Færslur: 2019 Júní

30.06.2019 18:29

Bjartur NK 121 fékk á sig brotsjó út af Hælavíkurbjargi.

Það var aðfaranótt 20 janúar árið 1980 að skuttogarinn Bjartur NK 121 frá Neskaupstað var á heimleið af Vestfjarðamiðum að mikill brotsjór skall á bakborðssíðu hans og lagðist togarinn fyrirvaralaust á hliðina og allt lauslegt fór fyrir borð. Sjór komst inn um skorstein og skorsteinshús skipsins niður í vélarúm. Sjór komst þar í rafmagnstöflur með þeim afleiðingum að smur og olíudælur við aðalvél togarans stöðvuðust og þar með aðalvélin líka. Veður var þá hið versta, 10-12 vindstig af norðaustri, haugasjór og blindhríð. Rak togarann stjórnlaust að landi við Hælavíkurbjarg í um 2 klukkustundir, en þá tókst Guðmundi Sigmarssyni vélstjóra að koma vélinni í gang. Átti þá togarinn innan við 3 sjómílur upp í bjargið. Bjartur komst svo hjálparlaust til hafnar á Ísafirði þar sem skemmdir voru kannaðar og það lagfært sem hægt var áður en haldið var heim á leið. Engin slys urðu á skipverjum. Þarna hefði getað farið mun verr ef Guðmundi vélstjóra hefði ekki tekist að koma aðalvélinni í gang. Bjartur bar merki þessa mikla brots lengi á eftir. Þegar staðið var aftan við skorsteinshúsið bakborðsmegin og horft fram eftir skipinu, sást hvað lunningin var illa bogin inn á við, en það var svo lagfært fyrir einum 20 árum síðan. Fallegt skip Bjartur.


1278. Bjartur NK 121. TFNV.                                                                (C) Niigata Engineering Co Ltd. 


1278. Bjartur NK 121 kemur til löndunar í Neskaupstað með fullfermi.        Úr safni áhafnar Bjarts NK.

       Bjartur NK fékk á sig brotsjó
          Rak stjórnlaust að landi
         þegar aðalvél stöðvaðist
Komst af eigin rammleik til Ísafjarðar

Skuttogarinn Bjartur NK 121 frá Neskaupstað fékk á sig brotsjó sl. nótt 5,5 sjómílur norður af Hælavíkurbjargi. Engin slys urðu á mönnum, en bakborðsstokkur bognaði inn, björgunarbátur flaut upp og bjarghringir og annað lauslegt sópaðist fyrir borð. Aðalvél stöðvaðist og rak togarann stjórnlausan í átt að landi í um það bil tvær klukkustundir. Bjartur var á heimleið af Vestfjarðamiðum sl. nótt er óhappið varð. Skipstjórinn, Sveinn Benediktsson, var í brúnni ásamt öðrum stýrimanni og háseta. Veður var NA 10-12 vindstig, stórsjór og bylur. Brotsjórinn kom á bakborðssíðu togarans og var aflið svo mikið að togarinn lagðist á stjórnborðshlið, svo mikið að björgunarbátur, sem geymdur var á stjórnborðsbrúarvængnum slitnaði úr festingum og blés sig upp. A.m.k. 5 bjarghringir kurluðust í sundur, björgunarbátur á bakborðsbrúarvæng færðist til í sæti sínu og munaði minnstu að hann færi líka. Loftventill rifnaði, lausir bobbingar og trollið flutu yfir í stjórnborðssíðu og 70 tonn af fiski í lest færðust til. Talstöðvar slitnuðu úr sætum sínum og varð langbylgjustöðin óvirk. Ljóskastarar efst í afturmastri skemmdust og virðist að þetta eina ólag hafi fært mest allan togarann í kaf. Skipstjóranum tókst að snúa upp í veðrið, en þá stöðvaðist aðalvélin.
Kallað var út í VHF stöð og beðið um aðstoð og lögðu togararnir Kaldbakur og Arnar af stað til hjálpar. Vélstjóranum, Guðmundi Sigmarssyni, og mönnum hans tókst að finna bilunina, sem varð þegar sjór komst í rafmagnstöflu undir netalest. Við það stöðvuðust dælur fyrir smurolíu og vatn að vélinni og stöðvast hún þá sjálfkrafa. Eftir tveggja tíma rek tókst að koma aðalvélinni aftur í gang og átti skipið þá eftir 3 mílur í Hælavíkurbjargið.
Togarinn kom til Ísafjarðar um 10 leytið í morgun. Hér verður gert við rafmagn og annað sem nauðsynlegt er en skipstjórinn reiknaði með að halda af stað heim seinni partinn í dag og fara þá suður fyrir land. Hann hafði orð á því, að veðurspáin fyrir þetta svæði þegar óhappið varð hafi verið suðvestan gola. Togarinn Bjartur er af minni gerð skuttogara, smíðaður í Japan 1973. Á honum er 16 manna áhöfn.

Morgunblaðið. 20 janúar 1980.


29.06.2019 08:41

Eggert Ólafsson GK 385. TFGO.

Vélbáturinn Eggert Ólafsson GK 385 var smíðaður í Knippla í Svíþjóð árið 1944. Eik. 63 brl. 180 ha. Skandia vél. Eigandi var Ólafur Ófeigsson skipstjóri og útgerðarmaður í Reykjavík frá 8 mars 1946. Seldur 17 janúar 1952, Albert Bjarnasyni í Keflavík, hét Sæfari KE 52. Ný vél (1955) 270 ha. June Munktell vél. Seldur 21 október 1958, Hraðfrystihúsi Keflavíkur hf. hét þá Helguvík KE 75. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 17 maí árið 1963.


Eggert Ólafsson GK 385. Heitir Helguvík KE 75, sínu síðasta nafni á þessari mynd.     Úr safni mínu.

