Færslur: 2021 September

13.09.2021 17:46

V.b. Kjartan Ólafsson MB 6. LBDT / TFBI.

Vélbáturinn Kjartan Ólafsson MB 6 var smíðaður í Skagen í Danmörku árið 1916 fyrir Halldór Jónsson á Akranesi. Eik og beyki. 35 brl. 60 ha. Alpha vél. 16,18 x 4,61 x 2,48 m. Báturinn var gerður út frá Sandgerði af Þórði Ásmundssyni og Lofti Loftssyni á árunum 1917-19. Seldur 8 desember 1919, Þórði Ásmundssyni og Bjarna Ólafssyni á Akranesi. Frá árinu 1923 er Þórður einn eigandi bátsins. Ný vél (1928) 70 ha. Delta vél. Báturinn fórst í ofsaveðri á Faxaflóa 14 desember árið 1935 að talið er, með allri áhöfn, 4 mönnum. 26 manns fórust í þessu mikla mannskaðaveðri, bæði á sjó og landi. Mikið tjón varð á Norður og Vesturlandi í óveðri þessu.


V.b. Kjartan Ólafsson MB 6 á Reykjavíkurhöfn.                                    (C) Magnús Ólafsson.

         Engin von lengur um að
 "Kjartan Ólafsson" sje ofansjávar

Leitin að vjelbátnum "Kjartani Ólafssyni" er nú hætt. Barst Slysavarnafjelaginu skeyti frá leitarskipunum um þetta kl. 9 í gærkvöldi. Höfðu skipin þá leitað á öllum þeim slóðum, sem nokkrar líkur voru til að báturinn gæti verið, en leitin reyndist árangurslaus. "Kjartan Ólafsson" fór í róður frá Akranesi á föstudagskvöld. Ætlaði hann að leggja afla sinn á land hjer í bænum. Á bátnum voru eftirtaldir menn:
Jón Ólafsson, skipstjóri, kvæntur maður og átti þrjú börn, sonur hans, Alexander, 17 ára gamall. Georg Sigurðsson, kvæntur og átti 4 börn.
Þorvaldur Einarsson, um tvítugt, ókvæntur, en lætur eftir sig unnustu.
Eigandi bátsins var Þórður Ásmundsson útgerðarmaður á Akranesi.

Morgunblaðið. 18 desember 1935.12.09.2021 17:23

Áhöfnin á togaranum Brimi NK 75 á síldveiðum sumarið 1937.

Norðfjarðartogarinn Brimir NK 75 stundaði sumarsíldveiðar eins og aðrir íslenskir togarar gerðu á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina. Þá var aðal veiðisvæði síldarinnar úti fyrir Norðurlandi. Það var mikill uppgripa tími fyrir togaranna þegar vel bar í veiði og oftast ekki svo langt að fara til löndunar. Aðal löndunarstaðirnir voru Siglufjörður, Djúpavík, Hjalteyri, Svalbarðseyri, Hesteyri í Jökulfjörðum, Akureyri og nokkrar fleiri hafnir við Eyjafjörð og á Austfjörðum. Brimir sigldi oftast austur á Norðfjörð og landaði síldinni hjá Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Þetta var löng leið að fara, en þetta skapaði atvinnu í bænum og var togarinn keyptur til bæjarins í þeim tilgangi. Þessir gömlu kolakynntu togararnir voru á þessum tíma, úr sér gengin skip. En aðal uppgripin voru eftir. Þegar að ófriðurinn í Evrópu hófst í september 1939, hækkaði verð á ísfiski, bæði í Bretlandi og í Þýskalandi, varð úr að togararnir seldu nær allan afla sinn erlendis fyrir geysihátt verð að ríkissjóður og útgerðirnar stórgræddu. Það má segja að aldrei hafi eins gömul og oft á tíðum léleg skip skilað eins miklum gjaldeyri til þjóðarinnar og gaf það góð fyrirheit um það sem kom að styrjöldinni í Evrópu lokinni, nefnilega nýsköpuninni. Norðfirðingar áttu Brimi í rúm þrjú ár. Hann var seldur Skúla Thorarensen í Reykjavík hinn 30 júlí árið 1939, eða korter fyrir stríð. Þar urðu Norðfirðingar af miklu uppgripi, því ef þeir hefðu getað haldið togaranum lengur í heimabyggð, hefði togarasaga Norðfjarðar orðið önnur en raunin varð.


