21.09.2018 11:09

B. v. Bjarni Ólafsson AK 67. TFAD.

Nýsköpunartogarinn Bjarni Ólafsson AK 67 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Akraneskaupstaðar hf á Akranesi. 661 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 203. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Akraness hinn 29 júlí sama ár. 29 janúar árið 1950, bjargaði áhöfn Bjarna Ólafssonar, 14 af 19 manna áhöfn togarans Varðar BA 142 frá Patreksfirði sem sökk í hafi eftir að mikill leki kom að honum. Þessi björgun var talin mikið afrek, því mjög slæmt veður var er slysið varð. 1 júní 1961 var skipið komið í eigu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins í Reykjavík. Skipið var selt 30 janúar 1964, Blakki hf í Reykjavík, hét Bjarni Ólafsson RE 401. Skipið var selt 10 desember 1966 til Harstad í Noregi, hét þar fyrst Haakon Hansen. Bar svo nöfnin, Eidsfjord, Gangstad J.R, Liafjell og síðast Lia. Skipið var selt í brotajárn árið 2003.


B.v. Bjarni Ólafsson AK 67 að koma til heimahafnar.                                   (C) Ólafur Árnason.   

         Bæjarútgerð á Akranesi 

Svo sem getið var um í síðasta blaði, verður hér nánar sagt frá hinum nýja togara bæjarins "Bjarna Ólafssyni." Hann kom hingað til bæjarins 29. júlí s.l., beina leið frá Englandi, eftir tæpa þriggja sólarhringa siglingu. Skipið var smíðað í Aberdeen. Það er hið fegursta og fullkomnasta að sjá, og gekk 13,5 mílu í reynzluför, og að jafnaði 12,5 mílu á heimleiðinni. Þetta kvöld var gott veður, og þegar skipið lagðist að hafnargarðinum var þar mikill mannfjöldi saman kominn til þess að fagna því. Fór þar fram móttökuathöfn, þar sem þeir héldu ræður af skipsfjöl, forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri, Guðlaugur Einarsson, og skipstjórinn, Jónmundur Gíslason. Að ræðu skipstjórans lokinni bauð hann öllum viðstöddum að skoða skipið, sem þegar var vel þegið. Þótti öllum það mikið og vandað. Síðar um kvöldið hafði bæjarstjórn boð inni á Hótel Akranes fyrir skipshöfn, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og hafnarnefnd. Sátu það um 60 manns. Þar fluttu þeir ræður, Jón Sigmundsson, Hálfdán Sveinsson og Pétur Ottesen. Að því loknu var stíginn dans um stund.


B.v. Bjarni Ólafsson AK 67. Málverk.                                                         Úr safni Ólafs Jónssonar.  

Fór hóf þetta vel og ánægjulega fram. Útgerðarstjórn skipa þessir menn: Þorgeir Jósepsson, formaður, Jón Sigmundsson og Guðmundur Sveinbjörnsson. Bókhald skipsins verður í skrifstofu bæjarins. Skipið ber yfir 4.000 kit af ísuðum fiski. Hér fer á eftir hluti ræðu forseta bæjarstjórnar, Ólafs B. Björnssonar, er hann flutti af skipsfjöl, við komu skipsins til Akraness:
"Góðir Akurnesingar, útgerðarstjórn, skipstjóri og skipshöfn. Þegar Alþingi og ríkisstjórn tók þá ákvörðun, að láta byggja fyrir Íslendinga um 30 nýtízku togara í Englandi, var bæjarstjórnin þegar ráðin í því, og sammála um, að gera ítrustu tilraunir til að bærinn gæti eignast og haldið úti einu af þessum skipum, sem óumdeilanlega marka tímamót í fiskveiðasögu vorri. Í þessum skipakaupum felst stórfelt framtak og langþráð takmark útvegsmanna og allrar þjóðarinnar. Þau uppfylla óskir vorar og vonir hvað aflamöguleika snertir, öryggi og aðbúnað skipshafnar, og taka í heild sinni fram öllu því er áður þekktist um byggingu og búnað togara.


24. Bjarni Ólafsson AK 67.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.  

Í dag er þessi ósk og áform Akurnesinga orðið að veruleika. Í dag, á þessari stundu, fögnum vér öll þessu fullkomna fleyi. Vér bjóðum það og skipshöfnina hjartanlega velkomið og vonum að gæfan fleyti því og skipshöfn þess og forði frá öllu grandi. Eins og það er vitanlegt, að þessi skip marki tímamót í íslenzkri fiskveiðasögu, vonum vér að þetta skip marki tímamót í sögu vors kæra bæjar, til margvíslegra bjargráða og blessunar í bráð og lengd. Margra hluta vegna er þetta skip því á sérstakan hátt óskabarn allra bæjarbúa, líka þeirra Akurnesinga, sem búa utanbæjar. Það er engin tilviljun að þessu glæsta skipi var valið nafnið Bjarni Ólafsson.


Landað úr togaranum Bjarna Ólafssyni AK 67 á Akranesi.                       Ljósmyndari óþekktur.
  
Hann var framsækinn dugnaðarmaður og fengsæll, dáða- og drengskaparmaður. Honum var hvort tveggja í senn sýnt um að nota sér áunna reynzlu og það vald og viðgang, sem ný tækni hefur á framfarir og framleiðslu þjóðanna. Sem ungur maður "braut hann í blað" hjá Akurnesingum, er hann sem foringi nokkurra jafnalldra sinna byggði fyrsta dekkaðan mótorbát, sem þá þótti mikið skip, sem miklir möguleikar voru þegar við bundnir, enda varð fljótlega sjón sögu ríkari. Þetta fyrsta skip Bjarna og þeirra félaga hét "Fram." Það var réttnefni. Fól í sér fyrirheit, og var sannarlega táknrænt upp á beina braut Bjarna, sem stórhuga forystumanns, um stöðugt stærri og fullkomnari skip, til lengri sóknar og meiri fanga, á vegum þess atvinnuvegar, sem hvort tveggja er lífæð vor og lyftistöng, til efnalegrar farsældar og frelsis þjóðar vorrar. Þetta fyrsta skip hans var 10 smálestir, en hið síðasta 200 smálestir.


B.v. Bjarni Ólafsson RE 401.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

Herra skipstjóri, Jónmundur Gíslason! Um leið og vér öll bjóðum þig og skipshöfn þína hjartanlega velkomna heim með þetta mikla og góða skip, er mér persónulega, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og öllum almenningi, óblandin ánægja að lýsa því yfir, að vér trúum þér og treystum allra manna bezt fyrir þessu glæsta skipi, og fyrir hverri skipshöfn, sem með þér leggur á djúpið, til bjargráða fyrir ykkur sjálfa, þennan bæ og þjóð vora alla. Með þessu er áreiðanlega óvenju mikið sagt, og finnst sjálfsagt ókunngum of sagt. En því mæli ég svo stórt og óhikað, að ég þekki þig sem óvenjulegan mann, með ótrúlega mörgum áþekkum eiginleikum, sem Bjarna Ólafsson prýddu mest. Það er því engin tilviljun að þér sé trúað fyrir þessu skipi og skipshöfn.


Eidsfjord N-1-SO á loðnuveiðum árið 1982.                                                      (C) Frank Iversen. 
  
Með slíkri forystu, með þeirri heill og giftu, sem vér vonum að fylgi þessu nafni, getum vér ekki vænst farsælli eða fyllri árangurs. Vér vonum því, og efumst ekki um, að hinn minnsti skipverji þinn, jafnt þeim sem mest á ríður, á þessu mikla, góða skipi, fylgi þér fast til fengs og farsældar, og að dæmi þitt og þeirra verði djörf og dáðrík fyrirmynd um langa framtíð. Ég óska stjórn fyrirtækisins, bæjarstjórn, skipverjum og öllum bæjarbúum til hamingju með þennan nýja togara, og bið guð að blessa menn og skip. Ég bið að lokum alla viðstadda að óska togaranum "Bjarna Ólafssyni" og skipshöfn hans heilla og hamingju á ókomnum tímum, með ferföldu húrra."

Tímaritið Akranes. Júní-júlí 1947.

        Björgun skipverja af Verði                           einstakt afrek

Nánari fregnir eru nú fyrir hendi af hinum hörmulega atburði er togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk s. l. sunnudagskvöld og með honum fimm vaskir sjómenn. Aðdragandinn að slysinu eru í aðalatriðum á þá leið, að kl. 6.30 á sunuudagsmorgunn veitir 1 stýrimaður því eftirtekt, að skipið var tekið að fá á sig óvenjumikla sjóa og hallast á bakborða, en við rannsókn kom í ljós, að leki hafði komið að skipinu fyrir framan fiskilestarnar svo að netjarúm og neðri hásetaklefi var hálffullur af sjó. Allir skipverjar bjuggu hinsvegar aftur í skipinu. Voru þegar gerðar ráðstafanir til þess að ausa skipið. Vegna sjógangs var eigi hægt að beita handdælum "við austur skipsins, en dælt var úr rúminu með vélknúnum dælum frá vélarúmi. Þegar séð varð, að dælurnar höfðu ekki undan kallaði loftskeytamaðurinn á Verði upp togarann Geir sem var í um það bil 60 sjómílna fjarlægð og bað hann koma til aðstoðar, en togarinn Bjarni Ólafsson reyndist vera mun nær staðnum og bauð aðstoð sína. Var hún að sjálfsögðu þegin með þökkum og kom hann að Verði um kl. 2,30 á sunnudag. Brátt tók þá veður að versna og um kl. 6 um kvöldið var vindur orðinn 8 vindstig og þungt í sjóinn.


