18.06.2017 09:32

Endurnýjun togaraflotans.

Nú stendur yfir gagnger endurnýjun togaraflota landsmanna. Það sem af er ári hafa fjórir nýir togarar komið til landsins og sá fimmti er á leiðinni og er væntanlegur til landsins eftir helgina. Ef allt gengur eftir munu togararnir vera tíu sem koma nýir á þessu ári eða jafnvel fleiri. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað er að endurnýja ísfisktogara sína í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum. Við erum kannski að sjá endurnýjun eins og var þegar Nýsköpunartogararnir komu og leystu af hólmi gömlu kolakynntu togarana, eða þegar skuttogararnir komu á árinu 1970. Sannarlega nýir tímar í vændum með þessum nýtísku skipum. Heyrst hefur í umræðunni um álit manna á útliti systurskipanna þriggja sem komin eru til landsins, sitt sýnist hverjum. Margir telja þau forljót og finna þeim allt til foráttu. Ég er nú ekki sammála því, þetta eru falleg skip sem eiga eftir að skila meiru aflaverðmæti á land en við höfum áður séð. Eftir að hafa skoðað Engey RE 91 í tvígang og séð vinnuaðstöðu og vistarverur skipsins, tel ég þetta verða algera byltingu hvað varðar veiðar og meðferð aflans um borð. Hér fyrir neðan eru myndir af þeim fjórum togurum sem þegar eru komnir til landsins, sannarlega falleg skip.


2889. Engey RE 91 við komuna til landsins 25 janúar s.l.         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2891. Kaldbakur EA 1 við komuna til Akureyrar 4 mars s.l.          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2917. Sólberg ÓF 1 við komuna til landsins 21 maí s.l.               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2892. Björgúlfur EA 312 við komuna til Dalvíkur 1 júní s.l.          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

          Endurnýjun togaraflotans

Níu eða tíu nýir togarar munu bætast við fiskiskipaflota landsins á þessu ári ef allt gengur eftir og unnið er að hönnun enn fleiri. Morgunblaðið greinir frá þessu. Búið er að mála og sjósetja tvo togara í Shidao í Kína; annar þeirra er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum en Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal á hinn. Upphaflega átti að afhenda bæði skip í fyrra. HB Grandi hefur þegar tekið einn nýjan togara í gagnið á þessu ári, annar er á heimstíminu og sá þriðji er enn í smíðum.
Útgerðin hefur einnig samið við spænska skipasmíðastöð um smíði á fjórða nýja togaranum, frystitogara sem reiknað er með að verði tilbúinn 2019.
Von er á fjórum nýjum togurum fyrir þrjár útgerðir á Norðurlandi úr smiðju tyrknesku skipasmiðanna í Cemre. Tveir þeirra munu sigla undir merkjum Samherja, einn er smíðaður fyrir Fisk Seafood á Sauðárkróki og sá fjórði fyrir Útgerðarfélag Akureyrar. Fimmti nýi togarinn á Norðurlandi var smíðaður í Tyrklandi fyrir Ramma hf. Sá kom til Ólafsfjarðar í maí. 
Loks má geta þess að  Síldarvinnslan í Neskaupstað hyggst endurnýja flota sinn og stefnir að nýsmíði tveggja stórra og tveggja öllu minni ísfisktogara. Þetta er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, sem vonast til að hægt verði að bjóða út smíði fyrsta skipsins í haust.

Ruv.is  17 júní 2017.

          Síldarvinnslan hf endurnýjar                                ísfisktogaranna

Síldarvinnslan áformar að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Þetta kom fram á aðalfundi Síldarvinnslunnar á föstudaginn var, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.
Skipin sem verða endurnýjuð eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Tveir fyrrnefndu togararnir eru gerðir út af Síldarvinnslunni og voru smíðaðir á níunda áratugnum en hinir tveir, sem voru báðir smíðaðir 2007, eru gerðir út hjá dótturfélaginu Bergur-Huginn. 
Haft er eftir Gunnþóri B. Ingvasyni framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar að undirbúningurinn hafi þegar hafist á síðasta ári þegar Bjartur NK var seldur til Íran. Þá sé unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Á móti hafi nýr frystitogari, Blængur NK, verið tekinn í notkun á þessu ári, en það skip hét áður Freri RE. 
Gunnþór segir að við söluna á Barða myndist eitthvað tómarúm þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verði skoðaðar.

Ruv.is  15 júní 2017.

Flettingar í dag: 1430
Gestir í dag: 476
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034264
Samtals gestir: 520415
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 11:16:12