Blog records: 2022 N/A Blog|Month_11

27.11.2022 09:00

258. Snæfugl SU 20. TFMQ.

Vélskipið Snæfugl SU 20 var smíðaður hjá Ankerlökken Verft A/S í Florö í Noregi árið 1964 fyrir samnefnt hlutafélag á Reyðarfirði. 252 brl. 660 ha. Lister vél. 33,83 x 7,22 x 3,54 m. Smíðanúmer 55. Bóas Jónsson var fyrsti skipstjóri á Snæfugli, mikil aflakló. Hann var jafnframt einn af eigendum skipsins. Snæfugl var alla tíð mikið afla og happaskip. Það var áhöfnin á Snæfugli sem bjargaði skipverjunum af Stíganda ÓF 25 eftir rúma 5 sólarhringa hrakninga á síldarmiðunum við Svalbarða í ágúst árið 1967 eftir að skip þeirra sökk. Þarna hefði getað farið mun verr en raunin varð. Í kjölfar þessa slyss var komið á fót tilkynningaskildu íslenskra skipa. Snæfugl var seldur til Suður-Afríku í október árið 1979.
 

Snæfugl SU 20 nýsmíðaður út í Noregi.                             (C) Anton Sævík.




                    Nýr fiskibátur til Reyðarfjarðar

Reyðarfirði. Þann 6. marz kom hingað nýr fiskibátur, Snæfugl SU 20, stálskip, 252 brúttólestir, smíðað í skipasmíðastöð Ankerlökken Verft. AS. í Florö í Norður-Noregi. Afhending fór fram í Florö hinn 25. febrúar sl. Skipið er búið öllum nýjustu siglingatækjum, þar á meðal 2 Astictækjum, sjálfvirku og handknúnu og Atlasfisksjá. Fram í eru ísgeymslulestar 25 cub.m og „stampa“- geymsla fyrir 60 stampa. Aftast í „keise“, undir bátapalli, er einangrað beituskýli. Eldhús-borðsalur af fullkomnustu gerð. Matsalur er stjórnborðsmegin við hliðina á eldhúsi. Er þessi tenging á eldhúsi, borðsal, íbúð skipstjóra, inngangi í vél og íbúðir aftur á og inn gang í beituskýli og kæli og frystiklefa, nýtt fyrirkomulag, sérlega smekklegt og hentugt og sérstaklega útbúið með hliðsjón af útilegu á línuvertíð. Bóas Jónsson, skipstjóri, hefur sett metnað sinn í, og til þess notfært ér áralanga reynslu, að láta útbúa þessa tengingu sem þægilegt heimili fyrir skipverja og mun þetta fyrirkomulag lítt eða ekki þekkt hér fyrr.
Kortaklefi er mjög rúmgóður með sendistöðvum fyrir stutt- og langbylgju 66 sendirásir. Kortaborð með færanlegum kortum og plastrúðu sem hægt er að mæla út á og merkja án þess að skemma kortin. Þar er og skrifborð og fleiri þægindi. Allir innviðir í skipinu eru úr „póleruðum“ harðviði, forkunnar vel gerðir og þægindi mikil. Rými er fyrir 15—16 manns, en skipverjar verða 12—13. Fram í eru 4 tveggja manna klefar, en aftur í 2 tveggja manna klefar og 2 eins manns. Vökvaspil af Norvinsgerð fyrir 10 tonn. Vélar eru: aðalvél Lister- diesel 660 ha. og tvær hjálparvélar, Lister 62 ha. hvor. Ganghraði í reynsluför var 11 mílur. Frá Florö til Reyðarfjarðar tók siglingin 55 klst. og í blíðskiparveðri alla leið. Eigandi hins nýja Snæfugls SU 20 er útgerðarfélagið Snæfugl hf. sem stofnað var 17. júlí 1944, er þetta annað skipið sem félagið eignast. Hitt var Svíþjóðarbátur, 76 lestir, Snæfugl sá, er sökk á síldveiðum í fyrra, mikil happafleita og útgerð vel rekin af dugmiklum skipstjóra og samhentri skipshöfn.
Þessu nýja skipi Reyðfirðinga er, eins og hinu fyrra, stjórnað af hinum ágæta skipstjóra, Bóasi Jónssyni, en hann hefur alið upp allstóra sjómannastétt hér á Reyðarfirði og alltaf farnast vel. Fjölmenni var á hafnarbryggjunni þegar Bóas sigldi skipi sínu í höfn og fagnaði skipi og skipshöfn. Oddviti og formaður útgerðarfélagsins fluttu ræður og skipstjóri svaraði af stjórnpalli. Skipið er gert út á þorskveiðar með net og mun leggja upp í heimahöfn. Reyðfirðingar eiga nú tvö glæsileg fiskiskip, Gunnar SU 139, 250 tonna stálskip og Snæfugl SU 20, 252 tonn. Austri býður Snæfugl SU 20 velkominn í austfirzka flotann.

Austri. 6 tbl. 14 apríl 1964.
 

Snæfugl SU 20 við bryggju á Reyðarfirði árið 1969.  (C) Vilborg Harðardóttir.
 
Snæfugl SU 20 í Reykjavíkurhöfn í október 1979. Mynd úr Þjóðviljanum.



                      Snæfugl seldur til Suður-Afríku

Snæfugl SU 20, sem er 250 lesta stálbátur frá Reyðarfirði hefur verið seldur til S-Afríku fyrir sem nemur 150 millj. íslenskra króna og er kaupverðið greitt út í hönd. Snæfugl var smíðaður í Noregi árið 1964. Hallgrímur Jónasson útgerðarstjóri skipsins sagði í viðtalið við Þjóðviljann að einungis væri eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum við kaupandann sem er staddur hér á landi. Ástæðan fyrir því að maður kemur frá S-Afriku til að kaupa skip á Íslandi er fyrst og fremst sú að skipið er ódýrara en sambærileg skip annarsstaðar.
En það munar mestu að skipið er greitt út í hönd, í stað þess að ef það hefði verið selt hér innanlands hefði útborgun verið 15 til 20 millj. kr. en afgangurinn skuldabréf sem engin leið væri að koma í peninga. Hallgrimur sagði að þeir Reyðfirðingar væru með þær hugmyndir að fá skuttogara í staðinn en sá róður væri þungur um þessar mundir og óvist um leikslok. Um þann möguleika að láta byggja skip hér innanlands sagði Hallgrimur að vaxtapólitikin væri þannig að slíkt skip myndi ekki einu sinni afla fyrir vaxtagreiðslum, hvað þá meiru.

