20.01.2019 09:46

M. b. Von NK 58.

Mótorbáturinn Von NK 58 var smíðaður í Romsdal í Noregi árið 1917. Fura, trénegldur. 24 brl. vélartegund og stærð óþekkt. Þessi bátur kom hingað til lands með Norðmönnum sem stunduðu á honum fiskveiðar og flutninga fyrir Norður og Austurlandi. Guðmundur Gíslason útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði keypti bátinn 26 janúar árið 1930, hét þá Von SF 49. Báturinn var seldur sama ár eða árið eftir (1931), Ólafi H Sveinssyni á Eskifirði (ættaður úr Firði í Mjóafirði), hét Von SU ?. Báturinn var seldur í desember 1931, Guðjóni Símonarsyni útgerðarmanni og fl. í Neskaupstað, hét þá Von NK 58. Ný vél (1932) 80 ha. June Munktell vél. Báturinn slitnaði úr bóli sínu á Norðfirði 25 október árið 1936 í norðvestan roki og rak upp í fjöru og liðaðist þar í sundur og eyðilagðist.


Mótorbáturinn Von NK 58 við bryggju sennilega á Norðfirði.                    (C) Ölver Guðmundsson.

19.01.2019 18:52

743. Sigurður AK 107. TFEY.

Vélskipið Sigurður AK 107 var smíðaður hjá Frederikssund Skibs Værft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1960 fyrir Ólaf Sigurðsson útgerðarmann og fl. á Akranesi. Eik. 87 brl. 350 ha. Alpha vél. Árið 1961 var Sigurður hf á Akranesi skráður eigandi bátsins. Seldur 22 maí 1965, Erlingi hf í Vestmannaeyjum, hét Sigurður VE 35. Seldur 13 júní 1969, Þórarni Þórarinssyni í Hafnarfirði, Jónasi Þórarinssyni í Sandgerði og Magnúsi Þórarinssyni í Keflavík, hét þá Bergþór GK 25. Frá 19 maí 1972 hét báturinn Valþór GK 25, sömu eigendur en báturinn skráður í Garði. Valþór rak upp í stórgrýtta fjöru við Stekkjarhamar í Keflavík eftir að hafa fengið netadruslur í skrúfuna. Áhöfnin, 8 menn, komust hjálparlaust í land en báturinn eyðilagðist á strandstað.


743. Sigurður AK 107 á Siglufirði.                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Akraness

Akranesi, 22. Janúar. Hér höfðu safnazt saman 50-60 manns við höfnina um kl. 1 sl. nótt. Nýi báturinn, Sigurður A.K. 107, var að kom frá Danmörku. Hann er smíðaður hjá Frederiksund Skibs værft, sem Eggert Kristjánsson stórkaupmaður er umboðsmaður fyrir hér á landi. Sigurður vaggaði sér hægt og rólega í 1 1/2 klst. úti fyrir hafnargarðinum, með íslenzka fánann við hún á aftursiglu og nafnveifu bátsins á þeirri fremri. Tollfulltrúinn var um borð að afgreiða skipið. Að því búnu lagðist þetta glæsta skip að hafnargarðinum og fögnuðu menn því af alhug. Útgerðarmaður bátsins er Ólafur Sigurðsson og er nafn skipsins eftir föður hans.
Báturinn er 90 lestir, smíðaður úr eik. Aflvél er 385 ha. Alfa Diesel. Hjálparvél er 30 ha. Í skipinu er Decca-radar 48 mílur, og dýptarmælir og síldarleitartæki frá Simrad. Þá eru í skipinu sjálfvirk stýristæki. 75 w Petersen talstöð og miðunarstöð er í skipinu ásamt síma. Skipið er hitað upp með rafmagni og rafmagnseldunartæki eru um borð.
Einar Guðmundsson skipstjóri sigldi skipinu heim, en skipstjóri verður Einar Árnason, er áður var með vélskipið Sigrúnu.

Morgunblaðið. 2 febrúar 1960. 


Vélskipið Valþór GK 25 á strandstað við Keflavík.                                      Ljósmyndari óþekktur.

         Tvö bátsströnd á sama tíma
         Færeyskt skip náðist óskemmt á flot                                          við Álftanes
      Suðurnesjabátur að brotna í stórgrýttri                                  fjöru við Keflavík

Tveir bátar strönduðu um sama leytið í fyrrinótt. Suðurnesjabátur við Keflavík og færeyskur út af Álftanesi. Hinun síðarnefnda tókst fljótlega að ná á flot aftur, en Suðurnesjabáturinn velkist nú um í stórgrýttri fjöru við Stekkjarhamar og allar aðstæður til björgunar hinar erfiðustu. Engin slys urðu á mönnum í hvorugu strandinu. Það var milli kl. 12-01 í fyrrinótt að vb. Valþór GK 25 var á leið út úr Keflavík, að hann mun hafa fengið netatrossur í skrúfuna með þeirn afleiðingum, að báturinn rak stjórnlaust upp í fjöru við Stekkjarhamar, sem er litlu innan við fiskimjölsverksmiðjuna. Björgunarsveitin Stakkur í Keflavík var kölluð út og kom fljótlega á staðinn, en ekki kom þó til hennar kasta, því að átta manna áhöfn bátsins komst í land af sjálfsdáðum. Að sögn fréttaritara Mbl. í Keflavík liggur báturinm strandaður í stórgrýttri fjöru, og er útlitið ekki gott með björgun. Þarna var í gær talsverður norðaustan strekkingur og báturinn var á talsverðri hreyfingu i fjörunni, þannig að telja má líklegt að hann sé þegar mikið brotinn.
Valþór GK var 87 lesta eikarbátur, smíðaður í Danmörku 1960 og eru eigendur hans Magnús Þórarinsson og fleiri í Garði. Báturinn var á netaveiðum. Um sama leyti og Slysavarnarfélaginu barst tilkynning um strand Valþórs við Stekkjarhamar, barst tilkynning um að færeyska skipið Pétur í Görðunum væri strandað við Álftanes. Björgunarsveitin Fiskaklettur í Hafnarfirði var send á vettvang, hluti út á Álftanesið og annar hópur með hafnarbát Hafnarfjarðarhafnar vegna þess að fyrstu upplýsingar sögðu að hanm væri strandaður utarlega á Álftanesi. Síðar kom í ljós, að báturinn hafði strandað yzt á Lönguskerjum í Skerjafirði. Var björgunarskipið Goðinn fenginn til að fara á vettvang. Björgunarskipið kom á staðinn um 3 leytið í fyrrinótt og rúmum þremur tímum síðar losnaði færeyska skipið af strandstað eftir að Goðinn hafði togað í það. Í gæmorgum var búið að kafa undir skipið og kanna skemmdir, en þær reyndust engar vera. Pétur á Görðunum er stálskip og var nýkomið frá Færeyjum til að fara á veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 25 mars 1973.


