27.10.2016 09:44

976. Ólafur Sigurðsson AK 370. TFPD.

Ólafur Sigurðsson AK 370 var smíðaður hjá V.E.B. Elber Werft í Boizenburg í Austur Þýskalandi árið 1965. 264 brl. 660 ha. Lister díesel vél. Eigandi var Sigurður Hallbjarnarson h/f á Akranesi frá 18 júní 1965. Árið 1967 var Sigurður h/f á Akranesi skráður eigandi skipsins. 22 janúar 1975 var skráningarnúmeri skipsins breytt í AK 371. Selt 1975, Ísstöðinni h/f í Garði. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 3 október 1975.


Ólafur Sigurðsson AK 370.                                                                       (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Ólafur Sigurðsson í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                                       (C) J.A. Hugson.


Ólafur Sigurðsson AK 370 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                           (C) J.A. Hugson.

26.10.2016 11:00

45. Esja ll. TFSA.

Strandferðaskipið Esja var smíðuð í Álaborg í Danmörku árið 1939 fyrir Skipaútgerð ríkisins. 1.347 brl. 2 x 1.250 ha. Atlas díesel vélar. Esja var í strandferðum við Ísland og flutti póst, vörur og farþega milli hafna. Í september árið 1940 fór Esja eina ferð til Petsamo í Finnlandi og sótti þangað 258 Íslendinga sem teppst höfðu á Norðurlöndum vegna heimstyrjaldarinnar. Eftir styrjaldarlok, á árunum 1945-46, fór Esja nokkrar ferðir til Kaupmannahafnar og Gautaborgar til að sækja þangað Íslendinga sem vildu komast heim. Yfir sumartímann árið 1948 var Esja í farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Glasgow í Skotlandi. Esja var seld til Bahamaeyja 17 september 1969 og hét þar Lucaya.


Strandferðaskipið Esja á Norðfirði á styrjaldarárunum.                                  (C) Björn Björnsson.

          Esja komin heim frá Petsamo

Þann 15. október árið 1940 kom strandferðaskipið Esja til Reykjavíkur með 258 Íslendinga innan borðs sem höfðu flúið stríðsátökin í Evrópu. Sigurður Haraldsson var með um borð, þá ellefu ára gamall, en hann segir að ferðin hafi í raun verið spennandi fyrir svo ungan dreng.
Sigurður segir að mikið félagslíf hafi verið í skipinu og margt reynt til að stytta fólki stundir. Esja var hins vegar ekki stórt skip og langt í frá svefnpláss fyrir alla þá rúmu viku sem ferðin frá Petsamo til Íslands tók. Þótt leyfi hafi fengist fyrir ferðinni frá bæði Bretum og Þjóðverjum var auðvitað ótti í fólki enda herskip, kafbátar og tundurdufl á leiðinni.
Þór Whitehead sagnfræðingur er í Freiburg í Þýskalandi þar sem hann rannsakar stríðsárin en þar er eitt stærsta stríðsskjalasafn Þjóðverja. Hann hefur meðal annars komist að því að flugumaður Þjóðverja var með um borð sem þó slapp í gegnum nálarauga bresu leyniþjónustunnar. Þór mun segja sögu þessa manns í nýrri bók um stríðsárin þar sem hann fjallar ítarlega um Petsamo förina.
Í raun var ótrúlegt að ferðin skyldi farin því ýmiss atvik komu upp sem stefndu henni í voða. Þjóðverjar tóku skipið til hafnar í Þrándheimi þar sem því var haldið í nokkra daga áður en hópurinn var sóttur til Petsamo. Bretar höfðu áður krafist þess að fá að skoða skipið á Orkneyjum, en þeirri kröfu var haldið leyndri fyrir áhöfninni og kom það henni því mjög á óvart þegar sveigja þurfti af leið og fara suður til Bretlands. Þór segir að breska leyniþjónustan hafi verið of sein og skipið því farið frá Orkneyjum áður en hægt var að skoða farþegana um borð. Breskt herskip var því sent á eftir Esju en af einhverjum ástæðum fann það ekki íslenska skipið við Færeyjar.
Vel var fylgst með ferð Esju á sínum tíma og ítarlega fjallað um ferðina enda má segja að þarna hafi Íslendingar svo sannarlega fundið fyrir áhrifum stríðsins.