Þjóðviljinn. 24 október 1979.

20.11.2022 12:36

1114. Goðafoss IV TFMA.

Flutningaskipið Goðafoss IV var smíðaður hjá Aalborg Værft A/S í Álaborg í Danmörku árið 1970 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 2.953 brl. 2.860 ha. B & W vél, 2.061 Kw. 95,55 x 14,33 x 7,59 m. Smíðanúmer 184. Skipinu var hleypt af stokkunum 27 febrúar 1970 og síðan afhent eigendum sínum í júlí sama ár. Goðafoss var aðallega í flutningum með frystan fisk til Bandaríkjanna, Múrmansk í Rússlandi, Eystrasaltshafna og annarra hafna í Evrópu. Árið 1984 var lestum Goðafoss breytt til brettaflutninga og einnig komið fyrir lyfturum sem gátu staflað brettunum upp. Þótti það mikil framför og hagræðing við vinnu í lestum skipsins. Goðafoss var seldur til Antiqua í Karíbahafinu 20 september árið 1989, hét þá Atlantic Frost. Selt 1991, Admiral shipping Ltd á Antiqua & Barbuda, einnig í Karíbahafinu, hét þá Sea Reefer. Skipið strandaði 20 ágúst 1992 við Peterhead í Skotlandi. Áhöfninni var bjargað en skipið talið ónýtt og mun hafa verið rifið niður á strandstað.
Goðafoss átti tvö systurskip, þau voru Dettifoss lll og Mánafoss ll.
 

Goðafoss IV á siglingu.                                   Málverk eftir I.S.A. frá árinu 1984.




                                     Goðafoss kom í gær

Goðafoss, fyrsta skipið af þremur, sem undanfarið hafa verið í smíðum hjá Álborg Værft AS í Álaborg, fyrir Eimskipafélag Íslands, kom til Reykjavíkur í morgun. Skipið er smíðað samkvæmt strögustu kröfum Lloyd's Register of Shipping og styrkt til siglinga í ís. Það er úr stali með tveimur þilförum, sem ná eftir því endilöngu. Miðað er við, að nota megi skipið, hvort heldur sem er opið eða lokað hlífðarþilfarsskip. Skipstjóri á Goðafossi er Magnús Þorsteinsson; yfirvélstjóri Árni Beck. 1. styrimaður Björn Kjaran, 2 vélstjóri Kristján Wendel, loftskeytamaður Bogi V. Þórðarson og bryti Einar Sigurðsson. Yfirfbygging skipsins er aftast, en framan við hana eru tvær vörulestar. Þær eru einangraðar til flutninga á frystivörum, og rúmmál þeirra samtals um 150 þús. teningsfet. Lestaropin eru tvö, hvort 6 m. á breidd og 17 m. á lengd. Lestarnar eru einangraðar með glerull, klæddar innan með alumíníum og trélistum. Kælivélarnar eru frá Salbroe í Árósum og geta haldið 25°C frosti í lestunum, þótt sjávarhiti sé 32°C og loftihiti 35°C. Hitastilling er sjálfvirk og má fylgjast með henni á hitamælum á stjórnpalli og í vélarrúmi. Á skipinu eru þrír vökvadrifnir kranar, tveir miðskipa og einn aftan við aftari, lúguna. Hver krani getur lyft 5 tonna þunga. Kranana tvo, sem eru miðskipa, má tengja saman og getur þá einn maður stjórnað þeim báðum. Þeir geta sameiginlega lyft 10 tonna þunga. Einnig er hægt að nota 30 tonna lyftiás (þungabómu) með krönunum tveimur og getur þessi samstæða þá lyft sameiginlega 40 tonna þunga. Kranarnir þrír geta sameiginlega lyft 15 tonna þunga. Skipið er búið tveimur lyftiásum fyrir 5 tonna þunga og einum 30 tonna lyftiási.
Aflvél skipsins er smíðuð hjá Burmeister & Wain, og er 5 strokka tvígengis Diesel-hreyfill, 2860 hestöfl. Má gera ráð fyrir 14 sjómílna ganghraða þegar skipið er fullhlaðið. Það er athyglisverð nýjung, að aðalvél skipsins er stjórnað frá brúnni. Þar er stórt stjórnborð útbúið fullkomnum tækjum til þess að stjórna vélinni. Er Goðafoss fyrsta islenzka skipið, sem hefur skírteini til að mega sigla um lengri eða skemmri tíma án þess að vakt sé í vélarrúmi. Þessu fylgir, að sjálfvirkni er á öllu, sem að stjórn vélarinnar lýtur, og er sérstakur stjórnklefi í vélarrúminu með sjálfvirkum tækjum, sem senda aðvörunarmerki með ljósi eða hljóðmerki upp í brúna, í setustofurnar, matsalina, herbergi vélstjóra og í vélarrúminu, ef eitthvað bregður út af. Hjálparvélar eru 3, einnig af Burmeister & Wain gerð og smíðaðar þar. Þær eru hver 375 hestöfl, tengdar 325 KVA rafli, sem framleiðir 380 volta riðstraum. Skipverjar eru 22 og búa allir í eins manns herbergjum. Veggir í íbúðarherbergjunum og setustofum era klæddir með þiljum úr óeldfimu plasti. Sömuleiðis em húsgögn gerð úr efnum, sem ekki geta brunnið. Upphitun og loftræsting í skipinu er með svonefndu GW- kerfi. Af siglingatækjum má nefna ratsjá, Gyro-áttavita með þremur álestrarskífum, sjálfstýritæki, bergmálsdýptarmæli, og kerfi til að vekja skipverja á vaktaskiptum. Loftskeytastöðin er smíðuð hjá M.P. Pedersen í Kaupmannahöfn. Tveir björgunarbátar úr plasti eru á skipinu, sem hvor um sig rúmar 36 manns, og er annar þeirra vélknúinn. Auk þess er skipið búið tveimur 20 manna gúmmíbátum.

Tíminn. 16 júlí 1970.
 

Goðafoss IV nýsmíðaður út í Álaborg sumarið 1970.         Mynd í minni eigu.