    Fyrstu Svíþjóðarbátarnir leggja
      af stað hingað eftir fáa daga 

Samkvæmt fréttum, sem tíðindamaður blaðsins fékk hjá forseta Fiskifélagsins í gær, munu fyrstu Svíþjóðarbátarnir leggja af stað til Íslands innan fárra daga, og góðar horfur eru á því, að þeir verði flestir komnir hingað fyrir síldarvertíð.
í gærmorgun fékk forseti Fiskifélagsins símskeyti frá Svíþjóð, þar sem greint var frá því, að fyrsti fullsmíðaði báturinn hefði farið reynsluför á mánudaginn, og hefði hann í alla staði reynst vel. Bátur þessi er 50 rúmlestir að stærð, og er eigandi hans Þorkell H. Jónsson skipstjóri í Reykjavík o. fl. Mun báturinn hafa verið afhentur í gærdag. Mun bátur þessi, ásamt fleiri, sem eru nú um það leytið fullsmíðaðir, leggja af stað frá Svíþjóð einhvern næstu daga og væntanlega koma hingað um miðjan þennan mánuð. Eigendur margra bátanna, eða fulltrúar fyrir eigendanna hönd eru komnir til Svíþióðar fyrir nokkru til að veita bátunum móttöku, og nokkrir fara með Eldborginni, sem er á förum héðan til Englands og Svíþjóðar. Sagði Davíð Ólafsson forseti fiskifélagsins, að góðar horfur væru á því, að flestir eða allir þeir bátar, sem ríkisstjórnin lét semja um smíði á í Svíþjóð, myndu verða komnir hingað fyrir síldveiðitíma í sumar. En bátar þessir eru eins og áður, hefur verið sagt frá 45. Hins vegar samdi Reykjavíkurbær, sérstaklega um smíði báta síðar og munu þeir ekki verða tilbúnir fyrr en í haust.
Bátarnir verða af þremur stærðum, 15 þeirra, verða 50 rúmlestir að stærð. Sjö 80 rúmlesta og 28 eru gefnir upp fyrir að vera 78 rúmlesta, en þeir munu hinsvegar mælast meira og verður burðarmagn þeirra sennilega um 80 lestir. Þessir 28 bátar af stærðinni 78 rúmlesta eru smíðaðir eftir teikningum Þorsteins Daníelssonar skipasmíðameistara, en 50 rúmlesta bátarnir og hinir sjö 80 lesta eru smíðaðir eftir teikningum Bárðar Tómassonar. Bátunum hefur nú öllum verið ráðstafað, og fara þeir víðsvegar um landið. Reykjavíkurbær hefur pantað 10 bátanna, og mun bærinn vera búinn að ráðstafa þeim öllum til einstaklinga, en auk þeirra báta, sem bærinn ráðstafar fara 2 bátar 78 lesta og einn 50 lesta til einstaklinga í Reykjavík, svo alls koma 13 bátanna til Reykjavíkur. Til Ísafjarðar fara 5 bátar; fjórir þeirra eru 80 lesta og einn 79 lesta. Til Neskaupstaðar fara 3 bátar, allir 78 lesta. Til Siglufjarðar tveir, báðir 78 lesta. Til Ólafsfjarðar fara 3 bátar, tveir 50 lesta og einn 78 lesta. Til Dalvíkur fara tveir 50 lesta bátar, Til Akraness tveir 50 lesta bátar. Til Eskifjarðar fara tveir 78 lesta bátar. Til Akureyrar fara tveir bátar, annar 87 lesta og hinn 50 lesta. Til Seyðisfjarðar fara tveir bátar, annar 78 lesta, hinn 80 lesta. Til eftirtaldra staða fer einn bátur á hvern stað, Sauðárkróks, Þórshafnar, Húsavíkur, Stykkishólms, Vestmannaeyja, Flateyjar á Breiðafirði, Bolungarvíkur, Hríseyjar, Súðavíkur, Borgarness og Reyðarfjarðar.

Alþýðublaðið. 3 apríl 1946.


27.06.2019 11:55

1393. Trausti ÍS 300. TFTY.

Skuttogarinn Trausti ÍS 300 var smíðaður hjá Sterkoder Mekaniks Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1968. Hét áður Nord Rollnes T-3-H og var gerður út frá Harstad í Noregi. 299 brl. 1.500 ha. Deutz vél, 1.100 Kw. Smíðanúmer 8. Eigandi var Útgerðarfélagið Freyja hf á Suðureyri við Súgandafjörð frá september árið 1974. Seldur 17 september 1977, Skildi hf á Patreksfirði, hét Guðmundur í Tungu BA 214. Seldur 15 desember 1981, Ísstöðinni hf í Garði, hét þá Sveinborg GK 70. Frá 27 júlí 1985 hét togarinn Sveinborg SI 70, sami eigandi. Seldur 10 nóvember 1987, Samherja hf á Akureyri, hét þá Þorsteinn EA 610. Togarinn skemmdist mikið í ís út í Reykjafjarðarál í apríl 1988 og var ekkert gerður út eftir það. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 október árið 1992. Þorsteinn EA sökk suðvestur af Færeyjum 11 desember árið 1992. Hvanneyri SI frá Siglufirði (áður Árvakur) var þá með hann og Þorlák helga EA í togi, en skipin höfðu verið seld í brotajárn til Belfast á Írlandi.


1393. Trausti ÍS 300 við bryggju á Suðureyri.                                         Ljósmyndari óþekktur,

        Skuttogarinn Trausti ÍS 300
        Tollarar í starfi á Súganda

Skuttogarinn Trausti ÍS 300 kom hingað á tímabilinu 4-6 aðfaranótt 29. september. Ferðin frá Noregi gekk vel, ganghraðinn 12,5 míla á klukkustund. Samkvæmt norskri mælingu er stærð Trausta 299 tonn. Í islenskri mælingu verður hann sennilega rúmlega 400 brúttólestir. Smíðaár togarans er 1968. Trausti er ekki útbúinn flottrolli, en kom með allan útbúnað til þess að stunda þannig veiðiskap. Óvist er hvenær hann byrjar veiðar. Tollskoðun var í allan gærdag, sunnudag, og er enn ekki lokið. Tveir tollverðir komu að sunnan og einn frá Ísafirði. Talið er að þeir hafi unnið fullkomlega fyrir kaupi sínu
Skipið lagðist að hafskipabryggjunni hér. Verður hún, bryggjan, sennilega opin allri umferð fyrst um sinn.

Þjóðviljinn. 1 október 1974.



Nord Rollnes T-3-H frá Harstad í Noregi.                                           (C) Sæmundur Þórðarson.


1393. Trausti ÍS 300.                                                                               (C) Sæmundur Þórðarson.

