okkur á slef. Það voru 10 mílur í var og hefðum við komist í sléttan sjó, þá gat verið að hægt yrði að koma við dælu og það dygði.
En báturinn fylltist á hálfum öðrum klukkutíma. Þegar við þorðum ekki að vera lengur um borð yfirgáfum við hann. Þá voru komnir til okkar togarinn Þorkell máni og Júpiter, sem var með skipbrotsmennina af Elliða og Stapafellið, sem tók okkur upp. Þess má geta í þessu sambandi að skipstjórinn á Stapafellinu er Guðmundur Kristjónsson, bróðir Sigurðar á Skarðsvíkinni. Voruð þið komnir yfir í Stapafellið, þegar Skarðsvikin sökk? Já, hún sökk 5 mínútum eftir að við vorum farnir frá borði. Okkur gekk vel að komast yfir á gúmmíbátnum. En var ekki orðin slæm aðstaða á Skarðsvíkinni, eftir að hún var farin að síga svona mikið í sjóinn? Það hlýtur að hafa gengið yfir allt skipið. O, o, ekki svo ýkja slæmt. Við vorum að græja okkur. En veðrið fór versnandi.
Skarðsvíkin var nýr bátur, kom til landsins í ársbyrjun 1961. Hann var 87 smál. að stærð og búinn fullkomnustu tækjum. Er það mikið áfall fyrir byggðarlagið á Rifi að missa þetta góða skip undan þessum mikla aflamanni sem Sigurður Kristjónsson er, Áður en hann tók við Skarðsvíkinni var hann með Ármann og síðan Stíganda frá Ólafsfirði og alltaf manna aflahæstur. Áhöfnin á Skarðsvíkinni var öll frá Rifi. Mennirnir voru:
Sigurður Kristjónsson, skipstjóri.
Friðjón Jónsson stýrimaður.
Sigurður Árnason vélstjóri.
Almar Jónsson, matsveinn.
Guðmundur Guðmundsson, háseti.
Sigurjón Illugason, háseti.

Morgunblaðið. 13 febrúar 1962.


01.08.2018 13:29

Reykjavíkurhöfn og skipin í morgunsólinni.

Tók þessar myndir af togurum H.B. Granda hf við bryggjuna í Örfirisey í blíðunni í morgun. Það eru Akurey AK 10, Engey RE 1 og Örfirisey RE 4 sem var að koma í land með ágætan afla, enda skipið nokkuð hlaðið. Blanka logn og morgunsólin baðaði höfnina sem skartaði sínu fegursta í morgunsárið.


Akurey AK 10, Engey RE 1 og Örfirisey RE 4 við bryggju í Örfirisey.


2170. Örfirisey RE 4.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 ágúst 2018.
Flettingar í dag: 265
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960262
Samtals gestir: 496294
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 05:03:08