Fyrsti togari í eigu Norðfirðinga var Brimir. Myndin var tekin um borð í skipinu sumarið 1937, en þá var skipið á síldveiðum.
Aftasta röð frá vinstri:
Oddur Hannesson, loftskeytamaður, Guðni Pálsson, skipstjóri, Stefán Björnsson, 2. stýrimaður, Ólafur, 1. vélstjóri, Páll Ágústsson, 2. vélstjóri, Ingvar Pálmason, nótabassi, Páll Guðnason (sonur skipstjóra), Björgvin Björnsson, 1. stýrimaður.
Næst aftasta röð:
Bjarni Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Mikael Sverrisson, Sigurður B. Sigurðsson, Rannver Bjarnason, Baldvin Ólafsson, Jóhannes Narfason, bátsmaður.
Þriðja röð að aftan:
Jóhann Þórðarson, Anton Lundberg, Guðmundur Eyjólfsson, Páll Jónsson, saltari.
Næst.fremsta röð:
Svanbjörn Jónsson, kyndari, Herbert Þórðarson, Páll Jónsson, Ármann Eiríksson, Óskar Sigurðsson.
Fremsta röð:. Ragnar Guðnason. Sveinmar Jónsson, kyndari, Magnús Guðmundsson, matsveinn, Jón Pálsson, aðstoðarmatsveinn og Stefán Höskuldsson.

Botnvörpungurinn Brimir NK 75 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Seldur 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Seldur 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt 30 ágúst 1947, P/f Skinfaxa í Söldarfirði í Færeyjum, hét þar Miðafell FD 69. 9 mars 1951 keypti Gudmund Isfeld togarann á nauðungaruppboði. Togarinn var svo  seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og tekinn af færeyskri skipaskrá 26 október árið 1951.

Málverk Sigríðar Lúðvíksdóttur.

12.09.2021 12:50

M.b. Þór SU 389.

Mótorbáturinn Þór SU 389 var smíðaður í Fredrikssund í Danmörku árið 1915 fyrir Rolf Johansen kaupmann og athafnamann á Búðareyri við Reyðarfjörð. Eik og fura. 4,39 brl. 10 ha. Wichmann vél (1924). 8,98 x 2,70 x 1,10 m. Seldur 25 júní 1926, Óla Þorleifssyni á Eskifirði. Seldur 6 febrúar 1929, Jóni K Guðjónssyni á Eskifirði. Seldur 25 apríl 1934, Sveini Ólafssyni í Firði í Mjóafirði, sama nafn og númer. Seldur 17 apríl 1940, Svavari Víglundssyni í Neskaupstað, hét Hafþór NK 80. Seldur 13 desember 1943, Ásbirni Karlssyni og Ásgeiri Karlssyni á Djúpavogi, hét þá Hafþór SU 13. Báturinn var talinn ónýtur 15 október árið 1948 og tekinn af skrá. Árið 1956 eignaðist Stefán Aðalsteinsson á Djúpavogi bátinn og lét hann byggja hann upp frá grunni á Fáskrúðsfirði sama ár. Mældist þá 6 brl. Einnig var sett í bátinn 14 ha. Saab vél. Báturinn var súðbyrtur áður, en nú var sett á hann slétt klæðning og hann endurskráður og fékk þá nafnið Hafþór SU 101. Seldur 26 ágúst 1959, feðgunum Auðuni Þórðarsyni og Konráð Auðunssyni í Neskaupstað, hét Elsa NK 101. Vorið 1965 var báturinn dreginn á land á Norðfirði undan hafís, en fylltist þar af sandi og sjó. Þá eignuðust Skipatryggingar Austfjarða bátinn. Að endingu keypti Guðmundur Vestmann skipstjóri í Neskaupstað bátinn, náði honum á flot og fór með hann út í bæ og  dró hann á land. Þar stóð báturinn þar til hann fór á áramótabrennu á Norðfirði, áramótin 1966-1967.


Þór SU 389 á siglingu á Norðfirði. Heitir raunar Hafþór SU 101 þegar þessi mynd er tekin. Báturinn er sennilega komin þarna í eigu feðganna Auðuns og Konráðs.  (C) Sigurður Guðmundsson.

05.09.2021 11:36

B.v. Úranus RE 343 fær á sig brotsjó í Norðursjó.

Dagana 16 og 17 febrúar árið 1962 hafði norðaustan stormur og ofsaveður staðið yfir í Norðursjó og náði það langt norður í haf. Veðrið olli miklum usla við strendur Bretlands og gekk einnig yfir stóran hluta vestur Evrópu með miklu eignatjóni. Í Skotlandi náði vindhraðinn 190 km. klst. Mörg skip sem voru á Norðursjó fóru ekki varhluta af óveðri þessu og mörg þeirra lentu í miklum erfiðleikum og tjóni. Togarinn Úranus RE 343 sem var á heimleið úr söluferð til Cuxhaven í Þýskalandi, fékk á sig brotsjó þegar skipið var statt um 250 sjómílur suðaustur af Færeyjum.
Kom sjórinn á skipið aftanvert og olli miklum skemmdum. Bátadavíðurnar eyðilögðust og báðir björgunarbátarnir spónbrotnuðu. Sást hvorki tangur né tetur eftir af þeim þegar sjórinn var genginn yfir. Þá lagðist loftventill yfir kyndistöð togarans saman og reykháfur skipsins dældaðist mikið. Þá hreif sjórinn með sér tvo gúmmíbjörgunarbáta en eftir um borð voru tveir gúmbátar sem rúmuðu 12 menn hvor. Úranus gat haldið ferð sinni áfram eftir áfallið og komst til Færeyja þar sem gert var við mestu skemmdirnar sem urðu á skipinu, en því síðan siglt til Bretlands þar sem fullnaðarviðgerð fór fram og tók hún um mánaðartíma.
  

