23.03.2017 22:40

2730. Margrét EA 710. TFCR.

Margrét EA 710 var smíðuð hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1998. 1.271 brl. 11.257 ha. Wartsiila díesel vél, 8.280 Kw. Smíðanúmer 169. Eigandi var Samherji h/f á Akureyri frá árinu 2006. Hét áður Selene LK 297. Skipið var selt í maí 2010, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað, hét Beitir NK 123. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 18 desember árið 2013.


2730. Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2730. Beitir NK 123.                                                                               (C) Jóhann Ragnarsson.

     Nýtt skip til Neskaupstaðar


Norðfirðingar tóku í dag á móti nýju skipi Beiti NK 123 sem skapar ný störf á sjó og í landi.
Í Fjarðabyggð er sjómannadeginum fagnað alla helgina. Í morgun héldu börnin í Neskaupstað niður á bryggju og tóku þátt í dorgkeppni. Verðlaun fengust fyrir stærsta, þyngsta og ljótasta fiskinn. Og einnig fyrir mesta aflann. Fullorðna fólkið lauk íslandsmeistaramóti í sjóstangveiði og var handagangur í öskjunni þegar aflinn var vigtaður.
Eftir hádegið voru svo skipsflautur þeyttar úti á firðinum. Nýr Beitir sigldi í höfn en sá gamli fór í niðurrif fyrir nokkrum árum. Nýja skipið var keypt af Samherja og hét áður Margrét EA. Það var Sigurjón Valdimarsson, fyrsti skipstjórinn hjá útgerð Síldarvinnslunnar, sem gaf skipinu nafn.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í móttökuræðu sinni að Síldarvinnslan væri eitt af kvótahæstu félögum landsins í uppsjávarfiski og að hún ætti eitt öflugasta uppsjávarfrystihús í heimi. Koma skipsins myndi auka enn á möguleika til frekari manneldisvinnslu í frystihúsinu. Skipið var smíðað í Noregi árið 1998. Það er 71 metri á lengd og 13 metra breytt. Vélin er 11.500 hestöfl. Alls eru 16 manns í tvískiptri áhöfn.

Rúv. 5 júní 2010.

22.03.2017 13:50

2. m. Kt. Boðasteinur FD 493. OXMO.

Kútter Boðasteinur FD 493 var smíðaður hjá Smith Stephenson & Co í Grimsby á Englandi árið 1880 fyrir Henry C Rhodes í Cleethorpes (Grimsby) á Englandi. Eik. 79 brl. 113 ha. vél (gerð óþekkt). Hét áður Star of Hope. Skipið var selt árið 1913, Rasmus Rasmussen í Fuglafirði í Færeyjum, sama nafn en fær skráningarnúmerið FD 493. Seldur árið 1929, J. Haraldsen í Fuglafirði, fær nafnið Boðasteinur FD 493. Selt árið 1955, L/F Eysturvirkið í Norðdepil í Færeyjum, hét Eysturgerðin KG 150. Selt árið 1958, Rasmus Rasmussen í Fuglafirði, fær sitt gamla nafn aftur, Star of Hope FD 493. Selt árið 1959, Hans Jákup Frederiksen í Múla á Borðey í Færeyjum, hét Star of Hope KG. Skipið var talið ónýtt og því sökkt í Haraldssundi á milli Kuneyjar og Borðeyjar árið 1961. Boðasteinur stundaði mikið veiðar við Ísland, bæði síld og handfæraveiðar á árunum 1940 til 50. Hann var tíður gestur á Norðfirði og landaði þar mikið síld og svo var hann í fiskiflutningum, tók fisk af öðrum Færeyskum kútterum og sigldi með þann afla til Englands. Í janúar árið 1945 gerði norðvestan ofsarok á Norðfirði með þeim afleiðingum að olíubryggja BP, sem einnig var kölluð gúanóbryggjan og var líka löndunarbryggja Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar, brotnaði í spón. Boðasteinur var þá við bryggjuna og vélbáturinn Garðar Svavarsson NS 400 frá Seyðisfirði, smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1924. Garðar slitnaði frá bryggjunni og rak upp í fjöru og sökk. Boðastein rak með bryggjuleyfunum en tók niðri áður en hann rak upp í fjöru. Ekki urðu miklar skemmdir á honum. Garðar Svavarsson náðist fljótlega á flot og var gerður upp.


Boðasteinur FD 493 á leið inn Norðfjörð með fullfermi síldar.                            (C) Björn Björnsson.


Kútter Star of Hope FD 493.                                                                   (C) Finn Björn Guttesen.


Boðasteinur FD 493 við leyfar bryggjunar.Vélbáturinn Garðar Svavarsson NS 400 upp í fjörunni hálf sokkinn.                                                                                                      (C) Björn Björnsson.

Garðar Svavarsson hálf sokkinn upp í fjöru og Boðasteinur strandaður. Mynd úr Austurlandi frá 1972.                                                                                  
                                                                                   .

21.03.2017 13:29

M. b. Richard ÍS 549. TFGL.

Richard ÍS 549 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1940 fyrir h/f Björgvin á Ísafirði. Eik. 90 brl. 2 x 88 ha. Kelvin vélar. Skipið var endurmælt í júní 1947, mældist þá 84 brl. Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950. Það var Íslensk útgerð sem keypti Richard ásamt þremur öðrum skipum og stunduðu þar línuveiðar uns útgerðin fór í þrot og skipin seld á uppboði. Hin skipin þrjú voru, Grótta ÍS 580, Huginn l ÍS 91 og Huginn ll ÍS 92. Allir voru þessir bátar frá Ísafirði.


Richard ÍS 549 á pollinum á Ísafirði.                                                  Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


Richard ÍS 549 í smíðum á Ísafirði árið 1939-40.                                                 (C) M. Simson.


Richard ÍS 549 í smíðum á Ísafirði árið 1939-40.                                                  (C) M. Simson.

             M. b. Richard ÍS 549

    Annar stærsti báturinn sem smíðaður hefur verið á             Íslandi

M.b. Richard er smíðaður á Ísafirði í Skipasmíðastöð Marzelíusar Bernhardssonar, er sá um smíði skipsins. Eigendur eru H.f. Björgvin og framkvomdarstjóri þess Björgvin Bjarnason, er með þrautseigju hefir fylgt byggingu skipsins eftir frá byrjun. Teikningu af skipinu gerði Eggert B. Lárusson, skipasmíðameistari, er hefir leyst það prýðilega af hendi, enda var hann áður búinn að sína hæfileika sína sem slíkur. Skipið er smíðað að mestu leyti úr eik, ca. 90-100 smál. brúttó og ca. 40-50 smál. nettó (endanlegri mælingu er ekki lokið).
Kjöllengd er 79 fet, breidd 17,9 fet og dýpt 9 fet. Lestin er 32 fet á lengd og áætlað að hún rúmi ca. 135-145 smál. af þungavöru og ca. 75-85 smál. af ísfiski. Olíugeymar skipsins taka 10-11 smálestir, auk 2 smurolíugeyma er rúma 4 tunnur. Gangvélar skipsins eru tvær. Kelvin-Dieselvélar, hver 88-105 hestöfl og er því Richard fyrsta skipið í íslenska flotanum er hefir 2 gangskrúfur. Skipið er raflýst, en sérstök Kelvin-Diesel ljósavél verður sett í skipið á næstunni. Landssmiðjan hefir hafið smíði á nýjum stýrisvélum með olíuþrýstingu og var sú fyrsta sett í M.b. Richard. Það er sýnilegt að lagt hefir verið mikið í að gera vistarverur skipverja sem bezta. Hásetaklefi er frammi í með 12 rekkjum, 2 klæðaskápum, 1 geymsluskáp og auk þess geymslu í öllum bekkjum. Vistarverur yfirmanna eru í yfirbyggingu úr stáli á afturhluta skipsins.
Aftast á stjórnpallinum er kortaklefi og er þaðan gengið ofan í skipstjóraherbergið sem er undir stjórnpallinum. Aftast í yfirbyggingunni er eldhús og borðsalur. Milli bátadekks og lunningar að aftan er yfirbyggt með stálplötum og kemur þar lýsisbræðsla og salerni. Skipið er að mestu leyti hitað upp með miðstöð frá miðstöðvarkatli í vélarrúmi. Öllum ber saman um ágæti skipsins og alls staðar má sjá að engu hefir verið til sparað að gera skipið sem glæsilegast. Marzelíus hefir með skipi þessu getið sér hinn bezta orðstír, og eru afrek hans að því leyti sérstæð, að hann er sjálfmenntaður. Nú hefir skipið lokið fyrstu söluferð sinni til Englands og var meðalgangur skipsins rúmar 8 mílur. Það fór vel í sjó og reyndist ágætlega. Í Englandi var tekinn um borð bergmálsdýptarmælir, er settur var í skipið er það kom til Reykjavíkur. Einnig er ákveðið að setja í það miðunarstöð.
Undanfarið hefir mikið verið rætt og ritað um það, að búa sem bezt að sínu og máltækið tekur undir með þeirri hugmynd og segir: "Sjálfs er höndin hollust". Smíðin á m.b. Richard er táknræn í þessu sambandi, og Ijós vottur þess, að ef viljinn er fyrir hendi, þá getur bátsmíðin að öllu leyti færst yfir á íslenskar hendur og að því ber að stefna. "Víkingur" óskar svo öllum, sem unnið hafa að byggingu m.b. Richards til hamingju með vel unnið starf og biður öllum Ísfirska bátaflotanum góðs farnaðar í framtíðinni.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1940.