B.v. Vörður BA 142. Smíðaður í Þýskalandi árið 1936. 625 brl.                     (C) Hafliði Óskarsson.  

Fór Bjarni Ólafsson þá eins nálægt Verði og frekast var unnt, en um þetta leyti hallaðist skipið mjög mikið á bakborða og var sigið niður að framan. Allir skipverjar sem voru fram á, fengu þá fyrirskipanir um að færa sig aftur eftir og losa um björgunartækin. Skipti það þá engum togum að Vörður seig mjög hratt að framan og komust tveir skipverjar eigi upp og sukku með því. Þegar hér var komið voru flestir skipverjar komnir í sjóinn og höfðu níu komist á kjöi björgunarbátsins, og fyrir harðfylgi og einstakan dugnað skipverja á Bjarna, tókst að bjarga mönnum þessum og auk þess fimm öðrum, sem voru á fleka eða í björgunarhringum. Var þá komið versta veður, stórsjór og myrkur. Auk þess var einum skipverja bjargað, sem látizt hafði í bjargbeltinu af vosbúðinni. Voru skipverjar mjög þjakaðir, eins og að líkum lætur, en fyrir ágæta aðhlynningu um borð í Bjarna Ólafssyni hresstust þeir brátt, Bjarni Ólafsson flutti skipverja hingað til Reykjavíkur, en skipstjóri var lagður í sjúkrahús vegna meiðsla, sem hann hafði hlotið. Skipverjar fóru allir vestur á Patreksfjörð í gærkvöldi með Esju að lokinni kveðjuathöfn yfir Jóhanni Jónssyni.

Vísir. 1 febrúar 1950.

                                 

20.09.2018 19:23

1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Grandagarð.

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270. TFKU. Smíðaður hjá Szczecinska Stocznia Remontowa Gryfia í Póllandi árið 1989 fyrir Gunnvör hf á Ísafirði. 772 brl. 3.346 ha. Wartsila vél, 2.460 Kw. Ég tók þessar myndir af honum í vikunni við Grandagarðinn. Það er mikið eftir í honum enn. Glæsilegt skip.


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Grandagarð.              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018.


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018. 


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018.


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Nýskveraður og fínn.        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10.8. 2016.

     
      Júlíus Geirmundsson ÍS 270


Nýr skuttogari, m/s Júlíus Geirmundsson ÍS 270, bættist við fiskiskipaflotann 10. nóvember s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Júlíus Geirmundsson ÍS er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Szczecinska Stocznia Remontowa "Gryfia" í Póllandi, smíðanúmer TR 504 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h.f., Reykjvík. Þetta er annað fiskiskipið sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, hið fyrra er jón Finnsson GK, sem bættist við flotann árið 1987. Jafnframt er Núpur ÞH, innfluttur frá Færeyjum, smíðaður hjá sömu stöð. Hinn nýi Júlíus Geirmundsson ÍS kemur í stað samnefnds skuttogara, sem var í eigu sömu útgerðar og smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1979. Gamli Júlíus Geirmundsson hefur verið seldur til Neskaupstaðar og heitir nú Barði NK, en Barði NK (1548), smíðaður í Póllandi árið 1975 og keyptur til landsins árið 1980, verður seldur úr landi, en auk þess verða nokkrir minni bátar úreltir. Hinn nýi Júlíus Geirmundsson er með búnaði til fullvinnslu afla. Júlíus Geirmundsson ÍS er í eign Gunnvarar h.f, á Ísafirði. Skipstjóri á skipinu er Hermann Skúlason og yfirvélstjóri Reynir Ragnarsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Kristján Jóhannsson.
Aðalvél skipsins er Wartsila Vasa, sex strokka fjórgengisvél með forþjöppu og eftirkælingu, sem tengist niðurfærslu- og skiptiskrúfubúnaði, með innbyggðri kúplingu, frá Ulstein. Í skipinu er búnaður til brennslu svartolíu, með seigju allt að 200 sek R1.
Tæknilegar upplýsingar (aðalvél með skrúfubúnaði):
Gerð vélar, 6R32 E
Afköst, 2460 Kw við 750 sn/mín
Gerð niðurfærslugírs, 1500 AGSC-KP2S
Niðurgírun, 5.8:1
Gerð skrúfubúnaðar, 90/4
Efni í skrúfu, NiAl-brons
Blaðfjöldi 4
Þvermál 3700 mm
Snúningshraði 129 sn/mín*
Skrúfuhringur, Ulstein
*Skrúfuhraði 103 sn/mín miðað við 601 sn/mín á vél.
Mesta lengd 57.58 m.
Lengd milli lóðlína (VL=5.00 m) 54.20 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 50.39 m.
Breidd (mótuð) 12.10 m.
Dýpt að efra þilfari 7.50 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista (hönnunar) 5.00 m.
Eiginþyngd 1.411 tonn.
Særými (djúprista 5.00 m) 1.960 tonn.
Burðargeta (djúprista 5.00) 549 tonn.
Lestarými 654 m3.
Meltugeymar 114.2 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 145.1 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 29.6 m3.
Set- og daggeymar 17.5 m3.
Ferskvatnsgeymar 93.8 m3.
Sjókjölfestugeymir 26.7 m3.
Andveltigeymir (sjór) 45.0 m3.
Ganghraði um 14 sjómílur.
Rúmlestatala 772 brl.
Skipaskrárnúmer 1977.

Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1989.
19.09.2018 08:18

2 m. "Sluppen" Guide me FD 510. KCJS / TFXL.

Sluppen Guide me FD 510 var smíðuð í Macduff í Aberdeenskíri í Skotlandi árið 1905-6. Eik og fura. 67 brl. Skipið var selt J. Poulsen, Fuglafirði í Færeyjum árið 1925. 1931 var sett 46 ha. Saffle vél í skipið. Það hefur örugglega heitið sama nafni upphaflega, en fær FD skráninguna við komuna til Fuglafjarðar. Árið 1936 er skipið í eigu Mourentze Poulsen í Fuglafirði. Árið 1937-38 er skipið komið í eigu Ásgeirs Péturssonar útgerðarmanns á Akureyri, en aldrei skráð á hann. Ný vél (1941) 120 ha. Lister díesel vél. Selt í september 1941, Kristjáni Gunnarssyni skipstjóra á Eskifirði og Sigurði Friðrikssyni frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, en Kristján Gunnarsson var ekki skráður eigandi fyrr en í apríl 1943 og þá var meðeigandi Sigurjón Sigurðsson í Reykjavík, skipið fékk þá nafnið Vífilsfell NS 399. Í ágústmánuði árið 1944, bilaði vél skipsins er það var að síldveiðum út af Melrakkasléttu. Varðbáturinn Óðinn dró skipið til hafnar á Raufarhöfn, en í hafnarminninu kom slinkur á dráttartógið með þeim afleiðingum að stefni Vífilsfells brotnaði af. Var því fleytt upp í fjöru þar sem gert var við það.  Selt 21 nóvember 1944, Jóni Franklínssyni í Önundarfirði og Guðna Bjarnasyni í Reykjavík, hét þá Suðri ÍS 55. 29 maí 1946 seldi Jón Franklínsson sinn hlut í skipinu, Örnólfi Valdimarssyni í Reykjavík. Selt 8 janúar 1952, Þóri hf í Þorlákshöfn, hét Þórir ÁR 10. 22 september 1953 er skipið skráð í Reykjavík, hét þá Þórir RE 251, sömu eigendur. Ný vél (1954) 180 ha. Lister díesel vél. Talið ónýtt og tekið af skrá 25 október árið 1965.