       SkuttogarinnTrausti ÍS 300

Súgfirðingar hafa eignast sinn fyrsta skuttogara með tilkomu Trausta ÍS 300, sem kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar 29. september á s.l. ári. Skuttogari þessi er eign Útgerðarfélagsins Freyju h.f. Súgandafirði. Skipið sem áður hét Nord Rollnes, var keypt frá Noregi og er smíðað hjá Sterkoder Mek. Verksted A/S Kristiansund árið 1968 og er nýbygging nr. 8 hjá stöðinni.
Skipið er byggt skv. reglum Det Norske Veritas og flokkað +1A1, Stern Trawler, Ice C, +MV. Skipið er skuttogari með tveimur þilförum stafna á milli og skutrennu upp á efra þilfar. Undir neðra þilfari eru fjögur vatnsþétt þil. Fremst í skipinu, er stafnhylki og geymar (sjókjölfesta), en þar fyrir aftan fiskilest, vélarúm og geymar fyrir ferskvatn aftast. Botngeymar fyrir brennsluolíu eru undir lest. Fremst á neðra þilfari eru keðjukassar en þar fyrir aftan íbúðir. Vinnuþilfar er aftan við íbúðir með fiskmóttöku aftast. Aftan við fiskmóttöku er stýrisvélarrúm, b.b.-megin við hana er netageymsla og s.b.-megin er klefi fyrir lifrarbræðslu. Á efra þilfari er fremst lokaður hvalbakur, en í hvalbak eru geymslur, íbúðir og klefi fyrir vindumótor. Aftan við hvalbak er togþilfarið. Aftast á hvalbaksþilfari er brú (stýrishús) skipsins.
Aðalvél skipsins er Deutz, gerð SBV 8 M 545, 1500 hö við 380 sn/mín, sem tengist skiptiskrúfubúnaði frá Liaaen, gerð CS 63. Skrúfa skipsins er 3ja blaða, þvermál 2100 mm. Framan á aðalvél er beintengdur 195 KW REM jafnstraumsrafall, sem er fyrir togvindumótor. Hjálparvélar eru tvær Deutz, gerð F6M-716, 150 hö við 1500 sn/mín. Við hvora vél er 125 KVA, 3x380 V, 50 Hz REM riðstraumsrafall. Fyrir smurolíu- og brennsluolíukerfið eru DeLaval skilvindur. Í skipinu er ferskvatnsframleiðslutæki frá Atlas, gerð AFGU 0.5, afköst 1-1 ½  tonn á sólarhring. Hydroforkerfi er frá Bryne Mek. Verksted. Kælikerfi er frá Peilo Teknikk. Stýrisvél er frá Tenfjord, gerð H-155 ESG. Vökvaknúin fiskilúga, framan við skutrennu, veitir aðgang að fiskmóttöku aftast á vinnuþilfari. Vinnuþilfar er búið blóðgunarkerjum, aðgerðarborðum, fiskþvottavél og færiböndum svo og búnaði til losunar á úrgangi. Lifrarbræðsluketill er í skipinu svo og lýsisgeymar. Fremsta hluta vinnuþilfars, ca. 140 m3 , er unnt að nýta sem fiskgeymslu, en það pláss er einkum notað við netaviðgerðir. Fiskilest undir neðra þilfari er einangruð fyrir frystingu, en útbúin kælikerfi frá Kværner Brug, sem miðast við að halda +1°C hitastigi í lest. Afköst kæliþjöppu eru 12800 kcal/klst við -10°/ -/ + 25°C, kælimiðill Freon 22. Lestin er gerð fyrir fiskkassa.
Íbúðir á neðra þilfari samanstanda af þremur 2ja manna klefum, matvælageymslum og þvottaklefa s.b.-megin, en b. b.-megin er borðsalur (fyrir áhöfn), eldhús, borðsalur fyrir yfirmenn og einn 2ja manna klefi. Á efra þilfari (í hvalbak) eru fjórir 2ja manna klefar, fjórir eins manns klefar og þvottaklefar. Kælikerfi fyrir matvælageymslu er frá Kværner Brug, afköst kæliþjöppu 1400 kcal/ klst. (-30°/-/ + 25°C). Upphitun í vistarverum er með rafmagnsofnum og loftræsting með rafdrifnum blásurum.
Skipstjóri á Trausta ÍS er Ólafur Ólafsson og 1. vélstjóri Einar Ingólfsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Einar Ólafsson.

Ægir. 5 tbl. 15 mars 1975.


1393. Guðmundur í Tungu BA 214 á toginu.                                               (C) Sæmundur Þórðarson.


1393. Sveinborg GK 70.                                                                (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Hvanneyri SI með tvö skip í togi
     Togarinn Þorsteinn EA-610
    sökk suðvestur af Færeyjum

Togarinn Þorsteinn EA-610 sökk á um 600 faðma dýpi suðvestur af Færeyjum um miðnætti síðastliðið föstudagskvöld. Hvanneyri SI frá Siglufirði var með Þorstein og Þorlák Helga í togi er atvikið átti sér stað, en verið var að flytja skipin í brotajárn til Belfast á Norður-Írlandi. Leiðangurinn hafði hreppt vonskuveður á leið sinni og er talið að Þorsteinn EA hafi ekki þolað veðrið, en hann skemmdist mikið er hann lenti í ís fyrir tæpum fimm árum. Þorsteinn og Þorlákur Helgi voru í eigu Samherja hf. á Akureyri. Jóhannes Lárusson framkvæmdastjóri Dráttarskipa sagði að vel hefði verið frá málum gengið áður en lagt var af stað út og voru skipin bundin með- stálvír um 600-700 metra löngum við Hvanneyrina. Ferð skipanna út hafði verið frestað sökum veðurs í um 10 daga, en útilitið verið sæmilegt þegar haldið var að stað, veður hafi hins vegar breyst og skipin hreppt leiðindaveður, en þau gengu á 4 mílum á klukkustund um tíma. "Ég var í sambandi við Hvanneyrina um tveimum tímum áður en skipið sökk og þá fannst mönnum sem farið væri að ganga betur, veðrið væri að lagast og ganghraðinn var kominn upp í 5,4 mílur.
Ljós voru á báðum skipunum, en þarna um miðnættið tóku menn eftir að aðeins logaði á einu ljósi og eitt skip sást í radarnum," sagði Jóhannes. Vírinn slitnaði við það að skipið sökk og biðum menn fram í birtingu á laugardagsmorgun til að ná Þorláki Helga og gekk vel að ná honum aftur. Eftir atvikið var farið til Færeyja og stjórnvöldum þar tilkynnt um það sem og stjórnvöldum á Íslandi. Skipið sökk á svæðinu við 61. gráðu norðlægrar breiddar og 9.-10. gráðu vestlægrar lengdar. Hvanneyri verður siglt frá Færeyjum í dag, þriðjudag, áleiðis til Belfast með Þorlák Helga. Jóhannes sagði að engin olía hefði verið í skipinu og því fylgdi engin mengum þó skipið hefði sokkið. Tjón væri heldur ekkert þar sem verið var að fara með skipið í brotajárn, sem lítið fæst greitt fyrir.
Þorsteinn EA lenti í ís í Reykjafjarðarál í apríl árið 1988 og skemmdist þá mjög mikið, m.a. var bolur skipsins illa farinn og kom gat á skut þess stjórnborðsmegin, skuthorn varð ónýtt að hluta og skemmdir urðu í vélarrúmi. Þorsteinn EA hefur frá því þetta gerðist legið við bryggju á Akureyri, en hann var úreldur upp í nýjan frystitogara Samherja, Þorstein Baldvinsson EA, sem nýlega kom til heimahafnar í fyrsta sinn.

Morgunblaðið. 15 desember 1992.


25.06.2019 19:45

B.v. Freyr RE 1. TFXO.