16.01.2019 18:06

240. Gjafar VE 300. TFNI.

Vélskipið Gjafar VE 300 var smíðaður í Zaandam í Hollandi árið 1964 fyrir Rafn Kristjánsson skipstjóra, Sveinbjörn Guðmundsson og Sigurð Kristjánsson í Vestmannaeyjum. 249 brl. 625 ha. Kromhout vél. Skipið var endurmælt í september árið 1972 og mældist þá 199 brl. Skipið var selt 1972, Hilmari Rósmundssyni og Theódór Ólafssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Skipið strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur 22 febrúar árið 1973. Áhöfninni, 12 mönnum, var bjargað á land af Björgunarsveit SVFÍ í Grindavík við erfiðar aðstæður. Gjafar eyðilagðist á strandstað.


240. Gjafar VE 300 á leið inn til Vestmannaeyja.                    Ljósmyndari: Óskar. Mynd úr safni mínu.

     Tvö ný skip til Vestmannaeyja

Fyrir skömmu bættust tvö glæsileg fiskiskip í flota Vestmannaeyinga. Þau eru: ísleifur IV. VE 463 og Gjafar VE 300. Ísleifur IV er byggður í Örens Værsted í Noregi og er systurskip Bergs og Hugins II. Eigandi er Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður. Skipstjóri verður Guðmar Tómasson.
Gjafar var byggður í Sandam í Hollandi. Hann er 248 tonn og hefur 595 hestafla Kromhaut aðalvél. Vistarverur eru sérstaklega góðar, allt tveggja manna klefar. Skipstjóri á Gjafari er hinn kunni aflamaður Rafn Kristjánsson. Báturinn fer á síldveiðar um næstu helgi. Framsóknarblaðið óskar eigendum hinna nýju báta til hamingju og skipverjum góðs gengis á komandi vertíð.

Framsóknarblaðið. 10 júní 1964.


Gjafar VE 300 á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur.        (C) Morgunblaðið. / H. Stígsson.

                  Tólf manns bjargað
       Miklar skemmdir á kili Gjafars VE 300,
 þar sem hann liggur á strandstað í Grindavík

Vélskipið Gjafar VE 300 strandaði við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn í fyrrinótt rétt fyrir klukkan 3. Fór skipið á sker í Hópsnesi, er það var á leið út úr höfninni, en nesið er austanvert í Járngerðarstaðasundi. Tólf manna áhöfn var á skipinu og var henni bjargað í land í björgunarstól af björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns í Grindavík. Allir mennirnir urðu mjög sjóblautir er þeim var bjargað, en þeir jöfnuðu sig fljótt, er í land kom og varð engum meint af volkinu. Áhöfnin var skipuð Vestmannaeyingum, og misstu þeir nú atvinnutæki sitt aðeins mánuði eftir að þeir urðu að flýja heimabyggðina. Skipið er álitið mjög mikið skemmt á kili og hefur Björgun h.f. tekið að sér að ná skipinu á flot.
Formanni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, Tómasi Þorvaldssyni, var tilkynnt um strandið rétt um klukkan 3 og kallaði hann sveitina strax út, þar sem skipstjóri Gjafars óskaði eftir að áhöfninni yrði bjargað í land. Hélt sveitin þegar á strandstað og var hún komin þangað um 3.30. Erfitt var að komast út fjöruna og bera tækin á strandstaðinn, þar sem á gekk með útsynningshryðjum. Gekk sjór yfir björgunarmennina á leið þeirra, en skipið hafði strandað á fjöru, en tekið var að falla að. Á meðan á björgunarstarfinu stóð, gekk sjór yfir mennina i fjörunni og töluvert brimsog var. Sjór gekk stöðugt yfir skipið, en það lá alltaf upp í brimið og hefur því að líkindum lent á skernibbu. Lega skipsins og hallinn frá landi gerði starfið mun erfiðara. Í öðru skoti hittu björgunarmenn skipið, en línan kom þá á skipið þar sem áhöfnin treysti sér ekki að ná í hana vegna brimsins. Í þriðja skoti fór línan þannig að skipverjar gátu náð henni og eftir að samband var komið milli lands og skips, gekk greiðlega að koma tækjunum upp, en erfitt var þó að halda línunum uppi, svo að þær færu ekki í botn, en þarna er misdýpi og skerjótt mjög. Urðu björgunarmenn að svamla í sjó töluvert út til að losa línuna úr botninum. Því fylgdi nokkur áhætta, en allt tókst samt giftusamlega. Þegar búið var að koma björgunartækjunum fyrir voru skipverjar dregnir einn af öðrum í land. Að meira eða minna leyti drógust þeir nær alla leiðina í sjó. Voru menn að vonum kaldir og blautir er í land kom, en þegar skipbrotsmenn fengu hlý föt og komust í hús, hresstust þeir fljótt og urðu brátt sprækir. Voru þeir allir fluttir í verbúðir, en margir eru þessir menn heimilislausir og eru fjölskyldur þeirra á tvist og bast. Tveir áttu fjölskyldur í Grindavík, tveir vissu ekki hvar fjölskyldur þeirra voru staddar, en aðrir höfðu ekki símanúmer á verustað fjölskyldna sinna.
Gjafar hafði komið inn til Grindavíkur til þess að landa loðnu og hafði skipið gert það og var á leið út til veiða á ný, þegar það strandaði. Strandstaðurinn er svo til sá hinn sami og Arnfirðingur strandaði á fyrir nokkrum misserum, en honum tókst að bjarga. Að því stóð Bjöngun h.f., sem flutti bátinn upp á fjörukambinn, bjó síðan til rennu og hleypti honum á flot eftir henni um leið og skipið hafði verið þétt. Augsýnilega er Gjafar mjög mikið skemmdur á kili, því að á flóðinu flaut skipið ekki upp í gær, heldur lá alveg kyrrt. Töluverð olía rann úr skipinu í gær um gat á skrokki þess. Björgun h.f., sem þegar í gær hafði hafið undirbúming björgunar Gjafars ætlaði að fara eins að með hann og farið var með Arnfirðing, þegar honum var bjargað, flytja skipið fyrst upp á fjörukambinn, þétta það þar og hleypa síðan niður sömu rennuna og Arnfirðingi. Um borð í Gjafar var í fyrradag sett ný loðnunót í Grindavík. Nótin var hálf komin úr bátnum í gær og slettist til í brimrótinu. Skipverjar Gjafars sögðu eftir björgunina í gær að sögn Guðfinns Bergssonar, fréttaritara Mbl. í Grindavík, að skipið hefðd tekið niður í rennunni rétt áður en það strandaði. Engin vissa er enn fengin fyrir því, hvað olli strandinu, em líklegt er að beygt hafi verið of snemma á bakborða og áður en komið er að miðmerkinu á innsiglingunni. Þess má geta að þau tæplega 25 ár, sem Tómas Þorvaldsson hefur verið formaður björgunarsveitarinnar í Grindavík, hefur sveitin bjargað 191 mannslífi.