Sluppen Guide me FD 510.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

                  Ferðasaga
   Kristján Gunnarsson, skipstjóri

Um miðjan september árið 1941 fórum við Sigurður Friðriksson frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka með áætlunarbíl til Akureyrar og síðan með bát til Siglufjarðar. Við höfðum frétt það á skotspónum að Ásgeir Pétursson útgerðarmaður vildi selja vélskipið "Guide me" sem hafði verið á síldveiðum þá um sumarið og var þá búið að vera í eign Ásgeirs í 3 ár og aðeins gert út á síldveiðar við Norðurland. Skipið átti heima í Færeyjum, en var yfir veturinn í slipp á Akureyri. Ferðin norður gekk samkvæmt áætlun. Við ákváðum að kaupa skipið á þrjátíu og fimm þúsund krónur í því ástandi sem það var. Engin veiðarfæri fylgdu skipinu en síldardekk og segladruslur. Útborgun var kr. 15 þúsund en hitt að mig minnir til fjögurra ára, og greiddum við hvor kr. 7.500. Næst lá fyrir að fá vélstjóra til þess að fara með okkur suður. Okkur tókst að útvega vélstjóra til Akureyrar en þangað þurftum við að fara til þess að sækja síldardekkið og ýmislegt fleira.
Vélstjóri sá sem við fengum með okkur inn á Akureyri var Sölvi Valdimarsson, var hann þá að mig minnir vélstjóri í frystihúsi á Siglufirði. Strax og samningar höfðu verið undirritaðir var farið um borð og átti að fara strax til Akureyrar. Áður höfðum við sett vélina í gang og fært skipið að Bæjarbryggjunni. Okkur brá nú heldur í brún þegar við komum um borð, því þá var kominn mikill sjór í skipið, það mikill að ekki var viðlit að setja vélina í gang. Tvær allgóðar handdælur voru á skipinu, sín hvoru megin við mótorhúskappann. Var nú hamast á dælunni þar til hægt var að setja í gang. Kom þá í ljós að lekið hafði inn með skrúfuöxlinum og lagaðist það er skipt var um pakkningu í pakkdósinni. Um miðnætti var haldið af stað inn á Akureyri og gekk ferðin samkvæmt áætlun. Á Akureyri létum við Eið Benediktsson skipstjóra lagfæra seglin þannig að við höfðum sæmilega fokku og messa, en ekkert stórsegl var. Næsta dag var svo farið frá Akureyri til Siglufjarðar og gekk ferðin vel enda gott veður.
Á Siglufirði var ráðinn vélstjóri, Anton að nafni, hann var að fara til Reykjavíkur og var ráðinn þar til vinnu í vélsmiðju. Síðari hluta dags var lagt af stað. Veður var gott, austan andvari og hlýtt í lofti. Guide Me var með 40 hesta Sáffle mótor, engin raflýsing var, engin talstöð og náttúrlega enginn dýptarmælir. Ekkert bar til tíðinda fyrsta klukkutímann en er við vorum staddir út af Haganesvík heyrðist að vélin var farin að þyngja á sér og reykti óeðlilega mikið. Var vélin nú stöðvuð og farið að athuga, kom þá í ljós að brætt var úr sveifaráslegu. Ýmislegt var af varastykkjum í vélina og þar á meðal sveifaráslegur. Ekki var hægt að kalla í talstöð því hún var engin og ekkert skip sjáanlegt. Nú var kominn asakaldi og heistum við messann og fokkuna og skiptum þannig verkum, að ég var við stýrið en Sigurður og Anton fóru að rífa sundur vélina. Var nú siglt í sjö klst. og vorum við komnir vestarlega á Húnaflóa þegar vélin fór í gang.
Ekki var eitthvað í lagi með kælivatnið og var vélin stöðvuð aftur en þá vildi það til að vélstjórinn missti sogventilinn úr dælunni niður í kjalsog, en þannig háttaði til að vélin var mjög hátt í bátnum og ógerningur var að ná ventlinum aftur, var þá tekinn ventill úr lensidælunni og settur í kælivatnsdæluna. Nú var sett í gang aftur og var nú allt í lagi nema talsverður sjór kom í skipið og þurfti oft að dæla með dekkdælunni. Um morguninn vorum við komnir fyrir Horn, veðrið hélst svipað, kaldi eða stinningskaldi á austan. Okkur fannst ekki gott að þurfa alltaf að vera að dæla með dekkdælunni því talsvert lak með skrúfuöxlinum. Sigurður sagðist skyldi smíða ventil úr tré og masonit ef hann fengi ventil til að smíða eftir. Var þá stoppuð vél útaf Hælavíkurbjargi og eftir klukkutíma var ventillinn tilbúinn og sett í gang og var allt í lagi með lensidæluna. Var slík listasmíði á ventlinum að hann var lengi notaður eftir þetta, þó búið væri að fá venjulegan koparventil. Þeir voru góðir smiðir Gamlahraunsmenn. Gekk nú allt eins og í sögu þar til komið var í opinn Dýrafjörð, þá tókum við eftir því að skipið var farið að hægja mjög á sér og vélin gekk óeðlilega létt. Var þá reynt að þyngja skrúfuna en það dugði ekki. Var þá frátengt og kom þá í ljós að skiptilegan var biluð, vindur hafði nú gengið til SA en var hægur.
Togarinn Karlsefni var að toga stutt frá okkur og heistum við flagg og kom hann brátt til okkar og báðum við hann að draga okkur til Þingeyrar. Við vorum þrjá daga á Þingeyri og framkvæmdi Guðmundur Sigurðsson viðgerðina sem kostaði kr. þrjú hundruð. Sláturtíðin stóð sem hæst og fengum við nýtt kjöt og slátur fyrir sáralítinn pening, og matreiddi Sigurður eins og besti matsveinn. Við vorum þarna í besta yfirlæti og dyttuðum að ýmislegu um borð. Að viðgerð lokinni var strax lagt af stað, og segir nú ekki af ferðum fyrr en komið var suður fyrir Látrabjarg. Við höfðum fyllt tankana af brennsluolíu á Siglufirði og tókum þar einnig eitt fat af smurolíu og var smurolíutunnan á stokkum aftan við stýrishúsið, og var olían tekin í brúsa jafnóðum og nota þurfti, en mótorinn eyddi talsverðri smurolíu. Síðast þegar vélstjórinn tók olíu hafði hann annað hvort ekki látið tappann á eða þá svo lauslega að hann síðar hafði losnað úr, nema tunnan var tóm þegar næst átti að sækja olíu. Nú var ekki um annað að gera en að reyna að ná næstu höfn. Vildi okkur nú til eins og fyrri daginn að veðrið hélst gott og náðum við upp undir Sand og hittum við þar tvo menn á árabát sem voru með handfæri í Sandabrúnum. Við báðum þá að fara fyrir okkur í land og ná í 10 lítra af smurolíu. Þeir brugðust vel við og komu brátt aftur með olíuna og við borguðum þeim vel fyrir og héldum svo ferðinni áfram. Vindur hafði nú gengið í norðaustan strekking og fengum við góðan byr yfir Faxaflóa og lentum í Reykjavík að morgni þess 24. september. Strax daginn eftir gerði óveður sem stóð í marga daga.

Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1980.


Vífilsfell NS 399.                                                                                             Ljósmyndari óþekktur.


919. Þórir RE 251.                                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

              "Vífilsfell" laskast

Síldveiðiskipið, Vífilsfell var s. l. föstudag statt út af Kópaskeri með bilað stýri og var varðbáturinn Óðinn sendur því  til aðstoðar. Kom Óðinn dráttartaug í Vífilsfell og dró það áleiðis til Raufarhafnar. En þegar komið var í hafnarmynnið á Raufarhöfn, slaknaði á tauginni og þegar Óðinn tók aftur í, brotnaði stefnið af Vífilsfelli við átakið og varð þá að renna því í land. Vífilsfell er gamalt tréskip og var einu sinni eign Færeyinga. Hét það þá "Guide me" .

Þjóðviljinn. 29 ágúst 1944.


17.09.2018 17:59

B. v. Kári Sölmundarson RE 153. LCJG / TFQD.

Botnvörpungurinn Kári Sölmundarson RE 153 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Kára í Reykjavík. 344 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 425. Árið 1924 flytur Kárafélagið aðstöðu sína úr Reykjavík, út í Viðey. Við þann flutning fær togarinn skráningarnúmerið GK 153. Frá árinu 1931 er Útvegsbanki Íslands eigandi togarans eftir að Kárafélagið í Viðey fór í þrot. Skipið var selt árið 1933, hf Alliance í Reykjavík, hét Kári RE 111. Seldur í ágúst 1946, Klaksvíkur Fiskvinnufélag A/S í Klaksvík í Færeyjum, hét þar Barmur KG 363. Talinn ónýtur og seldur í brotajárn til Odense (Óðinsvé) í Danmörku árið 1955.


B. v. Kári Sölmundarson RE 153 í höfn á Patreksfirði.                                 (C) Ólafur Jóhannesson.

              Botnvörpungurinn                        Kári Sölmundarson RE 153

Nýr botnvörpungur kom hingað í gærmorgun. Heitir sá Kári Sölmundarson og er eign hlutafélagsins "Kára" í Reykjavík. Framkvæmdastjóri þess er  Þorsteinn Jónsson. Skipið er hið vandaðasta. Skipstjóri er Aðalsteinn Pálsson.

Morgunblaðið. 11 ágúst 1920.


B. v. Kári Sölmundarson GK 153.                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B. v. Kári RE 111.                                                                                      Úr safni Einars Ásgeirssonar.


Togarinn Barmur KG 363. ex Kári RE 111.                                                          Ljósmyndari óþekktur.

           Kári Sölmundarson í                    kolaflutningum til Grænlands

Mr. Crumrine hefir leigt botnvörpunginn Kára Sölmundarson til þess að fara norður undir Angmagsalik á Grænlandi, þar sem Grænlandsfarið Gertrud Rask er enn í ísnum og er nú  kolalaus. Fer Kári með 150 tonn kola. Horfur eru nú sagðar heldur betri á því, að Gertrud Rask komist inn til Angmagsalik.

Morgunblaðið. 12 ágúst 1924.


16.09.2018 08:09

29. Bláfell. TFPJ. Olíuflutningaskip.

Olíuflutningaskipið Bláfell var smíðað hjá Neorion & Miehanourghia. S.A. á eynni Syros í Grikklandi árið 1961. Hét áður Anno Syros. 148 brl. 280 ha. Alpha díesel vél, 206 Kw. Eigandi var Olíufélagið hf í Reykjavík frá október 1962. Skipið kom til landsins hinn 9 október sama ár. Skipið var talið ónýtt og rifið í Daníelsslippnum í Reykjavík um árið 2000.