20.03.2017 17:21

B. v. Keflvíkingur GK 197. TFWD.

Keflvíkingur GK 197 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948 fyrir Togarafélag Keflavíkur h/f í Keflavík. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Frá árinu 1950 hét skipið Keflvíkingur KE 19. Skipið var selt 29 apríl 1956, Austfirðingi h/f á Eskifirði, hét Vöttur SU 103. Selt 1 nóvember 1960, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f, skipið hét Apríl GK 122. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 15 júlí árið 1965.


8. Keflvíkingur GK 197 við komuna til Keflavíkur 31 mars 1948.                   Ljósmyndari óþekktur.

          B. v. Keflvíkingur GK 197

Morguninn 31. mars skreið "Keflvíkingur" léttilega inn á Keflavíkina í fögru, heiðskýru veðri og spegilsléttum sæ, eftir aðeins tveggja sólarhringa og 20 tíma siglingu frá Aberdeen. Kl. 8,30 hægði það ferðina og heílsaði; og það varð ekki annað séð í lipurð þess og hreinum svip, en að það væri ánægt yfir því að vera komið í heimahöfn. Akkerum var varpað og beðið eftir tollgæzlumönnum og hafnsögumanni. Útgerðarnefndin hafði gert ráð fyrir að skipið legðist að hafnargarðinum kl. 2 e. h. og var svo gert. Víðast hvar var fólki gefið frí frá störfum, svo að það gæti fagnað komu togarans, enda var fjölmenni mikið, er skipið lagðist að garðinum. Í bænum blöktu fánar við hún á hverri flaggstöng og togarinn var fánum skrýddur stafnanna á milli.
Þegar ríkisstjórnin, fyrir þremur árum síðan, gaf einstaklingum og sveitarfélögum kost á því að eignast nýtízku botnvörpuskip með sérstaklega hagkvæmum kjörum, þá var með einróma samþykkt hreppsnefndar Keflavíkur ákveðið að óska eftir kaupum á einum af þeim togurum, er ríkisstjórnin hafði þá fest kaup á í Bretlandi. Framkvæmd þeirrar samþykktar sjáum við hér í daga, þar sem hinn glæsilegi togari Keflvíkingur, sem við nú fögnum, er hann í fyrsta sinn leggst að bryggju í Keflavík.  Keflvíkingur er smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fyrir ári síðan var bygging hafin. Kjölur skipsins var lagður 17. mars 1946 og var skipinu hleypt af stokkunum 14. okt. s.l. og þá gefið nafnið Keflvíkingur. Reynsluför var farin 16. þ. m. og skipið afhent daginn eftir, 17. mars, eða ári síðar en kjölur þess var lagður. Keflvíkingur er að lengd 175 fet, breidd hans er 30 fet og dýpt 15 fet.


Keflvíkingur GK 197 við bryggju í Keflavík í fyrsta sinn.                         Ljósmyndari óþekktur.

Hann er talinn um 650 smálestir brúttó. Í reynsluför var ganghraði skipsins 14,06 sjómílur á klst. Skipið er mjög vandað að öllum frágangi og er það búið hinum fullkomnustu öryggistækjum, svo sem sjálfritandi dýptarmæli og radartæki. Eftirlit með smíði skipsins f. h. hreppsnefndar og útgerðarnefndar hafði skipstjóri þess, Halldór Gíslason og kom hann fram ýmsum breytingum til bóta.
Halldór Gíslason skipstjóri flutti Keflvíkingum árnaðaróskir með nýja skipið, og bauð síðan fólki að ganga um borð og skoða það. Á svipstundu urðu þiljur skipsins þéttskipaðar fólki. Ungir og gamlir eigendur skoðuðu ánægjulegir allt ofan dekks og neðan. Og þeir, sem áður höfðu einhvern kunnugleik af togurum og lífinu á þeim undruðust þær framfarir sem orðið höfðu. Til umbótar þeirri lýsingu, sem getur í ræðu oddvitans, má t. d. taka fram um íbúðir, að frammí eru íbúðir hásetanna, 4 herbergi. Niðri eru 3 herbergi með sex rúmum. Við hvert rúm er ljósastæði og hverju rúmi fylgir sérstakur klæðaskápur. Stígvélageymsla er í hverju herbergi og eitt borð. Þar er einnig olíukynt miðstöð fyrir alla hásetaíbúðina. Uppi er fjórða herbergið og er það með átta rúmum, annars svipað fyrirkomulag og niðri. Þar er borðsalur eða setustofa, hreinlætisklefi með steypibaði og handlaugum með heitu og köldu vatni. Salerni tvö, annað ætlað þeim sem eru að vinna á dekkinu, en hitt ætlað þeim sem eiga frí. Þá er þar stakkageymsla og geymsla fyrir ýmislegt smávegis. Sérstaklega góð loftræsting er um allt skipið, svo alltaf er hægt að hafa hreint og gott loft, hvar sem er í skipinu.


Keflvíkingur KE 19 við Faxagarð.                                                            Ljósmyndari óþekktur.
  
Afturí eru 9 íbúðarherbergi niðri, hvert fyrir einn eða tvo menn, eftir því hve hátt þeir eru settir. Þær eru eins og að líkum lætur íburðarmeiri í innréttingum, enda er þar verulega vistlegt. Í herbergi 1 stýrimanns gat að líta stóran sjúkraskáp, sem hefði getað sómt sér vel á farþegaskipi. Í herbergi 1. vélstjóra voru hinsvegar aflrauna gormar og skákborð, og mun hvortveggja vera persónulegt tillegg hans sjálfs, enda mun hann vera skákmaður góður, og reynst þeim skeinuhættur skákmeisturunum skozku, að sögn skipverja. Forstofa að öllum þessum vistarverum er jafnframt hreinlætisherbergi með handlaug og speglum. Uppi er eldhúsið, 2 borðsalir og 2 búr með góðum vinnuborðum, hreinlætisklefi með handlaugum og steypibaði, stakkageymsla, salerni og frystiklefi sem geyma má 14 kindaskrokka auk annara matvæla. Miðskipa býr svo loftskeytamaðurinn í loftskeytaklefanum og skipstjórinn hefur ljómandi laglega íbúð undir brúnni.
Uppi í brúnni er einnig korta og vinnuklefi skipstjóra.
Af þessari stuttu lýsingu, verður ljóst að meira er nú gert til að bæta aðbúnað sjómanna á þessu öðru heimili þeirra en nokkru sinni fyrr. Aðalvél skipsins er 1300 h.k. (hestöfl) gufuvél olíukynt.  Í vélarrúmi eru ennfremur 2 Rustan mótorvélar, sem framleiða rafurmagn 120 h.k. hvor vél. 1 Rustan ljósamótor 12 h.k., olíukynt miðstöð fyrir aftur og miðskipið. Um 20 smærri rafvélar eru svo víðsvegar um skipið. Dekkspilið er 300 h.k. gufuvél og stýrisvélar eru Hidroisk, sama tegund og er í stórskipinu Queen Mary. Fimm stórir oliugeymar koma í stað kolaboxa og rúma þeir ca. 6 vikna olíuforða handa vélum skipsins. Ef eldur kemur upp á "fýrplássi" og ekki hægt að komast að olíudælum, er hægt að loka fyrir olíurennslið ofan af þilfari og eins að hleypa inn sjó til að slökkva eld. Að sjálfsögðu er skipið búið öllum nýtízku siglingartækjum s.s. radar, miðunarstöð, bergmálsdýptarmælar, talstöð og viðtækjum í allar mannaíbúðir. Vel virðist vandað til allra hluta nema málningar sem virðist víða vera áfátt.
Gísli Jónsson verkfræðingur í Reykjavík, eða menn í hans umboði fylgdust með byggingu skipsins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.


Apríl GK 122 að utanverðu og Bjarni riddari GK 1 í Hafnarfjarðarhöfn. (C) Byggðasafn Hafnarfjarðar.
  