Morgunblaðið. 23 febrúar 1973..


13.01.2019 09:39

Arnfirðingur RE 212. LBTN / TFDH.

Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 var smíðaður í Ramsdal í Noregi árið 1917. Fura. 34 brl. 44 ha. Avance vél. Hét fyrst Grettir SI 53 hér á landi og var í eigu Ole Tynes útgerðarmanns og síldarsaltanda á Siglufirði frá árinu 1924. Hét áður Havbryn. Seldur 24 nóvember 1930, Jóni E Sigurðssyni á Akureyri, hét Grettir EA 433. Ný vél (1931) 70 ha. Hera vél. Seldur 10 janúar 1933, Jóhannesi Jónssyni í Reykjavík og Guðmundi Sigurðssyni í Grundarfirði, hét þá Höfrungur RE 53. Ný vél (1933) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 26 apríl 1940, Óskari Halldórssyni hf í Vestmannaeyjum, hét Ari RE 53. 6 júní 1941 er báturinn skráður í Kothúsum í Garði, sami eigandi, hét þá Ari GK 371. Seldur 12 maí 1943, Tryggva Ófeigssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Gestur RE 3. Seldur 16 desember 1944, Friðrik Guðjónssyni á Siglufirði, hét Gestur SI 54. Seldur 27 júní 1949, Magnúsi Guðbjartssyni og Þorsteini Löve í Reykjavík hét Gestur RE 212. Árið 1951 er Daníel Þorsteinsson & Co hf í Reykjavík eigandi bátsins. Seldur 8 júní 1951, Hermanni Kristjánssyni í Reykjavík, hét þá Arnfirðingur RE 212. Ný vél (1954) 150 ha. General Mótors vél. Seldur 12 maí 1955, Gunnari Gíslasyni og Þorláki Arnórssyni í Reykjavík, hét Ísfirðingur RE 319. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 janúar árið 1956. Var hann þá á leið til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum og var kominn vestur fyrir Þorlákshöfn er eldsins varð vart. Áhöfnin, 3 menn, hleyptu bátnum á land og gátu síðan bjargað sér á fleka upp í fjöru heilum á húfi. Ísfirðingur brann og eyðilagðist á strandstað.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 liggur utan á togaranum Úranusi RE 343 í Reykjavíkurhöfn. Togarinn Karlsefni RE 24 liggur aftan við Úranus.    Ljósmyndari óþekktur.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 á siglingu.                                      Ljósmyndari óþekktur.

    Bátur brann undan óbyggðri strönd                    vestur af Þorlákshöfn
    en þriggja manna áhöfn Ísfirðings komst í                      land á fleka móti storminum

Þriggja manna áhöfn af bátnum Ísfirðingi var í háska stödd við óbyggða strönd Reykjanesskagans í gær þegar eldur kom upp í bátnum. Norðanstormur var á og ef skipsmenn hefðu ekki viðhaft allar öryggisráðstafanir, er hætt við að þá hefði getað borið með fleka frá landi undan norðanáttinni. En þeir komust allir í land og síðan fótgangandi til Þorlákshafnar.
Vélbáturinn Ísfirðingur frá Reykjavík, 33 smálestir, var í gærdag á siglingu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Á honum voru þrír menn, Gunnar Gíslason úr Reykjavík, formaður, Þorlákur Arnórsson, vélstjóri úr Vestmannaeyjum og Þórhallur Þorsteinsson frá Akureyri. Gunnar Gíslason skýrði fréttaritara Mbl. frá því, að er þeir voru á siglingu vestur með ströndinni um 300 metra undan landi um kl. 3, hafi hann staðið í stýrishúsinu og hafi sér virzt sem hann fyndi reykjarlykt. Fóru þeir að athuga það, opnuðu dyrnar að káetunni og stóð þá út úr dyrunum logi og reykur. Þegar þetta gerðist voru þeir skammt frá svolítilli vík í ströndina, er nefnist Keflavík, um 4 km vestur af Þorlákshöfn. Fyrst gerðu þeir tilraunir til að slökkva eldinn, en sáu fljótt, að það yrði þýðingarlaust, því að svo magnaður var hann. Stefndu þeir þá skipinu upp að landi, þar til það kenndi grunns um 50 metra frá fjöruborði. Lending þarna er afleit, fjaran stórgrýtt, en nokkuð hlé var þar, því að stormur var að norðan. Þó var súgur.
Við sáum, að ekki varð neitt við eldinn ráðið, hélt Gunnar áfram frásögn sinni. Brösuðum við nú við að ná út flekanum, sem var tréfleki með grind. Var hann bundinn og allþungur, svo að við áttum í erfiðleikum með hann, en komum honum þó loks út. Í fyrstu höfðum við í huga, að fara allir út á flekann, en það varð okkur til happs, að við gerðum það ekki, því að hætt er við. að okkur hefði þá getað borið undan storminum og á haf út Þess í stað höfðum við meiri varúðarráðstafanir. Fór Þorlákur einn út á flekann og hafði haka, sem hann ýtti sér með að landi. Fest var færalína í flekann og sáum við að það var vissulega öruggara, því að straumur var þarna mikill og rak flekann vestur með ströndinn. Munaði oft litlu að stormurinn þrifi hann og bæri út á sjó.
En Þorlákur komst í land, drógum við flekann aftur út að bátnum, en hann hafði þó enda hjá sér í landi og dró okkur upp á þurrt. Þannig tókst þessi björgun giftusamlega, að frásögn formannsins, Gunnars Gíslasonar. Strax og þeir höfðu bjargazt í land ákváðu þeir að yfirgefa hið brennandi flak og ganga til Þorlákshafnar. Gunnar hafði vöknað upp í mitti og varð honum mjög kalt, enda var grimmdarfrost á. En svo vel vildi til, að Þorlákur var í tvennum sokkum þurrum. Fór hann úr öðrum sokkunum og léði Gunnari og gekk ferðin þá betur. Komu þeir til Þorlákshafnar eftir 1 klst. og 20 mínútur. Fengu þeir góðar móttökur hjá forstöðumönnum Meitils hf, þeim Benedikt og Þórarni og voru þar í nótt. Þeir töldu ekki Ijóst, hvort eldurinn hefði komið upp í vélarúmi eða káetu, en þunnt skilrúm er þar á milli. Hugsanlegt er, að eldurinn hafi komið upp í olíukyndingu. Þeir telja að báturinn sé gereyðilagður Þegar þeir skildu við hann logaði út um alla glugga á stjórnklefanum og nokkru síðar heyrðu þeir að sprenging varð í honum, sem þeir teija að hafi verið olíugeymir. Skipbrotsmennirnir kváðust mundu koma til Reykjavíkur í dag.