Olíuskipið Bláfell.                                                                                        Ljósmyndari óþekktur.

     Anno Syros verður nú Bláfell

Í dag lagðist nýja olíuflutningaskipið Anno Syros við bryggju í Reykjavík, en því er ætlað það hlutverk, sem olíuflutningaskipið L. W. Haskell gegndi áður en það fórst í Hvalfirði s.l. sumar. Skipið er eign Olíufélagsins h.f. Það er byggt árið 1961 í skipasmíðastöð Neorion & Miehanourghia S.A. á eynni Syros undan Grikklandsströndum og keypt þaðan ónotað hingað til lands. Það hefur verið skírt að kaþólskum sið með blessan préláta, en verður nú skírt upp og nefnt Bláfell. Skipið er byggt samkvæmt kröfum American Bureau of Shipping, lestar um 200 smálestir af brennsluolíu, og sjálft er það 225 smálestir að þyngd. Lengdin er 35,2 m., breidd 6 m. og djúprista 2,3 m. fulllestað. Vélin er 280 ha. Alpha-diesel frá Burmeister & Wain, sett niður af starfsmönnum framleiðenda. Ganghraði skipsins er 10-11 sjómílur á klukkustund. Kaupverð skipsins var rúmar .5 millj. kr. Sama áhöfn verður á Bláfelli og var á L.W. Haskell. Skipstjóri Gunnar Magnússon, en hann sigldi skipinu heim við sjötta mann og tók það þrjár vikur. Það eru einkum afgreiðslur til skipa í Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarhöfnum og flutningar í hvalveiðistöðina og til annarra staða í nágrenni Reykjavíkur, sem Bláfell mun annast.

Tíminn. 9 október 1962.


Anno Syros (Bláfell) við komuna til landsins hinn 9 október árið 1962.            Ljósmyndari óþekktur.


Olíuskipið Bláfell á siglingu.                                       (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Bláfell á leið niður úr slipp.                                                                                  (C) Gunnar Richter.


Endalok skipsins, rifið í Daníelsslippnum í Reykjavík.                                          (C) Gunnar Richter.

               Reykjavíkurhöfn
  Árekstur skipa við hafnarmynnið

Olíuskipið Bláfell og strandferðaskipið Askja rákust saman skammt utan við hafnarmynnið í Reykjavíkurhöfn um miðjan dag í gær. Stjórnborðssíður skipanna skullu saman. Askja varð fyrir litlum skemmdum en Bláfell skemmdist nokkuð mikið. Brúarvængur lagðist inn að hluta, skemmdir komu á brú skipsins og einnig skemmdist skipið neðan sjólínu. Skipin voru að koma úr gagnstæðri átt, Askjan var að fara frá Reykjavík en Bláfellið á leið til Reykjavíkur. Yfirheyrslur yfir áhöfnum skipanna áttu að hefjast í morgun og sjópróf verða væntanlega eftir hádegi í dag.

Dagblaðið Vísir. 16 febrúar 1988.


16.09.2018 06:54

268. Aldan MB 77.

Vélbáturinn Aldan MB 77 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1931. Eik, beyki og fura. 26 brl. 96 ha. Tuxham vél. Eigendur voru Brynjólfur Nikulásson, Sigurður Hallbjarnarson og Jóhann Ellert Jósepsson á Akranesi frá marsmánuði sama ár. Ný vél (1938) 90 ha. Bolinder vél. Árið 1947 var umdæmisstöfum hans breytt í AK 77. Seldur 11 febrúar 1948, Valdimar Stefánssyni og fl. Í Stykkishólmi og Trondi Jakobsen í Færeyjum, hét þá Aldan SH 177. Ný vél (1949) 100 ha. June Munktell vél. Seldur 19 maí 1949, Guðmundi Jóni Magnússyni og Páli Janusi Þórðarsyni á Suðureyri við Súgandafjörð, hét Aldan ÍS 127. Seldur 28 maí 1952, Guðmundi J Magnússyni í Reykjavík, hét Aldan RE 327. Ný vél (1962) 165 ha. General Motors díesel vél. Ný vél (1973) 174 ha. General Motors díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 5 desember árið 1975.


Vélbáturinn Aldan MB 77.                                                                     (C) Ljósmyndasafn Akraness.


268. Aldan RE 327.                                                 (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

              V.b. Aldan MB 77

Nýr vélarbátur kom til Akraness í nótt frá Danmörku. Báturinn fór frá Færeyjum á fimmtudag og var menn farið að lengja eftir honum, og í gærkveldi var útvarpað tilmælum til skipa frá sendiherra Dana um að svipast að bátnum og veita honum aðstoð, ef á þyrfti að halda. En það er annars af bát þessum að segja, að hann var kominn undir land, þegar hvessti svo, að hann varð lengi að láta reka, en skipverjum leið vel og ekkert varð að bátnum. Brynjólfur Nikulásson á Akranesi o. fl. eru eigendur bátsins, en Eggert Kristjánsson & Co. önnuðust kaupin í Danmörku.

Vísir. 18 febrúar 1931.


15.09.2018 08:34

Brim hf verður Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.

Brim hf. heitir nú Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. en þetta var ákveðið á hluthafafundi félagsins í dag. Runólfur Viðar Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins en Ægir Páll Friðbertsson lét af starfi framkvæmdastjóra í gær.
Útgerðarfélag Reykjavíkur gerir út skuttogarana Guðmundur í Nes RE 13 og Kleifaberg RE 70. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem senda var á fjölmiðla í dag.

Vísir. 14 september 2018.


1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2626. Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

15.09.2018 07:43

481. Guðmundur frá Bæ ST 55. TFOS.

Vélbáturinn Guðmundur frá Bæ ST 55 var smíðaður af Haraldi Gunnlaugssyni á Siglufirði árið 1949 fyrir Ríkissjóð Íslands. Eik. 36,45 brl. 135 ha. Alpha díesel vél. Hét fyrst Brynjar ST 47. Seldur 2 nóvember 1951, hf Brynjari á Hólmavík. Ný vél (1956) 200 ha. Alpha díesel vél. Seldur 14 mars 1961, Jóhanni Guðmundssyni á Hólmavík, hét Guðmundur frá Bæ ST 55. Seldur 10 júlí 1970, Erlingi Auðunssyni og Magnúsi V Magnússyni á Suðureyri við Súgandafjörð, hét Brynjar ÍS 61. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 nóvember árið 1972.


481. Guðmundur frá Bæ ST 55.                                     (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Innlendar skipasmíðar

Voru skipasmíðar með minnsta móti á þessu ári. Lokið var smíði aðeins 3 báta á árinu og var það 14 færri en verið hafði árið 1947, en samanlögð rúmlesta tala þeirra var 111 samanborið við 1.034 rúmlestir á árinu 1947. Voru bátar þessir smíðaðir á eftirtöldum stöðum: Akureyri 2 bátar 74 rúmlestir og Siglufirði 1 bátur 37 rúmlestir. Var hér um að ræða báta, sem smíðaðir voru á vegum ríkissjóðs.

Ægir. 8-9 tbl. 1 ágúst 1949.


12.09.2018 18:44

V. b. Gunnar Hámundarson GK 357.

Vélbáturinn Gunnar Hámundarson GK 357 var smíðaður af Þorgeiri Jósepssyni á Akranesi árið 1942 fyrir Halldór Þorsteinsson útgerðarmann í Vörum í Garði. Eik og fura. 26,72. brl. 90 ha. June Munktell vél. Ný vél (1946) 130 ha. June Munktell vél. Báturinn sökk eftir að breski togarinn York City GY 193 frá Grimsby, sigldi á hann út af Sandgerði 21 ágúst árið 1950. Áhöfnin, sjö menn, bjargaðist. Fimm um borð í York City og tveir um borð í vélskipið Ingólf frá Sandgerði.


Vélbáturinn Gunnar Hámundarson GK 357.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

   V.b. Gunnar Hámundarson GK 357

Það sem af er þessu ári hafa aðeins 3 nýir bátar bætzt í flotann. Fyrstur var tilbúinn "Gunnar Hámundarson" G. K 357, en hann kom 1. febrúar til Sandgerðis, en þaðan er hann gerður út í vetur. Byrjað var á smíði hans síðla á síðastliðnu sumri. Er hann smíðaður úr eik og furu. Hann er 26.72 brúttó rúmlestir að stærð, 49.6 fet á lengd, 13.3 fet á breidd og 6 fet á dýpt. Í honum er 80 -90 ha. June Munktell vél, sama vélin og var í "Gunnari Hámundarsyni" hinum eldri. "Gunnar" er smíðaður á Akranesi, og annaðist Þorgeir Jósepsson smíðina, en eigandi hans er Halldór Þorsteinsson útgerðarmaður í Vörum í Garði.

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1942.


Breski togarinn York City GY 193 var smíðaður í Smiths Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1933. 398 brl.                                                                (C) Peter H Pool.