Togarinn Freyr RE 1 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísbjörninn hf. í Reykjavík. 987 brl. 2.300 ha. Werkspoor vél, 1.800 Kw. 67,61 x 10,33 x 4,85 m. Kom togarinn til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 24 ágúst sama ár. Skipið var selt 2 september 1963, Ross Trawler Ltd í Grimsby, fékk nafnið Ross Revenge GY 718. Togarinn kom nokkuð við sögu í þorskastríðunum á 8 áratugnum og þótti nokkuð skæður. Skipstjóri á honum var lengi vel Johnny Meadows. Skipið var selt í maí 1983, Seamore Company í Liechtenstein (Ernst Kunz), og sama dag skráð í eigu Grothan Steamship Line S.A í Panama sem einnig átti Radio Caroline útvarpsstöðina. Skipið lá lengi í Kentish Knock flóanum út af ánni Times. Þessi útvarpsstöð var starfrækt í skipinu til ársins 1991. Eftir það var togaranum komið fyrir í Tilbury Dock, nærri Essex. Skipið var gert upp þar á árunum 2004-06, vélin, (sama) og vistarverur og annað innandyra tekið í gegn. Ross Revenge liggur nú við múrningu á Blackwater Estuary flóa við Bradwell í Essex á Englandi og er safn um sögu útvarpsstöðvarinnar Radio Caroline.


Togarinn Freyr RE 1 í Reykjavíkurhöfn með 820 tonn af síld sem lestuð var á Seyðisfirði.                                                            (C) Ari Kárason.

Nýr 1000 lesta togari bætist í flotann

"Freyr" RE 1 kom til Reykjavíkur í gær

Í gær bættist nýr 1000 tonna togari við togaraflota okkar. Er það b.v. Freyr RE 1, eign fyrirtækisins Ísbjörninn hf. (Ingvar Vilhjálmsson). Skipið er smíðað hjá A. G. Weser Werk Seebeek í Bremerhaven og var afhent hinn 19. þ.m. Freyr er stærsti togari landsins, sem smíðaður hefir verið til þessa, 987 brúttólestir. Lengdin er 210 fet og breidd 33 fet. Aðalvélin er "Werkspoor" diesel-vél, 2.300 hestöfl við 280 sn. Vélin er tengd við skiptiskrúfu. Í stjórnkassa í stýrishúsi, þar sem mörg stjórntæki hafa verið sambyggð, er hægt að stjórna skiptiskrúfunni og einnig er þaðan hægt að aftengja skrúfuna frá aðalvélinni. Hjálparvélar eru þrjár.
Togarinn er búinn öllum nýjustu mælitækjum, m.a. djúpmælir fyrir togvörpu, sem er alger nýjung hér á landi. Mælir þessi er til þess að sjá hvernig varpan fer í sjónum og hvort fiskur er fyrir framan hana. Það má einnig telja til nýjunga að skipið er ekki með lifrarbræðslu og mun fyrsti togarinn, sem ekki hafir slíkan búnað. Þetta stafar af því að til fellur heldur lítil lifur um borð í togurunum og oft engin, t.d. er þeir eru á karfaveiðum. Sparar þetta lifrarbræðslumann um borð og verður hún unnin í landi. Allur er frágangur skipsins vandaður og fullkominn. Reynsluferð var farin 19. þ. m. og reyndist hraðinn vera 16,1 sjómíla. Skipstjóri á skipinu er Guðni Sigurðsson er var á Ask, stýrimaður Guðmundur Guðlaugsson og 1. vélstjóri Aðalsteinn Jónsson. Samningar að smíði skipsins voru undirritaðir af Ingvari Vilhjálmssyni útgerðarmanni 1. ágúst sl. ár, en eftirlit með verklýsingu og samningum höfðu þeir Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri og Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1960.


Togarinn Freyr RE 1 við komuna til landsins 24 ágúst 1960.                            Mynd úr safni mínu.


B.v. Freyr RE 1.                                                                               Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Ross Revenge GY 718 í höfn í Grimsby.                                                               (C) James Cullen.


Ross Revenge sem útvarpsstöðin Radio Caroline.                                  (C) Radio Caroline project.


B.v. Freyr RE 1. Líkan.                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Ross Revenge GY 718. Málverk.                                                                  (C) Steve Farrow.

    Freyr á að heita Ross Revenge

Í gærdag var gengið frá kaupum á togaranum Frey. Kaupandinn er Ross-útgerðarfélagið í Grimsby, en forstjóri þess, John Ross, kom hingað til lands þessara erinda. Blaðamaður Morgunblaðsins hitti í gær þá Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi eiganda Freys, John Ross og dr. Magnús Z. Sigurðsson, sem hafði milligöngu um kaupin, á Ingólfsgarði.
Þetta verður stærsti togari í Bretlandi, af venjulegri gerð, segir Ross. Aðeins skuttogararnir eru stærri. - Hve marga togara á Ross hringurinn? - Þeir eru um 60. Auk þess eru 5 í smíðum, þar af 2 skuttogarar. - Hver er reynsla ykkar af skuttogurum - Skuttogarar eru miklu dýrari en venjulegir togarar. Þeir eru hentugri, þegar um verksmiðjuskip er að ræða, t. d. þegar aflinn er frystur um borð. - Margir ráðlögðu mér að kaupa heldur skuttogara í stað Freys, segir Ingvar. - Freyr er byggður 1959, en um það leyti smíðuðu Þjóðverjar fjölda af skuttogurum. Þeir reyndust illa og eru reknir með tapi. Ástæðan fyrir því að tap hefur orðið á Frey er aðeins skortur á markaði. Ef keyptur hefði verið skuttogari í hans stað, hefði tapið orðið enn meira, eða jafnhátt mismuni á kaupverði.
- Hafið þér séð nokkra togara að veiðum hér? - Já, ég flaug í lítilli flugvél yfir miðin fyrir norðan land. Þar sá ég um 25 togara að veiðum. Fjórir þeirra voru frá okkur. - Hvaða nafn fær Freyr? - Hann hlýtur nafnið Ross Revenge (hefnd). En þið megið ekki halda að það sé táknræn nafngift. Allir stórir togarar í Bretlandi eru skírðir eftir herskipum.
Fyrsta Revenge barðist við spænskar freygátur á 16. öld undir stjórn Collingwood, aðmíráls. - Á hvaða mið mun Ross Revenge sækja? - Grænlandsmið fyrst um sinn. Skipshöfnin kemur til Vestmannaeyja annað kvöld með einum togara okkar. Á fimmtudag mun skipið láta úr höfn og sigla til Grimsby.

Morgunblaðið. 3 september 1963.