             Sea Reefer, áður Goðafoss strandar

Flutningaskipið Sea Reefer, sem hét áður Goðafoss strandaði nýlega rétt fyrir utan höfnina í Peterhead í Skotlandi, þar sem það hafði tekið frystan fisk. Í áhöfninni voru 22 Egyptar og tókst að bjarga þeim öllum en talið er að ekki verði hægt að bjarga skipinu, sem er 2.800 tonn að stærð. Goðafoss var smíðaður í Danmörku fyrir Eimskip 1970 og var í eigu félagsins til 1990, þegar skipið var selt Egypta, en það var skráð í Antigua.

Morgunblaðið. 14 október 1992.

19.11.2022 09:13

42. Eldey KE 37. TFAZ.

Vélskipið Eldey KE 37 var smíðað hjá Bolsönes Verft A.S. í Molde í Noregi árið 1960 fyrir samnefnt hlutafélag í Keflavík. 139 brl. 300 ha. Wichmann vél. 25,77 x 6,71 x 3,13 m. Skipið sökk um 70 sjómílur suðaustur af Dalatanga (Rauðatorginu) 23 október árið 1965. Voru skipverjar þá að háfa úr nótinni er hvika skellti því á hliðina með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 12 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað um borð í Brimi KE 104 frá Keflavík sem fór svo með þá inn til Neskaupstaðar.
 

Síldveiðiskipið Eldey KE 37.                               (C) Snorri Snorrason.

 

                                        Glæsilegasta skipið

Að morgni þess 8. desember s. l. kom til Keflavíkur nýr og glæsilegur stálbátur, 150 smálestir, með 300 hestafla Vichmann dieselvél. Ganghraði 10 mílur á klst. Báturinn heitir Eldey KE 37 og er smíðaður í Bolsones Verft í Molde í Noregi. Er hann allur hinn vandaðasti, hvar sem á er litið, tæki öll af nýjustu og beztu gerð, og allt fyrirkomulag innan borðs miðað við sem fullkomnasta nýtingu á rými skipsins og reynslu og hagsýni gætt í hvívetna, án þess þó að nokkuð það sé til sparað, sem til nauðsynja og öryggis má telja. Í skipinu er 48 mílna Decca ratsjá, japönsk ljósmiðunarstöð, sem er nýtt tæki og mjög fullkomið, sjálfleitandi Asdic síldarleitartæki, dýptarmælir með Asdic útfærslu af Simrad-gerð, sjálfvirkur stýrisútbúnaður í beinu sambandi við áttavitann og Simrad talstöð. Vistlegt eldhús er aftur í á skipinu,. Er það með nýtízkulegum og handhægum búnaði. Aftan við það, með „lúgu“ á milli, er rúmgóður borðsalur fyrir 12 menn, en til hliðar bakborðsmegin við eldhúsið er beitningaskýlið fyrir 6 menn, og er opanlegur gluggi á milli, þar sem hægt er að rétta kaffi inn til beitningamannanna og losa þá þannig við óþarfa snúning.
Eldhúsinu fylgir góður kæliklefi. Í skipinu eru tvær lestar, sú aftari er hin venjulega fiskilest og tekur hún um 100 tonn. Fremri lestin er frystilest, sem rúmar um 20 tonn af freðfiski. Kælivél skipsins, sem er mjög vönduð, frystir allt upp í 25 gráðu frost. Tvöfalt rafkerfi er í skipinu, 24 volta spenna, sem gefur straum á flest tæki í bátnum og ljós um hann allan. Er hentugt að skipta yfir á þetta kerfi, þegar legið er í höfn, einnig þegar skipið er á siglingu, og svo er það einnig til hins mesta öryggis. Undir stjórnpalli er vistlegt og rúmgott herbergi skipstjóra, en kortaklefi aftur af stýrishúsinu. Aftur í, undir þiljum, eru tvö rúmgóð tveggja manna herbergi, annað fyrir stýrimann og matsvein, en hitt fyrir vélstjórana. Frammi í, undir hvalbak skipsins, eru tveir þriggja manna klefar og einn tveggja manna. Fylgja öllum þessum íbúðarherbergjum hverskonar þægindi, og geta má þess ennfremur, að í skipinu er þægilegt bað. Eldey er útbúin með kraftblökk fyrir hringnót og allt sem henni tilheyrir. Er í ráði, að báturinn stundi útilegu með línu framan af vertíð, en fari síðan á net. Eigandi skipsins er hlutafélagið Eldey, Keflavík.

Faxi. 1 janúar 1961.
 

Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.         
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.             Byggðasafn Reykjanesbæjar.

 

                      Síldarskipið Eldey sökk í fyrrinótt

Síldarskipið Eldey KE 37 sökk í fyrrinótt á síldarmiðunum um 60 mílur suðaustur af Dalatanga og bjargaðist skipshöfnin um borð í síldarskipið Brimi KE 104, það hét áður Hólmanes frá Eskifirði. Mörg síldarskip voru á þessum slóðum í fyrrakvöld og var þar leiðindaveður. Um klukkan 21 fékk Eldey á sig kviku og lagðist þá skipið á hliðina, var þá langt komið að háfa síld í lestar skipsins. Skipshöfnin brá þegar við og fór í gúmbjörgunarbáta og var bjargað um borð í Brimi. Þrír skipverjar fóru aftur um borð í Eldey og dvöldu þar á þriðju klukkustund til þess að freista þess að rétta skipið aftur á kjöl og tókst það ekki og urðu þeir að hverfa frá borði rétt áður en skipið sökk. Skipið sökk um kl. 2.20 um nóttina. Skipstjóri á Eldey heitir Pétur Sæmundsson og var þetta eitt af aflahæstu síldveiðiskipum flotans. Eldey var 5 ára gamalt stálskip, byggt í Molde í Noregi 1960, og var 139 lestir að stærð. Eigandi þess var Eldey h.f. í Keflavík. Brimir fór með skipbrotsmennina til Neskaupstaðar og þar stigu þeir beint upp í flugvél Flugsýn og flugu til Reykjavíkur. Komu þeir þangað síðdegis í gær. Þá lagðist annað síldveiðiskip á hliðina um líkt leyti á sömu slóðum. Það heitir Pétur Sigurðsson og er af líkri stærð og Eldey, einnig aflasælt skip og tókst skipverjum að rétta skipið aftur og kom það heilu og höldnu til Seyðisfjarðar í gærmorgun.

Þjóðviljinn 24 október 1965.