Hinsvegar var Halldór Gíslason skipstjóri fulltrúi hreppsnefndar Keflavíkur og útgerðarnefndar, við bygginguna, og gerði hann nokkrar tillögur til breytinga um innréttingu og fyrirkomulag, sem sumar hverjar voru teknar til greina, s.s. breytingu á innréttingu frammí, byggingu lýsisgeymis aftur á, sem komið hefir í ljós að er til stór bóta. Eins og áður getur var Keflvíkingur aðeins 2 sólarhringa og 20 tíma á leiðinni frá Aberdeen til Keflavíkur. Ganghraði var því að jafnaði 12 sjómílur á klukkustund. Gott leiði var alla leiðina, 4-5 vindstiga lens. Ekki er því hægt að segja um, að svo stöddu, hvernig hann er í sjó að leggja. Skipshöfnin sem sigldi skipinu heim var þessi:
Halldór Gíslason, skipstjóri. Bjarni Sigurðsson, 1. stýrimaður. Ólafur Björnsson, 2. stýrimaður. Jón Pétursson, 1. vélstjóri. Pétur Jónsson, 2. vélstjóri. Jón Jóhannsson aðstoðarmaður í vél. Jón Ingimundarson, spýssmaður (kindari). Freysteinn Jónsson, spýssmaður. Þorvaldur Magnússon, bátsmaður. Ólafur H. Þórarinsson, loftskeytamaður. Vilmar ísfeld, matsveinn. Hallgrímur Sigurðsson, netamaður. Sigfús Guðmundsson, netamaður. Stefán Pálsson, netamaður. Og munu þessir menn verða áfram á skipinu.
Einnig verða eftirtaldir menn fyrstu hásetar á Keflvíking:
Sigurður Friðriksson, Páll Daníelsson, Þorgils H. Sigurðsson, Benedikt Guðmundsson, Sigurður Valdimarsson, Karl Karlsson, Einar Hjálmtýsson, aðstoðarm., Haraldur Jónsson, Ólafur Helgason, Gunnar P. Guðjónsson, Halldór íbsen, Hafsteinn Jónasson, Hróbjartur Guðjónsson, Guðmundur Þorvaldsson, Jón Arinbjörnsson, Magnús Pálsson, Óskar Ólafsson og Ingiþór Jóhannsson. Að lokum skal þess getið að auk kveðju frá útvegsmálaráðherra og Nýbyggingarráði bárust heillaóskir frá Katli Ólafssyni Kalmannstjörn, Höfnum og Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík. Þá barst rausnarleg gjöf, vandaður sjónauki, frá hjónunum Sigríði Skúladóttur og Halldóri Fjalldal.

Faxi. 1 apríl 1948.

 Austfirðingar fögnuðu komu togarans Vattar í gær

 Þrjú byggðarlög standa að togarafélaginu  Austfirðingi,  sem á tvo togara

Togarinn Vöttur, SU 103, heimahöfn Búðir í Fáskrúðsfirði, sigldi fánum skrýddur inn á Fáskrúðsfjörð um kl. 8,30 í gærkyöldi og lagðist að bryggju. Var þorpið í hátíðabúningi í tilefni skipskomunnar. Mannfjöldi var á bryggjunni og fögnuðu menn þessari glæsilegu viðbót við fiskiflota Austfirðinga.
Vöttur er annar togarinn, sem útgerðarfélagið Austfirðingur eignast, hinn fyrri er "Austfirðingur". Vöttur hét áður Keflvíkingur, og seldu Keflvíkingar skipið. Annaðist ríkisstjórnin fyrirgreiðslu við skipskaupin.
Þegar skipið var lagst að bryggju flutti Jón Erlingur Guðmundsson sveitarstjóri ávarp. Árnaði hann skipi og skipshöfn heilla og bauð velkomið til heimahafnar. Árnaði byggðunum þremur, sem að útgerðinni standa, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Eskifirði, heilla í starfi og til hamingju með glæsilegt skip. Hann gat þess í ræðu sinni að þegar fulltrúar byggðanna þriggja mættu á síðasta aðalfundi félagsins Austfirðingur hefðu allir haft meðferðis að heiman frá sér tillögu um að félagið eignaðist annað skip.Vöttur SU 103 á leið til Fáskrúðsfjarðar.                                                    (C) Vilberg Guðnason.  

Er sá draumur nú orðinn að veruleika. Í ræðu sinni rakti sveitarstjórinn aðdraganda þess, að unnt var að ráðast í skipakaupin, og kvað miklar vonir bundnar við útgerðina og þá afkomumöguleika fyrir fólkið, sem skipið hefði nú opnað. Að lokinni ræðu sveitarstjóra hrópaði mannfjöldinn ferfalt húrra fyrir skipi og skipstjóra, en hann er Steinn Jónsson, og er Fáskrúðsfirðingur að ætt. Hefur verið stýrimaður á Austfirðingi og skiþstjóri í forföllum, en tekur nú í fyrsta sinn við skipi.
Að Iokinni móttökuathöfninni á bryggjunni bauð hreppsnefndin til samsætis í barnaskólahúsinu og var það að hefjast er blaðið átti tal við fréttaritara sinn á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi.


Vöttur SU 103 í Reykjavíkurhöfn.                                                             (C) Snorri Snorrason.  

Var þar margt manna samankomið og vorhugur ríkjandi þótt kalt væri í veðri, norðangjóstur og hvítir fjallatindar. Þar voru mættir fulltrúar frá Reyðarfirði og Eskifirði. "Vöttur" heitir eftir fjallstindi á nesinu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en þar undir stendur Vattarnes. Skipið hefur þegar veiðar og var búist við að það mundi láta úr höfn með morgni.

Tíminn. 25 maí 1956.

19.03.2017 09:51

Björgunar og varðskipið Þór. LCJK.

Björgunar og varðskipið Þór var smíðaður hjá Edward Brothers í North Shields á Englandi árið 1899 fyrir Islands Handel & Fiskeri Akties í Kaupmannahöfn sem togari sem hafði aðstöðu á Geirseyri í Patreksfirði. Hét fyrst Thor. 205 brl. 325 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 606. Skipið var selt 1902, Dansk Damp Trawling Acties í Kaupmannahöfn. Selt árið 1903, danska landbúnaðarráðuneytinu sem notaði hann fyrir hafrannsóknarskip, sem var m.a. við hafrannsóknir hér við land í nokkur sumur. Á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar var hann í þjónustu dana sem varðskip í Danmörku. Skipið var selt haustið 1919, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og kom skipið fyrst þangað 26 mars 1920. Fékk nafnið Þór. Skipið var selt 1 júlí 1926, Ríkissjóði Íslands og var í þjónustu Landhelgisgæslunnar frá stofnun hennar sama ár. Skipið strandaði á Sölvabakkaskerjum á Húnaflóa 21 desember árið 1929 og eyðilagðist. Áhöfnin, 17 menn og 1 farþegi björguðust á land og einnig um borð í Alliance togarann Hannes ráðherra RE 268 frá Reykjavík.

Björgunar og varðskipið Þór.                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

   Björgunarfélag Vestmannaeyja

Rúm 10 ár eru liðin síðan Björgunarfjelag Vestmannaeyja var stofnað. Má með sanni segja, að í mikið mál og þarft hafi verið ráðist af Vestmannaeyingum, er þeir stofnuðu björgunarfjelag, með kaup á björgunarskipi fyrir augum. Munu margir hafa ætlað, þeir er ókunnugt voru málinu, að með kaupum björgunarskips myndu Vestmannaeyingar reisa sjer hurðarás um öxl og binda sjer þann bagga, er þeir síðar myndu sligast undir. En Vestmannaeyingar voru stórhuga og stóðu fast saman í þessu máli.  þeim var ljós nauðsynin. þeir þekktu manna best hin vondu veður þegar bátarnir voru í hættu staddir á sjónum, án þess að vitað væri á hvern hátt þeim yrði hjálpað. þegar bát vantaði var algengt, að annar bátur færi að leita hans. Oft var það þá svo, að þeir, sem nýkomnir voru úr hrakningum og með naumindum höfðu sloppið úr dauðans greipum, lögðu aftur út á hafið, til þess að leita að öðrum, sem saknað var og álitið var að myndi hjálpar þurfi.
Vestmannaeyingum var vel Ijóst hver vandræði voru, að þurfa hrekja menn þannig og hætta lífi þeirra, enda kom það fyrir, að slíkir leitarbátar sáust aldrei aftur, en fórust með allri áhöfn. það var ekki síst þess vegna, að Vestmannaeyngar lögðu kapp á, að eignast björgunarbát. En um leið og væntanlegum björgunarbát var ætlað að annast bjargráð, skyldi hann eftir föngum annast veiðafæragæslu og strandgæslu. Í fyrstu var hugmynd Björgunarfjelags Vestmannaeyja sú, að kaupa 50-60 smálesta (brúttó) björgunarbát, trjeskip með olíuvjel.  Gerði stjórn fjelagsins allt, sem í hennar valdi stóð til þess, að hraða málinu og útvega sjer upplýsingar um hvar kaupin myndu hagkvæmust. M. a. sendi fjelagið erindreka til Reykjavíkur og síðan til útlanda í þessu skyni. Áhugi manna á milli var mikll og lögðu menn eftir mætti í samskotasjóð til björgunarbátskaupanna. Safnaðist á þennan hátt stór upphæð, ekki aðeins hjer í Eyjum, heldur einnig út í frá, einkum meðal efnamanna í Reykjavík.


Björgunar og varðskipið Þór í slipp.                                                               (C) Þjóðminjasafnið.  