Heimildir: Dagblöð frá þessum tíma.
                Þrautgóðir á raunastund. XV. bindi.


B.v. Úranus RE 343 eftir áfallið í Norðursjó.                                         (C) Hafliði Óskarsson.

  Íslenskir togarar í óveðrinu í Norðursjó
  Brotsjór tók bátana og laskaði Úranus

Norðaustan stormur og óveður hefur geisað í Norðursjó, eins og skýrt befur verið frá í blaðinu og skip lent þar í miklum erfiðleikum. Nokkrir íslenzkir togarar hafa verið á ferðinni á þessum slóðum og þremur þeirra hlekkzt á. Úranus missti bátana í brotsjó og fleira brotnaði ofanþilja, stýrið á Júní skemmdist er það var á leið norsku skipi til hjálpar og smávægileg bilun varð hjá Skúla Magnússyni. Ekki er getið um í skeytum að neitt hafi orðið að mönnum og öll eru skipin á heimleið. Ekkert mun hafa orðið að öðrum togurum á þessum slóðum. Veðrið var í gær að ganga niður.
Kl. 6 á föstudagsmorgun fékk Úranus á sig brotsjó, er skipið var statt 250 sjómílur suðaustur af Færeyjum á heimleið. Í skeyti til útgerðarfélagsins, sem var 12 tíma að komast til viðtakanda, var sagt að Úranus hefði misst báða björgunarbátana, og tvo gúmmíbáta, allar bátauglur séu stórskemmdar og ónýtar, loftventill yfir kyndistöð gjörónýtur, reykháfur mikið doldaður, ein plata á vélarrist dælduð, en aðrar sýnilegar skemmdir ekki stórvægilegar. Útgerðarfélagið Júpiter h.f. sendi Úranusi fyrirspurn um það hvernig veður væri. Kom svar í fyrrinótt, þar sem sagði að veður færi batnandi og Úranus væri kominn á Færeyjabanka og virtist allt í lagi með ferð skipsins. Jafnframt lét Júpiter skipaskoðun rikisins vita um atburðinn svo og skoðunarstjóra Lloyds. Þess má geta að Úranus mun enn hafa tvo 12 manna gúmmíbáta um borð.
Hafnarfjarðartogarinn Júni var einnig á heimleið frá Þýzkalandi, kominn 1 ½ sólarhrings ferð út á Norðursjó. Var togarinn lagður af stað að aðstoðarskipi, sem var í nauðum statt, líklega björgunar- og veðurathugunarskipinu Eger, er það fekk á sig brotsjó og laskaðist stýrið. Kl. 1 í gær barst Bæjarútgerðinni í Hafnarfirði skeyti frá Júní, þar sem segir: Hér hefur verið NA-stormur. Vorum að aðstoða bát, sem var illa staddur, er við fengum á okkur brotsjó, sem laskaði dálítið stýrið. Erfitt að beygja á annað borðið. Erum á heimleið. Skúli Magnússon seldi í Þýzkalandi 14. febrúar og var einnig á heimleið, er óveðrið skall á. Hann tilkynnti Bæjarútgerðinni í Reykjavík að eftir veðrið þurfi skipið smávægilegar lagfæringar við og álíti réttara að fara inn til Aberdeen. Var Skúli á leið þangað í gærmorgun og allt í lagi um borð. Hafði útgerðarfélagið samband við Þórarin Olgeirsson sem sagði að veðrið væri að ganga niður.
Blaðið leitaði sér upplýsinga um aðra togara, sem vitað var um á leið milli Íslands og meginlandsins, og fékk eftirfarandi fréttir af þeim: Þorkell máni átti að selja eftir helgina í Þýskalandi, en mun tefjast vegna veðursins. Beið hann þess að veður lægði við Færeyjar. Jón Þorláksson er á leið heim og hafði leitað vars í Skotlandi. Hvalfellið er á leið út og höfðu borizt fregnir um að allt gengi eðlilega og einnig að allt væri í lagi hjá Frey, en þeir voru á leið til Þýzkalands, til að selja 19. Febrúar. Haukur og Norðlendingur áttu að selja 21. og munu ekki hafa verið komnir suður í óveðrið. Af farþegagkipum höfum við aðeins fengið fregnir af Reykjafossi á óveðurssvæðinu, en hann var á leið milli Kaupmannahafnar og Rotterdam. Ekkert varð að hjá honum.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1962.


B.v. Úranus RE 343 á toginu.                                                 Úr safni Hafliða Óskarssonar.

           B.v. Úranus RE 343 TFUG

Nýsköpunartogarinn Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725. Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20 maí árið 1974.

Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið. Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.

  • 1
Flettingar í dag: 1016
Gestir í dag: 406
Flettingar í gær: 952
Gestir í gær: 419
Samtals flettingar: 2388487
Samtals gestir: 621443
Tölur uppfærðar: 17.9.2021 19:36:21