Færslur: 2022 September

28.09.2022 20:43

1349. Sigluvík SI 2. TFXH.

Skuttogarinn Sigluvík SI 2 smíðaður hjá Astilleros (Talleres Y. Varaderos) de Huelva S.A. í Huelva á Spáni árið 1974 fyrir Þormóð ramma hf. Á Siglufirði. 450 brl. 1.700 ha. MAN Bazan vél, 1.250 Kw. 47,55 x 9,50 x 6,50. M. Smíðanúmer 1. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Siglufjarðar hinn 7 apríl árið 1974. Fyrsti skipstjóri á Sigluvík var Hörður Hannesson og 1 vélstjóri var Ólafur Matthíasson, báðir siglfirðingar. Togaranum var lagt um mitt ár 2002, en hafði þá stundað rækjuveiðar í einhvern tíma. Sigluvík var seld til Spánar og tekin af íslenskri skipaskrá 11 júlí árið 2003. Togarinn mun hafa verið gerður út til veiða við S-Ameríku, þá sennilega við Panama. Veit ekki hvort hann er enn í drift eða hvað um hann varð.
 

1349. Sigluvík SI 2 á leið inn Siglufjörð.                (C) Steingrímur Kristinsson.




                         Sigluvík SI. 2 kemur til Siglufjarðar

Sunnudaginn 7. apríl kl. 5 e. h. lagðist skuttogarinn Sigluvík SI 2, að hafnarbryggjunni í Siglufirði. Veður var kalt, norðanátt með snjókomu, og náðist þess vegna ekki eins góð mynd af skipinu og æskilegt hefði verið. Fjöldi fólks kom samt niður á bryggju til að fagna hinu nýja skipi. Þar fluttu stutt ávörp Sigurjón Sæmundsson, f. h. stjórnar Þormóðs ramma h. f., og birtist það ávarp hér á eftir, Stefán Friðbjarnarson bæjarstjóri, sem bauð skipið velkomið til bæjarins, og Þórður Vigfússon framkvæmdastjóri, sem m. a. bauð bæjarbúum til fagnaðar um borð í skipinu kl. 8 um kvöldið. Skipið hafði verið tæpa átta sólarhringa á leiðinni frá Suður-Spáni og reyndist það hið bezta sjóskip. Ýmistegt er eftir að lagfæra um borð í skipinu, áður en það er tilbúið á veiðar, og þótti hyggilegra að láta vinna það hér heima, heldur en bíða eftir að verktakarnir lykju því, þar sem nokkuð bar á seinlæti hjá þeim við að ljúka smíði skipsins, einkum því seinasta, sem oft tekur nokkuð langan tíma. Eftirlitsmaður við smíði skipsins var Þórður Jónsson, Þórðarsonar frá Siglunesi. Er það einróma álit þeirra, sem til þekkja, að Þórður hafi leyst af höndum mikið og gott starf og Siglfirðingar fengið allmikið betra skip, vegna árvekni hans við eftirlitið. Var það þó oft örðugt, þar sem Spánverjar hafa ekki reynslu í smíði skuttogara til veiða í norðurhöfum. Skipstjóri á Sigluvík SI 2 er Hörður Hannesson og 1. vélstjóri Ólafur Matthíasson, báðir Siglfirðingar. Neisti óskar Þormóði ramma h. f., skipstjóra og bæjarbúum öllum til hamingju með þetta nýja skip og lætur í ljós þá ósk, að þær vonir megi rætast sem við það eru tengdar.
Hér fer á eftir ávarp Sigurjóns Sæmundssonar við komu Sigluvíkur SI 2, til Siglufjarðar 7. apríl 1974:
Góðir Siglfirðingar, skipstjóri og skipshöfn. Í dag er hátíðisdagur. Í dag fögnum við glæsilegu skipi, sem leggst hér að bryggju í fyrsta sinn, og sem verða skal undirstaða atvinnusköpunar í þessum bæ. Í dag bjóðum við velkomið til heimahafnar skutskipið Sigluvík SI 2, skipstjóra þess og aðra áhöfn. Sigluvík er smíðuð í bænum Huelva á Spáni. Það er um 450 tonn að stærð og búið öllum siglingatækjum, sem nauðsynleg eru slíku skipi. Lengd skipsins er 46,7 m, breidd 9,30 m. Aðalvél er 1700 ha. Bazan-Man, en ljósavélar af Caterpillar-gerð Það er kunnara en frá þurfi að segja, að afkoma þessa bæjar byggist nær eingöngu á sjósókn, vinnslu jsjávarafurða og þjónustustörfum í sambandi við það. Hér er engin iðnaðarframleiðsla, sem veitir stöðuga og örugga afkomu, hér er heldur enginn landbúnaður, sem gæti verið undirstaða margvíslegrar þjónustu, eins og í mörgum nágrannabæjum okkar hér norðanlands. Við Sigifirðingar erum því háðir sjónum og þeim afla, sem þangað er hægt að sækja. Það er okkur því lífsnauðsyn að hlynna vel að því, sem að sjávarútveginum snýr. Við verðum að annast vel um höfnina okkar, sem er undirstaða og lífæð þessarar starfsemi. Okkur ber skylda til að sjá um, að Siglufjarðarhöfn verði ætíð og örugglega ein bezta höfn landsins. Öruggt kjól þeim, sem af hafi leita, og ákjósanlegt athafnasvæði fyrir þá, sem hér þurfa að starfa. Við verðum sem fyrst að ljúka við að byggja upp nauðsynleg fiskmóttökuskilyrði, til þess að mögulegt sé að hagnýta þann afla, sem að landi berst.
Við verðum einnig að tryggja okkur traust og góð skip, svo okkar ötula sjómannastétt geiti stundað sjóinn af kappi. Þess vegna er það hátíðisdagur, þegar Siglfirðingar sigla nú þessu fríða skipi til heimahafnar. Það er nýr kapítuli í atvinnusögunni og tryggir enn betur framtíð þeirra, sem hér lifa og starfa. Það er von mín, og reyndar bjargföst trú, að framundan séu straumhvörf í málefnum Siglufjarðar. Þegar hin nýju og mikilvirku skip komast í gagnið og fullkomið fiskiðjuver hefur risið af grunni, á að verða næg vinna fyrir allar starfsfúsar hendur hér í þessum bæ. Það er trú mín, að framundan séu tímar athafna og umsvifa, menningar og lífshamingju, ef vel er á málum haldið. Þess vegna er það okkur til mikillar og innilegrar gleði, þegar þeim áfanga er náð, að nýtt og afkastamikið fiskiskip kemur hingað til hafnar, stjórnað af Siglfirðingum, sem eru tilbúnir að beita því til sóknar á miðin. Ég vil því, f. h. stjórnar Þormóðs ramma h. f., bjóða Sigluvík SI 2, velkomna til heimahafnar. Ég þakka öllum sem lagt hafa hönd að og haft umsjón með smíði þessa skips. Ég óska skipstjóra, skipshöfn og Siglfirðingum öllum til hamingju með þetta glæsilega skip. Megi Guðs blessun fylgja störfum skips og skipshafnar um ókomin ár.