 Gunnar Hámundarson sigldur niður í gær

                      Mannbjörg

Skipaárekstur varð í gærmorgun í ágætis veðri út af Garðskaga. Breskur togari. York City frá Grimsby, sigldi niður vjelbátinn Gunnar Hámundarson úr Garðinum. Á bátnum voru sjö menn og björguðust þeir allir ómeiddir. Báturinn var horfinn í djúpið tveim mínútum eftir að áreskturinn varð. Gunnar Hámundarson var aflahæsti reknetabáturinn hjer við Faxaflóa.
Áreksturinn varð út af Garðskagavita um kl. 10,30 í gærmorgun, um einnar klst. siglingu frá Sandgerði. Var Gunnar Hámundarson að koma úr róðri, með nær 60 tunnur síldar. Breski togarinn var að koma í veiðiför. Þegar áreksturinn varð, voru aðeins tveir menn uppi, af sjö manna áhöfn, Kjartan Ásgeirsson vjelamaður og Jónatan Ásgeirsson stýrimaður. Hinir voru allir undir þiljum. Um aðdraganda árekstursins er ekki vitað. Skipverjar á Gunnari Hámundarsyni segjast ekki hafa sjeð neitt til ferða breska togarans, og ekki vitað neitt fyrr en hann sigldi á bátinn. Togarinn kom aftan á bátinn, skammt fyrir aftan hvílu skipstjórans sem var stjórnborðsmegin. Skipverjar sem allir eru, að einum undanskyldum, á besta aldri, snöruðu sjer þegar upp, eins og þeir stóðu, fáklæddir úr hvílu og á þilfari þrifu þeir með sjer netabelgi og köstuðu sjer í sjóinn, en í sömu andránni seig vjelbáturinn hægt niður  að aftan og hvarf í djúpið. Þá munu hafa verið liðnar tvær mínútur frá því áreksturinn varð. Skipverjar á breska togaranum fóru sjer að engu óðslega við björgun skipbrotsmannanna. Þeir sem lengst voru í sjónum, biðu björgunar í um 20 mínútur. Þrír skipverja sem syndir eru, syntu að stiga, sem togaramennirnir settu niður með skipshliðinni. Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, sem var einn þeirra er synti að togaranum, stakk sjer til sunds af borðstokk togarans, með bjarghring til eins manna sinna, sem ekki var syntur, og orðinn var talsvert þreyttur á að halda sjer á floti á netabelgnum. Tveimur skipsbrotsmönnum bjargaði svo vjelbáturinn Ingólfur frá Sandgerði, skipstjóri Bragi Björnsson, Gillandi. Komu þeir til Sandgerðis nokkru eftir hádegi. Hinir fimm, sem bjargað var um borð í togarann komu til Reykjavíkur um kl. tvö í gærdag.
Nákvæmlega var mánuður liðinn í gær, frá því að Gunnar Hámundarson hóf reknetaveiðar. Var hann aflahæsti báturinn hjer við Faxaflóa, með 1.560 tunnur. Báturinn var hið besta skip, þó ekki væri hann nema 27 tonn. Hann var byggður á Akranesi fyrir einum átta eða tíu árum. Eigandi hans var Halldór Þorsteinsson útvegsbóndi að Vörum í Garði. Þessir menn voru á bátnum:
Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, Garði.
Kjartan Ásgeirsson. vjelamaður, Garðinum.
Einar Daníelsson frá Ísafirði.
Sigurbjörn Tómasson Keflavík.
Kjartan Jóhannsson matsveinn.
Þessir menn björguðust allir um borð í togarann.
Mb. Ingólfur bjargaði þeim Lárusi Bjarnasyni frá Reykjavík. Hann er elstur skipverja, rúmlega sextugur og Jónatan Ásgeirssyni stýrimanni. Þeir, sem togarinn bjargaði, Ijetu vel af móttökunum þar um borð. Fimm þeirra skipsfjelaga eru fjöldskyldumenn. 

Morgunblaðið. 22 ágúst 1950.


11.09.2018 17:55

Reykjavíkurhöfn í dag.

Það er oftast mikið líf í Reykjavíkurhöfn, fjórir H.B. Granda togarar í höfn, Engey RE 1, Akurey AK 10 Örfirisey RE 4 og Viðey RE 50. Helga María AK 16 liggur við Ægisgarð skrúfulaus að ég held og Steinunn SF 10 við Bótarbryggjuna. Eins og Tómas Guðmundsson skáld orti í denn; "skipin koma og skipin fara sinn veg" Orð að sönnu hjá Reykjavíkurskáldinu.


2895. Viðey RE 50. TFJI við Grandagarð.


Engey RE 1, Akurey AK 10 og Örfirisey RE 4 við bryggju í Örfirisey.


2449. Steinunn SF 10. TFVA við Bótarbryggjuna.


1868. Helga María AK 16. TFDJ við Ægisgarðinn.


Helga María AK 16 við Ægisgarð.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 11. september 2018.

08.09.2018 10:16

1472. Ísborg ll ÍS 260. TFVM.

Skuttogarinn Ísborg ll ÍS 260 liggur hér við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri nú á dögunum. Skipinu er ætlað að taka við hlutverki Ísborgarinnar gömlu, sem var einn tappatogaranna svonefndu og hét upphaflega Hafþór NK 76 og er eina skipið sem eftir er af þeim fríða flota skipa sem smíðaðir voru í Austur Þýskalandi á árunum 1958-60. Gamla Ísborgin verður seld úr landi til niðurrifs. Ísborg ll ÍS 260 hét upphaflega Klakkur VE 103 og var í eigu samnefnds útgerðarfélags í Vestmannaeyjum. 488 brl. 2.200 ha. Sulzer Cegielski vél, 1.618 Kw. Seldur 1980, Samtogi hf í Vestmannaeyjum. Ný vél (1987) 2.200 ha. B&W Alpha vél, 1.620 Kw. Var svo seldur í júlí 1992, Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar og bar nafnið Klakkur SH 510 þar. Seldur Fiskiðjunni Skagfirðingi hf á Sauðárkróki, en skipið gert út frá Grundarfirði. Árið 2007 er togarinn komin í eigu Fisk Seafood hf á Sauðárkróki. Frá árinu 2012 bar skipið nafnið Klakkur SK 5. Ísborg ll ÍS 260 er í eigu Arnars Kristjánssonar skipstjóra og útgerðarmanns á Ísafirði og mun skipið fara á rækjuveiðar.


1472. Ísborg ll ÍS 260 við bryggju á Akureyri.                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

           
          Nýtt skip í flota Vestfirðinga

Það bættist í Vestfirskan skipaflota þegar útgerðarmaðurinn Arnar Kristjánsson sigldi nýju skipi sínu, Ísborg ll ÍS 260 til heimahafnar í dag. Með tilkomu nýja skipsins verður eldra skipinu Ísborgu, lagt og það selt í niðurrif. Það skip sem áður hét Hafþór og síðan Haffari og var þá gerður út frá Súðavík hefur verið mikil happafley og verið ein af burðarásum í hráefnisöflun fyrir rækjuvinnslur í Ísafjarðarbæ.
Nýja skipið sem áður var gert út frá Sauðárkrók og hét þá Klakkur, var gert út á fiskitroll til hráefnisöflunar fyrir Fisk Seafood. Skipið var þá undir stjórn Snorra Snorrasonar, mikils fiskimanns. Klakkur er 500 rúmlestir, smíðaður í Gdynia í Póllandi 1977 og var Klakkur hf í Vestmannaeyjum upphaflegur eigandi.
Ísborg II kemur úr slipp á Akureyri þar sem það var botnmálað og farið yfir skrúfu og öxuldregið. Arnar gerir ráð fyrir að veturinn verði notaður til að útbúa skipið til rækjuveiða og það geti hafið veiðar snemma vors.

Bæjarins besta. 7 september 2018.


1472. Klakkur SK 5 við bryggju á Sauðárkróki.                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.


1472. Klakkur VE 5 í slippnum á Akureyri.                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

     Togarinn fór á hliðina í þurrkví

Skuttogarinn Klakkur VE skemmdist mikið þegar hann lagðist á hliðina í slipp í Cuxhaven í Vestur-Þýskalandi seint í fyrrakvöld. Skipið var til viðgerða í skipasmíðastöð og var verið að sjósetja það þegar óhappið varð. Haraldur Benediktsson skipstjóri á Klakk vildi sem minnst um óhappið ræða þegar Mbl. náði símasambandi við hann í gærkvöldi. Sagði hann að sjópróf ættu eftir að fara fram og þar myndu málin skýrast. Skipið maraði í hálfu kafi og hallaði 80 gráður eftir óhappið en rétti sig við í 45 gráðu halla eftir að vélarrúmið fylltist af ajó. Í gærkvöldi var kominn stór flotkrani að Klakki og átti að lyfta skipinu aftur upp í slippinn í gærkvöldi. "Þetta er flot"dokk" sem þeir hleypa sjó inn í og var búið að sökkva henni þó nokkuð þegar óhappið varð. Skipið lagðist bara á hliðina þarna í "dokkinni" hjá þeim þannig að það hallaði 80 gráður en lenti þá með möstrin á brúninni á kanti sem þarna er við," sagði Haraldur.
Aðspurður um skemmdir sagði hann: "Þetta er eins svart og það getur verið, held ég að óhætt sé að segja. Sjór fór niður alla loftkanala þannig að vélarrúmið fylltist. Sjórinn fór um allt skip, inn í íbúðir og alveg inn í brú, hún fylltist fast að því til hálfs. Skrokkur skipsins er óskemmdur og mest af tækjunum í stýrishúsinu. Maður veit ekki hvað mikið er skemmt í vélarrúminu. Allt er ónýtt í eldhúsi og matvælageymslum og íbúðum. Jólainnkaup mannskapsins fóru þar fyrir lítið." Þegar sjósetja átti skipið voru 14 um borð, 12 skipverjar og eiginkonur tveggja þeirra. Haraldur sagði að enginn hefði meiðst og aldrei hefði verið veruleg hætta á ferðum fyrir fólkið. Sagði hann að þau hefðu verið hífð í land með krana sem þarna er og allt hefði það gengið vel. Hluti hópsins færi heim með flugi á föstudag en hin með Breka VE sem selur í Cuxhaven á mánudag. Haraldur sagði að þetta setti mikið strik í reikninginn hjá þeim. Fyrirhugað hefði verið að halda heim með skipið um helgina en nú væri ljóst að það yrði ekki næstu mánuðina en tók jafnframt fram að hann væri reyndar ekki fæddur bjartsýnismaður.