Bráðabirgðastjórn sú sem kosin var á almennum fundi 3. ág. 1918, til þess, að undirbúa og safna fje til kaupa á björgunarskipi fyrir Vestmannaeyjar annaðist málið mest í fyrstu. Stjórn þessa skipuðu þeir: Karl Einarsson, sýslumaður, form. stjórnarinnar, Jóh. þ. Jósefsson, Gísli Lárusson, þorsteinn Jónsson, Laufási og Árni Filippusson. Tóku þeir sjer síðar til aðstoðar Gísla J. Johnsen, konsúl og Sigurð Sigurðsson, lyfsala, sem síðar varð erindreki fjelagsins til skipakaupa. þann 17. sept. 1918 var kosin stjórn Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Kosnir voru þeir Karl Einarsson, Jóhann þ. Jósefsson, Sigurður Sigurðsson, Jón Hinriksson og Gísli Lárusson. Höfðu þeir síðan mest að gera með skipakaupin. Endirinn varð sá að E, Nielsen var falið fyrir hönd fjelagsins að festa kaup á gufuskipinu "Thor" sem áður hafði verið notað til hafrannsókna og síðar eftirlits.
Verð skipsins var ákveðið 150,000 krónur og að því var gengið. þannig var það, að hinn 26. mars 1920 kom fyrsta íslenska björgunarskipið, þór hingað, og eru því rjett 9 ár síðan næstk. þriðjudag. Skipstjóri Þórs var fyrstur Jóhann P. Jónsson lautinant, en síðar Friðrik Ólafsson, sem enn hefur þar skipstjórn á hendi. þótt þór hafi virst ætla að verða Vestmannaeyingum ofviða um tíma, því að frekur varð hann til fjársins, enda keyptur á dýrasta tíma og óhjákvæmileg afföll verðs, auk reksturskostnaðar, þá munu fæstir sjá eftir því, sem þeir hafa lagt í Björgunarfjelag Vestmannaeyja. það er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa orðið þessum bæ til blessunar og sóma í fortíð og nútíð og mun verða í framtíðinni. það er ekki tækifæri til þess nú, að rifja neitt ítarlega upp verk björgunarskipsins þórs. Auk þess sem þór hefur annast hjer björgunarstarfsemi, hefur hann einnig annast veiðarfæra gæslu til ómetanlegs gagns fyrir Eyjarnar og friðað landhelgina fyrir ágangi innlendra og erlendra veiðiþjófa.


Rannsóknarskipið Thor á Seyðisfirði árið 1903.                                      (C) Winge & Vedel Taning.  

Upprunalega styrkti ríkið B. V. til björgunarbátskaupa. Síðan hefur þór oft verið leigður landsstjórninni til landhelgisgæslu. Og með strandvarnarstarfsemi þórs var stigið stórt spor í áttina til þess, að íslendingar önnuðust landhelgisgæslu sína sjálfir, er tímar liðu fram. En nýverið keypti ríkið skipið og fá Vestmannaeyingar að hafa það hjer um vetrarvertíðina. Mörgum bátum hefur þór bjargað og hjálpað á ýmsann hátt. Marga togara hefur hann staðið að veiðiþjófnaði og aflað ríkissjóði þannig tekna. Gagn það sem orðið hefur af veiðarfæragæslu hans og friðun landhelginnar er ómetanlegt. þetta eru verk Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Ýmislegt fleira hefur það afrekað, sem ekki er rúm til þess að rekja að sinni. Fjelagið hefur verið heppið  með val á stjórn sinni, sem skipuð hefur verið ágætum og áhugasömum mönnum, sem allir hafa borið hag fjelagsins fyrir brjósti og unnið af alúð að velferðamálum þess. Auk þingmanns vors, Jóhanns þ. Jósefssonar, sem hefur reynst fjelaginu öruggur og hinn nýtasti fulltrúi, hefur einkum borið á dugnaði og fórnfýsi Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala, sem hefur að mörgu leyti verið fjelaginu sannkölluð hjálparhella. Sama má segja um val skipherra björgunarskipsins. það rúm hafa skipað nýtustumenn,er notið hafa trausts og virð- ingar fjelagsins og sjómanna vorra. Starf þeirra hefur verið farsælt og heillaríkt fyrir Vestmannaeyinga, sem munu líka kunna að meta það að verðleikum. það mun ósk allra Vestmannaeyinga, að heill og gæfa fylgi ætíð Björgunarfjelagi Vestmannaeyja í hinu góða og göfuga starfi þess.

Víðir. 23 mars 1929.

Varðskipið "Þór" strandaði í gærkveldi nálægt 
             Höskuldsstöðum á Skagaströnd

Kl. laust fyrir 9 í gærkvöldi barst sú fregn hingað til bæjarins, að varðskipið Þór væri strandað á Skagaströnd, nálægt Höskuldsstöðum,að því er menn hjeldu. Þór fór hjeðan með tvo menn úr kirkjumálanefndinni, þá Runólf á Kornsá og síra Jón Guðnason. Hafði hann komið með Runólf til Blönduóss í fyrradag. Var ferðinni síðan heitið vestur að Prestsbakka með síra Jón.
Í fyrrakvöld skall á ofsaveður í flóanum, og hefir Morgunblaðið ekki glöggar fregnir af ferðum skipsins í gær. En frjetst hefir, að skipstjóri hafi verið hættur við að flytja síra Jón vestur, og hafi verið áform hans að koma honum í land á Blönduósi, er veðrinu slotaði.  
Er loftskeyti barst hingað frá skipinu, var símastöðin lokuð á Blönduósi, og ómögulegt að fá símasamband þangað, eða til Skagastrandar. En loftskeytastöðin hjer hafði samband við skipið fram eftir kvöldinu, og eins heyrðist til Þórs á Borðeyri. Eftir því sem Morgunblaðið komst næst í gærkvöldi, voru skipverjar hinir rólegustu, og ljetu þess getið í skeytum, sem send voru frá skipinu, að þeir biðu í skipinu uns háfjara væri komin, en háfjara var kl. 1 í nótt. Var skipið komið svo nærri landi, að því er skilið varð, að skipverjar töldu eigi vandkvæði á, að komast klakklaust í land, er fjaraði út að fullu. Er skeyti hættu að heyrast frá skipinu, kl. að ganga 12, gátu menn hjer ekki vitað, hvort það kom til af því, að skipverjar hefðu yfirgefið skipið þetta fyrr en þeir í upphafi hugsuðu sjer, ellegar loftskeytatækin hefðu bilað. En ekki var til neins að bíða frekari fregna í nótt, því að útilokað var, að nokkuð frjettist, úr því loftskeytasamband hætti, fyrri en kl. 10 f. h. í dag, er síminn verður opnaður.
Skipstjórinn á Þór gaf ekkert upp um það í skeytunum, er hann sendi, hvernig slys þetta hefði borið að höndum, hvort einhver bilun hefði átt sjer stað í rúmsjó, og skipið því rekið á land undan veðri af þeim orsökum, ellegar annað hefði komið þar til greina. Engin skip voru á Húnaflóa í gærkvöldi, er til náðist, eða neinstaðar svo nálægt, að nokkur leið væri til þess að koma Þór til hjálpar. Telja má víst, að dagar Þórs sjeu taldir. Hann var byggður árið 1899 í North Shield í Englandi. Var byggður sem togari. Nokkru síðar seldur dönsku stjórninni, og notaður til hafrannsókna, sem kunnugt er, bæði hjer við land og víðar, uns Björgunarfjelag Vestmannaeyinga keypti hann árið 1920. Ríkissjóður keypti hann árið 1926. Stærð hans var 205 brutto tonn. Vjelin með 325 hestöflum. Hann var "klassaður" fyrir tveimur árum.

Morgunblaðið. 22 desember 1929.

18.03.2017 13:34

1937. Björgvin EA 311. TFFY.

Björgvin EA 311 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A.S. í Flekkefjord í Noregi árið 1988 fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga h/f á Dalvík. 499 brl. 2.224 ha. Deutz díesel vél, 1.635 Kw. Smíðanúmer 142. Kom fyrst til heimahafnar, Dalvíkur 26 júlí árið 1988. Skipið er gert út af Samherji Ísland ehf á Akureyri í dag en heimahöfnin er Dalvík eins og alltaf hefur verið. Ég tók þessar myndir af togaranum þar sem hann lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í gær.


1937. Björgvin EA 311 í Hafnarfjarðarhöfn í gær.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 mars 2017.

                  Björgvin EA 311

Nýr skuttogari, m/s Björgvin EA 311, bættist við fiskiskipastólinn 26. Júlí s. I. en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Dalvíkur. Björgvin EA er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 142 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni hf. í Reykjavík. Björgvin EA er fimmtándi skuttogarinn, sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk (Björgúlf EA) fyrir Slippstöðina. Skrokkar allra þessara togara eru smíðaðir hjá Kvina Verft í Flekkefjord, sem annast hefur þann þáttsmíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Hinn nýi Björgvin kemur í stað samnefnds skuttogara, sem einnig var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk (afhentur í janúar 1974) fyrir sömu útgerð. Gamli Björgvin hefur nú verið seldur til Noregs. Björgvin EA er með búnaði til heilfrystingar á karfa og gráluðu, auk búnaðar til ísfiskmeðhöndlunar. Björgvin EA er í eigu Útgerðarfélags Dalvíkinga hf., Dalvík. Skipstjóri á skipinu er Vigfús R. Jóhannesson og yfirvélstjóri Hafsteinn Kristinsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Valdimar Bragason.