Rúv.is 15 október 2010

        ESJA STRANDAÐI Á GÆSAFJÖRUM

Strandferðaskipið Esja leysti landfestar á Akureyri seint að kveldi sl. laugardags og ætlaði til Siglufjarðar. Veður var stillt, fjörðurinn bárulaus og strendurnar beggja vegna fjarðarins hvítar af nýfallinni mjöll. Skipið setti á fulla ferð þegar komið var út fyrir Oddeyrartanga og hélt venjulega skipaleið norður fjörðinn, með Svalbarðseyrarvita á hægri hönd og öflugan Hjalteyrarvitann á vesturstöndinni að leiðarljósi og sáust báðir mjög vel. En skammt var stórra tíðinda að bíða, því að skipið breytti um stefnu og renndi upp í fjöru skammt norðan við Dagverðareyri, í lítilli vík, sem Ytrivík er kölluð og er rétt norðan við merki þau, er skilja lönd jarðanna Dagverðareyrar og Gæsa. Þetta gerðist um klukkan hálf eitt á sunnudagsnóttina. Á sunnudaginn var fjölmennt á slysstaðnum og furðaði alla á hinum gífurlegu mistökum á stjórn skipsins, sem hafði beina stefnu á bæinn Gæsa og sú stefna var óralangt frá réttri leið. Það lóaði ekki á steini og því var hinni 38 manna áhöfn og 10 farþegum engin hætta búin. Skipið hafði, við strandið, skafið botninn nokkurn spöl og var því ekki um harðan árekstur að ræða. Góð kastlengd var úr fjörunni fram í skipið. Hið nýja olíuflutningaskip SÍS, Stapafell, dró Esju út á flóðinu á mánudagsnóttina. Það verður að segjast eins og það er, að almennt mun litið svo á, að stjórnendur Esju hafi ekki verið alls gáðir, þegar þetta slys bar að höndum. Um sannindi þessa er blaðinu ekki kunnugt. En á með að ekki er upplýst önnur ástæða, eða öllu heldur, á meðan engin skynsamleg ástæða fyrir skipsstrandinu er fram borin, verður almenningsálitinu ekki breytt. Skipstjóri á Esju er Tryggvi Blöndal, en þriðji stýrimaður var á vakt þegar skipið strandaði, ásamt tveimur hásetum í brúnni. Botn skipsins er mikið laskaður, en það fór þó suður. Sjóréttur verður í Reykjavík.

Dagur 5 desember 1962.


25.10.2016 12:28

B. v. Ilivileq GR-2-201. á leið inn Viðeyjarsund.

Ég tók þessa myndasyrpu af Ilivileq þegar hann var á leið inn Viðeyjarsund til löndunar í Sundahöfn. Skipið hét áður Skálaberg RE 7 og var í eigu Brims h/f í Reykjavík, en er nú í eigu Arctic Prime Fisheries í Qaqortoq á Grænlandi og gert þaðan út í dag.


Ilivileq GR-2-201 á leið inn Viðeyjarsund 3 júlí 2016.                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ilivileq GR-2-201.                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ilivileq GR-2-201.                                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ilivileq GR-2-201.                                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ilivileq GR-2-201.                                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ilivileq GR-2-201 við Grandagarð 8 október 2016.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

24.10.2016 10:42

B. v. Baldvin NC 100. DFIA.

Baldvin NC 100 var smíðaður hjá Szczecinska Stocznia Remontow Gryfia S.A. í Szczecin í Póllandi og smíðinni síðan lokið hjá Simek A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1992 sem 2165. Baldvin Þorsteinsson EA 10 fyrir Samherja h/f á Akureyri. Smíðanúmer 78. 995 brl. 3.589 ha. Wichmann vél, 2.640 Kw. Skipið var selt 2 maí 2002, Deutsche Fischfang Union í Cuxhaven í Þýskalandi sem er dótturfyrirtæki Samherja. Fékk nafnið Baldvin NC 100. Ný vél (2005) 4.077 ha. MaK vél. Skipið var lengt um 14 metra árið 2014 og mælist nú 1.906 bt. Togarinn er gerður út af DFFU í Cuxhaven í Þýskalandi í dag.


Baldvin NC 100 að koma til hafnar á Dalvík.                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Baldvin NC 100 á Dalvík.                                                          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Baldvin NC 100.                                                                      (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Baldvin NC 100 við slippbryggjuna á Akureyri.                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2165. Baldvin Þorsteinsson EA 10. Líkan.                      (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

         Baldvin Þorsteinsson EA 10

Nýr skuttogari bættist við flota Akureyringa 20. nóvember, er b/v Baldvin Þorsteinsson EA 10 kom til heimahafnar í fyrsta sinn. Skipið er nýsmíði nr. 78 frá SIMEK A/S, Flekkefjord í Noregi, og var afhent frá stöðinni 12. nóvember.
Skrokkur skipsins er smíðaður í Póllandi hjá skipasmíðastöðinni Szczecin Ship Repair Yard "Gryfia". Hönnun skipsins var samvinna eiganda (Samherja), Teiknistofu Karls G. Þorleifssonar, Skipatækni hf., og SIMEK A/S, en línuhönnun unnin af Marintek í Þrándheimi. Þetta er þriðja fiskiskipið sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, hin fyrrí eru Ýmir HF og Snæfell EA (nú Hrafn Sveinbjarnarson GK). Baldvin Þorsteinsson EA er frystitogari með búnað til flakavinnslu.
 Skipið er búið kældum blóðgunarkörum sem er nýjung í skipi hérlendis. Skipið er smíðað í ísklassa 1B (heildarklassa) hjá Det Norske Veritas, sem er umfram það sem tíðkast hefur fyrir fiskiskip hérlendis. Þá er togþilfar skipsins búið fyrir þrjár vörpur undirslegnar. Skipið er annað stærsta fiskiskip flotans, en Vigri RE, sem fjallað var um í 9. tbl., er stærri.
Á móti hinu nýja skipi úreldir útgerðin skuttogarann Þorstein EA (1393), tvö stálfiskiskip, Búrfell KE (17) og Þorlák Helga EA (200), auk þess lítinn trébát. Baldvin Þorsteinsson EA er í eigu Samherja hf, Akureyri. Skipstjóri á skipinu er Þorsteinn Vilhelmsson og yfirvélstjóri Baldvin Loftsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Þorsteinn Már Baldvinsson.

