19.11.2022 09:13

42. Eldey KE 37. TFAZ.

Vélskipið Eldey KE 37 var smíðað hjá Bolsönes Verft A.S. í Molde í Noregi árið 1960 fyrir samnefnt hlutafélag í Keflavík. 139 brl. 300 ha. Wichmann vél. 25,77 x 6,71 x 3,13 m. Skipið sökk um 70 sjómílur suðaustur af Dalatanga (Rauðatorginu) 23 október árið 1965. Voru skipverjar þá að háfa úr nótinni er hvika skellti því á hliðina með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 12 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað um borð í Brimi KE 104 frá Keflavík sem fór svo með þá inn til Neskaupstaðar.
 

Síldveiðiskipið Eldey KE 37.                               (C) Snorri Snorrason.

 

                                        Glæsilegasta skipið

Að morgni þess 8. desember s. l. kom til Keflavíkur nýr og glæsilegur stálbátur, 150 smálestir, með 300 hestafla Vichmann dieselvél. Ganghraði 10 mílur á klst. Báturinn heitir Eldey KE 37 og er smíðaður í Bolsones Verft í Molde í Noregi. Er hann allur hinn vandaðasti, hvar sem á er litið, tæki öll af nýjustu og beztu gerð, og allt fyrirkomulag innan borðs miðað við sem fullkomnasta nýtingu á rými skipsins og reynslu og hagsýni gætt í hvívetna, án þess þó að nokkuð það sé til sparað, sem til nauðsynja og öryggis má telja. Í skipinu er 48 mílna Decca ratsjá, japönsk ljósmiðunarstöð, sem er nýtt tæki og mjög fullkomið, sjálfleitandi Asdic síldarleitartæki, dýptarmælir með Asdic útfærslu af Simrad-gerð, sjálfvirkur stýrisútbúnaður í beinu sambandi við áttavitann og Simrad talstöð. Vistlegt eldhús er aftur í á skipinu,. Er það með nýtízkulegum og handhægum búnaði. Aftan við það, með „lúgu“ á milli, er rúmgóður borðsalur fyrir 12 menn, en til hliðar bakborðsmegin við eldhúsið er beitningaskýlið fyrir 6 menn, og er opanlegur gluggi á milli, þar sem hægt er að rétta kaffi inn til beitningamannanna og losa þá þannig við óþarfa snúning.
Eldhúsinu fylgir góður kæliklefi. Í skipinu eru tvær lestar, sú aftari er hin venjulega fiskilest og tekur hún um 100 tonn. Fremri lestin er frystilest, sem rúmar um 20 tonn af freðfiski. Kælivél skipsins, sem er mjög vönduð, frystir allt upp í 25 gráðu frost. Tvöfalt rafkerfi er í skipinu, 24 volta spenna, sem gefur straum á flest tæki í bátnum og ljós um hann allan. Er hentugt að skipta yfir á þetta kerfi, þegar legið er í höfn, einnig þegar skipið er á siglingu, og svo er það einnig til hins mesta öryggis. Undir stjórnpalli er vistlegt og rúmgott herbergi skipstjóra, en kortaklefi aftur af stýrishúsinu. Aftur í, undir þiljum, eru tvö rúmgóð tveggja manna herbergi, annað fyrir stýrimann og matsvein, en hitt fyrir vélstjórana. Frammi í, undir hvalbak skipsins, eru tveir þriggja manna klefar og einn tveggja manna. Fylgja öllum þessum íbúðarherbergjum hverskonar þægindi, og geta má þess ennfremur, að í skipinu er þægilegt bað. Eldey er útbúin með kraftblökk fyrir hringnót og allt sem henni tilheyrir. Er í ráði, að báturinn stundi útilegu með línu framan af vertíð, en fari síðan á net. Eigandi skipsins er hlutafélagið Eldey, Keflavík.

Faxi. 1 janúar 1961.
 

Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.         
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.             Byggðasafn Reykjanesbæjar.

 

                      Síldarskipið Eldey sökk í fyrrinótt

Síldarskipið Eldey KE 37 sökk í fyrrinótt á síldarmiðunum um 60 mílur suðaustur af Dalatanga og bjargaðist skipshöfnin um borð í síldarskipið Brimi KE 104, það hét áður Hólmanes frá Eskifirði. Mörg síldarskip voru á þessum slóðum í fyrrakvöld og var þar leiðindaveður. Um klukkan 21 fékk Eldey á sig kviku og lagðist þá skipið á hliðina, var þá langt komið að háfa síld í lestar skipsins. Skipshöfnin brá þegar við og fór í gúmbjörgunarbáta og var bjargað um borð í Brimi. Þrír skipverjar fóru aftur um borð í Eldey og dvöldu þar á þriðju klukkustund til þess að freista þess að rétta skipið aftur á kjöl og tókst það ekki og urðu þeir að hverfa frá borði rétt áður en skipið sökk. Skipið sökk um kl. 2.20 um nóttina. Skipstjóri á Eldey heitir Pétur Sæmundsson og var þetta eitt af aflahæstu síldveiðiskipum flotans. Eldey var 5 ára gamalt stálskip, byggt í Molde í Noregi 1960, og var 139 lestir að stærð. Eigandi þess var Eldey h.f. í Keflavík. Brimir fór með skipbrotsmennina til Neskaupstaðar og þar stigu þeir beint upp í flugvél Flugsýn og flugu til Reykjavíkur. Komu þeir þangað síðdegis í gær. Þá lagðist annað síldveiðiskip á hliðina um líkt leyti á sömu slóðum. Það heitir Pétur Sigurðsson og er af líkri stærð og Eldey, einnig aflasælt skip og tókst skipverjum að rétta skipið aftur og kom það heilu og höldnu til Seyðisfjarðar í gærmorgun.

Þjóðviljinn 24 október 1965.

Flettingar í dag: 2379
Gestir í dag: 138
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744138
Samtals gestir: 56044
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 19:53:20