Ægir. 1 ágúst 1988.


17.03.2017 19:26

1270. Mánaberg ÓF 42 selt til Múrmansk í Rússlandi.

Togarinn Mánaberg ÓF 42 hélt af landi brott í síðasta sinn í dag frá heimahöfn sinni, Ólafsfirði. Skipið hefur verið selt til Múrmansk í Rússlandi. Togarinn var smíðaður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f, hét fyrst Bjarni Benediktsson RE 210 og kom til heimahafnar, Reykjavíkur 10 janúar árið 1973. Árið 1986 var skipið í eigu Ríkisábyrgðasjóðs og hét þá Merkúr RE 800. Skipið var svo selt 28 janúar 1987, Sæbergi h/f á Ólafsfirði og hefur borið nafnið Mánaberg síðan. Togarinn var gerður út af Ramma h/f á Siglufirði en heimahöfn þess var Ólafsfjörður. Þeir eru örugglega margir sem sjá á eftir þessu góða og aflasæla skipi, en svona er þetta bara. Ný skip munu halda áfram að bætast við fiskiskipaflotann og þau gömlu fara sína leið, í erlenda eigu eða í pottinn alræmda.
Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sendi mér þessar glæsilegu myndir af togaranum þegar hann hélt af stað til nýrra heimkynna í dag. Þakka Hauki kærlega fyrir afnotin af myndunum. Þetta skip hefur þjónað eigendum sínum vel á þeim rúmu 44 árum síðan það kom nýtt til landsins. Óska þessu fallega skipi velfarnaðar í framtíðinni.

Mánaberg ÓF 42.                                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 


Mánaberg ÓF 42 í dag.                                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42 fær heiðursfylgd út fjörðinn.                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


1270. Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til landsins 10 janúar 1973.          (C) Morgunblaðið.


Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til landsins 10 janúar 1973.                 (C) Morgunblaðið.

16.03.2017 21:04

Landlega Síldveiðiskipanna í Neskaupstað um og eftir 1960.

Ég held mig ennþá við bryggjurnar, nú eru það síldveiðiskipin sem liggja í röðum við bryggjurnar í Neskaupstað um árið 1960. Það hefur nú verið mikið fjör þegar mörg voru skipin í landi og íbúatala bæjarins tvöfaldast eða jafnvel meira. Margar sögurnar hefur maður nú heyrt um dansleiki sem haldnir voru í gamla Gúttó og svo síðar í Egilsbúð þegar hún var byggð árið 1962. Það hefur nú verið glatt á hjalla þegar fleiri hundruð sjómanna komu saman að skemmta sér og jafnvel sjómenn af erlendum skipum líka. Oft skarst í kekki með mönnum og stundum þurfti lögreglan í Neskaupstað með hjálp starfsbræðra sinna á Eskifirði og Reyðarfirði að skakka leikinn meðan hæst lét. En algengara var að sjómennirnir skemmtu sér vel og héldu svo til veiða daginn eftir ef veður leyfði. Síldarævintýrið hefur verið magnaður tími fyrir þá sem upplifðu þessa uppgripatíma í sögu þjóðarinnar.


Síldarbátar við bryggju í Neskaupstað um og eftir 1960.                               (C) Björn Björnsson.


Síldveiðiskipin í röðum við bryggjuna. Það gera tunnurnar líka.                   (C) Björn Björnsson.


Landlega í Neskaupstað um 1960.                                                              (C) Björn Björnsson.


Síldveiðiskipin liggja við bryggjurnar í Neskaupstað. Húsið í forgrunni er frystihús Íshúsfélags Norðfirðinga sem byggt var árið 1946. Þar við hliðina er Hafnarhúsið. Niður af því er ytri bæjarbryggjan. Verið er að bræða síld í síldarbræðslu SVN fyrir botni fjarðarins.                         (C) Reynir Zoega 1961.

.

15.03.2017 17:51

Togarar við bryggju.

Hér eru nokkrir myndir af gömlu kolakynntu gufutogurunum okkar við bryggju, sumir að landa síld á 4 áratugnum, þá í Djúpavík norður í Reykjarfirði. En aðrir liggja í höfn, Nýsköpunartogararnir, þá hálfum öðrum áratug síðar eða meira, bæði norðan og sunnanlands. Þetta voru gífurlega falleg skip og það er skömm af því að ekki skuli vera til sitt hvort eintakið af þeim í landinu.


Frá Djúpavík á 4 áratugnum. Togarinn Garðar GK 25 liggur við bryggjuhausinn og bíður eftir löndun. Það gera einnig tvö önnur skip. Togarinn Kári RE 111 og utan á honum er Síldin GK 140.
(C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Verið að landa úr togurum á Djúpavík á 4 áratugnum. Tunnuskip til vinstri og annað fyrir aftan togarana.
Togarinn lengst til hægri gæti verið Jón Ólafsson RE 279.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Togarar í Reykjavíkurhöfn um 1950. Hvalfell RE 282 er innstur og næstur er Skúli Magnússon RE 202, þá Bjarni Ólafsson AK 67 og ystur er Egill rauði NK 104.                             (C) Ólafur K Magnússon.


Í Reykjavíkurhöfn stuttu eftir 1950. Næstur okkur er Norðlendingur ÓF 4, ex Vilborg Herjólfsdóttir VE 11, ex Bjarnarey VE 11. Þá kemur Keflvíkingur KE 19, ex GK 197 ystur, þá Egill Skallagrímsson RE 165. Innstur er Jón forseti RE 108. Aftan við hann er Ólafur Jóhannesson BA 77. Flutningaskipið þekki ég ekki. Ljósmyndari óþekktur.

Togarar við Torfunefsbryggju á Akureyri á 6 áratugnum. Harðbakur EA 3 upp við bryggjuna en ystur er Svalbakur EA 2.                                                                           (C) Rúnar Vestmann. 

14.03.2017 13:29

201. Steingrímur trölli ST 2. TFYC.

Steingrímur trölli ST 2 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1959. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 7 ágúst 1959. Skipið var gert út af h/f Steingrími á Hólmavík og kom fyrst til heimahafnar, 17 september sama ár. Skipið var selt 30 október 1962, Steingrími h/f í Keflavík, hét Steingrímur trölli KE 81. Selt 31 mars 1965, Steingrími h/f á Eskifirði, skipið hét Hólmanes SU 120. Árið 1967 voru eigendur skipsins Steingrímur h/f og Hraðfrystihús Eskifjarðar h/f á Eskifirði. Skipið var selt 5 nóvember 1972, Bjargi h/f á Patreksfirði, hét Jón Þórðarson BA 180. Skipið var endurmælt 1973, mældist þá 228 brl. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 21 október árið 1982.


Steingrímur trölli ST 2.                                                                         (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Steingrímur trölli KE 81.                                                                           (C) Vilberg Guðnason.


Hólmanes SU 120.                                                                                    (C) Vilberg Guðnason.

       Nýtt togskip komið til Hólmavíkur

Á fimmtudaginn var kom til Hólmavíkur nýtt togskip, 250 lestir að stærð. Er það eitt hinna 12 togskipa sem smíðuð eru fyrir Íslendinga í Austur Þýskalandi. Skipinu, sem heitir Steingrímur trölli, var vel fagnað bæði á Hólmavík og Drangsnesi, en það mun leggja upp afla sinn á þessum stöðum í framtíðinni.
Skipið kom til Hólmavíkur um miðjan dag á fimmtudag (17 september), en lagðist að bryggju klukkan 6. Var þar allmikill mannsöfnuður fyrir, og fagnaði oddviti Hólmavíkurhrepps, Hannes Sigurðsson, því með ræðu, en síðan var heimamönnum boðið um borð að skoða skipið. Daginn eftir var siglt til Drangsness, og var þar einnig samkoma um borð. Steingrímur trölli er 250 lestir að stærð, smíðaður í Stralsund í Austur-Þýzkalandi, og sams konar að öllum búnaði og hin austur- þýzku togskip sem áður eru komin til landsins. Eigandi skipsins er hlutafélagið Steingrímur, en helztu aðilar sem að því standa eru Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavíkurhreppur og Kaldrananeshreppur. Skipstjóri á Steingrími trölla er Guðmundur Halldórsson frá Bæ í Steingrímsfirði. Unnið er nú að því að búa skipið á veiðar, og fer það á veiðar í næstu viku.

Tíminn. 23 september 1959.

13.03.2017 11:35

B. v. Pétur Halldórsson RE 207. TFAH.

165. Pétur Halldórsson RE 207 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Hét Máni á smíðatíma. 708 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 227. Kom togarinn til heimahafnar, Reykjavíkur 11 júní 1951. Skipið var selt til Tromsö í Noregi í júlí 1966, hét það Trygve Larsen og gert þaðan út til ársins 1977, en selt í brotajárn og rifið árið 1978. Pétur átti eitt systurskip hér á landi en það var togarinn Austfirðingur SU 3 sem fékk svo síðar nafnið Haukur RE 27 og var gerður út frá Reykjavík.