Ægir 11 tbl. 1992.

      BALDVIN NC LENGDUR UM 14 METRA


Togarinn Baldvin NC 100, sem er í eigur dótturfélags Samherja, Deutsche Fischfang Union, var lengdur í Póllandi um 14 metra og verður breytingum á skipinu lokið í Slippnum á Akureyri, meðal annars verður komið fyrir ýmsum vinnslubúnaði. Hluti búnaðarins er íslenskur. Baldvin NC 100 hét áður Baldvin Þorsteinsson EA og var þá gerður út af Samherja. Meðfylgjandi mynd var tekin af Baldvin við bryggju á Akureyri.
Íslenskir iðnaðarmenn unnu að breytingunum í Póllandi, meðal annars iðnaðarmenn frá Akureyri.

Vikudagur.is 25 apríl 2014.

23.10.2016 10:08

212. Sæþór ÓF 5. TFDZ.

Sæþór ÓF 5 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1960 fyrir Hraðfrystihús Ólafsfjarðar h/f á Ólafsfirði. Stál. 155 brl. 460 ha. Deutz díesel vél. Skipið var selt 25 janúar 1973, Haferninum h/f á Akranesi, hét Sæfari AK 171. Var endurmælt 23 ágúst 1973, mældist þá 127 brl. Ný vél (1977) 490 ha. Deutz díesek vél. Selt 29 september 1977, Erlingi h/f í Vestmannaeyjum, hét Erlingur Arnar VE 124. Selt 7 ágúst 1980, Hafnfirðingi h/f í Hafnarfirði, hét Hringur GK 18. Endurmælt árið 1980, mældist þá 132 brl. Selt 17 mars 1981, Hilmari Magnússyni og Oddi Sæmundssyni í Keflavík, hét Vatnsnes KE 30. Selt árið 1985, Guðmundi Axelssyni og Helga Hermannssyni í Keflavík, hét Axel Eyjólfsson KE 70. Skipið var lengt árið 1986. 2 apríl 1987 er Guðmundur Axelsson í Keflavík skráður eigandi. Fær nafnið Skagaröst KE 70 árið 1988. Skipið var yfirbyggt sama ár og ný vél (1988) 866 ha. Caterpillar vél. Skipið var endurmælt í september 1988, mældist þá 187 brl. Selt 23 mars 1990, Ingimundi h/f í Reykjavík, hét Ögmundur RE 94. Selt til Grænlands og tekið af skrá 22 desember 1994.


Sæþór ÓF 5.                                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

      Nýtt stálskip til Ólafsfjarðar í gær

 Í morgun kl. 10.30 sigldi hér inn höfnina nýtt vélskip, fánum skrýtt. Skip þetta heitir Sæþór ÓF 5 og er eign Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar h.f. Það er smíðað í Risör í Suður-Noregi og er úr stáli, 155 smálestir að stærð og með 460 hestafla Deutsch-dieselvél. Ganghraði skipsins reyndist 10,7 sjómílur á leiðinni upp, en 11,8 sjómílur í reynsluför. Skipið er búið öllum nýjustu og beztu siglingatækjum og frágangur allur mun vera hinn vandaðasti jafnt ofan þilja sem neðan. Bærinn var allur fánum skrýddur í tilefni komu skipsins og var því fagnað með ræðuhöldum og söng. Ræður fluttu Ásgr. Hartmannsson, bæjarstjóri Bauð hann skip og skipshöfn velkomið til landsins og séra Kristján Dúason bað fyrir skipi og skipshöfn, sem verða á því. Karlakór Ólafsfjarðar fagnaði Sæþór með söng. Ásgeir Ásgeirsson, framkvstj. Hraðfrystihúss Olafsfjarðar h.f. þakkaði af skipsfjöl hlýjar og góðar móttökur og lýsti gerð skipsins. Bauð hann öllum viðstöddum að skoða það. Eftir hádegi var skólabörnum barna og unglingaskólans boðið í siglingu um fjörðinn. Skipstjóri á Sæþór er Gísli M. Magnússon, en 1. vélstjóri Kristján Jónsson. Hafa þeir báðir dvalið undanfarið í Noregi og fylgzt með lokasmíði skipsins.

Tíminn 5 janúar 1961.

22.10.2016 09:50

2850. Skálaberg RE 7. TFKV.

Skálaberg RE 7 var smíðaður hjá Shipyard N.A. 61 Communara í Nikolayev í Úkraínu en skipið klárað hjá Kimek A/S í Kirkenes í Noregi árið 2003 fyrir J.F.K. Trol p/f í Klaksvík í Færeyjum, hét Skálaberg KG 118. 3.695 bt. 10.728 ha. Wartsiila NSD 16V32 vél, 8.000 Kw. Selt 18 janúar 2010, Patagonia y Antártida S.A. Rebautizado í Argentínu, skipið hét Esperanza Del Sur. Skipið var selt 30 október 2012, Brimi h/f í Reykjavík, hét Skálaberg RE 7. Skipið var selt 13 júní 2014, Arctic Prime Fisheries í Qaqortoq á Grænlandi og heitir í dag Ilivileq GR-2-201.


Skálaberg RE 7 í Las Palmas á Kanaríeyjum 5 mars 2013.                                      (C) Patalavaca.