Morgunblaðið. 13 janúar 1956.


12.01.2019 08:09

211. Sæúlfur BA 75. TFEQ.

Vélskipið Sæúlfur BA 75 var smíðaður í Brandenburg í Austur Þýskalandi árið 1962 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf á Tálknafirði. 155 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Skipið var lengt hjá Bolsönes Verft í Molde í Noregi í desember 1965, mældist þá 179 brl. Skipið sökk um 23 sjómílur SA af Dalatanga 25 nóvember árið 1966. Áhöfnin, 11 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipverjum var svo bjargað um borð í Vonina KE 2 frá Keflavík sem fór svo með þá til Seyðisfjarðar.

ATH: Það er einhver bilun í gangi hér á 123.is sem lýsir sér í því að myndir detta út af síðunni minni. Það eru óþægindi sem fylgja þessu. Ekkert sem ég get gert til að laga þetta. Vefstjóri 123.is veit af þessu og ekkert annað að gera en bíða eftir því að síðan verði lagfærð. Bestu kveðjur.


Vélskipið Sæúlfur BA 75 á siglingu á sundunum við Reykjavík.                (C) Snorri Snorrason.

     Nýr stálbátur til Tálknafjarðar                   frá Austur-Þýskalandi

Nýr stálbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi, kom til heimahafnar, Sveinseyrar við Tálknafjörð, s.l. mánudag. Báturinn heitir Sæúlfur, BA 75, eign Hraðfrystihúss Tálknafjarðar, en framkvæmdastjóri þess er Albert Guðmundsson kaupfélagsstjóri. Sæúlfur er 155 brúttólestir að stærð, smíðaður úr stáli í skipasmíðastöð í Strælu (Stralsund) í Þýzka alþýðulýðveldinu. Aðalvél bátsins er af gerðinni Lister en um borð eru aðsjálfsögðu öll nýjustu siglinga og fiskileitartæki. Benedikt A. Guðbjartsson skipstjóri sigldi bátnum heim frá Þýzkalandi.
Skipstjóri á vb. Sæúlfi verður Ársæll Egilsson í Tunguþorpi.

Þjóðviljinn. 23 ágúst 1962.


211. Sæúlfur BA 75 á síldveiðum.                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.

     Sæúlfur sekkur á síldarmiðunum                                 fyrir austan

Vélskipið Sæúlfur frá Tálknafirði, sökk í gær 23 sjómílur austur af Dalatanga. Skipið var þá á leið til lands með síldarfarm. Skipið sendi út neyðarkall og skömmu síðar voru mörg síldveiðiskip komin þar á vettvang og svo fór að vélskipið Vonin bjargaði áhöfn Sæúlfs og flutti hana til Seyðisfjarðar. Blaðið hafði samiband við síldarradíóið á Dalatanga laust eftir klukkan 9 í gærkvöldi, og sagði það þá 7 vindstig og ekkert veiðiveður. Veiðisvæðið var og hafði verið um 60 mílur úti í hafi austur af suðri og ASA frá Dalatanga og þar hafði Sæúlfur verið að veiðum.
Skipstjóri á Sæúlfi var Ársæll Egilsson frá Bíldudal. Skip hans var upphaflega 155 lestir að stærð, en hafði verið stækkað í Noregi í desember 1965, upp í 179 brl að stærð. Blaðið náði í gær í Ársæl skipstjóra og sagði hann að á leiðinni til lands hefði skipið farið á hliðina á siglingunni, en þá var 6 vindstiga stormur af SSV. Ársæll sagði að hann hefði ekki vitað betur en að lestin hefði verið full svo sem sjá mátti eftir að búið var að háfa. Hann taldi að þeir hefðu verið með um 170-180 tonn síldar og allt í lestum, en ekkert á dekki. Er skipið kastaðist á hliðina hjá okkur sendum við út neyðarkall og var þá Vonin rétt hjá okkur, einnig mörg önnur skip skammt undan. Fórum við skipsmenn í gúmmbátana og komumst fljótt um borð í Vonina. Ársæll skipstjóri biður um sérstakt þakklæti fyrir góðar móttökur þar um borð. Við nánari eftirgrennslan um slysið sagði Ársæll að skipið hefði kastast í stjór. Enginn um um borð hefði náð neinu markverðu af eignum sínum og sumir yfirgefið skipið á sokkaleistunum einum. Þá gat Ársæll skipstjóri þess, að afli sá, er skipið var með hefði fengizt í 4 köstum og hefðu þau verið tekin frá því kl. 8 í fyrrakvöld og þar til kl. 8 í gærmorgun. Loks gat hann þess að skipsmenn hefðu misst fyrsta björgunarbátinn, og hefði línan slitnað, en þeir farið í næstu tvo báta. Við náðum í gær í skipstjórann á Voninni, Gunnlaug Karlsson úr Keflavík. Hann sagði að þeir hefðu verið á landleið með síld, 120 tonn og hefðu þeir ætlað til Fáskrúðsfjarðar, sem væri hálfgerð heimahöfn þeirra fyrir austan. Sigldu þeir fyrst upp undir land og ætluðu síðan suður með. Voru þeir því rétt hjá Sæúlfi er slysið bar að. Gunnlaugur sagði: Það er mikil ánægja að fá að bjarga félögum sínum svona. Það er oft að skaparinn gefur okkur góðan afla, en aldrei hef ég lent í því að fá tvo fulla skipsbáta af góðum félögum! Við spurðum Gunnlaug hvernig það hefði verið hjá honum að sjá er Sæúlfur sökk. "Við sáum hann síga niður að aftan og hverfa í ölduna, hallandi á stjórnborða".

Morgunblaðið. 26 nóvember 1966.06.01.2019 17:26

B. v. Búðanes SH 1. LBMG / TFYC.

Botnvörpungurinn Búðanes SH 1 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir A/S. Det Norske Damptrawlselskab í Álasundi í Noregi, hét fyrst Aalesund. 374 brl. 578 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 49. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í Reykjavík í ágúst 1924, hét Snorri goði RE 141. Ný vél (1930) 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Granton í Skotlandi og rifinn þar í maí árið 1952.
Snorri goði var upphaflega smíðaður sem selveiðiskip en ekki klárað. Kveldúlfur keypti togarann á nauðungaruppboði í Noregi.
Snorri var ekki gott togskip. Hann var með hraðgenga vél með lítill skrúfu. Til að reyna að bæta úr því var ný gufuvél sett í hann 1930. Eftir að þeir eignuðust systurskipið Gulltopp RE 247 hafi staðið til að skipta um vél í honum en aldrei orðið úr því.


