23.10.2022 08:18

1110. Ása RE 17.

Vélbáturinn Ása RE 17 var smíðaður hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1970 fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. 11,04 x 3,35 x 1,26 m. Báturinn fórst út af Hvalsnesi á Reykjanesi að talið er, hinn 6 febrúar árið 1971. Tveir skipverjar voru um borð, bræðurnir Sigurþór og Vilberg sem fórust með báti sínum. Ýmislegt brak fannst rekið úr bátnum upp á Mýrum, t.d. lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari fannst í Knarrarnesi og í Straumsfirði fundust koddar og stíuborð rekið á fjörur.
 

Vélbáturinn Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.               (C) Elías Sigurðsson.

 

                                         Nýtt fiskiskip

Í maímánuði s. l. var nýjum 11 brl. bát hleypt af stokkunum hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði og hlaut hann nafnið Ása RE 17. Báturinn er smíðaður úr eik og furu og er allur hinn vandaðasti. Vélin er af gerðinni Ford Power 95 hö. Báturinn er vel útbúinn tækjum, má þar nefna dýptarmæli, talstöð, svo og 5 rafmagnsfæravindur. Báturinn er ennfremur útbúinn með sérstökum toggálga að aftan, er gerir skuttog mögulegt. Báturinn er smíðaður fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík og óskar Ægir þeim til hamingju með hinn nýja farkost.

Ægir. 16 tbl. 15 september 1970.
 

Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.    (C) Elías Sigurðsson.
 
Fyrirkomulagsteikning af Bátalónsbát.                          Úr safni mínu.

 

            Tveggja bræðra saknað á 11 tonna báti

Mikil Ieit hefur staðið yfir síðan á sunnudag að 11 tonna báti, Ásu RE 17, sem á eru tveir bræður; Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir, báðir um fimmtugt. Þeir bræður fóru í róður um hálfellefu á laugardagsmorgun og er síðast vitað um þá um klukkan hálfsjö á laugardag, þegar til Ásu sást frá hjálparskipinu Goðanum. Var Ása þá á norðurleið út af Stafnnesi. Leitin að bátnum og bræðrunum tveimur hafði engan árangur borið síðast þegar Morgunblaðið frétti í gærkvöldi. Vitað er, að þeir bræður hugðu á veiðar á svonefndum Hafnaleir vestur af Höfnum. Þegar Ása RE 17 sinnti ekki tilkynningaskyldu klukkan 10—13.30 á sunnudag, lét Slysavanafélag Íslands svipazt um eftir bátnum í verstöðvum á Suðurnesjum og við Faxaflóa, ef vera kynni að bræðurnir hefðu einhvers staðar leitað vars, en, aðfaranótt sunnudagsins gerði brælu af suðvestan á þessum slóðum. Þegar ekkert spurðist til bátsins í höfn, voru slysavarnasveitir á Suðurnesjum beðnar að ganga fjörur og allir bátar, sem úti voru, frá Reykjanesi og inn allan Faxaflóa, beðnir að svipast um eftir Ásu. Allsherjarleit var svo skipulögð, er þeir bræður komu ekki til hafnar í Reykjavík á sunnudagskvöld, eins og þeir höfðu ráðgert. Í fyrrinótt leituðu 18 skip frá Akranesi, Reykjavík og Keflavík ásamt varðskipinu Óðni, hjálparskipinu Goðanum og þýzka eftirlitsskipið Meerkatze, allt svæði innan línu, sem dregin var 5 sjómílur vestur af Garðsskaga í Arnarstapa á Snæfellsnesi. Strax í birtingu í gærmorgum lögðu svo björgunarsveitir SVFÍ á Suðurnesjum, frá Staðarsveit, Borgarnesi og Akranesi upp til leitar með fjörum. Voru gengar fjörur allt frá Grindavík, fyrir Reykjanestá og inn fyrir Garðsskaga og strandlengjan á Mýrum og Staðarsveit. Þá flaug flugvél Landhelgisgæzlunnar í gærmorgun og leitaði með allri strandlengju Faxafllóa og Faxaflóa allan. Sem fyrr segir hafði leitin engan árangur borið seint í gærkvöldi og var frekari leit ákveðin strax og birti í morgun.
Ása RE 17 er nýlegur 11 tonna trébátur, sem þeir bræður, Vilberg og Sigurþór, eiga; smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði og afhentur um mánaðamótin maí-júní síðastliðið ár.

Morgunblaðið. 9 febrúar 1971.
 

Bræðurnir Sigurþór og Vilberg Sigurðssynir.        Mynd úr Morgunblaðinu.
 
Brakið sem fannst úr Ásu sem rak á land á Mýrum.          (C) Morgunblaðið.
 
Vélbáturinn Ása RE 17 í Reykjavíkurhöfn.                 Ljósmyndari óþekktur.

 

                               Tveir bræður drukkna
        Fullvíst talið, að Ása hafi farizt

 

Fullvíst er nú talið, að vélbáturinn Ása RE 17, hafi farizt og með henni tveir menn; bræðunir Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir. Brak, sem fannst rekið í Straumsfirði og á Knarrarnesi á Mýrum, reyndist vera úr Ásu, en til bátsins sást síðast með vissu um sexleytið á laugardagskvöld og sigldi hann þá í norður út af Stafnesi. Á laugardagskvöld var suðlæg átt á þeim slóðum; 4—5 vindstig og ákaflega lifandi sjór. Bræðurnir Vilberg og Sigurþór voru báðir þrautvanir sjómenn og þaulkunnugir á Faxaflóaslóðum.  Sigurþór var 51 árs, kvæntur, en barnlaus. Vilberg var 47 ára. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn. Í gær var leit að bræðrunum og bátnum haldið áfram. Björgunarsveitir SVFÍ gengu fjörur á Mýrum og þyrla Iandhelgisgæzlunnar og Slysavarnafélagsins leitaði við beztu skilyrði strandlengjuna frá Borgarfirði norður fyrir Akra á Mýrum, svo og sker og úteyjar allar. Eins og áður hefur verið skýrt frá fannst brak, lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari, rekið á Knarrarnesi og 2 stíuborð til viðbótar og koddar í Straumsfirði.
Síðdegis í gær hafði rannsókn leitt í ljós, að brak þetta er úr Ásu RE 17. Ása RE 17 fór í róður frá Reykjavík fyrir hádegi á laugardag. Síðast sást til bátsins með vissu um klukkan 18 á laugardag frá hjálparskipinu Goðanum, sem þá var statt um 1,7 sjómílur út af Stafnesi. Ása var þá á norðurleið miklu nær landi. Slysavarnafélag Íslands hafði samband við um 30 báta, sem komu til hafnar í Keflavík, Sandgerði og sigldu fyrir Skaga á tímabilinu frá klukkan 18 til 21:30 á laugardagskvöld og kvaðst enginn hafa orðið bátsins var, utan hvað skipstjórinn á Jóni Bjarnasyni, sem kom inn til Sandgerðis klukkan 19:45, kvaðst hafa séð til ferða lítils báts mjög grunnt og nærri landi út af Hvalsnesi. Slysavarnafélag Íslands hefur beðið alla aðila að fylgjast vel með reka á fjörum; bæði frá Stafnesi í Garðskaga og á Mýrum. Einnig hafa sjómenn við Faxaflóa verið beðnir að svipazt um á ferðum sínum á og af fiskimiðum. Ása RE 17 var ellefu tonna þilfarsbátur, smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði í fyrra.

Morgunblaðið. 12 febrúar 1971.

Flettingar í dag: 2398
Gestir í dag: 270
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741050
Samtals gestir: 55860
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:09:16