Skálaberg RE 7 við Miðbakka Reykjavíkurhafnar.                                         (C) Anna Kristjánsdóttir.


Skálaberg KG 118.                                                                                     (C) ShipSpotting.com


Esperanza Del Sur.                                                                                       (C) Miguel A Caldeano.

           Skálaberg RE 7 á heimleið

Skála­berg RE 7, frysti­tog­ari sem Brim hf. keypti í fyrra­haust, er nú á heim­leið frá Las Palmas á Kana­ríeyj­um og er vænt­an­legt til Reykja­vík­ur á morg­un. Guðmund­ur Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri Brims, seg­ir að framund­an sé að end­ur­skipu­leggja milli­dekk skips­ins og taki sú vinna um einn mánuð. "Von­andi verður kom­in á skyn­sam­leg sjáv­ar­út­vegs­stefna með nýrri rík­is­stjórn þegar þeirri vinnu verður lokið," seg­ir Guðmund­ur.

Brim hf. keypti skipið frá Arg­entínu í sept­em­ber í fyrra og var kaup­verðið um 3,5 millj­arðar króna. Það var smíðað í Nor­egi 2003 fyr­ir fær­eyskt út­gerðarfé­lag, en er á meðal nýj­ustu skut­tog­ara Íslend­inga. Skála­bergið var gert út frá Fær­eyj­um og und­ir því nafni til árs­ins 2010 er það var selt til Arg­entínu. Skipið er 74,50 metra langt, 16 metra breitt og er 3.435 brúttó­lest­ir. Skipið er vel búið tækj­um og frystigeta þess er 100 tonn á sól­ar­hring. Það er m.a. sér­stak­lega styrkt til sigl­inga á norðlæg­um slóðum.
Guðmund­ur seg­ir ekki liggja fyr­ir hvenær skipið fari á veiðar, á næstu vik­um komi í ljós hver þró­un­in verði í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Hann gagn­rýn­ir fyr­ir­komu­lag veiðigjalda og seg­ir aðeins hluta af fyr­ir­tækj­um greiða fullt gjald. Í því sam­bandi nefn­ir hann að rang­ir þorskí­gild­isstuðlar mis­muni fyr­ir­tækj­um og stuðst sé við und­ar­legt af­slátt­ar­kerfi vegna skulda.

Morgunblaðið 15 maí 2013.

           Skálaberg selt til Grænlands

Frystitogari Brims hf, Skálaberg RE 7 hefur verið seldur til Grænlands á næsta ári. Kaupandi er Artic Prime Fisheries í Qagortog, en Brim á minnihluta í fyrirtækinu.
Skipið verður gert út frá Grænlandi með þarlendri og íslenskri áhöfn. Brim keypti togarann fyrir þrjá og hálfan milljarð króna frá Argentínu fyrir rúmu ári. Skálberg RE 7, er eitt fullkomnasta veiðiskip íslenska flotans. Það kom hingað til lands í maí, en hefur legið hér við bryggju í Reykjavík allar götur síðan. "Þegar við keyptum það, þá höfðum við trú á því innan íslensku lögsögunnar, en núna er ekki rekstrargrundvöllur fyrir þetta skip á Íslandi og það verður selt erlendis á næsta ári," segir Guðmundur. 
Guðmundur segir að það sé breytt landslag í sjávarútveginum. "Aðalatriðið er það að nú er farið að skattleggja sjávarútveginn eftir þorskígildisstuðlum. Eina sem þeir segja er verðmæti þorsktefunda yfiir hafnarkantinn og að skattleggja okkur eftir því gerir rekstur svona stórra og dýrra skipa vonlausan á Íslandi. Það er ekkert tekið tillit til fjárfestingarinnar í þessari fjárfestingu. Þetta er annað árið hjá okkur núna sem við erum að ganga í gegnum þetta og við sjáum ekki grundvöllinn lengur."

ruv.is 17 desember 2013.21.10.2016 10:34

Fylkir NK 46.

Fylkir NK 46 var smíðaður af Pétri Vigelund í Neskaupstað árið 1930. Eik. 22 brl. 42 ha. Alpha vél. Eigandi var Verslun Sigfúsar Sveinssonar í Neskaupstað frá 2 maí 1930. Ný vél (1939) 80 ha. Alpha vél. Báturinn var seldur 15 janúar 1943, Hauki Ólafssyni í Neskaupstað. Seldur Einari Waag í Klaksvík í Færeyjum, hét Fylkir KG 116. Seldur árið 1949, Gunnari Haldansen í Vestmanna, Færeyjum, hét Sigursteinur VN 319. Seldur árið 1952, Nicolaj Nysted í Hvannasund, Færeyjum, hét Justa Jógvan KG 115. Seldur árið 1955, Arhold Jacobsen í Saurvogi, Færeyjum, hét Rógvakollur VA 123. Ný vél (1957) 76 ha. tegund óþekkt. Seldur árið 1959, Jens Rasmussen í Saurvogi, sama nafn og númer. Bátinn rak á land og sökk við Skopun í Færeyjum, 11 febrúar árið 1967.


Fylkir NK 46 í bóli sínu á Norðfirði.                                                                   (C) Björn Björnsson.


Rógvukollur VA 123                                                                                         (C) www.vagaskip.dk

20.10.2016 09:46

Fríða RE 13. LBPT.