B.v. Búðanes SH 1 á leið í slipp í Reykjavík.                                                Ljósmyndari óþekktur.


Trollið tekið á Viðey RE 13.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Snorri goði RE 141.                                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Togarafélag stofnað í Stykkishólmi

Togarafélág var stofnað í Stykkishólmi síðastliðinn miðvikudag. Á stofnfundinum var kosin bráðabirgðastjórn, samþykkt lög fyrir félagið og því valið nafnið Búðanes h.f. Í bráðabirgðastjórn félagsins voru kosnir þessir menn: Sigurður Ágústsson, Kristján Bjartmars, Sigurður Steinþórsson, Jóhann Rafnsson og Haraldur Ágústsson. Í varastjórn voru kosnir Kristmann Jóhannsson og Ólafur  Einarsson. Félaginu hefir verið boðinn togarinn Viðey til kaups og hefir stjórn þess verið falið að ganga frá kaupunum.

Vísir. 9 apríl 1947.03.01.2019 20:42

975. Bjartur NK 121 með fullfermi til Neskaupstaðar.

Tog og síldveiðiskipið Bjartur NK 121 er hér að koma til löndunar í Neskaupstað með fullfermi af síld, sennilega á árunum 1968-69. Þau voru falleg þessi skip sem smíðuð voru í Boizenburg í A-Þýskalandi á árunum 1964-67 fyrir íslendinga, smíðuð eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipatæknifræðings. Bjartur NK 121 kom nýr til Neskaupstaðar 14 maí árið 1965 og var í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað. Hann var einn af 18 skipum sem smíðuð voru þar og flest þeirra reyndust mjög vel. Filip Þór Höskuldsson var skipstjóri á Bjarti frá upphafi til ársins 1967, að Ísak Valdimarsson tók við skipstjórn uns skipið var selt til Grindavíkur 29 janúar árið 1972. Það var á síðastliðnu haust að skipið var selt í brotajárn, hét þá Sighvatur GK 57.


975. Bjartur NK 121 með fullfermi af síld við bryggju SVN í Neskaupstað.   (C) Guðmundur Sveinsson.


975. Bjartur NK 121 með fullfremi af síld á Norðfirði.                                 (C) Guðmundur Sveinsson.

       20 síldarskip komin á miðin
          Góðar veiðihorfur í nótt 

Neskaupstað í gærkvöld. Tuttugu síldarbátar eru nú komnir á miðin hér fyrir austan og halda sig aðallega á nýju veiðisvæði, sem Ægir fann í gærkvöld um 55 mílur austur af Dalatanga. Þarna hafa nokkur skip þegar fengið afla eins og Reykjaborgin 1100 mál, Þorsteinn 1600 mál, Bjartur 1500 mál, Jón Kjartansson 1200 mál og Sæfari 600 mál. Skínandi gott veiðiveður er á miðunum og eru veiðihorf- ur góðar í nótt.
Nýja síldarskipið okkar, Bjartur, er væntanlegt hingað í fyrramálið með 1500 mál og fer sú síld í bræðslu og frystingu. Þá komu til Eskifjarðar í dag Þorsteinn með 1600 mál og Jón Kjartansson með 2200 mál og Krossanesið kom með 1800 mál til Fáskrúðsfjarðar klukkan 5 í dag og hefur verksmiðjan þar bræðslu annað kvöld. Alltaf eru að berast fréttir af síldarskipum, sem þyrpast á miðin hvaðanæva að af landinu. Þannig eru á leiðinni að norðan síldarskip eins og Súlan, Ólafur Magnússon og Sigurður Bjarnason frá Akureyri, Siglfirðingur frá Siglufirði og Helgi Flóventsson frá Húsavík. Móttaka á síld er víðast í lamasessi hér á Austfjörðum og spyrja menn nú af kurteisi, hvar þetta margrómaða flutningakerfi sé þessa stundina og er enginn vafi á því, að allar þær bollaleggingar hafa gert menn óviðbúnari hér fyrir austan til móttöku á síld.

Þjóðviljinn. 27 maí 1965.


01.01.2019 14:00

Seglskipið Henning EA 5.

Hákarlaskipið Henning EA 5 var smíðað í Noregi árið 1884. Fura. 21,88 brl. Hét áður Jörundur og var í eigu Jörundar Jónssonar (Hákarla-Jörundar) í Syðstabæ í Hrísey. Skipið var gert út á hákarlaveiðar að mestu. Síðar áttu Jörund saman, Jóhannes Davíðsson bóndi í Hrísey og Jakob Valdemar Havsteen kaupmaður og konsúll á Akureyri. Um aldamótin eignaðist Jakob skipið einn og fékk það þá nafnið Henning. 29 ha. Tuxham vél var sett í skipið árið 1915. Var þá gert út á síld og þorskveiðar. Skipið var selt 1920-21, Anton Jónssyni kaupmanni á Akureyri. Í janúar 1932 er Henning kominn í eigu Landsbankans á Akureyri. Selt 13 júní 1932, Sigtryggi Benediktssyni á Akureyri. Talið ónýtt og tekið af skrá árið 1944.

Af Henning er það að segja, að þegar dagar hákarlaveiðanna voru með öllu liðnir, mátti hann enn teljast dágott skip og vel sjófær. Var hann þá gerður að vélskipi og látinn stunda síldveiðar á sumrum. Eru fá ár síðan hann var lagður til hinstu hvíldar. Nú liggur flak hans á Akureyri og eru það hinar einu sýnilegu menjar hákarlaskipa um þær slóðir. Flakið er mjög rytjulegt orðið.

Skútuöldin.
Gils Guðmundsson 1945.


Hákarlaskipið Henning EA 5.                                                               Ljósmyndari óþekktur.

31.12.2018 11:26

Togarar við bryggju í Örfirisey.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2019 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.Kærar kveðjur til ykkar allra.

Togarar H.B.Granda hf við bryggju í Örfirisey.
(C) Þórhallur S Gjöveraa. 23 desember 2018.

31.12.2018 08:28

Landhelgisbrjótur færður til hafnar í Neskaupstað.

Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var tekinn að meintum ólöglegum veiðum, 1,6 sjómílu innan fiskveiðilögsögunnar út af Digranesi á Bakkaflóa 12 maí árið 1965. Var togarinn færður til hafnar í Neskaupstað eftir mikinn eltingarleik, en togarinn stefndi til hafs á fullri ferð með nokkra varðskipsmenn af Þór um borð. Guðmundur Kjærnested skipherra á varðskipinu Þór elti togarann hálfa leiðina til Færeyja uns Guðmundi og útgerðarmönnum Aldershot tókst að koma vitinu fyrir skipstjórann, Leslie Alfred Cumby og stöðva skipið. Cumby skipstjóri var frægur landhelgisbrjótur hér við land, var nokkrum mánuðum áður tekinn að ólöglegum veiðum fyrir vestan land og dæmdur fyrir brot sitt. Mikil réttarhöld voru haldin yfir Cumby skipstjóra hjá Bæjarfógetanum í Neskaupstað sem stóðu yfir í 2 daga sem enduðu með því að Cumby skipstjóri var sýknaður af ákæru um landhelgisbrot en dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Á þessum tíma og svo síðar í þorskastríðunum 1973-76, var oft grunnt á því góða í samskiptum þjóðanna. Þegar hætta steðjaði að eða menn voru í sjávarháska, stóðu menn saman sem einn og gerðu það sem hægt var til að bjarga mannslífum. Það var einmitt það sem gerðist daginn sem Aldershot kom til Neskaupstaðar, að 8 ára stúlka, Jóna Rebekka Högnadóttir féll fram af bryggjunni rétt hjá þar sem togarinn lá. Með snarræði eins skipverja á Aldershot, R. Perrin að nafni, tókst honum að ná Jónu úr sjónum ásamt 2 skipsfélögum sínum. Var hún búin að sökkva tvívegis og mátti því ekki tæpara standa með björgun hennar. Jóna Rebekka var fljót að jafna sig eftir þetta.


Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1959. 427 brl. 1.100 ha. Mirrlees díesel vél. Togarinn var þá í eigu útgerðarfélagsins Consolidated Fisheries Ltd í Grimsby.   Mynd úr safni mínu.


Aldershot GY 612 í höfn í Grimsby.

       Brezkur togari tekinn í landhelgi
       
            Réttarhöld standa yfir í Neskaupstað  
                Skipstjóri neitar öllum ákærum

Varðskipið Þór kom að brezkum togara, Aldershot GY 612 1.6 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna út af Digranesi um kl. 8 s.l. þriðjudagsmorgun. Eftir u.þ. b. sólarhrings eltingarleik við togarann var hann tekinn að meintum ólöglegum veiðum og færður til hafnar. Komu skipin til Neskaupstaðar um. kl. 16 á miðvikudag. Réttarhöld í máli skipstjórans á Aldershot, Leslei Alfred Cumby, hófust hjá bæjarfógetanum í Neskaupstað, Ófeigi Eiríkssyni í gær kl. 17. Stóðu þau til kl. tæplega 12 á miðnætti sl. nótt að frádregnu kvöldmatarhléi. Tíðindamaður Austurlands var viðstaddur réttarhöldin og hafði einnig tal af varðskipsmönnum svo og dómurum. Fyrstur kom fyrir réttinn Guðmundur Kærnested, skipherra á varðskipinu Þór. Verða hér aðeins rakin helztu atriði úr skýrslu skipherra. Varðskipið var á suðurleið á þriðjudagsmorgun og varð vart við marga togara að veiðum út af Bakkaflóa. Aldershot var
næst landi af þessum skipum, 1.6 sjómílu innan fiskveiðitakmarkanna, en annar togari var þar rétt hjá einnig að veiðum. Hins vegar sáu varðskipsmenn aldrei, að Aldershot hefði veiðarfæri í sjó, en hann sigldi hæga ferð eða 3 sjómílur, semi er toghraði. Jók hann síðan ferðina. Þór gaf honum stöðvunarmerki, en togarinn sinnti því engu og hægði ekki ferðina til hafs fyrr en skotið hafði verið að honum mörgum aðvörunarskotum, púðurskotum og skörpum skotum. Var þá kl. 12.30. Höskuldur Skarphéðinsson 1. stýrimaður fór nú við fjórða mann yfir í togarann. Skipstjóri togarans neitaði öllum ákærum um það að hafa verið að veiðum, en kvaðst hafa misst vörpuna og vera nú á leið til Grimsby til að ná laugardagsmarkaðinum fyrir afla sinn. Skipstjórinn ræddi við skipherrann á Þór, og fóru þær viðræður hógværlega fram, og féllst sá enski á að reyna að slæða upp vörpuna. Var því snúið við. En skyndilega snýr skipstjóri togaranum aftur til hafs og óx nú spennan um borð í togaranum. Varðskipsmenn voru ofurliði bornir af hinni 17 manna áhöfn togarans, enda allir óvopnaðir nema 1. stýrimaður. Þeir ensku vopnuðust hins vegar öllum tiltækum tólum og röðuðu sér á brúarvængi, en varðskipsmenn króaðir inni í brúnni. Stóð þessi spenna og eltingaleikur skipanna til kl. 4 aðfaranótt miðvikudags, en þá gaf skipherra skipun um valdbeitingu við að ná togaranum á vald þeirra varðskipsmanna. Var Þór þá kominn fast að togaranum. Skipstjóri togarans gafst nú skilyrðislaust upp og jafnframt barst 7 manna liðstyrkur frá varðskipinu, en áhöfn þess er 24 menn. Engin varpa sást á þilfari togarans, en vírar stjórnborðsmegin greinilega höggnir sundur og spil og blakkir höfðu verið í notkun nýlega, og einnig var nýr fiskur (steinbítur) á þilfari. Skipin héldu síðan til Neskaupstaðar og komu að bryggju sem fyrr segir um kl. 16 á miðvikudag. Voru varðskipsmennirnir þá um borð í togaranum vopnum búnir.
Togaraskipstjórinn, L. A. Cumby kom fyrir rétt um kl. 18 í gær og var fyrir rétt allan tímann eftir það, meðan réttur stóð. Sagðist hann hafa verið að veiðum á þriðjudagsmorgun frá kl. 5-7 aust-suðaustur af Langanesi, en haldið svo suður og verið á leið til Grimsby. Kvaðst hann hafa misst vörpuna, en áhöfn sín neitað að hefja veiðar að nýju, þótt veiðarfæri væru til í skipinu, þeir hefðu hins vegar höggvið af slitnu vírunum til að geta "splæst". Ekki sagðist hann hafa reynt að slæða upp töpuðu vörpuna. Um viðskipti sín við varðskipsmenn sagðist skipstjóranum frá á allt annan veg en skipherra, og ber þar margt á milli, sem ekki er rúm til að rekja hér. Meðan á eltingaleiknum stóð voru stöðugar skeytasendingar milli skipanna. Skipherra talaði mjög um fyrir enska skipstjóranum með að hlýða þeim skipunum að fylgja Þór til lands. Sömu fyrirmæli fékk hann frá Landhelgisgæzlunni og útgerðarfyrirtæki togarans, Consolidated Fisheries í Grimsby, en hann þverskallaðist við samt sem áður. Þessi sami skipstjóri var tekinn í landhelgi á sama togara á sl. hausti af varðskipinu Ægi fyrir vestan land. Höskuldur Skarphéðinsson var þá 1. stýrimaður á Ægi og tekur því Cumby skipstjóra nú í annað sinn. Sl. sunnudag kom togarinn Aldershot til Neskaupstaðar með 2 slasaða menn. Réttarhöld hófust aftur í morgun kl. 10.30 og munu væntanlega standa alllengi. Viðstaddir réttarhöldin eru: fulltrúi saksóknara, Bragi Steinarsson, lögfræðingur Landhelgisgæzlunnar, Gísli Einarsson og lögfræðingur brezka skipstjórans, Gísli Ísleifsson. Dómtúlkur er Hilmar Foss. Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti er dómsforseti, en meðdómendur þeir skipstjórarnir: Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson. Ekki mun hafa verið fjallað um landhelgisbrot sem þetta hér í Neskaupstað í u. þ. b. áratug.