23.06.2019 11:19

715. Víðir SU 517.

Mótorbáturinn Víðir SU 517 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1933 fyrir Útgerðarsamvinnufélagið Kakala á Eskifirði. Eik. 18 brl. 60 ha. June Munktell vél. Seldur 1936, Sigurði Magnússyni, Böðvar Jónassyni og Georg Helgasyni á Eskifirði, sama nafn og númer. Seldur 7 september 1945, Jens Lúðvíkssyni á Fáskrúðsfirði, hét Róbert Dan SU 517. Seldur 18 maí 1954, Ólafi G Guðbjörnssyni í Reykjavík, hét þá Óskar RE 283. Ný vél (1955) 150 ha. GM vél, árgerð 1943. Seldur 14 júní 1962, Kjartani Björgvinssyni og fl. á Eskifirði, hét Óskar SU 56. Ný vél (1967) 125 ha. Perkins vél, árgerð 1963. Seldur 6 maí 1968, Gísla Þorvaldssyni í Neskaupstað, hét þá Jakob NK 66. Báturinn var endurbyggður og lengdur í Neskaupstað sama ár, mældist þá 21 brl. Ný vél (1973) 190 ha. Caterpillar vél. Seldur 20 desember 1978, Pétri Sæmundssyni í Keflavík, hét Óli Tóftum KE 1. Seldur 14 janúar 1982, Garðari Garðarssyni í Keflavík og Einari Jónssyni í Njarðvík, hét þá Jón Garðar KE 1. Seldur 17 júlí 1985, Svavari Guðnasyni og Sigmundi Hjálmarssyni í Grundarfirði, hét Guðmundur Ólafsson SH 244. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 3 nóvember árið 1986. Endaði síðan á áramótabrennu í Njarðvík 31 desember árið 1986.

Samvinnufélagsútgerðin Kakali á Eskifirði lét smíða fyrir sig 4 báta. 3 þeirra voru smíðaðir í Frederikssund eftir sömu teikningu. Auk Víðis voru það Reynir SU 518 og Einir SU 520. 4 báturinn, Birkir SU 519, 48 brl var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1933.


Víðir SU 517 í slipp á Eskifirði.                                                                            (C) Helgi Garðarsson.


Víðir SU 517 og Reynir SU 518 að landa síld á Siglufirði.                              Ljósmyndari óþekktur.


715. Jón Garðar KE 1 við bryggju í Keflavík.                               (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.


Víðir SU 517. Líkan Gríms Karlssonar.                                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa.

          Samvinnufélagið Kakali

Samvinnufélag til útgerðar hefur nú verið stofnað á Eskifirði, og hefur það fengið ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni til skipakaupa og útgerðar. Félag þetta, sem heitir samvinnufélagið Kakali, hefur nú látið smíða 4 báta, og eru 3 af þeim um 19 rúmlestir hver, smíðaðir í Danmörku, en einn, 50-60 smálestir, er smíðaður í Noregi. Bátar þessir komu til Eskifjarðar um áramótin.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1934.


20.06.2019 13:39

877. Valur SU 328.

Mótorbáturinn Valur SU 328 var smíðaður í Mjóafirði árið 1923, sennilega af Þorsteini Tómassyni skipasmíðameistara sem bjó í Mjóafirði á þessum tíma. Eik og fura. 9 brl. 12 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Hjálmar Vilhjálmsson og Gísli Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði. Seldur 7 október 1940, Þorleifi Jónassyni og fl. í Neskaupstað, hét Ver NK 83. Ný vél (1942) 35 ha. Völund vél, árgerð 1930. Seldur 1 júní 1943, Friðrik Magnússyni og fl. á Patreksfirði, hét Ver BA 276. Seldur 29 október 1945, Ólaf Michelsen og Olaf Joensen á Patreksfirði, var ekki umskráður. Seldur 8 október 1948, Jóhannesi Guðjónssyni og fl. á Flateyri, hét þá Ver ÍS 108. 28 febrúar 1951, seldi Jóhannes Guðjónsson,  Magnúsi Guðmundssyni sinn hlut í bátnum. Seldur 14 janúar 1954, Agnari Guðmundssyni, Gunnari Helgasyni og Höskuldi Agnarssyni á Ísafirði, sama nafn og númer. Ný vél (1961) 55 ha. Ford vél. Báturinn sökk á Ísafjarðardjúpi eftir að mikill leki kom að honum, 2 mars árið 1967. Áhöfninni, 2 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Hafdísi ÍS 71 frá Ísafirði. Voru báðir bátarnir þá á rækjuveiðum út af Arnarnesi.

Aðrar heimildir segja bátinn umbyggðan í Mjóafirði árið 1923. Veit ekki hvort er réttara, en ágætt að láta þessar upplýsingar fljóta með.


Mótorbáturinn Valur SU 328 á Mjóafirði. Mennirnir eru frá vinstri talið,: Jóhann Færeyingur, stendur upp við formastrið og Gísli Vilhjálmsson annar eigandi bátsins.        Ljósmyndari óþekktur.

               Rækjubátur sökk

 Áhöfninni, tveim, bjargað af öðrum bát

Ísafirði, 2. marz. 
Lítill rækjubátur Ver ÍS 108 sökk í Ísafjarðardjúpi í dag. Mannbjörg varð. Báturinn var staddur nokkuð fyrir innan Arnarnes og var að toga út af Hamrinum, þegar leki kom að honum. Á bátnum voru tveir menn Ólafur Rósinkarsson og Ægir Ólafsson og báðu þeir þegar í stað um aðstoð hjá rækjubátnum Hafdísi og kom hann strax að og tók Ver í tog. Lekinn magnaðist óðum og var innan stundar kominn upp á miðja vél og yfirgáfu þá þeir félagar bátinn og komust um borð í Hafdísi. Var Ver hafður áfram í togi og tók skömmu seinna inn á sig sjó og sökk. Á Hafdísi eru þeir Árni Magnússon og Hjalti Hjaltason.

Morgunblaðið. 3 mars 1967.







19.06.2019 14:01

Enok NK 17.

Mótorbáturinn Enok NK 17 var umbyggður á Norðfirði árið 1925. Eik. 3,70 brl. 11 ha. Rapp vél, sett í bátinn sama ár. Eigendur voru Guðmundur Magnússon og Sveinn Magnússon á Nesi í Norðfirði. Hét áður Enok SU 449, en fékk NK 17 skráningarnúmerið þegar Nesþorp fékk kaupstaðarréttindin árið 1929 og hét eftir það Neskaupstaður. Seldur 1935, Halldóri Elíassyni og Halldóri Jónssyni í Neskaupstað, sama nafn og númer. Seldur 10 júní 1939, Guðjóni Jónssyni og Lúðvík Jósepssyni í Neskaupstað, enn sama nafn og númer. Báturinn var lengdur árið 1953, mældist þá 5 brl. Einnig var sett í bátinn 24 ha. Lister vél. Seldur 22 janúar 1957, Birni Gústafssyni á Djúpavogi, hét Enok SU 17. Báturinn sökk í Hafnarfirði árið 1961 og eyðilagðist.