Kútter Fríða RE 13 var smíðuð hjá William McCann´s Shipyard on Carrison Side í Hull árið 1884 fyrir Richard Simpson & George Bowman í Hull. Hét fyrst City of Edinboro H 1394. Eik 83 brl. Geir Zoega útgerðar og kaupmaður í Reykjavík kaupir skipið 21 febrúar árið 1897, ásamt fjórum öðrum kútterum, bæði fyrir sjálfan sig, tengdason sinn og fl. Seld árið 1908, Sjávarborg í Hafnarfirði, sama nafn. Selt í nóvember 1913, Niels Juel Mortensen í Færeyjum, hét Fríða TG 546. Fær nýtt nafn árið 1924, hét þá Solvaborg TG 546. Selt árið 1943, Ola Olsen í Vestmanna í Færeyjum, hét Solvasker VN 304. Fékk nýtt nafn árið 1957, hét Sjoborgin FD 48. Einnig var sett díesel vél í skipið sama ár, óvíst um stærð og gerð. Selt árið 1962, Hans Petur Hojgaard, sama nafn. Skipið var selt árið 1980, Dr. Henry Irvine sem flytur það til Hull og það gert upp í upprunalegri mynd, en heldur vélinni. Nýtt nafn árið 1984, William McCann, til heiðurs þeim er byggði skipið. Árið 1994 var eigandi skipsins William McCann Trust í Hartlepool í Englandi. Árið 1996 fær skipið sitt fyrsta nafn, City og Edinboro og í kjölfarið flutt til Lowestoft. Selt árið 2000, Excelsior Trust og bíður þess að vera gert upp. Fleiri upplýsingar hef ég ekki um kútter Fríðu RE 13, hvort skipið hafi verið gert upp og gert að safni, en vonandi hefur það verið gert.


Fríða RE 13.                                                              Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip.


William McCann H 1394 í slipp í Grimsby.                                                              (C) Steve Farrow.


William McCann H 1394.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


City of Edinboro í slipp í Hull.       Ljósm: óþekktur.


City of Edinboro H 1394.                                                                    Höfundur teikningar óþekktur.

19.10.2016 11:21

Seagull RE 84. LBJQ.

Kútter Seagull RE 84 var smíðaður í Englandi (Hull ?) árið 1887. Eik 86 brl. Eigendur voru Þorsteinn og Björn Guðmundssynir og Hjalti Jónsson skipstjóri (Eldeyjar Hjalti) í Reykjavík frá árinu 1903. Þeir keyptu Kútterinn frá Hull í Englandi. Skipið var lengi í eigu Jes Zimsens kaupmanns í Reykjavík, en var síðast í eigu H.P. Duus verslunar. Seagull var seldur árið 1922, Christian Christiansen í Þórshöfn í Færeyjum, sama nafn. Seldur 1926, Jógvan Johansen í Vestmanna í Færeyjum, hét Seagull VN 219. Seldur árið 1944, p/f Barmi í Miðvági í Færeyjum, hét Seagull VA 146. Seldur árið 1956, Michael Petersen í Saurvogi, sama nafn og númer. Skipinu var lagt og það síðan rifið í Selvík, Færeyjum í júlí árið 1977.


Kútter Seagull RE 84 á Reykjavíkurhöfn.                                                         (C) Magnús Ólafsson.


Kútter Seagull VA 146.                                                                                  (C) www. vagaskip.dk

        Seagull hætt kominn í ofsaveðri

Hinn 3 mars árið 1922 geisaði ofsarok um sunnanvert landið. Þilskipið Seagull, eign Duusverslunar, var statt á miðum úti undan suðurströndinni, þegar rokið skall á. Fékk það á sig brotsjó, sem sópaði öllu lauslegu af þilfari, lagði skipið á hliðina, braut skipsbátinn og fleygði honum á sjó út. Tveir menn slösuðust mjög mikið. Lifði annar af , en hinn lést úr sárum. Hafði annar legið í rúmi sínu, þegar brotsjórinn reið yfir, en lamist harkalega við þiljurnar vegna kasts þess, sem á skipið kom. Hinn varð fyrir eldavél skipsins. Fleiri skipverjar meiddust, þótt minna væri. Seagull lá lengi á hliðinni og varð engri björg komið við í fyrstu, en loks réttist skipið, án þess að meira slys yrði. Komst það til Reykjavíkur, er veðrinu slotaði, með rifin segl og illa til reika að öðru leyti.

Heimildir: Skútuöldin.
              www.vagaskip.dk
              Danskar skipaskrár.

18.10.2016 11:26

B. v. Garðar Þorsteinsson GK 3. TFDE.

Garðar Þorsteinsson GK 3 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði. Smíðanúmer 790. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f. Togarinn var seldur til Englands og tekinn af skrá 7 júní árið 1973.


75. Garðar Þorsteinsson GK 3.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

             Garðar Þorsteinsson kom í gær

Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði. lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.

Morgunblaðið. 22 júní 1948.
17.10.2016 12:16

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC.

