Færslur: 2020 Ágúst

02.08.2020 11:02

2962. Vörður ÞH 44. TFID.

Skuttogarinn Vörður ÞH 44 var smíðaður hjá Vard Shipbuilding í Aukra í Noregi árið 2019 fyrir Útgerðarfélagið Gjögur hf í Grenivík. Skrokkur skipsins mun hafa verið smíðaður í Vard skipasmíðastöðinni í Víetnam. 611 bt. 2 x 803 ha. Yanmar 6EY17W, 591 Kw. Skipið er 28,93 m. á lengd, 12 m. á breidd og djúprista er 6,6 m. Vörður er gerður út frá Grindavík en heimahöfn hans er á Grenivík.


2962. Vörður ÞH 44 í höfninni í Keflavík.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2962. Vörður ÞH 44 við komuna til Grindavíkur hinn 25 september 2019. (C) Sigurður Bogi Sævarsson.

   Vörður ÞH 44 kominn til Grindavíkur

Til Grinda­vík­ur kom í dag nýr tog­ari, Vörður ÞH 44, sem út­gerðarfyr­ir­tækið Gjög­ur hf. ger­ir út.  Fjöl­menni tók á móti skip­inu og var hátíðarbrag­ur yfir at­höfn­inni.
Gjög­ur hf. er með heim­il­is­festi í Greni­vík en ís­fisk­tog­ar­ar fyr­ir­tæk­is­ins hafa lengi verið gerðir út frá Grinda­vík. Auk Varðar ÞH er nú verið að smíða annað skip fyr­ir Gjög­ur, Áskel ÞH, sem er vænt­an­legt til lands­ins á næstu vik­um.  Eru þau í hópi sjö syst­ur­skipa sem norsk skipa­smíðastöð smíðar fyr­ir ís­lensk­ar út­gerðir. Tvö eru þegar kom­in til lands­ins.

Skip­stjóri á Verði ÞH er Þor­geir Guðmunds­son.

Mbl.is / 200 mílur. 25 september 2019.


02.08.2020 08:01

M. b. Hersir RE 162.

Mótorbáturinn Hersir RE 162 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið í Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1915 fyrir Jón Halldórsson útgerðarmann í Reykjavík. 12 brl. 22 ha. Tuxham vél. Báturinn fórst í róðri á Faxaflóa 21 janúar árið 1919 með allri áhöfn, 5 mönnum. Var hann þá í eigu Jóns Guðjónssonar og fl. á Kjalarnesi og gerðu þeir bátinn út frá Sandgerði.


M.b. Hersir RE 162 sennilega nýsmíðaður árið 1915.                        Ljósmyndari óþekktur.


M.b. Hersir RE 162 í Reykjavíkurhöfn.                (C) Magnús Ólafsson.

              "Hersir" talinn af

Það er nú talið víst, að vélbáturinn »Hersir« frá Sandgerði muni hafa farist í rokinu 21. janúar. »Geir« og fleiri skip hafa leitað hans um flóann, en hvergi hefir hans orðið vart. Á bátnum voru 5 menn. Formaðurinn hét Snæbjörn Bjarnason og átti hann heima á Hverfisgötu hér í Reykjavík. Lætur hann eftir sig ekkju og 4 börn.
Ólafur Sigurður Ólafsson, nýlega kvæntur maður, og bróðir hans Sigurbjörn Ólafsson, ókvæntur. Áttu þeir bræður heima á Hólabrekku á Grímstaðaholti, og er þar móðir þeirra hrum af elli. Fjórði maðurinn hét Ólafur Gíslason, ókvæntur, og átti heima á Grettisgötu 37. Fimmti maðurinn hét Sveinbjörn Guðmundsson frá Tjarnarkoti (Miðnesi). Allt voru þetta dugandi menn á bezta aldri. Það er ætlun manna, að bátinn hafi fyllt undir þeim, sjór gengið yfir hann meðan þiljugáttin var opin. Klukkan fjögur um daginn hafði annar bátur tal af »Hersi«, og var hann þá að draga lóðina og átti eftir fjögur bjóð ódregin. En þá var komið versta veður og skafrok. Bátinn áttu þeir Jón Guðjónsson, Daniel Magnússon í Lykkju á Kjalarnesi og Snæbjörn Bjarnason, formaðurinn.

Ægir. 1-2 tbl. 1919.


  • 1
Flettingar í dag: 932
Gestir í dag: 283
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960929
Samtals gestir: 496491
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 23:18:46