Neisti. 1tbl. 10 apríl 1974.
 

Sigluvík SI 2 hleypt af stokkunum í Huelva á spáni árið 1973. Mynd í minni eigu.

 

                       Sigluvík SI 2

7. apríl s.l. kom 3. Spánartogarinn af minni gerð til landsins, en það var Sigluvík SI 2, sem er eign Þormóðs ramma h.f., Siglufirði. Þessi skuttogari er byggður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Huelva S.A, smíðanúmer stöðvarinnar nr. 1. Véla- og tækjabúnaður í Sigluvík SI er að öllu leyti samsvarandi og í hinum tveimur fyrri, þ. e. Hólmanesi SU og Otri GK, nema hvað búnaður og fyrirkomulag á vinnuþilfari er með öðrum hætti. Á vinnuþilfari eru 4 blóðgunarker með rafknúnum lyftibúnaði á botni keranna, og ein „roterandi" fiskþvottavél. Auk þess er örbylgjustöð af annarri gerð, eða frá ISR, gerð AP 159. Skipstjóri á Sigluvík SI er Hörður Hannesson og 1. vélstjóri Ólafur Matthíasson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Þórður Vigfússon.

Ægir. 11 tbl. 1 ágúst 1974.
 

Sigluvík SI 2.                                                        (C) Steingrímur Kristinsson.