12.11.2022 16:47

5554. Sigurgarður NK 43.

Vélbáturinn Sigurgarður NK 43 var smíðaður af Baldri Halldórssyni að Hlíðarenda á Akureyri árið 1966. 3,36 brl. 20 ha. Bukh vél. 7,32 x 2,47 x 1,04 m. Hét fyrst Gullberg EA 200 og var smíðaður fyrir Birgi Þórhallsson á Akureyri. Seldur 18 maí 1967, Reimari Þorleifssyni og Rúnari Þorleifssyni á Dalvík, hét Gullberg EA 475. Seldur 7 júlí 1972, Högna Jónassyni í Neskaupstað, hét þá Sigurgarður NK 43. Seldur 13 júní 1978, Sigurði Finnbogasyni á Seyðisfirði, hét Blíðfari NS 6. Seldur 29 apríl 1982, Jóhanni Frímanni Valgarðssyni í Reykjavík og Vilmundi S Þorgrímssyni á Seyðisfirði, hét Frímann NS 6. Seldur 27 apríl 1984, Sæmundi Ingólfssyni á Seyðisfirði, hét Diddi NS 6. Ný vél (1984) 14 ha. Sabb vél. Seldur 27 mars 1985, Kristjáni Þorkelssyni Eiðshúsi á Hellissandi, hét Diddi SH 256. Seldur / maí 1986, Trausta Aðalsteinssyni og Skúla T Haraldssyni á Patreksfirði, hét Kópur BA 101. Ný vél (1989) 33 ha. Volvo Penta vél. Seldur 18 júní 1992, Einari Gylfasyni á Akureyri, hét Kópur EA 901. Seldur 1 júní 1994, Jörundi Guðmundssyni í vogum, Árna Ingvasyni í Kópavogi og Albert Finnbogasyni í Mosfellsbæ, sama nafn og númer.Tekinn af Íslenskri skipaskrá 23 desember árið 1998. Mun þá hafa heitið Saxi.
 

Sigurgarður NK 43 að leggjast við bæjarbryggjuna í Neskaupstað, sennilega árið 1972. Högni skipstjóri aftan við stýrishúsið. Hann var á togaranum Goðanesi NK 105 þegar hann fórst í mynni Skálafjarðar í Færeyjum 2 janúar 1957. Högni fórst í snjóflóðunum í Neskaupstað 20 desember 1974. Hann var þá við vinnu sína í loðnuverksmiðju SVN. Strákurinn frammi á bakkanum er Pétur Hafsteinn Högnason. Pétur var skírður í höfuðið á Pétri Hafsteini Sigurðssyni skipstjóra Goðaness sem fórst með skipi sínu.  (C) Jóna Rebekka Högnadóttir.

06.11.2022 09:24

1270. Bjarni Benediktsson RE 210. TFAH.

Skuttogarinn Bjarni Benediktsson RE 210 var smíðaður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f. 969 brl. 2 x 1.410 ha. MAN Bazan vélar, 1.037 Kw hvor. 68,66 x 11,60 x 6,80 m. Smíðanúmer 111. Kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 10 janúar árið 1973. Fyrsti skipstjóri á Bjarna var Sigurjón Stefánsson. Selt 1984, Merkúr hf í Reykjavík, hét þá Merkúr RE 800. Togaranum var breytt í frystiskip í skipasmíðastöð í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1985 en verkið var svo klárað hjá Brattvåg Skipsinnredning A.S. í Brattvåg í Noregi haustið 1986. Sama ár var skipið komið í eigu Ríkisábyrgðasjóðs, sama nafn og númer. Skipið var svo selt 18 september 1986, Sæbergi h/f á Ólafsfirði, fékk nafnið Mánaberg ÓF 42. Togarinn var gerður út af Ramma h/f á Siglufirði en heimahöfn þess var Ólafsfjörður. Frá árinu 1997 til 2007 var það gert út af Þormóði ramma-Sæbergi hf á Siglufirði. Togarinn var seldur til Murmansk í Rússlandi í mars árið 2017. Hann var í eigu Ramma hf á Siglufirði síðustu árin.
 

1270. Bjarni Benediktsson RE 210.                         Ljósmynd í minni eigu.

 

                          Stærsti skuttogarinn kominn
Sigurjón Stefánsson skiptir um skip eftir 20 ár

Margt manna fagnaði komu hins nýja skuttogara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Bjarna Benediktssonar RE 210, er skipið lagðist að Ægisgarði á fimmta tímanum i gær, eftir rúmlega fimm sólarhringa siglingu frá skipasmiðastöðinni í Pasajes á Spáni. Bjarni Benediktsson er stærsti togari, sem smíðaður hefur verið fyrir Íslendinga, 970 brúttólestir að stærð og 68 metra langur. Skipstjóri á skipinu er Sigurjón Stefánsson, sem síðastliðin tuttugu ár hefur verið skipstjóri á elzta togara B.Ú.R. Ingólfi Arnarsyni. Við heimkomuna í gær sagði Sigurjón, að þeir hefðu fengið gott veður á heimsiglingu, og af stuttum kynnum af skipinu, kynni hann vel við það. Hann sagði einnig, að það væru mikil viðbrigði að koma yfir á þetta nýja skip eftir að hafa verið með sama skipið í tuttugu ár og að sjálfsögðu tæki það sinn tíma að venjast því. Sigurjón sagði, að farið yrði í fyrstu veiðiferðina svo fljótt sem unnt væri, en einhver bið verður á því, þar sem eftir á að ganga frá veiðarfærum um borð í skipinu, og allt er í óvissu um samninga undirmanna á togurum. Búizt er við að 26 manna áhöfn verði á Bjarna Benediktssyni, en á heimsiglingu voru 16 menn um borð. Sigurjón sagði, að hann væri ánægður með allan frágang á skipinu og íbúðir eru allar mjög rúmgóðar. Klefar í skipinu eru eins og tveggja manna, nema einn, sem er sex manna og vart verður notaður nema í einstaka tilfellum.
Þegar Sigurjón var spurður um álit á rekstrarafkomu skipsins sagði hann, að hann vildi, sem minnst hugsa út í reksturinn, því ekki væri útlit fyrir að skip sem þetta gæti borið sig. 1. stýrimaður á Bjarna Benediktssyni verður Grímur Jónsson, en hann var áður á Ingólfi Arnarsyni með Sigurjóni, og reyndar er Grímur búinn að vera skipsmaður á Ingólfi allt frá því að skipið kom til landsins 1947, eða í 26 ár. 1. vélstjóri verður Þórður Guðlaugsson, en hann var áður á Þormóði goða. Bjarni Benediktsson er búinn fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum. Aðalvélar skipsins eru tvær 1.400 hestafla MAN, og í reynslusiglingu reyndist gangur skipsins tæpar 16 sjómílur. Á heimleið vildi það óhapp til, að gangráður við aðra vél skipsins bilaði og við það seinkaði heimkomunni lítillega. Þorsteinn Arnalds, forstjóri, Bæjarútgerðar Reykjavíkur sagði við komu skipsins, að kaupverð skipsins yrði hátt í tvö hundruð milljónir, þegar það yrði tilbúið á veiðar. Sagði hann, að skipið hefði átt að afhendast á síðasta ári, en ýmislegt hefði tafið afhendingu skipsins. Um rekstrarafkomuna sagði Þorsteinn, að við lifðum í landi, sem lifði af sjávarafurðum, og þess vegna yrði að skapa fiskiskipaflotanum rekstrarafkomu, annars væri voðinn vís.