Egill rauði NK 104 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar í Neskaupstað. Smíðanúmer 716. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var sjósettur 24 janúar árið 1947 og kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar 12 júlí sama ár. Í fyrstu veiðiferð skipsins var haldið á fjarlæg mið, þ.e. í Hvítahaf. Á árunum 1948-50, stunduðu togararnir talsvert veiðar á norðlægum slóðum, við Bjarnarey, í Barentshafi og í Hvítahafi eins og komið hefur fram hér að ofan. Oft á tíðum með misjöfnum árangri, eins og kemur fram í greininni hér að neðan í viðtali við Stefán Ágústsson, sem var loftskeytamaður á Agli á þessum árum. Á myndinni, sem tekin er á árinu 1948, er Egill rauði við innri bæjarbryggjuna á Norðfirði ásamt Draupni NK 21, sem smíðaður var í Svíþjóð árið 1942.

Egill rauði NK 104 við bryggju á Norðfirði ásamt Draupni NK 21.                     (C) Björn Björnsson. 

 Egill rauði NK að veiðum við Bjarnarey og í Barentshafi

í ágúst árið 1948 hélt Egill rauði NK, fyrsti togari Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, til veiða í Barentshafi en snéri heim með öngulinn í rassinum. Um borð var Stefán Ágústsson loftskeytamaður. "Við vorum að veiðum þar sem nú er kallað "Smugan" en áttum í byrjunarörðugleikum með spilið og þegar það bilaði í miðjum túr neyddumst við til að snúa heim." Hann kveðst ekki vita til þess að skip sem stunduðu veiðar á þessum slóðum hafi orðið fyrir miklum óþægindum sakir þess. Að vísu rekur hann minni til þess að heimamenn í Honningsvág í Noregi hafi verið afundnir mjög þegar Egill hugðist taka þar kost og ekki afgreitt olíu nema gegn því skilyrði að togarinn héldi rakleiðis heim. Stefán telur þetta hafa stafað af því að togarinn var við veiðar á viðkvæmum slóðum, nánar tiltekið í "Smugunni".
Að sögn Stefáns var togaraflotinn í Barentshafi fjölþjóðlegur á þessum árum. "Við áttum góð samskipti við færeysku togarana á miðunum en náðum litlu sambandi við þá bresku og rússnesku. Bretar höfðu leyfi til að veiða mun nær rússneskri lögsögu en aðrir og því voru þeir á öðrum slóðum. Rússarnir voru hins vegar á kafí í kalda stríðinu og sýndu okkur bara fyrirlitningu þegar þeir sigldu framhjá. Ég gerði tilraun til að ná sambandi við þá á morsinu en þeir sögðu mér bara að þegja!" Árið 1950 veiddu íslensk skip yfir 6.500 tonn af þorski við Bjarnarey, Svalbarða og Norður Noreg. Á þessum tíma reis þorskveiði Íslendinga á þessum norðlægu slóðum hæst. Árið eftir komu tæp 2.400 tonn upp úr sjó og tæp 3.300 árið 1952.
Egill rauði fór í annan túr árið 1950 og þá var stefnan sett á Bjarnarey. Stefán segir að ógrynni skipa hafi stundað veiðar við eyna á þessum tíma, þar á meðal um tíu íslensk, sem öll fiskuðu í salt. "Ég man ekki til þess að gerðar hafi verið athugasemdir við þessar veiðar." Þrátt fyrir að miðin hafi reynst gjöful þetta árið voru aflabrögð Norðfjarðartogarans ekki sem skyldi. "Fiskurinn var afskaplega smár við Bjarnarey á þessum tíma. Þar að auki var hann fullur af þara og lyktaði svoleiðis að maður náði varla andanum." Stefán segir að þetta hafi leitt til þess að haldið var lengra austur á bóginn í átt að Novaya Zemlya.
Þótt lítið fískirí hafí verið leiddist skipverjum á Agli ekki þófið, þökk sé "Bjarnareyjarútgáfunni". Stefán loftskeytamaður notaði morstækið, sem var lykillinn að sambandi skipsins við umheiminn, til að þiggja upplýsingar frá starfsbróður sínum í Reykjavík um málefni líðandi stundar. Hann vélritaði síðan fréttirnar upp og leyfði skipverjum að njóta. "Þetta var eins og vatn í þurra jörð," segir Stefán og fullyrðir að ekki hafi vinsældir fréttablaðsins dvínað eftir að hann fór að lauma ýmsum staðbundnum fréttum inn á milli. Stefán telur framkomu Norðmanna vegna veiða íslendinga á þessum sömu slóðum í dag furðulega. "Ég skil svo sem ákaflega vel það viðhorf Norðmanna að vilja búa að þessu einir. Þeir eiga hins vegar engan lagalegan rétt á því.

Morgunblaðið 4 september 1994. /
viðtal við Stefán Ágústsson loftskeytamann á Agli rauða NK.


16.10.2016 09:00

Ver GK 3. LBMQ. / TFXC.

Ver GK 3 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Ver GK 3 við bryggju á Seyðisfirði.                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Brimir NK 75 við bryggju í Neskaupstað.                                                             (C) Björn Björnsson.


Brimir NK 75.                                                                                   Málverk Sigríðar Lúðvíksdóttur. 