Austurland. 14 maí 1965.
Birgir Stefánsson.


Cumby skipstjóri í brú Aldershot við komuna til Neskaupstaðar.  (C) Morgunblaðið.

             4 mánaða fangelsi

Dómur í máli brezka togarans, sem frá var sagt í síðasta blaði, féll ekki fyrr en á þriðjudag, eftir löng og ströng réttarhöld. Var skipstjórinn sýknaður af ákæru um landhelgiabrot, en dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Báðir aðilar áfrýjuðu dómnum og varð skipstjóri að setja 1.1 millj. kr. tryggingu áður en honum var leyft að fara. Fór togarinn héðan seint um kvöldið áleiðis til Englands.
Forseti dómsins var Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti, en meðdómendur Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson.

Austurland. 21 maí 1965.


26.12.2018 09:38

B. v. Earl Hereford RE 157. LCDT.

Botnvörpungurinn Earl Hereford RE 157 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1906 fyrir Earl Steam Fishing Co (Alick Black) í Grimsby, hét fyrst Earl Hereford GY 147. 273 brl. 465 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 110. Seldur 21 desember 1912, Christian M Evensen í Þórshöfn í Færeyjum, sama nafn. Seldur í febrúar 1915, Halldóri Kr Þorsteinssyni og Fiskveiðahlutafélaginu Eggert Ólafssyni í Reykjavík. Halldór átti helmings hlut á móti félaginu. Hét þá Earl Hereford RE 157. Togarinn var seldur franska flotanum í ágúst 1917, ásamt 9 öðrum íslenskum togurum. Fékk þá nafnið Guenon. Seldur 1919, F. Evan í Lorient í Frakklandi, hét Pen-er-Vro. Seldur 1925, L. Ballias & Cie í Lorient, hét þá Rauzan. Seldur 1936, G. Gautier, E & A. Gautier Fils & Cia í Laurient. Árið 1942 er togarinn tekinn í þjónustu þýska flotans og bar þá númerið V421. Togarinn var að lokum rifinn í brotajárn árið 1951.

S.t. Earl Hereford GY 147 var skráður 258,77 brl. í enskum skipaskrám en í þeirri íslensku var hann skráður 272,79 brl.


B.v. Earl Hereford RE 157 á Reykjavíkurhöfn.                                   Mynd á gömlu póstkorti.

   Botnvörpungurinn Earl Hereford

Halldór Þorsteinsson skipstjóri kom hingað í gær á botnvörpuskipinu, sem hann keypti í Bretlandi. Er það Earl Hereford, sem lengi hefir verið við veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 10 febrúar 1915.


B.v. Earl Hereford RE 157 fánum príddur á Reykjavíkurhöfn við komu Lagarfoss hinn 19 maí árið 1917. Eimskipafélagið hafði leigt togarann til að ferja stjórn félagsins og aðra góðborgara til móts við hið nýja skip.     Ljósmyndari óþekktur.

          "Earl Hereford" kemur

          Viðtal við skipstjórann

Vér áttum í gær viðtal við Guðmund Jónsson, skipstjóra á botnvörpungnum "Earl Hereford". Kom skipið hingað í gærmorgun beina leið frá Grimsby. Spurðum vér Guðmund frétta frá stríðinu.  - Vér komum til Hull þ. 14. þ.m. Á Humberfljótinu kom til okkar brezkur tundurbátur, sem spurði oss hvaðan vér kæmum og hvað vér hefðum meðferðis. Var yfirmanni bátsins sérstaklega ant um að vita hvort nokkrir væru þýzkir eða austurrískir sjómenn á skipinu. Tjáði hann oss að vér eigi mættum halda áfram upp fljótið fyr en dagaði og þá eigi lengra en að tilteknu vitaskipi á fljótinu. Þegar þangað kom var oss enn sagt, af öðru brezku herskipi, að hafa uppi svo tiltekin merki og halda ekki lengur fram ferðinni en að tveim beitiskipum, sem lágu ofar á fljótinu, og var oss gefinn vari um að halda ekki á hlið við þau.
Straumur var í fljótinu og bar skip vort upp fljótið, þegar að beitiskipunum kom, nær þeirri línu, sem bannað var að fara yfir. Fremra beitiskipið var þá farið að skjóta og skullu kúlurnar skamt fyrir framan skip vort. Vér snerum þá við, en síðar var mér tjáð, að hefði oss eigi tekist að stöðva skipið, þrátt fyrir strauminn, þá hefði beitiskipið skotið á »Earl Hereford«. Þegar til Grimsby kom láu þar nær allir botnvörpungar frá þeim bæ. En þann dag, var nokkrum leyft að fara út á fiskiveiðar til Íslands og Færeyja. Í Norðursjónum fá þeir eigi að fiska. Sagt var í Grimsby að um 60 botnvörpungar væru að draga á fyrir þýzkum sprengiduflum í Norðursjónum. Black útgerðarmaður í Hull, hafði meðal annars leigt brezku stjórninni öll sín skip til þessa. Aðdrættinum haga þeir þannig, að tvö skip fara saman og hafa vírstreng á milli sín svo neðarlega í sjónum, að hann lendir undir duflinu á taug, sem liggur ofan í stjórann. 

Guðmundur kvað ágætis markað fyrir fisk í Bretlandi og siglingu þangað hættulausa með öllu.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1914.


25.12.2018 13:26

844. Sævaldur ÓF 2. TFOJ.

Vélbáturinn Sævaldur ÓF 2 var smíðaður hjá Sverres Batvarv í Gautaborg í Svíþjóð árið 1946 fyrir Sævald hf á Ólafsfirði. 53 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Ný vél (1952) 180 ha. Grenaa díesel vél. Seldur 12 janúar 1959, Alfreð Gústafssyni og Kristjáni Gústafssyni á Höfn í Hornafirði, hét Sævaldur SU 2. Ný vél (1961) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Frá 5 desember 1969 heitir báturinn Sævaldur SF 4. Árið 1971 var báturinn endurmældur og mældist þá 52 brl. Seldur 14 júlí 1973, Jóni Kr Jónssyni og Sæmundi Árelíussyni á Ísafirði, hét þá Sævaldur ÍS 73. 30 ágúst 1973 voru eigendur bátsins Sæmundur Árelíusson á Blönduósi og Jón Kr Jónsson á Ísafirði, hét þá Ögurnes HU 4. Báturinn brann og sökk um 8 sjómílur út af Öndverðarnesi á Snæfellsnesi 1 september árið 1974. Áhöfnin, 3 skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í vélbátinn Hamar SH 224 frá Rifi.