Tíminn. 17 janúar 1973.
 

Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til Reykjavíkur í janúar 1973.
 
Bjarni Benediktsson RE 210. Teikning Páls Ragnarssonar frá árinu 1973.

 

                           Stjörnubróðir kaupir togara

Nú nýlega seldi Bæjarútgerð Reykjavíkur togarann Bjarna Benediktsson þeim Kristni S. Kristinssyni og Kristni Gunnarssyni, og hafa þeir ákveðið að nefna skipið Merkúr RE 800. Þeir félagar eru ekki með öllu ókunnir hér suður með sjó, því þeir hafa báðir starfað hjá Sjöstjörnunni, annar var meðeigandi og framkvæmdastjóri, en hinn skrifstofustjóri um tíma.

Víkurfréttir. 6 desember 1984.

                               Merkúr fluttur til Noregs

Nú um helgina verður togarinn Merkúr RE 800 fluttur frá skipasmíðastöð í Bremerhaven áleiðis til Brattvag í Noregi. Verið er að breyta Merkúr í alhliða frystitogara og verður þessu verki lokið í Noregi. Að sögn Kristins Kristinssonar hjá Merkúr RE 800 hf. útgerðarfyrirtæki togarans, gekk upphaflega fjármögnunardæmið ekki upp og eftir rækilega skoðun var ákveðið að flytja seinni verkþáttinn frá Þýskalandi til Noregs. Búið er að rífa allt innan úr togaranum og er hann því tilbúinn fyrir niðursetningu frystibúnaðar. Verkinu í Noregi á að ljúka um miðjan nóvember og verður Merkúr þá útbúinn sem alhliða frystitogari með möguleika á heilfrystingu og flökun og flakafrystingu, sem og rækjufrystingu. Merkúr hét áður Bjami Benediktsson og var í eigu BÚR.

Fiskifréttir. 6 september 1985.

 

1270. Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til Reykjavíkur í janúar 1973.



                     Ríkisábyrgðasjóður á nú Merkúr 

Frystitogarinn Merkúr RE verður boðinn hæstbjóðendum til sölu á haustmánuðum. Þetta er ljóst eftir að ríkisábyrgðarsjóður keypti Merkúr af samnefndu hlutafélagi á rúmar 100 millj. króna og samið var við skipasmíðastöðina í Brattvaag í Noregi að halda áfram breytingum á togaranum. Áður hafði Merkúr verið kyrrsettur í Noregi vegna vanskila og vanefnda eigendanna. Gengið var frá kaupunum um sl. helgi og gerðust kaupin þannig að sjóðurinn tók Merkúr upp í skuld. Er Fiskifréttir ræddu við Harald Andrésson, forstjóra ríkisábyrgðarsjóðs í vikubyrjun var Ijóst að vilji var fyrir því að ljúka við breytingarnar á togaranum og sagði Harald að togarinn yrði seldur hér heima að þeim loknum. Fulltrúar ríkisábyrgðarsjóðs og fjármálaráðuneytis áttu viðræðufund með Sönderland, forstjóra skipasmíðastöðvarinnar í Brattvaag og fulltrúum hans í Osló sl. þriðjudag og þá tókust samningar um að stöðin héldi verkinu áfram eins og samið var um í upphafi.
Fiskifréttir náðu tali af Sigurði Þórðarsyni, deildarstjóra í fjármálaráðuneytinu eftir fundinn og sagði hann að Norðmennirnir hefðu samþykkt að falla frá öllum viðbótarkröfum, gegn því að verkinu yrði haldið áfram. Búið var að rífa allt innan úr togaranum og honum verður nú breytt í fullbúinn frystitogara fyrir u.þ.b. 29 milljónir norskra króna eða sem svarar um 158 milljónum ísl. kr. Að sögn Sigurðar á þá eftir að reikna til frádráttar, vaxtaafslátt sem Norðmenn gefa vegna skipasmíða. Breytingum á Merkúr á að vera lokið í september nk. og þá verður togarinn auglýstur til sölu hér á landi og hann síðan seldur hæstbjóðenda. Merkúr hét áður Bjarni Benediktsson og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Hann var seldur í nóvember 1984. — Við höfum allt okkar á þurru, sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda hf. er Fiskifréttir spurðu hann hvaða áhrif Merkúr-málið hefði fyrir fyrirtækið.
Að sögn Brynjólfs var söluverð Bjarna Benediktssonar 77 millj. kr. og þar af námu skuldir um 66 millj. kr. Aðalskuldin var við Ríkisábyrgðarsjóð og var fullt samþykki fyrir því að veðið flyttist yfir til hinna nýju eigenda. Við höfum fullt veð fyrir mismuninum í húseign í Þorlákshöfn og jörð í Mosfellssveit, sagði Brynjólfur Bjarnason.

Fiskifréttir. 16 maí 1986.

 

Mánaberg ÓF 42 í Reykjavíkurhöfn.                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

                             Sæberg keypti Merkúr

Fyrirtækið Sæberg í Ólafsfirði hefur keypt togarann Merkúr af Ríkisábyrgðasjóði og er kaupverð skipsins 281 milljón króna og helmingur þess greiðist við útborgun. Merkúr er um 1000 tonn að stærð og hét áður Bjarni Benediktsson er skipið var gert út frá Reykjavík. Nú er skipið í Noregi þar sem verið er að breyta því í frystiskip en það mun væntanlegt til landsins um næstu áramót. Sæberg átti fjórða hæsta tilboðið í skipið á sínum tíma. Þeir sem stóðu að tveimur þeirra tilboða er hærri voru réðu ekki við skilmála seljenda um helmingsútborgun og einn dró tilboð sitt til baka.