Helgafell RE 280.                                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

15.10.2016 10:33

70. Gullfoss ll. TFGA.

Gullfoss var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1950 fyrir Eimskipafélag Íslands. Smíðanúmer 702. 3.858 brl. 4.025 ha. B&W vél, 2.960 Kw. Gullfoss var í föstum áætlunarferðum milli Reykjavíkur, Leith og Kaupmannahafnar. Kom við í Hamborg öðru hverju, einkum á vetrum og á seinni árum einnig í Þórshöfn í Færeyjum. Veturinn 1950-51 var hann leigður til farþega og vöruflutninga milli Bordeaux í Frakklandi og Casablanca í Marokkó. Fór nokkrar ferðir með skemmtiferðafólki til Kanaríeyja, Madeira og Miðjarðarhafsins. Í eldgosinu á Heimaey í Vestmannaeyjum 1973 var Gullfoss notaður sem fljótandi bækistöð fyrir björgunarmenn. Vegna aukinnar samkeppni flugfélaga um farþega brást rekstrargrundvöllur skipsins á síðustu árum þess og var því lagt í Reykjavíkurhöfn á vetrum, en var í ferðum á sumrum. Af sömu ástæðu var Gullfoss seldur úr landi í október 1973, Fouad  A. Khayat & Co í Beirút í Líbanon, hét þar Leban. Selt nokkrum dögum síðar, Orri Navigation Lines í Saudi Arabíu, hét Mecca, var skráð á Kýpur en árið 1975 var skipið skráð í Saudi Arabíu. 18 desember 1976 kom upp eldur í skipinu þar sem það var í pílagrímssiglingu á Rauðahafi um 17 sjómílur undan landi í Jeddah í Saudi Arabíu. Skipið eyðilagðist og rak á land daginn eftir skammt sunnan við borgina, lagðist það á hliðina og sökk þar. Mannbjörg varð. Gullfoss var eitt glæsilegasta skip Íslendinga og eiga margir góðar minningar af ferðum með skipinu.


Gullfoss á Norðfirði árið 1950.                                                                            (C) Björn Björnsson.


Gullfoss á siglingu við upphaf eldgoss í Surtsey, 17 nóvember 1963.                       Mynd á póstkorti.

  Ísland fagnaði Gullfossi í fegursta veðri

 Stærsta farþegaskip Íslendinga kom til Reykjavíkur í gærdag

Þegar Gullfoss sigldi fánum skreyttur inn Faxaflóa í gærmorgun var veður hið fegursta, logn, glaða sólskin og varla skýhnoðri á lofti. Á glæsilegri móttökur var varla kosið af hálfu Fjallkonunnar. Klukkan 12,30 var skipið komið rjett inn fyrir Garðskaga. Þar mætti frjettamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins því og tók af því fyrstu myndirnar, sem teknar voru af því á Íslandi. Voru þær teknar úr flugvjel.
Þegar flugvjelin sveimaði yfir skipinu og í kring um það fór það með hægri ferð. Gullfoss ætlaði sjer ekki að vera kominn að Gróttu fyrr en kl. 13 og lá því ekkert á. Sáust farþegar á gangi á þilförum skipsins í góða veðrinu. Um klukkan 11 f. h. höfðu fjögur skip Eimskipafjelagsins, Goðafoss, Brúarfoss, Fjallfoss og Selfoss, sem lágu í Reykjavíkurhöfn leyst landfestar og haldið út Faxaflóa til móts við Gullfoss. Mættu þau honum úti í flóanum og sneru síðan við með honum til lands. Var það hin fegursta sýn er þessir 5 "Fossar" beindu stefnum að landi.
Morgunblaðið fór í prentun kl. 4 í gær og getur því ekki að þessu sinni sagt frá hinum hátiðlegu móttökum, sem undirbúnar höfðu verið. En ráðgert var að Gullfoss legðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn kl. 5 síðdegis. Þar átti siglingamála ráðherra Ólafur Thors m. a. að halda ræðu. Voru skip öll í höfninni fánum skreytt. Frjettaritstjóri Mbl. ívar Guðmundsson, sem eins og kunnugt er, var farþegi með skipinu, átti tal við blaðið er Gullfoss var kominn að Gróttu og sagðist honum þannig frá: Áhrifamesta stundin fyrir farþega og áhöfn Gullfoss í fyrstu ferð hans var, er fjögur Eimskipafjelagsskip sigldu á móti honum í Faxaflóa um hádegisbil í dag. í stafalogni og sólskini sigldi Gullfoss inn flóann. Farþegar höfðu setst að snæðingi, en þá var tilkynnt gegnum hátalara skipsins, að von væri fjögurra skipa til þess að taka á móti Gullfossi. Allir stóðu upp frá borðum og þustu upp á þiljur til þess að sjá hina tignarlegu sjón, er skipin sigldu út skreytt hátíðarflöggum, hvert á eftir öðru  fyrst Goðafoss, þá Brúarfoss og síðan Fjallfoss, en Selfoss rak lestina.
Um leið og hvert skip fór fram hjá Gullfossi, þeytti það flautu sína og heilsaði með fánanum að sjómannasið, en svarað var á sama hátt frá Gullfossi. Fyrsta kveðjan, sem Gullfoss fjekk í morgun, var er Gullfaxi, millilandaflugvjel Flugfjelags Íslands, flaug á móti skipinu út af Reykjanesi um níu leytið. Fór flugvjelin hring í kringum skipið, en flaug síðan á móti því og fram hjá í jafnhæð skipsins, svo greinilega mátti sjá áhöfn og farþega um borð í vjelinni. Skömmu síðar barst heillaóskaskeyti frá flugstjóranum, Sigurði Ólafssyni, til skipstjóra og skipshafnar á Gullfossi. Gullfoss kom upp að landinu um þrjú leytið aðfaranótt laugardags. Var þá auðsjeð, að ef skipið sigldi með sama hraða, mundi það verða langt á undan aætlun til Reykjavíkur. Var því tekið það ráð að hægja ferðina og komið á ytri höfnina í Reykjavík um kl. 1, eins og áætlun stóð til.

