20.09.2020 06:01

202. Stjarnan RE 3. TFIL.

Vélskipið Stjarnan RE 3 var smíðuð í Halleviksstrand í Svíþjóð árið 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Eik. 111 brl. 260 ha. Polar vél. Selt 10 febrúar 1949, Sjöstjörnunni hf í Reykjavík. Ný vél (1956) 350 ha. Alpha vél. Selt 17 ágúst 1966, Sjöstjörnunni hf í Njarðvík. Skipið var endurmælt árið 1968, mældist þá 100 brl. Ný vél (1968) 440 ha. Alpha vél. Selt 14 desember 1975, Sigtryggi Benediktz á Höfn í Hornafirði og Bjarna Jónssyni í Kópavogi, hét þá Svalan SF 3. Svalan hf á Höfn í Hornafirði var eigandi skipsins frá 17 september 1980. Frá sama ári hét skipið Jón Bjarnason SF 3, sömu eigendur. Skipið strandaði og sökk við Papey 12 október árið 1982. Áhöfnin, 9 menn komust í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í vélskipið Sturlaug ll ÁR 7 frá Þorlákshöfn.


202. Stjarnan RE 3.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

     Mótvindur tafði för Reykjavíkurbáts                              frá Danmörku

 

Í fyrrakvöld og gærmorgun var auglýst í útvarpinu eftir vélbátnum Stjarnan RE 3, sem vitað var, að var á leiðinni frá Danmörku til Hornafjarðar með sementsfarm. Þegar auglýst var og skipverjar beðnir að hafa samband við land, voru tveir dagar liðnir frá þeim tíma, sem búizt var við bátnum til Hornafjarðar. Í gær barst svo skeyti frá skipverjum, um að allt væri í lagi, en mótvindur hefði tafið för þeirra á heimleiðinni.

Tíminn. 28 október 1955.


Jón Bjarnason SF 3 sennilega á leið til Hafnar í Hornafirði.                   (C) Hilmar Bragason.


202. Stjarnan RE 3. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                        Ljósmyndari óþekktur.
 

     Strandaði og sökk við Papey

 

 

Vélbáturinn Jón Bjarnason SF 3 sem strandaði við Papey laust eftir miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Kom mikill leki að bátnum og sökk hann í gær við eyna. Skipverjar komust í gúmmíbát og var skömmu síðar bjargað af vélbátnum Sturlaugi ÁR 7, sem nýlega er farið að gera út frá Hornafirði, og komu þeir til Hafnar um klukkan 8.30 í gærmorgun. Sjópróf fóru fram á Höfn í Hornafirði í gær. Jón Bjarnason SF 3 var tryggður fyrir tæplega 3,7 milljónir króna, en taka átti hann af skrá um áramót. Samkvæmt upplýsingum sem Mbl. fékk hjá sýslumanninum á Höfn, steytti báturinn á Flyðruskeri, sem er rétt við Papey. Báturinn var að koma frá Reyðarfirði, með viðkomu á Fáskrúðsfirði, og ætluðu bátsverjar suður fyrir Papey í síldarleit.
Talið er að miklir straumar við eyna hafi átt þátt í óhappinu, en innfall var á firðinum þegar báturinn strandaði. Mikil úrkoma var þegar strandið varð og talið er að það hafi haft áhrif á radarinn. Þá er talið hugsanlegt að sjálfstýring bátsins hafi bilað. Báturinn sökk skammt frá Papey á tiltölulega litlu dýpi, en um metri af mastrinu stóð upp úr sjónum þar sem báturinn lá, þegar síðast fréttist. Töluverð ólga er í sjónum þar sem báturinn liggur og talið er erfitt að bjarga nokkru úr honum, vegna óróleika í sjónum. Jón Bjarnason SF 3 var einn Svíþjóðarbátanna svokölluðu, byggður á Nýsköpunarárunum. Ákveðið hafði verið að eyða bátnum í vetur, því samþykkt hafði verið að hann væri úreltur orðinn, og voru eigendur hans að fá nýjan bát frá Noregi. Skipstjóri bátsins var annar eigenda hans.

Morgunblaðið. 14 október 1982.

 

 

 

Flettingar í dag: 767
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699164
Samtals gestir: 52777
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:49:07