Pétur Halldórsson RE 207 við Faxagarð.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Pétur Halldórsson RE 207.                                                                             (C) Snorri Snorrason.


Pétur Halldórsson RE 207 á útleið úr Reykjavíkurhöfn.                                 Ljósmyndari óþekktur.


Pétur Halldórsson RE 207 á toginu.                                                 (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


      Stærsti togari flotans kom til landsins í gær

Í gærdag kom hingað til Reykjavikur, stærsti togari flotans, Pétur Halldórsson, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur á og er þetta sjötti togari fyrirtækisins. Skipstjóri er Einar Thoroddsen. Togarinn var fánum skreyttur stafna á milli, er hann lagðist að Faxagarði. Borgarstjóri og bæjarfulltrúar skoðuðu togarann skömmu eftir komuna.
Pétur Halldórsson er byggður í Aberdeen. Útlína skipsins er frábrugðin því, sem hún er á hinum eldri togurum flotans og er að flestra dómi fallegri. Þessi breyting liggur einkum í breyttu lagi á framstefni og kinnungum. Togarinn er rúmlega 707 tonn að stærð.
Skipstjórinn Iét hið besta yfir skipi sínu, en á miðvikudagskvöld mun Pétur Halldórsson fara í sína fyrstu veiðiför og verður þá sennilega siglt norður á Bjarnareyjarmið, til saltfiskveiða. Fyrsti vjelstjóri togarans er Júlíus Halldórsson, er var áður á togaranum Skúla Magnússyni, og fyrsti stýrimaður er Jón Jónsson, er áður var annar stýrimaður á Hallveigu Fróðadóttur.

Morgunblaðið. 12 júní 1951.    .

12.03.2017 15:14

17. Ásbjörn RE 400. TFWH.

Ásbjörn RE 400 var smíðaður í Florö í Noregi árið 1963 fyrir Ísbjörninn hf í Reykjavík. 192 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Skipið var selt 7 desember 1971, Þorláksvör hf í Þorlákshöfn, hét Búrfell ÁR 40. Skipið var endurmælt í desember 1971, mældist þá 149 brl. Selt 15 desember 1975, Hafnarbergi hf í Þorlákshöfn. Ný vél (1977) 495 ha. Lister Blackstone díesel vél. Selt 13 júní 1978, Saltver hf í Keflavík, hét Búrfell KE 140. Frá 4 júlí 1991 hét skipið Búrfell KE 45. Selt 31 janúar 1992, Samherja hf á Akureyri, hét Búrfell EA 930. Talið ónýtt og tekið af skrá 24 nóvember árið 1992. Um svipað leyti mun Austfirðingurinn Bergþór Hávarðsson hafa keypt skipið og ætlað að gera það upp og nota til skemmtisiglinga á suðrænum slóðum. En ekkert varð af því og mun skipið hafa verið rifið um og eftir aldamótin síðustu.


Ásbjörn RE 400 á siglingu.                                                                   (C) Hafsteinn Jóhannsson.

11.03.2017 17:06

V. s. Ægir. LBCF / TFEA.

Varðskipið Ægir var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. 497 brl. 1.300 ha. B&W díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 24 júní 1929. Skipið var endurbætt og breytt árið 1954. Skipið var selt í brotajárn til Englands og tekið af skrá í júlí árið 1968.


Varðskipið Ægir við komuna til landsins 14 júlí 1929.                                Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir.                                                              Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


Ægir í smíðum hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. Myndin er tekin þegar skipinu var gefið nafn við hátíðlega athöfn.                                                        (C) LHG.


Ægir við bryggju á Norðfirði árið 1958. Það er breski togarinn Cape Cleveland H 61 sem varðskipið tók í landhelgi út af Austfjörðum. Það má geta þess að sá togari fékk árið 1966 nafnið Ross Cleveland H 61. Togarinn fórst á Ísafjarðardjúpi 4 febrúar árið 1968.


Forsetaheimsókn Sveins Björnssonar til Norðfjarðar á Ægi sumarið 1944.   (C) Árni E Valdimarsson.


Varðskipið Ægir.                                                                     Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir. Líkan Sigurðar Jónssonar.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Varðskipið Ægir

Skipið kom hingið úr smiðum sunnudaginn 14. júlí 1929 og færði með sjer þýskan togara ("Tyr"), er hann hafði tekið fyrir sunnan land. Skipherra er Einar Einarsson áður fyrsti stýrimaður á "Óðni". Mjög hefir verið vandað til skipsins og er það búið ýmsum björgunaráhöldum og knúð með Dieselvjel (mótor) hinni fyrstu í Íslensku skipi. Hinn 16. júli fór "Ægir" inn í Hvalfjarðarbotn með margt manna, sem dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hafði boðið í ferðina, sem var til þess farin að minnast heimkomu "Ægis" og kynnast honum. Á meðal gesta voru margir þingmenn, starfsmenn í Stjórnarráðinu, blaðamenn o. fl. Lúðraflokkur Reykjavíkur var með í förinni og skemti gestunum. Varðskipið leysti festar kl. 4,20 og var komið á ákvörðunarstað eftir réttar tvær stundir. Veður var hið fegursta, sól og heiður himinn, en siglingin inn Hvalfjörð er svo alkunn fyrir fegurð, að ekki þarf orðum að að eyða. Þegar "Ægir" var lagstur, skammt frá Geirshólma, voru veitingar fram bornar.
Undir borðum var sungið hið snjalla kvæði Þorsteins Gíslasonar, sem birt er hjer í blaðinu, en því næst bauð dómsmálaráðherra gestina velkomna, lýsti í fáum, ljósum dráttum baráttu Íslendinga fyrir því, að taka landhelgisgæsluna í sínar hendur, og mintist þeirrar miklu þýðingar, sem það hefði út á við, fyrir sjálfstæðsbaráttu þjóðarinnar, að Íslendingar ættu sjálfir og rækju strandgæsluskipin, sem sigldu undir Íslenskum fána, mönnuð Íslendingum.
Ráðherrann fór síðan nokkrum orðum um varðskipið nýja, hve á allan hátt var til þess vandað, svo að það uppfyllir allar þær kröfur, sem hægt er að gera til slíkra skipa nú á dögum. Skipið kvað hann hafa orðið dýrt, upp undir eina milljón króna; að vísu myndi skipið hafa orðið um 100 þús. kr. ódýrara, ef það hefði ekki verið smíðað sem mótorskip, en einmitt fyrir það mundi sparast mörg þúsund krónur á ári á rekstri þess. Ráðherrann þakkaði loks öllum þeim, sem lagt höfðu hönd að því að Ísland hefir eignast þetta vandaða varðskip. Var síðan drukkin skál "Ægis". Undir borðum mæltu og nokkur orð Magnús Torfason sýslum., forseti Sameinaðs Alþingis, og Karl Einarsson fyrv. sýslumaður.
Að snæðingi loknum hleypti skipstjóri af tveimur línubyssum, sem "Ægir" er útbúinn með, ef á hann er kallað til björgunarstarfsemi. Gestirnir skoðuðu skipið hátt og lágt, og Iuku menn lofsorði á það einum rómi, hve útbúnaður allur virtist fullkominn og skipið fagurt og vistlegt, ekki sist vistarverur skipshafnar, sem eru óvenjulega bjartar og rúmgóðar. Allmargir gestanna voru fluttir út í Geirshólma, og klifu upp á Hólmann. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur aftur og komið þangað um miðnætti. Var förin að öllu leyti hin ánægjulegasta. "Ægir" er fallegt skip; er hann 170 feta langur, 29% fet á breidd, dýptin 17,5 og vjelin hefur 1300 hestaöfl. Skipið er hitað með rafmagni, hefur fullkomna miðunarstöð og hraðamæli af nýjustu gerð, sem er hið mesta þing. Auk þessa eru á skipnu tvær 75 cm. fallbyssur, tveir öflugir ljóskastarar, dráttaráhöld og dælur. Ættu þau björgunaráhöld að koma að góðum notum, þar sem staðhættir leyfa, að varðskipið geti nálgast svo strandað skip, að þeim verði komið við.

Ægir. Júlí 1929.

