Færslur: 2019 Júlí

01.07.2019 11:24

Enskur togari á strandstað austan Víkur í Mýrdal.

Þessi togari, Hulltogarinn Lord Carrington H 501 var á leið til veiða við Ísland seint í nóvember árið 1913. Þetta mun hafa verið jómfrúarferð togarans. Honum var hleypt af stokkunum í september árið áður. Skipstjórinn, sem var sænskur, Petersen að nafni, hafði oft áður stundað veiðar við Ísland. Aðfaranótt 25 nóvember þegar togarinn var að nálgast landið var mjög slæmt veður, mikið dimmviðri og hríðarveður. Hélt skipstjórinn að skipið væri við Vestmannaeyjar, en stuttu síðar tók skipið niðri og strandaði. Strandstaðurinn reyndist vera sandrif hjá Kerlingardalsá sem er skammt austan við Vík í Mýrdal. Skipverjar biðu dögunar um borð í togaranum, en með morgninum komu björgunarmenn frá Vík með Sigurð Eggertz sýslumann í fararbroddi. Var skipverjunum þegar bjargað á land heilum á húfi. Talið var að unnt yrði að ná togaranum á flot og var björgunarskipið Geir sent austur á strandstað. Þær björgunartilraunir urðu árangurslausar og togarinn eyðilagðist á strandstað.
S.t. Lord Carrington H 501 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912. 285 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 535. Togarinn var 134 ft. á lengd, 23 ft. á breidd og 12 ft. á dýpt. Lord Carrington H 501 var í eigu Yorkshire Steam Fishing Co Ltd í Hull.


Hulltogarinn Lord Carrington H 501 á strandstað.                                    Ljósmyndari óþekktur.


S.t. Lord Carrington H 501 á siglingu á Humberfljóti.                                           (C) James Cullen.

          Enskur togari strandar
           Skipshöfnin bjargast

Aðfaranótt miðvikudags var ofsaveður fyrir sunnan land, kafaldsbylur og stórsjór. Togari nokkur, Lord Carrington, frá Hull, var þá á siglingu fyrir suðurlandi, en sá lítið til lands vegna hríðarinnar. Áður en varði, rakst hann á sandrif hjá Kerlingardalsá, skamt fyrir austan Vík í Mýrdal, og stóð þar fastur. Hafði sjór og straumur fyrst borið skipið upp að Vík, og fólk þá orðið vart við hættuna. Skipshöfnin beið í skipinu til dögunar, en þá voru menn úr landi komnir að strandinu til hjálpar. Sagði Sigurður sýslumaður Eggerz fyrir við björgun mannanna, er fór ágætlega fram. Voru mennirnir fluttir vestur í Vík, og bíða þar ferðar hingað til Reykjavíkur. Skipstjórinn er sænskur maður, Petersen að nafni, og hefir hann verið hér oft áður.
Björgunarskipið Geir hefir verið kvatt til hjálpar, en fer eigi austur fyr en veður og sjór batnar. Engin tiltök að bjarga skipinu meðan illviðrið stendur yfir. Lord Carrington er tæplega ársgamalt skip, og kvað vera alveg óskemmt, og því von um að það náist út ef veður batnar bráðlega.

Morgunblaðið. 28 nóvember 1913.


Flettingar í dag: 761
Gestir í dag: 249
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920814
Samtals gestir: 487076
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 19:02:53