Morgunblaðið. 8 nóvember 1984.


1472. Klakkur VE 103 í Vestmannaeyjahöfn. Enn með framgálgann.            (C) Tryggvi Sigurðsson.

               
                Klakkur VE 103

29. marz sl. kom skuttogarinn Klakkur VE 103 til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja, í fyrsta sinn. Klakkur VE er byggður í Gdynia í Póllandi hjá Stocznia im Komuny Paryskiey (nýsmíði B 402/2) og er síðasti skuttogarinn í raðsmíði þriggja togara fyrir íslenzka aðila hjá umræddri stöð. Fyrr á þessu ári komu til landsins skuttogararnir Ólafur Jónsson GK og Bjarni Herjólfsson ÁR. Klakkur VE er í eigu samnefnds hlutafélags í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á Klakk er Guðmundur Kjalan Jónsson og 1. vélstjóri Jón Sigurðsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Arnar Sigmundsson. Klakkur VE er byggður í flokki Lloyds Register of Shipping og búinn til botnvörpu- og flotvörpuveiða. Mesta lengd skipsins er 52.05 m, breidd 10.30 m, dýpt að efra þilfari 6.96 m, dýpt að neðra þilfari 4.60 m. Lestarrými er 462 m3 og er lestin gerð fyrir kassa nema fremsti hluti hennar, sem er búin uppstillingu. Brennsluolíugeymar eru 190 m3 að stærð og ferskvatnsgeymar 55 m3 . Skipið mælist 488 brl og hefur skipaskrárnúmer 1472. Aðalvél er frá Sulzer, 2200 hö, tengd niðurfærslugír frá Renk og skiptiskrúfubúnaði frá Liaaen. Þrír rafalar eru drifnir af aðalvél um niðurfærslugír, tveir 130 KW jafnstraumsrafalar á sama öxli fyrir togvindur og einn 400 KVA, 3x400 V riðstraumsraf all fyrir rafkerfi skipsins. Hjálparvél er frá Caterpillar, 330 hö, sem knýr einn 250 KVA, 3x400 V riðstraumsrafal og einn 60 KW jafnstraumsrafal, vararafal fyrir togvindur. Eftir að skipið kom til landsins var sett í það 110 ha Lister hafnarljósavél með 88 KVA riðstraumsrafal. Stýrisvél er frá Hydroster, 6300 kgm snúningsvægi. Af öðrum vélabúnaði má nefna tvær skilvindur, tvær ræsiloftþjöppur, tankmælikerfi, ferskvatnsframleiðslutæki, COo-slökkvikerfi, rafknúnar dælusamstæður fyrir vökvaknúin búnað svo og tvær kæliþjöppur, fyrir lest og matvælageymslur. íbúðir eru fyrir samtals 16 menn. Á neðra þilfari eru fimm 2ja manna klefar og einn eins manns klefi, en á efra þilfari eru fimm eins manns klefar fyrir yfirmenn. íbúðir eru hitaðar upp með rafmagnsofnum. Vinnuþilfar er búið blóðgunarkerum, aðgerðarborðum færiböndum og þvottavél, svo og búnaði fyrir slóg og lifur. Í skipinu er 10 t Finsam ísvél og 20 m3 isgeymsla. Kæling í lest er með kælileiðslum. Vindur eru allar pólskar að undanskilinni flotvörpuvindu (Karmoy) og netsjárvindu (Brattvaag). Skipið er búið tveimur rafknúnum togvindum (splitvindum), rafknúinni hjálparvindu með sex tromlum og akkerisvindu sem einnig er rafknúin. Auk þess eru tvær vökvaknúnar hjálparvindur, tveir vökvaknúnir losunarkranar svo og áðurnefndar vindur, flotvörpuvinda og netsjárvinda.
Mesta lengd 52.05 m.
Lengd milli lóðlína 43.80 m.
Breidd 10.76 m.
Dýpt að efra þilfari 6.96 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.60 m.
Djúprista (KVL) 4.40 m.
Eiginþyngd 905 tonn.
Særými (djúprista 4.58 m) 1170 tonn.
Burðarmagn (djúprista 4.58 m) 265 tonn.
Lestarrými 462 m 3.
Brennsluolíugeymar 190 m 3.
Sjókjölfestugeymir 7 m 3.
Ferskvatnsgeymar 55 m 3.
Ganghraði (reynslusigling) 14,4 sjómílur.
Togkraftur (bollard pull) 25 tonn.
Rúmlestatala 488 brl.
Skipaskrárnúmer 1472.

Ægir. 6 tbl. 1 apríl 1977.08.09.2018 09:17

V. b. Óðinn GK 22.

Vélbáturinn Óðinn GK 22 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1931 fyrir Guðmund Þórðarson útgerðarmann í Gerðum í Garði. Eik og fura. 22 brl. 76 ha. Tuxham vél. Ný vél (1942) 100 ha. Skandia vél. Báturinn fórst í róðri út af Garðskaga 12 febrúar árið 1944 með allri áhöfn, fimm mönnum.

 Óðinn GK 22 í Reykjavíkurhöfn. Til hægri má sjá í nafna hans, varðskipið Óðinn. Ljósmyndari óþekktur.

              Þrír vélbátar farast

Aðfaranótt laugardags 12. febrúar gerði aftakaveður af suðvestri. Flestir bátar úr verstöðvum frá Faxaflóa, Vestmannaeyjum og Hornafirði, höfðu róið um nóttina, og lentu margir bátar í hinum mesta hrakningi við að ná landi. Vélbátnum Ægir úr Garði, eign Finnboga Guðmundssonar, útgerðarmanns, hvolfdi út af Garðskaga og fór heila veltu yfir sig í sjónum. Reið brotsjór yfir skipið og braut allt ofan af því. Skipstjórinn, ásamt Sigurði Björnssyni, var í stýrishúsinu, er sjórinn reið yfir skipið. Tók Sigurð út. en skipstjórinn festist undir planka og bjargaðist þannig. Í lúkarnum voru þrír menn, og sakaði þá ekki. Komu þeir upp, eftir að báturinn hafði rétt sig við, en rétt í þeim svifum bar þar að m.b. ,.Jón Finnsson", skipstjóri Þorsteinn Jóhannesson, og tókst honum að bjarga þeim fjórum, sem eftir voru um borð, og fór með þá til Keflavíkur. Sigurður Björnsson, sem drukknaði, var frá Geirlandi í Sandgerði, sonur Björns Sigurðssonar, skipstjóra á Siglufirði. Hann var fæddur 27. maí 1917, kvæntur og átti 3 börn. "Björn II", frá Akranesi sökk á fiskimiðunum, er hann var ásamt öðrum bátum á leið til lands. Kom allt í einu mikill leki að bátnum og sáu skipverjar að hann myndi sökkva innan skamms. Náðu þeir sambandi við m.b. "Fylkir" frá Akranesi, skipstj. Njáll Þórðarson, tókst skipverjum af "Fylkir" að bjarga mönnunum fjórum, sem voru á "Birni II." en báturinn maraði í kafi síðast er sást til hans. v.b. "Ægir" rak síðar yfir bugtina og lenti í sandvík í landi jarðarinnar Ás í Melasveit. Frammastrið hékk við bátinn á reiðanum, veiðarfæri í lestinni, bolur bátsins, kjölur, stýri og skrúfa allt óbrotið. Þykir einstakt að bátinn skyldi reka gegnum skerjagarðinn án þess að saka og eru nú taldar góðar líkur á, að báturinn náist út. Í þessu sama veðri fórust tveir vélbátar frá Vestmannaeyjum og einn frá Gerðum. Vestmannaeyjabátarnir voru: "Freyr", VE 98, 14 smál., byggður í Færeyjum 1920. "Njörður", VE 220, 15 smál. byggður í Vestmannaeyjum 1920, eigandi beggja þessara báta var h.f. Fram í Vestmannaeyjum. Það er kunnugt að "Njörður" lagði lóðir sínar vestur frá Einidranga og sást það síðast til bátsins, að hann lagði af stað heimleiðis um hádegi á laugardag. Bjarghring hefir rekið á Landeyjarfjörum úr bátnum. "Freyr" lagði sínar lóðir norðvestur af Einidranga, ásamt öðrum báti. Hefir ekkert spurst til Freys síðan. Einum Vestmannaeyjabáti hlekktist á. Var það Ísleifur, VE 63, 30 smál., byggður í Reykjavík 1916. Reið mikill sjór yfir bátinn og skolaði öllu lauslegu af þiljum. Munaði litlu að báturinn færist. Sjómenn í Vestmannaeyjum telja laugardagsveðrið eitthvert versta sjóveður, sem Vestmannaeyjabátar hafa lent í lengi.
V.b. "Óðinn" GK 22 var byggður í Friðrikssundi 1931, var 22 smál. Eigendur firmað Guðmundur Þórðarson, Gerðum. Hann fór í róður á föstudagskvöldið, og hefir sennilega lagt línu sína djúpt í Miðnessjó. Þegar síðast sást til hans, rétt um kl. 12 á laugardag, var hann á þeim slóðum og "slóvaði" við bauju. Á Óðni voru þessir menn:
Geirmundur Þorbergsson, skipstjóri Bræðraborg, Garði, f. 10. sept. 1910, kvæntur, lætur eftir sig 3 börn.
Þorsteinn Pálsson, vélamaður, Sandgerði, f. 8. júní 1925, kvæntur, lætur eftir sig 4 börn.
Þórður Óskarsson, Gerðum, f. 16. sept. 1925, ókvæntur.
Tómas Árnason, frá Flatey á Skjálfanda. f. 28. sept. 1915, ókvæntur.
Sigurður Jónasson, frá Súðavík, f. 4. nóv. 1923, ókvæntur.
Auk þessara bátstapa með allri áhöfn, varð mikið um skemmdir á bátum, sem ýmist komust nauðulega að landi, sumir mikið brotnir, og allmikið var um að bátar brotnuðu við að reka á land. Veiðarfæratjón varð gífurlegt hjá bátaflotanum, og er talið að það muni nema hundruðum þúsunda króna.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1944.