                               Sigluvík SI seld til Spánar

Rækjutogarinn Sigluvík SI á Siglufirði, sem legið hefur verið bundinn við bryggju í tæpt ár, hefur verið seldur til Spánar. Frá þessu er skýrt á fréttavefnum Skip.is og haft eftir Ólafi Marteinssyni forstjóra Þormóðs ramma-Sæbergs hf. að sennilega muni skipið verða gert út til veiða á fjarlægum miðum svo sem við strendur Afríku eða Suður-Ameríku. Þormóður rammi-Sæberg gerir nú út þrjú skip til ísrækjuveiða, Stálvík, Múlaberg og Sólberg, en rækjufrystitogarinn Sunna, sem aðallega hefur stundað veiðar á Flæmingjagrunni, hefur verið settur á söluskrá.

Fiskifréttir. 24 tbl. 27 júní 2003.

11.09.2022 13:00

Togarar við legufæri sín í Hafnarfjarðarhöfn.

Togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní GK 345 og fjær á myndinni er Venus GK 519 sem fyrst var í eigu h.f. Belgaum í Hafnarfirði, liggja hér báðir við legufæri í Hafnarfjarðarhöfn. Myndin er sennilega tekin árið 1956, að haustinu og jafnvel stuttu áður en Venus slitnaði upp og rak upp í vestari hafnargarðinn í ofsaveðri hinn 30 nóvember það ár. Eftir það var togarinn talinn ónýtur og seldur í brotajárn. Gufuketillinn úr Venusi endaði svo í hinni nýju síldarbræðslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem byggð var á árunum 1957-58. Það var ekki óalgeng sjón á árunum upp úr 1960, að sjá togara sem hafði verið lagt inn á Kleppsvíkinni í Reykjavík og lágu þeir þar sumir hverjir árum saman áður en þeir voru svo seldir fyrir slikk eða í brotajárn. Sannarlega illa farið með góð og falleg skip. Þar var að mestu leiti rekstrarvanda um að kenna og einnig mjög erfitt að manna þá, en á þessum árum var síldarævintýrið síðara í fullum gangi og sóttust sjómenn þá frekar eftir því að fara á síldarbát, því það gaf mun meira af sér.
 

Venus GK 519 fjær og Júní GK 345 í bólum sínum í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
 

Nýsköpunartogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hét Höfrungur á smíðatíma. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,60 m. Smíðanúmer 735. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 13 mars sama ár. Togarinn var seldur í júní árið 1964, Evengelos J. Stathakis & Sons í Piraeus í Grikklandi, hét þá Koutouriaris S. lll. Ný vél (1971) 1.630 ha. Werkspoor díesel vél. Selt 1984, Korali NE Atlantic Fishing Co í Piraeus í Grikklandi, hét þá Nikolaos lll. Skipið var selt 1994, Al. Samali & Co í Conakry í Gíneu. Talið ónýtt og og tekið af skrá árið 2002. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Botnvörpungurinn Venus GK 519 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1929 fyrir Hlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 415 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 43,58 x 7,66 x 4,30 m. Smíðanúmer 533. Skipið var selt 27 febrúar 1937, Hlutafélaginu Venusi í Hafnarfirði. Togarinn slitnaði úr bóli í Hafnarfjarðarhöfn í ofsaveðri 30 nóvember 1956 og rak upp í vestari hafnargarðinn og sökk þar. Skipið var talið ónýtt og selt í brotajárn í mars árið 1962. Gufuketillinn úr Venusi var seldur Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað árið 1957-58 sem notaði hann í hinni nýbyggðu síldarbræðslu sinni. Sú síldarbræðsla eyðilagðist í snjóflóði 20 desember 1974, en gufuketillinn stendur enn á grunni gömlu verksmiðjunnar.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Úr safni Óttars Guðmundssonar.
 

Gufuketillinn úr Venusi GK 519 á grunni gömlu síldarbræðslunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20 desember árið 1974. Ketillinn er nú hluti af minningarreit um þá starfsmenn Síldarvinnslunnar sem látist hafa af slysförum í gegn um tíðina.      (C) Elín Anna Hermannsdóttir.


 

  • 1
Flettingar í dag: 2581
Gestir í dag: 282
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 728171
Samtals gestir: 54103
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 11:37:25