Hugsanlegt er að báturinn hafi komið hingað til lands með Norðmönnum einhverjum árum áður og þeir bræður Guðmundur og Sveinn keypt bátinn af þeim og gert hann upp á Norðfirði árið 1925.


Enok NK 17 í bóli sínu á Norðfirði.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

12.06.2019 16:30

Stafnes á Reykjanesi.

Ég var á ferðalagi um Reykjanesið um Hvítasunnuhelgina og kom við á Stafnesi sem er gömul verstöð allt frá 12-13 öld. Ætlunin var að skoða strandstað togarans Jóns forseta RE 108, en hann strandaði á skerinu Kolaflúð skammt frá landi. 15 skipverjar fórust í þessu sjóslysi en 10 mönnum var bjargað við hinar verstu aðstæður. Ég ætla ekki að rekja þessa sorgarsögu frekar hér. Hún er nú flestum kunn. En þetta slys varð til þess að Slysavarnafélag Íslands var stofnað sama ár.


Minnisvarði um skipverjana 15 sem fórust með togaranum Jóni forseta RE á Stafnesi. Fyrir nokkrum árum var skipinu stolið af steininum, en er nú komið aftur.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Skerið Kolaflúð skammt frá landi fram af vitanum.


Stafnesviti.


Sérkennilegt bergið þarna á Stafnesi.


Á Stafnesi.


B.v. Jón forseti RE 108. Líkan í Sjóminjasafninu Víkinni.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Jón forseti RE 108. Smíðaður hjá Scott & Sons (Bowling) Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1906 fyrir útgerðarfélagið Alliance í Reykjavík. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.    Ljósmynd úr safni mínu.

            Stafnes á Reykjanesi

Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi . Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalanesi  en í dag Sandgerði. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í jarðabókum undir lok 17 aldar. Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17 og 18 öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskup fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10 september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16 öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara, talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnarfélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.

Wikipedia. Frjálsa alfræðiritið.




09.06.2019 10:55

876. Hrímnir SH 107. TFAQ.

Vélbáturinn Hrímnir SH 107 var smíðaður í Knippla skipasmíðastöðinni í Kallax í Svíþjóð árið 1946 fyrir Hlutafélagið Elliða í Stykkishólmi. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Seldur 18 janúar 1952, Rún hf í Vestmannaeyjum, hét Hugrún VE 51. Ný vél (1954) 240 ha. GM vél. Seldur 30 maí 1960, Ver hf í Vestmannaeyjum, hét Ver VE 318. Seldur 4 desember 1963, Ver hf á Höfn í Hornafirði, hét þá Ver SF 64. Seldur 5 nóvember 1969, Sigurði Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét Ingólfur VE 216. Ný vél (1973) 335 ha. GM vél. Endurmældur sama ár og mældist 48 brl. Seldur 12 maí 1976, Gísla Þorvaldssyni, Sæmundi Gíslasyni og Jóhanni Gíslasyni í Neskaupstað, hét Gerpir NK 44. Seldur 6 október 1978, Friðrik Friðrikssyni og Sigurði B Karlssyni á Hvammstanga, hét þá Rósa HU 294. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 24 september árið 1986.


876. Hrímnir SH 107 í smíðum í Svíþjóð.                                                          (C) Þórólfur Ágústsson.


876. Hugrún VE 51.                                                                                          (C) Tryggvi Sigurðsson.


876. Ingólfur VE 216.                                                                                      (C) Tryggvi Sigurðsson.

         Nýr bátur til Stykkishólms

Á sunnudagsmorgun 30. júní, kom nýr bátur frá Svíþjóð til Stykkishólms. Eigendur hans eru hlutafjelagið Elliði, Stykkishólmi, og er formaður fjelagsins Ágúst Pálsson, skipstjóri, Stykkishólmi. Bjarni Andrjesson, skipstjóri frá Reykjavík, sigldi bátnum upp. Var báturinn 7 daga á leiðinni til Stykkishólms, með viðkomu í Færeyjum. Báturinn er 52 smálestir brúttó, smíðaður hjá Knippla skipasmíðastöðinni í Kallax í Svíþjóð. Báturinn hefir 170 hesta vjel og er útbúnaður hans allur hinn vandaðasti. Er ákveðið að hann fari á síld í sumar, en sökum þess að útbúnað til trollspils vantar enn er gert ráð fyrir að dragist um 10 daga að báturinn leggi af stað. Nafn bátsins er Hrímnir og verður hann SH 107.

Morgunblaðið. 3 júlí 1946.


08.06.2019 10:29

E. s. Hrímfaxi GK 2. TFPB.

Gufuskipið Hrímfaxi GK 2 var smíðaður í Middlesborough í Englandi árið 1918. 641 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík í ofsaveðri þann 27 febrúar 1941. Var þá Portúgalskt og hét Ourem. H/f Sviði í Hafnarfirði og h/f Hrímfaxi í Reykjavík keyptu skipið á strandstað, náðu því út og létu gera við það út í Englandi. Fékk nafnið Hrímfaxi GK 2. Skipið var síðan í flutningum með ísvarinn fisk til Englands og í almennum vöruflutningum. Í nokkra mánuði á árinu 1943 og fram á árið 1944 var Hrímfaxi í strandferðum í stað Súðinnar sem var þá í viðgerð eftir árás þýskrar herflugvélar á Skjálfandaflóa. Haustið 1946 og fram á vor 1947 var Hrímfaxi í síldarflutningum frá Reykjavík til Siglufjarðar (Hvalfjarðarsíldin). Að þeim flutningum loknum var skipinu lagt. Skipið var selt 10 október 1950, Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík, hét Auðhumla GK 2. Skipið var selt til Indlands í mars árið 1951.


Hrímfaxi GK 2 í slippnum í Reykjavík.                                                          Ljósmynd úr safni mínu.