Morgunblaðið 21 maí 1950.

Heimildir: Skipstjórar og skip ll.
              Eimskipafélag Íslands í 100 ár.


14.10.2016 10:12

2038. Haukafell SF 111. TFEV.

Haukafell SF 111 var smíðað hjá Carnave S.A. í Aveiro í Portúgal árið 1990 fyrir Haukafell h/f á Höfn í Hornafirði. Smíðanúmer 133. Stál. 150 brl. 993 ha. Stork vél, 730 Kw. Skipið var selt 13 janúar árið 1995, Brumark hvalfiske á eyjunni Fjörtoft í Romsdal í Noregi, hét þar Brodd M-80-H. Skipið var svo selt til Færeyja og var m.a. í eigu P/F Hvannadalur í Vági og bar nöfnin Nesborg l TG 697 og Nesborg l TG 7.

Haukafell SF 111.                                                        (C) Snorri Snorrason. Mynd á gömlu dagatali. 

          Haukafell SF selt til Noregs

HAUKAFELL SF 111 hefur nú verið selt til Noregs fyrir um 99 milljónir króna. Skipið var keypt nýtt hingað frá Portúgal og kostaði við komuna 171 milljón króna um mitt ár 1990. Auk söluverðs fá eigendur Haukafellsins 90 milljónir króna í úreldingarstyrk. Útgerðin heldur kvótanum eftir, um 755 þorskígildistonnum, sem er um 100 milljóna virði.

Haukafellið verður afhent nýjum eigendum Brumark hvalfiske í Fjortoft í Reykjavík þann 16. þessa mánaðar. Nýtt nafn Haukafellsins verrður Brodd og mun það stunda veiðar á ufsa við Noreg.
Haukafellið kom til landsins um mitt ár 1990 og hafa þeir Guðmundur Eiríksson og Axel Jónsson gert skipið út í félagi síðan og hefur Axel verið skipstjóri á skipinu. Haukafellið er 162 tonn að stærð og hefur verið gert út á humar og fiskitroll með þeim árangri sem knappur kvóti leyfir að sögn Axels.
Axel segir að óvíst sé hver framvindan verði. Kvótinn verði leigður fyrst í stað, ekki sé ákveðið hvort annað skip verði keypt. Eitt að því, sem auki óvissuna sé, að ekki sé leyfilegt að frysta humar um borð. "Með því gætum við tvöfaldað aflaverðmætið, en fáum það ekki. Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að sjávarútvegsráðherra geti ákveðið hvað megi gera í þeim efnum. Hann má sem sagt banna humarfrystingu úti á sjó en leyfa að frysta allar aðrar tegundir. Eins og staðan er í dag, hef ég mestan áhuga á því að kaupa mér hrefnuveiðibát," segir Axel Jónsson.
Þess má geta að útgerðarfélagi Axels, Guðmundur Eiríksson, hefur selt annan bát, Ásgeir Guðmundsson SF 112, til Raufarhafnar. Báturinn er búinn til línuveiða og er beitingarvél um borð. Hann er 214 tonn að stærð og um borð er lausfrystir, lóðrétt frystitæki og rækjuvinnslulína.

Morgunblaðið 7 janúar 1995.


13.10.2016 11:19

Huginn ll ÍS 92. TFCK.

Huginn ll ÍS 92 var smíðaður í Korsör í Danmörku árið 1934 fyrir Hlutafélagið Huginn á Ísafirði. Eik. 59 brl. 150 ha. Völund vél. Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950. Huginn ll átti sér tvö systurskip, sömu útgerðar, en þau hétu Huginn l ÍS 91 og 607. Huginn lll ÍS 93.


Huginn ll ÍS 92 að landa síld á Siglufirði.                        Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

         Hlutafélagið Huginn á Ísafirði

Árið 1934 hóf nýtt hlutafélag, er Huginn nefndist, starfsemi. Helsti hvatamaður að stofnun þess var Björgvin Bjarnason, og fékk hann til liðs við sig ýmsa þekkta gorgara og fyrirtæki á Ísafirði sem tengdust sjávarútvegi, Íshúsfélag Ísfirðinga, Íshúsfélagið Jökul og Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga. Félagið lét smíða í Danmörku þrjá báta, sem hétu Huginn l, ll og lll, og komu hinir fyrstu tveir til Ísafjarðar árið 1934, en hinn þriðji árið eftir. Huginn l var 57 brl. að stærð, en hinir tveir 59 brl. hvor, og var þeim öllum haldið jöfnum höndum til þorsk og síldveiða. Skipstjórar voru þeir Ragnar Jóhannsson á Huganum l, Guðbjörn Jónsson á Huganum ll og Indriði Jónsson á Huganum lll. Björgvin Bjarnason var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

Heimild: Víkingur 13-14 tbl. 1940.
Flettingar í dag: 390
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 1114
Gestir í gær: 409
Samtals flettingar: 399230
Samtals gestir: 66281
Tölur uppfærðar: 27.10.2016 10:36:50