                   Sjóminjasafn

Svend Aage Malmberg haffræðingur ritar grein í Morgunblaðið í fyrri viku. Þar leggur hann til að varðskipið Ægir verði ekki selt til niðurrifs, eins og nú mun fyrirhugað, heldur varðveitt sem safngripur  á sérstöku sjóminjasafni. "Ægir yrði þannig fyrsti vísir að sérstöku sjóminjasafni á Íslandi og mundi vonandi efla áframhaldandi myndun sjóminjasafns á breiðum grundvelli. Slíkt safn gæti svo verið sem deild í Þjóðminjasafni Íslands eða sem borgarsafn í Beykjavík" segir greinarhöfundur. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem áreiðanlega er vert að gefa fyllsta gaum.
Sæferðaþjóð eins og Íslendingar þarf auðvitað að eiga sjóminjasafn, þar sem varðveittar séu minjar um Íslenzka sjómennsku frá ýmsum tímum. Auk veiðarfæra og annarra tækja er að sjómennsku lúta þyrfti að varð veita á slíku safni, skip frá ýmsum tímabilum Íslenzkrar sjóferðasögu, helzt í heilu líki, en að öðrum kosti smækkuð líkön. Slík söfn eru til í öðrum löndum, og það væri meira en æskilegt að unnt reyndist að koma slíku safni á fót hér. Hugmyndir um stofnun sérstaks sjóminjasafns hafa oft komið fram áður, þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum.
En hinu má þó ekki gleyma að sjóminjar alls konar sem heima ættu á sjóminjasafni, eru til víðs vegar um land í góðri varðveizlu. Á Þjóðminjasafni er sjóminjadeild, og byggðasöfn víðs vegar um land eiga álitlegt safn sjóminja, sérstaklega þá byggðasöfnin á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Ýmis gömul skip og skipagerðir hafa verið tekin til varðveizlu, norður í Hrútafirði er hákarlaskipið Ófeigur geymt í sérstöku húsi, austur að Skógum er Péturseyjan varðveitt, vestur á Ísafirði er geymdur áttæringur í gömlum stíl. Í Þjóðminjasafninu er bátur með Engeyjarlagi; og fleiri skip hafa verið tekin til varðveizlu, þótt þeirra sé ekki hér getið. Talsverð uppistaða að sjóminjasafni er sem sagt til í landinu, en dreifð út um allt. Væru allar sjóminjar, bæði lausamunir og skip, komnar í einn stað væri það merkilegt safn, þótt auðivtað þyrfti miklu við það að auka til þess að það yrði fullkomið.
Af skiljanlegum ástæðum hefur einkum verið lagt kapp á að varðveita smærri skip, opna báta af ýmsuni gerðum, en minna hugsað um stærri skip frá síðari tímum, enda er varðveizla þeirra mikli meiri vandkvæðum bundin. Líkön munu þó víða vera til af slíkum skipum, og bætir það nokkuð úr skák, en auðvitað væri æskilegt að einhver slík skip væru líka varðveitt í heilu lagi. Gömlu togararnir frá því fyrir stríð munu nú allir horfnir úr sögunni, og er skaði að enginn þeirra skyldi vera varðveiltur til minja, jafnmikill þáttur Íslenzkrar útgerðarsögu og þeir voru. Við verðum að gæta þess að nýsköpunartogararnir fari ekki allir sömu leiðina, heldur taka einhvern þeirra til varðveizlu, meðan tími er enn til og auðvitað mundi varðskipið Ægir líka sóma sér vel á safni, bæði vegna sögu sinnar og gerðar.

Alþýðublaðið. 26 mars 1968.
Kjallaragrein. Svend Aage Malmberg.
                    Haffræðingur.

10.03.2017 18:16

B. v. Reykjaborg RE 64. TFUD.

Reykjaborg RE 64 var smíðuð hjá Ateliers & Chantiers Maritimes du Sud-Ouest í Bordeaux í Frakklandi árið 1927 fyrir Útgerðarfélagið Canu, Obellianne, Wimille & Cie í Boulogne í Frakklandi. Skipið hét áður Cap á l'Aigle. 685 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í janúar 1936, h/f Mjölni í Reykjavík, fékk nafnið Reykjaborg RE 64. Togaranum var sökkt af þýskum kafbát vestur af Barra Head við Skotlandsstrendur, 10 mars árið 1941. 12 skipverjar og 1 farþegi fórust en 2 skipverjar björguðust á fleka og var síðan bjargað um borð í breskt herskip.


Reykjaborg RE 64 í upphafi seinni styrjaldarinnar.                                   Ljósmyndari óþekktur.


Reykjaborg RE 64 á Siglufirði.                                                             Ljósmyndari óþekktur.


Reykjaborg RE 64. Teikning.                                                                       Höfundur óþekktur.

               Reykjaborg RE 64

Hinn 24. febrúar síðdegis, lagðist nýkeypt botnvörpuskip að hafnarbakka í Reykjavík og er hið stærsta sem Íslendingar hafa eignast. Þetta er Reykjaborg, eign hf. »Mjölnir'«, sem hér var stofnað í sl. janúar; skipa þar stjórn, Björn Ólafs, Mýrarhúsum, Geir Sigurðsson, skipstjóri og Jón Björnsson, kaupmaður. Hluthafar eru um 20. Franskt útgerðarfélag lét smíða skipið árið 1927 og hefur haldið því á veiðum við Newfoundland og hefur það reynst bezta skip. Það er 689 brúttolestir að stærð, 275 lestir netto og hefur 250 hestaflagufuvél. Það er búið öllum nýtízku siglingatækjum.
Auk þess er þar beinamjölsvél, sem malað getur 10 tonn af hráefni á dag og skilar úr því 2 tonnum af mjöli. Vélin er keypt í Englandi, til reynslu, og er vélasmiður, Kendall að nafni, með skipinu og kennir hann þeim, sem síðan taka við, hvernig nota skuli hana og gera við það, sem aflaga kynni að fara. Guðmundur Jónsson skipstjóri, Geir Sigurðsson og Jón Oddsson, útgerðarmaður í Hull, völdu og keyptu skipið í Boulogne sur Mer í Frakklandi, sigldu því síðan til Hull og fluttu heim kol. Hinn 3. marz lagði Reykjaborg í sína fyrstu veiðiför; er þar Guðmundur Jónsson skipstjóri, er áður var á bv. Skallagrími og stýrimaður er, Kristján Schram. Alls er skipshöfnin 42 menn. Ægir flytur eigendum Reykjaborgar, bestu óskir um góða framtíð og arðsemi þessa fyrirtækis, sem þeir með fjárframlögum og erfiði hafa unnið að og aukið með því, útgerð landsins og veitt vinnu, sem um munar.

Ægir. 1 mars 1936.