Dagur. 19 september 1986.

 

Mánaberg ÓF 42 við bryggju á Siglufirði.           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

 

                         Merkúr kemur í lok febrúar

Togarinn Merkúr sem Sæberg hf. á Ólafsfirði keypti í haust er nú í Brattvog í Noregi þar sem unnið er að miklum breytingum á skipinu. Auk þess sem verið er að breyta togaranum í frystitogara þá verða gerðar á honum ýmsar endurbætur sem fyrirsjáanlegt var að þyrfti að gera fljótlega. Breytingar þessar hófust áður en Sæberg hf. keypti skipið en það var fyrir um einum og hálfum mánuði. Meðan verið var að semja um kaup lá verkið niðri. Að sögn Jóns Þorvaldssonar eins eigenda Sæbergs hf. þá er ekki fyllilega ljóst enn hvenær skipið verður til en það verður þó aldrei fyrr en seinni partinn í febrúar. Fyrri eigandi var búinn að gera samning við skipasmíðastöðina og samkvæmt honum átti skipið að afhendast um miðjan janúar. Þeir hjá Sæbergi bættu hins vegar ýmsum breytingum við þannig að þessi tími lengist eitthvað. Sandburður í höfninni á Ólafsfirði hefur valdið nokkrum vandræðum að undanförnu og hafa stærri skip jafnvel þurft að sæta lagi til að komast þar út og inn. Aðspurður sagði Jón að vissulega mætti búast við einhverjum vandræðum hjá Merkúr einnig. Skipstjóri á Merkúr verður Björn Kjartansson sem áður var skipstjóri á Sólberginu sem Sæberg gerir út. Ekki hefur enn verið ráðin áhöfn á skipið að öðru leyti. Afli Merkúrs verður allur unninn um borð en ekki hefur verið gengið frá samningum um sölu ennþá. Sólbergið hefur að undanförnu verið í klössun í Þýskalandi og að sögn Jóns er skipið væntanlegt nú um helgina.

Dagur. 13 nóvember 1986.

 

Mánaberg ÓF 42. Líkan Elvars Þórs Antonssonar.  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

 

                          Mánaberg ÓF komið heim

Hinn glæsilegi frystitogari, Mánaberg ÓF, kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Ólafsfirði um sl. helgi, en sem kunnugt er, hefur togarinn verið í umfangsmiklum breytingum í Brattvaag í Noregi. Mánaberg ÓF sem áður hét Merkúr er einn stærsti togari flotans, 946 brúttórúmlestir að stærð og hefur því heldur mælst niður við breytingarnar, því Merkúr var skráður 969 lestir. Útgerðarfélagið Sæberg hf. á Ólafsfirði gerir skipið út en það á fyrir Sólberg ÓF. Að sögn skipstjórans, Björns Kjartanssonar, sem áður var með Sólbergið, gekk heimsiglingin frá Noregi mjög vel, þrátt fyrir að skipið hreppti versta veður. Þessir Spánartogarar eru fyrir löngu búnir að sanna sjóhæfni sína, þannig að þetta kom okkur ekkert á óvart, sagði Björn í samtali við Fiskifréttir. Breytingin á Mánabergi úr ísfisktogara í frystitogara, hefur að sögn kunnugra tekist mjög vel og er togarinn nú ákaflega vel útbúinn til veiða og vinnslu. Mjög margt hefur verið endurnýjað frá grunni en auk þess hefur verið haldið í eldri vélar og tæki sem voru í fullkomnu lagi. Þannig eru báðar Man- aðalvélarnar enn í fullu gildi, samtals um 2600 hestöfl. Keyptar voru tvær nýjar hjálparvélar, Deutz og lítil hafnarvél frá Caterpillar. Skrúfubúnaður er óbreyttur en búið er að setja Ulstein- skrúfuhring á skipið. Í vinnslurýminu eru fjórir láréttir plötufrystar frá Jackson og er afkastageta þeirra um 48 tonn af flökum á sólarhring. Lausfrystir er frá Carnitech og getur hann fryst um 500 kíló á klukkustund. Öll færibönd og vinnslulínur vegna rækjuvinnslu, eru frá Carnitech og sömu sögu er að segja um rækjuflokkunarvél og sjóðara. Tvær Pols- vogir eru í vinnslurýminu.
Varðandi bolfiskvinnsluna, má nefna að flökunarvélin er af gerðinni 189 frá Baader. Roðflettivél og afhreistrari eru frá sama framleiðanda og sömu sögu er að segja af tveim hausurum fyrir bolfisk og einum hausara fyrir karfa og grálúðu. Allt frá Baader og það er engu líkara en heilt frystihús hafi verið sett um borð. Mjög miklar endurbætur hafa verið gerðar á dekki. Nýr mjög fullkominn vindubúnaður var keyptur frá Hydraulic Brattvaag, en hann samanstendur af hvorki fleiri né færri en, fjórum grandaraspilum, fjórum gilsaspilum, tveim bobbingavindum, einni nettrommlu og tveim togvindum. Við þær er tengt auto troll frá Hydraulic Brattvaag, sem nefnist data syncro. Enn fremur hefur verið keyptur nýr dekkkrani. Í brúnni eru nú tvær Atlas fisksjár og dýptarmælar og að sögn Björns skipsstjóra er önnur fisksjáin sérstaklega gerð fyrir flottroll. Eldri JRC fisksjá er einnig í skipinu. Höfuðlínumælir og radar eru frá Furuno en aflamælirinn er frá Scanmar. Þá eru í Mánaberginu tveir JRC lóranar, plotter og radar, auk staðsetningatækis sem tekur við boðum frá gervitunglum og veðurkortaritari, sem kemur sér vel í verkfalli veðurfræðinga. Fjarskiptatæki eru frá Sailor en sjálfstýring og gyrokompás frá Anschutz. Þá er einnig sjálfstýring frá R. Sigmundssyni hf. á segulkompásnum. Miðunarstöðvar eru af Tayio- gerð og kallkerfi er frá Vingtor. Mánabergið er 69.70 metrar á lengd og 11.60 metrar á breidd. Þrátt fyrir að mikið rými fari undir vinnslusal, er mjög góð aðstaða fyrir áhöfnina. Klefar eru eins og tveggja manna og rými fyrir 30 manns en í áhöfninni eru 26. Gufubað er í skipinu, nýinnréttaður borðsalur og setustofa. Full ástæða er til að óska Ólafsfirðingum til hamingju með þetta glæsilega skip sem vafalaust á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið. Skipstjóri er sem fyrr segir Björn Kjartansson, 1. stýrimaður er Jón Guðmundsson en yfirvélstjóri, Þórður Þórðarson.  