Vélbátarnir Sævaldur ÓF 2 og Garðar EA 761 í smíðum í Svíþjóð.                      (C) Curt S Ohlson.


Vélbáturinn Sævaldur ÓF 2. Líkan.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

       "Mikið tap að missa bátinn"  

"Ég veit ekki út frá hverju kviknaði í, en eldurinn kom upp aftur í vélarrúmi", sagði Eyþór Björgvinsson, skipstjóri á Ögurnesi HU 4, sem brann og sökk aðfararnótt sunnudagsins, en þrennt var á bátnum - auk Eyþórs, Brynhildur Björnsson vélstjóri, sem er kona hans, og Jónas Jónsson, stýrimaður. Þau komust í gúmbát og vélbáturinn Hamar frá Rifi bjargaði þeim, er þau höfðu verið tvær klukkustundir í bátnum. Eyþór sagði í viðtali við Mbl. í gær, að hann hefði verið uppi við, en Brynhildur og Jónas hafi verið frammi í. Þau voru á rækjutrolli skammt utan við Öndverðarnes og biðu birtingar til þess að geta kastað. Eyþór sagðist hafa gengið fram í bátinn til hinna, en þá hafi hann séð reyk leggja upp af bátnum aftan til. Hann kallaði í Brynhildi og Jónas, en ekki réðst við eldinn. "Ég fór þá að talstöðinni og gat kveikt á henni. Hins vegar gat ég ekki kallað í hana vegna hita nema brjóta glugga og teygja mig eftir henni inn um hann. Kallaði ég upp Reykjavík og bað loftskeytamanninn um að hlusta eftir okkur á neyðarbylgjunni. Þegar þetta kom fyrir, vorum við um 8,5 sjómílur undan landi, vest-norðvestur af Öndverðarnesi. Okkur gekk vel að komast í gúmbátinn og vorum í honum um það bil 2 klukkustundir, en þegar Hamar kom og tók okkur upp, vorum við um 11 til 12 mílur dýpra og hafði þá rekið þetta. Veður var gott, hægur andvari, en dálítil kvika. Eldurinn kom upp um klukkan 4 um nóttina og klukkan 10.10 sökk báturinn." "Við vorum á rækjutrolli og ætluðum að veiða í svokölluðum Kolluál. Vorum við nýkomin út frá Ólafsvík, er eldsins varð vart. Það var mikið tap að missa bátinn, en hann er í eigu Sæmundar Arelíussonar og Jónas Kr. Jónssonar á Ísafirði. Höfðum við bundið miklar vonir við rækjuveiði á Húnaflóa. "Er ekki óvanalegt, að hjón rói saman á bát eins og þið Brynhildur gerið?" "Ég held, að það sé einsdæmi", sagði Eyþór. "Við höfum þó ekki alltaf verið á sama bát.
Ég var á Ögurnesinu í vetur, en hún var á stærri bát, segist hafa verið á skipi." "Og hvað er nú framundan?" "Ja, okkur langar í annan bát. Draumur okkar hjónanna er að eignast lítinn bát, sem við getum róið á tvö ein eftir rækju í Djúpinu. Við búum á bæ við Djupið, sem heitir Þernuvík og er í Ögurhrepp. Þar langar okkur til þess að búa og róa svo eftir rækju, stunda jafnframt búskap, og gerast eins konar útvegsbændur eins og svo mjög tíðkaðist í Djúpinu í gamla daga". Þegar við spurðum Eyþór að lokum hvort þeim hafi orðið meint af þessu óhappi, kvað hann þau ekki hafa svo mikið sem blotnað. Eyþór minntist einnig á það að fyrir þremur árum hafi bát hvolft undan þeim hjónum út af Þorlákshöfn. Fóru þau þá bæði í sjóinn og þurftu að synda um í sjónum, unz þeim var bjargað. Þess má að lokum geta að kona Eyþórs og vélstjórinn hans Brynhildur Björnsson er sonardóttir Sveins heitins Björnssonar fyrsta forseta Íslands.

Morgunblaðið. 3 september 1974.


24.12.2018 10:35

Togarar H.B. Granda hf. í höfn um jólin.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þökk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu.
Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar  
Bestu jólakveðjur til ykkar.23.12.2018 07:18

Landað úr togaranum Gerpi NK 106 í Neskaupstað.

Hér er verið að landa úr togaranum Gerpi NK 106 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað árið 1957-58. Togarinn var gerður út af Bæjarútgerð Neskaupstaðar frá 16 janúar 1957, þar til hann var seldur hinn  12 júlí árið 1960, hf. Júpíter (útgerð Tryggva Ófeigssonar) í Reykjavík. Hét þar Júpíter RE 161. Gerpir var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956. 804 brl. 1.470 ha. M.A.N vél. Glæsilegt skip og mönnum sem voru þar skipverjar gegn um tíðina, ber saman um að Gerpir hafi verið afburða gott sjóskip.

Landað úr Gerpi NK 106 í Neskaupstað.                                      (C) Sigurður Guðmundsson.

    Gerpir á leið heim með fullfermi

Neskaupstað í gær.
Togarinn Gerpir er á leið heim með fullfermi af karfa frá Nýfundnalandsmiðum. Mun hann vera með í  kringum 350 tonn. Landar hann bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað samkvæmt samkomulagi, er gert hefur verið um löndun beggja togaranna, Gerpis og Brimness á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Bátakjarasamningar hafa verið samþykktir hér. Á fiskverðssamninga var ekki minnzt, en það þýðir, að verkalýðs- og sjómannafélagið hér sættir sig við fiskverðssamkomulag það er samninganefndir náðu.

Alþýðublaðið. 18 janúar 1959. 

22.12.2018 19:55

Reykjavíkurhöfn um vetrarsólstöður.

Það var fallegt veðrið í höfuðborginni á vetrarsólstöðum, blakti varla hár á höfði og glaða sólskin á meðan hennar naut við núna í svartasta skammdeginu. En senn tekur sól að hækka á lofti og jólahátíðin senn að ganga í garð með öllu sem henni tilheyrir.

Reykjavíkurhöfn á vetrarsólstöðum.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 desember 2018.

Flettingar í dag: 525
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 653
Gestir í gær: 140
Samtals flettingar: 1437480
Samtals gestir: 392950
Tölur uppfærðar: 24.5.2019 09:18:23