   Björgunarfleki af b.v. "Reykjaborg" finnst           mannlaus í hafi

 Togarinn hefur ekki komið fram á ákvörðunarstað

Togarinn "VÖRÐUR" frá Patreksfirði kom hingað um hádegisbilið í gær. Höfðu skipverjar fundið björgunarfleka frá togaranum "Reykjaborg", í hafi, um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Flekinn var mannlaus, en á honum var ullarteppi og björgunarbelti. Áður en "Vörður" kom, og vitað var, að hann hafði fundið flekann, hafði útgerðarstjórn Reykjaborgar borist, skeyti frá umboðsmanni skipsins í Englandi, þar sem hann segir, að skipið hafi ekki komið á ákvörðunarstað og ekkert til þess spurst. Búist var við Reykjaborg til Fleetwood fimtudaginn 13. þ. m., því hjeðan fór skipið laugardaginn 8. þ. m. kl. 6 e. h. Þó talið sje nokkurnveginn víst að Reykjaborg hafi verið sökkt, eða að skipið hafi farist, þá er ekki vitað með neinni vissu um afdrif skipshafnarinnar. Vona menn í lengstu lög, að henni hafi verið bjargaf af flekanum eða ef til vill björgunarbátum skipsins á hafi, en að einhverra hluta vegna hafi ekki fregnast um það ennþá. Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi, Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar.
Blaðamaður frá Morgunblaðinu átti í gær tal af Guðmundi Jóhannssyni skipstjóra á togaranum "Verði", sem fann flekann frá Reykjaborg. Hann sagði svo frá,: Það var klukkan 7.30 f. h. laugardaginn 15. þ. m., að við sáum björgunarfleka á sjónum. Við vorum þá staddir á 59°, 25' norðlægrar breiddar og 10°, 22' vestlægrar lengdar, eða um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum við Skotland. Á flekan fundum við ullarteppi, björgunarbelti og vatnskút, en í sjónum umhverfisflekann voru á floti lestarborð og borð úr dekkstíum. Við tókum flekann með okkur og svipuðumst um eftir mönnum, en sáum ekkert, sem gefið gat til kynna að annað væri að finna frá skipinu á þessum slóðum, Héldum við svo áfram leið okkar til Íslands og urðum ekki varið við neitt óvenjulegt á leið okkar eftir þetta.
Björgunarflekinn frá Reykjaborg er sömu tegundar og björgunarflekar þeir, sem Íslensk skip hafa haft síðan ófriðurinn hófst. Flekanum er haldið uppi á 6 blikktunnum, en sjálfur er flekinn eins og kassi í laginu, rúmlega 2 metrar á annan veginn og 1,5 meter á hinn veginn. Niðri í miðjum flekanum er ferhyrnt  opið hólf, sennilega gert til að geta skorðað sig í slæmum sjó.
Í þessu hólfi voru teppið og björgunarbeltið. Í flekanum voru matvæli og vatn í þar til gerðum kassa og vatnskúturinn, sem að framan greinir, en hann hafið losnað úr skorðum sínum, en af hverju er þó ekki ljóst. Björgunarflekinn ber þess merki, að á hann hefir verið skotið úr hríðskotabyssu. Hefir verið skotið að öðrum enda flekans og eru allt að 18 göt á einni tunnunni eftir byssukúlur. Aðeins tvær tunnur eru í flekanum, sem ekki hafa orðið fyrir skotum. Teppið á flekanum var einnig sundurskotið, en ekki þótti fullvíst í gær hvort það er tætt sundur af kúlum úr hríðskotabyssu eða sprengjubroti. Á björgunarbeltinu sást hinsvegar ekki neitt, og reimarnar á, því voru óslitnar.
Benda líkur helst til þess að það hafi aldrei verið notað. Þegar flekinn fannst flaut hann vel upp úr sjó, en þó hærri í annan endann, þeim megin, sem heilu tunnurnar voru. Þegar flekinn var hafinn um borð í "Vörð" fór tappinn úr vatnskútnum og verður því ekki sagt um hvort búið var að drekka af vatninu, sem í honum var. Skot hafði lent í matvælakassanum og sjór komist að matvælunum. Það var heldur ekki upplýst í gærkvöldi hvort nokkuð hafði verið snert við matvælunum Þegar Vörður kom í gærdag fór Kristján Skagfjörð stórkaupmaður, sem er í stjórn útgerðarstjórnar Reykjaborgar, um borð í Vörð og fjekk því framgengt, að togarinn kæmi ekki strax upp að, þar sem þá hefði ekki verið hægt að fyrirbyggja að sagan um flekann hefði breiðst út um bæinn.
Var aðstandendum mannanna á Reykjaborg tilkynnt um flekann, áður en Vörður lagðist upp að. Að tilhlutun ríkisstjórnarinnar var Sveinn Sæmundsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni fenginn til að rannsaka flekann og hluti þá, sem á honum fundust. Fjekk hann í lið með sjer við rannsóknina þá Friðrik Ólafsson, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Pjetur Sigurðsson fyrv. sjóliðsforingja. Rannsökuðu þeir flekann gaumgæflega og tóku úr honum kúlnabrot. Síðan var flekinn fluttur í lokað port, sem útgerðarstjóri Reykjaborgar ræður yfir. Ullarteppið og björgunarbeltið eru í vörslu rannsóknarlögreglunnar.
Með Reykjaborg fóru í þessa ferð 14 manna áhöfn og sá fimmtándi var Runólfur Sigurðsson, sem farþegi. Skipshöfnina skipuðu þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðirnel 53. Ásmundur Sveinsson, 1. stýrimaður, Sveinsstöðum við Kaplaskjólsveg. Óskar Þorsteinsson, 1. vjelstjóri, Víðimel 53. Gunnlaugur Ketilsson, 2. vjelstjóri, Shellveg 2. Daníel Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhúsum við Vesturgötu. Guðjón Jónsson, 2. stýrimaður, Barónsstíg 33. Jón Lárusson, matsveinn, Grandaveg 37. Óskar Ingimundarson, kyndari, Nýlendugötu 11. Eyjólfur Jónsson, háseti, Hverfisgötu 90. Hávarður Jónsson, háseti, Flókagötu 12. Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10. Árelíus Guðmundsson, háseti. Rauðarárstíg 42. Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100. Sigurður Hansson, kyndari. Framnesveg 16. 

Reykjaborg var stærsti togari Íslenska flotans og hið traustasta skip. Var nýlega búið að gera skipið upp (klassa það). Reykjaborg var keypt frá Frakklandi og kom hingað 24. febrúar 1936. Skipið var búið ýmsum tækjum, svo sem fiskimjölsvjelum til að vinna úr fiskúrgangi og aðrar nýjungar til hagnýtingar aflans voru í skipinu.

Morgunblaðið. 18 mars 1941.

  Þeir tóku allir morðárásinni með stillingu og kjarki

    Harmsaga togarans Reykjaborgar verður kunn

Þegar togarinn "Vörður" kom hingað á dögunum með sundurskotinn björgunarfleka "Reykjaborgarinnar", gat enginn verið í vafa um, að þetta stærsta skip togaraflotans var ekki lengur ofan sjávar. En þar sem svo virtist, sem menn hefðu hafst við á björgunarflekanum, vöknuðu vonir manna um það, að fleiri eða færri af skipverjum hefðu komist lífs af. Síðar barst fregnin um það, að breskt herskip hefði bjargað í hafi tveim mönnum af áhöfn Reykjaborgarinnar. Var óhugsandi, að hinum hefði einnig verið bjargað? spurðu menn og vonuðu, að enn gætu borist góð tíðindi. En nú er öll von úti. Nú er hinn blákaldi veruleiki kominn í ljós. í gær barst ríkisstjórninni eftirfarandi tilkynning frá sendifulltrúa Íslands í London:
Ríkisstjórninni barst í morgun símskeyti frá sendifulltrúa Íslands í London, er segir frá því, að Sigursteinn Magnússon, ræðismaður Íslands í Edinborg, hafi átt tal við þá tvo menn, sem vitað var, að hefðu bjargast af b.v. "Reykjaborginni"  
Ræðismaðurinn segir, að þeir hafi skýrt svo frá, að kl. 9,25 síðdegis mánudaginn 10. mars, 140 mílur út frá Barrahöfða, í myrkri en lygnum sjó, hafi "Reykjaborgin" orðið fyrir ákafri skothríð frá kafbát, og hafi hún sokkið innan klukkustundar. Stöðug skothríð hafi dunið á brúna og þilfarið og eyðilagt alla yfirbyggingu skipsins. Skipbrotsmennirnir telja, að aðrir skipsmenn hafi verið dánir af skotsárum, þegar skipið sökk. Sigurður Hansson, Eyjólfur Jónsson og annar kyndari komust undan, þegar skipið sökk, en annari kyndari dó af sárum og þreytu innan 36 stunda. Hinum tveimur var bjargað á fimmtudagskvöld 13. mars. Þeir segja, að allir á skipinu hafi tekið morðárásinni með stillingu og kjarki. Líðan skipbrotsmanna er sæmileg, og máttu þeir fara á fætur í gær. Sigurður Hansson er særður á handlegg og lítið eitt á fæti, en Eyjólfur Jónsson á handlegg, og auk þess í baki og á fæti.
Þessir menn fórust með Reykjaborginni:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðimel 53, f. 21. júní 1901; kvæntur Karólínu Karlsdóttur, barnlaus. Ásmundur Sveinsson, I. stýrimaður, Sveinsstöðum, f. 24. febr. 1905; ókvæntur.
Guðjón Jónsson, II. stýrimaður, Barónsstíg 33, f. 29. jan. 1894; kvæntur Hólmfríði Oddsdóttur, 1 fósturson.
Óskar Þorsteinsson, I. vjelstjóri, Víðimel 53, f. 24. mars 1902; kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur, barnlaus.
Gunnlaugur Ketilsson, II. vjelstjóri, Shellveg 2, f. 3. maí 1912; kvæntur Elsu Breiðfjörð, 1 barn 4 ára. Daníel Kr. Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhús B, f. 21. júlí 1890; kvæntur Jóhönnu Priðriksdóttur, 8 börn, 4 innan 16 ára.
Jón Lárusson, matsveinn, Grandavegí 37, f. 25. sept. 1915; kvæntur Guðbjörgu Hjartardóttur, 1 barn á 1. ári.
Hávarður Jónsson," háseti, Flókagötu 12, f. 19. apríl 1901; kvæntur Aldísi Magnúsdóttur, barnlaus.
Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10, f. 26. sept. 1917; ókvæntur.
Árelíus Guðmundsson, háseti, Eauðarárstíg 42, f. 4. maí 1913; kvæntur Vigdísi Ólafsdóttur, 1 barn. Óskar Ingimundarson, kyndari, frá Djúpavogi, f. 5. nóv. 1909; ókvæntur, átti 1 barn 5 ára.
Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100, f. 12. okt. 1907: kvæntur Þórlaugu M. Sigurðardóttur, 3 börn, 9, 5 og 2 ára.
Auk þess var einn farþegi með skipinu:
Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar, kvæntur, og átti 3 börn.

Morgunblaðið. 25 mars 1941.

09.03.2017 17:37

234. Arnar RE 21. TFLL.

Arnar RE 21 var smíðaður í Harstad í Noregi árið 1964 fyrir Búðaklett h/f í Reykjavík. 187 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Skipið var selt 14 janúar 1969, Skagstrendingi h/f á Skagaströnd, hét Arnar HU 1. Selt 14 mars 1974, Auðbjörgu h/f í Þorlákshöfn, skipið hét Arnar ÁR 55. Selt 19 júlí 1988, Blika h/f á Dalvík, sama nafn og númer. Skipið var selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 19 september árið 1988.


Arnar RE 21.                                                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Arnar HU 1 við bryggju á Skagaströnd.                                                    (C) Árni Geir Ingvarsson.
Flettingar í dag: 634
Gestir í dag: 328
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 332
Samtals flettingar: 570491
Samtals gestir: 137566
Tölur uppfærðar: 24.3.2017 12:01:58