Fiskifréttir. 10 apríl 1987.

 

Mánaberg ÓF 42 á leið til Múrmansk í Rússlandi í mars 2017.  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.



                          Mánaberg selt til Rússlands 

Mánaberg ÓF 42, eitt skipa Ramma hf. í Fjallabyggð, hefur verið selt til Rússlands. Á hádegisflóðinu í gær var því siglt frá Ólafsfirði áleiðis til Murmansk með rússneskri áhöfn. Mánaberg ÓF 42 var smíðað á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Sæberg hf. á Ólafsfirði keypti skipið árið 1986 og breytti því í frystitogara og hóf það veiðar undir merkjum þess fyrirtækis árið eftir. Mánaberg er mikið happafley og hefur ávallt verið með aflahæstu skipum. Á þeim þrjátíu árum sem það hefur verið í útgerð Sæbergs hf. (seinna Ramma hf.) er afli þess um 200 þúsund tonn.

Morgunblaðið. 18 mars 2017.
 

Bjarni Benediktsson RE 210 á heimleið frá Spáni í janúar 1973.   Mynd úr safni mínu.



                        Bjarni Benediktsson RE 210

Hinn 10. janúar s.l. kom skuttogarinn Bjarni Benediktsson RE 210 til Reykjavíkur. Þetta skip er það fyrsta af sex systurskipum, sem samið hefur verið um að smíða hjá Skipasmíðastöðinni „Astilleros Luzuriaga S.A., Pasajes de San Juan" á Spáni. Eigandi Bjarna Benediktssonar er Bæjarútgerð Reykjavíkur, en Bæjarútgerðin mun fá tvö samskonar skip til viðbótar. Skipið er byggt eftir flokkunarreglum „Lloyd's Register of Shipping" og er styrkt með tilliti til siglinga í ís. Í skipinu eru 11 eins manns klefar, 7 tveggja manna klefar og einn sex manna klefi. Við venjulegar aðstæður verður sex manna klefinn ekki notaður, en í sérstökum tilfellum, t. d. ef veiða á í salt, er gert ráð fyrir að fjölga megi áhöfn. Skipið er búið tveimur aðalvélum, MAN, G8V 30/45 ATL og skilar hvor um sig 1410 hestöflum við 400 sn./mín. Niðurfærslugír er af gerðinni BREVO með niðurfærslu 2:1. Skipið er með 4ra blaða skiptiskrúfu af Escher Wyss gerð, sem stjórnað er eftir atvikum af stjórnpalli eða úr vélarúmi. Inn á gírinn tengjast tveir riðstraumsrafalar, sem hvor um sig er 475 KVA (380 kw), 3x380 V, 50 HZ. Sérstakur riðstraumsrafmótor (550 hö) knýr 350 kw, 440 V jafnstraumsrafal, sem sér rafmótor togvindunnar fyrir orku. Rafalar og rafmótorar eru af Indar-gerð. Hjálparvél er af gerðinni MAN R6V 16/18T, 225 hestöfl við 1000 sn./mín., sem knýr Indar riðstraumsrafal (170 KVA, 3x380 V, 50 HZ). Auk þess er lítil hjálparvél af Caterpillargerð, 67 hestöfl, 1500 sn./mín., sem knýr 56 KVA riðstraumsrafal. Ljósavél þessi er staðsett á millidekki í lokuðu rúmi. í skipinu er „hydroforkerfi" bæði fyrir sjó og fersk vatn og 300 ltr. kútur fyrir heitt vatn. Sérstakur ferskvatnseimir af Atlasgerð framleiðir 5 tonn á sólarhring og er varmi frá kælivatninu á aðalvélunum notaður til að eima sjóinn. Einnig er í vélarúmi sérstök skilvinda (lænsevands-seperator) til að skilja olíu úr vélarúmsausturnum. Þetta tæki er nauðsynlegt um borð í skipum og gefur auga leið að mengun frá skipum stórminnkar við tilkomu þess.
Skilvinda þessi er af gerðinni Akers og á að geta afkastað 10 t/klst. Dælur fyrir aðalvélar, ferskvatns-, sjó- og smurolíudælur, hafa allar varadælur. Skilvindur eru tvær, önnur fyrir smurolíu og hin fyrir gasolíu, og hafa þær sömu afköst. í stýrisvélarrúmi undir skutrennu er rafstýrð, vökvaknúin stýrisvél af gerðinni Brussel. Brú skipsins er mjög framarlega, hlutfallslega framar en á öðrum skuttogurum hér á landi, og fæst þar af leiðandi mjög langt togþilfar, eða um 40 m. langt frá efri brún skutrennu. Fyrirkomulag á togþilfari er þannig, að mögulegt er að hafa tvær vörpur undirslegnar og tilbúnar til veiða, en algengast er á skuttogurum að aðeins ein sé undirslegin. Rétt fyrir aftan lestarlúgurnar greinist vörpurennan í tvær minni rennur, sem liggja sitt hvorum megin við lúgurnar fram að grandaravindunum. Togvindan er af gerðinni Brussel KMC III/4. Vindan er drifin af Indar 440 hö, 440 V rafmótor. Meðaltogkraftur er um 14 tonn og vírahraði 120 m/ mín. Hvor tromla tekur um 1670 faðma af 3 1/2 tommu vír. Fyrir utan togtromlurnar eru 2 hífingartromlur og auk þess koppar á hvorum enda. Rétt fyrir aftan togvinduna eru tvær grandaravindur, bakborðs- og stjórnborðsmegin. Hvor vinda hefur 4 tromlur, 2 fyrir grandarana og 2 til að hífa fram bobbingana. Vindur þessar eru enn ókomnar, vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þessum búnaði í upphafi, en gengið hefur verið frá undirstöðum og öllu öðru í sambandi við vindurnar. Vindurnar sem eru af Norwinch-gerð verða vökvadrifnar við lágan þrýsting (35 kg/cm^). 