03.09.2018 20:24

B. v. Hafstein ÍS 449. LCKG / TFND.

Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. Hét fyrst Michael Mcdonald og var í eigu breska flotans. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123. Togarinn var seldur h/f Græði á Flateyri árið 1925 og fær nafnið Hafstein ÍS 449. Kom til landsins 19 febrúar það ár. Árið 1935 er skráður eigandi Gnótt h/f á Flateyri. Seldur árið 1938 Gnótt h/f á Grundarfirði. Seldur 1939, h/f Mars í Hafnarfirði, fær nafnið Hafstein RE 156. Seldur í júlí 1944, Einari Einarssyni í Grindavík, hét Hafstein GK 363. Í október sama ár er Ólafur E Einarsson h/f í Keflavík eigandi skipsins. Selt h/f Vestra í Reykjavík árið 1945. Selt 1948 Díeselskipi h/f í Reykjavík. Selt sama dag Selvik p/f í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur árið 1955 og rifinn í Odense sama ár.


B.v. Hafstein ÍS 449. Málverk.                                                                                         Málari J.B.


Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449

"Hafstein" heitir nýr togari, sem Ísfirðingar hafa keypt í Englandi. Er hann kominn hingað. Skipið er nálega 140 fet á lengd og fjögurra ára gamalt. Skipinu verður haldið út hjeðan nú á vertíðinni, annars er heimilisfang þess á Flateyri við Önundarfjörð. Heitir fjelagið "Græðir," sem á skipið og er framkvæmdarstjóri þess Sigurjón Jónsson alþingismaður.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1925.


01.09.2018 23:32

L. W. Haskell. Olíubátur.

Olíubáturinn L.W. Haskell var smíðaður hjá Osbourne, Graham & Co Ltd. North Hylton í Sunderland á Englandi árið 1915. 132 brl. (48 n.h.p. 1x4 cyl. 4SCSA díesel Engine single shaft 1 screw, smíðuð hjá L. Gardner & Sons í Canterbury á Englandi) Var í eigu Southern Oil Co Ltd í Manchester á Englandi, tók m.a. þátt í innrás bandamanna í Gallipoli á Ítalíu árið 1916. Haskell kom hingað til landsins á vegum Olíufélagsins hf árið 1950, en var aldrei skráður á Íslandi því íslensk lög heimiliðu ekki skipum eldri en 12 ára íslenska skráningu. Haskell var því skráður hjá Esso Export Ltd í London. Báturinn var notaður til að flytja olíu í togara og önnur skip í Reykjavíkurhöfn og fleiri höfnum við Faxaflóa og til birgðastöðvarinnar og Hvalstöðvarinnar í Hvalfirði. Haskell var hinsvegar lítið sjóskip og hæggengur og kom því að litlum notum í vondum veðrum. Endalok Haskells urðu þau að hann sökk út af Hvammsvík í Hvalfirði 4 júlí árið 1962. Var hann þá á leið til Hvalstöðvarinnar með um 200 tonn af svartolíu. Stuttu áður hafði Haskell tekið niðri á Laufagrunni, skammt undan Bakka á Kjalarnesi og sökk svo undan Hvammsvík í Hvalfirði eins og áður segir. Áhöfnin, þrír menn, björguðu sér á léttbáti til lands.


L. W. Haskell á Reykjavíkurhöfn.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

         Olíubátur sökk í Hvalfirði
  Áhöfnin bjargaðist í land á skektu

Olíubáturinn L. W Haskell sökk í gærdag út af Hvammsvík við Hvalfjörð. Á bátnum var þriggja manna áhöfn og björguðust mennirnir á land á báti. Haskell var að fara með fuel olíu til Hvalstöðvarinnar í Hvalfirði þegar þetta gerðist. Olíubáturinn L. W. Haskell kom hingað til lands fyrir allmörgum árum á vegum Olíufélagsins h f" en fékkst ekki skráður hér vegna þess að þá var hann orðinn eldri en tólf ára. Samkvæmt Íslenzkum lögum má ekki skrá hér skip, sem keypt eru gömul erlendis frá séu þau eldri en 12 ára. Haskell var því skráður í London. Öll björgunartæki á Haskell munu hafa verið samkvæmt íslenzkum reglugerðum, þó svo væri ekki skylt, þar eð skipið var skráð í Englandi.
Haskell sökk um hálf sex leytið í gærdag út af Hvammsvík í Hvalfirði. Hann var með 190 tonn af fuel olíu, sem átti að fara til Hvalstöðvarinnar. Talið er að skilrúm fremst í bátnum hafi brostið, og olía komist fram í hásetaklefann. Báturinn seig skyndilega að framan og stakkst svo í djúpið. Skipsmenn björguðust í land í Hvammsvík á skektu. Þar sem báturinn sökk mun vera um 20 faðma dýpi. Olíubáturinn Haskell var einkum notaður til þess að flytja olíu upp í Hvalfjörð og stundum til Hafnarfjarðar, einnig var hann mikið notaður við að setja olíu á skip hér í höfninni. Áður en Haskell var keyptur hingað mun hann hafa verið notaður til að flytja soyabaunir, og var ekki skipt um nafn á honum er hann kom hingað til lands. Skipstjóri á Haskell var Gunnar Magnússon. Alvarleg hætta steðjar að öllu fuglalífi á stóru svæði við Hvalfjörð komist eitthvað af olíunni sem var í Haskell upp á yfirborðið. 

Alþýðublaðið. 5 júlí 1962.


Olíubáturinn L. W. Haskell að dæla olíu á bandarískan kafbát í Reykjavíkurhöfn árið 1956.

 Tímanum og Olíufélaginu ber ekki        saman við skipaskrá Lloyds
    Segja Olíufélagið eiga Haskell       Lloyd segir eiganda í London farið              í kringum Íslenzk lög

Á forsíðu "Tímans" í gær er skýrt frá því að oliupramminn L.W. Haskell sé eign Olíufélagsins. Í viðtali við Mbl. í gær staðfesti Guðni Hannesson, fulltrúi hjá Olíufélaginu, að skipið væri eign félagsins. Kemur þetta ekki heim við það sem segir um skipið í Lloyd's Register of Shipping, sem skráir eiganda þess Esso Export Ltd. í London, en svo sem skýrt hefur verið frá var Haskell skrásett þar. Hinsvegar hefur skráning skipverja á Haskell farið fram hjá lögskráningu skipshafna hjá tollstjóraembættinu, og skyldutryggingar og önnur gjöld hafa verið innheimt hjá Olíufélaginu hf. Úr því að "Tíminn" segir, og Olíufélagið staðfestir, að það eigi skipið, hlýtur að vakna sú spurning hvenær það hefur verið keypt, hvað kaupverðið hafi verið og síðast en ekki sízt, hvort það hafi verið með leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna að Olíufélagið keypti skipið? Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri, tjáði Mbl. í gær að Haskell hefði komið til Íslands um 1950, áður en hann tók við embætti skipaskoðunarstjóra. Skipið, sem er byggt 1915, var þá of gamalt til þess að skrásetja mætti það á Íslandi, en samkvæmt íslenzkum lögum má eigi flytja inn og skrásetja skip eldri en 12 ára. Þarf til slíks sérstök lög frá Alþingi, líkt og með hvalbátana og Hæring á sínum tíma. Haskell hefur því aldrei verið skrásettur hér, heldur í London. Skipaskoðunarstjóri sagði að hann hefði aldrei haft afskipti af Haskell, sökum þess að skipið var ekki skrásett hér. Lögskráning skipshafna í Reykjavík tjáði Mbl. í gær að áhöfnin á Haskell væri skrásett hér. Hefðu venjulegar skyldutryggingar og önnur gjöld, sem fara í gegnum lögskráninguna, verið innheimt hjá Olíufétaginu hf. Það hlýtur að teljast í hæsta máta kynlegt, hversu högum þessa skips hefur verið háttað. Eigi Olíufélagið skipið, eins og það og "Tíminn" segja, virðast kaupin á því að hafa farið fram á ólöglegan hátt. Þá var skipið of gamalt til þess að mega flytjast inn hér, og er það því skiljanlegt að látið hafi verið líta út sem Esso Export í London ætti það.