  Stórfellt skipatjón af völdum fárviðris

    43 skipbrotsmönnum bjargað

Á fimmtudaginn hvesti mjög af norðaustri hjer við sunnanverðan Faxaflóa. Jókst veðrið er á daginn leið og var komið fárviðri kl. 8 á fimmtudagskvöld. Þá um kvöldið fór vindhraðinn hvað eftir annað upp í 12 vindstig. Hjelst sá vindstyrkur alla föstudagsnóttina og áfram í gær til kvölds. Skipatjón af völdum þessa fárviðris hefir orðið gríðarmikið, og er ekki fengið glögt yfirlit yfir það, þegar þetta er ritað. Frjest hefir um manntjón af einum siglfirskum bát, er á voru sex menn. Símalínur slitnuðu mjög í ofviðrinu og eru fregnir utan af landi því ekki greinilegar. En svo virtist í gær, sem veðurofsinn hafi verið mestur við Faxaflóa, bæði við Breiðafjörð og í Vestmannaeyjum hafi vindstyrkur verið mun minni. Hjer verður lauslega skýrt frá skipatjóni því, sem varð í Reykjavíkurhöfn af völdum óveðursins. Eins og frá var skýrt hjer í blaðinu í gær, rak erlent skip á land við Sjávarborg kl. um 10 á fimmtudagskvöld. Reyndist þetta vera portúgalska skipið Ourem, sem er 321 netto tonn og lestar 800 tonn. Farmur skipsins var áfengi og sement. Á skipinu voru 19 menn. Jafnskjótt er skipið hafði kent grunns gekk sjólöðrið yfir það, enda þótt það í fyrstu lægi beint fyrir. Var rokið þá svo mikið að rokmökkinn lagði inn yfir bæinn og voru sumar göturnar sævi drifnar. Kl. 10 ½  komu þeir á strandstaðinn Jón O. Jónsson, Guðbjartur Ólafsson forseti Slysavarnafjelagsins og Jón Bergsveinsson erindreki, ásamt fleiri mönnum. Átti Morgunblaðið tal við Jón O. Jónsson um björgunina og styðst frásögn blaðsins við það. Auðsætt var þá þegar, að ómögulegt mundi að koma bátum við við björgunina sökum veðurofsans. Var þá skotið fluglínum að skipinu og tókst brátt að hitta yfir það mitt. Virtust þá skipverjar draga að sjer skotlínuna, en drógu hinsvegar ekki að sjer sjálfa gildari taugina með björgunarútbúnaðinum. Furðaði þá, sem að björguninni unnu mjög á því. Ekki sinntu skipverjar heldur ljósmerkjum, er björgunarsveitin fékk breskan aðstoðarmann til að gefa þeim. Var í tvær klukkustundir samfleytt reynt að gefa þeim merki og fleiri línum skotið yfir skipið, en allt kom fyrir ekki, skipverjar virtust ekki átta sig á, hvernig þeir ættu að snúa sjer í þessu. En öðru hverju þeyttu þeir eimflautu skipsins. Af þessu leiddi að björgunarsveitin gat ekki hafst að og varð því að bíða alla nóttina. Voru það 4 menn og voru það auk Jóns Oddgeirs, þeir Ingvar Magnússon vjelamaður hjá Sláturfjel. Suðurlands, Guðmundur Sigurðsson og Jóhannes Guðjónsson. Hjeldu þeir vörð á staðnum. Lögreglan lánaði bifreið með mjög sterkum Ijósum og var sundið milli skips og lands lýst upp með þeim. Er á nóttina leið versnaði veðrið mjög og hefði þá alls ekki verið hægt að bjarga í björgunarstól. Gekk nú sjór allmjög yfir skipið og það tekið að velta. Hafði skipshöfn þess þá safnast saman í brúnni. KI. 8 um morguninn tókst svo dönsku skipshöfninni að skjóta línu til lands. Var þá hnýtt í hana línu úr landi og drógu skipsmenn hana síðan að sjer og síðan sjálfan björgunarstólinn.
Hófst nú björgunin og var allri skipshöfninni, samtals 24 mönnum, bjargað í land í björgunarstólnum á þremur stundarfjórðungum. Var skipshöfnin lítt velkt og hin hressasta. Kvað skipstjórinn þá hafa reynt að bjarga portúgölsku skipshöfninni yfir í sitt skip, en það hefði ekki tekist vegna þess, að ekki tókst að fá þá til þess að taka við línum frá þeim, enda var þá naumas hægt að hreyfa sig nokkuð á Ourem vegna sjógangs og brimlöðurs.
Þegar Dönunum hafði verið bjargað var tekið að athuga möguleikana á frekari björgunartilraunum gagnvart skipshöfninni á Ourem. En vegna sjógangs varð ekki aðhafst þá þegar, en beðið þess, að lágsjávað yrði. Kl, 10 voru svo fimm hraustir og þrekmiklir ungir menn, allir íslenskir, dregnir í björgunarstólnum út í danska skipið. Hjet sá Hafliði Magnússon, er fyrstur fór um borð. Er hann þekktur íþróttamaður og hraustmenni. Hlutverk þeirra fimm var að leggja kaðla á milli skipanna , og í brúna á portúgalska skipinu og fikra sig eftir þeim yfir í það til þess að sækja hina þjökuðu skipshöfn, einn á eftir öðrum. En þegar hjer var komið tókst 4 skipverjum að komast af sjálfsdáðum yfir í danska skipið og voru þeir fluttir til lands í björgunarstólnum og Síðan haldið áfram með björgunina, Var íslendingunum, sem að því verki unnu mjög óhægt um vik vegna þess, hve þjakaðir og máttfarnir skipverjar voru. Aðalörðugleikarnir voru á því að koma skipbrotsmönnum yfir í danska skipið., En fyrir mjög vasklega framgöngu sjálfboðaliðanna er að björguninni unnu, tókst björgun allrar skipshafnarinnar slysalaust og var því lokið kl. 11 ½  árdegis. Hinir portúgölsku skipbrotsmenn voru mjög illa til reika, sumir berfættir, klæðlitlir, votir og kaldir. Engir þeirra höfðu spent á sig  björgunarbelti. Einn skipbrotsmannann var fluttur í sjúkrahús en aðrir á gistihús. Jón O. Jónsson. sem björguninni stjórnaði, rómaði mjög kjark og dugnað þeirra sem að björguninni unnu. Þá lá og við að þriðja skipið ræki á land í gær af ytri höfninni. Var það 848 tonn nettó og heitir Cler Miston.  Fyrrihluta dags tók það að reka á legunni, en tókst þó að halda sjer frá landi.

Morgunblaðið. 1 mars 1941.


Ourem og Sonja Mærsk á strandstað í Rauðarárvíkinni.                Mynd úr þrautgóðir á raunastund.