2 Allweiler-dælur, staðsettar á millidekki framan við lestalúgurnar, sjá grandaravindunum fyrir orku. Hvor dæla skilar 855 1/mín við 1000 sn./mín. Aftarlega á togþilfarinu, aftur undir skutrennu eru 2 vindur, stjórnborðs- og bakborðsmegin. Vindur þessar eru af Norwinch-gerð, lágþrýstar og á hvor um sig að skila 5 t átaki. Sjálfstætt dælukerfi er fyrir hvora vindu og er það staðsett í netageymslum sitt hvorum megin við skutrennu á millidekki. Vindurnar eru notaðar m . a . til að losa úr pokanum, hífa vörpuna aftur, Þegar kastað er o. fl. Á tvöfalda mastrinu eru tvær bómur, sem notaðar eru til að forfæra t. d. hlera og annað. Á hvalbak er vökvadrifin akkerisvinda af Norwinch-gerð drifin af sjálfstæðu dælukerfi. Á palli yfir skutrennu er litil vinda fyrir kapal til höfuðlínumælis, og er vindan frá Elac eins og höfuðlínumælirinn. Dekklúgan, framan við skutrennuna, opnast niður, en ekki upp, eins og algengast er. Skýringin á þessu mun vera sú, að minni slysahætta á að vera ef lúgan opnast niður. Aftur á móti virðist augljóst, að ef alda skellur aftan á skipið á sjórinn greiðan aðgang að vinnuþilfari, ef lúgan opnast niður. Stíur þær sem taka við fiskinum, þegar hann kemur niður á milliþilfarið, fiskmóttaka, rúma um það bil 30 tonn af fiski. Ef stíur þessar verða fullar er möguleiki að flytja fisk með færibandi í stíur sem eru framar og stjórnborðsmegin í skipinu. Þessar stíur taka um það bil 15 tonn, þannig að alls má hafa 45 tonn af fiski í stíum. Um borð er Shetland slægingavél af gerðinni 28 MKl. Vél þessi tekur fisk af stærðinni 38—71 cm. (annað verður að handslægja) og hámarksafköst eru 30 fiskar á mínútu. Einnig eru um borð tvær franskar fiskþvottavélar. Fiskurinn fer gegnum „cylinder", sem snýst með jöfnum hraða. Þetta er svonefnd „roterandi" þvottavél, en ekki kerþvottavél eins og algengast er hér. Mikið er um færibönd og greinilegt er að allt hefur verið gert til að minnka vinnu áhafnar við flutning á fiski. Færibanda- og vélakerfið er allt tvöfalt, þannig að unnt er þegar við fiskmóttökuna, að skipta fiskinum upp eftir því hvernig meðhöndla á fiskinn og í hvaða hluta lestarinnar fiskurinn á að fara. Til að fjarlægja þann sjó, sem eðlilega kemur inn á milliþilfarið, eru tvær dælur. Þessar dælur eru staðsettar bakborðsmegin að aftan og stjórnborðsmegin að framan á vinnuþilfarinu. Afköstin, sem hvor dæla getur skilað eru 80 m3 klst. í lokuðu rúmi stjórnborðsmegin á milliþilfari eru tveir pottar til lifrarbræðslu. Ekki er gert ráð fyrir mikilli bræðslu, þar sem slægingarvélin eyðileggur lifrina, og til bræðslu kemur því aðeins lifur frá handslægingunni. Fiskilest togarans er um það bil 730 m3 að stærð, og ættu þar að rúmast ca. 450 tonn af fiski. Lestin er einangruð með um 20 cm. þykkri gosull, sem að innan er klædd áli. Í lofti lestarinnar eru kælispíralar, en kælingin á að geta haldið 0°C í lest miðað við 18°C sjávarhita og 20°C lofthita. Kælimiðill er Freon R12 og kæliþjappan er af gerðinni Worthington 3HF 4/N, knúin af 10 ha. ASEA rafmótor. Uppstillingin er úr áli, og er stíustærðin valin þannig, að unnt er að fylla upp milli þverskilrúmanna í lestinni með fiskikössum. Lestarop eru fjögur, svo vel ætti að ganga að losa skipið. Brúin er mjög rúmgóð, og eins og við er að búast eru þar öll þau tæki, sem íslenzkum sjómönnum finnast nauðsynleg, en þau eru orðin margbreytileg. Í afturhluta brúarinnar eru stjórntæki fyrir togvinduna, en henni má hvort sem er stjórna frá brú eða vindupalli. Ekki eru beinir togmælar á vinduna, en með því að lesa af þrýstinginn á vindubremsunni er unnt, með hjálp töflu, að ákvarða togkraftinn á vírana. Í loftskeytaklefa er fjarskiptastöð frá M. P. Pedersen. Þar er um að ræða senditæki fyrir bæði tal og morse og tvo móttakara. Það er einnig neyðarsendir þar og móttakari og verða hér talin hin helztu: Rediton gerð. Nýjung um borð er veðurkortamóttakari, en hann er frá Taiyo. Í fremri hluta brúarinnar eru hin eiginlegu siglingatæki og verða hér talin hin helztu: Ratsjár: Tvær ratsjár frá Kelvin Hughes, önnur af gerðinni 18/12 C, en hin 19/12 S. Tveir ratsjárskermar, annar 10 cm. hinn 3 cm, með afísingartækjum. Unnt er að kúpla skermunum á hvora ratsjána sem er. Dýptarmælar: Hér er um svokallað „Humber Gear" kerfi frá Kelvin Hughes að ræða. Þetta eru tveir dýptarmælar af MS 44 gerð (annar blaut-, hinn þurrpappírs), fisksjá og sjálfriti fyrir fisksjána. Asdic: Simrad SB2. Höfuðlínumælir: Elac. Loran: Mieco 6805. Miðunarstöð: Taiyo TD-A120. Örbylgjustöð: Rediton. Gyroáttaviti: Áttaviti og sjálfstýring er frá Anschuts.
Stærð skipsins 969 brl.
Mesta lengd 68.70 m.
Lengd milli lóðlína 59.00 m.
Breidd 11.60 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.50 m.
Dýpt frá neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista 4.80 m.
Lestarrými 730 m3
Olíugeymar 414 m3
Ferskvatnsgeymar 80 m3
Ballastgeymir (stafnhylki) 45 m3
Lýsisgeymar 30 m3
Hraði í reynslusiglingu 15,3 sjómílur.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1973.


 

  • 1
Today's page views: 3183
Today's unique visitors: 297
Yesterday's page views: 1058
Yesterday's unique visitors: 85
Total page views: 728773
Total unique visitors: 54118
Updated numbers: 27.4.2024 22:34:10