Morgunblaðið. 6 júlí 1962.

         Reyna að ná olíubrákinni

Um klukkan fjögur í fyrrinótt kom v.b. Leó aftur ofan úr Hvalfirði, en eins og sagt var frá í gær fór hann með kafara upp eftir, þangað sem flakið af olíuprammanum L.W. Haskell liggur. Þegar á staðinn kom, varð ekki vart við að olía bærist frá flakinu, og þrátt fyrir nákvæma rannsókn gat kafarinn ekki fundið nein merki leka. Hins vegar er talsverð olía komin í fjörðinn, og er talið fullvíst, að það sé sú olía, sem komst í lúkarinn. Ekki er vitað, hvort hann hefur fyllzt alveg, en gizkað er á, að í honum hafi mest rúmazt 15 tonn. Flakið stendur upp á endann í sjónum og er stefnið á kafi í botnleðjunni. Lúkarinn er nú fullur af sjó, og er reiknað með að þrýstingur sjávarins sporni við því, að meiri olía berist úr lestinni fram í lúkarinn og þaðan upp á yfirborðið. Olíufélagið leggur nú sem fyrr allt kapp á að sporna við skemmdum af völdum olíunnar. M. a. er verið að útbúa tvo báta, sem eiga að dæla upp olíuflekkjunum, sem enn fljóta um sjóinn. Ekki er vitað, hvort reynt verður að ná flakinu upp, en það liggur á 18 faðma dýpi.
Tíminn hafði í gær tal af Samsyni Samsonarsyni, bónda í Hvammsvík, en flakið liggur beint fyrir framan hjá honum, og spurði hann um tjón af völdum olíunnar. Sagðist hann ekki hafa gengið fjörur og kynnt sér málið rækilega, en hélt að olían væri víða um fjörðinn komin í fjöruborðið, og í fyrrakvöld kvaðst hann hafa séð æðarunga koma að landi, ataða í olíu og deyja. Kvað hann alvarlega horfa með æðarvarpið, því að líklegt mætti telja að flestir unganna dræpust og jafnvel eitthvað af fullorðnu líka, þótt það þyldi olíuna fremur. Á stríðsárunum, sagði hann, var mikil olía hér á firðinum og fuglinn lagðist svo að segja alveg frá, en nú var varpið aftur komið í samt horf og fyrir stríð. Loftur Bjarnason í Hvalveiðistöðinni sagði að olían væri veltandi þar í fjöruborðinu og framan við bryggjuna, enda munar um það að fá 200 tonn af svartolíu í fjörðinn, sagði hann og dró ekki af. Komið var að landi með hval í fyrrakvöld og sagði Loftur að þeir reyndu að þvo hann og ná af honum olíunni, en ekki kæmi í ljós fyrr en farið væri að bræða, hvort lýsið væri skemmt. "Við þorum ekki að hirða rengið, og varla kjötið heldur" sagði hann einnig og virtist svartsýnn.
Þá spurði Tíminn Þorbjörn í Borg, formann Dýraverndunarfélags Íslands, hvort þeir hefðu gert einhverjar ráðstafanir til þess að bjarga fuglinum, en hann sagði, að það mál hafi ekki verið rætt enn, en yrði líklega gert um helgina. Sagði honum þunglega hugur um, að nokkuð yrði gert að gagni.

Tíminn. 7 júlí 1962.31.08.2018 19:52

Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706 í hrakningum við Austfirði.

Það er ekki í frásögur færandi að breskir togarar leituðu hafnar á Austfjörðum, öðru nær, þeir voru þar oft á tíðum daglegir gestir. Það var hinn 12 febrúar árið 1968 að breski togarinn Blackburn Rovers GY 706 var á leið á Íslandsmið. Ætlunin var að halda á miðin fyrir norðan og vestan land en kurr var í mörgum skipverjum með þá ákvörðun skipstjórans. Það var kannski ekki svo skrítið að svo væri, enda ekki nema nokkrir dagar síðan að tveir breskir togarar fórust við Ísland og sá þriðji strandaði við Snæfjallaströnd og fórust þar fjörutíu breskir sjómenn. Talið var, að á þessum tíma hafi bresku togararnir verið lítt haffærir og hvað þá á Íslandsmiðum og það um há vetur þegar allra veðra var von. Það voru nokkrir skipverjar á Blackburn Rovers sem vildu komast af skipinu hið fyrsta þrátt fyrir fortölur skipstjórans. Hann ákvað síðan að leita hafnar í Neskaupstað, en villtist hrappalega af leið og hélt inn á Mjóafjörð og ekki vildi betur til en að togarinn sigldi á bryggjuna í Brekkuþorpi með þeim afleiðingum að hún stórskemmdist. Mun togarinn hafa strandað tvívegis þar en komist hjálparlaust af strandstað í bæði skiptin. Sigldi þá togarinn út Mjóafjörðinn og náði loks til hafnar á Norðfirði þar sem fimm skipverjar voru settir á land. Mun hann einnig hafa strandað á Norðfirði áður en hann hélt til hafs, fimm skipverjum færri. Ekki fer sögum af frekari hrakningum skipverjanna á Blackburn Rovers í þessari veiðiferð þeirra á Íslandsmið í febrúar árið 1968.
Blackburn Rovers GY 706 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1962. 439 brl. désel vél, stærð og gerð óþekkt. Smíðanúmer 535. Togarinn var í eigu Vendover Fishing Co Ltd í Grimsby. Var seldur til Kýpur árið 1987.


Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706.                                                       (C) James Cullen.


Blackburn Rovers GY 706 nýsmíðaður haustið 1962.                                                 James Cullen.

  Lenti í röngum firði, stórskemmdi
bryggju og strandaði þrisvar sinnum

Brezkur togari, Blackburn Rovers GY-706, lenti í talsverðum hrakningum á Austfjörðum í gær. Braut hann hafskipabryggju í Mjóafirði og er það mikið tjón og skipið tók niðri að minnsta kosti þrisvar sinnum, en losnaði af sjálfsdáðum. Verður að leggja fram tveggja milljóna króna tryggingu vegna bryggju skemmdanna, til að togarinn fái að halda úr höfn á Norðfirði, en þar er hann nú. Í dag rákust tveir brezkir togarar á út af Austfjörðum og er annar þeirra nú í höfn á Norðfirði. Blackburn Rovers var á leið á Íslandsmið frá Færeyjum, en þar var hann síðast í höfn í Klakksvík. Á leiðinni gerðu nokkrir af áhöfninni uppsteit. Fjórir hásetar og annar vélstjóri neituðu að fara með togaranum norður fyrir land til veiða, eða á þær slóðir sem brezku togararnir fórust ekki alls fyrir löngu. Vildu þessir menn komast af skipinu. Ætlaði skipstjórinn að láta þessa menn á land á Norðfirði, en hann villtist og lenti fyrst í Mjóafirði. Þegar komið var til hafnar þar tókst ekki betur til en togarinn sigldi á hafskipabryggjuna, sem er úr timbri, og stórskemmdi hana. Einnig tók togarinn niðri tvisvar sinnum í Mjóafirði. Hafskipabryggjan í Mjóafirði er byggð á staurum og var hún endurbyggð fyrir þremur árum síðan. Togainn sigldi á talsverðri ferð á bryggjuna og hangir nú hluti henna laus, er það um fimm sinnum fimm flatarmetrar af bryggjunni sem er laus. Einnig hefur það sem eftir stendur af bryggjunni skekkst. Hefur nú verið lögð fram fyrir rétti krafa um tveggja miljóna króna tryggingu vegna bryggjuskemdanna. Í Mjóafirði bað skipstjórinn um að fá lóðs til Norðfjarðar en hann var þar ekki fyrir hendi. Sigldi þá togarinn lóðslaus til Norðfjarðar og nú hitti hann á réttan fjörð og kom þangað um kl. 21. í gærkveldi. Var þegar settur sjóréttur yfir skipstjóranum vegna bryggjuskemmda í Mjóafirði. Skipstjórinn viðurkenndi strax að hafa valdið skemmdunum, enda hafði hann samband við menn í landi í Mjóafirði áður en lagt var þar úr höfn. Mjófirðingar telja að bryggjan sé ekki nothæf eins og er og krefjast að sett sé tveggja milljón króna trygging áður en togarinn heldur úr höfn. Munu skipverjarnir sem ekki vilja sigla lengur með togaranum verða settir á land, á Norðfirði. Áður en togarinn lagði að bryggju á Norðfirði kom hann við í fjörunni skammt fyrir sunnan bæinn.
Í dag varð árekstur milli tveggja brezkra togara út af Austfjörðum. Litlar skemmdir urðu á öðrum togaranum en hinn varð að leita hafnar á Norðfirði og verður gert við skemmdir hans þar.

Tíminn. 13 febrúar 1968.


Flettingar í dag: 457
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 653
Gestir í gær: 140
Samtals flettingar: 1437412
Samtals gestir: 392946
Tölur uppfærðar: 24.5.2019 08:47:17