            "Ourem" náð á flot
  Rennt á land í Örfirisey í morgun

Á flóðinu í morgun tókst að flytja e.s. "Ourem", sem strandaði í Rauðarárvík á síðasta ári frá strandstaðnum og inn í höfnina hér, en vegna þess, að slippurinn getur ekki tekið skipið upp sem stendur, var því rennt á land í Örfirisey. Eins og sagt var frá í Vísi á sínum tíma í desember, tókst þá að rétta skipið við, það hallaðist frá landi, en það valt aftur, þegar festar, sem, áttu að halda því, slitnuðu. Hefir það komið fyrir oftar en einu sinni, að tekizt hafi að rétta skipið, en festarnar slitnað og það hallast frá landi á ný. En fyrir hálfum mánuði tókst að lyfta því hærra í fjöruna og var þá hægt að hreinsa lestar þess að mestu eða öllu. Síðan var sú aðferð höfð, að fram- og miðlestir skipsins voru gerðar loftþéttar að ofan og vatninu þrýst úr þeim með lofti, en afturlestin var þurrkuð með því, að sjónum var dælt úr henni. Flaut skipið þá og var þá hægt að flytja það inn á höfnina. Vísir hitti einn af eigendum Ourem, Sigfús Bjarnason, heildsala, í morgun. Keypti hann skipið í mai s.l. ásamt Ólafi Georgssyni, en síðan gekk þriðji maðurinn, Baldvin Einarsson, í félagið. Þeir voru svo heppnir, að fá Markús Ívarsson, hinn þjóðkunna dugnaðarmanna, til að taka að sér að stjórna björguninni og hefir þessi árangur náðst eftir hans fyrirsögn. Kristján Gíslason, vélsmiður, var aðalverkstjóri, og á hann auðvitað sinn þátt í árangrinum. Við marga örðugleika var að etja, fyrst og fremst vegna vöntunar á tækjum, og í öðru lagi skilningsleysi ýmsra manna, en margir veittu þeim mjög góða aðstoð, svo sem, Commander Watchlin, Salvage Officer, sem lánaði ágæt björgunartæki, Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri, Bjarni Tómasson, kafari og Ólafur Jónsson, framkvæmdarstj Alliance og Pálmi Loftsson, forstjóri Skipaútgerðarinnar, sem lánuðu skip. Björgunin hefir reynzt mjög kostnaðarsöm, enda tekið langan tíma.

Vísir. 17 febrúar 1942.


Ourem náð á flot í Rauðarárvíkinni í febrúar 1942.                    Mynd úr Þrautgóðir á raunastund.

 E.s. "Hrímfaxi" strandar á Raufarhöfn
  Skipið komst út aftur, en er skemmt

Gufuskipið Hrímfaxi, hjeðan úr Reykjavík, strandaði í gærmorgun á Raufarhöfn, en komst á flot aftur, mikið skemmt. Blaðið hafði í gærkveldi tal af framkvæmdastjóra Hrímfaxa h.f., sem á skipið, Kristján Bergsson, og sagðist honum svo frá: Um kl. 10 í gærmorgun strandaði skipið, er það var á leið út úr höfninni á Raufarhöfn, áleiðis til Þórshafnar. Hafnsögumaður var ekki farinn af skipsfjöl, er skipið tók niðri. Þar sem skipið tók niðri, stóð það fast í rúma klukkustund, en komst þá af eigin ramleik á flot aftur, og leitaði hafnar af nýju. Var það þá allmjög laskað, leki kominn að því, stýrið og skrúfan brotið. Er jafnvel ekki víst að takast megi að halda skipinu á floti með dælunum, og bjóst framkvæmdastjórinn jafnvel við að renna þyrfti því á land. Sjór var kominn í vjelarrúm skipsins, en ekki hafði sjór komist í lestarrúm þess, er framkvæmdastjórinn átti síðast tal við Raufarhöfn, um hádegi í gær. Hrímfaxi er gufuskip, um 800 smálestir að stærð. Var það áður í eigu Portugalsmanna og strandaði hjer á Rauðarárvíkinni í ofveðrinu mikla þann 15. jan. 1941. Skipið hefir verið í vöruflutningum á vegum Skipaútgerðar ríkisins. Líklegt er talið að draga verði skipið hingað suður til viðgerðar.

Morgunblaðið. 23 desember 1943.


Hrímfaxi GK 2 í Vestmannaeyjahöfn.                                                            Ljósmynd úr safni mínu.

E.s. Hrímfaxi GK 2. TFPB  /  Ourem

E.s. Hrímfaxi. TFPB-GK 2 Stálskip með 700 ha. gufuvél. Stærð: 641 brúttórúml. og 313 nettórúml. Aðalmál: Lengd: 52,44 m. Breidd: 9,17 m. Dýpt: 4,68 m. Smíðað i Middlesbourough í Englandi árið 1918 fyrír brezka sjóherinn sem eyðingarskip þýzkra kafbáta. Var skipið smíðað stefnislaga að aftan til þess að villa kafbátsmönnum sýn um á hvaða leið það væri. Þá var það vel búið vélum og gat gengið 16 sjómilur. Skip þetta kom fyrst hingað til Íslands sem leiguskip og hét þá Ourem frá Portúgal. Í ofsaveðri þann 27. febrúar 1941 sleit Ourem upp hér á Reykjavíkurhöfn og rak á land í  Rauðarárvikinni ásamt danska flutningaskipinu Sonju Mærsk. Að ári liðnu var skipinu náð út og gert við það í Grimsby í Englandi, og hlaut það þá nafnið Hrímfaxi. Eigendur þess urðu hf. Sviði í Hafnarfirði og Hf. Hrímfaxi í Reykjavík. Hrímfaxi hóf siðan og siglingar til Bretlands með ísaðan fisk undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra. Flutti skipið um 7500 kit í ferð. Árið 1943 var Hrímfaxi leigður Skipaútgerð ríkisins til strandferða og var í Þeim næstu fimm árin. Siðla árs 1950 var skipið tekið í notkun á ný eftir tveggja ára legu inni á Sundum og hét þá Auðhumla. Auðhumla fór síðan nokkrar ferðir til Bretlands og meginlandshafna, unz það var selt Indverjum og afhent í Bretlandi árið 1951. Myndin af Hrímfaxa er tekin í Vestmannaeyjum 1943. Skipið er málað grárri stríðsmálningu, eins og öll íslensku flutningaskipin, sem voru í millilandasiglingum á þeim tíma.

Heimild: Æskan. 2 tbl. 1 feb 1972. / Íslensk skip. Guðmundur Sæmundsson.

"Fell" og "Auðhumla" seld til útlanda

Tvö íslenzk skip hafa nýlega verið seld til útlanda. Annað þeirra er e.s. Auðhumla, sem áður hét Hrímfaxi hefur nú verið seld til Indlands. Auðumla gamla hefur lent í ýms ævintýri. Hingað kom hún undir spönsku eða portugölsku flaggi með vínfarm á stríðsárunum síðustu. Í ofviðri rak hana upp í Rauðarárvíkinni áður en farminum hafði verið skipað upp. Þá gengu marglr á reka í Rauðarárvíkinni. Einhverjum tókst að ná í tunnu af víni sem lögreglan svo náði af þeim aftur. Aðrir gátu fyllt flöskur af hinum gómsæta vökva. Þá voru nokkrir sem aðeins fengu á makakútinn. Auðhumla var síðan keypt af nokkrum íslendingum og gerð héðan út. Hitt skipið er vélskipið Fell, er hefur verið selt til Svíþjóðar og fór það þangað um síðustu mánaðarmót. Eigandi þess var Sigurjón Sigurðsson útgerðarmaður.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1951.











  • 1
Flettingar í dag: 1677
Gestir í dag: 268
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 727267
Samtals gestir: 54089
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 09:27:14